Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Minnihlutastjórnin og verkefnaskráin

rikisstjorn_feb091 Það verður seint sagt að ferskir vindar blási um nýja ríkisstjórn Íslands sem kynnt var í dag.  Í ljósi þeirrar háværu kröfu sem uppi hefur verið í samfélaginu um endurnýjun í stjórnkerfinu höfðu margir reiknað með því að forsvarsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna myndu skipa framtíðarfólkinu sínu í einhverja af ráðherrastólum minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Sú varð hins vegar ekki raunin.  Ríkisstjórnin er að uppistöðu til skipuð fulltrúum gamalla tíma, að undanskilinni Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra.

Það vekur auðvitað athygli að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sérstakur fulltrúi endurnýjunar á Íslandi og formaður Framsóknarflokksins, skuli láta það verða sitt fyrsta verk að leiða fulltrúa gamla tímans til valda eins og nú er orðin raunin.

Það vekur ekki síður athygli að leiðtogar stjórnarflokkanna skyldu hafa leitað til tveggja einstaklinga utan Alþingis til þess að taka sæti í ríkisstjórninni, þeirra Gylfa Magnússonar, dósents, í embætti viðskiptaráðherra, og Rögnu Árnadóttur, setts ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, í embætti dóms og kirkjumálaráðherra.  Það hlýtur að vera til marks um það að leiðtogar stjórnarflokkanna treystu ekki félögum sínum í þingflokkunum til þess að sinna þeim krefjandi verkefnum sem hinum nýju ráðherrum hefur verið falið.

Vandi Gylfa Magnússonar og Rögnu Árnadóttur er auðvitað sá að hvorugt þeirra hefur hlotið kosningu á vettvangi stjórnmálanna og því skortir þau umboð kjósenda til þeirra starfa sem þau hafa nú tekið að sér að gegna.

Skipan Gylfa í embætti viðskiptaráðherra hafði átt nokkurn aðdraganda.  Skipan Rögnu Árnadóttur kom hins vegar verulega á óvart, ekki síst vegna þess að hún hefur um nokkurt skeið starfað sem ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu og þar með verið nánasti samstarfsmaður Björns Bjarnasonar, fráfarandi dómsmálaráðherra, sem ekki hefur verið efstur á vinsældalistum þeirra sem nú hafa tekið sæti í ríkisstjórn.

Rögnu Árnadóttur þekki ég ágætlega og hef átt með henni gott samstarf.  Ég er ekki í vafa um að í henni er mikill fengur fyrir hina nýju minnihlutastjórn.  Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort nýr dómsmálaráðherra heldur áfram á sömu braut og fyrirrennari hennar eða hvort breyttar áherslur muni einkenna ráðherraferil hennar.

Um leið og ég óska Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með að vera fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá verkefnaskrá sem minnihlutastjórnin kynnti á Hótel Borg.

Það veldur auðvitað vonbrigðum að vikulöng fundalota forystumanna stjórnarflokkanna, sem í fjölmiðlum var sögð ganga eins og í sögu, hafi afurðin ekki verið merkilegri en raun ber vitni.  Verkefnaskrá þessarar ríkisstjórnar er svo rýr í roðinu að leita þarf langt aftur í stjórnmálasöguna  til þess að finna henni hliðstæðu.  Verkefnaskráin er í heild svo almennt orðuð að erfitt er að festa hendur á hver stefna nýrrar ríkisstjórnar er í mörgum af mikilvægustu málaflokkum.

Í verkefnaskrá minnihlutastjórnarinnar segir;

  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.
  • Ekkert um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna, þrátt fyrir að yfir íslenska ríkinu vofi krafa að fjárhæð 700 milljörðum íslenskra króna.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, annað en það að Evrópunefnd skili skýrslu fyrir 15. apríl næstkomandi.

Nefna mætti fleiri málaflokka þar sem hin nýja ríkisstjórn skilar auðu og hefur enga yfirlýsta stefnu.  Það dylst engum að þessi verkefnaskrá er ekki gæfulegt veganesti fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum vekur auðvitað sérstaka athygli ekki síst í ljósi þess að í ríkisstjórnarsamstarfi okkar sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar lagði Samfylkingin ofuráherslu á Evrópumálin.  Svo langt var gengið að formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir að breytti Sjálfstæðisflokkurinn ekki stefnu sinni í Evrópumálum væri því ríkisstjórnarsamstarfi sjálfhætt.

En nú virðast Evrópumálin hafa gufað upp í hugum Samfylkingarfólks og verið tekin af dagskrá.

Einu atriði í þessari verkefnaskrá vil ég þó fagna sérstaklega.  Verkefnaskráin ber það nefnilega með sér að Vinstri grænir hafi kúvent stefnu sinni í stóriðjumálum.  Í verkefnaskránni segir að engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar.  Þá yfirlýsingu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni halda áfram vinnu við þau verkefni sem þegar eru áformuð og varða uppbyggingu stóriðju í Helguvík og á Bakka við Húsavík.  Í því felast auðvitað mikil tíðindi þegar hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar forystumanna Vinstri grænna um þessar framkvæmdir.

Að öðru leyti sýnir verkefnaskrá hinar nýju ríkisstjórnar svart á hvítu að núverandi stjórnarflokkar hafa í raun ekki getað komið sér saman um neitt annað en völd.

Sú staðreynd er auðvitað afleit við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi.

Sigurður Kári.


Þjóðarsátt

Hrun fjármálakerfisins var mikið áfall.  Skellurinn var harður.  Góðæri breyttist á skömmum tíma í hallæri.    Fjöldi fyrirtækja eru farin í þrot.  Önnur eiga í alvarlegum vanda.  Fólk hefur misst vinnuna eða lækkað í launum.  Eignir þess eru að brenna upp og það óttast  hvað framtíðin ber í skauti sér.  Ríkissjóður er rekinn með miklum halla.  Kynslóðir framtíðarinnar óttast hversu hár bakreikningurinn vegna fjárfestingaævintýra erlendis verður.  Við bætist að verðbólga er há.  Vextir líka og krónan hefur hrunið.

Kreppan á Íslandi er öðruvísi en þær þrengingar sem nú ríða yfir önnur lönd.  Þar er bankakreppa.  Hér er  bankakreppa, gjaldeyriskreppa og stjórnmálakreppa.

Frá því að fjármálakerfið hrundi hafa stjórnvöld gripið til björgunaraðgerða.  Vonandi hafa þær skilað og eiga eftir að skila árangri.

Staðan í íslenskum efnahagsmálum er alvarleg.  Á það hefur verið bent að ástandið gæti vesnað.  Íslensk stjórnvöld þurfi að grípa strax til aðgerða.  Þau hafi einungis örfáa mánuði til að bregðast við.

Þessi varnaðarorð þarf að taka alvarlega.  Það er kominn tími til þess að snúa vörn í sókn og hefja enduruppbyggingu  af fullum krafti.  Við megum engan tíma missa.  Sú uppbygging mun taka tíma.  Það er tímafrekt og erfitt verkefni að vinna til baka allt það sem tapast hefur.    Meginverkefnið er að finna leiðir út úr kreppunni nú þegar hún hefur orðið að veruleika.

Aðild að Evrópusambandinu

Því er víða haldið fram að leiðin út úr þeim vanda sem nú er uppi felist í aðild Íslands að ESB með upptöku evru sem gjaldmiðils.

Í lok mánaðarins heldur Sjálfstæðisflokkurinn landsfund sinn.  Þá mun koma í ljós hvort flokkurinn kúvendir stefnu sinni varðandi aðild Íslands að ESB eða ekki.  Nokkrir félagar mínir úr þingflokki sjálfstæðismanna hafa á síðustu vikum lýst þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að hefja viðræður um aðild að ESB.

Ég hef talið að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan ESB en innan þess.  Þar hafa skoðanir mínar átt samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins.  Ég virði hins vegar skoðanir þeirra sem eru mér ósammála.  Aðild Íslands að ESB er ekki það versta sem komið getur fyrir íslensku þjóðina.  Ég viðurkenni að ESB aðild fylgja kostir.  En henni fylgja líka gallar.  Skoðun mín hefur fyrst og fremst byggst á köldu hagsmunamati, sem ekki hefur breyst.  Við þetta hagsmunamat vegast á sjónarmið um það hvort Íslendingar séu reiðubúnir til þess að afsala sér fullum yfirráðum yfir auðlindum sínum og skerða fullveldi sitt í skiptum fyrir alþjóðlegan gjaldmiðil, evruna.

Íslenska krónan

Reynsla Íslendinga síðustu mánuði hefur sýnt að krónan hefur reynst okkur fjötur um fót.  Miklir gallar fylgja því  að reka minnsta gjaldmiðil heimsins.  Á þá höfum við verið óþyrmilega minnt upp á síðkastið.

Ég er sannfærður um að krafa þeirra sem vilja sækja um aðild að ESB er í raun krafa um að tekinn verði upp nýr gjaldmiðill á Íslandi.  Ég trúi því ekki  að félagsmálapakki ESB hafi slíkt aðdráttarafl að hópar manna í samfélaginu vilji aðild að ESB.  Hvað þá landbúnaðarstefnan eða sameiginlega sjávarútvegsstefnan.

Krafan um aðild að ESB snýst um gjaldmiðilinn.

Tíminn skiptir sköpum

Því hefur verið haldið fram að okkur Íslendingum standi til boða að gerast aðilar að ESB á afar skömmum tíma og að upptaka evru sem gjaldmiðils geti þannig verið innan seilingar.

Slíkar fullyrðingar standast hins vegar ekki.

Í nóvember sl. tók RÚV viðtal við Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá ESB.  Hans mat var að Íslendingar gætu átt greiða leið inn í sambandið.  Raunhæft væri að ætla að aðild landsins að ESB gæti átt sér stað á fyrri hluta næsta áratugar, líklega eftir fjögur ár.

Ljóst er að evra verður ekki tekin upp sem gjaldmiðill í aðildarríki ESB fyrr en ríki hafa verið að minnsta kosti tvö ár í sambandinu.  Það þýðir að samkvæmt þeim forsendum sem stækkunarstjóri ESB, sem ætti að þekkja til og verður ekki ásakaður um andstöðu við ESB, leggur til grundvallar munu Íslendingar ekki eiga möguleika á því að skipta um gjaldmiðil fyrr en eftir sex ár, í fyrsta lagi.  Líklega mun sá tími verða mun lengri vegna þess að eftir hrun fjármálakerfisins á Ísland afar langt í land með að uppfylla svokölluð Maastrickt-skilyrði, sem eru forsenda þess að aðildarríki ESB geti tekið upp evru sem gjaldmiðil.

Ég óttast að þó Ísland yrði aðili að ESB innan fjögurra ára og fengi heimild til að taka upp evru tveimur árum síðar, þá hafi almenningur og fyrirtækin hreinlega ekki tíma til að bíða svo lengi eftir slíkum breytingum á meðan hagkerfið brennur.  Ég óttast að eignir fólks, til dæmis í fasteignum, og eigið fé fyrirtækja myndu brenna upp meðan á þeirri bið stæði.  Tíminn skiptir sköpum og við höfum ekki tíma til að bíða eftir nýju gjaldmiðli í a.m.k. 6 ár.

Það þarf að grípa til skjótvirkari aðgerða.  Heilsteypta áætlun þarf sem er einfaldari í framkvæmd, fljótlegri, útheimtir ekki frekari skuldsetningu ríkisins erlendis og kemur í veg fyrir afsal á rétti okkar yfir auðlindum landsins.

Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils felur í sér þessa kosti.

Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils

Ég hef um nokkurt skeið unnið að því í samstarfi við innlenda sérfræðinga, þ.á m. hagfræðingana Ársæl Valfells og Heiðar Má Guðjónsson, að kanna kosti þess að á Íslandi verði alþjóðlegur gjaldmiðill tekinn upp einhliða í stað íslensku krónunnar.  Niðurstaða þeirrar könnunar er að sá valkostur er ekki einungis vel mögulegur heldur mjög æskilegur.  Undir þá niðurstöðu hafa færustu erlendu sérfræðingar á sviði peningamálahagfræði tekið, t.a.m.  Michael Emerson, sem var yfirmaður efnahags- og fjármálasviðs framkvæmdastjórnar ESB (ECFIN),Daniel Gros, sem tók þátt í að byggja upp Seðlabanka Evrópu, og prófessor Charles Wyplosz, sem m.a. á sæti í raðgjafarnefnd forseta framkvæmdastjórnar ESB í efnahagsmálum (GEPA) og er einn virtasti hagfræðingur Evrópu.  Við núverandi aðstæður er ástæða til að hlusta á ráðleggirnar slíkra manna.

Með einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi, til dæmis evru, yrði alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill innleiddur sem lögeyrir hér á landi.  Krónunni yrði skipt út fyrir evru á hagstæðu gengi og kostnaður, verðlag, bókhald fyrirtækja, tekjur fólks og skuldir og fjármál ríkisins miðaðar við hana.

Með hagstæðu skiptigengi á ég við gengi sem er hagstætt fyrir framleiðslu- og útflutningsgreinar þjóðarinnar.

Einhliða upptaka er hvorki flókin í framkvæmd né tímafrek.  Að mati sérfræðinga þyrfti hún ekki að taka meira en 4 vikur.  Jafnvirði þess peningamagns sem er í umferð á Íslandi nemur að mati sérfræðinga um 150 milljónum evra.  Gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans nemur mun hærri fjárhæðum og því er ríkið í stakk búið til að fjármagna gjaldmiðilsskiptin.  Daginn sem evruvæðing ætti sér stað myndi Seðlabankinn útdeila evrum til bankanna í skiptum fyrir íslenskar krónur.  Bankareikningar einstaklinga og fyrirtækja yrðu umreiknaðir úr krónum í evrur á fyrirframákveðnu gengi.

Eins og hópur hagfræðingar benti á í grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu er einhliða upptaka evru ekki töfralausn sem leysir öll okkar vandamál.  Ekki frekar en aðild að ESB.  Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils er  lausn á þeirri gjaldeyriskreppu sem Íslendingar eiga við að etja og valdið hefur fólki, fyrirtækjum og íslenska ríkinu ómældum búsifjum, ofan á þá bankakreppu sem hér geysar.

Hver er ávinningur einhliða upptöku?

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikill ávinningur yrði af einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi.  Í stuttu máli má fullyrða að á skömmum tíma yrðu afleiðingarnar eftirfarandi:

  1. Vextir myndu snarlækka.  Vaxtastig á Íslandi, sem nú er 18%, myndi verða sambærilegt vaxtastigi þess myntsvæðis sem valið yrði, sem er um 3% á evrusvæðinu, að viðbættu landsálagi, sem í dag myndi vera milli 0,5-1,5%.
  2. Verðbólga myndi jafnframt lækka með tilkomu nýs gjaldmiðils, enda er verðbólgan í dag ekki síst tilkomin vegna gengisfalls krónunnar.
  3. Verðtrygging myndi deyja út við endurfjármögnun skuldbindinga.
  4. Atvinna fólks væri betur tryggð vegna mun hagstæðara rekstrarumhverfis fyrirtækja sem leiðir af liðum 1-3.

Við þetta bætist að eftir einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi þyrftu kynslóðir framtíðarinnar ekki að óttast að þau himinháu lán ríkisins sem leiða af samkomulagi þess við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), sem nema tæplega 6 milljörðum dollara, verði notuð til þess að halda uppi gengi íslensku krónunnar.  Kostnaður við gjaldmiðilsskipti er vissulega mikill, en kostnaður við að halda uppi gengi krónunnar með lánum er mun meiri.  Jafnframt felur einhliða upptaka í sér þann kost, umfram upptöku evru með aðild að ESB, að með henni kæmist íslenska þjóðin hjá því að afsala sér forræði yfir auðlindum sínum í skiptum fyrir nýjan gjaldmiðil.  Ennfremur þyrfti þjóðin einungis að bíða í nokkrar vikur yrði hún tekin upp einhliða, en ekki í fjölmörg ár eins og aðild að ESB útheimtir.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils skapar langþráðan stöðugleika í peningamálum á Íslandi.  Hún tengir landið inn á efnahagssvæði þess gjaldmiðils sem valinn er.  Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera því ekki lengur ábyrgð á verðlagi.  Og ekki síst knýr einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils stjórnvöld til þess að beita miklum aga við efnahagsstjórnina.

Það er því til mikils að vinna fyrir fólk og fyrirtæki sem nú óttast framtíðina og afdrif eigna sinna.   Samkeppnishæfni atvinnulífsins yrði stóraukin með einhliða upptöku sem án vafa myndi flýta mjög uppbyggingu þess.

Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Í þessu samhengi má ekki gleyma því að í kjölfar hruns fjármálakerfisins gerðu ríkisstjórn Íslands og IMF með sér samkomulag um efnahagsaðgerðir.  Ekkert í því samkomulagi kemur í veg fyrir að Íslendingar geti tekið einhliða upp alþjóðlegan gjaldmiðil.  Þvert á móti gerir samkomulagið beinlínis ráð fyrir að fyrirkomulag peningamála verði endurskoðað.

Í 18. grein samkomulags ríkisstjórnar Íslands og IMF segir:

,,In the medium term, the authorities recognized the need to reassess the broader monetary policy framework.  Among the options that are being debated in Iceland, there is increasing support for reglacing the now-defunct inflation targeting with some form of peg or currency board, including EU membership and eventual adoption of the Euro.  However, there is also support for the view that exchange rate flexibility has served Iceland well and remains appropriate due to its dependence on fisheries and energy-intensive production."

Sjálfur hef ég vitneskju um að hátt settir embættismenn innan IMF hafi lýst því yfir að þeir teldu einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils ekki einungis skynsamlegan heldur beinlínis æskilegan valkost fyrir Íslendinga.

Efasemdir

Í opinberri umræðu hafa ýmir haft efasemdir um að einhliða upptaka  sé æskileg.  Í fyrsta lagi er bent á að með einhliða upptöku skapist hætta á innlendum fjármagnsflótta.  Hætta á bankahruni aukist þar sem bankarnir hafi eftir einhliða upptöku annars gjaldmiðils ekki lánveitanda til þrautavara, þ.e. seðlabanka sem bakhjarl.  Í slíku kerfi sé hætta á bankahruni meiri, en í kerfi þar sem Ísland væri aðili að ESB, og hefði með aðild sinni slíkan bakhjarl.  Í öðru lagi nefna þeir að með einhliða upptöku evru á Íslandi myndi landið falla í ónáð hjá ESB, sem gæti kallað á hugsanlegar refsiaðgerðir af hálfu ESB gagnvart Íslandi á grundvelli EES-samningsins.

Skortur á lánveitanda til þrautavara.

Sú kenning hefur verið lífseig að Seðlabanki Evrópu sé lánveitandi evrópskra banka til þrautavara og því sé skynsamlegra fyrir Ísland að taka upp evru með aðild að ESB en að gera það einhliða.

Sú kenning gengur hins vegar ekki upp.  Það sást best við fall Fortis-bankans, eins stærsta banka Evrópu.  Seðlabanki Evrópu kom honum ekki til bjargar sem lánveitandi til þrautavara, heldur þurftu viðkomandi ríki sem bankinn starfar í, Belgía, Lúxemburg og Holland að þjóðnýta hvert sinn hluta hans til að bjarga honum frá falli.  Það eru því ríkissjóðir hvers lands sem eru lánveitendur evrópsku bankanna til þrautarvara, en ekki Seðlabanki Evrópu.

Hvernig má koma í veg fyrir bankaáhlaup?

Ég er þeirrar skoðunar að einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils minnki líkur á fjármagnsflótta.  Charles Wyplosz hefur lýst sömu skoðun.  Sú hætta hlýtur að vera minni í bankakerfi sem notar gjaldmiðil sem nýtur trausts en í bankakerfi sem notar gjaldmiðil fáir treysta.  Það er einnig langsótt að ætla að Íslendingar muni hlaupa með evrurnar sínar úr íslensku bönkunum til þess að færa öll dagleg bankaviðskipti sín, sparifé, yfirdráttar- og húsnæðislán til erlendra banka.

Engu að síður má hugsa sér tvær leiðir til þess að koma í veg fyrir bankaáhlaup við einhliða upptöku annars gjaldmiðils og leysa vandamálið varðandi skort á lánveitanda til þrautavara.

Önnur er sú að leggja íslensku bönkunum til núverandi gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.  Þá mætti hugsa sér að lífeyrissjóðir landsins leggðu erlendar eignir sínar sem tryggingu gegn útflæði úr bönkunum.  Slíkar aðgerðir samhliða einhliða upptöku myndu tryggja svo gott sem allar innistæður landsmanna í bönkunum.  Til samanburðar má nefna að hæsta hlutfall slíkra trygginga sem er í bankakerfi Hong Kong.  Þar nær tryggingin til um 20% innistæðna, en væri nær 75% á Íslandi.  Þar við bætist að þau gjaldeyrishöft sem nú eru í gildi myndu gera bankaáhlaup nánast ómögulegt.

Önnur útfærsla er sú að koma eignarhaldi á bönkunum í hendur erlendra lánardrottna þeirra, þannig að þeir breyti kröfum sínum á hendur bönkunum í hlutafé.  Með því yrðu í raun starfræktir erlendir bankar á Íslandi sem nytu bakstuðnings eigenda sinna og eftir atvikum erlendra ríkja.  Slíkt eignarhald myndi draga verulega úr líkum á bankaáhlaupi og í raun nánast útiloka það.

Pólitísk viðbrögð ESB

Michael Emerson, sem var  yfirmaður efnahags- og fjármálasviðs framkvæmdastjórnar ESB og sendiherra ESB í Moskvu skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember sl.  Þar velti hann fyrir sér viðbrögðum ESB við einhliða upptöku evru á Íslandi.

Í greininni bendir Emerson á að ekkert í lögum ESB eða alþjóðalögum banni neinum að afla sér evra eða nota í sparnað, viðskipti, bókhald og millifærslur.  Evran sé fyllilega innleysanlegur gjaldmiðlill og engar svæðisbundnar takmarkanir við notkun hennar.  Líkurnar á því að ESB myndi reyna að rifta EES-samningnum við Ísland eða takmarka gildi hans séu svo litlar að þær séu fyrst og fremst fræðilegar.  Engin lagastoð væri fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum í garð Íslands og slíkri kröfu yrði því hiklaust vísað frá af dómstólum ESB og EFTA.  Illmögulegt sé að rifta EES-samningnum við Ísland, slíkt krefðist einróma samkomulags aðildarríkjanna 27, sem ólíklegt væri að myndi nást.

Þá má ekki gleyma því að um áramótin 1999/2000 tók Svartfjallaland einhliða upp evru sem gjaldmiðil, með góðum árangri.  Því hefur verið haldið fram að með því hafi Svartfellingar fallið í pólitíska ónáð hjá ESB, enda mótmælti ESB einhliða upptöku evru þar í landi.  Svartfjallaland hefur nú ákveðið að sækja um aðild að ESB.  ESB hefur nú lýst því yfir að aðildarumsókn frá Svartfjallalandi verði tekið opnum örmum.

Hvers vegna ættu önnur sjónarmið að gilda í tilviki Íslands?

Þjóðarsátt

Hvort sem menn eru hlynntir eða andvígir aðild Íslands að ESB þá hljóta allir að sjá að íslenska þjóðin getur ekki beðið árum saman eftir lausn á gjaldeyriskreppunni í gegnum aðild að ESB.  Þann tíma hefur fólkið í landinu ekki við þessar aðstæður.  Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils leysir vandann á mun skemmri tíma.  Stjórnmálamenn þurfa að hafa hraðar hendur.  Þeir mega ekki og geta ekki slegið ákvörðunum um lausn vandans á frest á meðan hagkerfið brennur, eignir fólks rýrna, atvinnuleysi eykst og fyrirtæki berjast í bökkum.  Slíkt væri ábyrgðarleysi gagnvart þjóðinni og komandi kynslóðum.

Ákvörðun um einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi leysir ekki einungis þá gjaldeyriskreppu sem hér geysar.  Hún getur að mínu mati verið pólitísk málamiðlun milli tveggja stórra hópa í þjóðfélaginu, þjóðarsátt milli andstæðra fylkinga.  Annars vegar þeirra sem vilja taka upp annan gjaldmiðil en standa utan ESB og hins vegar þeirra sem vilja taka upp evru með inngöngu í ESB.

Við núverandi aðstæður þurfum við á slíkri þjóðarsátt að halda.

Við höfum ekki efni á öðru en að skoða þennan valkost alvarlega.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


Glöggt er gests augað

Það er ljóst að fólki lýst misjafnlega á minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem nú er í fæðingu.

Margir óttast að þessi vinstristjórn velja að láta til skarar skríða gegn fólki og fyrirtækjum í landinu með umfangsmiklum skattahækkunum í stað þess að ráðast í niðurskurð ríkisútgjalda.  Viðbúið sé að fyrir kosningar verði tekjuskattur einstaklinga hækkaður verulega, fjármagnstekjuskattur líka.  Hátekjuskatturinn verður væntanlega endurvakinn eins og eignaskatturinn.  Þá eru verulegar líkur á því að fyrirtækjaskattar sem við sjálfstæðismenn lækkuðum úr 50% niður í 18% verði hækkaður aftur og jafnvel einnig virðisaukaskattur, þar með matarskatturinn.

Verði sú raunin er ljóst að heimilin í landinu verða fyrir enn meiri kjaraskerðingu en orðið er.

Eins er sú stofnun sem virðist hafa ákaflega litla trú á minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.  Það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

Í dag var tilkynnt að stýrivextir Seðlabanka Íslands myndu haldast óbreyttir í 18 prósentustigum.

Það eru afleitar fréttir.

Fyrir liggur að bankastjórn Seðlabankans vildi lækka vexti, en að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið því mótfallinn.  Í nýútkomnum Peningamálum Seðlabanka Íslands eru færð rök fyrir því hvers vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti sig upp á móti stýrivaxtalækkun, en þar segir m.a.:

,,Af framantöldum ástæðum taldi bankastjórn Seðlabankans nú tímabært að hefja lækkun vaxta og var sú afstaða kynnt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Framkvæmdastjórn hans hvatti hins vegar til þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum að sinni, m.a. vegna tímabundinnar óvissu í íslenskum stjórnmálum.  Bankastjórn þykir rétt að taka mið af þessum tilmælum."

Það má segja að í þessari ákvörðun krystallist vantrú Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þá þróun sem nú er að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og hún er til marks um að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sé ekki til þess fallin að skapa tiltrú og traust á alþjóðavettvangi, því miður.

Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt við núverandi aðstæður í efnahagslífinu að vextir verði lækkaðir myndarlega og án tafar til þess að verja heimilin og atvinnustarfsemi í landinu.  Á þeirri skoðun minni hef ég ekki legið og haldið henni fram í langan tíma.  Verði vextir ekki lækkaðir er viðbúið að fleiri fyrirtæki muni leggja upp laupana þar sem þau standa ekki undir svo miklum fjármagnskostnaði og viðbúið að atvinnuleysi muni aukast.

Vextir á Íslandi eru með þeim hæstu sem þekkjast eða 18%  Á sama tíma eru stýrivextir í Evrópu um 3% en nálægt 0% í Bandaríkjunum.  Heimilin í landinu þola ekki þessi vaxtakjör.  Það gera fyrirtækin ekki heldur.  Með þeim gjaldeyrishöftum sem sett voru í kjölfar hruns fjármálakerfisins voru gríðarlegar hömlur settar á flutning fjarmagns úr landi.  Að sama skapi var þeim sem afla sér tekna erlendis gert skylt að flytja fjármuni sína til Íslands að viðlagðri refsiábyrgð.  Við slíkar aðstæður er allt að því ómögulegt að rökstyðja hvers vegna stýrivextir eru svona háir.  Rökréttara væri að þeir væru afar lágir.

En nú liggur rökstuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir.

Sá rökstuðningur er ekki gæfulegt veganesti fyrir þá minnihlutastjórn sem nú er í fæðingu.

Sigurður Kári.


Munu Vinstri grænir leggjast flatir?

Fram til þessa hef ég ekki átt mikla samleið í stjórnmálum með Steingrími J. Sigfússyni, Ögmundi Jónassyni og félögum þeirra í Vinstri grænum.

Þó hafa leiðir okkar legið saman í afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.  Við höfum með öðrum orðum verið sammála um að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið.

En nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Í viðtali sem birtist í gær í vefsjónvarpi Morgunblaðsins við Jóhönnu Sigurðardóttir, verkstjóraefni, Samfylkingarinnar, kom fram að hún teldi að í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem Samfylkingin og Vinstri grænir eiga nú í værum við Íslendingar að færast nær Evrópusambandsaðild en Samfylkingunni tókst að ná fram í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn.

Í ljósi þessa viðtals verður fróðlegt að sjá hvað mun standa í stjórnarsáttmála nýju minnihlutastjórnarinnar.

Ég óttast að mínir gömlu vopnabræður, Steingrímur J., Ögmundur og Vinstri grænir muni leggjast flatir fyrir kröfum Samfylkingarinnar í Evrópumálum og jafnvel taka upp stefnu samstarfsflokksins.

Það verður ekki síður fróðlegt að sjá hvort Framsóknarflokkurinn muni fylgja í kjölfarið og láta Samfylkinguna kengbeygja sig í leiðinni.

Sigurður Kári.


Það skiptir öllu máli hver konan er!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur látið ýmis þung orð falla í garð Sjálfstæðisflokksins og forystu hans í tengslum við stjórnarslitin.  Hún hefur líst Sjálfstæðisflokknum sem valdagírugri klíku sem hugsi fyrst og fremst um sjálfan sig og sitt fólk en ekki þjóðarhag, öfugt við Samfylkinguna auðvitað sem einungis hugsar um fólkið í landinu og ekkert annað.

Ég verð að segja að mér finnst ummæli Ingibjargar Sólrúnar á forsíðu Morgunblaðsins í dag ekki hafa hlotið þá athygli sem þau verðskulda, en þar sagði Ingibjörg:

,,Af hverju hefði ég átt að líta á það sem sérstakt verkefni mitt að láta konu úr Sjálfstæðisflokknum verða fyrsta til að taka við þessu embætti, þegar annar möguleiki var í boði."

Þessi ummæli Ingibjargar Sólrúnar sýna auðvitað svart á hvítu að kröfur Samfylkingarinnar um að fá forsætisembættið, eða "verkstjórnina" á Samfylkingarmáli, í sínar hendur snérist allt um persónur, hégóma og flokkshagsmuni Samfylkingarinnar.  Þau sýna líka að allt tal Ingibjargar Sólrúnar um að Sjálfstæðisflokkurinn hugsi einungis um sjálfan sig en ekki þjóðarhag kemur úr hörðustu átt.

Ég nefndi í pistli mínum hér á síðunni í gær að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefði boðist til þess að víkja úr sæti forsætisráðherra í stað staðgengis síns, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, í viðleitni sinni til þess að halda stjórninni saman.  Því boði hafnaði Ingibjörg Sólrún.

Mig grunaði að ástæðan fyrir því að Samfylkingin hafnaði því að Þorgerður Katrín tæki við forsætisráðherraembættinu af Geir væri sú að Ingibjörg Sólrún hefði ekki getað lifað við þá tilhugsun að fyrsta konan til þess að gegna embættinu kæmi úr röðum okkar Sjálfstæðismanna.

Ég fæ ekki betur séð en að ummæli Ingibjargar Sólrúnar á forsíðu Morgunblaðsins í dag staðfesti að grunur minn var á rökum reistur.

Afstaða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur vekur auðvitað furðu, ekki síst í ljósi þess að hún hefur allan sinn stjórnmálaferil, sem þingmaður Kvennalistans, sem borgarstjóri í Reykjavík og sem formaður Samfylkingarinnar, lagt í orði ofuráherslu á jafnrétti og framgang kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Á borði virðist hins vegar öllu máli skipta í hennar huga hvaða kona á hlut að máli.

Eitt virðist ekki yfir þær allar ganga í hennar huga.

Sigurður Kári.


Nýir vendir sópa best!

Krafa um endurnýjun í íslenskum stjórnmálum hefur verið áberandi síðustu vikur og mánuði.  Ýmsir hafa krafist þess að valdhafar fortíðar axli sín skinn og hverfi til annarra starfa.  Sagt er að nýir vendir sópi best.  Á Íslandi þurfi að hreinsa til í stjórnkerfinu.  Tiltekt sé nauðsynleg.  Það er jafnvel talað um nýtt lýðveldi, nýtt upphaf og nýtt Ísland.

Nú standa yfir samningaviðræður um myndun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.  Í fjölmiðlum hafa verið uppi bollaleggingar um það hvaða þingmenn þessara flokka muni taka sæti í ríkisstjórn Íslands.  Þó ekki liggi endanlega fyrir hvaða fulltrúar þessara flokka eru ráðherraefni þeirra í nýrri vinstristjórn, náist samningar milli flokkanna, er nokkuð fyrirséð hvaða einstaklingar koma þar helst til greina, en þeir eru eftirfarandi:

287-220

Jóhanna Sigurðardóttir tók sæti á Alþingi árið 1978, eða fyrir 31 ári síðan.  Jóhanna er aldursforseti Alþingis og hefur setið þar fyrir þrjá stjórnmálaflokka, Alþýðuflokk, Þjóðvaka og Samfylkinguna.  Hún hefur gengt embætti félagsmálaráðherra oftar en einu sinni.  Nú er hún verkstjóraefni Samfylkingarinnar, eins og forsætisráðherraembættið er kallað á þeim bæ.

557-220

Steingrímur J. Sigfússon , formaður Vinstri grænna, tók sæti á Alþingi árið 1983, eða fyrir 26 árum.  Steingrímur hefur mestan hluta síns stjórnmálaferlis verið í stjórnarandstöðu en gegndi þó embættum samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra árin 1988 til 1991.  Steingrímur hefur setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið og er nú formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.  Steingrímur J. er sagður vera fjármálaráðherraefni Vinstri grænna.

631-220

Össur Skarphéðinsson tók sæti á alþingi árið 1991, eða fyrir 18 árum.  Össur var áður þingmaður Alþýðuflokkinn og er fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.  Hann var umhverfisráðherra frá 1993 til 1995, en gegnir nú embætti iðnaðarráðherra.  Össur er sagður vera atvinnumálaráðherraefni Samfylkingarinnar.

630-220

Ögmundur Jónasson tók sæti á Alþingi árið 1995, eða fyrir 14 árum.  Ögmundur hefur allan sinn feril verið í stjórnarandstöðu, nú sem þingmaður Vinstri grænna, en áður sem þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra.  Ögmundur var sá óháði í þeim þingflokki.  Hann er sagður vera heilbrigðis- og tryggingamálaráðherraefni Vinstri grænna.

264-220

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók fyrst sæti á Alþingi árið 1991 og sat þar til 1994 þegar hún varð borgarstjóri í Reykjavík.  Því starfi gegndi Ingibjörg Sólrún í 9 ár, en hafði verið borgarfulltrúi á árunum 1982 til 1988.  Ingibjörg Sólrún tók aftur sæti á Alþingi árið 2005 og hefur verið utanríkisráðherra frá árinu 2007.  Hún hefur því setið á Alþingi í samtals 7 ár.  Ingibjörg Sólrún er utanríkisráðherraefni Samfylkingarinnar.

383-220

Kolbrún Halldórsdóttir tók fyrst sæti á Alþingi árið 1999 eða fyrir 10 árum.  Kolbrún er sögð vera umhverfisráðherraefni Vinstri grænna.

Þetta eru sannarlega fulltrúar nýrra tíma og endurnýjunar í íslenskum stjórnmálum!

Sigurður Kári.


Ætli andinn í stjórnarmyndunarviðræðunum sé góður?

Nú eru viðræður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, um myndun nýrrar ríkisstjórnar hafnar.

Það er eðlilegt að þeir sem ekki eru þátttakendur í þessum viðræðum velti því fyrir sér hvernig andinn er milli formanna Samfylkingar og Vinstri grænna.

Við sem höfum setið á Alþingi og fylgst með straumunum milli Samfylkingar og Vinstri grænna á þessu kjörtímabili vitum að milli þessara flokka hafa staðið miklar eldglæringar.  Vinstri grænir hafa í gagnrýni sinni fyrst og fremst einbeitt sér að Samfylkingunni og ekki sparað stóru orðin í þeirra garð.

Dæmi um það er ræða sem Steingrímur J. Sigfússon hélt á Alþingi þann 24. nóvember síðastliðinn þar sem til umræðu var vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar.  Þar vék Steingrímur í nokkrum vel völdum orðum að Samfylkingunni og sagði álit sitt umbúðalaust á þeim stjórnmálaflokki.

Í ræðunni sagði Steingrímur meðal annars:

,,Málflutningur og ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar, sem heldur þessum sama Sjálfstæðisflokki við völd, er líka næg ástæða til kosninga.  Samfylkingin segir:  Krónan er ónýt og Seðlabankinn trausti rúinn.  Samt ætlar Samfylkingin að taka 700 milljarða erlent lán, setja það á herðar komandi kynslóða til að bjarga þessari ónýtu krónu.  Og hver á að fá peningana?  Hvert á lánið að fara?  Það á að fara inn í Seðlabankann, til Davíðs Oddssonar til að reyna að bjarga krónunni sem ungliðahreyfing Samfylkingarinnar var að leggja til við fólk að henda helgina var.  Er þetta frambærilegt?  Er þetta ekki stórbrotið?  Er þetta ábyrgt?  Nei.

Herra forseti.  Góðir áheyrendur.  Þetta er örugglega Íslandsmet ef ekki heimsmet í óábyrgum málflutningi og óábyrgri framgöngu stjórnmálaflokks."

Nú er Steingrímur J. Sigfússon kominn í viðræður við þennan óábyrga stjórnmálaflokk.  Undir ræðu Steingríms sat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nú viðsemjandi hans.

Er nema furða að maður velti því fyrir sér hvort andinn í stjórnarmyndunarviðræðunum sé ekki örugglega góður?

Sigurður Kári.


Stjórnarslit

Stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er lokið.  Geir H. Haarde tilkynnti fréttamönnum í Alþingishúsinu um endalok þessa ríkisstjórnarsamstarfs sem margir bundu miklar vonir við þegar til þess var stofnað í upphafi.

Aðdragandi þessara stjórnarslita var í raun býsna langur.  Þrátt fyrir að augljóst væri að ágreiningur væri milli flokkanna í ýmsum málum fór að kræla á alvarlegum titringi milli stjórnarflokkanna í kringum og í aðdraganda bankahrunsins.  Það kom okkur sjálfstæðismönnum til dæmis í opna skjöldu á haustmánuðum að tveir ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni, þau Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, skyldu taka upp á því að taka undir með stjórnarandstöðunni á Alþingi og krefjast kosninga í stað þess að vinna í sameiningu úr þeim viðfangsefnum sem við blöstu.  Yfirlýsing þeirra var til merkis um uppgjöf ráðherranna tveggja.

Eftir því sem tíminn leið varð ljóst að ókyrrðin og ístöðuleysið innan þingflokks Samfylkingarinnar jókst.  Einhliða yfirlýsingar varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústar Ólafs Ágústssonar, um að ganga skyldi til kosninga í vor,  sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður, tók síðar undir, báru hvorki vott um einlægan samstarfsvilja af þeirra hálfu né mikil heilindi í garð samstarfsflokksins.  Undir eðlilegum kringumstæðum eru ákvarðanir um örlög ríkisstjórnar teknar að höfðu samráði og með vitund samstarfsflokksins.

Steininn tók síðan úr þegar nokkrir af þingmönnum Samfylkingarinnar, þar á meðal varaformaðurinn Ágúst Ólafur, Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður, tóku með lófataki undir kröfu fundar Samfylkingarfélags Reykjavíkur um að flokkurinn sliti eigin stjórnarsamstarfi.  Þeir þingmenn sem þannig ganga fram vita lítið út á hvað samstarf gengur.  Það sjá allir.

Atburðir helgarinnar voru viðburðarríkir en þeim lauk með yfirlýsingu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um stjórnarslit.  Í yfirlýsingu sinni sagði forsætisráðherra m.a.:

,,Rétt er að gera þingheimi grein fyrir því að ekki er um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna heldur hefur krafa Samfylkingarinnar um að taka við forsætisráðuneytinu valdið trúnaðarbresti sem ekki er yfirstíganlegur.  Öllum má ljóst vera að krafa um að stjórnarforystan flytjist á milli flokka í ríkisstjórn getur ekki leitt til annars en stjórnarslita."

Það merkilega við þessi stjórnarslit er sú staðreynd að ekki var um málefnalegan ágreining að ræða milli flokkanna, heldur lágu aðrar ástæður þeim að baki, sem forysta Samfylkingarinnar þarf að skýra út hverjar eru.

Fyrir liggur að forysta Sjálfstæðisflokksins var reiðubúin til þess að standa að uppstokkun í ríkisstjórn og skiptingu ráðuneyta upp á nýtt, meðal annars með því að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur stól fjármálaráðherra.  Þá hafði forysta flokksins lýst sig reiðubúna til að gera grundvallarbreytingar á skipulagi og stjórn Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands fyrir áramót.  Sá vilji var ítrekaður nú um helgina gagnvart forystu Samfylkingarinnar.  Það er því fullkominn fyrirsláttur og ómerkilegur málflutningur að halda því fram að þessi stjórnarslit hafi snúist um persónu Davíðs Oddssonar og setu hans í stóli bankastjóra Seðlabanka Íslands.  Þar lágu aðrar ástæður að baki.  Þar fyrir utan hóf Sjálfstæðisflokkurinn endurskoðun Evrópustefnustefnu sinnar, lýsti sig reiðubúinn til þess að vinna að endurskoðun stjórnarskrár, fara í frekari aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum landsins og svo mætti lengi telja.  Ég tel að fáir hefðu gengið lengra til þess að koma til móts við sjónarmið Samfylkingarinnar en Geir H. Haarde hefur gert.

En hann gekk þó lengra, því um helgina gerði Samfylkingin þá kröfu, og setti það raunar sem skilyrði fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi, að Geir H. Haarde viki sem forsætisráðherra.  Sú krafa hefur af forystumönnum Samfylkingarinnar verið skýrð út með því að hann hafi verið svo slæmur ,,verkstjóri".  Þá hefur beinlínis verið sagt að nýtilkomin veikindi Geirs gerðu það að verkum að hann gæti ekki haldið áfram að mati Samfylkingarinnar.  Raunar hafa ýmis ummæli forystumanna Samfylkingarinnar í garð Geirs H. Haarde verið með þeim hætti að ég kæri mig ekki um að rifja þau upp, ekki síst í ljósi þess hversu mikla tillitssemi hann hefur sýnt þeim erfiðleikum sem herjað hafa á forystu Samfylkingarinnar á síðustu vikum og mánuðum.  Svo langt gekk Geir H. Haarde til þess að halda stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna áfram að hann lýsti sig reiðubúinn til þess að víkja úr sæti forsætisráðherra í stað staðgengils síns, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.  Því boði var hafnað.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna Samfylkingin féllst ekki á að Þorgerður Katrín tæki við stjórnartaumunum í stað Geirs, sem þau töldu svo veikan ,,verkstjóra".  Mér dettur einna helst í hug að Samfylkingin hafi ekki getað lifað við þá tilhugsun að fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra kæmi úr röðum okkar sjálfstæðismanna.

Hvort sem það er rétt eða ekki er ljóst að sú krafa forystu Samfylkingarinnar um að Geir H. Haarde viki úr embætti forsætisráðherra, ekki síst á þeim forsendum sem nefndar voru af hálfu þingmanna og ráðherra flokksins, felur í sér slíkt vantraust í hans garð og svo alvarlegan trúnaðarbrest að slíta varð þessu ríkisstjórnarsamstarfi.   Um það voru allir í þingflokki sjálfstæðismanna sammála.

Það var reyndar merkilegt að heyra að Samfylkingin hefði lagt til að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, tæki við embætti forsætisráðherra af Geir.  Þá uppástungu heyrðum við sjálfstæðismenn fyrst á fréttamannafundi Ingibjargar Sólrúnar eftir að Geir hafði tilkynnt um stjórnarslit.  Fram að því hafði Samfylkingin talað um að fá utanaðkomandi einstakling sem nyti trausts til þess að taka við embættinu.  Hvort Samfylkingin hafði Þórólf Árnason í huga, Stefán Jón Hafstein, Dag B. Eggertsson eða einhvern annan veit ég ekki.  En tillagan um Jóhönnu var síðartilkominn tilbúningur af hálfu Samfylkingarinnar.

Það hefur verið afar sérstakt að fylgjast með yfirlýsingum ýmissa Samfylkingarmanna eftir að stjórninni var slitið.  Árni Páll Árnason, hinn ,,orðvari" þingmaður flokksins, sá ástæðu til að kalla fyrrum samstarfsfólk sitt öllum illum nöfnum og líkja Sjálfstæðisflokknum við bandalag fjölmargra skæruliðahópa!  Raunar er orðfæri Árna Páls og belgingurinn í honum orðinn þess eðlis að fólk er hætt að taka mark á honum.

En mér fannst sérstaklega ómerkilegt af honum að halda því fram í Kastljóssþætti Sjónvarpsins  að Sjálfstæðisflokkurinn hefði með öllum ráðum reynt að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin færi í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í kjölfar hruns fjármálakerfisins.  Eins og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, upplýsti í sama þætti átti hann sjálfur frumkvæði að því að leita til sjóðsins um efnahagsaðstoð.  Árni Páll veit að þeir sem höfðu efasemdir innan ríkisstjórnarinnar um þá leið voru tveir ráðherrar Samfylkingarinnar, sem lengi þráuðust við.  Annar þeirra er nú forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir.

Nú hafa bæði formaður Samfylkingarinnar og varaformaður líst því yfir að þau vonist til að þeim takist að mynda nýja ríkisstjórn með Vinstrihreyfingunni grænu framboði með hlutleysi Framsóknarflokksins.  Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, neitaði því reyndar að viðræður ættu sér stað milli flokkanna í Kastljósi Sjónvarpsins eftir fund þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum, en játaði þó að viðræður hefðu átt sér stað í vikunni fyrir stjórnarslit.  Sú játning segir auðvitað meira en mörg orð um hversu heiðarlegur samstarfsaðili Samfylkingin er í ríkisstjórn.

Fyrir utan hversu baneitraður kokteill vinstriflokkanna á Alþingi er, verður engu að síður fróðlegt að sjá um hvaða málefni þessir þrír flokkar ætla að sameinast.  Varla verður samstaða um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, aðild að ESB eða uppbyggingu atvinnulífsins.

En takist að mynda vinstristjórn munu samstarfsflokkar Samfylkingarinnar hins vegar kynnast því fljótt hversu illa tætt Samfylkingin er sem flokkur.  Það vitum við sjálfstæðismenn að innan þingflokks Samfylkingarinnar er hver höndin uppi á móti annarri.  Þar hefur raunar verið stríðsástand þar sem nokkrar fylkingar eða flokksbrot takast á.  Ósamstaða er í afstöðu til grundvallarmála og metorðagirnd ýmissa þingmanna flokksins hefur skapað eitrað andrúmsloft innan þingflokksins.  Öllu þessu eiga verðandi samstarfsaðilar Samfylkingarinnar eftir að kynnast.  Sú reynsla er því miður ekki mjög eftirsóknarverð.

Sigurður Kári


Mistök eftir allt

Það er merkilegt hversu oft hatröm deilumál falla í gleymskunnar dá.

Eitt þeirra er REI-málið svokallaða, sem var á allra manna vörum í upphafi síðasta árs.  Það mál varð tilefni ótrúlegrar atburðarrásar í borgarstjórn Reykjavíkur, meirihlutaskipta og afsagna.

REI-málið rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á viðtal Sigmars Guðmundssonar við Bjarna Ármannsson, fyrrverandi forstjóra Glitnis og stjórnarformanns REI, í Kastljósi Sjónvarpsins í vikunni.

Í viðtalinu lýsti Bjarni því afdráttarlaust yfir að þátttaka sín í REI-málinu hefði verið mistök.  Þá lýsti Bjarni því jafnframt yfir, og ekki síður afdráttarlaust, að tilraunir til sameiningar Reykjavík Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy hefðu verið mistök.

Yfirlýsingar Bjarna Ármannssonar um þessi mál eru afar athyglisverðar, svo ekki sé meira sagt.

x x x

Til upprifjunar vil ég nefna að kjarni þess ágreinings REI-málsins var sá að þann 3. október 2007 var gerður þjónustusamningur milli Orkuveitu Reykjavíkur, tveimur dögum áður en samruni REI og Geysis Green Energy var tilkynntur.

Þjónustusamningurinn var til 20 ára og óuppseigjanlegur.  Slík ákvæði eru auðvitað óvenjuleg, en það sama má segja um önnur ákvæði hans.

Í þjónustusamningnum kom m.a. fram:

-  að REI fengi forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum Orkuveitu Reykjavíkur á samningstímanum, þ.e. næstu 20 árum.

- að Orkuveita Reykjavíkur skuldbindi sig til þess að upplýsa REI og vísa þangað öllum ábendingum og fyrirspyrnum um að hagnýta jarðhita, hvar sem er í heiminum, nema hér á landi.

-  Að REI mætti nota vörumerki Orkuveitu Reykjavíkur í starfi sínu auk nafnanna Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavik Energy, sem mun vera það heiti sem Orkuveitan hefur sjálf notað erlendis.

- Að sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur skyldu vera tiltækir fyrir REI.

- Að þjónustusamningurinn milli Orkuveitu Reykjavíkur og REI gilti næstu 20 árin, eins og áður segir, óháð því hver eigi félagið, opinberir-, einka- eða erlendir aðilar.

Með öðrum orðum kvað þessi þjónustusamningur á um það að hirða flest það bitastæðasta í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar út úr fyrirtækinu og afhenda það öðru fyrirtæki næstu 20 árin, þ.e. verkefni á erlendri grundu, starfsfólkið og nafnið!

Fyrir þetta ,,lítilræði" átti Orkuveitan að fá greidda 10 milljarða króna.

x x x

Fulltrúar vinstriflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur studdu þennan samning og fögnuðu honum sérstaklega.  Samfylkingarfólk, með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar, studdi samninginn, ásamt Birni Inga Hrafnssyni, þáverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.  Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sat hjá.

Sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Jórunn Frímannsdóttir, komu hins vegar í veg fyrir sameiningu REI og Geysis Green Energy og að þjónustusamningurinn, sem hér hefur verið vikið að, tæki gildi.

Óhætt er að segja að ,,sexmenningarnir" í Sjálfstæðisflokknum hafi ekki fengið klapp á bakið fyrir framgöngu sína.

Þvert á móti voru þau úthrópuð á torgum úti og í fjölmiðlum, útnefnd skussar ársins og í raun kölluð öllum illum nöfnum, einkum fyrir að hafa haft gríðarlega hagnað af borgarbúum sem sagður var felast í þessum gjörningum öllum.

Svo langt var raunar gengið að þeir gagnrýnendur sem harðast gengu fram áttu í stökustu vandræðum með að telja öll núllin í væntanlegum hagnaði af sameiningu REI og Geysis Green Energy og þjónustusamningnum.

x x x

Sá stjórmálamaður sem gekk hvað harðast fram í gagnrýni sinni á ,,sexmenningana" á þessum tíma var Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.  Við Össur deildum hart á þessum tíma um réttmæti aðgerða ,,sexmenninganna" í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.  Ég studdi aðgerðir þeirra.  Hann ekki.

Í pistli sem Össur skrifaði á heimasíðu sína í nóvember 2007, lýsti hann framgöngu ,,sexmenninganna" sem gríðarlegum skemmdarverkum.

Í pistlinu sagði iðnaðarráðherra meðal annars:

,, Harðvítugustu innanflokksátök seinni ára í Sjálfstæðisflokknum hafa því miður nánast ónýtt vörumerkið REI hvað útrás varðar, og stórskaðað viðskiptavild Orkuveitunnar. Skemmdarverk þeirra má líklega meta á milljarðatugi ef miðað er við þá framvindu sem var í kortunum."

Síðar sagði Össur:

,, Ég hika ekki við að meta kostnaðinn af skemmdum þeirra (það er þeirra borgarfulltrúa sem nefndir eru hér að ofan - innskot mitt) á REI á tugi milljarða. Þá er ótalinn skaðinn sem hlýst af missi lykilmanna en flótti þeirra virðist brostinn á, og láir þeim enginn."

Og enn:

,,Menn skulu ekki fara neitt í grafgötur með það, að valdarán sexmenninganna í borgarstjórnarflokki íhaldsins, sem framið var til að svala særðum metnaði, hefur haft ótrúleg verðmæti af Reykvíkingum, og laskað Orkuveituna og starfsmenn þess gríðarlega."

Í lok pistilsins spurði Össur:  ,,Er þetta lið með réttu ráði?"

x x x

Hinn meinti glæpur ,,sexmenninganna" var sá að gera athugasemdir við að stjórnmálamenn í Reykjavík og embættismenn á þeirra vegum stunduðu áhættufjárfestingar með milljarða af skattfé borgar búa og að gerðir yrðu samningar við útvalda gæðinga stjórnmálamanna sem hefðu getað tryggt þeim umtalsverðan hagnað í eigin vasa.

Ég tel að nú sé að koma í ljós að sú harða gagnrýni sem ,,sexmenningarnir" í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þurftu að sæta á þessum tíma hafi ekki verið réttmæt.

Ég tel að yfirlýsingar Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi stjórnformanns REI, í Kastljóssþættinum í vikunni, um að REI-málið hafi frá upphafi til enda verið mistök sýni og sanni að framganga ,,sexmenninganna" hafi verið skynsamleg, en gagnrýnin sem þau hlutu óréttmæt.

x x x

Nú er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvers vegna ég er að rifja þetta mál upp með þeim hætti sem ég hef hér gert.

Sú spurning er eðlileg.

Ástæðan er sú eftir að REI-málinu lauk með þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið líst hefur mikið vatn runnið til sjávar.  Fjármálakerfið hrundi í október síðastliðinn, viðskiptabankarnir voru yfirteknir af ríkinu og nýjar bankastofnanir reystar á rústum hinna fyrri, sem nú bíða þess að verða teknar til gjaldþrotaskipta.

Ég er ansi hræddur um að hefðu ,,sexmenningarnir" í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ekki haft bein í nefinu til þess að koma í veg fyrir sameiningu REI og Geysis Green Energy og að þjónustusamningurinn, sem gerði ráð fyrir að flest það bitastæðasta úr starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar yrði hirt út úr fyrirtækinu og afhent öðru fyrirtæki fyrir smotterí, tæki gildi, biðu þessar verðmætu eignir Reykvíkinga og Orkuveitu Reykjavíkur nú skipta í einu af þrotabúum gömlu bankanna.

Menn hljóta að sjá hversu skelfileg niðurstaða það hefði verið.

Sem betur fer varð sú ekki raunin.

x x x

Fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur er síðan sérstakt rannsóknarefni sem ástæða væri að fjalla nánar um.  Af fréttum að dæma virðast skuldir í erlendum myntum nú vera að sliga þessa gullnámu Reykvíkinga.

Ég sem Reykvíkingur og þingmaður Reykjavíkur hefði áhuga á að vita hvers vegna opinbert fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur hefur skuldsett sig svo mjög í erlendum myntum og af hvaða ástæðum.

Kannski Alfreð Þorsteinsson geti veitt einhverjar upplýsingar um það.

Sigurður Kári


Hart mæti hörðu

Í fréttum í kvöld var sagt frá því að ákvörðun hefði verið tekin um að höfðað verði mál gegn breskum stjórnvöldum vegna framgöngu þeirra í garð Íslendinga.  Fyrir liggur að skilanefnd Kaupþings muni höfða mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum vegna aðgerða þeirra sem leiddu til þess að stærsta dótturfélag Kaupþings banka hf., Singer & Friedlander-bankinn, var knúinn í greiðslustöðvun.  Í kjölfarið varð Kaupþing banki hf. ógjaldfær sem leiddi af sér gríðarlegt tjón fyrir tugi þúsunda hluthafa bankans, sparifjáreigendur, kröfuhafa, fyrirtæki og einstaklinga.

Þá kom fram að málaferlin njóta fulls stuðnings ríkisstjórnar Íslands.

Ákvörðun skilanefndar Kaupþings um að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum og ríkisstjórnar Íslands um að styðja við bakið á nefndinni er bæði gleðileg og skynsamleg.

Í málshöfðuninni felst formleg, afdráttarlaus og pólitísk yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um að Íslendingar sætti sig ekki við þá meðferð sem íslensk fyrirtæki og íslenskir hagsmunir þurftu að sæta af hálfu Breta í þann mund sem íslenska fjármálakerfið var að hrynja.

Almenningur á Íslandi hlýtur að fagna þessari ákvörðun.  Þegar hafa 81.843 Íslendingar mótmælt aðgerðum breskra stjórnvalda í sinn garð á heimasíðu hreyfingarinnar Indefence.  Allir sem tekið hafa þátt í opinberri umræðu um aðgerðir Breta í okkar garð hafa fordæmt þær harðlega.  Íslensk stjórnvöld hafa líst þeim sem fullkomlega óásættanlegum, hótað málsóknum, komið í veg fyrir að Bretar sinni loftferðaeftirliti í kringum Ísland, þess hefur jafnvel verið krafist að sendiherra Bretlands á Íslandi verði sendur úr landi og stjórnmálasambandi við Bretland slitið.

Ákvörðunin um að láta hart mæta hörðu og höfða mál gegn breskum stjórnvöldum er í samræmi við þau viðbrögð sem hér hefur verið líst.  Með ákvörðun sinni eru íslensk stjórnvöld að svara áskorun íslensku þjóðarinnar um að láta hina fordæmalausu meðferð breskra yfirvalda í okkar garð ekki yfir okkur ganga hljóðalaust.

Sjálfur fagna ég þessari ákvörðun sérstaklega.  Allt frá því að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum, frystu eigur þeirra og knúðu þau í þrot hef ég verið þeirrar skoðunar að draga beri Gordon Brown, Allistair Darling og aðra þá sem ábyrgð bera á þessum aðgerðum fyrir dóm.

Í því skyni sömdum við Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, frumvarp sem ég flutti á Alþingi sem heimilaði íslenska ríkinu að standa fjárhagslega við bakið á málsóknum sem þessari.  Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi og eftir þeim lögum er nú unnið af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Í ljósi aðkomu minnar að þessum málum á fyrri stigum er ákvörðun íslenskra stjórnvalda í mínum huga sérstakt fagnaðarefni.

Fyrir okkur Íslendingar hefur þessi málsókn gríðarlegt gildi.

Í fyrsta lagi varða þau auðvitað gríðarlega fjárhagslega hagsmuni fyrir Íslendinga, en ekki síður staðfesta þau að íslensk stjórnvöld sætta sig ekki við þá meðferð sem við máttum þola af hendi Breta.

En gildi þessarar málsóknar felst ekki síst í því að með því að höfða þetta mál gegn breskum stjórnvöldum verða þau knúin til þess að gefa viðhlítandi skýringar á framferði sínu gagnvart íslenskum fyrirtækjum.  Fyrir dómstólum í Bretlandi munu þær skýringar sem fram til þessa hafa verið gefnar af þeirra hálfu í fjölmiðlum ekki nægja.  Fyrir dómstólum þurfa bresk stjórnvöld að gera hreint fyrir sínum dyrum og standa reikningsskil gjörða sinna og öllum steinum verður velt við.  Það má því gera ráð fyrir að ýmsar athyglisverðar upplýsingar sem fram til þessa hafa ekki komið fram í dagsljósið verði knúnar fram.  Þær upplýsingar kunna að verða breskum stjórnvöldum dýrkeyptar og gætu gjörbreytt viðhorfum breskra borgara og borgara annarra ríkja í garð Íslendinga.

Það er engin ástæða til þess að hlífa breskum stjórnvöldum í þeim málaferlum sem framundan eru.  Mikilvægt er að ítrustu kröfur verði gerðar á hendur þeim og hart látið mæta hörðu.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband