Þjóðarsátt

Hrun fjármálakerfisins var mikið áfall.  Skellurinn var harður.  Góðæri breyttist á skömmum tíma í hallæri.    Fjöldi fyrirtækja eru farin í þrot.  Önnur eiga í alvarlegum vanda.  Fólk hefur misst vinnuna eða lækkað í launum.  Eignir þess eru að brenna upp og það óttast  hvað framtíðin ber í skauti sér.  Ríkissjóður er rekinn með miklum halla.  Kynslóðir framtíðarinnar óttast hversu hár bakreikningurinn vegna fjárfestingaævintýra erlendis verður.  Við bætist að verðbólga er há.  Vextir líka og krónan hefur hrunið.

Kreppan á Íslandi er öðruvísi en þær þrengingar sem nú ríða yfir önnur lönd.  Þar er bankakreppa.  Hér er  bankakreppa, gjaldeyriskreppa og stjórnmálakreppa.

Frá því að fjármálakerfið hrundi hafa stjórnvöld gripið til björgunaraðgerða.  Vonandi hafa þær skilað og eiga eftir að skila árangri.

Staðan í íslenskum efnahagsmálum er alvarleg.  Á það hefur verið bent að ástandið gæti vesnað.  Íslensk stjórnvöld þurfi að grípa strax til aðgerða.  Þau hafi einungis örfáa mánuði til að bregðast við.

Þessi varnaðarorð þarf að taka alvarlega.  Það er kominn tími til þess að snúa vörn í sókn og hefja enduruppbyggingu  af fullum krafti.  Við megum engan tíma missa.  Sú uppbygging mun taka tíma.  Það er tímafrekt og erfitt verkefni að vinna til baka allt það sem tapast hefur.    Meginverkefnið er að finna leiðir út úr kreppunni nú þegar hún hefur orðið að veruleika.

Aðild að Evrópusambandinu

Því er víða haldið fram að leiðin út úr þeim vanda sem nú er uppi felist í aðild Íslands að ESB með upptöku evru sem gjaldmiðils.

Í lok mánaðarins heldur Sjálfstæðisflokkurinn landsfund sinn.  Þá mun koma í ljós hvort flokkurinn kúvendir stefnu sinni varðandi aðild Íslands að ESB eða ekki.  Nokkrir félagar mínir úr þingflokki sjálfstæðismanna hafa á síðustu vikum lýst þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að hefja viðræður um aðild að ESB.

Ég hef talið að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan ESB en innan þess.  Þar hafa skoðanir mínar átt samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins.  Ég virði hins vegar skoðanir þeirra sem eru mér ósammála.  Aðild Íslands að ESB er ekki það versta sem komið getur fyrir íslensku þjóðina.  Ég viðurkenni að ESB aðild fylgja kostir.  En henni fylgja líka gallar.  Skoðun mín hefur fyrst og fremst byggst á köldu hagsmunamati, sem ekki hefur breyst.  Við þetta hagsmunamat vegast á sjónarmið um það hvort Íslendingar séu reiðubúnir til þess að afsala sér fullum yfirráðum yfir auðlindum sínum og skerða fullveldi sitt í skiptum fyrir alþjóðlegan gjaldmiðil, evruna.

Íslenska krónan

Reynsla Íslendinga síðustu mánuði hefur sýnt að krónan hefur reynst okkur fjötur um fót.  Miklir gallar fylgja því  að reka minnsta gjaldmiðil heimsins.  Á þá höfum við verið óþyrmilega minnt upp á síðkastið.

Ég er sannfærður um að krafa þeirra sem vilja sækja um aðild að ESB er í raun krafa um að tekinn verði upp nýr gjaldmiðill á Íslandi.  Ég trúi því ekki  að félagsmálapakki ESB hafi slíkt aðdráttarafl að hópar manna í samfélaginu vilji aðild að ESB.  Hvað þá landbúnaðarstefnan eða sameiginlega sjávarútvegsstefnan.

Krafan um aðild að ESB snýst um gjaldmiðilinn.

Tíminn skiptir sköpum

Því hefur verið haldið fram að okkur Íslendingum standi til boða að gerast aðilar að ESB á afar skömmum tíma og að upptaka evru sem gjaldmiðils geti þannig verið innan seilingar.

Slíkar fullyrðingar standast hins vegar ekki.

Í nóvember sl. tók RÚV viðtal við Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá ESB.  Hans mat var að Íslendingar gætu átt greiða leið inn í sambandið.  Raunhæft væri að ætla að aðild landsins að ESB gæti átt sér stað á fyrri hluta næsta áratugar, líklega eftir fjögur ár.

Ljóst er að evra verður ekki tekin upp sem gjaldmiðill í aðildarríki ESB fyrr en ríki hafa verið að minnsta kosti tvö ár í sambandinu.  Það þýðir að samkvæmt þeim forsendum sem stækkunarstjóri ESB, sem ætti að þekkja til og verður ekki ásakaður um andstöðu við ESB, leggur til grundvallar munu Íslendingar ekki eiga möguleika á því að skipta um gjaldmiðil fyrr en eftir sex ár, í fyrsta lagi.  Líklega mun sá tími verða mun lengri vegna þess að eftir hrun fjármálakerfisins á Ísland afar langt í land með að uppfylla svokölluð Maastrickt-skilyrði, sem eru forsenda þess að aðildarríki ESB geti tekið upp evru sem gjaldmiðil.

Ég óttast að þó Ísland yrði aðili að ESB innan fjögurra ára og fengi heimild til að taka upp evru tveimur árum síðar, þá hafi almenningur og fyrirtækin hreinlega ekki tíma til að bíða svo lengi eftir slíkum breytingum á meðan hagkerfið brennur.  Ég óttast að eignir fólks, til dæmis í fasteignum, og eigið fé fyrirtækja myndu brenna upp meðan á þeirri bið stæði.  Tíminn skiptir sköpum og við höfum ekki tíma til að bíða eftir nýju gjaldmiðli í a.m.k. 6 ár.

Það þarf að grípa til skjótvirkari aðgerða.  Heilsteypta áætlun þarf sem er einfaldari í framkvæmd, fljótlegri, útheimtir ekki frekari skuldsetningu ríkisins erlendis og kemur í veg fyrir afsal á rétti okkar yfir auðlindum landsins.

Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils felur í sér þessa kosti.

Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils

Ég hef um nokkurt skeið unnið að því í samstarfi við innlenda sérfræðinga, þ.á m. hagfræðingana Ársæl Valfells og Heiðar Má Guðjónsson, að kanna kosti þess að á Íslandi verði alþjóðlegur gjaldmiðill tekinn upp einhliða í stað íslensku krónunnar.  Niðurstaða þeirrar könnunar er að sá valkostur er ekki einungis vel mögulegur heldur mjög æskilegur.  Undir þá niðurstöðu hafa færustu erlendu sérfræðingar á sviði peningamálahagfræði tekið, t.a.m.  Michael Emerson, sem var yfirmaður efnahags- og fjármálasviðs framkvæmdastjórnar ESB (ECFIN),Daniel Gros, sem tók þátt í að byggja upp Seðlabanka Evrópu, og prófessor Charles Wyplosz, sem m.a. á sæti í raðgjafarnefnd forseta framkvæmdastjórnar ESB í efnahagsmálum (GEPA) og er einn virtasti hagfræðingur Evrópu.  Við núverandi aðstæður er ástæða til að hlusta á ráðleggirnar slíkra manna.

Með einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi, til dæmis evru, yrði alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill innleiddur sem lögeyrir hér á landi.  Krónunni yrði skipt út fyrir evru á hagstæðu gengi og kostnaður, verðlag, bókhald fyrirtækja, tekjur fólks og skuldir og fjármál ríkisins miðaðar við hana.

Með hagstæðu skiptigengi á ég við gengi sem er hagstætt fyrir framleiðslu- og útflutningsgreinar þjóðarinnar.

Einhliða upptaka er hvorki flókin í framkvæmd né tímafrek.  Að mati sérfræðinga þyrfti hún ekki að taka meira en 4 vikur.  Jafnvirði þess peningamagns sem er í umferð á Íslandi nemur að mati sérfræðinga um 150 milljónum evra.  Gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans nemur mun hærri fjárhæðum og því er ríkið í stakk búið til að fjármagna gjaldmiðilsskiptin.  Daginn sem evruvæðing ætti sér stað myndi Seðlabankinn útdeila evrum til bankanna í skiptum fyrir íslenskar krónur.  Bankareikningar einstaklinga og fyrirtækja yrðu umreiknaðir úr krónum í evrur á fyrirframákveðnu gengi.

Eins og hópur hagfræðingar benti á í grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu er einhliða upptaka evru ekki töfralausn sem leysir öll okkar vandamál.  Ekki frekar en aðild að ESB.  Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils er  lausn á þeirri gjaldeyriskreppu sem Íslendingar eiga við að etja og valdið hefur fólki, fyrirtækjum og íslenska ríkinu ómældum búsifjum, ofan á þá bankakreppu sem hér geysar.

Hver er ávinningur einhliða upptöku?

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikill ávinningur yrði af einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi.  Í stuttu máli má fullyrða að á skömmum tíma yrðu afleiðingarnar eftirfarandi:

  1. Vextir myndu snarlækka.  Vaxtastig á Íslandi, sem nú er 18%, myndi verða sambærilegt vaxtastigi þess myntsvæðis sem valið yrði, sem er um 3% á evrusvæðinu, að viðbættu landsálagi, sem í dag myndi vera milli 0,5-1,5%.
  2. Verðbólga myndi jafnframt lækka með tilkomu nýs gjaldmiðils, enda er verðbólgan í dag ekki síst tilkomin vegna gengisfalls krónunnar.
  3. Verðtrygging myndi deyja út við endurfjármögnun skuldbindinga.
  4. Atvinna fólks væri betur tryggð vegna mun hagstæðara rekstrarumhverfis fyrirtækja sem leiðir af liðum 1-3.

Við þetta bætist að eftir einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi þyrftu kynslóðir framtíðarinnar ekki að óttast að þau himinháu lán ríkisins sem leiða af samkomulagi þess við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), sem nema tæplega 6 milljörðum dollara, verði notuð til þess að halda uppi gengi íslensku krónunnar.  Kostnaður við gjaldmiðilsskipti er vissulega mikill, en kostnaður við að halda uppi gengi krónunnar með lánum er mun meiri.  Jafnframt felur einhliða upptaka í sér þann kost, umfram upptöku evru með aðild að ESB, að með henni kæmist íslenska þjóðin hjá því að afsala sér forræði yfir auðlindum sínum í skiptum fyrir nýjan gjaldmiðil.  Ennfremur þyrfti þjóðin einungis að bíða í nokkrar vikur yrði hún tekin upp einhliða, en ekki í fjölmörg ár eins og aðild að ESB útheimtir.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils skapar langþráðan stöðugleika í peningamálum á Íslandi.  Hún tengir landið inn á efnahagssvæði þess gjaldmiðils sem valinn er.  Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera því ekki lengur ábyrgð á verðlagi.  Og ekki síst knýr einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils stjórnvöld til þess að beita miklum aga við efnahagsstjórnina.

Það er því til mikils að vinna fyrir fólk og fyrirtæki sem nú óttast framtíðina og afdrif eigna sinna.   Samkeppnishæfni atvinnulífsins yrði stóraukin með einhliða upptöku sem án vafa myndi flýta mjög uppbyggingu þess.

Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Í þessu samhengi má ekki gleyma því að í kjölfar hruns fjármálakerfisins gerðu ríkisstjórn Íslands og IMF með sér samkomulag um efnahagsaðgerðir.  Ekkert í því samkomulagi kemur í veg fyrir að Íslendingar geti tekið einhliða upp alþjóðlegan gjaldmiðil.  Þvert á móti gerir samkomulagið beinlínis ráð fyrir að fyrirkomulag peningamála verði endurskoðað.

Í 18. grein samkomulags ríkisstjórnar Íslands og IMF segir:

,,In the medium term, the authorities recognized the need to reassess the broader monetary policy framework.  Among the options that are being debated in Iceland, there is increasing support for reglacing the now-defunct inflation targeting with some form of peg or currency board, including EU membership and eventual adoption of the Euro.  However, there is also support for the view that exchange rate flexibility has served Iceland well and remains appropriate due to its dependence on fisheries and energy-intensive production."

Sjálfur hef ég vitneskju um að hátt settir embættismenn innan IMF hafi lýst því yfir að þeir teldu einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils ekki einungis skynsamlegan heldur beinlínis æskilegan valkost fyrir Íslendinga.

Efasemdir

Í opinberri umræðu hafa ýmir haft efasemdir um að einhliða upptaka  sé æskileg.  Í fyrsta lagi er bent á að með einhliða upptöku skapist hætta á innlendum fjármagnsflótta.  Hætta á bankahruni aukist þar sem bankarnir hafi eftir einhliða upptöku annars gjaldmiðils ekki lánveitanda til þrautavara, þ.e. seðlabanka sem bakhjarl.  Í slíku kerfi sé hætta á bankahruni meiri, en í kerfi þar sem Ísland væri aðili að ESB, og hefði með aðild sinni slíkan bakhjarl.  Í öðru lagi nefna þeir að með einhliða upptöku evru á Íslandi myndi landið falla í ónáð hjá ESB, sem gæti kallað á hugsanlegar refsiaðgerðir af hálfu ESB gagnvart Íslandi á grundvelli EES-samningsins.

Skortur á lánveitanda til þrautavara.

Sú kenning hefur verið lífseig að Seðlabanki Evrópu sé lánveitandi evrópskra banka til þrautavara og því sé skynsamlegra fyrir Ísland að taka upp evru með aðild að ESB en að gera það einhliða.

Sú kenning gengur hins vegar ekki upp.  Það sást best við fall Fortis-bankans, eins stærsta banka Evrópu.  Seðlabanki Evrópu kom honum ekki til bjargar sem lánveitandi til þrautavara, heldur þurftu viðkomandi ríki sem bankinn starfar í, Belgía, Lúxemburg og Holland að þjóðnýta hvert sinn hluta hans til að bjarga honum frá falli.  Það eru því ríkissjóðir hvers lands sem eru lánveitendur evrópsku bankanna til þrautarvara, en ekki Seðlabanki Evrópu.

Hvernig má koma í veg fyrir bankaáhlaup?

Ég er þeirrar skoðunar að einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils minnki líkur á fjármagnsflótta.  Charles Wyplosz hefur lýst sömu skoðun.  Sú hætta hlýtur að vera minni í bankakerfi sem notar gjaldmiðil sem nýtur trausts en í bankakerfi sem notar gjaldmiðil fáir treysta.  Það er einnig langsótt að ætla að Íslendingar muni hlaupa með evrurnar sínar úr íslensku bönkunum til þess að færa öll dagleg bankaviðskipti sín, sparifé, yfirdráttar- og húsnæðislán til erlendra banka.

Engu að síður má hugsa sér tvær leiðir til þess að koma í veg fyrir bankaáhlaup við einhliða upptöku annars gjaldmiðils og leysa vandamálið varðandi skort á lánveitanda til þrautavara.

Önnur er sú að leggja íslensku bönkunum til núverandi gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.  Þá mætti hugsa sér að lífeyrissjóðir landsins leggðu erlendar eignir sínar sem tryggingu gegn útflæði úr bönkunum.  Slíkar aðgerðir samhliða einhliða upptöku myndu tryggja svo gott sem allar innistæður landsmanna í bönkunum.  Til samanburðar má nefna að hæsta hlutfall slíkra trygginga sem er í bankakerfi Hong Kong.  Þar nær tryggingin til um 20% innistæðna, en væri nær 75% á Íslandi.  Þar við bætist að þau gjaldeyrishöft sem nú eru í gildi myndu gera bankaáhlaup nánast ómögulegt.

Önnur útfærsla er sú að koma eignarhaldi á bönkunum í hendur erlendra lánardrottna þeirra, þannig að þeir breyti kröfum sínum á hendur bönkunum í hlutafé.  Með því yrðu í raun starfræktir erlendir bankar á Íslandi sem nytu bakstuðnings eigenda sinna og eftir atvikum erlendra ríkja.  Slíkt eignarhald myndi draga verulega úr líkum á bankaáhlaupi og í raun nánast útiloka það.

Pólitísk viðbrögð ESB

Michael Emerson, sem var  yfirmaður efnahags- og fjármálasviðs framkvæmdastjórnar ESB og sendiherra ESB í Moskvu skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember sl.  Þar velti hann fyrir sér viðbrögðum ESB við einhliða upptöku evru á Íslandi.

Í greininni bendir Emerson á að ekkert í lögum ESB eða alþjóðalögum banni neinum að afla sér evra eða nota í sparnað, viðskipti, bókhald og millifærslur.  Evran sé fyllilega innleysanlegur gjaldmiðlill og engar svæðisbundnar takmarkanir við notkun hennar.  Líkurnar á því að ESB myndi reyna að rifta EES-samningnum við Ísland eða takmarka gildi hans séu svo litlar að þær séu fyrst og fremst fræðilegar.  Engin lagastoð væri fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum í garð Íslands og slíkri kröfu yrði því hiklaust vísað frá af dómstólum ESB og EFTA.  Illmögulegt sé að rifta EES-samningnum við Ísland, slíkt krefðist einróma samkomulags aðildarríkjanna 27, sem ólíklegt væri að myndi nást.

Þá má ekki gleyma því að um áramótin 1999/2000 tók Svartfjallaland einhliða upp evru sem gjaldmiðil, með góðum árangri.  Því hefur verið haldið fram að með því hafi Svartfellingar fallið í pólitíska ónáð hjá ESB, enda mótmælti ESB einhliða upptöku evru þar í landi.  Svartfjallaland hefur nú ákveðið að sækja um aðild að ESB.  ESB hefur nú lýst því yfir að aðildarumsókn frá Svartfjallalandi verði tekið opnum örmum.

Hvers vegna ættu önnur sjónarmið að gilda í tilviki Íslands?

Þjóðarsátt

Hvort sem menn eru hlynntir eða andvígir aðild Íslands að ESB þá hljóta allir að sjá að íslenska þjóðin getur ekki beðið árum saman eftir lausn á gjaldeyriskreppunni í gegnum aðild að ESB.  Þann tíma hefur fólkið í landinu ekki við þessar aðstæður.  Einhliða upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils leysir vandann á mun skemmri tíma.  Stjórnmálamenn þurfa að hafa hraðar hendur.  Þeir mega ekki og geta ekki slegið ákvörðunum um lausn vandans á frest á meðan hagkerfið brennur, eignir fólks rýrna, atvinnuleysi eykst og fyrirtæki berjast í bökkum.  Slíkt væri ábyrgðarleysi gagnvart þjóðinni og komandi kynslóðum.

Ákvörðun um einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi leysir ekki einungis þá gjaldeyriskreppu sem hér geysar.  Hún getur að mínu mati verið pólitísk málamiðlun milli tveggja stórra hópa í þjóðfélaginu, þjóðarsátt milli andstæðra fylkinga.  Annars vegar þeirra sem vilja taka upp annan gjaldmiðil en standa utan ESB og hins vegar þeirra sem vilja taka upp evru með inngöngu í ESB.

Við núverandi aðstæður þurfum við á slíkri þjóðarsátt að halda.

Við höfum ekki efni á öðru en að skoða þennan valkost alvarlega.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Það er mjög jákvætt þegar stjórnmálamenn greina og fjalla um mikilvæg mál með svona skýrum hætti.  Það er tvímælalaust eitt það brýnasta sem þarf að gera núna að koma upp nothæfum gjaldmiðli hér. Ég tók út fyrir það í gær að þurfa að fara í banka til að kaupa mér ferðagjaldeyri og að mér væri skammtaður hann gegn framvísun farmiða.

Íslensk fyrirtæki fá tæplega erlent fjármagn eins og staðan er í dag. Erlendir hluthafar í íslenskum fyrirtækjum er reiðir yfir því að vera með hlutaféð sitt frosið inni í íslenskum krónum! Það ætti að leyfa íslenskum fyrirtækjum að skrá hlutafé í erlendri mynt og gera upp í erlendri mynt án hafta og leyfa. Það myndi laga ástandið.  Það hefur verið ótrúlegur þverhausaháttur hjá íslenskum ráðamönnum að standa í vegi fyrir þessu undanfarin ár.  Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað breytt því en nú er það of seint, amk í bili.

Þorsteinn Sverrisson, 31.1.2009 kl. 12:47

2 identicon

Athyglisverð grein og athyglisverð hugmynd.  Þetta hlýtur hins vegar að leiða hugann að því hvers vegna þið þingmenn okkar sjálfstæðismanna eruð svona seinir til að vita hvað á að gera.  Núna á nokkrum dögum eftir að valdatíma flokksins lauk er allt flæðandi í hugmyndum, og það hugmundum sem tekur nánast engan tíma að framkvæma.  Fjórar vikur að fá nýjan gjaldmiðil?  Að sumu leyti lítur þetta út eins og hópur fólks sem er að hlaupast undan þeirri kvöð að taka eðlilega ábyrgð á hruni efanahagskerfisins með því að einbeita sér að krafti að nýjum frábærum lausnum og kraftmikilli stjórnarandstöðu.  Jafnvel áður en stjórn er mynduð.
Ein megin röksemd  þín í umfjölluninni og jafnframt ein megin röksemd  þín fyrir því að vera utan ESB eru yfirráð yfir auðlindum og skerðing á fullveldi.  Þær auðlindir sem mestu máli skipta í þessu samhengi eru líklega fiskurinn í sjónum og orkan.  Þess vegna er nauðsynlegt fyrir sjálfstæðismenn að skilja til hlítar hver staða þessara auðlinda er í dag.  Sérstaklega yfirráð yfir fisknum í sjónum .  Um það langar mig að spyrja og fá nánari skýringar.  Þú segist hafa greiðan aðgang að margs konar sérfræðingum og ættu því svörin tæplega að vefjast fyrir þér.  Stöðu fullveldisins og orkuna langar mig að láta liggja milli hluta í bili.
Áður en lengra er haldið þarftu að gera grein fyrir því hver hafi í raun forræði yfir auðlindinni „fisknum í sjónum“. Er það þjóðin? Er það ríkisstjórnin? Eru það íslendingar allir eða nokkrir íslendingar? Til þess að skilja forræðið yfir þessari mikilvægu auðlind þarf að útskýra hvernig skiptingu kvótans er háttað milli fyrirtækja í sjávarútvegi og hversu mikið af kvótanum er veðsettur. Veðsetningin er lykilatriði í þessu samhengi eins og staðan er í dag. Ef hann er mikið veðsettur, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, verður að útskýra fyrir þjóðinni hversu mikið af veðsetningunni er vegna fjárfestinga í sjávarútvegi, t.d. í nýjum skipum eða nýjum framleiðslutækjum og búnaði og hversu mikið er vegna margs konar annarra fjárfestinga utan greinarinnar. T.d. áhættusömum fjárfestingum í fjármálageiranum sem koma uppbyggingu sjávarútvegs ekkert við? Ef þessi auðlind er mjög mikið veðsett verður að koma fram hvort arðsemi greinarinnar sé með þeim hætti að hún eigi möguleika á að vinna sig út úr þeim lánum og kvöðum sem á henni hvíla?
Þessa niðurstöðu þarf síðan að bera saman við hugsanleg yfirráð okkar yfir auðlindinni ef við kjósum að ganga í Evrópusambandið. Áður en þetta verður kristaltært og gagnsætt fyrir framan augu okkar sem erum almennir borgarar, almennir sjálfstæðismenn og almennir kjósendur er ekki hægt að taka tillit til þessarar hugmyndar Sigurðar Kára. Það verður að rökstyðja miklu betur hvernig VIÐ missum forræði yfir þessari auðlind. Ég held því t.d. fram að skipti mig engu máli hvort það er Per í Danmörku, Claude í Frakklandi eð einhverjir bræður og frændur á Akureyri „eigi“ kvótann. Ef eitthvað er virðist mér að það sé betra fyrir mig að þeir Per og Claude eigi kvótann þar sem margir sem þegar hafa forræði hans á sinni hendi kunni lítið með hann að fara, ef marka má fréttaflutning af stöðu greinarinnar.
Vonandi fæ ég skýr svör fljótlega.  Vonandi liggur þetta fyrir áður en til prófkjörs kemur.

Einar Páll Svavarsson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 13:47

5 Smámynd: Edda Borg

Þakka fína grein!

Hefði viljað lesa meira um ókosti ESB aðildar þar sem flest erum við að reyna að gera upp hug okkar varðandi þau mál um þessar mundir.

Hverjir eru að þínu mati helstu ókostirnir?

Verðum við ekki að skoða málin nánar og láta á reyna hvort við missum frá okkur "sjálfstæðið" og yfirráð yfir auðlindum landsins?

Góða helgi!

Kv. Edda Borg Ól.

Edda Borg, 31.1.2009 kl. 16:35

6 Smámynd: Benedikta E

Sigurður Kári.Þú spyrð hvernig má koma í veg fyrir bankaáhaup? Ég vil svara því þannig að við segjum okkur úr EES og það -strax- Það er ekki eftir neinu að bíða.

Ef við hefðum ekki verið í EES þá hefðum við aldrei lent í öllum þessum hörmungum með bankana - Icave- svo eitthvað sé nefnt.

Hvað viðkemur ESB þá er það ekki í umræðunni lengur -ég hélt þú vissir það - Sigurður Kári -  búið að slá þá umræðu út af borðinu - við höfum annað þarfara við tíma okkar að gera.Hvað viðkemur stækkunarstjóra ESB þá er það skemmst að segja að Hnn á vegum ESB er gráðugur í auðlindir Íslands - Stækkunarstjórinn ætti bara að róa sig niður með sín lymskulegu gylliboð - Hann heldur að íslendingar séu bjánar!!!!!

Sjálfstæði Íslands og íslensku þjóðarinnar og aðrar auðlindir landsins eru ekki í boði fyrir ESB!!!!!!!!!

Benedikta E, 31.1.2009 kl. 22:43

7 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Mér finnst þetta vera nokkuð athyglivert og ber að skoða það að taka upp erlendan gjaldeyrir en er ekki hlynntur því að taka upp evru ,tel hana ekki vera eins sterka og talað er um ,norska krónan er og verður sterk ,eins mætti athuga með kanadískan dollar .Ég les greinina þannig að þú sért ekki hlynntur því að ganga í ESB og er það vel ,það býr eitthvað að baki þegar ráðamenn í Brussel segja okkur aufúsugesti þar og vilja helst fá okkur inn sem fyrst ,fiskimið nú olía og ekki má gleyma hvorutveggja heitu og köldu vatni sem er og verður sífellt verðmeiri . Ég held að við séum ágætlega settir í EES við þurfum ekkert að breyta því .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 31.1.2009 kl. 23:09

8 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Má ég benda þingmanninum á leiðir til að halda okkur fyrir utan ESB.

1. Samningur við Norðmenn um myntsamstarf. Nýja ísl. krónu 1 á móti 1 fast.

2. Samningur við Norðmenn um eflingu EFTA og EES, Færeyingar og Grænlendingar verði dregnir inn í það hugsanlega með sameiginlegum seðlabanka. Minni á sameiginlega fiskveiðihagsmuni og hugsanlega olíuvinnslu, það er nóg að hún sé hugsanleg, það eitt þýðir samvinnu næstu 50-100 ár.

3. Sameiginlegir hagsmunir þessara ríkja í sk. norðurskautsmáli sem eru andstæðir ESB.

4. Samband svo fámennra ríkja gæti farið að mestu fram í síma meðan ráðherrar keyra á milli staða.

Ég auglýsi eftir viðbót sérstaklega frá þingmanninum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 1.2.2009 kl. 00:23

9 identicon

Góð, skýr grein hjá þér. Ég er fylgjandi aðild að ESB, en einnig hlynntur einhliða upptöku annars gjaldmiðils, enda lítið gefinn fyrir bið, ef leið einhliða upptöku þrýtur þá verðið þið að sjá ljósið. Takið ákvörðun!

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 00:45

10 identicon

Frábær grein. Meira svona Sigurður.

Melur (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband