Minnihlutastjórnin og verkefnaskráin

rikisstjorn_feb091 Það verður seint sagt að ferskir vindar blási um nýja ríkisstjórn Íslands sem kynnt var í dag.  Í ljósi þeirrar háværu kröfu sem uppi hefur verið í samfélaginu um endurnýjun í stjórnkerfinu höfðu margir reiknað með því að forsvarsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna myndu skipa framtíðarfólkinu sínu í einhverja af ráðherrastólum minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Sú varð hins vegar ekki raunin.  Ríkisstjórnin er að uppistöðu til skipuð fulltrúum gamalla tíma, að undanskilinni Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra.

Það vekur auðvitað athygli að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sérstakur fulltrúi endurnýjunar á Íslandi og formaður Framsóknarflokksins, skuli láta það verða sitt fyrsta verk að leiða fulltrúa gamla tímans til valda eins og nú er orðin raunin.

Það vekur ekki síður athygli að leiðtogar stjórnarflokkanna skyldu hafa leitað til tveggja einstaklinga utan Alþingis til þess að taka sæti í ríkisstjórninni, þeirra Gylfa Magnússonar, dósents, í embætti viðskiptaráðherra, og Rögnu Árnadóttur, setts ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, í embætti dóms og kirkjumálaráðherra.  Það hlýtur að vera til marks um það að leiðtogar stjórnarflokkanna treystu ekki félögum sínum í þingflokkunum til þess að sinna þeim krefjandi verkefnum sem hinum nýju ráðherrum hefur verið falið.

Vandi Gylfa Magnússonar og Rögnu Árnadóttur er auðvitað sá að hvorugt þeirra hefur hlotið kosningu á vettvangi stjórnmálanna og því skortir þau umboð kjósenda til þeirra starfa sem þau hafa nú tekið að sér að gegna.

Skipan Gylfa í embætti viðskiptaráðherra hafði átt nokkurn aðdraganda.  Skipan Rögnu Árnadóttur kom hins vegar verulega á óvart, ekki síst vegna þess að hún hefur um nokkurt skeið starfað sem ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu og þar með verið nánasti samstarfsmaður Björns Bjarnasonar, fráfarandi dómsmálaráðherra, sem ekki hefur verið efstur á vinsældalistum þeirra sem nú hafa tekið sæti í ríkisstjórn.

Rögnu Árnadóttur þekki ég ágætlega og hef átt með henni gott samstarf.  Ég er ekki í vafa um að í henni er mikill fengur fyrir hina nýju minnihlutastjórn.  Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort nýr dómsmálaráðherra heldur áfram á sömu braut og fyrirrennari hennar eða hvort breyttar áherslur muni einkenna ráðherraferil hennar.

Um leið og ég óska Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með að vera fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá verkefnaskrá sem minnihlutastjórnin kynnti á Hótel Borg.

Það veldur auðvitað vonbrigðum að vikulöng fundalota forystumanna stjórnarflokkanna, sem í fjölmiðlum var sögð ganga eins og í sögu, hafi afurðin ekki verið merkilegri en raun ber vitni.  Verkefnaskrá þessarar ríkisstjórnar er svo rýr í roðinu að leita þarf langt aftur í stjórnmálasöguna  til þess að finna henni hliðstæðu.  Verkefnaskráin er í heild svo almennt orðuð að erfitt er að festa hendur á hver stefna nýrrar ríkisstjórnar er í mörgum af mikilvægustu málaflokkum.

Í verkefnaskrá minnihlutastjórnarinnar segir;

  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.
  • Ekkert um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna, þrátt fyrir að yfir íslenska ríkinu vofi krafa að fjárhæð 700 milljörðum íslenskra króna.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum.
  • Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, annað en það að Evrópunefnd skili skýrslu fyrir 15. apríl næstkomandi.

Nefna mætti fleiri málaflokka þar sem hin nýja ríkisstjórn skilar auðu og hefur enga yfirlýsta stefnu.  Það dylst engum að þessi verkefnaskrá er ekki gæfulegt veganesti fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum vekur auðvitað sérstaka athygli ekki síst í ljósi þess að í ríkisstjórnarsamstarfi okkar sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar lagði Samfylkingin ofuráherslu á Evrópumálin.  Svo langt var gengið að formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir að breytti Sjálfstæðisflokkurinn ekki stefnu sinni í Evrópumálum væri því ríkisstjórnarsamstarfi sjálfhætt.

En nú virðast Evrópumálin hafa gufað upp í hugum Samfylkingarfólks og verið tekin af dagskrá.

Einu atriði í þessari verkefnaskrá vil ég þó fagna sérstaklega.  Verkefnaskráin ber það nefnilega með sér að Vinstri grænir hafi kúvent stefnu sinni í stóriðjumálum.  Í verkefnaskránni segir að engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar.  Þá yfirlýsingu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni halda áfram vinnu við þau verkefni sem þegar eru áformuð og varða uppbyggingu stóriðju í Helguvík og á Bakka við Húsavík.  Í því felast auðvitað mikil tíðindi þegar hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar forystumanna Vinstri grænna um þessar framkvæmdir.

Að öðru leyti sýnir verkefnaskrá hinar nýju ríkisstjórnar svart á hvítu að núverandi stjórnarflokkar hafa í raun ekki getað komið sér saman um neitt annað en völd.

Sú staðreynd er auðvitað afleit við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður

ég verð bara að seigja að það er kominn tími til breytinga á þessum stjórnvöldum hér og hef ég allavega smá trú á að komandi ríkisstjórn geri eitthvað til að vernda fólkið í landinu og fyrirtækinn ólíkt þvi sem sjálfstæðisflokkur hefur gert í þessi 17 ár sem þeir hafa verið við völd þá hefur minnst verið hugsað um heimilinn og hinn almenaborgara annað en að auka allar álögur á okkur þar sem eitthvað er komið á hvort sem það er til bráðabirgða eða ekki er það ekki tekið af aftur ef við tökum td kílóagjald á bifreiðar sem átti að vera til bráðabirgðar og er ekki farið af enn heldur er það bara hækkað, og allir hinir þessir littlu skattar sem eru út um allt sem gera ekki annað en að hækka og þar með að hækka vöruverð og útgjöld heimila hér á landi, þessi málaflokkur hefur verið það sem enginn stjórnmála flokkur hefur viljað taka á eða breyta, ef við tökum til dæmis starfsloka samninga sem eru gerðir hjá hinum og þessum toppum í ríkisfyrirtækjum af hverju eru þeir ekki bara eins og hinir launþegar hjá ríkinu, hver er munurinn á forstjóra og vekamanni það er ekki ábbyrgð þar sem hún hefur og verður aldrei til staðar.

svo er annað sem þarf að gera að það er að hagræða og auka afköst í öllum ríkisrekstri þar sem framleiðni hjá hinu obenbera er ekki eins og hún ætti að vera starfsmenn eru illa nýttir og skila ekki sínu með afköstum það er mín reynsla og þekking af því sem ég hef kynnst í gegnum tíðana. 

kv....Birgir þór

Birgir Þór Kristinsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 02:14

2 identicon

það að leita til tveggja einstaklinga utan alþingis þarf ekki að þíða að þau treisti ekki eigin fólki heldur að þau vilji fá hæfasta fólkið í stöðurnar.fagmenska í staðin fyrir framapot.

stuttur verkefna listi nýu ríkistjórnarinar gæti kanski stafað af því að þessi stjórn á ekki að starfa leingi. nýa ríkisstjórnin þarf ekki að gera voðalga mikið til að toppa fráfarandi stjórn.

það sem ísland þarfnast núna er alger hreingernig í stjórnkerfinu þetta er lítið skref i rétta átt, skulum sjá hvort þau standi við stóru orðin, svo getur almenningur sagt sína skoðun í kosningunum.

Bjöggi (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 03:49

3 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

 Stóra stefnumál nýrrar stjórnar er að slá skjaldborg um heimilin og mynda einhverskonar vinnufrið fram að kosningum sem verða í maí.

Telur þú einhverja skynsemi í því að mynda stefnuskrá í öllum þeim málaflokkum sem þú nefnir fram að því.

Það ætlast fáir til þess að nýja Ríkisstjórnin fari umhverfis jörðina á 80 dögum.

Það vonast hinsvegar flestir að Ríkisstjórnin taki á nokkrum þeim réttlætismálum sem forverar hennar voru vanhæfir til. 

Þó við séum samflokkaðir sauðir þá get ég ekki tekið undir það sem þú skrifar.

Ragnar Þór Ingólfsson, 2.2.2009 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband