Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 16. febrúar 2009
Starfsumhverfi fjölmiðla
Undir lok síðasta árs skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfshóp sem ætlað var að fara yfir starfsumhverfi fjölmiðla og leggja fram tillögur til úrbóta.
Í starfshópnum tóku sæti ásamt mér þau Magnús Þór Hafsteinsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, Pétur Gunnarsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Skúli Helgason, fulltrúi Samfylkingarinnar. Þá var Steingrímur Sigurgeirsson, þáverandi aðstoðarmaður menntamálaráðherra, skipaður formaður.
Starfshópurinn fundaði stíft um viðfangsefnið, fékk til fundar við sig fjöldan allan af gestum og viðaði að sér upplýsingum úr öllum áttum um stöðu og horfur á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Um þá stöðu þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Samkeppnisstaða á fjölmiðlamarkaði er ekki jöfn. Sú forgjöf sem Ríkisútvarpið nýtur umfram einkarekna fjölmiðla í formi afnotagjalda og útvarpsgjalds skekkir samkeppnisstöðuna. Þar við bætist að Ríkisútvarpið hefur keppt við einkarekna fjölmiðla um tekjur af sölu auglýsinga.
Auglýsingamarkaðurinn á Íslandi hefur á síðustu mánuðum ekki einungis dregist saman heldur beinlínis hrunið.
Það þýðir að starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla um þessar mundir er afar erfitt enda treysta þeir mjög á auglýsingatekjur í rekstri sínum.
Í ljósi þess lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, fram frumvarp í lok árs um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Það frumvarp mælti fyrir um minni fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í sjónvarpi.
Við meðferð frumvarpsins í menntamálanefnd Alþingis, gerði ég sem þáverandi formaður nefndarinnar þá tillögu að afgreiðslu þess yrði frestað fram yfir áramót. Þó ég hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að takmarka bæri fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði taldi ég eðlilegt að samhliða slíkum takmörkunum yrðu mótaðar reglur um auglýsingar í útvarpi auk reglna um eignarhald á fjölmiðlum.
Ég gerði það jafnframt að tillögu minni að starfshópi menntamálaráðherra yrði falið að útfæra reglur um auglýsingamarkaðinn og eignarhald á fjölmiðlum og að hópurinn skyldi skila tillögum sínum fyrir 15. febrúar 2009.
Ástæðan fyrir því að ég vildi gefa starfshópi menntamálaráðherra svo stuttan frest til að skila tillögum sínum var sú að ég taldi nauðsynlegt að íslensku fjölmiðlafyrirtækin fengju að vita sem fyrst hvernig framtíðarstarfsumhverfi þeirra yrði háttað. Slíkt taldi ég mikilvægt í ljósi þess að öll íslensku fjölmiðlafyrirtækin berjast nú í bökkum, óljóst er um framtíð sumra þeirra og þess fólks sem þar starfar.
Starfshópur menntamálaráðherra hélt áfram störfum eftir áramót þar sem ræddar voru hugmyndir um útfærslur á reglum um takmörkun á þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í útvarpi og sjónvarpi, um dreift eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og fleiri þætti sem til skoðunar koma í vinnu sem þessari.
Í aðdraganda og við stjórnarslit ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fjaraði hið mikla starf starfshóps fyrrverandi menntamálaráðherra út.
Engir fundir hafa verið haldnir eftir stjórnarslitin og engum áformum hefur verið lýst af hálfu núverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um framhald vinnunnar.
Þau viðfangsefni sem okkur var ætlað að fjalla um eru því óleyst.
Íslenskir fjölmiðlar eru því nú í lausu lofti um það hvort starfsumhverfi þeirra muni breytast í þá veru sem til stóð í tíð fyrrverandi menntamálaráðherra.
Algjör óvissa er um framtíð starfshópsins sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði. Engir fundir eru fyrirhugaðir, eftir því er ég best veit, og eins og áður segir hefur Katrín Jakobsdóttir ekki gefið okkur sem í starfshópnum störfuðum nein fyrirheit um framhald þeirrar miklu vinnu sem við höfum lagt í þetta verkefni.
Slíkt er afar óheppilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi á íslenskum fjölmiðlamarkaði, þar sem óljóst er um framtíðareignarhald sumra þeirra og störf fjölmargra starfsmanna eru í uppnámi.
Og starfshópurinn er fallinn á tíma.
Samkvæmt þeirri tillögu sem ég gerði um hröð og fumlaus vinnubrögð átti hann að skila tillögum sínum í gær, sunnudaginn 15. febrúar.
Það væri verðugt verkefni fyrir fjölmiðla þessa lands að spyrja Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, hvað hún hyggist gera varðandi framtíðarstarfsumhverfi íslenskra fjölmiðla.
Það er mér hulin ráðgáta, og sit ég þó enn í starfshópi um starfsumhverfi fjölmiðla, eftir því sem ég best veit.
Verra er að það starfsfólk fjölmiðla sem hugsanlega á yfir höfði sér atvinnumissi hefur ekki hugmynd um framtíðarstarfumhverfi þeirra fyrirtækja sem það starfar hjá.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. febrúar 2009
Sundurlyndi innan Samfylkingarinnar
Krafa Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins, um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir axli sín skinn og láti af formennsku í Samfylkingunni, ellegar sé honum að mæta í kosningu, kemur ekki á óvart.
Hótun Jón Baldvins er skýr birtingarmynd þess sundurlyndis sem nú ríkir innan Samfylkingarinnar, sundurlyndis og sundurþykkju sem Samfylkingarfólk hefur aldrei viljað heyra á minnst.
Krafa Jóns Baldvins um afsögn Ingibjargar Sólrúnar undirstrikar þá lýsingu sem fram kom í máli Geirs H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, við stjórnarslit ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þá lýsingu að Samfylkingin sem stjórnmálaflokkur væri í tætlum.
Það er líka til marks um ástandið innan Samfylkingarinnar að Jón Baldvin, af öllum mönnum, skuli stinga upp á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, taki við formennsku í flokknum. Milli þeirra tveggja hefur aldrei verið kært.
Það muna til dæmis allir eftir því þegar Jón Baldvin gekk pólitískt milli bols og höfuðs Jóhönnu í formannskosningu í Alþýðuflokknum um árið sem leiddi til þess að Jóhanna sagði sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka.
Og nú vill Jón Baldvin að Jóhanna verði formaður!
Það segir meira en mörg orð um ástandið.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 12. febrúar 2009
Á að skipta um gjaldmiðil á Íslandi? - Opinn fundur í Valhöll
Í dag, fimmtudag, klukkan 18.15 verður haldinn opinn fundur í Valhöll, við Háaleitisbraut, um gjaldmiðlamál undir yfirskriftinni:
Á að skipta um gjaldmiðil á Íslandi?
Frummælendur á fundinum verða Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.
Fundarstjórar verða Fanney Birna Jónsdóttir, formaður Heimdallar, og Theódór Bender, formaður Óðins.
Fundurinn er öllum opinn.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Stjórnarskrárbreytingar á ljóshraða
Þetta sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, í ræðu á Alþingi 9. mars 2007.
Í verkefnaskrá minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segir:
,,Breytingar verði gerðar á eftirtöldum atriðum í stjórnarskrá lýðveldisins:
a) Kveðið verður á um auðlindir í þjóðareigu.
b) Sett verði ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.
c) Aðferð við breytingar á stjórnarskrá með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Lög verða sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings."
Ef eitthvað er að marka verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar þá hyggst hún ráðast í og afgreiða þær stjórnarskrárbreytingar sem þar eru nefndar. Sumar þeirra varða helstu hagsmunamál þjóðarinnar sem harðar deilur hafa staðið um í áratugi.
,,Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og þar er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál."
Þessi orð lét Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkis- og iðnaðarráðherra, falla í ræðu sem hann hélt á Alþingi þann 9. mars 2007, þá sem stjórnarandstæðingur.
Ég er sammála þessum orðum Össurar. Stjórnarskráin felur í sér grundvallarlög íslenska lýðveldisins og hana ber að umgangast af varfærni. Um stjórnarskránna þarf að fjalla af mikilli ábyrgð og það er mikilvægt að víðtæk pólitísk samstaða náist um stjórnarskrárbreytingar.
Fram til þessa hafa stjórnvöld leitast við að ná þverpólitískri samstöðu um stjórnarskrárbreytingar. Það var til dæmis gert þegar ráðist var í endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995, undir forystu Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Sú ríkisstjórn sem nú hefur boðað umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni hefur ekki haft neitt samráð um þær breytingar við Sjálfstæðisflokkinn og þar með ekki sýnt nokkra viðleitni í þá átt að um þær náist samstaða. Hvers vegna veit ég ekki, því Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið reiðubúinn til viðræðna um endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Sú staðreynd að áformað sé að gera breytingar á stjórnarskránni á ljóshraða ber þess heldur ekki merki að ríkisstjórnin ætli sér að umgangast hana af þeirri ábyrgð sem Össur Skarphéðinsson, ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem nú hefur þessi áform uppi, hvatti til í árslok árið 2007.
Sjálfur trúi ég því ekki að ríkisstjórninni sé alvara að ætla sér að breyta stjórnarskránni í svo veigamiklum þáttum á svo skömmum tíma. Í slíkri vinnu verða stjórnmálamenn að sýna þá ábyrgð og þann þroska að ganga hægt um gleðinnar dyr og vanda til verka.
Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga", eins og Ögmundur Jónasson sagði í ræðu sinni sem hér hefur verið vitnað til.
Samráðherrar Ögmundar í ríkisstjórninni ættu að hafa orð hans frá árinu 2007 í huga áður en þeir taka frekari ákvarðanir.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Látnir taka pokann sinn
Í dag sögðu þeir Valur Valsson, stjórnarformaður Nýja Glitnis hf., og Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður Nýja Kaupþings hf., af sér.
Þar með bætast þeir á lista þeirra sem þurft hafa að taka pokann sinn í kjölfar stjórnarskipta, lista sem sífellt lengist.
Valur Valsson og Magnús Gunnarsson voru skipaðir formenn stjórna þessara tveggja banka í kjölfar bankahrunsins. Undir þeirra stjórn átti að endurreisa bankana tvo, en til þeirra var leitað vegna yfirgripsmikillar reynslu þeirra og þekkingar á bankarekstri, en báðir eiga þeir að baki farsælan feril á bankamarkaði.
Þó svo að þeir Valur og Magnús hafi sjálfir sagt upp störfum þarf engum að dyljast að frumkvæðið að uppsögnum þeirra kemur ekki frá þeim sjálfum heldur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þó svo að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi reynt að láta í annað sé látið skína í fjölmiðlum.
Í frétt um málið á vef Ríkisútvarpsins í dag sagði:
,,Í samtali við fréttastofu sagði Valur að ákvörðunin væri ekki beinlínis tekin að beiðni stjórnvalda. Hann segði af sér til að skapa frið til þeirra mannabreytinga sem ríkisstjórnin kysi að gera á stjórnum bankanna. Valur og Magnús ræddu við Steingrím J. Sigfússon í fjármálaráðuneytinu á föstudag. Þeir sendu Steingrími afsagnarbréf í dag."
Af fréttinni að dæma virðist ljóst að þó svo að ákvörðun Vals og Magnúsar hafi ekki beinlínis verið tekin að beiðni stjórnvalda hafi þau haft mikið með hana að gera.
Hins vegar hefur ekkert komið fram um að yfirmenn þessara manna hafi haft nokkuð út á störf þeirra að setja heldur virðast önnur sjónarmið hafa ráðið þar för.
Því verður ekki neitað að sú óþægilega hugsun læðist að manni að nú hugsi forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sér gott til glóðarinnar og ætli sér að nýta bankana sem valdatæki og að afskipti stjórnmálamanna af málefnum bankanna verði nú meiri en við höfum áður séð.
Miðvikudaginn 4. febrúar síðastliðinn birti Morgunblaðið grein eftir mig undir fyrirsögninni ,,Þetta eru verkefnin", en hún er einnig birt á þessari síðu. Í greininni tiltók ég átta verkefni sem ég tel mikilvægast að ríkisstjórnin ráðist í fram að kosningum til þess að bregðast við þeim alvarlegu aðstæðum sem uppi eru í þjóðfélaginu.
Eitt af þessum brýnu verkefnum sem ég nefndi varðar endurreisn bankanna. Um hana sagði ég:
,,1. Endurreisn bankanna. Eitt mikilvægasta verkefnið nú er að endurreisa bankana. Virki bankakerfið ekki, mun atvinnulífið ekki ná sér á strik á nýjan leik. Tryggja þarf að endurmat á eignum bankanna og samningar við kröfuhafa gömlu bankanna um greiðslur fyrir eignir nýju bankanna umfram yfirteknar skuldir þeirra gangi skjótt fyrir sig. Ríkið getur þá loksins lagt þeim til eigið fé og starfsemi þeirra komist í eðlilegt horf. Atvinnulífið í landinu getur ekki án skilvirks bankakerfis verið. Gangi endurreisn bankanna ekki hratt og vel fyrir sig mun það hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið. Samhliða þessu þarf að kanna hvort skynsamlegt sé að grípa til sameiningar á bankamarkaði til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu."
Ég óttast að ríkisstjórnin hafi hlaupið illilega á sig með ákvörðun sinni um að láta Val Valsson og Magnús Gunnarsson víkja sem stjórnarformenn bankanna.
Að öllum líkum mun hún hafa þær afleiðingar að veruleg töf verði á hinni nauðsynlegu endurreisn bankanna. Það segir sig auðvitað sjálft að væntanlegir stjórnarformenn bankanna munu þurfa tíma til þess að setja sig inn í rekstur og málefni bankanna tveggja og til að marka stefnu um framtíð endurreisnarinnar.
Við þeirri töf sem fyrirsjáanleg er mega fólkið í landinu og fyrirtækin ekki við.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 6. febrúar 2009
Rýrt í roðinu
Um leið og ég óska Jóhönnu Sigurðardóttur til hamingju með að vera fyrsta konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá verkefnaskrá sem minnihlutastjórnin hefur kynnt.
Það sem veldur vonbrigðum er að eftir vikulanga fundalotu forystumanna stjórnarflokkanna, sem í fjölmiðlum var sögð ganga eins og í sögu, hafi afurðin ekki verið merkilegri en raun ber vitni. Verkefnaskrá þessarar ríkisstjórnar er svo rýr í roðinu að leita þarf langt aftur í stjórnmálasöguna til þess að finna hliðstæðu. Hún er í heild svo almennt orðuð að erfitt er að festa hendur á hver stefna nýrrar ríkisstjórnar er í mörgum af mikilvægustu málaflokkum þjóðarinnar.
Í verkefnaskrá minnihlutastjórnarinnar segir;
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.
- Ekkert um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna, þrátt fyrir að yfir íslenska ríkinu vofi krafa að fjárhæð 700 milljörðum íslenskra króna.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum.
- Ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, annað en það að Evrópunefnd skili skýrslu fyrir 15. apríl næstkomandi.
Nefna mætti fleiri málaflokka þar sem hin nýja ríkisstjórn skilar auðu og hefur enga yfirlýsta stefnu. Það dylst hins vegar engum að þessi verkefnaskrá er ekki gæfulegt veganesti fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum vekur auðvitað sérstaka athygli ekki síst í ljósi þess að í ríkisstjórnarsamstarfi okkar sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar lagði Samfylkingin ofuráherslu á Evrópumálin. Svo langt var gengið að formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir að breytti Sjálfstæðisflokkurinn ekki stefnu sinni í Evrópumálum væri ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt.
En nú virðast Evrópumálin hafa gufað upp í hugum Samfylkingarfólks og verið tekin af dagskrá.
Einu atriði í þessari verkefnaskrá vil ég þó fagna sérstaklega. Verkefnaskráin ber það nefnilega með sér að Vinstri grænir hafi kúvent stefnu sinni í stóriðjumálum. Í verkefnaskránni segir að engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Þá yfirlýsingu er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni halda áfram vinnu við þau verkefni sem þegar eru áformuð og varða uppbyggingu stóriðju í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Í því felast auðvitað mikil tíðindi þegar hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar forystumanna Vinstri grænna um þessar framkvæmdir.
Að öðru leyti sýnir verkefnaskrá hinar nýju ríkisstjórnar svart á hvítu að núverandi stjórnarflokkar hafa í raun ekki getað komið sér saman um neitt annað en völd.
Sú staðreynd er auðvitað afleit við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Grein þessi birtist í Fréttablaðinu í dag.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 4. febrúar 2009
Þetta eru verkefnin
Það eru miklir umbrotatímar í íslenskum stjórnmálum. Óvissa síðustu daga og vikna hefur verið afar óheppileg við þær alvarlegu aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu. Þó liggur fyrir að gengið verður til alþingiskosninga í lok apríl.
Miklu máli skiptir að tíminn fram að kosningum verði vel nýttur til þess að vinna að þeim verkefnum sem við blasa og þarfnast nauðsynlega úrlausnar. Nú ríður á að stjórnmálamenn sýni þann þroska og ábyrgð að láta þau pólitísku átök sem eru samfara alþingiskosningum ekki hafa þær afleiðingar að sú efnahagskreppa sem herjar á okkur standi ekki lengur en hún hefði annars gert. Á því brenndu Finnar sig þegar þeir glímdu við efnahagskreppu samhliða stjórnarmálakreppu með skelfilegum afleiðingum fyrir finnsku þjóðina.
Ég hvet því stjórnvöld til þess að ráðast strax í eftirfarandi aðgerðir:
1. Endurreisn bankanna. Eitt mikilvægasta verkefnið nú er að endurreisa bankana. Virki bankakerfið ekki, mun atvinnulífið ekki ná sér á strik á nýjan leik. Tryggja þarf að endurmat á eignum bankanna og samningar við kröfuhafa gömlu bankanna um greiðslur fyrir eignir nýju bankanna umfram yfirteknar skuldir þeirra gangi skjótt fyrir sig. Ríkið getur þá loksins lagt þeim til eigið fé og starfsemi þeirra komist í eðlilegt horf. Atvinnulífið í landinu getur ekki án skilvirks bankakerfis verið. Gangi endurreisn bankanna ekki hratt og vel fyrir sig mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið. Samhliða þessu þarf að kanna hvort skynsamlegt sé að grípa til sameiningar á bankamarkaði til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu.
2. Icesave. Nýr utanríkisráðherra þarf að endurskoða stefnumörkun og aðgerðir vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna. Í því máli verður að verjast af fullri hörku. Til þess er nauðsynlegt að leitað verði liðsinnis erlendra sérfræðinga og erlendra samningamanna sem hafa reynslu af samningaviðræðum sem þessum. Það er ekki valkostur að skuldbinda íslenska ríkið og kynslóðir framtíðarinnar um allt að 700 milljarða króna. Undir slíkri skuldsetningu geta kynslóðir framtíðarinnar ekki staðið. Ég tel að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að skuldsetja framtíð barna okkar og barnabarna með þeim hætti. Það verður að koma í veg fyrir að það verði gert.
3. Gjaldmiðillinn. Marka þarf skýra framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum á Íslandi. Fólkið og fyrirtækin eiga heimtingu á því að vita hvert stefnir í gjaldmiðilsmálum. Í dag ríkir mikil óvissa um það. Íslenska krónan hefur reynst okkur fjötur um fót og á það höfum við verið óþyrmilega minnt á síðustu mánuðum. Forðast ber í lengstu lög að draga á lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að verja gengi krónunnar. Með því er hætt við að lánsféð brenni á heitu báli, en eftir sitji komandi kynslóðir með óbærilegan skuldaklafa á bakinu til langrar framtíðar. Mikilvægt er að stjórnvöld fái færustu sérfræðinga sem völ er á til þess að skoða með markvissum hætti þá valkosti sem bjóðast í gjaldmiðilsmálum, einkum einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi samhliða öðrum kostum. Að þeirri skoðun lokinni ættum við að vera í stakk búin til þess að taka ákvörðun um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála á Íslandi.
4. Niðurskurður ríkisútgjalda. Ríkissjóður, sem á undanförnum árum hefur verið rekinn með afgangi, er nú rekinn með gríðarlegum halla, eða 160 milljörðum króna. Þegar tekjur dragast saman þarf að draga úr útgjöldum. Það lögmál gildir alveg jafnt um rekstur ríkisins eins og annan rekstur. Menn verða að sníða sér stakk eftir vexti og því verður að skera myndarlega niður svo endar nái saman. Um slíkan niðurskurð þarf að ríkja sátt í samfélaginu. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Öll ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki á vegum ríksins munu þurfa að missa spón úr aski sínum. Sumar stofnanir þarf að leggja niður eða sameina og verkefnum þarf að slá á frest. Slíkar niðurskurðaraðgerðir eru sársaukafullar, en afar nauðsynlegar, enda er mælt fyrir um þær í samkomulaginu viðAlþjóðagjaldeyrissjóðinn. Verði ekki í þær ráðist mun hallarekstur okkar kynslóða skella á komandi kynslóðum. Slíkt er óverjandi.
5. Atvinnusköpun. Aukin atvinnusköpun hefur líklega aldrei verið mikilvægari en nú. Þúsundir mann hafa misst atvinnuna. Við slíkar aðstæður verða stjórnvöld að kappkosta að skapa grundvöll fyrir atvinnuuppbyggingu á öllum sviðum. Til þess verður að nýta þær auðlindir sem landið hefur uppá að bjóða til lands og sjávar. Útflutningsgreinar þjóðarinnar munu gegna lykilhlutverki við að afla þjóðabúinu tekna. Þær þarf að vernda. Auka þarf framleiðslu og leita leiða til að efla erlenda fjárfestingu í landinu. Ennfremur þarf að virkja þann sköpunarkraft sem býr í fólkinu í landinu og efla nýsköpun til nýrrar atvinnusóknar á öllum sviðum. Hlúa þarf að sprotafyrirtækjum og auðvelda framtakssömu fólki að stofna fyrirtæki um hugmyndir sínar.
6. Vernd heimilanna. Það er eðlilegt að við núverandi aðstæður að fólk óttist um framtíð sína. Eignir fólks, t.d. í fasteignum, rýrna. Á sama tíma hafa margir misst vinnuna eða lækkað í launum. Kaupmáttur hefur dregist saman og greiðslugeta fólks minnkað. Við slíkar aðstæður þarf að leita allra leiða til þess að tryggja að fjölskyldurnar í landinu missi ekki heimili sín til viðbótar við önnur vandamál sem þær þurfa að takast á við. Það mætti gera með einfaldri lagasetningu þar sem kveðið yrði á um að íbúðarhúsnæði fólks verði ekki boðið upp á nauðungaruppboðum í tiltekinn tíma, að minnsta kosti meðan mestu efnahagslegu ófarirnar ganga yfir. Slík aðgerð ætti að slá á ótta fjölskyldna við að missa heimili sín.
7. Lækkun vaxta. Vextir á Íslandi eru með þeim hæstu sem þekkjast eða 18%. Á sama tíma eru stýrivextir í Evrópu um 3% en 0% í Bandaríkjunum. Heimilin í landinu þola ekki þessi vaxtakjör. Það gera fyrirtækin ekki heldur. Með gildandi gjaldeyrishöftum voru gríðarlegar hömlur settar á flutning fjármagns úr landi. Að sama skapi var þeim sem afla sér tekna erlendis gert skylt að flytja fjármuni sína til Íslands að viðlagðri refsiábyrgð. Við slíkar aðstæður er allt að því ómögulegt að rökstyðja hvers vegna stýrivextir eru svo háir. Rökréttara væri að þeir væru afar lágir. Ég tel að ráðast þurfi í myndarlegar vaxtalækkanir án tafar, til þess að verja heimilin og atvinnustarfsemi í landinu. Verði það ekki gert munu fleiri fyrirtæki leggja upp laupana og atvinnuleysi aukast.
8. Endurskapa þarf traust í samfélaginu. Það vantraust sem nú ríkir milli almennings og stjórnvalda gengur ekki til lengdar. Sú ákvörðun um að boða til kosninga er vonandi til þess fallin að endurskapa það traust sem ríkja þarf. Samhliða þarf að ráðast í endurskipulagningu á íslenska stjórnkerfinu í heild sinni og aðlaga það að breyttum aðstæðum, nýjum veruleika. Upplýsa þarf almenning reglulega um gang þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni. Ekki síst þarf að upplýsa reglulega um gang rannsóknar á aðdraganda og orsökum falls bankanna sem nú er hafin á vegum sérstakrar rannsóknarnefndar. Slíkt gagnsæi og regluleg og markviss upplýsingagjöf um gang einstakra verkefna sem unnið er að hverju sinni ætti að endurskapa það traust sem glatast hefur á undanförnum vikum og mánuðum.
Þetta eru verkefnin sem ráðast þarf í. Fleiri verkefni mætti nefna, en þessi eru mikilvægust. Verði ekki í þau ráðist er viðbúið að sú kreppa sem nú herjar á okkur muni framlengjast og dýpka.
Það skiptir öllu máli fyrir endurreisn efnahagslífsins, hagsmuni almennings í landinu, atvinnulífsins og komandi kynslóða að stjórnmálamenn missi ekki sjónar á þessum brýnu verkefnum sem bíða úrlausnar meðan á kosningabaráttu stendur. Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil. Þeim ber skylda til að setja þjóðarhag framar eigin hagsmunum og flokka sinna og ráðast í þær aðgerðir sem hér hafa verið nefndar.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 4. febrúar 2009
,,Verkstjórn" í molum
Eins og ég rakti í síðasta pistli mínum gekk fyrsti virki vinnudagur minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki beint eins og forsvarsmenn hennar hefðu óskað sér. Raunar voru yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar og þeirra þingmanna sem heitið hafa henni stuðningi svo misvísandi að halda hefði mátt að fleiri en ein minnihlutastjórn væri við völd í landinu.
Maður hefði haldið að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði notað fyrsta fund ríkisstjórnarinnar á þriðjudag til að hrista liðið saman eftir þessi ósköp á mánudag.
Eitthvað virðist ,,verkstjórnin" hafa farið forgörðum hjá Jóhönnu á ríkisstjórnarfundinum því að strax að honum loknum hófust voru þeir sem að þessari stjórn standa komnir aftur í hár saman.
Eins og ég hef rakið sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, í fréttum Stöðvar 2 í gær að ákvæði í stjórnarsáttmála um engin ný álversáform hefðu hvorki áhrif á álver í Helguvík né undirbúning álvers á Bakka við Húsavík. Þar stakk hann upp í Kolrúnu Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, sem sagði í fréttum Ríkisútvarpsins þann sama dag að álverið á Bakka væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.
Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag sagði Birki Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins sem hefur lofað því að verja stjórnina vantrausti, að hann myndi aldrei verja ríkisstjórn sem reyndi að koma í veg fyrir að álver risi á Bakka við Húsavík og bætti því við að yfirlýsingar Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, um álver á Bakka væru út í hött. Framsóknarmenn væru ósáttir við ummæli umhverfisráðherrans, enda mjög brýnt að auka verðmætasköpun í samélaginu og takast á við samdrátt og atvinnuleysi.
Þessi yfirlýsing hlýtur að vekja upp spurningar um hvort Framsóknarflokkurinn sé farinn sjá eftir því að hafa leitt þessa vinstri stjórn til valda.
En þá er ekki öll sagan sögð. Í dag kom fram í fjölmiðlum að Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, ætlar ekki að láta þessa túlkun iðnaðarráðherrans á ákvæðum stjórnarsáttmálanum yfir sig ganga. Hún sagðist býsna brött ráða, en ekki iðnaðarráðherrann, þegar kæmi að því að túlka ákvæði stjórnarsáttmálans um ný álver.
Í kjölfarið hjó Jóhanna Sigurðardóttir á hnútinn og sagði túlkun Össurar rétta.
Það verður því ekki betur séð en að Kolbrún Halldórsdóttir sé búin að mála sig út í horn gagnvart forsætisráðherranum, strax á þriðja starfsdegi þessarar stjórnar.
En það loga eldar víða.
Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram að Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er ósátt við hugmyndir Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra, um að breyta ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um að heimila hvalveiðar.
Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði Siv það vera mjög sérstakt ef Steingrímur J. ætlaði að skapa óvissu um málið. Geri Steingrímur J. alvöru úr fyrirætlunum sínum vill Siv að kölluð verði fram afdráttarlaus afstaða Alþingis til hvalveiða og telur að þar innandyra sé afdráttarlaus stuðningur við hvalveiðar. Þingið gæti samþykkt tillögu samhljóða ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sem núverandi sjávarútvegsráðherra yrði að fara eftir.
Ég tel einboðið að láti Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, sér detta til hugar að afturkalla ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar við Íslands muni Alþingi taka fram fyrir hendur ráðherrans. Gegn slíkri ákvörðun mun Steingrímur J. eiga erfitt með að fara.
Eins og ég hef áður sagt þá virðast þeir flokkar sem standa að þessari minnihlutastjórn, þ.e. Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur, vera sammála um fátt annað en völd.
Fyrstu dagar þessarar ríkisstjórnar virðast að minnsta kosti ekki benda til þess að hún verði langlíf, hvað þá afkastamikil.
Að minnsta kosti virðist ,,verkstjórnin" vera í molum.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 2. febrúar 2009
Ekki byrjar það vel!
Ekki eru fyrstu skref minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna gæfuleg.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur boðað það sem hann ætli að endurskoða skattkerfið. Bleik er illa brugðið ef hinn nýji fjármálaráðherra notar ekki tækifærið eins og vinstrimanna er siður með því að láta sverfa til stáls gegn fólkinu í landinu með skattahækkunum.
Sjávarútvegsráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, hefur líka boðað að hann ætli sér að endurskoða allar ákvarðanir Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um úthlutun aflaheimilda, þ.á.m. vegna hvalveiða, en Steingrímur og aðrir forsvarsmenn minnihlutastjórnarinnar hafa haft uppi miklar heitstrengingar um að snúa þeirri ákvörðun við. Skagamaðurinn Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og verðandi forseti Alþingis, lýsti því yfir í fjölmiðlum í dag að hann vilji að ákvörðun Einars K. um að leyfa hvalveiðar standi óbreytt.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur sagt að þau viðfangsefni sem hans bíða í viðskiptaráðuneytinu séu gríðarleg umfangsmikil og að óteljandi verkefni bíði úrlausnar. Í því felast ekki sérlega góð meðmæli með fyrirrennara hans í starfi, Björgvin G. Sigurðssyni.
Kolrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að framkvæmdir við álver á Bakka við Húsavík væru ekki á dagskrá minnihlutastjórnarinnar. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 fyrri áform um uppbyggingu álvers við Bakka séu enn í gildi, enda sé í gildi samkomulag milli ríkisstjórnarinnar, Alcoa og Norðurþings. Ákvæði í verkefnaskrá minnihlutastjórnarinnar eigi því hvorki við um álver í Helguvík né á Bakka.
Allt er þetta með miklum ólíkindum.
Það óhætt að segja að fyrsti dagur nýrrar ríkisstjórnar byrji ekki vel!
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mánudagur, 2. febrúar 2009
Hafa skal það sem sannara reynist!
Það var með algjörum ólíkindum að fylgjast með Jóhönnu Sigurðardóttur, nýjum forsætisráðherra minnihlutastjórnarinnar, lýsa því yfir í fjölmiðlum í gær að vegna seinagangs ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi frumvarp um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun ekki náð fram að ganga í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ætlaði sér hins vegar að bæta úr þessu meinta sleifarlagi Sjálfstæðisflokksins.
Þessar ásakanir Jóhönnu Sigurðardóttur í garð fyrrum ráðherra og þingflokks Sjálfstæðisflokksins eru rangar. Raunar eru yfirlýsingar forsætisráðherrans svo fráleitar að það er ekki hægt að sitja undir þeim.
x x x
Staðreyndin er sú að við sjálfstæðismenn lögðum í tíð fráfarandi ríkisstjórnar gríðarlega mikla áherslu á að frumvarp um greiðsluaðlögun næði fram að ganga enda töldum við þá og teljum enn að það feli í sér mikilvægar aðgerðir í þágu þeirra einstaklinga sem glíma við greiðsluerfiðleika á þessum erfiðu tímum.
Þess vegna lagði fráfarandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, frumvarp þessa efnis í þávarandi ríkisstjórn Íslands. Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn, þó Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið í fararbroddi þeirra ráðherra Samfylkingarinnar sem tregastir voru í taumi.
Frumvarpið var hins vegar tekið í gíslingu í þingflokki Samfylkingarinnar og aldrei afgreitt þaðan út til Alþingis. Á því höfum við sjálfstæðismenn aldrei fengið neinar skýringar. Það var hins vegar samþykkt í byrjun janúar úr þingflokki okkar sjálfstæðismanna, fullbúið til afgreiðslu á Alþingi til hagsbóta fyrir almenning í landinu sem nú á í greiðsluerfiðleikum.
x x x
Frumvarpið liggur hins vegar fullbúið fyrir og þess vegna tók þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þá ákvörðun á þingflokksfundi sínum í dag að leggja málið fram á Alþingi um leið og þing kemur saman á ný eftir stjórnarskiptin, þ.e. sama frumvarp og þingflokkur Samfylkingarinnar tók í gíslingu fyrir áramót. Þessa ákvörðun okkar kynntu fulltrúar okkar á blaðamannafundi nú síðdegis.
Þar kom eftirfarandi meðal annars fram:
1. Frumvarpið var afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins í janúar og einnig lagt fyrir þingflokk Samfylkingarinnar en var ekki afgreitt þaðan.
2. Í frumvarpinu felst að málsmeðferð verður einfölduð þegar einstaklingur óskar nauðungasamninga við kröfuhafa sína.
3. Frumvarpið mælir fyrir um að við þriðja þátt laganna verði bætt nýjum kafla sem ber heitið ,,Skuldaaðlögun" - þar sem gert er ráð fyrir því að skuldari geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum leitað nauðasamnings til skuldaaðlögunar.
4. Framvarpið hefur það að markmiði að greiða fyrir því að raunhæf úrræði standi til boða fyrir eisntaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur undanfarin þrjú ár og ljóst er að um fyrirséða framtíð muni ekki geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar.
Það verður fróðlegt að bera saman það frumvarp sem minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hyggjast leggja fram um þessi sömu úrræði.
Þá er ekki síður nauðsynlegt að skýringar fáist á því frá Jóhönnu Sigurðardóttur og öðrum forsvarsmönnum Samfylkingarinnar hvers vegna frumvarp það sem við sjálfstæðismenn höfum nú ákveðið að leggja fram var kæft í þingflokki Samfylkingarinnar.
x x x
Samhliða því frumvarpi sem að ofan greinir kynnti þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í dag að við myndum leggja fram annað mikilvægt frumvarp sem einnig dagaði uppi í höndum ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að samkomuleg hefði náðst við Samfylkinguna um að málið yrði lagt fram hið fyrsta.
Það frumvarp varðar heimildir einstaklinga til að taka úr séreignasparnað sinn til greiðslu veðskulda og annarra skulda.
Í stuttu máli má segja eftirfarandi um það frumvarp:
1. Það var fullsamið og tilbúið í fjármálaeftirlitinu í síðustu viku.
2. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að greiða út séreignasparnað verði eftir því óskað til greiðslu veðskulda og annarra skulda.
3. Í því sambandi gerir frumvarpið ráð fyrir að húsnæðis- og veðskuldabréf hafi forgang.
4. Vörsluaðili sjái um greiðslu og heldur eftir tekjurskattsgreiðslum og sér um að standa skil á þeim við ríkissjóð.
5. Ljóst er að frumvarpið myndi létta verulega undir með fólki sem á í greiðsluerfiðleikum þar sem með lagabreytingunni gæti það varið sparnaði sínum, sem að óbreyttu væri bundinn í séreignasjóði, til greiðslu á lánum.
x x x
Þau frumvörp sem ég hef hér nefnt og lögð verða fram um leið og þing kemur saman á ný eftir stjórnarskipti eru afar brýn og fela í sér mikilvægar aðgerðir í þágu einstaklinga og heimila á erfiðum tímum.
Hins vegar á eftir að koma í ljós hvort hin nýja minnihlutastjórn og þeir flokkar sem að henni standa muni taka það í mál að frumvörpin verði afgreidd sem lög frá Alþingi.
Ef eitthvað er að marka forsvarsmenn minnihlutastjórnarinnar um að hún hyggist slá skjaldborg um heimilin í landinu er einboðið frumvörpin verði samþykkt.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh