,,Verkstjórn" í molum

Eins og ég rakti í síðasta pistli mínum gekk fyrsti virki vinnudagur minnihlutastjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki beint eins og forsvarsmenn hennar hefðu óskað sér.  Raunar voru yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar og þeirra þingmanna sem heitið hafa henni stuðningi svo misvísandi að halda hefði mátt að fleiri en ein minnihlutastjórn væri við völd í landinu.

Maður hefði haldið að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði notað fyrsta fund ríkisstjórnarinnar á þriðjudag til að hrista liðið saman eftir þessi ósköp á mánudag.

Eitthvað virðist ,,verkstjórnin" hafa farið forgörðum hjá Jóhönnu á ríkisstjórnarfundinum því að strax að honum loknum hófust voru þeir sem að þessari stjórn standa komnir aftur í hár saman.

Eins og ég hef rakið sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, í fréttum Stöðvar 2 í gær að ákvæði í stjórnarsáttmála um engin ný álversáform hefðu hvorki áhrif á álver í Helguvík né undirbúning álvers á Bakka við Húsavík.  Þar stakk hann upp í Kolrúnu Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, sem sagði í fréttum Ríkisútvarpsins þann sama dag að álverið á Bakka væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag sagði Birki Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins sem hefur lofað því að verja stjórnina vantrausti, að hann myndi aldrei verja ríkisstjórn sem reyndi að koma í veg fyrir að álver risi á Bakka við Húsavík og bætti því við að yfirlýsingar Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, um álver á Bakka væru út í hött.  Framsóknarmenn væru ósáttir við ummæli umhverfisráðherrans, enda mjög brýnt að auka verðmætasköpun í samélaginu og takast á við samdrátt og atvinnuleysi.

Þessi yfirlýsing hlýtur að vekja upp spurningar um hvort Framsóknarflokkurinn sé farinn sjá eftir því að hafa leitt þessa vinstri stjórn til valda.

En þá er ekki öll sagan sögð.  Í dag kom fram í fjölmiðlum að Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, ætlar ekki að láta þessa túlkun iðnaðarráðherrans á ákvæðum stjórnarsáttmálanum yfir sig ganga.  Hún sagðist býsna brött ráða, en ekki iðnaðarráðherrann, þegar kæmi að því að túlka ákvæði stjórnarsáttmálans um ný álver.

Í kjölfarið hjó Jóhanna Sigurðardóttir á hnútinn og sagði túlkun Össurar rétta.

Það verður því ekki betur séð en að Kolbrún Halldórsdóttir sé búin að mála sig út í horn gagnvart forsætisráðherranum, strax á þriðja starfsdegi þessarar stjórnar.

En það loga eldar víða.

Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram að Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, er ósátt við hugmyndir Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra, um að breyta ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um að heimila hvalveiðar.

Í fréttum Ríkisútvarpsins sagði Siv það vera mjög sérstakt ef Steingrímur J. ætlaði að skapa óvissu um málið.  Geri Steingrímur J. alvöru úr fyrirætlunum sínum vill Siv að kölluð verði fram afdráttarlaus afstaða Alþingis til hvalveiða og telur að þar innandyra sé afdráttarlaus stuðningur við hvalveiðar.  Þingið gæti samþykkt tillögu samhljóða ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sem núverandi sjávarútvegsráðherra yrði að fara eftir.

Ég tel einboðið að láti Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, sér detta til hugar að afturkalla ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar við Íslands muni Alþingi taka fram fyrir hendur ráðherrans.  Gegn slíkri ákvörðun mun Steingrímur J. eiga erfitt með að fara.

Eins og ég hef áður sagt þá virðast þeir flokkar sem standa að þessari minnihlutastjórn, þ.e. Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur, vera sammála um fátt annað en völd.

Fyrstu dagar þessarar ríkisstjórnar virðast að minnsta kosti ekki benda til þess að hún verði langlíf, hvað þá afkastamikil.

Að minnsta kosti virðist ,,verkstjórnin" vera í molum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Upplýsandi og frábær pistill frá þér Sigurður Kári - Einnig skilaðir þú þínu mjög vel í Kastljósinu í kvöld - það hefði verið betra fyrir Árna Pál að vera - HEIMA!

Það er mjög mikilvægt að fá svona upplýsandi frásögn úr Þinginu - það er hvergi annarsstaðar að finna.

Þú heldur svona skrifum áfram er það ekki ?- MIKILVÆGT!

Benedikta E, 4.2.2009 kl. 01:23

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Já Benedikta, það eina sem vantaði hjá Sigurði Kára í Kastljósinu var að gangast við því að núverandi ástand er að mestu leyti á hans ábyrgð og samflokksmanna hans.

Ég er alinn upp við að óttast of vinstri sinnaða stjórn - að þá færi allt til fjandans. Nú er allt farið til fjandans eftir langvarandi íhaldsstjórn. Hvað gerum við þá?

En ég er sammála því Sigurður Kári að það er hreint ömurlegt að Samfylkingin skuli svo gjörsamlega taktlaus að stökkva strax til í nýja stjórn. Þjóðin vildi hana frá líka. Eina raunverulega lausnin á að vera að setja á neyðarstjórn fram að kosningum. Engum núverandi flokka er treystandi til verksins á sama tíma og kosningabarátta stendur yfir með tilheyrandi lofsöng og loforðum.

Baldvin Jónsson, 4.2.2009 kl. 01:39

3 Smámynd: Neddi

Smá athugasemd um álverin. Össur og Kolbrún hafa bæði rétt fyrir sér.

Stjórnarsáttmálinn hefur ekki áhrif á álver á Bakka því Alcoa er með framkvæmdir á ís vegna ástandsins. Þar af leiðandi er það álver ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

Neddi, 4.2.2009 kl. 12:50

4 identicon

æ æ... á ég að kalla á vælubílinn??

 eða kannski bara líkistubílinn fyrir þig og þinn flokk?

eyþór jóvinsson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband