Landið eitt kjördæmi?

Nú liggur fyrir hvaða 25 frambjóðendur náðu kjöri í kosningum til stjórnlagaþings sem einungis 35,95% atkvæðisbærra manna tók þátt í.

22 kjörinna þingfulltrúa eru af höfuðborgarsvæðinu eða 88%.

Einungis þrír þeirra eða 12% koma af landsbyggðinni, Ari Teitsson, bóndi úr Þingeyjarsveit, Dögg Harðardóttir, deildarstjóri á Akureyri, og Erlingur Sigurðarson, forstöðumaður og kennari frá Akureyri.

Þegar þessar niðurstöður liggja fyrir hljóta að vakna upp spurningar hversu skynsamlegt það er að gera landið að einu kjördæmi.

Ég er ekki viss um að landsbyggðarfólk sé spennt fyrir þeirri hugmynd þegar þessar niðurstöður liggja fyrir.

Sigurður Kári.


36,77%

Ég sé að ég var fullbjartsýnn í gær þegar ég sagði að kjörsókn í kosningunum til stjórnlagaþings hefði verið 40%.

Nú liggur niðurstaðan fyrir.

36,77%.

Sú minnsta á landsvísu í um 100 ár.

Ég held að það sé ekki lengur hægt að tala um að afleit kjörsókn hljóti að fela í sér veruleg vonbrigði fyrir aðstandendur kosninganna og helstu hvatamenn hennar, þar á meðal Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem lagði mikið undir í málinu.

Nær væri að tala um áfall.

Mér fannst ekki maklegt hjá Guðrúnu Pétursdóttur, formanni stjórnlaganefndar, að tala niður til fólks og útskýra dræma kosningaþátttöku í hádegisfréttum RÚV með því að almenningur hefði ekki skilið mikilvægi kosninganna og þess vegna ekki tekið þátt.

Skömmu áður, í sama viðtali, varaði Guðrún við því dregnar væru of víðtækar ályktanir af lítilli kjörsókn, en gerði það síðan sjálf með þessum hætti.

Það er í mínum huga engin ástæða til þess að tala til þjóðarinnar með slíku yfirlæti.  Ég held að þjóðin hafi alveg skilið um hvað þessar kosningar snérust og gert sér fulla grein fyrir þýðingu þeirra.

Þjóðin var bara ekki spenntari fyrir kosningunum til stjórnlagaþings en þetta.

Niðurstaðan er sú að umboð stjórnlagaþingsins verður miklu veikara en lagt var upp með í upphafi.

Það blasir við.

Sigurður Kári.


40%

Ég dreif mig á kjörstað í dag og kaus til stjórnlagaþings.  Það var heldur fámennt í Hagaskólanum þegar ég kaus um miðjan dag.

Nú er kosningunum lokið og fyrir liggur að kjörsókn var afar dræm eða aðeins í kringum 40%, ef hún þá nær því.

Svo lítil kosningaþátttaka hlýtur að valda þeim sem börðust fyrir því að boðað yrði til stjórnlagaþings verulegum vonbrigðum.

Það er sama hvaða mælikvarðar eru notaðir, alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar eða forsetakosningar, niðurstaðan verður alltaf sú að kjörsókn hafi verið afleit, enda sú minnsta í manna minnum.

Ég tók eftir því að í aðdraganda kosninganna báru menn kjörsókn saman við kjörsóknina í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave.

Í Icesave-kosningunum tóku 63% atkvæðisbærra manna í landinu þátt, ef ég man rétt, þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og fleiri ráðamenn þjóðarinnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðsluna, m.a. með því að lýsa hana marklausa og mæta ekki á kjörstað.

Það sama var ekki uppi á teningnum nú.  Ráðamenn gerðu allt til að reka fólk á kjörstað, Ríkisútvarpið var undirlagt í umfjöllun um kosningarnar og í allan dag hefur maður gengið undir manns hönd til að reyna að glæða kosningaþátttökuna.

En allt kom fyrir ekki.

Áhugi landsmanna var ekki meiri en þetta.

Þrátt fyrir afleita kjörsókn verður boðað til stjórnlagaþings.  Umboð þess verður hins vegar veikara en lagt var upp með vegna þess hversu fáir tóku þátt í kosningunum.

Það verður síðan fróðlegt að sjá hvaða frambjóðendur ná kjöri á stjórnlagaþingið.  Það verður ekki síður spennandi að sjá hvernig kynjaskipting kjörinna fulltrúa verður og sömuleiðis skiptingin milli fulltrúa landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Ég held að sú niðurstaða muni ráða miklu um afstöðu fólks til persónukjörs sem kosningafyrirkomulags hér á landi.

Sigurður Kári.


Landsdómsmálið

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, hefur aldrei haft fyrir því að útskýra fyrir Alþingi hvers vegna hann greiddi atkvæði með því að ákæra skyldi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, draga hann fyrir landsdóm og krefjast þess að hann yrði látinn sæta refsingu, sektum eða fangelsi.  Ögmundur sagði ekki eitt aukatekið orð í umræðum um ákærutillöguna á Alþingi og gerði ekki grein fyrir atkvæði sínu þegar hann fékk tækifæri til þess við atkvæðagreiðsluna.

Sjaldan hefur jafn lítið farið fyrir Ögmundi og í umræðum um landsdómsmálið, en á löngum þingferli sínum hefur hann sjaldan látið vera að leggja eitthvað til mála, stórra sem smárra.  Það þekkist líklega hvergi að dómsmála- og mannréttindaráðherra þjóðríkis þegi þunnu hljóði í aðdraganda þess að boðað er til pólitískra réttarhalda.

Ögmundur vaknar til lífsins

Þótt Ögmundur skuldi Alþingi, þjóðinni og þeim ákærða skýringar, virðist hann nú vera að vakna til lífsins og hefur lagt fram frumvarp til breytinga á landsdómslögum.  Nú skal þess freistað að tjasla upp á landsdómslögin sem ítrekað var bent á, áður en ákveðið var að ákæra Geir H. Haarde, að væru úr sér gengin og þyrftu breytinga við.

Nú á að gera tilraun til að breyta leikreglum í miðjum leik.  Með því sniðgengur Ögmundur tilmæli þingmannanefndar Atla Gíslasonar um meðferð landsdómsmálsins.

Tilgangurinn væntanlega sá að auka líkurnar á því að núverandi stjórnvöldum takist það ætlunarverk sitt að fá fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar dæmdan og gera hann þannig einan að blóraböggli efnahagshrunsins sem hér varð.  Það hvarflar greinilega ekki að mannréttindaráðherranum að láta sakborninginn Geir njóta vafans varðandi hugsanlega ágalla á löggjöfinni sem um málareksturinn gildir, líkt og gert yrði í öllum réttarríkjum hins vestræna heims.

Forseti landsdóms

Til að bíta höfuðið af skömminni kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að breytingar á landsdómslögunum séu byggðar á skriflegum tillögum sem ráðherranum bárust úr ólíklegustu átt, þ.e. frá forseta landsdómsins, sem jafnframt gegnir embætti forseta Hæstaréttar Íslands.

Það er ekki hlutverk landsdómara að taka þátt í að koma fram breytingum á lögum sem gilda um dómstólinn sem þeir starfa við eftir að ákvörðun um málshöfðun hefur verið tekin.  Þeirra verkefni er að dæma um sakarefni máls á grundvelli þeirra laga sem í gildi eru hverju sinni.  Þetta hljóta allir að sjá og gildir þá einu í hverju tillögurnar felast.

Verði landsdómsfrumvarpið hins vegar að lögum getur að óbreyttu sú annkanalega staða komið upp að vilji sakborningurinn í málinu láta reyna á gildi ákvæða hins nýja frumvarps kemur það í hlut landsdómara, sem sjálfur lagði til að ákvæðið yrði lögfest, að skera úr um réttmæti málatilbúnaðar sakborningsins, án þess að þeim úrskurði verði áfrýjað.

Dómari getur ekki dæmt í eigin sök; ekki einu sinni í pólitískum réttarhöldum.

Sakborningur án verjanda

Undanfarið hefur  maður gengið undir manns hönd í stjórnkerfinu við að undirbúa réttarhöldin fyrir landsdómi af hálfu ákæruvaldsins.  Saksóknari hefur verið skipaður.  Hann hefur hafið störf af fullum krafti og hefur aðstoðarsaksóknara sér til fulltingis, þótt vandséð sé að landsdómslögin heimili slíkan liðsstyrk, auk annarra aðstoðarmanna.  Af hálfu ríkisins er því allt lagt í sölurnar í réttarhöldum sem gert er ráð fyrir að muni kosta allt að 200 milljónum króna.  Heiftin verður því skattgreiðendum þessa lands dýr.

Á sama tíma fær sakborningurinn Geir H. Haarde ekki skipaðan verjanda þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.  Geir hefur sjálfur upplýst um að forseti landsdóms hafi brugðist við beiðni hans um skipun verjanda með því að óska umsagnar saksóknara um skipunina!  Slíkt hlýtur að vera einsdæmi og er með öllu óskiljanlegt, enda hefur saksóknari ekkert með ákvörðun um skipun verjanda að gera, hvorki í þessu sakamáli né öðrum.

Sú spurning hlýtur að vakna hvernig forseti landsdómsins hyggst fara með þá umsögn sem hann hefur óskað eftir, ekki síst ef hún verður neikvæð.  Verður sakborningnum þá ekki skipaður verjandi?  Það myndi sannarlega auðvelda málareksturinn gegn Geir H. Haarde í hugum einhverra ef hann fengi ekki skipaðan verjanda.

Það gefur augaleið að þessi meðferð á sakborningnum fær ekki staðist.  Það ber að skipa honum verjanda nú þegar og lögum samkvæmt hefði átt að gera það um leið og Alþingi ákvað að höfða sakamál gegn honum.   Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, telur að sú ákvörðun að skipa Geir ekki verjanda um leið og ákvörðun um ákæru lá fyrir brjóti gegn  ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæðum stjórnarskrár.  Auk þess brýtur hún í bága við ákvæði 15. gr. landsdómslaga, sem ekki verður misskilin.

Þörfin fyrir verjanda

Það er mikilvægt að átta sig á því að á meðan Geir H. Haarde hefur ekki verið skipaður verjandi og því haldið fram að óvissa sé um formlega stöðu hans í landsdómsmálinu er honum gert afar erfitt að bera hönd yfir höfuð sér vegna þeirra lögbrota sem hann er sakaður um  að hafa framið.

Hann fær til dæmis ekki aðgang að þeim gögnum sem málshöfðunin gegn honum byggir á og getur þar af leiðandi ekki hafið undirbúning málsvarnar sinnar.  Á meðan honum hefur ekki verið skipaður verjandi á hann sér engan formlegan málsvara sem getur gert kröfur fyrir hans hönd um atriði sem varða réttarhöldin.

Á sama tíma undirbýr saksóknarinn hins vegar málsókn sína af kappi þar sem engu er til sparað.  Hann hefur aðgang að öllum gögnum málsins, her manna til þess að létta undir með sér og nýtur stuðning núverandi ráðamanna.  Leikurinn gæti því ekki verið ójafnari.

Óverjandi málsmeðferð

Sjálfur var ég þeirrar skoðunar að sú ákvörðun meirihluta alþingismanna að ákæra Geir, og reyna þannig að gera hann einan ábyrgan fyrir efnahagshruninu, væri hneyksli sem væri hvorki Alþingi né þeim sem að ákærunni stóðu til neins sóma.  En ekki hefur framhaldið verið mikið betra eins og hér hefur verið rakið.

Ögmundi Jónassyni ber að sjálfsögðu að hætta öllum tilraunum við að breyta leikreglum landsdómslaga í miðjum leik.  Það getur hann gert með því að draga frumvarp sitt tafarlaust til baka.  Og hafi hann snefil af áhuga á mannréttindum borgara þessa lands ætti hann að beina þeim tilmælum til forseta landsdóms að Geir H. Haarde verði skipaður verjandi nú þegar svo honum verði gert mögulegt að verja hendur sínar.

Forseti landsdóms þarf síðan að hugsa sinn gang vandlega  Forseti dómsins hlýtur nú að þurfa að velta því alvarlega fyrir sér hvort hún, í ljósi framgöngu sinnar, sé hæf til setu í landsdómi og hvort henni beri ekki að víkja sæti.  Í mínum huga er svarið við þeirri spurningu augljóst.

Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að enginn maður á að þurfa að þola þá meðferð sem Geir H. Haarde hefur þurft að sæta á upphafsstigum landsdómsmálsins sem framundan er.

Sú málsmeðferð er óverjandi og undir henni er ekki hægt að sitja þegjandi.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. 


Jóhanna kallar eftir vantrauststillögu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skoraði í vikunni á stjórnarandstöðuna að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Það var ágætis tilraun hjá Jóhönnu til þess að rugla umræðuna.

En Jóhanna gat sparað sér að óska eftir því að tillaga um vantraust kæmi fram, því vantraustið blasir við um allt þjóðfélagið.

Það er hins vegar er mikilvægt að fólk átti sig á hvers vegna hún setti þessa áskorun fram.

Það var ekki gert til þess að hvetja stjórnarandstöðuna til þessa tillöguflutnings.

Áskorunin var örvæntingarfullt herútkall Jóhönnu til þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, sett fram til þess að reyna að þétta raðirnar í ríkisstjórnarsamstarfi sem er að fara í vaskinn og þjóðin er búin að fá nóg af.

En úr því að áskorun Jóhönnu er fram komin er ekki úr vegi að rifja stórmerka ræðu sem haldin var þegar vantrauststillaga var síðast borin fram á Alþingi þann 24. nóvember 2008, en vantraustið beindist að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu var Steingrímur J. Sigfússon, þá stjórnarandstæðingur, nú fjármálaráðherra.

Hafi ræðan þótt viðeigandi þegar Steingrímur flutti hana vil ég fullyrða að hún á enn betur við, nú tveimur árum síðar.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Þegar Steingrímur mælti fyrir vantrauststillögunni á Alþingi sagði hann við upphaf ræðu sinnar:

,,Ríkisstjórnin er sundurþykk og lítt starfhæf. Ríkisstjórnin er sek um mikið andvara- og aðgerðarleysi í aðdraganda efnahagshrunsins. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts og hefur ekki þjóðina með sér. Innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir nú ríkisstjórninni samkvæmt nýjum skoðanakönnunum.“

Í ljósi þessara orða er rétt að nefna að samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum nýtur núverandi ríkisstjórn einungis 30% stuðnings. Óhætt er að segja að þau Jóhanna, Steingrímur og hinir ráðherrarnir njóti ekki trausts og ríkisstjórnin hefur sannarlega ekki þjóðina með sér. Það sýna kannanir og mótmæli um allt land.

Steingrímur bætti síðan við:

,,Ríkisstjórninni eru og hafa verið ákaflega mislagðar hendur í svokölluðum björgunaraðgerðum, aðgerðum sem fyrst og fremst hafa falist í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um gríðarlegar erlendar lántökur og skuldsetningu þjóðarinnar.“

Óhætt er að segja að núverandi ríkisstjórn hafi ekki síður verið ákaflega mislagðar hendur í björgunaraðgerðum sínum gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum. Reyndar hefur henni gengið svo illa að enn hefur hún ekki lagt fram tillögur og hugmyndir um lausn á vanda fyrirtækja og heimila, hvað þá ráðist í aðgerðir.
En það má ríkisstjórnin eiga að hún hefur gert sitt allra besta til að ráðast í gríðarlegar erlendar lántökur og gert allt til að skuldsetja þjóðina upp í rjáfur.

Þar kemur Icesave-málið óneitanlega upp í hugann.

Í ræðu sinni vék Steingrímur nánar að helstu röksemdunum sem vantrauststillagan byggði á:

,,Í fyrsta lagi er sundurþykkja ríkisstjórnarinnar öllum ljós. Það talar í raun og veru fyrir sig sjálft. Stjórnarliðar, þingmenn og ráðherrar deila opinberlega í þingsölum sem annarsstaðar.“

Það verður seint sagt að núverandi ríkisstjórn hafi verið sérstaklega samstíga, heldur hefur sundurþykkjan verið öllum ljós. Til dæmis varðandi aðildarumsókn Íslands að ESB. Og ekki síður í Icesave-málinu. Nú vill Ögmundur Jónasson almenna skuldaniðurfellingu. Jóhanna og Árni Páll Árnason eru alfarið á móti því. Steingrímur vill halda samstarfinu við AGS áfram, en það vill Lilja Mósesdóttir ekki. Steingrímur er orðinn eini stuðningmaður fjárlagafrumvarpsins innan ríkisstjórnarinnar. Allir hinir ráðherrarnir hafa snúið við því baki. Og svo mætti lengi telja. Dæmin eru óteljandi.

,,Í öðru lagi er andvaraleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar allan sinn tíma frægt að endemum. Um það eru dæmin svo dapurleg, ég vil ekki segja hlægileg, að engu tali tekur.“

Í dag springa menn úr hlátri um allt land þegar minnst er á skjaldborgina sem ríkisstjórnin ætlaði að slá um heimilin í landinu.

Andvaraleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar eykst á sama tíma og raðirnar fyrir utan hjálparstofnanir eftir matargjöfum lengjast. Biðraðirnar eftir mat eru dapurlegasta dæmið um hversu illilega norrænu velferðarstjórninni hefur orðið á í messunni.

Og Steingrímur gerði lítið úr blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar sem þá var:

,,Upplýsingagjöf til þjóðarinnar hefur verið í skötulíki en hins vegar eru sviðsettir blaðamannafundir, svokallaðir karamellufundir, haldnir síðdegis á föstudögum þar sem reynt er að koma með góðar fréttir til að slá á væntanleg mótmæli helgarinnar.“

Engin ríkisstjórn hefur gengið lengra í því sviðsetja blaðamannafundi og aðra fundi en ríkisstjórn Steingríms J. og Jóhönnu. Spunavél ríkisstjórnarinnar mallar nú sem aldrei fyrr og leikritin eru sett á svið úti um allan bæ. Í Stjórnarráðinu. Í Þjóðmenningarhúsinu og víðar. Og öll þessi leikrit heita það sama: ,,Samráðsfundir“. Þar er allt gert til að reyna að sína fram á hversu samráðsfús, auðmjúk og sanngjörn ríkisstjórnin er gagnvart stjórnarandstöðunni.

Á þessum ,,samráðsfundum“ hafna Steingrímur og Jóhanna öllum tillögum stjórnarandstöðunnar, en leggja á sama tíma engar hugmyndir fram sjálf.

Þetta er allt samráðið, sanngirnin og auðmýktin.

Nú virðist ríkisstjórnin hins vegar vera hætt að reyna að slá á óánægju almennings og koma í veg fyrir mótmæli með því að segja góðar fréttir. Hún hefur ekki hugmyndaflug í það lengur.

Á þessum tíma vildi Steingrímur mynda þjóðstjórn:

,,Það er rétt að muna að ríkisstjórnin afþakkaði tilboð stjórnarandstöðunnar, í sumar, í haust, í byrju október, um myndun þjóðstjórnar.“

Nú þegar Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggja til að mynduð verði þjóðstjórn og að síðan verði boðað til kosninga afgreiða bæði Jóhanna og Steingrímur slíkar hugmyndir sem fráleitar.

En Steingrímur hefur ekki alltaf verið jafn mótfallinn því að boðað verði til kosninga þegar ráðandi valdhafar eru orðnir rúnir trausti, óánægja mikil og reiðiöldur rísa:

,,Óánægju og reiðiöldur rísa. Það er eðlilegt, það er skiljanlegt og það er réttmætt. En við skulum sameinast um eitt og það snýr að ríkisstjórninni og meirihlutanum:

Viljum þessa reiði í uppbyggilegan farveg en missum hana ekki úr böndunum. Virkjum lýðræðið. Sameinumst um það. Það er hin lögmæta og friðsamlega aðferð að útkljá slík mál í lýðræðislegum kosningum. Kann einhver betra ráð en lýðræðislegar kosningar?

Við hvað eru menn hræddir?

Og ég segi við ykkur sem eruð að hlusta á heimilum ykkar, á vinnustöðum eða hvar annarstaðar sem þið eruð: Þið ráðið þessu. Allt vald sprettur frá þjóðinni í lýðræðissamfélagi. Þjóðin á betra skilið en það sem á henni dynur núna.“
Og Steingrímur bætti við:

,,Þjóð sem vill kosningar á að fá kosningar.“

Ég tel að þessi merka ræða Steingríms J. Sigfússonar sem hann hélt í nóvember árið 2008 hafi aldrei átt meira og brýnna erindi við ríkjandi valdhafa á Íslandi en einmitt nú.

Og það færi sannarlega vel á því ef Steingrímur myndi endurflytja þessa ræðu þegar Alþingi kemur aftur saman til funda eftir helgi.

Sigurður Kári.


Stjórnmálakreppa

Íslensk stjórnmál eru komin í mikið öngstræti.

Í raun er það svo að efnahagskreppan á Íslandi er orðin að stjórnmálakreppu.

Segja má að stjórnmálakreppan hafi náð hámarki í gær þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gaf sjálfri sér og ríkisstjórn sinni þá einkunn að hún hefði unnið kraftaverk og andmælti því harðlega að þau mótmæli sem þá stóðu yfir beindust gegn henni og ríkisstjórn hennar.  Þau beindust í raun gegn öllu öðru.

Þessi yfirlýsing lýsir að mínu mati mikilli veruleikafirringu sem núverandi forsætisráðherra er haldinn og algjöru vanmati á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í samfélaginu.

Að lýsa sjálfa sig og samverkamenn sína kraftaverkamenn á sama tíma þúsundir Íslendinga ganga um atvinnulausir, aðrir eru við það að missa heimili sín og hundruð einstaklinga þurfa að óska eftir matargjöfum hjá Mæðrastyrksnefnd í hverri viku segir allt sem segja þarf um veruleikafirringuna.

Vandi íslenskra stjórnmála er sá að hér á landi er við völd ríkisstjórn sem hefur enga burði til þess að leysa þann vanda sem heimilin og fyrirtækin eiga við að glíma.  Hún trommar upp væntingar meðal almennings sem hún getur síðan ekki staðið við.  Hún heitir því að leggja fram tillögur sem síðan aldrei líta dagsins ljós.  Og hún berst við alvarleg innanmein og innbyrðis ágreining í grundvallarmálum.

Ríkisstjórnin er eina stofnun þessa lands sem ekki hefur lagt fram hugmyndir eða aðgerðaráætlun um það hvernig leysa á vandann og endurreisa íslenskt samfélag.

Það hafa hins vegar allir aðrir gert.

Samtök atvinnulífsins, ASÍ og Viðskiptaráð hafa lagt fram sínar hugmyndir.  Það hefur Framsóknarflokkurinn líka gert.  Og nú síðast lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram viðamestu aðgerðaráætlun sem komið hefur fram frá hruni um lausn á vanda heimila og fyrirtækja.

Og hinn kaldi veruleiki er sá að þegar slíkar framfarahugmyndir er settar fram slær forsætisráðherrann og ríkisstjórnin þær jafnharðan út af borðinu og vill ekki heyra á þær minnst, í stað þess að ræða þær efnislega.

En það sorglegasta við framgöngu Jóhönnu og ríkisstjórnarinnar er hins vegar það að henni hefur reynst fyrirmunað að leggja fram sínar eigin tillögur til mótvægis við þær sem frá okkur Sjálfstæðismönnum og öðrum hafa komið.

Þvert á móti rær ríkisstjórnin í öfuga átt og kemur í veg fyrir atvinusköpun í landinu.

Þetta verður að breytast.  Þessi skelfilega staða sem uppi er í stjórnmálunum getur ekki gengið til frambúðar.  Það hljóta allir að sjá.  Hún hefur þegar valdið of miklu tjóni og verði ekkert að gert verður tjónið enn meira.

Þessari stjórnmálakreppu mun hins vegar ekki ljúka meðan þessi ríkisstjórn er við völd og viðhefur þau vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að og brennt okkur á.

Á meðan ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heldur völdum mun sú stjórnmálakreppa sem hér ríkir dragast enn á langinn og dýpka.

Sigurður Kári.


Jóhanna vill ekkert samráð

Það var átakanlegt að fylgjast með viðbrögðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, við efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þessar tillögur eru viðamesta aðgerðaráætlun sem fram hefur komið frá hruni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Þessari aðgerðaráætlun hafnaði forsætisráðherrann.

Aðgerðaráætlun sem m.a. tekur á skuldavanda heimilanna, mælir fyrir um að auka skuli ráðstöfunartekjur fólksins í landinu með því að lækka skattana og stuðlar að því að hægt verði að skapa 22.000 ný störf á Íslandi á komandi árum.

Þessari stefnumörkun hafnaði forsætisráðherrann.

Það er auðvitað mjög merkilegt að Jóhanna Sigurðardóttir telji sig vera í þeirri stöðu að geta hafnað þeim tillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt fram.

Það er ekki síst einkennilegt í ljósi þess að hvorki Jóhanna né ríkisstjórnin hefur haft burði til þess að leggja fram neinar tillögur til lausnar á skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna

Og það er enn einkennilegra í ljósi þess að það eru ekki nema tveir dagar síðan hún sjálf kallaði eftir því að forystumenn allra stjórnmálaflokkanna, stjórnar og stjórnarandstöðu, ,,kæmu að borðinu" og hefðu með sér samráð um hvernig leysa ætti þann vanda, sem tillögurnar taka til.

En þegar slíkar tillögur koma fram er þeim samstundis sópað út af borðinu af forsætisráðherranum ráðalausa.

Nú hljóta allir að sjá að þegar þessi ríkisstjórn þykist vilja eiga eitthvað samstarf við aðra um lausn efnahagsvandans þá er ekkert að marka slíkar yfirlýsingar.

Þar fylgir ekki hugur máli og hefur aldrei gert.

Sigurður Kári.


Hér eru tillögur Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti á blaðamannafundi fyrr í dag þær efnahagstillögur sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja fram næstkomandi fimmtudag þegar Alþingi kemur aftur saman.

Tillögurnar eru þær viðamestu sem lagðar hafa verið fram um lausn vanda heimila og atvinnulífs.

Þær aðgerðir sem við leggjum til að ráðist verði í hafa það að m.a. markmiði að:

- Stuðla að sátt við heimilin í landinu,

- Verja velferð með ábyrgri stjórn ríkisfjármála,

- Efla atvinnulífið og fyrirtækin í landinu,

- Og fjölga störfum.

Þessar viðamiklu tillögur eru í heild sinni eftirfarandi:

,,Efnahagsbatinn sem áætlað var að hæfist á þessu ári hefur látið á sér standa. Það stafar fyrst og fremst af vanhugsuðum aðgerðum í skattamálum, aðgerðaleysi við að leysa úr skuldavanda heimila og fyrirtækja og mótstöðu við uppbyggingu atvinnulífs. Atvinnuleysi, minni ráðstöfunartekjur og kaupmáttarrýrnun er því miður staðreynd. Við þessu verða stjórnvöld  að bregðast. Skapa verður framtíðarsýn og blása fólki aftur von í brjóst. En það verður aðeins gert með því að efla atvinnustarfsemina á ný. Velferð heimilanna  er samofin velferð fyrirtækjanna.

Því ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi 41 aðgerð með hliðsjón af mikilvægi þess að verja velferð í landinu, bæta stöðu heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar, fjölga störfum og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims:

I

Gefum heimilum von

1.      Skattahækkanir ríkistjórnarinnar verði dregnar til baka á næstu tveimur árum. Á næsta ári verði 10 milljörðum varið til þess að lækka tekjuskatta einstaklinga og á árinu 2012 skulu skattahækkanir ríkisstjórnarinnar ganga að fullu til baka.  

2.      Greiðsluaðlögunarúrræði verði einfölduð verulega og rýmkuð frá því sem nú er, s.s. með því að hækka neysluviðmið, endurskoða þau ákvæði laganna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð og einfalda umsóknarferlið.

3.      Öllum sem þess óska standi til boða að lækka greiðslubyrði fasteignalána sinna um allt að 50% næstu þrjú ár gegn lengri lánstíma.

4.      Þeir sem missa atvinnu eigi rétt á frystingu á greiðslum vegna húsnæðisskulda í allt að 6 mánuði.

5.      Þeim sem misst hafa fasteignir sínar vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots verði gert kleift að endurleigja gegn hóflegri greiðslu sem endurspegli markaðsverð. Þessir aðilar fái kauprétt á húsnæðinu sem gildir í allt að 5 ár.

6.      Gjaldþrotalögum verði breytt í þá veru að fyrningarfrestur eftir gjaldþrotaúrskurð verði styttur frá því sem nú gildir.

7.      Styrkja ber vaxtabóta- og húsaleigubótakerfin vegna þeirra sem fjölskyldna sem bágust kjörin hafa.

8.      Stimpilgjöld verði afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun.

9.      Afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki skattstofn þegar fyrir liggur að viðkomandi hefur orðið eignalaus vegna afskriftanna.

10.  Ákvæði réttarfarslaga um endurupptöku mála verði endurskoðuð til þess að tryggja að þeir sem misst hafa eigur sínar vegna vanskila á ólögmætum gengistryggðum lánum geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Tryggt sé að slík mál fái skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu.

II

Endurheimtum störf - eflum atvinnulífið

Endurheimta þarf þau störf sem glatast hafa í efnahagshruninu.  Mynda þarf  skilyrði til þess að yfir 22 þúsund ný störf verði til á næstu tveimur til þremur árum.  Skynsamlegt er að leggja áherslu á að nýta auðlindir okkar - veiða meira og virkja orkuna.  Með bættum rekstrarskilyrðum munu lítil og meðalstór fyrirtæki ná sér á strik að nýju. Höfum hugfast að þar verða flest störfin til.  Komist framkvæmdir af stað verða þær uppspretta fjölda starfa í framleiðslu og þjónustu. Með hliðsjón af framangreindu er mikilvægt að gripið verði til  eftirfarandi aðgerða:

1.      Nýtum auðlindirnar skynsamlega:

  • a. Þorskafli verði aukinn um 35.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og auknum aflaheimildum ráðstafað á grundvelli aflahlutdeilda.
  • b. Horfið verði tafarlaust frá hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi og ný fiskveiðistjórnarlöggjöf lögfest á í samræmi niðurstöðu Endurskoðunarefndar um fiskveiðistjórnun.
  • c. Framkvæmdir við álver í Helguvík verði hafnar.
  • d. Lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum verði eytt.
  • e. Arðbærum framkvæmdaverkefnum verði komið af stað í samvinnu við lífeyrissjóðina og aðra fjármögnunaraðila.
  • f. Stjórnvöld leiti í fullri alvöru leiða til að koma af stað orkufreku atvinnuverkefni að Bakka.

2.      Beitum hvötum til að örva hagkerfið:

  • a. Óhagkvæmir skattar sem letja verðmætasköpun verði afnumdir. Árið 2011 verði 10 milljörðum varið til þessa verkefnis og 10 milljörðum árið 2012.
  • b. Skattaafslættir vegna rannsókna og þróunarstarfs verði auknir enn frekar.
  • c. Afsláttur frá tryggingargjaldi verði veittur fyrirtækjum sem sýnt geta fram á að störfum hafi fjölgað árin 2011 og 2012.
  • d. Skattaafslættir vegna hlutafjárkaupa verði innleiddir á ný.
  • e. Undanþágur frá tryggingargjaldi fyrir ný fyrirtæki verði innleiddar í tvö ár frá stofnun þeirra.
  • f. Skattkerfið verði endurskoðað í heild sinni með einföldun, hagkvæmni og hvata til verðmætasköpunar að leiðarljósi. Þeirri vinnu verði lokið fyrir 31. ágúst 2011.
  • g. Vörugjöld og verndartollar sem skekkja samkeppni og rýra hag almennings verði endurskoðaðir.

3.      Vinnum markvisst gegn atvinnuleysi og hjálpum fólki til sjálfshjálpar:

  • a. Boðið verði upp á aðstoð við fólk sem hefur verið atvinnulaust í 6 mánuði eða lengur og hefur áhuga á að hefja eigin rekstur. Einstaklingar eigi rétt á aðstoð, menntun, fyrirgreiðslu og eftir atvikum beinum fjárframlögum - sem meta megi til 500 þúsund króna.
  • b. Starfsendurhæfingarsjóður verði efldur með þátttöku allra atvinnurekenda og stuðningi frá ríkinu.
  • c. Tryggingargjald verði lækkað samhliða því sem atvinnuleysi dvínar.
  • d. Aðilum vinnumarkaðar verði falin umsjón með málefnum atvinnulausra.

4.      Eyðum óvissu og bætum umhverfi atvinnustarfseminnar:

  • a. Endurskipulagningu skulda fyrirtækja verði að fullu lokið fyrir 31. mars 2011.
  • b. Horfið verði alfarið frá fyrningaleið í sjávarútvegi og unnið að sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið á grundvelli framkominna tillagna endurskoðunarnefndar um fiskveiðistjórnunarkerfið.
  • c. Unnið verði markvisst að því að aflétta þrýstingi af gjaldmiðlinum og þannig tryggt að gjaldeyrishöftin verði afnumin innan hæfilegs tíma.
  • d. Óvissu um skattaframkvæmd næstu ára verði eytt, svo sem um virðisaukaskatt í tengslum við byggingu gagnavera.

III

Hagræðing og aðhald í rekstri ríkisins - mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar

1.      Ríkissjóður verði rekinn hallalaus árið 2013. Við niðurskurð og sparnað verði jafn réttur allra landsmanna til grunnþjónustu í heimabyggð  - heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntunar - tryggður óháð búsetu.

2.      Tekið verði upp breytt verklag við fjárlagagerð og áhersla lögð á langtímaáætlun sem sundurliðuð verði eftir ráðuneytum og málaflokkum.

3.      Ná þarf fram aukinni hagræðingu í grunn- og framhaldsskólum landsins.  Halda ber áfram vinnu við að stytta námstíma til stúdentsprófs.  Við mótun menntastefnunnar er rétt að byggja á valfrelsi nemenda og foreldra, fjölbreytni og sveigjanleika. 

4.      Vegna mikilvægis menntunar fyrir framtíðarhagvöxt verður að forðast flatan niðurskurð á háskólastiginu en byggja þess í stað fyrst og fremst á aukinni hagkvæmni með færri og sterkari  einingum.

5.      Fátæktargildrum í lífeyris- og bótakerfum verði útrýmt og hvatar til atvinnuþátttöku skerptir.  Bótakerfið verði endurskoðað til að koma í veg fyrir hugsanlega van- eða oftryggingu bótaþega.

6.      Nú þegar verði hafist handa við að endurskoða og samræma lífeyrisréttindakerfi opinberra starfsmanna svo framtíðarfjármögnum þess verði tryggð. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að áfram safnist upp óbærilegar byrðar fyrir ríkissjóð. 

7.      Unnið verði að endurskipulagningu og frekari hagræðingu í heilbrigðiskerfinu með því að auka hagkvæmni, auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila og byggja í auknum mæli á samkeppni um þá þjónustu sem veita þarf.

8.      Tekið verði upp sérstakt gjald sem nemi 0,25% af stofni allra innstæðna hjá fjármálafyrirtækjum.

9.       Innleidd verði skattlagning inngreiðslna séreignasparnaðar.

10.  Innleidd verði fjármálaregla sem styður við stjórn peningamála, hemur hagsveifluna, lækkar vexti og styður við gengi krónunnar.

Greinargerð

1.      Von fyrir heimilin

Ef ekki verður gripið til aðgerða vegna vanda skuldsettra heimila og fyrirtækja dregst endurreisn efnahagslífsins enn á langinn, þar sem gjaldþrot, greiðsluerfiðleikar og atvinnuleysi verður viðvarandi en ekki tímabundin staðreynd. Þetta ástand hefur alvarlegar samfélagslegar afleiðingar í för með sér. Því er nauðsyn á markvissari aðgerðum til að endurskipuleggja skuldir heimila og gera þeim kleift að standa í skilum með skuldbindingar sínar.  Jafnframt þarf að draga vanhugsaðar skattahækkanir ríkistjórnarinnar til baka.  

Þau úrræði sem nú er boðið upp á duga engan veginn. Fólkið í landinu vill lifa með reisn og það er verkefni stjórnvalda  að gera þeim það kleift. Þær leiðir sem ríkistjórnin vill fara til að leysa skuldavanda heimila eru flóknar, tímafrekar og niðurlægjandi fyrir þorra fólks. Aðgerðir stjórnvalda verða að taka mið af stöðu fólks og því hvernig flestir bregðast við erfiðleikum, en ekki því hvernig æskilegt væri að fólk hagaði sér. Ríkisstjórnin hefur horft fram hjá því að þau úrræði sem upp á er boðið eru flókin og niðurlægjandi. Ríkistjórnin kvartar yfir því að fólk sýni ekki frumkvæði að því kynna sér og nýta úrræðin. Þetta er veruleikaflótti. Fólk vill ekki bíða í biðröð hjá umboðsmanni skuldara, sérstaklega ef það fær í fangið þungbærar kröfur um gagnaöflun og skýrslugjafir. Fólk forðast í lengstu lög að fá skipaðan tilsjónarmann og láta opinbera starfsmenn skilgreina húsnæðis- og framfærsluþörf sína. Slíkar lausnir kunna að ganga upp á blaði en þær gera það ekki í raunveruleikanum.  

Skattar einstaklinga verði lækkaðir um 10 milljarða

Skattahækkanir ríkistjórnarinnar hafa lækkað ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með aukið á vanda þeirra. Heimili sem að öðrum kosti hefðu ráðið við greiðslubyrði af lánum sínum eru komin fram á hengiflugið vegna skattpíningar. Besta leiðin til að hjálpa heimilum í skuldavanda er að tryggja þeim sem mestum hluta aflafjár síns en rífa ekki af þeim hverja krónu til að fjármagna útbólginn ríkisjóð sem er í engu samræmi við þann efnahagslega veruleika sem við búum við í dag.    

Jafnframt hefur stighækkandi tekjuskattur leitt til þess að fólk sér sér hag í því að skjóta sér undan skattlagningu með svartri atvinnu sem merki eru um að fari mjög vaxandi. Þessum vanda hefur ríkistjórnin mætt með því að stórefla eftirlit. Flutningsmenn telja að eðlilegra sé að hvatinn til undanskota sé slævður með réttlátara og hagkvæmara skattkerfi.

Því er hér lagt til að allt að 10 milljörðum króna verði varið til að lækka skattbyrðina á næsta ári og að skattahækkanir ríkistjórnarinnar verði að fullu dregnar til baka árið 2012. 

Einfaldari og rýmri reglur

Til að mæta betur þörfum þeirra sem sjá ekki fram úr skulda og greiðsluvandamálum sínum er hér lagt til að greiðsluaðlögunarúrræði verði einfölduð verulega og rýmkuð frá því sem nú er, s.s. með því að hækka neysluviðmið og endurskoða þau ákvæði laga sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. 

Opinberar tölur um fjölda þeirra sem leitað hafa eftir eða fengið greiðsluaðlögun segja í raun allt sem segja þarf. Úrræðið er fráhrindandi og skilyrðin of ströng. Fjöldi fólks sem fengið hefur greiðsluaðlögun mun lenda að nýju í vanskilum vegna óraunhæfra  framfærsluviðmiða.

Greiðslubyrði lækkuð um 50% í þrjú ár gegn lengri lánstíma

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins endurflytur þessa tillögu sína en hún gengur lengra en greiðslujöfnunarúrræði ríkisstjórnarinnar.   Tillagan mætir þörfum þeirra sem sjá ekki fram úr skulda- og greiðsluvanda sínum eins og sakir standa en kjósa að fara ekki í greiðsluaðlögun eða uppfylla ekki skilyrði til þess.  Með því að lækka greiðslubyrði tímabundið vinnst einkum þrennt: 

  • Í fyrsta lagi er létt undir með þeim stóra hópi sem ýmist alls ekki eða með herkjum getur staðið í skilum vegna efnahagsástandsins. Úrræðið aðstoðar þennan stóra hóp á meðan aðstæður eru hvað erfiðastar. Langflestir lántakendur munu geta staðið betur undir greiðslubyrði þegar kaupmáttur fer að vaxa á ný með auknum umsvifum og hagvexti.
  • Í öðru lagi mun svigrúm vegna léttari greiðslubyrði nýtast fólki til að losna undan dýrari skuldum eins og neyslulánum og yfirdráttarskuldum.
  • Í þriðja lagi mun aðgerðin auka einkaneyslu sem leiðir til meiri umsvifa og skjótari efnahagsbata.

Styrkja ber vaxtabóta- og húsaleigubótakerfin

Fall í kaupmætti hefur komið verst niður á þeim sem lægst hafa launin. Þannig sýna hagtölur að einkaneysla dróst saman um 16% á síðasta ári sem er einsdæmi.  Ríkisstjórnin hefur afnumið vertryggingu persónuafsláttar sem hefur enn dregið úr ráðstöfunartekjum þessa hóps.  Vaxtabótakerfið er tilvalið til að ná sérstaklega til þeirra sem bágust hafa kjörin.  Með því er hægt á hagkvæman hátt að ná til þeirra sem eru á lágum launum og skulda mikið.

Horfast verður í augu við þann veruleika að fjöldi heimila mun ekki ráða við afborganir af lánum þrátt fyrir að þau hafi verið lækkuð og að vaxtabótakerfið verði styrkt. Sá hópur hefur því stækkað að undanförnu sem mun leita á leigumarkaðinn.  Af þessari ástæðu þarf að styrkja  húsaleigubótakerfið..

Frysting á greiðslum húsnæðislána í allt að 6 mánuði.

Lagt er til að þeir sem nú eru atvinnulausir eða missa atvinnu sína öðlist rétt á frystingu afborgana af fasteignaveðlánum í allt að 6 mánuði.  Með tillögunni er reynt að  koma í veg fyrir að þeir sem verða fyrir tímabundnu atvinnuleysi missi heimili sitt meðan það ástand varir.

Verði ráðist í þær atvinnuskapandi aðgerðir sem mælt er fyrir um í þingsályktunartillögu þessari er ljóst að draga mun verulega úr atvinnuleysi á Íslandi, ráðstöfunartekjur munu aukast og þeim sem glíma við langtímaatvinnuleysi mun fækka. Það leiðir til þess að fleiri fjölskyldur munu verða færar umað standa skil á fasteignaveðlánum sínum.

Þar til hægt verður að tryggja hærra atvinnustig telja flutningsmenn tillögunnar eðlilegt að tryggja þeim sem eru atvinnulausir lágmarksskjól.

Röskum ekki búsetu fólks

Í septembermánuði 2010 voru 1.286 heimili á framhaldsuppboði. Ljóst er að hluti þessara heimila mun enda á lokauppboði og í framhaldi af því munu fjölmargar fjölskyldur missa heimili sitt að öðru óbreyttu. Því er hér lagt til að:

  • Þeim sem misst hafa fasteignir sínar vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots verði gert kleift að endurleigja þær gegn hóflegri greiðslu sem endurspegli markaðsverð.
  • Þá er lagt til að þessir aðilar fái kauprétt á húsnæðinu sem gildi í allt að 5 ár.

Þetta úrræði mætir þörfum þeirra sem misst hafa eða munu missa húsnæði sitt og gera þeim kleift að eignast aftur þak yfir höfuðið án þess að búsetu sé raskað. Jafnframt kemur úrræðið í veg fyrir að fasteignum verði „sturtað" inn á markaðinn með tilheyrandi verðlækkunum. Núgildandi reglugerð um útleigu uppboðsíbúða Íbúðalánasjóðs felur ekki í sér kaupréttarfyrirkomulag auk þess sem þar er um skammtímaleigu til 12 mánaða að ræða.

Markmiði tillögunnar má t.d. ná með því að Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir stofni með sér fasteignafélag sem yfirtaki allt íbúðarhúsnæði sem eigendur hafa misst vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots og endurleigi til þeirra með kauprétti. 

Fasteignafélaginu yrði gert skylt að bjóða núverandi eigendum að leigja húsnæði á meðalleiguverði  á viðkomandi markaðssvæði. Samhliða þessu verði leigutaka gefinn kostur á að kaupa viðkomandi eign hvenær sem er innan tiltekins tíma og gildi kaupréttur þessi í t.a.m. 5 ár.  Með þessu vinnst margt:

  • Komið verður í veg fyrir að hundruð eða þúsundir fasteigna komi inn á markaðinn og lækki þannig verð á fasteignum enn frekar. Slíkt kæmi sér einkar illa gagnvart öðrum húsnæðiseigendum þar sem verðmæti eigna þeirra myndi minnka. Þar með væri komið í veg fyrir spíral sem myndi að öðrum kosti draga fasteignaverð enn frekar niður og um leið verða dragbítur á íslenskt efnahagslíf.
  • Komið verður í veg fyrir að hundruð eða þúsundir fjölskylda verði rifnar upp með rótum.
  • Haldið verður í séreignarstefnuna sem meginskipan á fasteignamarkaði.
  • Eiginfjárgrunnur fjármálastofnana mun styrkjast þar sem „vondum lánum" er komið fyrir í sérstöku fyrirtæki sem aftur leiðir til þess að ekki þarf að afskrifa jafnmikið og ella og bankar sitja síður uppi með fasteignir sem falla stöðugt í verði. Þannig er komið í veg fyrir enn frekara verðfall.

Gjaldþrotameðferð mannlegri

Þrátt fyrir að ofangreindar tillögur muni taka til flestra fjölskylda í landinu er enn eftir hópur fólks sem má sín lítils gegn hamförunum sem urðu haustið 2008 og hefur orðið eða mun verða gjaldþrota ef fram heldur sem horfir. Jafnframt er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að um of hafi hallað á skuldara í samskiptum við kröfuhafa sökum þess hve miklum vandkvæðum er bundið að fá lok mála á grundvelli gildandi löggjafar þegar kröfuhafi heldur rétti sínum til streitu. 

Við þessu þarf að bregðast og því er lagt til að gjaldþrotalögum verði breytt í þá veru að fyrningarfrestur eftir gjaldþrotameðferð verði styttur frá því sem nú gildir. Með því að stytta fyrningarfrest krafna og taka til endurskoðunar reglur um rof fyrningar eftir gjaldþrot er ætlunin að gefa þeim sem orðið hafa gjaldþrota tækifæri til á að „byrja upp á nýtt" innan hæfilegs tíma. 

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá dómsmálaráðherra um grundvallarbreytingar á löggjöfinni hvað þetta snertir.  Mikilvægt er að málið fái vandaða og ítarlega meðferð í þinginu og sjálfsagt að málið verði farvegur fyrir umræðu um efnið.

Stjórnarskráin setur því mörk hve langt er hægt að ganga að rétti kröfuhafa.  Þá ber jafnframt að hafa í huga þá meginreglu að samningar skuli standa og að löggjöf sé ekki þannig háttað að hvatar séu til staðar til að skjóta sér undan fjárskuldbindingum.  Einnig ber að hafa í huga að breytingar á fyrningarreglum geta haft óæskileg áhrif á lánamarkað.

Engu að síður er tímabært og aðkallandi vegna þeirrar stöðu sem upp er komin að taka gildandi lög til endurskoðunar með það að markmiði að einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota geti reist fjárhag sinn við innan eðlilegs tíma.

Aukin samkeppni á lánamarkaði

Til að auðvelda fólki endurfjármögnun fasteignaskulda og auka samkeppni á íbúðalánamarkaði er hér lagt til að stimpilgjöld verði afnumin.  Það mun auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun.

Þetta úrræði eykur ekki aðeins samkeppni á lánamarkaði heldur skapar það um leið tækifæri fyrir fjölskyldur til að lækka greiðslubyrði sína.  Loks mun afnám stimpilgjalda örva viðskipti á fasteignamarkaði.

Endurupptaka skuldamála fyrir dómi og flýtimeðferð þeirra

Lagt er til að ákvæði réttarfarslega um endurupptöku mála verði endurskoðuð.  Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að tryggja að þeir sem misst hafa eigur sínar vegna vanskila á gengistryggðum lánum, sem Hæstiréttur Íslands dæmdi ólögmæt síðastliðið sumar, þurfi ekki að sæta fullnustugerðum vegna þeirra. Tryggja þarf að þeir geti leitað réttar síns fyrir dómstólum og fengið mál sín endurupptekin.  Lagt er til að slík mál fái skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu.

Hvati til að semja um lausn sinna mála

Hér er lagt til að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki skattstofn þegar fyrir liggur að viðkomandi hefur orðið eignalaus í tengslum við afskriftirnar.  Augljóst er að ef ríkið hyggst skattleggja niðurfærslu skulda er veruleg hætta á því að dregið sé úr hvata fyrir þá sem skuldugastir eru til að semja um lausn sinna mála.  Sá sem framselur allar eigur sínar í skuldauppgjöri og óskar í framhaldi af því eftir niðurfellingu er í raun verr settur en ef hann óskaði eftir gjaldþroti, því við gjaldþrot væri ekki hætta á skattlagningu vegna þess sem ekki fengist innheimt. Við þessu verður að bregðast. 

Núgildandi lög og reglur gera ráð fyrir því að eina leiðin til að komast hjá skattlagningu vegna niðurfellingar sé að missa eigur sínar við gjaldþrot eða nauðasamninga.

2.      Eflum atvinnulífið - endurheimtum störfin

Frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2010 hafa tapast um 22.500 störf á Íslandi. Um 16.200 urðu atvinnulausir og 6.300 hurfu af vinnumarkaði. Lauslegir útreikningar sýna að hvert starf kostar ríkissjóð um 3 milljónir króna í bætur og tapaðar skatttekjur á ári. Þá er ekki talið til allt það framleiðslutap og óbein áhrif sem þjóðfélagið verður fyrir. Bein áhrif á ríkissjóð af töpuðum störfum eru því allt að 70 milljarðar króna á ári.

Á næstu tveimur til þremur árum þurfa að verða til yfir 22 þúsund ný störf á Íslandi. Þetta þarf að gerast á sama tíma og óhjákvæmilegt er að fækka störfum hjá hinu opinbera. Háttalag ríkistjórnarinnar bendir til þess að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri vá sem er fyrir dyrum ef ekkert verður að gert. Erlendum aðilum sem vilja fjárfesta er sýndur fjandskapur, skattar eru hækkaði úr öllu hófi og óvissa er innleidd með tilviljanakenndum vanhugsuðum ráðstöfunum sem einstakir fagráðherrar taka oft ákvarðanir um án umræðu.

Störfin verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum

Megnið af þeim störfum sem þurfa að verða til eru í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sjálfstæðisflokkurinn vill mynda það efnahagsumhverfi sem þarf til að þessi fyrirtæki hefji á ný fjárfestingu í umsvifum og störfum.

Með því að gera umhverfi um atvinnulíf vinsamlegra en nú er og snúa af þeirri braut hafta og afturhalds sem núverandi stjórnvöld viðhalda er áætlað að um 6.000 ný störf verði til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á næsta ári og 8.000 á árinu 2012. Til að ná þessu markmiði þarf að grípa til fjölþættra aðgerða.

Veiðum meira

Jákvæð merki sjást nú um umtalsverðan vöxt þorskstofnsins og gildir þá einu hvort rætt er um hrygningarstofninn eða svo kallaðan viðmiðunarstofn (sem er þorskur 4 ára og eldri). Þetta er mikil breyting frá árinu 2007. Í ljósi þess að nú er veiðistofn þorsk stærri en verið hefur í tvo áratugi er eðlilegt að nýtingarprósentan verði strax færð úr 20% í 23% og sveiflujöfnun verði beitt við ákvörðun aflamagns á næsta fiskveiðiári. Þar með verður útgefið aflamagn þorsks 195 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári í stað 160 þúsund tonna og 200 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.

Á undanförnum árum, hefur hámarks aflamagn byggst á aflareglu. Fræðilegar úttektir hafa sýnt að eðlilegt sé að nýtingarhlutfallið sé lágt þegar stofninn er lítill, en hækki þegar stofninn stækkar. Jafnframt byggir nýtingarstefnan á sveiflujöfnun. Er það gert með þeim hætti að útgefið aflamagn ræðst annars vegar af nýtingarhlutfalli viðmiðunarstofns, en jafnframt er að hálfu tekið tillit til útgefins kvóta ársins á undan. Er þetta gert með hagfræðilegum, rekstrarlegum og markaðslegum rökum til þess að draga úr sveiflum í útgefnum aflakvótum. Árið 2007 var nýtingarhlutfallið lækkað úr 25% í 20%  í ljósi lélegra viðmiðunar- og hrygningarstofna og áætlana vísindamanna um að stofnar færu minnkandi með óbreyttri nýtingarstefnu

Ljóst er að jafnt hrygningarstofn og viðmiðunarstofn hafa vaxið mjög frá því að gripið var til niðurskurðar á þorskafla árið 2007. Stærð viðmiðunarstofns er lögð til grundvallar ákvörðun um aflamark ár hvert jafnframt því að tekið er tillit til kvóta yfirstandandi árs að hálfu. Er það gert til þess að jafna sveiflur í úthlutun á aflaheimildum.

Hrygningarstofninn mælist nú um 300 þúsund tonn. Slíkar tölur hafa ekki sést, með tveimur undantekningum, frá árinu 1970 eða í 40 ár.  Til samanburðar var hrygningarstofninn talinn vera um 180 þúsund tonn á árinu 2007, þegar ákveðið var að draga saman þorskaflann mjög verulega. Þannig mældur hefur hrygningarstofninn því vaxið um 66% eða um tvo þriðju á þessum tíma.

Svipaða sögu er að segja af viðmiðunarstofninum. Hann mælist nú 846 þúsund tonn og er áætlaður 902 þúsund tonn á næsta ári. Stærri viðmiðunarstofn hefur ekki mælst hér frá árinu 1989. Hann var áætlaður 650 þúsund tonn árið 2007 og talinn fara ofan í 580 þúsund tonn næsta ár á eftir. Viðmiðunarstofninn er því talinn um 60% stærri nú en í ársbyrjun 2008.

Mjög mikilvægt er að auknum aflaheimildum verði ráðstafað á grundvelli aflahlutdeildar. Útgerðir og sjómenn hafa tekið á sig afkomu og tekjuskerðingu vegna minni þorskafla. Það er sjálfsagt mál að hinir sömu njóti nú árangurs við uppbyggingu þorskstofnsins og fái þannig bættan skaðann af lægri aflaheimildum liðinna ára. Sanngjarnt er að þær heimildir sem koma nú til ráðstöfunar, í byggðalegum og atvinnulegum tilgangi, samkvæmt gildandi lögum aukist og í samræmi við hlut þeirra af úthlutuðum aflaheimildum.

Afar brýnt er að þegar í stað verði horfið frá öllum hugmyndum um fyrningarleið. Almenn og víðtæk sátt náðist um svokallaða samningaleið í sjávarútvegi í fjölskipaðri nefnd stjórnvalda um endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Þar komu að málum fulltrúar allra þingflokka og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Sú leið á að liggja til grundvallar nýrri skipan fiskveiðistjórnar. Hin mikla óvissa sem stjórnvöld hafa skapað í starfsumhverfi sjávarútvegarins er farin að baka samfélaginu gríðarlegt tjón og á mikinn þátt í því atvinnuleysi og stöðnun sem er orðin landlæg í efnahagslífinu.

Nýtum orkulindir okkar

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að atvinnusköpun með því nýta orkulindir þjóðinni til heilla. Beita á öllum ráðum til að flýta framkvæmdum við nýtt álver í Helguvík, orkufrekt verkefni að Bakka og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir. Talið er að þessar framkvæmdir geti skapað allt að 4.000 bein störf á ári á framkvæmdatímanum og annað eins í afleiddum störfum. Komist fyrirhugaðar framkvæmdir af stað verða þær uppspretta fjölda starfa í framleiðslu og þjónustu. Eftir að framleiðsla hefst verða til um 900 bein störf á ári í verksmiðjunum og annað eins af afleiddum störfum. Þá verði fyrirhuguðum framkvæmdum í samvinnu við lífeyrissjóðina flýtt. Hér er gert ráð fyrir að með átaki í þessum málum verði til 6.000 ný störf á næsta ári og 2.000 árið 2012. Til að þetta megi takast þarf að:

  • a. Setja framkvæmdir við álver í Helguvík af stað.
  • b. Eyða lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum.
  • c. Stjórnvöld leiti í fullri alvöru leiða til aðkoma af stað orkufreku atvinnuverkefni að Bakka.
  • d. Koma af stað arðbærum framkvæmdaverkefnum í samvinnu við lífeyrissjóðina og aðra fjármögnunaraðila.

Umhverfi til fjárfestinga er allt of tafsamt. Ráðherrar og stofnanir ríkisins nýta allan umþóttunartíma til hins ýtrasta og virða jafnvel ekki lög um fresti. Minnstu ágreiningsmál eru leidd um allt dómsstigið. Ákvarðanir um umhverfismat eru tilviljanakenndar og eru oftar en ekki byggðar á ófaglegum forsendum. Allt virðist gert til að drepa málum á dreif.

Fullkomlega löglegir gjörningar eru gerðir að pólitísku bitbeini á vettvangi stjórnmálanna og í alvöru er talað um að ganga á bak gerðum samningum við erlenda fjárfesta, t.a.m. í skattamálum. Þetta leiðir til þess að Ísland er orðinn lakur fjárfestingarkostur - fjárfestar treysta ekki lengur íslenska stjórnkerfinu. Tjónið af framangreindu er okkar allra og ekki verður unað við þetta ástand lengur.

Einföldum skattkerfið - beitum hvötum

Undanfarið hefur skattkerfið verið flækt og gert óhagkvæmt. Þessi staðhæfing er í samræmi við vitnisburð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Afleiðingar óhagkvæms skattkerfis og óvissu um skattaframkvæmd eru minni fjárfesting og hagvöxtur en ella. Því er mikilvægt að:

  • a. Óhagkvæmir skattar sem letja verðmætasköpun verði afnumdir. Árið 2011 verði 10 milljörðum varið til þessa verkefnis og 10 milljörðum árið 2012.
  • b. Skattaafslættir vegna rannsókna- og þróunarstarfs verði útvíkkaðir enn frekar.
  • c. Afsláttur frá tryggingargjaldi verði veittur fyrirtækjum sem sýnt geta fram á að störfum hafi fjölgað hjá þeim á árinu 2011 og 2012.
  • d. Skattaafslættir vegna hlutafjárkaupa verði innleiddir á ný.
  • e. Undanþágur frá tryggingargjaldi fyrir ný fyrirtæki verði innleiddar í tvö ár frá stofnun þeirra.
  • f. Skattkerfið verði endurskoðað í heild sinni með einföldun, hagkvæmni og hvata til verðmætasköpunar að leiðarljósi. Þeirri vinnu verði lokið fyrir 31. ágúst 2011.
  • g. Vörugjöld og verndartollar sem skekkja samkeppni og rýra hag almennings verði endurskoðaðir.

Þrátt fyrir að útgjaldahlið ríkissjóðs sé mikilvæg er tekjuhliðin jafnvel enn mikilvægari. Hún þarf að styðja við atvinnuuppbyggingu og tryggja sterka skattstofna. Því leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að óhagkvæmum sköttum sem virka sem dragbítur á atvinnulífið verði útrýmt í áföngum.  Næsta ár verði notað til að endurskoða skattkerfið með einföldun þess í fyrirrúmi.  Í þeirri vinnu má styðjast við skýrslu AGS frá í sumar en þar er bent á margt sem betur mætti fara í skattkerfinu og eru niðurstöður AGS um margt samhljóma þeim málflutningi sem Sjálfstæðismenn hafa haft í frammi.

Hvetjum til aukinnar fjárfestingar - myndum ný störf

Besta leiðin til að hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki til að fjárfesta í umsvifum er að beita skattalegum hvötum. Jafnframt er mikilvægt að fólk sem nú er atvinnulaust en hefur hugmyndir um hvernig það geti skapað sér vinnu, en skortir fjárhagslegt bolmagn til þess, verði stutt í þeirri viðleitni sinna að sjá sér og sínum farborða.

  • a. Boðið verði upp á hjálp til fólks sem hefur verið atvinnulaust í 6 mánuði eða lengur við að undirbúa stofnun eigin atvinnurekstrar. Einstaklingar eigi rétt á hjálp - aðstoð, menntun og beinum fjárframlögum - sem meta megi til 500 þúsund króna. Þetta verði gert í samvinnu við Starfsendurhæfingarsjóð aðila vinnumarkaðarins.
  • b. Starfsendurhæfingarsjóður verði efldur með þátttöku allra atvinnurekenda og stuðningi frá ríkinu.
  • c. Tryggingagjald verði lækkað samhliða því sem atvinnuleysi dvínar.

Starfsendurhæfingarsjóður hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og það framtak ber að styðja áfram með víðtækari þátttöku. Hækkun tryggingagjalds sem atvinnulífið samþykkti var í beinum tengslum við vöxt atvinnuleysis. Það væru skýr svik við atvinnurekendur ef ríkissjóður gerði alvöru úr áformum um að viðhalda háu tryggingagjaldi þegar dregur úr atvinnuleysi.

Efnahagsumhverfið bætt - endurskipulagningu fyrirtækja hraðað

Einn mikilvægasti þátturinn sem fjárfestar horfa til er gott efnahagsumhverfi og lítil óvissa um stjórnvaldsaðgerðir. Vanhugsaðar hugmyndir, eins og hafa komið fram í Magma-málinu, umræða um fiskveiðistjórnunarkerfið og hringlandaháttur í skattaframvæmd er eitur í beinum fjárfesta. Hér þarf heilbrigt efnahagsumhverfi til að fyrirtækin blómstri og fjármagnseigendur fjárfesti. Nauðsynlegt er að:

  • a. Endurskipulagningu skulda fyrirtækja verði að fullu lokið fyrir 31. mars 2011.
  • b. Alfarið verði horfið frá fyrningarleið í sjávarútvegi og að farið verði að tillögum sáttanefndar um fisveiðistjórnunarkerfið.
  • c. Unnið verði markvissar að því að aflétta þrýstingi af gjaldmiðlinum og þannig tryggt að gjaldeyrishöftin verði afnumin innan hæfilegs tíma.
  • d. Óvissu hvað varðar skattaframkvæmd næstu ára verði eytt, svo sem um virðisaukaskatt í tengslum við gagnaver.

Í umræðu um stöðu fyrirtækja hefur sjónum verið beint í of miklum mæli að stærstu fyrirtækjum landsins og eignarhaldsfélögum.  Fyrir liggur að langflest störf eru hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þessum fyrirtækjum hefur ekki verið sinnt nógu vel af nýju bönkunum. Þessu verður tafarlaust að breyta og endurskipulagningu skulda og efnahags fyrirtækja verður að ljúka á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Í einhverjum tilvikum mun stærð fyrirtækja og umfang efnahags leiða til þess að lengri tími reynist nauðsynlegur en það á ekki við um meginþorra fyrirtækja.

Mikilvægt er að sett verði fram skýr og samræmd aðferðafræði hvernig standa skuli að endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna. Tryggja verður að allir sitji við sama borð, að ferlið sé gagnsætt og að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstaða verði ekki bjöguð.  Sjálfsagt er að eigendum og starfsfólki verði gert kleift að eignast fyrirtækin að nýju ef færa þarf niður allt hlutafé eftir að fyrirfram skilgreindum áföngum er náð. Þannig viðhaldast þau verðmæti sem felast í þekkingu og atorku starfsmanna og eigenda, tengslum og viðskiptavild.

Ljóst er að þetta mun geta haft kostnað í för með sér fyrir fjármálastofnanir en sá kostnaður getur aðeins orðið brot af þeim samfélagslega kostnaði sem orðið hefur og verða mun ef endurskipulagningin dregst enn á langinn. Mikilvægt er að bönkunum verði gefið fullt ráðrúm til verksins.  

3.      Almannaþjónustan -  meira fyrir minna

Stöðva þarf núverandi hallarekstur sem er til kominn vegna þess að skattstofnarnir gáfu eftir í hruninu og vaxtabyrði ríkissjóðs jókst vegna skuldsetningar.  Ríkisútgjöld hafa vaxið um tæplega 50% umfram verðlag á undanförnum áratug.  Þetta er óheillaþróun. Nú er nauðsynlegt að ná tökum á ríkisfjármálunum með það að markmiði að ríkissjóður verði hallalaus árið 2013. Ekkert svigrúm er fyrir frekari vöxt útgjalda næstu ár. Það er því ljóst að áhersla næstu ára verður að vera á hagræðingu í rekstri ríkisins, lækkun útgjalda og tekjuöflun sem byggð er á aukinni verðmætasköpun en ekki skattahækkunum.  Þetta er forsenda þess að okkur takist að verja velferðina og auka lífsgæðin á komandi árum.  Við þurfum að gera meira fyrir minna.

Oft er því ranglega haldið fram að útgjaldavöxtur sé hinn endanlegi mælikvarði á aukin gæði opinberrar þjónustu.  Ekkert svigrúm er fyrir ranghugmyndir af þessum toga.  Á mörgum sviðum hefur orðið ofvöxtur í útgjöldum ríkisins og hann verður að leiðrétta.  Hafa ber hugfast að bæði gæði opinberrar þjónustu og umfang rekstrar á ábyrgð hins opinbera hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu landsins gagnvart öðrum löndum.

Eignir sem ríkið hefur fjármagnað með lántöku, s.s. í ýmsum fjármálastofnunum, á að selja við fyrsta tækifæri og lækka þannig skuldir og fjármagnskostnað ríkissjóðs.

Í stuttu máli þurfa ríkisfjármál næstu ára að snúast um að styrkja tekjustofnana og auka framleiðni á gjaldahliðinni. Verkefnið er stórt og endurmeta þarf alla þætti almannaþjónustunnar. Velta þarf við hverjum steini, draga reynslu af því sem vel hefur gefist og síðast en ekki síst að byggja aðgerðir á nánu og virku samstarfi við þá sem starfa á vettvangi.  

Stærstu útgjaldaliðirnir, fyrir utan fjármagnskostnað (75 milljarða) eru: menntamál (57 milljarðar), heilbrigðismál (98 milljarðar) og félags- og tryggingarmál (121 milljarður). Þessir liðir taka samtals um 68% af útgjöldum ríkisins.

Heilbrigðisþjónustan - tryggjum þjónustu, nýtum valfrelsi og sköpunarkraft

Grundvallaratriði við niðurskurð og sparnað í ríkisrekstrinum er að jafn réttur allra landsmanna til að njóta heilbrigðisþjónustu sé tryggður, óháð búsetu.  Harma ber verklag ríkisstjórnarinnar við niðurskurðinn, sem unninn er án alls samráðs og framtíðarsýnar Markmiðið er að veita áfram öllum Íslendingum heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Lélegur undirbúningur af hálfu ríkisstjórnarinnar  og minni fjármunir til heilbrigðisþjónustu á þessu og næsta ári ógna því markmiði.

Til að ná niður kostnaði í heilbrigðisþjónustunni verður að vinna á  grundvelli heildstæðrar stefnumótunar og er afar mikilvægt að hún sé byggð á vel skilgreindum réttindum hvers og eins.  Jafnframt þarf að tryggja samstarf og samvinnu við fagaðila og rétthafa þjónustunnar. Þjónustuna þarf að kostnaðargreina. Um leið og þjónustan er skilgreind út frá þörfum einstaklinganna en ekki þörfum kerfisins og einstakra stofnana  skapast grunnur fyrir valfrelsi og samkeppni um hagkvæm og árangursrík þjónustuúrræði. Mikilvægt er að auka ábyrgð fólks á eigin heilsu. Það verður gert með samvinnu aðila og heildstæðri stefnumótun á svið forvarna.

Skilgreina þarf hlutverk stofnana og sameina stjórnsýslu- og heilbrigðisstofnanir með hagræðingu og bætta þjónustu að markmiði. Greiðslur til stofnana eiga að vera gagnsæjar og skýrar. Endurskoða þarf greiðslufyrirkomulag sjúklinga með það að markmiði að þak verði á kostnaði langveikra og aðstandenda þeirra.

Ný heilbrigðisstefna verður ekki unnin meðfram fjárlagavinnu. Verði látið undir höfuð leggjast að hefja heildstæða endurskoðun á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins mun það óumdeilanlega bitna á gæðum þjónustunnar í náinni framtíð og möguleikum til að viðhalda því þjónustustigi sem byggt hefur verið upp um landið allt.

Sjálfsagt er að gera einkaaðilum kleift að leigja ónýtta aðstöðu af heilbrigðisstofnunum til að geta boðið fram heilbrigðisþjónustu til útflutnings.

Eyða þarf fátæktargildrum og hvetja til sjálfshjálpar

Á síðustu fimmtán árum hefur fjöldi öryrkja tvöfaldast, farið úr tæplega 7.600 árið 1996 í rúmlega 14.500 á síðasta ári. Þá hafa greiðslur Vinnumálastofnunar til atvinnulausra aukist mikið.  Á síðasta ári greiddi stofnunin rúmlega 29.000 einstaklingum tæpa 25 milljarða í atvinnuleysisbætur.  Þessi upphæð er rúmlega tíu sinnum hærri en hún var fyrir einungis þremur árum. Nauðsynlegt er að vinna gegn framhaldi á þessari þróun. 

Starfsendurhæfingarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki í því sambandi en hann ber að styrkja og tryggja almennari þátttöku aðila á vinnumarkaði að honum.

Hér verður einnig að nefna að tilfærslu og bótakerfið á Íslandi er vegna tekjutenginga hlaðið fátæktargildrum.  Hvers vegna ætti nokkur að vilja hverfa af bótum og fara út á vinnumarkaðinn þegar nær allar tekjurnar eru hirtar af ríkinu með skertum bótum?  Nauðsynlegt er að endurskoða samspil bóta og tekna til að hvetja sem flesta út á vinnumarkað á ný.  Með því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar tryggum við því tækifæri til að bæta lífskjör sín um leið og ríkið hefur betri möguleika til að standa undir mannsæmandi bótum fyrir þá sem ekki geta unnið fyrir sér og sínum.

Ávinnsla lífeyrisréttinda verði sjálfbær

Nauðsynlegur liður í úrbótum á opinberum rekstri er að endurskoða lífeyrisréttindakerfi opinberra starfsmanna og samræma þau. Lífeyriskerfi ríkisins er ósjálfbært og að óbreyttu mun annað hvort þurfa að hækka lífeyrisaldur eða hækka skatta til að standa undir byrðinni. 

Það stríðir gegn réttlætisvitund fólks á almennum vinnumarkaði, sem þarf að líða skert lífeyrisréttindi, að það skuli um leið þurfa að greiða hærri skatta til að tryggja óbreytt réttindi þeirra sem tilheyra opinberu lífeyrissjóðunum.  Þrátt fyrir að ríkið hafi að meðaltali gjaldfært um 20 milljarða á ári vegna skuldbindinga í opinbera lífeyriskerfinu hefur ófjármögnuð lífeyrisskuldbinding þess vaxið í meira en 500 milljarða króna, eða sem nemur um 4 milljónum króna á hvert heimili í landinu.  Af þessari braut verður að snúa. 

Því er óhjákvæmilegt að nú þegar verði hafist handa við að endurskoða lífeyriskerfi opinberra starfsmanna svo framtíðarfjármögnum kerfisins verði tryggð og komið í veg fyrir að áfram safnist upp óbærilegar byrðar fyrir framtíðarkynslóðir. Þá ber að stefna að jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði.

Menntamálin verði áfram í forgangi

Útgjöld til menntunnar eru fjárfesting til framtíðar. Það er vanhugsuð ráðstöfun að draga jafn mikið úr útgjöldum til menntamála og hugmyndir ríkistjórnarinnar byggja á þar sem menntun er forsenda framtíðarhagvaxtar og efnahagslegrar velmegunar allra Íslendinga. Það tekur marga áratugi að byggja upp menntakerfi eins og við Íslendingar búum við en einungis örskamma stund að eyðileggja það. Verkefni stjórnmálanna er að byggja á því sem vel er gert og sækja fram á réttum forsendum. Velmegun þjóða ræðst af menntunarstigi og þekkingaröflun. Það þarf að efla menntun ungs fólks í tæknigreinum til að uppfylla áætlaða þörf í hátækniiðnaði á næstu árum.   Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þveröfuga leið, með því að þrengja mest að tæknimenntuninni.  Sækja ætti í smiðju þeirra þjóða þar sem best hefur tekist til á þessu sviði.    

Tímann frá því að börn hefja skólagöngu þar til þau hefja sérnám þarf að nýta betur.  Það kemur samfélaginu öllu til góða. Við Íslendingar getum ekki verið eftirbátar nágrannaríkjanna í þessu tilliti. Íslensk ungmenni útskrifast síðar úr menntaskóla en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum. Það hefur í för með sér mikinn kostnað auk þess sem þeir sem ganga menntaveginn koma síðar út á vinnumarkaðinn en víðast hvar annars staðar. Á háskólastiginu ber að stefna að samnýtingu og sameiningu háskóla.

Halda ber áfram vinnu við að stytta námstíma til stúdentsprófs og við mótun menntastefnunnar á að byggja á sveigjanleika, valfrelsi og ábyrgð.

Skýringin á því að flutningsmenn vilja hlífa menntamálum er sú,  að til þess geta boðið upp á sterkt velferðarkerfi verður að tryggja efnahagslegar framfarir og einn af gangráðum hagvaxtar er vel menntuð þjóð. Þannig sýna rannsóknir að allt að 20% hagvaxtar á Íslandi árabilið 1970 til 1992 má rekja til fjárfestingar í menntun.  Því væri það glapræði að minnka fjárfestingu til þessa málaflokks nú um stundir þegar auka þarf umsvif og fjölga störfum.   

Fjármálafyrirtæki greiði gjald fyrir yfirlýsingu um ábyrgð á innistæðum

Í aðdraganda hrunsins 2008 lýstu ráðamenn yfir því að allar innistæður í íslenskum fjármálastofnunum nytu ríkisábyrgðar. Var þetta gert til að koma í veg fyrir áhlaup á bankana og önnur fjármálafyrirtæki. Forsvarsmenn ríkistjórnarinnar hafa staðfest þessa ábyrgð ítrekað síðan þótt hún hafi ekki verið lögfest. 

Mikilvægt er að losa ríkissjóð undan þessum ábyrgðaryfirlýsingum hið fyrsta, en það verður að gera á þann hátt að ekki komi til óróa á fjármálamarkaði. Óeðlilegt er að á meðan yfirlýsingin gildir sé hún gjaldfrjáls fyrir bankana enda er hún í eðli sínu niðurgreiðsla á kostnaði þeirra. 

Því er hér lagt til að sett verði á sérstakt gjald sem nemi 0,25% af stofni allra innstæðna hjá fjármálafyrirtækjum þar til yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur verið dregin til baka.

Líklegt er að viðbrögð markaðarins verði þau að innlánsstofnanir fari að bjóða  reikninga sem ekki njóta ríkistryggingar og þeir beri hærri vexti en þeir sem eru ríkistryggðir. Eftir því sem traust eykst á fjármálakerfið munu stöðugt fleiri kjósa ótryggða reikninga vegna ávöxtunarinnar allt þar til einungis verður um lágmarkstryggingu Tryggingasjóðs að ræða.

Með gjaldinu vinnst þrennt:

  • ríkissjóður fær sjálfsagða umbun fyrir þá áhættu sem fylgir yfirlýsingunni
  • gjaldið mun leiða til þess að með tímanum mun upphæð innistæðna sem njóta yfirlýsingarinnar lækka og að lokum hverfa.
  • innlánsstofnanir njóta ekki lengur niðurgreiðslu á vöxtum til innlánseigenda.

Betri stjórn ríkisfjármála

Ein orsök þess að hér var of mikil þensla í aðdraganda efnahagshrunsins er sú, að stefnan í opinberum fjármálum studdi ekki nægjanlega við peningamálastefnu Seðlabankans.  Á sama tíma og Seðlabankinn leitaðist við að slá á þenslu í hagkerfinu voru ýmsar ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga til þess fallnar að verka í öfuga átt. 

Til að koma ríkisfjármálum í fastari skorður og fjármálastefnan styðji betur við peningamálastefnuna er skynsamlegt að innleidd verði formleg fjármálaregla við stjórn ríkisfjármála á Íslandi. Það mun skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum á Íslandi til frambúðar og draga úr hagsveiflum og óvissu sem mun leiða til aukins hagvaxtar. Tillaga þessa efnis liggur fyrir á Alþingi frá þingflokki Sjáflstæðisflokksins. Felur hún í sér að ríkisútgjöld skuli ekki vaxa meira á ári en sem nemur langtímahagvexti.

Hvað kosta tillögurnar og hvernig á að fjármagna þær?

Augljóst er að ofangreindar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins myndu ef ekkert væri að gert leiða til meiri halla á ríkissjóði en leið ríkistjórnarinnar. Þannig myndi minni niðurskurður í menntakerfinu leiða til tæplega 3 milljarða minni bata ef snúið yrði ofan af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Afnám óhagkvæmra skatta kostar 10 milljarða, tekjuskattslækkanir 10 milljarða og aðra 11 að ráðast ekki í skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Því myndu tillögurnar leiða til 31 milljarðs verri afkomu ríkisjóðs. Því væri batinn ekki nema um 4 milljarðar í stað 43 milljarða ríkistjórnarinnar og við það yrði ekki unað.

Talið að sú fjölgun starfa sem fjallað er um hér að framan muni bæta stöðu ríkissjóðs um 36 milljarða  á næsta ári og um 33 milljarða árið 2012. 

Batinn við þær ráðstafanir sem hér er fjallað um yrði því um 45 milljarðar sem er um 2 milljörðum meira en tillögur ríkistjórnarinnar gera ráð fyrir. Frumjöfnuður yrði þannig 88 milljarðar á næsta ári í stað 17 milljarða ríkistjórnarinnar og halli að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar yrði um 51 milljarður í stað 53 milljarða ríkisstjórnarinnar. Jafnframt yrði skuldasöfnun minni sem leiddi til minni fjármagnskostnaðar og minni halla til lengri tíma litið. Þá er þessi ráðstöfun fallin til þess að styðja við eftirspurnina, flýta batanum og breikka og styrkja skattstofna. Hér er ekki talinn til tekjuauki vegna aukins þorskafla og aukinna óbeinna umsvifa og er það gert til að hafa borð fyrir báru við mat á jákvæðum áhrifum á ríkissjóð.

Til að tryggja enn frekar tekjugrunn ríkisjóðs er hér lagt til að inngreiðslur í séreignarsjóði landsmanna verði skattlagðar. Það myndi skapa um  80 milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð á næsta ári auk þess sem tekjur sveitarfélaganna myndu aukast um allt að 40 milljarða sem kæmi þeim vel í þessu erfiða árferði. Tekjur á ári eftir 2011 vegna þessarar ráðstöfunar gætu orðið allt að 7,5 milljarðar á ári fyrir ríkissjóð og 3,5 milljarðar fyrir sveitarfélögin. Þær tekjur sem ekki yrðu notaðar til að fjármagna tillögurnar á árunum 2011 og 2012 skulu nýttar til að greiða niður skuldir sem aftur myndi lækka vaxtakostnað ríkisins og bæta stöðu ríkissjóðs.

Mikilvægt er að undirstrika að flutningsmenn hafna algjörlega að gera þessa kerfisbreytingu á skattlagningu inngreiðslna í séreignarsjóði ef þær leiða ekki til verulegra skattalækkana á sama tíma.  Slíkar breytingar má alls ekki gera í þeim tilgangi að fresta nauðsynlegu aðhaldi í ríkisrekstrinum eins og sumir stjórnarliðar hafa rætt um. 

Framangreindar tillögur eru framsæknar og hafa mjög jákvæð áhrif á heimili, fyrirtæki og ríkissjóð, nái þær fram að ganga. Þær eru skýrt svar við hugmyndum ríkistjórnarinnar sem allar miða að undan- og afturhaldi og uppgjöf gegn vandanum. Það er trú flutningsmanna að með því að ráðast í ofangreindar tillögur verði brotin á bak aftur sú stöðnun sem ríkir í dag og að Ísland verði í framhaldinu aftur það land sem býður hvað best lífskjör landa heims."

Sigurður Kári.


,,Siðaskiptin" í Reykjavík

,,Siðaskiptin í Reykjavík" sem mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú boðað fyrir tilstilli fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa fallið í grýttan jarðveg sem von er.

Tillöguflutningurinn virðist fyrir okkur sem utan borgarstjórnar Reykjavíkur stöndum ganga út á það að rjúfa þau sterku tengsl sem verið hafa milli kirkju og skóla um áratugaskeið í skólastarfi.

x x x

Árið 2008 tók ég þátt í því á Alþingi að setja ný lög um grunnskóla.  Þá gegndi ég formennsku í menntamálanefnd þingsins.

Við meðferð frumvarpsins, sem síðar var samþykkt, var tekist á um það hvort starfshættir skóla skyldu mótast af kristinni arfleið íslenskrar menningar, kristnum gildum og kristnu siðgæði, eins og verið hafði um margra ára skeið í eldri lögum.

Í upphaflegu frumvarpi var ekki lagt til að svo væri.

Við sem mynduðum meirihluta menntamálanefndar Alþingis á þeim tíma lögðum til breytingu á frumvarpinu og lögðum til að starfshættir grunnskóla og leikskóla skyldu m.a. ,,mótast af umburðalyndi og kærleika, kristinni arfleiðs íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi."

Við ákváðum sem sagt að starfshættir skóla skyldu meðal annars mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

x x x

En nú vill svo til að komin eru til valda í Reykjavíkurborg öfl sem virðast vilja vinda ofan af þessum starfsháttum sem skólum er ætlað að starfa eftir lögum samkvæmt og lagt er til að skólastarfið mótist frekar af einhverju öðru en kristinni arfleifð okkar menningar.

Tillagan kveður á um það að starfsmenn kirkjunnar fái ekki lengur að heimsækja skóla.  Kirkjuferðir verða bannaðar og sálmasöngur líka.  Við þetta bætist síðan að taka á fyrir listsköpun í trúarlegum tilgangi.

Hér eru sem sagt á ferðinni tillögur um mjög róttækar breytingar í skólastarfi.

Verði ákveðið að klippa á tengsl kirkju og skóla fæ ég ekki betur séð en að verið sé að fara á svig við þau lög sem Alþingi samþykkti í maímánuði árið 2008.

Þar fyrir utan fela þær auðvitað í sér grundvallarbreytingar á því skólastarfi sem við þekkjum. 

Og ég get sagt það fyrir mína parta að þó ég telji mig sæmilega frjálslyndann þá er ég algerlega andsnúinn þessum tillögum.

Það er ekki þar með sagt að ég sé þeirrar skoðunar að ég vilji að börnin okkar leggist reglulega á bæn meðan þau eru í skólanum.

En ég er ekki viss um að slíkar grundvallarbreytingar sem verið er að leggja til að gerðar verði séu það sem börnin okkar þurfa á að halda á þessum tímum.

x x x

Ég veit ekki betur en að kirkjan og skólinn hafi átt býsna góða samleið um áratugi.  Og ég veit ekki betur en að kirkjan hafi lagt skólabörnum gott eitt til.  Ég veit ekki betur en að kirkjunnar menn hafi lagt sig fram við að innræta börnunum umburðalyndi, kærleika, umhyggju, virðingu og fleiri góð gildi sem þau síðan hafa búið að síðar á lífsleiðinni.

Að minnsta kosti er það mín reynsla.  Og hvers vegna að vera þá að breyta þessu fyrirkomulagi?

Hefur einhver orðið fyrir tjóni?  Hefur kirkjan látið slæmt af sér leiða í skólum landsins?

Það held ég ekki.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu held ég að börnin okkar þurfi allra síst á róttækum stefnubreytingum að halda í skólastarfinu.

Þó svo að þau hafi takmarkaðan skilning á fjárlagahallanum, ólögmætum gengistryggðum lánum, kaupmáttarrýrnun, atvinnuleysi, skuldavanda heimilanna og fleiri afleitum fylgifiskum kreppunnar þá skynja þau engu að síður ástandið.

Sum finna fyrir því á eigin skinni heima fyrir.  Önnur verða þess áskynja í fréttatímum fjölmiðlanna.

Við slíkar aðstæður er mjög óvarlegt að ráðast í kollsteypur í skólastarfi.

Þá fyrst er afar mikilvægt að börnin fái að halda í það sem þau hafa fengið að njóta og þekkja úr skólastarfinu.  Þar á ég við lítil jól, jólaföndur, fræðslu um þýðingu jólanna og páskanna og svo framvegis.

Við þessum föstu þáttum í skólastarfinu má ekki að mínu mati hrófla.

x x x

Engu að síður verður skólastarfið að taka mið af sérstökum aðstæðum eða óskum þeirra sem ekki vilja undirgangast þessa þætti þess, svo sem þeirra sem ekki eru kristinnar trúar.  Gegn þeirra rétti má ekki brjóta.

Í því sambandi er ástæða til að benda á að markmiðsákvæði grunnskólalaga kveður ekki einungis á um að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleið íslenskrar menningar. 

Jafnrétti, umburðarlyndi, kærleikur, ábyrgð, umhyggja og virðing fá þar einnig sinn verðuga sess.

Þá kveður jafnræðisregla stjórnarskrárinnar á um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir kyni, litarhætti, trúarskoðunum, þjóðerni og fleiri þáttum.

Það er mikilvægt að hafa ofangreind atriði í huga í þessari umræðu og sjálfsagt eðlilegt að hafa þau í heiðri.

En það þýðir hins vegar ekki að nauðsynlegt sé að ráðast í grundvallarbreytingar á skólastarfinu eins og þær sem mannréttindaráð Reykjavíkurborgar leggur til að gert verði.

Sigurður Kári.


Aðför ríkisstjórnarinnar að ferðaþjónustunni

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar, við tilraunum íslenskra fyrirtækja til að auka umsvif sín og um leið að skapa störf fyrir fólkið í landinu og auknar tekjur fyrir þjóðarbúið, eru óskiljanleg.

Í hvert sinn sem glittir í atvinnusköpun á Íslandi virðist uppnám skapast innan ríkisstjórnarinnar og maður gengur undir manns hönd til þess að koma í veg fyrir uppbyggingu og verðmætasköpun.

Nýverið kynnti Icelandair áform sín um að auka umsvif fyrirtækisins. Þessi auknu umsvif áttu m.a. að felast í því að fjölga flugvélum, farþegum og áfangastöðum. Forsvarsmenn fyrirtækisins áformuðu að hin auknu umsvif myndu skapa 200 ný störf innan félagsins og leiða til 17% aukningar í áætlunarflugi og fjölgun ferðamanna til Íslands. Með öðrum orðum var kynnt umfangsmesta sumaráætlun í rúmlega 70 ára sögu fyrirtækisins, sem sannarlega yrði mikil búbót fyrir þjóðarbúið.

Þeir hagsmunir sem hér eru í húfi eru gríðarlegir. Fyrir utan 200 ný störf hefðu umsvif á Keflavíkurflugvelli aukist verulega, bæði í starfsmannahaldi og veltu, en önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu hefðu jafnframt notið góðs af auknum umsvifum. Nægir þar að nefna að áætlað hefur verið að 10% fjölgun ferðamanna jafngildi aukningu gjaldeyristekna um 15 milljarða króna.

En nú eru þessi áform í algjöru uppnámi og alls ekki víst að af þeim verði. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin ætlar sér að hækka skatta á ferðaþjónustuna í landinu. Þessar skattahækkanir munu hækka gjöld á farþega, sem þó eru ærin fyrir, og þar með draga úr áhuga þeirra á því að ferðast til Íslands. Með því skekkir ríkisstjórnin ekki eingöngu samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart samkeppnislöndunum, heldur kastar hún samhliða 15 milljarða króna tekjum á glæ, til þess að geta náð í 100 milljónir króna í aukna skatta. Hún hirðir aurinn, en kastar krónunni.

Skattahækkunarstefna ríkisstjórnarinnar er ekkert annað en aðför að ferðaþjónustunni í landinu. Í stað þess að styðja við bakið á gamalgrónum fyrirtækjum, sem á erfiðum tímum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu og auknum gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið, leggur ríkisstjórnin nú stein í götu þeirra og kemur í veg fyrir að af slíkum áformum geti orðið.

Gangi þessi skattahækkunaráform eftir munu þau valda miklu tjóni. Fólk í atvinnuleit verður af þessum nýju störfum. Ríkið verður af skatttekjum, en þarf þess í stað að greiða atvinnuleysisbætur. Ferðaþjónustan verður af kærkominni vítamínsprautu með tilheyrandi tekjutapi og þjóðarbúið glatar auknum gjaldeyristekjum sem það þarf svo sárlega á að halda. Og það nöturlegasta við þetta allt saman er að skattahækkanirnar sem ríkisstjórnin nú boðar munu á endanum ekki skila ríkinu neinum auknum tekjum í ríkissjóð, heldur þvert á móti.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku atvinnulífi ber stjórnvöldum skylda til þess að styðja við bakið á fyrirtækjunum í landinu, en ekki stinga þau í bakið. Þeim ber skylda til að greiða götu þeirra sem hafa styrk, getu og vilja til þess að vaxa. Það er því sorglegt að horfa upp á núverandi ríkisstjórn gera allt sem í hennar valdi stendur til að draga mátt úr atvinnulífinu um leið og vaxtarbroddar, sem um munar, eru að myndast.

Með slíka ríkisstjórn við völd er borin von að Ísland nái sér aftur á strik.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband