Stjórnmálakreppa

Íslensk stjórnmál eru komin í mikið öngstræti.

Í raun er það svo að efnahagskreppan á Íslandi er orðin að stjórnmálakreppu.

Segja má að stjórnmálakreppan hafi náð hámarki í gær þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gaf sjálfri sér og ríkisstjórn sinni þá einkunn að hún hefði unnið kraftaverk og andmælti því harðlega að þau mótmæli sem þá stóðu yfir beindust gegn henni og ríkisstjórn hennar.  Þau beindust í raun gegn öllu öðru.

Þessi yfirlýsing lýsir að mínu mati mikilli veruleikafirringu sem núverandi forsætisráðherra er haldinn og algjöru vanmati á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í samfélaginu.

Að lýsa sjálfa sig og samverkamenn sína kraftaverkamenn á sama tíma þúsundir Íslendinga ganga um atvinnulausir, aðrir eru við það að missa heimili sín og hundruð einstaklinga þurfa að óska eftir matargjöfum hjá Mæðrastyrksnefnd í hverri viku segir allt sem segja þarf um veruleikafirringuna.

Vandi íslenskra stjórnmála er sá að hér á landi er við völd ríkisstjórn sem hefur enga burði til þess að leysa þann vanda sem heimilin og fyrirtækin eiga við að glíma.  Hún trommar upp væntingar meðal almennings sem hún getur síðan ekki staðið við.  Hún heitir því að leggja fram tillögur sem síðan aldrei líta dagsins ljós.  Og hún berst við alvarleg innanmein og innbyrðis ágreining í grundvallarmálum.

Ríkisstjórnin er eina stofnun þessa lands sem ekki hefur lagt fram hugmyndir eða aðgerðaráætlun um það hvernig leysa á vandann og endurreisa íslenskt samfélag.

Það hafa hins vegar allir aðrir gert.

Samtök atvinnulífsins, ASÍ og Viðskiptaráð hafa lagt fram sínar hugmyndir.  Það hefur Framsóknarflokkurinn líka gert.  Og nú síðast lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram viðamestu aðgerðaráætlun sem komið hefur fram frá hruni um lausn á vanda heimila og fyrirtækja.

Og hinn kaldi veruleiki er sá að þegar slíkar framfarahugmyndir er settar fram slær forsætisráðherrann og ríkisstjórnin þær jafnharðan út af borðinu og vill ekki heyra á þær minnst, í stað þess að ræða þær efnislega.

En það sorglegasta við framgöngu Jóhönnu og ríkisstjórnarinnar er hins vegar það að henni hefur reynst fyrirmunað að leggja fram sínar eigin tillögur til mótvægis við þær sem frá okkur Sjálfstæðismönnum og öðrum hafa komið.

Þvert á móti rær ríkisstjórnin í öfuga átt og kemur í veg fyrir atvinusköpun í landinu.

Þetta verður að breytast.  Þessi skelfilega staða sem uppi er í stjórnmálunum getur ekki gengið til frambúðar.  Það hljóta allir að sjá.  Hún hefur þegar valdið of miklu tjóni og verði ekkert að gert verður tjónið enn meira.

Þessari stjórnmálakreppu mun hins vegar ekki ljúka meðan þessi ríkisstjórn er við völd og viðhefur þau vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að og brennt okkur á.

Á meðan ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heldur völdum mun sú stjórnmálakreppa sem hér ríkir dragast enn á langinn og dýpka.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband