Jóhanna kallar eftir vantrauststillögu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skoraði í vikunni á stjórnarandstöðuna að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Það var ágætis tilraun hjá Jóhönnu til þess að rugla umræðuna.

En Jóhanna gat sparað sér að óska eftir því að tillaga um vantraust kæmi fram, því vantraustið blasir við um allt þjóðfélagið.

Það er hins vegar er mikilvægt að fólk átti sig á hvers vegna hún setti þessa áskorun fram.

Það var ekki gert til þess að hvetja stjórnarandstöðuna til þessa tillöguflutnings.

Áskorunin var örvæntingarfullt herútkall Jóhönnu til þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, sett fram til þess að reyna að þétta raðirnar í ríkisstjórnarsamstarfi sem er að fara í vaskinn og þjóðin er búin að fá nóg af.

En úr því að áskorun Jóhönnu er fram komin er ekki úr vegi að rifja stórmerka ræðu sem haldin var þegar vantrauststillaga var síðast borin fram á Alþingi þann 24. nóvember 2008, en vantraustið beindist að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu var Steingrímur J. Sigfússon, þá stjórnarandstæðingur, nú fjármálaráðherra.

Hafi ræðan þótt viðeigandi þegar Steingrímur flutti hana vil ég fullyrða að hún á enn betur við, nú tveimur árum síðar.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Þegar Steingrímur mælti fyrir vantrauststillögunni á Alþingi sagði hann við upphaf ræðu sinnar:

,,Ríkisstjórnin er sundurþykk og lítt starfhæf. Ríkisstjórnin er sek um mikið andvara- og aðgerðarleysi í aðdraganda efnahagshrunsins. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts og hefur ekki þjóðina með sér. Innan við þriðjungur þjóðarinnar treystir nú ríkisstjórninni samkvæmt nýjum skoðanakönnunum.“

Í ljósi þessara orða er rétt að nefna að samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum nýtur núverandi ríkisstjórn einungis 30% stuðnings. Óhætt er að segja að þau Jóhanna, Steingrímur og hinir ráðherrarnir njóti ekki trausts og ríkisstjórnin hefur sannarlega ekki þjóðina með sér. Það sýna kannanir og mótmæli um allt land.

Steingrímur bætti síðan við:

,,Ríkisstjórninni eru og hafa verið ákaflega mislagðar hendur í svokölluðum björgunaraðgerðum, aðgerðum sem fyrst og fremst hafa falist í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um gríðarlegar erlendar lántökur og skuldsetningu þjóðarinnar.“

Óhætt er að segja að núverandi ríkisstjórn hafi ekki síður verið ákaflega mislagðar hendur í björgunaraðgerðum sínum gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum. Reyndar hefur henni gengið svo illa að enn hefur hún ekki lagt fram tillögur og hugmyndir um lausn á vanda fyrirtækja og heimila, hvað þá ráðist í aðgerðir.
En það má ríkisstjórnin eiga að hún hefur gert sitt allra besta til að ráðast í gríðarlegar erlendar lántökur og gert allt til að skuldsetja þjóðina upp í rjáfur.

Þar kemur Icesave-málið óneitanlega upp í hugann.

Í ræðu sinni vék Steingrímur nánar að helstu röksemdunum sem vantrauststillagan byggði á:

,,Í fyrsta lagi er sundurþykkja ríkisstjórnarinnar öllum ljós. Það talar í raun og veru fyrir sig sjálft. Stjórnarliðar, þingmenn og ráðherrar deila opinberlega í þingsölum sem annarsstaðar.“

Það verður seint sagt að núverandi ríkisstjórn hafi verið sérstaklega samstíga, heldur hefur sundurþykkjan verið öllum ljós. Til dæmis varðandi aðildarumsókn Íslands að ESB. Og ekki síður í Icesave-málinu. Nú vill Ögmundur Jónasson almenna skuldaniðurfellingu. Jóhanna og Árni Páll Árnason eru alfarið á móti því. Steingrímur vill halda samstarfinu við AGS áfram, en það vill Lilja Mósesdóttir ekki. Steingrímur er orðinn eini stuðningmaður fjárlagafrumvarpsins innan ríkisstjórnarinnar. Allir hinir ráðherrarnir hafa snúið við því baki. Og svo mætti lengi telja. Dæmin eru óteljandi.

,,Í öðru lagi er andvaraleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar allan sinn tíma frægt að endemum. Um það eru dæmin svo dapurleg, ég vil ekki segja hlægileg, að engu tali tekur.“

Í dag springa menn úr hlátri um allt land þegar minnst er á skjaldborgina sem ríkisstjórnin ætlaði að slá um heimilin í landinu.

Andvaraleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar eykst á sama tíma og raðirnar fyrir utan hjálparstofnanir eftir matargjöfum lengjast. Biðraðirnar eftir mat eru dapurlegasta dæmið um hversu illilega norrænu velferðarstjórninni hefur orðið á í messunni.

Og Steingrímur gerði lítið úr blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar sem þá var:

,,Upplýsingagjöf til þjóðarinnar hefur verið í skötulíki en hins vegar eru sviðsettir blaðamannafundir, svokallaðir karamellufundir, haldnir síðdegis á föstudögum þar sem reynt er að koma með góðar fréttir til að slá á væntanleg mótmæli helgarinnar.“

Engin ríkisstjórn hefur gengið lengra í því sviðsetja blaðamannafundi og aðra fundi en ríkisstjórn Steingríms J. og Jóhönnu. Spunavél ríkisstjórnarinnar mallar nú sem aldrei fyrr og leikritin eru sett á svið úti um allan bæ. Í Stjórnarráðinu. Í Þjóðmenningarhúsinu og víðar. Og öll þessi leikrit heita það sama: ,,Samráðsfundir“. Þar er allt gert til að reyna að sína fram á hversu samráðsfús, auðmjúk og sanngjörn ríkisstjórnin er gagnvart stjórnarandstöðunni.

Á þessum ,,samráðsfundum“ hafna Steingrímur og Jóhanna öllum tillögum stjórnarandstöðunnar, en leggja á sama tíma engar hugmyndir fram sjálf.

Þetta er allt samráðið, sanngirnin og auðmýktin.

Nú virðist ríkisstjórnin hins vegar vera hætt að reyna að slá á óánægju almennings og koma í veg fyrir mótmæli með því að segja góðar fréttir. Hún hefur ekki hugmyndaflug í það lengur.

Á þessum tíma vildi Steingrímur mynda þjóðstjórn:

,,Það er rétt að muna að ríkisstjórnin afþakkaði tilboð stjórnarandstöðunnar, í sumar, í haust, í byrju október, um myndun þjóðstjórnar.“

Nú þegar Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggja til að mynduð verði þjóðstjórn og að síðan verði boðað til kosninga afgreiða bæði Jóhanna og Steingrímur slíkar hugmyndir sem fráleitar.

En Steingrímur hefur ekki alltaf verið jafn mótfallinn því að boðað verði til kosninga þegar ráðandi valdhafar eru orðnir rúnir trausti, óánægja mikil og reiðiöldur rísa:

,,Óánægju og reiðiöldur rísa. Það er eðlilegt, það er skiljanlegt og það er réttmætt. En við skulum sameinast um eitt og það snýr að ríkisstjórninni og meirihlutanum:

Viljum þessa reiði í uppbyggilegan farveg en missum hana ekki úr böndunum. Virkjum lýðræðið. Sameinumst um það. Það er hin lögmæta og friðsamlega aðferð að útkljá slík mál í lýðræðislegum kosningum. Kann einhver betra ráð en lýðræðislegar kosningar?

Við hvað eru menn hræddir?

Og ég segi við ykkur sem eruð að hlusta á heimilum ykkar, á vinnustöðum eða hvar annarstaðar sem þið eruð: Þið ráðið þessu. Allt vald sprettur frá þjóðinni í lýðræðissamfélagi. Þjóðin á betra skilið en það sem á henni dynur núna.“
Og Steingrímur bætti við:

,,Þjóð sem vill kosningar á að fá kosningar.“

Ég tel að þessi merka ræða Steingríms J. Sigfússonar sem hann hélt í nóvember árið 2008 hafi aldrei átt meira og brýnna erindi við ríkjandi valdhafa á Íslandi en einmitt nú.

Og það færi sannarlega vel á því ef Steingrímur myndi endurflytja þessa ræðu þegar Alþingi kemur aftur saman til funda eftir helgi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband