Landsdómsmálið

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, hefur aldrei haft fyrir því að útskýra fyrir Alþingi hvers vegna hann greiddi atkvæði með því að ákæra skyldi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, draga hann fyrir landsdóm og krefjast þess að hann yrði látinn sæta refsingu, sektum eða fangelsi.  Ögmundur sagði ekki eitt aukatekið orð í umræðum um ákærutillöguna á Alþingi og gerði ekki grein fyrir atkvæði sínu þegar hann fékk tækifæri til þess við atkvæðagreiðsluna.

Sjaldan hefur jafn lítið farið fyrir Ögmundi og í umræðum um landsdómsmálið, en á löngum þingferli sínum hefur hann sjaldan látið vera að leggja eitthvað til mála, stórra sem smárra.  Það þekkist líklega hvergi að dómsmála- og mannréttindaráðherra þjóðríkis þegi þunnu hljóði í aðdraganda þess að boðað er til pólitískra réttarhalda.

Ögmundur vaknar til lífsins

Þótt Ögmundur skuldi Alþingi, þjóðinni og þeim ákærða skýringar, virðist hann nú vera að vakna til lífsins og hefur lagt fram frumvarp til breytinga á landsdómslögum.  Nú skal þess freistað að tjasla upp á landsdómslögin sem ítrekað var bent á, áður en ákveðið var að ákæra Geir H. Haarde, að væru úr sér gengin og þyrftu breytinga við.

Nú á að gera tilraun til að breyta leikreglum í miðjum leik.  Með því sniðgengur Ögmundur tilmæli þingmannanefndar Atla Gíslasonar um meðferð landsdómsmálsins.

Tilgangurinn væntanlega sá að auka líkurnar á því að núverandi stjórnvöldum takist það ætlunarverk sitt að fá fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar dæmdan og gera hann þannig einan að blóraböggli efnahagshrunsins sem hér varð.  Það hvarflar greinilega ekki að mannréttindaráðherranum að láta sakborninginn Geir njóta vafans varðandi hugsanlega ágalla á löggjöfinni sem um málareksturinn gildir, líkt og gert yrði í öllum réttarríkjum hins vestræna heims.

Forseti landsdóms

Til að bíta höfuðið af skömminni kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að breytingar á landsdómslögunum séu byggðar á skriflegum tillögum sem ráðherranum bárust úr ólíklegustu átt, þ.e. frá forseta landsdómsins, sem jafnframt gegnir embætti forseta Hæstaréttar Íslands.

Það er ekki hlutverk landsdómara að taka þátt í að koma fram breytingum á lögum sem gilda um dómstólinn sem þeir starfa við eftir að ákvörðun um málshöfðun hefur verið tekin.  Þeirra verkefni er að dæma um sakarefni máls á grundvelli þeirra laga sem í gildi eru hverju sinni.  Þetta hljóta allir að sjá og gildir þá einu í hverju tillögurnar felast.

Verði landsdómsfrumvarpið hins vegar að lögum getur að óbreyttu sú annkanalega staða komið upp að vilji sakborningurinn í málinu láta reyna á gildi ákvæða hins nýja frumvarps kemur það í hlut landsdómara, sem sjálfur lagði til að ákvæðið yrði lögfest, að skera úr um réttmæti málatilbúnaðar sakborningsins, án þess að þeim úrskurði verði áfrýjað.

Dómari getur ekki dæmt í eigin sök; ekki einu sinni í pólitískum réttarhöldum.

Sakborningur án verjanda

Undanfarið hefur  maður gengið undir manns hönd í stjórnkerfinu við að undirbúa réttarhöldin fyrir landsdómi af hálfu ákæruvaldsins.  Saksóknari hefur verið skipaður.  Hann hefur hafið störf af fullum krafti og hefur aðstoðarsaksóknara sér til fulltingis, þótt vandséð sé að landsdómslögin heimili slíkan liðsstyrk, auk annarra aðstoðarmanna.  Af hálfu ríkisins er því allt lagt í sölurnar í réttarhöldum sem gert er ráð fyrir að muni kosta allt að 200 milljónum króna.  Heiftin verður því skattgreiðendum þessa lands dýr.

Á sama tíma fær sakborningurinn Geir H. Haarde ekki skipaðan verjanda þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.  Geir hefur sjálfur upplýst um að forseti landsdóms hafi brugðist við beiðni hans um skipun verjanda með því að óska umsagnar saksóknara um skipunina!  Slíkt hlýtur að vera einsdæmi og er með öllu óskiljanlegt, enda hefur saksóknari ekkert með ákvörðun um skipun verjanda að gera, hvorki í þessu sakamáli né öðrum.

Sú spurning hlýtur að vakna hvernig forseti landsdómsins hyggst fara með þá umsögn sem hann hefur óskað eftir, ekki síst ef hún verður neikvæð.  Verður sakborningnum þá ekki skipaður verjandi?  Það myndi sannarlega auðvelda málareksturinn gegn Geir H. Haarde í hugum einhverra ef hann fengi ekki skipaðan verjanda.

Það gefur augaleið að þessi meðferð á sakborningnum fær ekki staðist.  Það ber að skipa honum verjanda nú þegar og lögum samkvæmt hefði átt að gera það um leið og Alþingi ákvað að höfða sakamál gegn honum.   Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, telur að sú ákvörðun að skipa Geir ekki verjanda um leið og ákvörðun um ákæru lá fyrir brjóti gegn  ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og ákvæðum stjórnarskrár.  Auk þess brýtur hún í bága við ákvæði 15. gr. landsdómslaga, sem ekki verður misskilin.

Þörfin fyrir verjanda

Það er mikilvægt að átta sig á því að á meðan Geir H. Haarde hefur ekki verið skipaður verjandi og því haldið fram að óvissa sé um formlega stöðu hans í landsdómsmálinu er honum gert afar erfitt að bera hönd yfir höfuð sér vegna þeirra lögbrota sem hann er sakaður um  að hafa framið.

Hann fær til dæmis ekki aðgang að þeim gögnum sem málshöfðunin gegn honum byggir á og getur þar af leiðandi ekki hafið undirbúning málsvarnar sinnar.  Á meðan honum hefur ekki verið skipaður verjandi á hann sér engan formlegan málsvara sem getur gert kröfur fyrir hans hönd um atriði sem varða réttarhöldin.

Á sama tíma undirbýr saksóknarinn hins vegar málsókn sína af kappi þar sem engu er til sparað.  Hann hefur aðgang að öllum gögnum málsins, her manna til þess að létta undir með sér og nýtur stuðning núverandi ráðamanna.  Leikurinn gæti því ekki verið ójafnari.

Óverjandi málsmeðferð

Sjálfur var ég þeirrar skoðunar að sú ákvörðun meirihluta alþingismanna að ákæra Geir, og reyna þannig að gera hann einan ábyrgan fyrir efnahagshruninu, væri hneyksli sem væri hvorki Alþingi né þeim sem að ákærunni stóðu til neins sóma.  En ekki hefur framhaldið verið mikið betra eins og hér hefur verið rakið.

Ögmundi Jónassyni ber að sjálfsögðu að hætta öllum tilraunum við að breyta leikreglum landsdómslaga í miðjum leik.  Það getur hann gert með því að draga frumvarp sitt tafarlaust til baka.  Og hafi hann snefil af áhuga á mannréttindum borgara þessa lands ætti hann að beina þeim tilmælum til forseta landsdóms að Geir H. Haarde verði skipaður verjandi nú þegar svo honum verði gert mögulegt að verja hendur sínar.

Forseti landsdóms þarf síðan að hugsa sinn gang vandlega  Forseti dómsins hlýtur nú að þurfa að velta því alvarlega fyrir sér hvort hún, í ljósi framgöngu sinnar, sé hæf til setu í landsdómi og hvort henni beri ekki að víkja sæti.  Í mínum huga er svarið við þeirri spurningu augljóst.

Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að enginn maður á að þurfa að þola þá meðferð sem Geir H. Haarde hefur þurft að sæta á upphafsstigum landsdómsmálsins sem framundan er.

Sú málsmeðferð er óverjandi og undir henni er ekki hægt að sitja þegjandi.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband