Fimmtudagur, 24. febrúar 2011
Heimild Samkeppniseftirlitsins til að brjóta upp fyrirtæki án þess að lög hafi verið brotin
Róttækasta og alvarlegasta breytingin felst í því að heimila Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau, stjórnendur þeirra eða eigendur hafi gerst sekir um brot á samkeppnislögum, öðrum landslögum eða yfir höfuð gert nokkurn skapaðan hlut af sér!
Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddum atkvæði gegn frumvarpinu.
Ég ræddi þessa furðulegu lagasetningu við Magnús Orra Schram, þingmann Samfylkingarinnar, í Kastljósi kvöldsins.
Það samtal var býsna einkennilegt því Magnús Orri eyddi miklu púðri í að rökstyðja nauðsyn þess að breyta samkeppnislögunum þannig að með þeim væri komið í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja.
Af málflutningi Magnúsar Orra að dæma virðist það hafa farið framhjá honum að bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu var lögfest árið 1993!
Við það bann hef ég, þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða aðrir sem þátt hafa tekið í umræðu um þetta frumvarp ekki gert nokkrar athugasemdir, enda fjallar frumvarpið um allt annað en það sem Magnús Orri var að tala um í Kastljóssþætti kvöldsins.
Til að útskýra afstöðu mína og þingmanna Sjálfstæðisflokksins til þessa máls má lesa hér að neðan nefndarálit sem við lögðum fram á Alþingi þar sem röksemdir okkar gegn frumvarpinu eru raktar með ítarlegum hætti, en álitið er svohljóðandi:
,, Við 2. umræðu málsins óskuðu fulltrúar minni hlutans eftir því að frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum, gengi til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umræðu. Ástæðan fyrir beiðninni var sú að minni hluti nefndarinnar taldi nauðsynlegt að nefndin aflaði sér álits sérfræðinga á sviði samkeppnisréttar á þessu umdeilda frumvarpi.
Við meðferð málsins í viðskiptanefnd komu til fundar við nefndina þeir Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt í samkeppnisrétti við lagadeild Háskóla Íslands, og Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Veittu þeir nefndinni munnlega umsögn um frumvarpið en skiluðu síðan skriflegri umsögn til nefndarinnar 28. janúar sl., sem fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal.
Í umsögn sérfræðinganna kemur fram hörð gagnrýni á efni frumvarpsins og þá einkum á það matskennda ákvæði frumvarpsins sem felur í sér mestar breytingar á núgildandi samkeppnislögum, þ.e. b-lið 2. gr. frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki þó ekki liggi fyrir að nein brot hafi átt sér stað gegn ákvæðum samkeppnislaga heldur aðeins ef aðstæður, að mati Samkeppniseftirlitsins, eru með þeim hætti að ætla megi að samkeppni sé ekki fullkomlega virk. Taka sérfræðingarnir því undir þá megingagnrýni sem minni hlutinn hefur sett fram um efni frumvarpsins.
Aðgangshindranir og hröð málsmeðferð.
Í upphafi er rétt að geta þess að í umsögn sérfræðinganna er bent á tvö atriði sem þeir telja öðru fremur að gætu orðið til þess að efla samkeppni eða draga úr þeim aðstæðum sem standa samkeppni helst fyrir þrifum.
Annars vegar benda þeir á að á mörgum mörkuðum hérlendis séu ýmsar hindranir í vegi fyrir því að fyrirtæki geti keppt óhindrað sín á milli um viðskipti við neytendur. Hindranir af þessu tagi, sem sérfræðingarnir nefna aðgangshindranir, séu í flestum eða mörgum tilfellum lykilskýring á því hvernig einstök fyrirtæki geti náð svo sterkri stöðu á markaði að óheppilegt geti talist fyrir framgang samkeppni á honum. Aðgangshindranir af þessu tagi eigi sér mjög oft uppruna í ákvæðum laga eða ákvörðunum stjórnvalda sjálfra. Markvisst afnám slíkra aðgangshindrana af hendi löggjafans og stjórnvalda mundi efla samkeppni mun betur og hraðar en sú aðgerð að fela Samkeppniseftirlitinu þær óljósu heimildir sem í frumvarpinu felast og hér hafa verið nefndar.
Hins vegar benda sérfræðingarnir á að í núgildandi samkeppnislöggjöf séu nokkrar meginreglur hverra skörp og skýr beiting sé úrslitaatriði um hvort samkeppnislögin hafi jákvæð áhrif á samkeppni og þróun markaða eða ekki. Þegar á það reyni hvort fyrirtæki hafi raskað samkeppni með ólögmætu samráði sín á milli eða með misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé afar brýnt að niðurstöður fáist um slík álitaefni bæði skjótt og vel. Fyrirtækjum sé nauðsynlegt að vita án dráttar hvernig talið er rétt að túlka og beita þeim leikreglum sem samkeppnislögin byggist á gagnvart raunverulegum aðstæðum á markaði, samningum og hvers kyns markaðsfærslu. Staðreyndin sé hins vegar sú að það geti tekið mörg ár að fá niðurstöðu í slík mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Fram kom á fundi nefndarinnar að dæmi væru um að það tæki jafnvel 2-4 ár að fá niðurstöðu í málum sem Samkeppniseftirlitið hefði haft til meðferðar. Slík staða sé með ólíkindum og ef samkeppnislögunum er ætlað að gera gagn og ná í alvöru þeim markmiðum sem lögin stefna að, þ.e. að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með eflingu virkrar samkeppni, neytendum og landsmönnum öllum til hagsbóta, þá sé það langbrýnasta verkefni Alþingis að búa svo um hnútana að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta og tekið í öllum tilvikum ákvarðanir í málum sem varða bannreglur laganna innan fárra mánaða í mesta lagi.
Undir þessi sjónarmið tekur minni hlutinn.
Heimild Samkeppniseftirlitsins til að brjóta fyrirtæki upp.
Minni hlutinn hefur helst gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skipta fyrirtækjum upp eða fyrirskipa breytingar á skipulagi þeirra án þess að þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum.
Í umsögn sérfræðinganna er þetta ákvæði frumvarpsins gagnrýnt harðlega og lýsa þeir miklum efasemdum um að þessi breyting á samkeppnislögunum muni verða til bóta og færa fyrir þeim efasemdum ýmsar ástæður.
Þar vegur þyngst sá alvarlegi fyrirvari fræðimannanna við að uppskiptingarákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands sem verndar eignarrétt, sbr. 72. gr. hennar.
Í umsögn sérfræðinganna segir um þetta atriði: ,,Hafa verður í huga að fyrirtæki geta náð mikilli markaðshlutdeild eða sterkri markaðsstöðu í huga neytenda með aðgerðum og háttsemi sem er fyllilega lögmæt og eðlileg. Það liggur í eðli samkeppninnar að ekki gengur öllum jafnvel að mæta þörfum viðskiptavina og neytenda og hlutdeild fyrirtækja á markaði breytist eðlilega í samræmi við slíkt. Fyrirhuguð heimild til íhlutunar í aðstæður sem raskað getur samkeppni er ekki takmörkuð á neinn hátt né veitir frumvarpið neina leiðsögn um við hvaða aðstæður nákvæmlega kemur til greina að henni verði beitt, hvaða sjónarmiðum skuli beitt við slíkt mat eða annað. Galopin og matskennd heimild af þessu tagi þar sem ofurtrú er lögð á óskeikulleika stjórnvalds og þar sem útilokað er að gera sér grein fyrir því, með lestri lagatextans, hvenær beitt verður er alls ekki í anda þess réttaröryggis og þeirrar festu sem ríkja þarf um eignarréttindi manna eins og þau eru vernduð í stjórnarskrá. Í öllu falli telja undirritaðir að gera þyrfti rækilega grein fyrir því í greinargerð með frumvarpi þessu hvernig ákvæðin teljast samþýðanleg stjórnarskrá. Þótt heimildir SKE samkvæmt margnefndu lagaákvæði nái ekki til þess að taka eignir eignarnámi án þess að endurgjald komi fyrir þá verður vart deilt um það að handstýrðar breytingar á atferli eða skipulagi fyrirtækis, svo sem með uppskiptingu þess, eru til þess fallnar að hafa veruleg áhrif á verðmæti þeirra. Í raun verður telja að heimildin ein og sér muni hafa áhrif á verðmæti fyrirtækja sem hugsanlega gætu fallið undir hana. Með lögfestingu heimildarinnar verður til óvissuþáttur sem fjárfestar hljóta að þurfa að horfa til."
Þá gagnrýna sérfræðingarnir í umsögn sinni að uppskiptingarheimild frumvarpsins sé ,,afar opin" og feli í sér ,,óljósa og matskennda reglu". Þeir benda á að ákvæði samkeppnislaga séu nú þegar að mörgu leyti afar óljós og matskennd og að erfitt sér fyrir stjórnendur fyrirtækja í mjög mörgum tilvikum að gera sér grein fyrir stöðu þeirra gagnvart ákvæðum laganna og nefna í því sambandi ákvæði 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ályktanir um hvort fyrirtæki sé í markaðsráðandi stöðu séu byggðar á mjög matskenndum sjónarmiðum um skilgreiningu markaða og mati á efnahagslegum styrk fyrirtækja á þeim sem gífurlega erfitt geti verið fyrir stjórnendur fyrirtækja að glöggva sig á fyrirfram. Sú óvissa sem af þessu skapast um rekstur fyrirtækja sé mjög óheppileg og feli að sjálfsögðu í sér ágalla á því regluverki sem í samkeppnislögunum felast þótt vera kunni að slíkt sé að einhverju marki óhjákvæmilegt þegar lög af þessu tagi eigi í hlut. Engin ástæða sé hins vegar til þess að auka þessa óvissu verulega með lögfestingu þeirrar heimildar sem hér um ræðir. Mjög brýnt væri að útskýra og afmarka mun nánar, bæði í lagatextanum sjálfum og í greinargerð með frumvarpinu, hvaða aðstæður það teldust vera sem réttlætt gætu beitingu heimildarinnar, hvers konar málsmeðferð þyrfti að eiga sér stað áður en að slíku kæmi, hvaða markaðir það væru sem frumvarpshöfundar teldu að kynnu að sæta slíkri athugun yrði frumvarpið samþykkt o.s.frv. Þá benda sérfræðingarnir á að það sé síður en svo augljóst hvort samkeppni sé virk eða skert á mörgum mörkuðum eða hvað valdi því að markaðir og/eða fyrirtæki hegði sér eða virki með þessum hætti eða hinum. Orsakir og afleiðingar leikist oft á með mjög flóknum hætti og oft sé einfaldlega ekki hægt að greina með neinni fullnægjandi vissu hvers vegna markaði virki eins og þeir virki. Að ætla Samkeppniseftirlitinu að meta þetta og greina og grípa til íþyngjandi íhlutunar gegn fyrirtækjum, og þá um leið eigendum þeirra, án þess að nein lög hafi verið brotin og án neinnar leiðsagnar feli í sér oftrú á getu stjórnvaldsins, hversu vel mannað og skipulagt það teljist annars vera.
Minni hlutinn hefur ítrekað bent á að sé það á annað borð mat löggjafans að aðstæður í atvinnulífinu séu með þeim hætti nauðsynlegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækari valdheimildir en finna má í núgildandi samkeppnislögum verði að gera þá lágmarkskröfu að valdheimildin sé skilgreind með skýrum hætti í lögunum þannig að útfært sé nákvæmlega í lagatexta við hvers konar aðstæður heimildin verði virk, svo sem með vísan til markaðshlutdeildar yfir ákveðnum mörkum, tilgreindri samþjöppun á markaði eða öðrum þeim mælikvörðum sem almennt eru lagðir til grundvallar í samkeppnisrétti. Sú skoðun minni hlutans byggist á því sjónarmiði að sníða beri stjórnvöldum skýran lagaramma og að tryggt sé að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu heldur gæti meðalhófs við beitingu valds. Mikilvægt sé að hafa þessi meginsjónarmið að leiðarljósi jafnvel þó svo að margt hafi aflaga farið í íslensku viðskiptalífi á síðustu missirum og árum og að framferði forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja hafi verið mjög ámælisverð. Sú leið er hins vegar ekki farin í frumvarpinu heldur er lagt til að lögfest verði matskennd, óljós og óskýr heimild til þess að brjóta upp fyrirtæki sem heimilt er að beita án þess að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum og í raun án allrar leiðsagnar löggjafans um með hvaða hætti henni skuli beitt.
Minni hlutinn bendir á að með því að veita stjórnvaldi svo matskenndar og óskýrar valdheimildir, sem eru verulega íþyngjandi fyrir þá aðila sem þeim þurfa að sæta, megi færa fyrir því sterk rök að löggjafinn sé að framselja Samkeppniseftirlitinu völd til þess að hlutast til um eignarréttindi og atvinnuréttindi, sem varin eru af ákvæðum stjórnarskrár, umfram lagaheimildir. Í því sambandi er full ástæða til að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 15/2000, Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, en í því máli var m.a. tekist á um heimildir löggjafans til að framselja vald til handhafa framkvæmdarvaldsins.
Forsaga þess máls var sú að í 6. gr. laga nr. 63/1993 var umhverfisráðherra fengið vald til þess að ákveða, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að tilteknar framkvæmdir skyldu háðar mati samkvæmt lögunum, ef hann teldi þær kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Sú heimild sem lagt er til að Samkeppniseftirlitinu verði fengin í frumvarpinu til þess að brjóta upp fyrirtæki er í eðli sínu sambærileg þeirri valdheimild. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli sagði eftirfarandi:
Í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um friðhelgi eignarréttar og í 75. gr. hennar um atvinnufrelsi [...] Má hvorugt skerða nema með lagaboði að því tilskildu, að almenningsþörf krefji. Þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar verða ekki túlkuð öðruvísi en svo, að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdarvaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem talin er nauðsynleg. [...] Umhverfisráðherra hefur því í raun fullt ákvörðunarvald um það, hvort tiltekin framkvæmd [...] skuli sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr., en slík ákvörðun getur haft í för með sér umtalsverða röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi þess, er í hlut á. Svo víðtækt og óheft framsal löggjafans á valdi sínu til framkvæmdarvaldsins stríðir gegn framangreindum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og er ólögmætt."
Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands hníga sterk rök í þá átt að með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar sé löggjafinn að framselja vald sitt með ólögmætum hætti til Samkeppniseftirlitsins.
Umsögn Harðar Felix Harðarsonar hrl. og Heimis Arnar Herbertssonar hrl. um frumvarp þetta fylgir framhaldsnefndaráliti þessu sem fylgiskjal. Í vandaðri og ítarlegri umsögn sinni tefla sérfræðingarnir fram fjölmörgum öðrum röksemdum í gagnrýni sinni á þetta ákvæði frumvarpsins en þeim sem hér hefur verið getið. Í öllu falli komast þeir að þeirri niðurstöðu afar varhugavert sé að fela samkeppnisyfirvöldum völd til að handstýra einstökum mörkuðum. Heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar samkvæmt núgildandi samkeppnislögunum séu afar víðtækar og að engin þörf sé á að auka þær. Þær breytingar á samkeppnislögunum sem frumvarpið mælir fyrir um séu ekki til bóta á núverandi löggjöf.
Málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins.
Minni hlutinn hefur gagnrýnt það ákvæði frumvarpsins sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimild til þess að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Byggist sú gagnrýni á því að með því að veita slíka heimild sé vikið frá þeirri meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að lægra settu stjórnvaldi beri að hlíta ákvörðunum æðra setts stjórnvalds og geti þarf af leiðandi ekki hlutast til um að fá úrskurðum æðra setts stjórnvalds hnekkt fyrir dómstólum.
Undir þessa gagnrýni minni hlutans taka sérfræðingarnir í samkeppnisrétti sem viðskiptanefnd leitaði álits hjá. Í umsögn þeirri segjast þeir ekki sá neina ástæðu til þess að víkja frá þeirri meginreglu að lægra sett stjórnvald þurfi að hlíta niðurstöðu þess æðra. Þeir vísa til þeirrar óvissu sem er samfara löngum málsmeðferðartíma hjá samkeppnisyfirvöldum, sem vikið hefur verið að hér að framan. Segja sérfræðingarnir að með því að veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla sé enn aukið á óvissuna sem fyrir er. Fyrirtæki þurfi því að sæta því að vera áfram í fullkominni óvissu um starfsemi sína til nokkurra ára, þrátt fyrir að mál þeirra kunni að hafa lokið með hagfelldum hætti með niðurstöðu æðra setts stjórnvalds. Segja fræðimennirnir að fyrir heimild af þessum toga þyrftu að minnsta kosti að vera afar veigamikil rök, sem ekki sé að finna í greinargerð með frumvarpinu.
Niðurstaða.
Minni hlutinn hefur ítrekað bent á allar þær breytingar á núgildandi samkeppnislögum sem lagðar eru til í frumvarpinu séu íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Slík stefnumörkun er að mati minni hlutans einkar ámælisverð þar sem flest fyrirtæki landsins búa í kjölfar efnahagshrunsins sem hér verð við miklar þrengingar. Við slíkar aðstæður telur minni hlutinn að stjórnvöldum beri fremur að styðja við bakið á fyrirtækjum landsins en að gera rekstrarumhverfi þeirra enn erfiðara en nú er.
Minni hlutinn lýsir sig andsnúinn ákvæðum frumvarpsins og þá einkum því sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki án þess þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum eða öðrum lögum. Uppskiptingarheimildin er til að mynda mun víðtækari en þær heimildir sem framkvæmdastjórn ESB og Eftirlitsstofnun EFTA geta gripið til. Heimildin gengur alltof langt og væri afar íþyngjandi fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þá er heimildin, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, alltof matskennd, óljós og opin og brýtur svo freklega í bága við almenn sjónarmið íslensks réttar um skýrleika lagaákvæða að á hana er ekki hægt að fallast. Þar við bætist að þeir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar sem nefndin hefur leitað til hafa með rökstuddum hætti sett sterka fyrirvara við að ákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands auk þess sem dómafordæmi Hæstaréttar Íslands bendir til þess að með frumvarpinu sé löggjafinn að framselja Samkeppniseftirlitinu völd með ólögmætum hætti.
Í umræðum um samkeppni og samkeppnislög er mikilvægt að hafa það í huga að velgengni í viðskiptum er ekki neikvæð. Það er eðlilegt og leiðir af eðli samkeppninnar að þeir sem bjóða betri vöru, verð og þjónustu en samkeppnisaðilarnir nái sterkri stöðu á þeim markaði sem þeir starfa á. Raunar er það svo að markaðsráðandi staða einstakra fyrirtækja er ekki óheimil samkvæmt núgildandi samkeppnislögum. Misnotkun slíkrar stöðu er það hins vegar. Þó að minni hlutinn telji fákeppni í eðli sínu óheppilega verður engu að síður í því sambandi að hafa í huga þær sérstöku aðstæður sem uppi eru á Íslandi. Vegna smæðar íslenska markaðarins og smæðar íslensku þjóðarinnar er því miður líklega óhjákvæmilegt að á einhverjum mörkuðum ríki fákeppni af einhverju tagi þar sem ekki er rekstrargrundvöllur fyrir mörg fyrirtæki. Á öðrum mörkuðum hefur átt sér stað samþjöppun vegna stærðarhagkvæmni og vegna þess að fyrirtækjum hefur gengið misjafnlega vel í samkeppninni. Raunar er það svo að slík samþjöppun einskorðast ekki við fámenna markaði heldur er til staðar á mörgum sviðum í öllum stærstu hagkerfum heims. Engu að síður verða stjórnvöld að horfast í augu við það að þeim hefur á umliðnum árum mistekist að koma í veg fyrir að sömu fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypur verði markaðsráðandi á mörgum mörkuðum, þrátt fyrir að hafa fram til þessa nægar lagaheimildir til þess að koma í veg fyrir slíkt. En vegna hinna sérstöku aðstæðna sem hinn íslenski markaður og þau fyrirtæki sem á honum starfa búa við verða þau viðkvæmari gagnvart þeim valdheimildum sem í frumvarpinu er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði fengnar og eru mjög umdeildar, matskenndar og óskiljanlegar. Þá er ekki síður ástæða til þess að geta þess hversu óeðlilegt og ósanngjarnt það er að eigendur og stjórnendur fyrirtækja, sem náð hafa miklum árangri á markaði og fylgt í einu og öllu þeim lagareglum sem um starfsemi þeirra gildir, þurfi engu að síður að sæta því að fyrirtæki þeirra sé skipt upp á grundvelli ákvæða frumvarpsins.
Minni hlutinn bendir á að verði heimildin lögfest séu verulegar líkur á að hún leiði til þess að framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja rýrni og dragi úr líkum á því að fyrirtæki gangi kaupum og sölum milli aðila í íslensku viðskiptalífi og muni hafa skaðleg áhrif á endurreisn íslensks efnahagslífs. Verulegar líkur séu á að kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum ef þeir mega eiga von á því að fyrirtæki sem fjárfest er í verði skipt upp eftir að kaupin hafa átt sér stað. Ákvæði frumvarpsins muni jafnframt hafa neikvæð áhrif á fjárfestingar fyrirtækjanna sjálfra og draga úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Þá megi gera ráð fyrir að afleiðingar lögfestingar frumvarpsins verði þær að fjármálastofnanir verði tregari til en áður til þess að veita fyrirtækjum og fjárfestum lánafyrirgreiðslur af ótta við að þau veð sem standa að baki lántökum rýrni. Enn fremur má leiða að því líkur að við slíkar aðstæður muni aukast fjármögnunar- og vaxtakostnaður fyrirtækja sem ráðast í lántökur.
Við lokaafgreiðslu þessa frumvarps er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að Ísland nýtur takmarkaðs trausts nú um stundir. Það vantraust snýr ekki síst að fjármálastofnunum, fyrirtækjum og stjórnvöldum. Minni hlutinn telur að verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd muni þetta vantraust aukast og gera uppbyggingu atvinnulífsins erfiðari. Frumvarpið kunni að leiða til minni fjárfestingar, draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins er hins vegar afar óljós og raunar er það svo að sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar telja að þær breytingar á samkeppnislögunum sem frumvarpið mælir fyrir um séu ekki til bóta.
Í ljósi þess sem að framan greinir, þeirra sjónarmiða sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans, sbr. þskj. 434, og annarra röksemda sem minni hlutinn hefur fært fram um alla efnisþætti frumvarpsins við meðferð þess á Alþingi leggst minni hlutinn gegn því að frumvarpið verði samþykkt."
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 22. febrúar 2011
Umheimurinn stendur ekki á öndinni út af Icesave
Miðað við fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af Icesave-málinu mætti stundum draga þá ályktun málið væri ekki bara helsta frétta- og deilumálið hér á landi heldur stæði Evrópa einnig á öndinni.
Góður vinur minn benti mér á þennan áhugaverða link á Google trends:
Hann sýnir að umheimurinn stendur ekki á öndinni út af Icesave-málinu.
Raunar bendir hann til þess að fáir aðrir en við Íslendingar höfum áhuga á Icesave-málinu.
Að sjálfsögðu fjalla fjölmiðla- og stjórnmálamenn í Hollandi og Bretlandi um málið, en aðrir virðast ekki hafa minnsta áhuga á málinu.
Það er kannski ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar fullyrt er að tregða Íslendinga til að fallast umyrðalaust á kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu skaði orðspor okkar.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 17. febrúar 2011
Marktæk undirskriftasöfnun?
Þeir sem það gera eiga það flestir eða allir sameiginlegt að fylgismenn eða félagar í Samfylkingunni eða Vinstri grænum, þeim stjórnmálaflokkum sem felldu tillögur stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur á Alþingi í gær.
Viðbrögð þessara talsmanna ríkisstjórnarflokkanna bera það með sér að innan herbúða þeirra hafi gripið um sig mikil örvænting og ótti við að þeir tugir þúsunda undirskrifta sem safnast hafa á örskömmum tíma muni leiða til þess að forseti Íslands synji lögunum staðfestingar og vísi þeim til þjóðarinnar.
Það vill ríkisstjórnin ekki sjá.
Og öllu er nú tjaldað til. Vefsíðan átti að vera öðruvísi útbúin, persónuverndarsjónarmið eru sögð fótum troðin og ég veit ekki hvað. Lengst gekk Teitur Atlason, álitsgjafi í Svíþjóð í Kastljósi kvöldsins, þar sem hann hélt því fram að undirskriftasöfnunin væri ómarktæk vegna þess að einhverjir aðstandendur hennar væru að hans mati öfgamenn.
Mér fannst broslegt að heyra þessa röksemd, ekki síst úr því hún kom úr munni Teits Atlasonar, sem seint verður talinn til hófsömustu og dagfarsprúðustu álitsgjafa þessa lands, bæði þegar kemur að skoðunum og framsetningu þeirra.
En gott og vel.
Það er sjálfsagt að gera athugasemdir við það hvernig staðið er að undirskriftasöfnunum á Íslandi. Rafræn söfnun undirskrifta á netinu er hvorki jafn traust né örugg eins og skriflegir listar sem fólk undirritar sjálft með eigin hendi.
En svona hefur undirskriftum verið safnað hér á landi og það fyrirkomulag sem nú er viðhaft verið samþykkt sem fullnægjandi aðferð, hvað sem um hana má segja. Þess vegna er undirskrifarsöfnunin á http://www.kjosum.is/ alveg jafn marktæk og aðrar undirskriftasafnanir sem efnt hefur verið til á undanförnum árum.
Fram til þessa hafa íslenskir vinstrimenn aldrei gengið jafn langt og nú í að véfengja slíkar undirskriftasafnanir.
Það gerðu þeir ekki, og treystu sér líklega ekki til þess, meðan undirskriftarsöfnun InDefence stóð yfir og leiddi til þess að Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta Icesave-lögin þann 5. janúar 2010.
Og ekki gerðu þeir það árið 2004 þegar Róbert Marshall, nú þingmaður Samfylkingarinnar, en þá formaður Blaðamannafélags Íslands, stóð fyrir sambærilegri undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar.
Og það heyrðist auðvitað ekki múkk frá sama fólki þegar Björk Guðmundsdóttir og félagar hennar söfnuðu undirskriftum á vefsíðunni http://www.orkuaudlindir.is/, þar sem skorað var á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.
Þá sögðu þeir sem hæst hafa nú í gagnrýninni ekki neitt.
Ekki einu sinni Teitur Atlason.
Hvers vegna ætli það sé?
Sigurður Kári
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. janúar 2011
Dómsdagsklúður
Ríkisstjórn sem ekki getur staðið skammlaust að kosningum í landinu er vanhæf. Og ljóst má vera að hún er fullkomlega óhæf til þess að leysa önnur, brýnni og flóknari verkefni en það sem æðsti dómstóll landsins hefur gert hana afturreka með.
Allir dómarar réttarins voru sammála um niðurstöðuna. Hún var 6-0, eins og sagt er, og því eins afgerandi og mögulegt var.
x x x
Það var viðbúið að Hæstiréttur yrði fyrir hörðum árásum frá þeim sem taka niðurstöðunni illa. Nú er reynt að gera dómarana sem komust að þeirri niðurstöðu að kosninguna bæri að ógilda tortryggilega og að taglhnýtingum Sjálfstæðisflokksins þar sem sumir þeirra voru skipaðir til dómstarfa af fyrrverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.
Slíkar tilraunir eru ómerkilegar og óboðlegar í garð þeirra dómara sem í hlut eiga.
Ekki minnist ég þess að slíkar árásir hafi til dæmis verið hafðar uppi gagnvart Páli Hreinssyni, svo dæmi sé tekið, sem var einn dómaranna, þegar hann kynnti niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem nú hefur leitt til þess að Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður og verður væntanlega senn dreginn fyrir landsdóm.
Það hljóta allir að sjá hversu fráleitur slíkur málatilbúnaður er.
x x x
Það virðast engin takmörk vera fyrir því hversu illilega þessari ríkisstjórn tekst að klúðra öllum sínum málum, í stóru jafnt sem smáu.
Ógilding stjórnlagaþingskosninganna er einungis dropinn sem fyllir mælinn í allri vitleysunni.
Icesave-málið og þjóðaratkvæðagreiðslan um það, Svavarssamningurinn, ESB-umsóknin, lausnin á skuldavanda heimilanna, skjaldborgin, atvinnuuppbyggingin, Vestia-málið, Sjóvá-málið, málefni Sparisjóðanna, Magma-málið, stöðugleikasáttmálinn, sjávarútvegsmálin, mál íslenska drengsins á Indlandi og mörg fleiri hneykslis- og klúðursmál staðfesta vanhæfni þessarar ríkisstjórnar.
Listinn er nánast endalaus.
Það var aumkunarvert að fylgjast með framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi í gær reyna að varpa ábyrgðinni á málinu af sér og yfir á undirmenn sína. Sú tilraun kom hins vegar ekki á óvart, því það er háttur Jóhönnu að kenna undirmönnum sínum um þegar hún lendir í vandræðum.
En auðvitað blasir ábyrgðina á þessu dómsdagsklúðri ber verkstjórinn, Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar og enginn annar.
x x x
Og ekki tók betra við þegar forsætisráðherrann fór yfir þá kosti sem hún taldi að væru í stöðunni nú þegar kosningin hefur verið úrskurðuð ógild.
Þá nefndi Jóhanna, að því er virðist í alvöru, að til greina kæmi að Alþingi myndi skipa þá 25 einstaklinga sem náðu kjöri í hinum ólöglegu kosningum í einhverskonar stjórnarskrárnefnd og þannig láta eins og ekkert hefði í skorist.
Ef forsætisráðherrann eða aðrir ráðherrar ríkisstjórnar hennar leggja slíkt til þá eru þeir í raun að mæla fyrir því að niðurstaða æðsta dómstóls landsins skuli að engu höfð.
Verði sú leið farin væri grafið undan sjálfstæði dómstólanna í landinu og meginregla stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins að engu höfð.
Sú leið kemur því ekki til greina.
x x x
Talsmenn þess að til stjórnlagaþings boðað verða að gera það upp við sig hvort þeir telja verjandi að halda þessu máli áfram eða setja punkt fyrir aftan niðurstöðu Hæstaréttar.
Verði sú niðurstaðan þarf að byrja málið frá grunni og setja ný lög um stjórnlagaþingskosningar. Núgildandi lög um stjórnlagaþing eru ekki nothæf. Þau eru gölluð. Það blasir við þegar farið er yfir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands.
Þar við bætist að sá kostnaður sem íslenskir skattgreiðendur hafa nú þegar þurft að leggja út í vegna stjórnlagaþings hleypur á hundruðum milljóna króna.
Í ljósi þess þurfa þeir sem taka ákvörðun um næstu skref í málinu að velta því fyrir sér hvort það sé verjandi að ráðast í frekari fjáraustur en orðið er, ekki síst í ljósi þess að einungis tæplega 36% kosningabærra manna tóku þátt í síðustu stjórnlagaþingskosningum.
x x x
Það er síðan ekki hægt að láta hjá líða að nefna að það var í raun stórbrotið að fylgjast með spunavél Samfylkingarinnar eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir. Hún hrökk í gang með miklum látum og var umsvifalaust sett í fimmta gír.
Spuninn sem Samfylkingin setti í gang gekk út á það að reyna að kenna Sjálfstæðisflokknum um niðurstöðu Hæstaréttar og að því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn vildi hafa stjórnlagaþingið af þjóðinni!
,,Íhaldið" var sagt ,,skíthrætt" við stjórnlagaþingið og vildi ekki að sett yrði ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir.
Ekkert er fjær sanni. Og það er alveg makalaust að forystumenn ríkisstjórnarinnar komist upp með það að stjórnarandstaðan stjórni landinu, en ekki ríkisstjórnin, og beri ábyrgð á öllu því sem aflaga fer hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Alþjóð veit að það var Hæstiréttur Íslands sem ógilti kosninguna. Ekki Sjálfstæðisflokkurinn.
Það er ekkert annað en dónaskapur af forsætisráðherra þjóðarinnar að bjóða fólkinu í landinu upp á þessa þvælu þegar hún og ríkisstjórn hennar hefur svo eftirminnilega verið gerð afturreka með eitt af sínum aðal stefnumálum.
En tilgangurinn helgar meðalið hjá ríkisstjórninni. Allt er gert til að breiða yfir eigin klúður með því að benda á aðra.
Sem betur fer sjá allir í gegnum svona yfirklór og trix.
x x x
Hver sem niðurstaðan verður ekki framhjá því litið, sem Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur bent á, að niðurstaða Hæstaréttar Íslands er hrein hneisa fyrir ríkisstjórnina og hún er meiriháttar áfall fyrir Ísland sem þróað lýðræðisríki. Aldrei áður hafa almennar lýðræðislegar kosningar verið dæmdar ógildar á Íslandi, í landi sem stærir sig af elstu lýðræðishefð í heimi. Og slíkt þekkist varla í þróuðum lýðræðisríkjum.
Það er hætt við því að Ísland verði fyrir alvarlegum álitshnekki í samfélagi þjóðanna nú þegar staðfest er af æðsta dómstól þjóðarinnar að við völd í landinu er ríkisstjórn sem er vanhæf til þess að standa skammlaust og löglega að almennum kosningum.
Og það skyldi engan undra í ljósi atburða gærdagsins að aðrar þjóðir fari að líta okkur Íslendinga sömu augum og sumar þjóðir sem við kjósum ekki að bera okkur saman við.
,,Norræna velferðarstjórnin" er því orðin þjóðinni dýrkeypt á öllum sviðum.
Á hennar klúðri þarf einhver að bera ábyrgð.
Jóhanna Sigurðardóttir má ekki komast upp með það í þetta skiptið að varpa þeirri ábyrgð enn einu sinni yfir á undirmenn sína.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Drengurinn á Indlandi
Mál litla drengsins sem nú situr fastur ásamt foreldrum sínum á Indlandi og fær ekki að koma heim til Íslands, þrátt fyrir að hann sé orðinn íslenskur ríkisborgari, er óskiljanlegt.
Ég skil ekki hvers vegna innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar er ekki búið að gefa út vegabréf fyrir drenginn svo hann geti snúið heim til Íslands.
En það er fleira í málinu sem er óskiljanlegt.
Því hefur til dæmis verið haldið fram í tengslum við mál drengsins að sú ákvörðun Alþingis að veita honum íslenskan ríkisborgararétt hafi gert honum erfiðara fyrir að komast frá Indlandi til Íslands.
Þessi furðulega fullyrðing kom síðast fram hjá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, þegar við ræddum saman um málið í Kastljósi Sjónvarpsins í gær.
Í fullyrðingunni felst að við sem lögðum fram tillögu um að drengurinn fengi íslenskan ríkisborgararétt, sem Alþingi síðan samþykkti, hefðum með því í raun gert drengnum óleik með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara.
Á þingferli mínum hef ég heyrt stjórnmálamenn slá ýmsum vafasömum fullyrðingum fram, en þessi slær þeim flestum við ef ekki öllum.
Ég þekki engin dæmi þess, hvorki hérlendis né erlendis, að það hafi dregið úr möguleikum einstaklinga á að ferðast til landa af þeirri ástæðu að þeir eru ríkisborgarar í því landi sem þeir vilja ferðast til.
Og ég efast stórlega um að slík dæmi séu til.
En samt er fullyrt að svo sé í þessu máli.
Sú fullyrðing er ekki síst furðuleg í ljósi þess sem fram kemur í 2. mgr. 66 gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir m.a.:
,,Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi."
Í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis, sem ekki verður misskilið, er eðlilegt að spyrja hvernig það megi vera að sú ákvörðun okkar að veita drengnum íslenskan ríkisborgararétt, sem samkvæmt ákvæðinu tryggir honum stjórnarskrárvarinn rétt til þess að koma til Íslands, hafi skaðað möguleika hans á því að komast frá Indlandi?
Það sjá allir hvers konar vitleysa er hér á ferðinni.
Ekki síður ættu allir að sjá hversu fráleitt það er af íslenskum stjórnvöldum að þverskallast við að gefa út vegabréf fyrir þennan dreng í ljósi þeirra réttinda stjórnarskráin á að tryggja honum eftir að hann varð íslenskur ríkisborgari.
Það hlýtur að koma til skoðunar síðar hvaða afleiðingar þetta sinnuleysi og þessi þvermóðska íslenskra stjórnvalda í garð drengsins kann að hafa í framtíðinni fyrir íslenska ríkið.
Því augljóst er að innanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess eru að brjóta gegn réttindum drengsins.
Ögmundur Jónasson ætti að hafa það í huga.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Opið bréf til Ögmundar Jónassonar
Foreldrar drengsins hafa afhent ráðuneyti þínu öll tiltæk gögn, staðfest af þar til bærum indverskum yfirvöldum, sem staðfesta að þau fari með umráð hans. Þrátt fyrir það er dregið að heimila útgáfu vegabréfsins, án þess að fyrir þeirri ákvörðun séu færðar viðhlítandi skýringar. Í raun er ekki hægt að segja annað en að sinnuleysi íslenskra stjórnvalda í máli þessa litla drengs sé óskiljanlegt.
Ég fæ ekki betur séð en að tregðu ráðuneytis þíns við að heimila útgáfu vegabréfs handa drengnum sé aðeins hægt að skýra með því að það var staðgöngumóðir á Indlandi sem fæddi hann. Þó staðgöngumæðrun sé enn ekki heimil á Íslandi er hún það á Indlandi. Í ljósi þess viðurkenna indversk stjórnvöld drenginn sem barn hinna íslensku foreldra. Fæðingarvottorð drengsins staðfestir það. Þá liggur fyrir að hvorki indverska staðgöngumóðirin né eiginmaður hennar gera tilkall til barnsins. Raunar er það svo að enginn á Indlandi hefur áhuga á að drengurinn verði þar áfram.
Senn líður að því að dvalarleyfi foreldra barnsins á Indlandi renni út. Verði staða drengsins og foreldra hans enn sú sama þegar að því kemur munu þau þurfa að yfirgefa landið. Geri þau það ekki eiga þau yfir höfði sér fangelsisvist. Verði þeim gert að yfirgefa Indland án þess að gefið hafi verið út vegabréf fyrir drenginn er óvíst um afdrif hans og velferð.
Samkvæmt þeirri lögfræði sem ég lærði eiga íslenskir ríkisborgarar rétt á því að fá útgefið íslenskt vegabréf sér til handa. Þá gildir sú meginregla í íslenskum barnarétti að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem varða börn á ætíð að hafa að leiðarljósi það sem barninu er fyrir bestu. Hagsmunir þessa drengs felast ekki í því að vera áfram við ömurlegar aðstæður og í óvissu á Indlandi. Hans hagsmunir eru þeir að komast til Íslands ásamt foreldrum sínum. Vandséð er, miðað við stöðu mála, hvernig máli þessu getur lyktað með öðrum hætti en þeim að drengurinn komi heim með foreldrum sínum. Hvers vegna þarf að draga dvöl hans og foreldranna á Indlandi á langinn með þeim hætti sem fyrir liggur? Í hverra þágu er sá tími sem foreldrum drengsins og honum er af íslenskum stjórnvöldum gert að dvelja á Indlandi?
Undanfarna daga hefur þú og kollegi þinn í ríkisstjórn, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, farið mikinn í hagsmunagæslu fyrir íslenskan ríkisborgara og alþingismann sem nú á í útistöðum við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í því máli hafið þið sýnt tennurnar og ekkert dregið af ykkur. Þið hafið kallað sendiherra Bandaríkjanna á teppið og gert allt sem í ykkar valdi stendur til þess að gæta hagsmuna þess ríkisborgara sem þar á í hlut.
Ég ætlast til þess að ungi drengurinn sem bíður þess á Indlandi að komast til Íslands fái sambærilegt liðsinni frá íslenskum stjórnvöldum og aðrir ríkisborgarar sem þið gætið hagsmuna fyrir þessa dagana. Því skora ég á þig og ráðuneyti þitt að virða sjálfsagðan rétt þessa unga drengs að fá útgefið íslenskt vegabréf nú þegar svo hann geti ferðast til Íslands eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Verði það ekki gert er ljóst að mannúðarsjónarmið, mannréttindi og réttlæti eiga bara stundum upp á pallborðið hjá núverandi stjórnvöldum sem þó vilja kenna sig við velferð.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og situr í allsherjarnefnd Alþingis."
Bréfið birtist í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. desember 2010
Gleðileg Jól
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hafið það sem allra best yfir hátíðirnar.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 11. desember 2010
432 milljarðar!
Hér skal ósagt látið hver örlög hins nýja samkomulags verða á Alþingi, þó ekki væri nema vegna þess að eftir sem áður hvílir engin lagaskylda á íslenskum skattgreiðendum að borga fyrir syndir bankamanna. Þ:að hefur ekki breyst.
En þegar þetta nýja samkomulag er borið saman við Icesave-samning ríkisstjórnarinnar, sem hún mælti eindregið með, barðist fyrir og samþykktur var á Alþingi, en felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu með 98% atkvæða, kemur athyglisverð niðurstaða í ljós.
Hún er sú að nýja samkomulagið er allt að 432 milljörðum hagstæðara fyrir íslenska ríkið en gamli Icesave-samningur ríkisstjórnarinnar.
Þegar þessi niðurstaða liggur fyrir er mikilvægt að rifja upp fullyrðingar ráðherra, stjórnmálamanna, álitsgjafa og svokallaðra hagmunaaðila um að gamla Icesave-samninginn yrði að samþykkja. Þeir sögðu að ekki væri mögulegt að ná hagstæðari samningi en þeim sem þá lá fyrir, líktu Íslandi við Kúbu norðursins yrði hann ekki samþykktur og fullyrtu að hér myndi skella á efnahagslegur frostavetur sem myndi vara um langa hríð. Yfirlýsingaglaðastir voru einstakir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar.
Nú liggur fyrir að þeir höfðu rangt fyrir sér. Og það er staðfest að ríkisstjórnin og einstaka ráðherrar gerðu sig seka um alvarleg embættisafglöp og hræðileg mistök, sem öðrum tókst sem betur fer að afstýra.
Nú nægir ekki að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skammist sín. Ríkisstjórnin á að viðurkenna eigin mistök, segja af sér nú þegar og biðja þjóðina afsökunar á framkomu sinni í hennar garð.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Föstudagur, 10. desember 2010
Gott tímakaup
Nú þegar fyrir liggur að ný samningsdrög í Icesave-málinu eru allt að 432 milljörðum hagstæðari en Icesave-samningarnir sem ríkisstjórnin reyndi að þröngva upp á íslensku þjóðina og hafði í hótunum við er nauðsynlegt að rifja upp hvernig þingmenn stjórnarflokkanna brugðust við andstöðu Sjálfstæðisflokksins og annarra stjórnarandstöðuflokka við hinum afleitu samningum.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lét þessi orð falla þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu og því hvers vegna hún greiddi þessum skelfilegu samningum atkvæði sitt:
,,Stjórnarandstöðuflokkarnir eru í djúpri afneitun, svo alvarlegri að þeir hafa notað 180 dýrmætar stundir þingsins til að berja höfðinu við steininn því þeir vilja ekki horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna."
Þetta þýðir að þjóðin var á býsna góðu tímakaupi meðan á andófinu stóð.
2,4 milljörðum króna á tímann.
Það munar um minna!
Sigurður Kári.
Föstudagur, 10. desember 2010
432.000.000.000
Nú liggur það fyrir að nýju samningsdrögin um Icesave eru allt að 432 milljörðum hagstæðari fyrir íslenska ríkið en Icesave-samningurinn sem ríkisstjórnin barðist fyrir og samþykkti, en var svo felldur með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og fjöldinn allur af stjórnarliðum, álitsgjöfum og talsmönnum hagsmunaaðilum sögðu að gamla Icesave-samninginn hans Svavars Gestssonar yrði að samþykkja. Betri samningi væri ekki hægt að ná, annars breyttist Ísland í Kúbu norðursins og að hér myndi skella á efnahagslegur frostavetur.
Ekkert af þessu reyndist rétt.
Nú hljóta fjölmiðlar að spyrja hvernig þetta fólk og ríkisstjórnin öll ætlar að bregðast við þegar staðfest hefur verið að þau hafa orðið uppvís af alvarlegum embættisafglöpum og hræðilegum mistökum.
Mér finnst svarið blasa við.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- allib
- almaogfreyja
- andrigeir
- audbergur
- audunnh
- abg
- axelaxelsson
- arniarna
- aslaugfridriks
- astamoller
- baldher
- baldvinjonsson
- benediktae
- bergrun
- kaffi
- bergurben
- bjarnihardar
- bjarnimax
- bjorgvinr
- sveifla
- binnag
- bryndisharalds
- skordalsbrynja
- brandarar
- charliekart
- dansige
- doj
- deiglan
- doggpals
- egillg
- erla
- erlendurorn
- skotta1980
- ea
- fsfi
- vidhorf
- hressandi
- gammurinn
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisliblondal
- gillimann
- grettir
- gudni-is
- gummibraga
- phoenix
- gunnarbjorn
- gussi
- laugardalur
- habbakriss
- smali
- haddi9001
- hhbe
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heimssyn
- herdis
- hildurhelgas
- drum
- hjaltisig
- hlekkur
- kolgrimur
- hlodver
- don
- hvitiriddarinn
- ingabesta
- golli
- ibb
- bestiheimi
- jakobk
- fun
- stjornun
- skallinn
- jonasegils
- forsetinn
- jonmagnusson
- bassinn
- jonsnae
- julli
- komment
- karisol
- kje
- kjarrip
- kjartanvido
- kolbrunb
- kristinrichter
- kristjanb
- kristjangudm
- liljabolla
- altice
- maggaelin
- gummiarnar
- martasmarta
- mal214
- nielsfinsen
- ottoe
- olibjossi
- obv
- nielsen
- skari
- pkristbjornsson
- jabbi
- pbj
- storibjor
- iceland
- pjeturstefans
- raggibjarna
- raggiraf
- raggipalli
- ragnar73
- schmidt
- bullarinn
- salvor
- fjola
- sigbragason
- vitaminid
- joklamus
- sv11
- sjonsson
- siggikaiser
- sisi
- siggisig
- sigurgeirorri
- mogga
- sigurjonb
- sms
- sjalfstaedi
- hvala
- hvirfilbylur
- stebbifr
- eyverjar
- styrmirh
- summi
- brv
- sveinn-refur
- stormsker
- saethorhelgi
- tidarandinn
- daystar
- valdimarjohannesson
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- nytthugarfar
- vibba
- villagunn
- va
- villithor
- xenon
- thorbjorghelga
- steinig
- thorsteinnhelgi
- thorasig
- doddidoddi
- thorolfursfinnsson
- toddi
- hugsun
- ornsh