Drengurinn á Indlandi

Mál litla drengsins sem nú situr fastur ásamt foreldrum sínum á Indlandi og fær ekki að koma heim til Íslands, þrátt fyrir að hann sé orðinn íslenskur ríkisborgari, er óskiljanlegt.

Ég skil ekki hvers vegna innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar er ekki búið að gefa út vegabréf fyrir drenginn svo hann geti snúið heim til Íslands.

En það er fleira í málinu sem er óskiljanlegt.

Því hefur til dæmis verið haldið fram í tengslum við mál drengsins að sú ákvörðun Alþingis að veita honum íslenskan ríkisborgararétt hafi gert honum erfiðara fyrir að komast frá Indlandi til Íslands.

Þessi furðulega fullyrðing kom síðast fram hjá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, þegar við ræddum saman um málið í Kastljósi Sjónvarpsins í gær.

Í fullyrðingunni felst að við sem lögðum fram tillögu um að drengurinn fengi íslenskan ríkisborgararétt, sem Alþingi síðan samþykkti,  hefðum með því í raun gert drengnum óleik með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara.

Á þingferli mínum hef ég heyrt stjórnmálamenn slá ýmsum vafasömum fullyrðingum fram, en þessi slær þeim flestum við ef ekki öllum.

Ég þekki engin dæmi þess, hvorki hérlendis né erlendis, að það hafi dregið úr möguleikum einstaklinga á að ferðast til landa af þeirri ástæðu að þeir eru ríkisborgarar í því landi sem þeir vilja ferðast til.

Og ég efast stórlega um að slík dæmi séu til.

En samt er fullyrt að svo sé í þessu máli.

Sú fullyrðing er ekki síst furðuleg í ljósi þess sem fram kemur í 2. mgr. 66 gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir m.a.:

,,Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi."

Í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis, sem ekki verður misskilið, er eðlilegt að spyrja hvernig það megi vera að sú ákvörðun okkar að veita drengnum íslenskan ríkisborgararétt, sem samkvæmt ákvæðinu tryggir honum stjórnarskrárvarinn rétt til þess að koma til Íslands, hafi skaðað möguleika hans á því að komast frá Indlandi?

Það sjá allir hvers konar vitleysa er hér á ferðinni.

Ekki síður ættu allir að sjá hversu fráleitt það er af íslenskum stjórnvöldum að þverskallast við að gefa út vegabréf fyrir þennan dreng í ljósi þeirra réttinda stjórnarskráin á að tryggja honum eftir að hann varð íslenskur ríkisborgari.

Það hlýtur að koma til skoðunar síðar hvaða afleiðingar þetta sinnuleysi og þessi þvermóðska íslenskra stjórnvalda í garð drengsins kann að hafa í framtíðinni fyrir íslenska ríkið.

Því augljóst er að innanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess eru að brjóta gegn réttindum drengsins.

Ögmundur Jónasson ætti að hafa það í huga.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband