Miðvikudagur, 20. október 2010
Árni Páll og myntkörfulánin
Í DV í dag er sagt frá því að í nýju frumvarpi sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hyggst leggja fram á Alþingi sé mælt fyrir um að fólk sem hefur ofgreitt fjármögnunarfyrirækjum vegna myntkörfulána fær peningana sína ekki endurgreidda þegar lánin verða endurreiknuð, heldur komi þeir til lækkunar höfuðstóls lánanna, óháð því hvort skuldin sé ógjaldfallin eða ekki.
Ég spurðist fyrir um þessi áform Árna Páls á Alþingi í dag, en fékk engin svör.
Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn minni er sú að mér er fyrirmunað að skilja þá forræðishyggju sem hér virðist vera á ferðinni.
Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að fólk eigi sjálft að fá að taka ákvörðun um það hvernig það ráðstafar eigum sínum, en eigi ekki að þurfa að sæta því að Árni Páll Árnason eða starfsmenn fjármögnunarfyrirtækja geri það fyrir það.
Ef ég hefði ofgreitt fjármögnunarfyrirtæki vegna myntkörfuláns, sem Hæstiréttur Íslands hefur dæmt ólögmætt, vildi ég fá að ráða því sjálfur hvað ég gerði við þá fjármuni sem fyrirtækið skuldaði mér.
Og þó Árni Páll Árnason eða starfsfólk fjármögnunarfyrirtækjanna vilji fólki eflaust vel, þá kemur það þeim einfaldlega ekki við hvernig það ráðstafar eigum sínum.
En af fréttum að dæma virðist þetta nýja frumvarp ráðherrans ganga í þveröfuga átt.
Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að það fólk sem með órétti hefur verið krafið um hærri greiðslur en lög heimiluðu af myntkörfulánum sínum fái sjálft að ákveða hvernig það ráðstafar inneign sinni.
Þar verður að hafa í huga að aðstæður fólks kunna að vera mjög mismunandi.
Sumir kunna að hafa mikla hagsmuni af því að nýta inneign sína til annars en að lækka höfuðstól bílaláns.
Það kann til dæmis að vera að einhverjir hafi meiri hag af því að greiða niður greiðslukortalán eða yfirdráttarlán, sem bera mun hærri vexti en bílalán, en að lækka höfuðstól bílalánsins.
Og hvers vegna ekki að leyfa fólki að taka ákvörðun um það sjálft hvað það vill gera við eigur sínar?
Er ekki búið að traðka nægilega á þeim sem tóku myntkörfulán?
Sigurður Kári.
Föstudagur, 15. október 2010
Hvers konar framkoma er þetta eiginlega?
Í vikunni var til dæmis sagt frá því í fréttum Sjónvarpsins að framundan væru fjöldauppsagnir hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Um 80 starfsmenn myndu fá uppsagnarbréf fyrir lok mánaðarins, en að ekki hefði verið ákveðið hvaða starfsmönnum yrði sagt upp, né heldur á hvaða sviðum yrði dregið saman í starfseminni.
Í kjölfar þessarar fréttar er ástæða til að spyrja:
Hvers konar framkoma er þetta eiginlega hjá stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart því fólki sem þar starfar?
Þessa spurningu mína má ekki skilja svo að ég sé á móti því að hagrætt sé innan Orkuveitunnar. Ég efast ekki um að þar á bæ þurfi menn að hagræða og spara eins og annarsstaðar.
En það er engu að síður fyrir neðan allar hellur að yfirstjórn fyrirtækisins skuli láta það gerast að þessi ákvörðun leki í fjölmiðla og það hálfum mánuði áður en starfsmennirnir 80 fá uppsagnarbréf.
Og til að bæta gráu ofan á svart er ómögulegt af fréttinni að dæma hvaða starfsmönnum verður sagt upp og hverjum ekki.
Á meðan, í hálfan mánuð, bíður allt starfsfólk Orkuveitunnar milli vonar og ótta eftir því að fá upplýsingar um hvort það heldur lífsviðurværi sínu eða ekki.
Forystumenn Besta flokksins og Samfylkingarinnar þurfa að fá utanaðkomandi aðstoð um það hvernig þeir eigi að snúa sér í mannlegum samskiptum, ekki síst á erfiðum tímum.
Og það verða næstu tvær vikurnar svo sannarlega innan Orkuveitunnar, erfiðar fyrir fólkið sem þar starfar og er í óvissu um framtíð sína.
Svona á ekki að koma fram við fólk.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 13. október 2010
Ögmundur og fjárlagafrumvarpið
Ég spurði Ögmund Jónasson í gær að því á Alþingi hvort hann styddi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem hann sjálfur á sæti í.
Þrátt fyrir að fá þrjú tækifæri til þess að svara þessari einföldu spurningu treysti Ögmundur sér ekki til þess að segja já og lýsa þar með yfir stuðningi við fjárlagafrumvarpið.
Ástæðan fyrir því að ég lagði þessa spurningu fyrir ráðherrann er þessi.
Eftir fjölmennan borgarafund sem haldinn var í Stapa í Keflavík síðastliðinn fimmtudag lýsti Ögmundur því yfir í fjölmiðlum að hann væri mótfallinn byggingu álvers í Helguvík.
Þá yfirlýsingu ráðherrans verður að skoða í ljósi þess að meginforsenda fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar er sú hagvaxtarspá og hagvaxtarforsendur sem þar birtast.
Þær hagvaxtarforsendur byggja á því ráðist verði í framkvæmdir við uppbyggingu álvers í Helguvík, framkvæmdir sem Ögmundur styður ekki.
Það blasir við að ráðherra sem ekki styður meginforsendur fjárlagafrumvarps, styður ekki frumvarpið.
Enda kom það á daginn.
Ögmundur treysti sér ekki til þess að lýsa yfir stuðningi við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar sem hann sjálfur á sæti í.
Í því felast auðvitað mikil tíðindi.
Ekki síst vegna þess að Ögmundur var tekinn aftur inn í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gagngert til þess að tryggja fjárlagafrumvarpinu meirihlutastuðning á Alþingi.
En ekki síður vegna þess að enn þynnist stuðningurinn við fjárlagafrumvarpið innan ríkisstjórnarflokkanna.
Og allir vita hver verða örlög ríkisstjórnar sem ekki hefur meirihlutastuðning við sitt eigið fjárlagafrumvarp.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 9. október 2010
Takk fyrir stuðninginn Ásmundur Einar - Sama og þegið!
Nú berast óvæntur stuðningur úr herbúðum Vinstri grænna við skattatillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði til og kynnti á síðasta ári.
Ásmundur Einar Daðason, hinn ungi þingmaður Vinstri grænna, lýsti því yfir í fjölmiðlum í dag að hann væri fylgjandi hugmyndum okkar sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur séreignalífeyrissparnaðar í lífeyrissjóði landsins, í stað þess að skattleggja þær eftir á. Ásmundur Einar er ekki einn um stuðninginn innan þingflokks Vinstri grænna því áður hafði Lilja Mósesdóttir lýst yfir stuðningi við þær.
Þessar hugmyndir okkar sjálfstæðismanna fólu það ekki í sér að lagðir yrðu á nýjir skattar, heldur vildum við leggja til kerfisbreytingu við skattheimtu sem leiddi til þess að ríkið gæti innheimt skattinn fyrr en núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir.
Stuðningur þingmanna Vinstri grænna við þessar tillögur sýnir á hversu miklum harðahlaupum ríkisstjórnarflokkarnir eru lagðir undan eigin fjárlagafrumvarpi sem hlotið hefur vægast sagt dræmar undirtektir hjá fólki um allt land.
Í tillögunum sjá þeir líka matarholu sem fært getur ríkissjóði allt að eitt hundrað milljarða króna á einu bretti. Það myndi gera ríkisstjórninni kleift að draga úr niðurskurðaráformum sínum, áformum sem hún er greinilega við það að varpa fyrir róða.
En þó svo að við sjálfstæðismenn séum þakklátir fyrir þann stuðning sem við fáum úr óvæntri átt, heilu ári eftir að tillögurnar komu fram, þá vil ég a.m.k. fyrir mína parta afþakka stuðninginn.
Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn lagði tillögur sínar um að skattleggja inngreiðslur séreignalífeyrissparnaðar fram sem valkost gegn skattahækkunaráformum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fyrir ári síðan. Við bentum á að ríkissjóður gæti aukið tekjur sínar án þess að hækka skatta á fólkið og fyrirtækin í landinu.
Á þessar tillögur var ekki hlustað, frekar en annað sem frá stjórnarandstöðunni hefur komið og þess í stað réðst ríkisstjórnin í mestu skattahækkanir Íslandssögunnar.
Það er mikill misskilningur hjá Ásmundi Einari Daðasyni ef hann heldur að ríkisstjórnarflokkarnir komist upp þegjandi og hljóðalaust með að gera hvorutveggja, þ.e. að skattleggja inngreiðslur séreignalífeyrissparnaðarins ofan á allar drápsklyfjarnar sem þeir lögðu á fólk og fyrirtæki í fyrra, þegar ríkisstjórnin sló Íslandsmet í skattheimtu.
Slíkt mun ég að minnsta kosti aldrei styðja.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 8. október 2010
Klúður Atla Gíslasonar?
Samkvæmt sömu fréttum mun verjandinn hafa beint þeirri spurningu til forseta Alþingis hvort líta eigi svo á að þingsályktunartillagan um ákæruna yfir Geir, sem flutt var og samþykkt á síðasta löggjafarþingi, falli niður eða verði flutt aftur á því löggjafarþingi sem sett var hinn 1. október sl.
Ástæða fyrirspurnarinnar er augljóslega sú að verjandinn telur það ágalla á málsmeðferðinni að Alþingi hafi ekki strax í kjölfarið og á sama löggjafarþingi kosið saksóknara, varasaksóknara og eftirlitsnefnd þingmanna, eins og kveðið er á um að skuli gera í lögum um Landsdóm.
Við fyrstu sýn virðast þessar athugasemdir verjandans vera réttmætar.
Í 13. gr. laga um Landsdóm segir:
,,Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi, og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann til að sækja málið af sinni hendi, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast. Enn fremur kýs sameinað Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar."
Þingsályktunartillagan um ákæru á hendur Geir H. Haarde var samþykkt á lokadegi síðasta löggjafarþings, þann 28. september sl. Hvorki saksóknari né varasaksóknari voru jafnframt samþykkt ákærunnar kjörnir, hvað þá eftirlitsnefnd þingmanna sem vera á saksóknaranum til aðstoðar.
Til stendur að sú kosning fari fram næsta þriðjudag, en í millitíðinni hefur nýtt löggjafarþing verið sett. Minna má á að samkvæmt lögum um þingsköp falla þau þingmál niður sem ekki eru afgreidd milli þinga.
Um þetta snýst sá ágalli á málsmeðferðinni sem verjandinn bendir á.
Niðurstaðan hvernig með skuli fara ræðst af túlkun á orðalagi 13. gr. Landsdómslaganna og þá ekki síst á þýðingu orðsins ,,jafnframt".
Samkvæmt mínum málskilningi mæla Landsdómslögin fyrir um það að kjósa skuli saksóknara, varasaksóknara og þingmannanefnd strax í kjölfar samþykktar ákæru.
Þegar nýjasta útgáfa Íslenskrar orðabókar, sem gefin var út í ritstjórn Marðar Árnasonar, núverandi þingmanns Samfylkingarinnar, er skoðuð má sjá að orðið ,,jafnframt" þýðir:
,,1 samtímis (þeir fóru samtímis), 2 samhliða, ásamt með (hafa aukastörf jafnframt embætti), 3 jafnóðum, eftir því sem (jafnframt því sem menning vex) - undirstrikanir eru mínar"
Þessar orðskýringar Marðar Árnasonar eru býsna skýrar.
Þegar lögskýringargögn með Landsdómslögum eru skoðuð er ekkert sem heimilar að kjör saksóknara Alþingis, varasaksóknara og eftirlitsnefndar þingmanna sé dregið.
Hvað þá að heimilt sé að kjörið fari fram á öðru löggjafarþingi en því sem samþykkti málshöfðun.
Þó ýmiskonar vinnubrögð séu stundum látin viðgangast í stjórnmálunum þá gilda önnur lögmál í dómskerfinu. Þar er formfestan meiri og formkröfur ríkari.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig forseti Alþingis ætlar að klóra sig út úr þessari flækju sem upp er komin.
Ég er ekki einu sinni viss um að Atli Gíslason, sem auðvitað ber ábyrgð á þessu klúðri, geti komið forseta Alþingis til bjargar að þessu sinni.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 5. október 2010
Réttlát reiði
Mótmælin á Austurvelli við Alþingishúsið í gær og við þingsetninguna á föstudag eru fullkomlega skiljanleg. Þau eru dapurleg, en þau eru skiljanleg.
Reiði fólks er mikil. Og hún er réttlát.
Venjulegt fólk er búið að fá nóg.
Það er búið að fá nóg af aðgerðarleysinu. Það óttast að missa heimili sín. Þeir sem enn hafa vinnu óttast að missa hana. Fólk óttast um framtíð sína og barna sinna og það er búið að gefast upp.
Það er búið að fá nóg af því að Alþingi eyði endalausum tíma og orku í að fjalla um mál sem hafa ekkert með vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu að gera.
Jóhanna Sigurðardóttir fékk sitt síðasta tækifæri í gær til þess að gefa þjóðinni einhver svör um það hvernig ríkisstjórnin ætlaði að leysa bráðavanda heimilanna og fyrirtækjanna.
að tækifæri nýtti hún ekki, heldur hélt afleitlega vonda ræðu, eins og flokksbróðir Jóhönnu, Mörður Árnason, lýsti henni í pistli á heimasíðu sinni.
Undir bumbuslættinum og mótmælum 8000 Íslendinga á Austurvelli reyndi forsætisráðherrann af veikum mætti að telja fólki trú um það að ríkisstjórn hennar hefði staðið sig vel. Ríkisstjórnin væri í raun skipað kraftaverkafólki sem hefði unnið vel, raunar svo vel að útlendingar dauðöfunduðu fólkið á Íslandi fyrir að eiga svona snjalla stjórnarherra. Vandinn væri hins vegar sá að fólkið í landinu væri bara ekki búið að átta sig á því hvað hún og hennar fólk hefði náð undraverðum árangri og kenndi fjölmiðlum um að hafa ekki komið þessum kraftaverkum nægilega á framfæri!
Og til að bíta höfuðið af skömminni voru svo fluttar af því fréttir í gær að ríkisstjórnin hefði skuldbundið sig gagnvart AGS að frekari frystingar skulda yrðu ekki heimilaðar og að ekki yrði farið í almennar aðgerðir fyrir skuldug heimili.
Þetta ágæta fólk virðist ekki hafa minnstu tilfinningu fyrir því hvað er að gerast.
Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né Steingrímur J. Sigfússon virðast gera sér grein fyrir því hversu margar fjölskyldur í landinu eiga um sárt að binda.
Fjölmargar þeirra hafa eflaust bundið vonir við að ríkisstjórnin sem kennir sig við norræna velferð mynda leysa vandann, eins og hún lofaði, að minnsta kosti draga úr honum.
Það hefur hún ekki gert og mun ekki gera, enda buðu þau skötuhjú ekki upp á neinar lausnir.
Mótmælin síðustu daga kristalla vonbrigði venjulegs fólks.
Meira að segja ég hef orðið fyrir vonbrigðum og bjóst ég þó ekki við miklu!
Loforðin sem Steingrímur og Jóhanna gáfu AGS, með undirskriftinni ,,Very truly yours", eru ekki bara vonbrigði fyrir fólkið í landinu. Þau eru gróf svik gagnvart þeim fjölskyldum sem eiga um sárt að binda.
Við Sjálfstæðismenn höfum aftur og aftur lagt fram tillögur á Alþingi um bráðaaðgerðir í málefnum heimilanna, atvinnulífsins og efnahagsmálum og við höfum kallað eftir samstöðu allra stjórnmálaflokka um að hrinda þeim í framkvæmd.
Okkar tillögur hafa verið róttækar og þær hafa verið settar fram með hagsmuni heimilanna í fyrirrúmi, en ekki fjármagnseigenda.
Á þessar tillögur hafa Jóhanna, Steingrímur og allir hinir þingmenn stjórnarflokkanna ekki hlustað og raunar ekki sýnt þeim neinn áhuga.
Þau hafa ekki því miður ekki sýnt neinn samstarfsvilja og þess í stað eytt öllum sínum tíma og kröftum í önnur mál sem ekkert hafa með hagsmuni fólksins í landinu að gera.
Nú senda þau út neyðarkall þegar það hefur runnið upp fyrir þeim að þau ráða ekkert við sín verkefni.
Aðgerðarleysi vinstristjórnarinnar hefur tekið á sig nýja og áður óþekkta mynd.
Íslendingar eiga annað og betra skilið en þessa ríkisstjórn.
Engin þjóð á það skilið að þurfa að sitja uppi með svona ríkisstjórn.
Hún verður að víkja!
Þetta gengur ekki lengur.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. september 2010
Til skammar
Íslensk stjórnmál tóku á sig ógeðfelldari mynd en áður hefur sést í atkvæðagreiðslunni á Alþingi í gær þegar greidd voru atkvæði um málshöfðun gegn ráðherrum.
Meirihluti þingmanna ákvað að gefa út pólitíska ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þá fyrstu sinnar tegundar í Íslandssögunni. Geir situr nú einn uppi með ákæru yfir höfði sér, sakaður af pólitískum óvildarmönnum sínum um að hafa gerst sekur um glæpsamlegt athæfi og þess krafist að hann verði látinn sæta refsingu, sektum eða fangelsisvist.
Aðrir sleppa.
Þessi ákvörðun hefur ekkert með réttlæti og sanngirni að gera. Og þaðan af síður ber hún þess merki að borin sé virðing fyrir lögum og þeim meginreglum réttarríkisins sem ég hef fram til þessa talið að allir Íslendingar ættu að vera sammála um að ætti að halda í heiðri.
Satt best að segja hélt ég að tími pólitískra réttarhalda og ofsókna væri liðinn undir lok, en það var greinilega misskilningur eftir atburði gærdagsins.
Ég greiddi atkvæði gegn því að ráðherrarnir fjórir yrðu ákærðir og þá breytti engu hvort ráðherrarnir kæmu úr Samfylkingu eða Sjálfstæðisflokki.
Þegar manni er fengið það vald að taka ákvörðun um hvort ákæra skuli fólk, draga það fyrir dóm og krefjast þess að því verði gerð hörð refsing þá getur maður ekki látið pólitískar skoðanir fólks eða pólitíska fortíð þeirra hafa áhrif á ákvörðun sína. Öll slík sjónarmið verða að víkja.
Ég greiddi atkvæði gegn ákærum á hendur ráðherrunum vegna þess að í tilvikum þeirra allra fjögurra voru nauðsynleg saknæmisskilyrði ekki uppfyllt, orsakasamband ekki til staðar, refsiheimildin óskýr og ákæruatriði og verknaðarlýsingar almennar og ófullnægjandi. Þar við bætist að ég var sammála álitum fremstu lögfræðinga landsins, þ. á m. þeirra sem Atli Gíslason og nefnd hans leituðu til, en neita að upplýsa almenning um það hverjir eru, um að málsmeðferðarreglur landsdómslaga standist hvorki lágmarkskröfur laga né mannréttindareglna.
Mestu skipti þó að aldrei, í öllu þessu ferli, tókst að sýna fram á það að meiri líkur væru á sakfellingu yfir þessum einstaklingum en minni. Við slíkar aðstæður er ekki hægt að réttlæta að þeir séu ákærðir.
Allt þetta létu þeir þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Hreyfingarinnar sem samþykktu að ákæra skyldi Geir H. Haarde sem vind um eyru þjóta.
Þeir gáfu út pólitíska ákæru á hendur honum.
Afstaða Vinstri grænna og Hreyfingarinnar til ákæranna kom ekki á óvart því hún stjórnast af óseðjandi heift, en þingmenn hennar höfðu gefið það út fyrirfram að ákærurnar væru í þeirra huga pólitískar og uppgjör við pólitíska hugmyndafræði, en byggðu ekki á málefnalegum forsendum. Það er sannarlega ekki uppörvandi að í þessum hópi manna sé nýskipaður dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ögmundur Jónasson. Með þeim dingluðu sex þingmenn Framsóknarflokksins, sem sumir hverjir virðast í æ ríkari mæli vera farnir að eiga meiri samleið með öðrum flokkum en sínum eigin.
Skammarlegust af öllu var framganga nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði út frá flokksskírteinum og engu öðru. Skúli Helgason, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ólína Þorvarðardóttir gerðu að mínu mati hvorki sjálfum sér, þinginu eða þjóðinni neinn greiða með því að ákæra fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins en hlífa eigin ráðherrum.
Allir sjá hvaða leik þetta fólk var að leika og það þarf í raun ekki að ræða frekar hvaða annarlegu sjónarmið lágu að baki. Það blasir við öllum hvert ætlunarverkið var.
Með þessu misbeittu þau ákæruvaldi sínu og urðu sér til skammar.
Kjósendum Samfylkingarinnar hlýtur að vera illilega misboðið að horfa upp á þessa þingmenn flokksins ganga fram með þessum hætti. Öllu sómakæru fólki misbýður að minnsta kosti.
En þingmenn Samfylkingarinnar sem í hlut eiga kunna ekki að skammast sín.
Og þeir eru byrjaðir að spinna og reyna að beita blekkingum, sem þeir virðast halda að fólk sjái ekki í gegnum.
Skúli Helgason óð í fjölmiðla í morgun og reyndi að segja við fólk að þingmenn Samfylkingarinnar hefði greitt atkvæði eftir eigin sannfæringu, öfugt við aðra t.d. okkur sjálfstæðismenn.
Þetta er auðvitað ekki rétt og það sjá allir.
Eina sjáanlega sannleikskornið í þessum fullyrðingum Skúla Helgasonar kann að felast í því þessir þingmenn Samfylkingarinnar hafi fylgt þeirri sannfæringu sinni að rétt væri að gefa út pólitíska ákæru og hengja ráðherra Sjálfstæðisflokksins í hæsta gálga, en hlífa sínu eigin fólki.
Sú afstaða er ekki málefnaleg. Hún er ekki sanngjörn og á engan hátt boðleg, heldur fyrirleitleg og verður þingmönnunum til ævarandi skammar.
Ég er sammála því sem fram kom í viðtölum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í fjölmiðlum í kvöld að íslensk stjórnmál hafa fyrir tilverknað þessa fólks ratað í miklar ógöngur.
Sá vetur sem framundan er verður að öllum líkindum harðari á Alþingi en nokkru sinni fyrr og hætt er við að andrúmsloftið í þinginu verði baneitrað.
Ég hef ekki trú á því að alþingismenn mæti til þingsetningar á föstudaginn, glaðir og reifir og láti eins og ekkert hafi gerst.
Þannig verður það ekki.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 23. september 2010
Óskiljanleg þöggun
Það er ekki nema furða að Magnús hafi spurt hvort þetta sé sú skjaldborg sem ríkisstjórn Íslands lofaði að slá um heimilin í landinu.
Í umræðum á Alþingi í gær settum við Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fram þá ósk að Alþingi nýtti tímann sem skapast meðan þingmannanefnd Atla Gíslasonar fer yfir ákærurnar yfir ráðherrunum fjórum til þess að ræða önnur mál sem skipta sköpum fyrir almenning og fyrirtækin í landinu, mál sem brenna á þjóðinni.
Þessari beiðni okkar var því miður hafnað af þeim sem stýra störfum Alþingis, þ.e. fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna.
Það þýðir að engin önnur mál verða tekin til umræðu á Alþingi meðan ákærurnar eru til meðferðar í þingmannanefndinni.
Þetta þýðir að málefni skuldugra einstaklinga, eins og Magnúsar Magnússonar viðmælanda Kastljóssins hafa verið sett í frost á Alþingi af ríkisstjórnarflokkunum.
Það sama má segja um málefni atvinnulífsins.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, þarf ekki að standa skil á yfirlýsingum sínum í hollenskum fjölmiðlum um að Hollendingar þurfi ekki að óttast neitt varðandi Icesave-reikninga Landsbankans, því Íslendingar muni borga.
Magma-málið má ekki ræða.
Ekki frekar en dóm Hæstaréttar Íslands í gengistryggingarmálinu og útspil Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í kjölfarið.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sem á dögunum var dæmd í héraðsdómi fyrir að brjóta lög í tengslum við úrskurð um virkjanamál í Neðri-Þjórsá þarf heldur ekki að svara fyrir sínar gjörðir á Alþingi.
Fjölmörg fleiri þjóðþrifamál mætti nefna sem krefjast umfjöllunar á Alþingi.
Ákvörðun þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að þagga þessi mál niður er óskiljanleg.
Þó mikil spenna hafi gripið um sig á Alþingi vegna framkominna tillagna um að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands og krefjast refsingar yfir þeim, má það ekki gerast, og á ekki að gerast, að alþingismenn verði svo sjálfhverfir að þeir neiti að ræða önnur mál en þau sem snúa að þeim sjálfum og fyrirrennurum þeirra.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 22. september 2010
Um ákærur
Í gær flutti ég ræðu á Alþingi um þær ákærur sem lagt er til að gefnar verði út á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
Ræðan var svohljóðandi:
Virðulegi forseti
Ég hef hér síðustu daga hlustað á ræður þeirra allra þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls í þeirri umræðu sem hér á sér stað þar sem við tökumst á um það hvort höfða skuli mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
Í ljósi þess sem fram hefur komið í ræðum þingmanna og ráðherra tel ég mikilvægt að þeir þingmenn sem hér taka til máls átti sig á þeim reginmun sem er á pólitískri ábyrgð ráðherra, annars vegar, og refsiábyrgð þeirra hins vegar.
Alþingismenn verða að átta sig á því að í þessu máli gegna þeir ekki sínum hefðbundnu hlutverkum stjórnmálamanna.
Okkur hefur verið falið ákæruvald.
Í ljósi þess verða háttv. alþingismenn að haga sínum málflutningi, afstöðu og ákvörðun í samræmi við það og virða þau lög og þær reglur sem gilda í okkar samfélagi í hvívetna.
Það er grundvallarmunur á því að krefjast þess að stjórnmálamenn axli pólitíska ábyrgð og á því að kefjast þess að einstaklingar verði látnir sæta refsingu.
Í því máli sem hér er til umræðu er hin pólitíska ábyrgð ekki til umræðu.
Hér ræðum við um það hvort þeir fyrrverandi ráðherrar sem um ræðir, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson hafi gerst sek um glæpsamlegt athæfi.
Þetta er sú ákvörðun sem við þurfum að ræða. Ekki hin pólitíska ábyrgð, heldur hvort ráðherrarnir fyrrverandi hafi gerst berir að glæpsamlegu eða refsiverðu athæfi.
Mér finnst ástæða til þess að nefna þetta sérstaklega hér vegna þess að mér hefur fundist sem ýmsir háttvirtir þingmenn geri ekki greinarmun á þessu tvennu, þ.á m. sumir þeirra sem setið hafa í þingmannanefndinni og standa að þeim ákærum sem hér eru til umræðu.
Virðulegi forseti.
Við Sjálfstæðismenn höfum ítrekað verið spurðir að því hér í umræðunni hvort við teljum að gerð hafi verið mistök í aðdraganda og í kjölfar efnahagshrunsins.
Þeirri spurningu höfum við margoft og ítrekað svarað. Við höfum margoft sagt og ég segi það enn að það var ýmislegt sem aflaga fór í tengslum við efnahagshrunið og eflaust má halda því fram að margt hefði mátt gera öðruvísi en gert var.
Þeir sem hins vegar standa að þeim ákærum sem hér eru til umræðu og vilja ákæra ráðherrana fjóra og koma yfir þá refsingu hafa hins vegar ekki gert nokkra einustu tilraun til þess að benda á hvað átti að gera öðruvísi.
Sú staðreynd veikir auðvitað mjög þann málarekstur sem hér er lagt til að ráðist verði í.
En þó svo að ég treysti mér til þess að lýsa því yfir að margt hefði mátt öðruvísi gera þá treysti ég mér líka til þess að lýsa því yfir að ég lít ekki á ráðherrana fyrrverandi sem sakamenn.
Virðulegi forseti.
Ég er sammála því sem fram kom í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að það sé verulegur vafi á því að sá málatilbúnaður sem hér liggur fyrir standist ekki lágmarkskröfur mannréttindareglna, meginreglna sakamálaréttarfars og þær grundvallarreglur sem fylgt er í réttarríkjum um réttláta málsmeðferð.
Það kom mér á óvart hversu sannfærður formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, og fleiri nefndarmenn, s.s. Eygló Harðardóttir, voru þegar þau lýstu því og vísuðu til álita ónafngreindra sérfræðinga um að þessi málatilbúnaður allur stæðist þær kröfur.
Verandi sjálfur lögfræðingur, myndi mér hins vegar renna kalt vatn milli skinns og hörunds ef verk mín og hugmyndir hefðu fengið þá falleinkunn sem felld hefur verið um þá ákæru sem hér eru til umræðu.
Menn hljóta að spyrja sig hvort þeir séu á réttri leið þegar formaður Lögmannafélags Íslands, formaður Lögfræðingafélags Íslands og sérfræðingur í refsirétti við Háskólann í Reykjavík lýsa því opinberlega yfir að meðferð þessa máls brjóti gegn mannréttindareglum og meginreglum sakamálaréttarfars.
Og maður hlýtur líka að spyrja sig hvernig flutningsmenn tillögunnar geta verið svo vissir í sinni sök þegar fyrir liggur að þeir sérfræðingar sem þingmennirnir leituðu til í sinni vinnu, og ég er því miður bundinn trúnaði um hverjir eru, sögðu:
Í fyrsta lagi að réttarfar landsdómslaga uppfyllti ekki lágmarkskröfur gildandi laga og mannréttindasáttmála um réttaröryggi sakborninga á rannsóknarstigi mála.
Í öðru lagi að erfitt væri að taka afstöðu fyrr en lokinni athugun á frumgögnum, sem ég veit ekki til að sérfræðingarnir hafi haft aðgang að.
Og í þriðja lagi að uppi væru miklar efasemdir um að réttmætt væri að sækja ráðherra ril sakar fyrir að hafa af stórkostlegu hirðuleysi stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu eða látið farast fyrir að framkvæma nokkuð það sem afstýrt gat slíkri hættu, sbr. b. lið 10. gr. og 2. gr. ráðherraábyrgðarlaga.
Háttvirtur þingmaður, Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar spurði ítrekað í flutningsræðu sinni, ,,Hvað segja sérfræðingarnir?"
Ég hef nú svarað þeirri spurningu og svarið blasir við.
Svar sérfræðinganna er það að þessi málatilbúnaður er þess eðlis að hann stenst ekki lágmarkskröfur mannréttindareglna, meginreglur sakamálaréttarfars, reglur um réttláta málsmeðferð og að þeir hafi miklar efasemdir um að rétt sé að að sækja ráðherrana fyrrverandi til saka á þeim grundvelli sem hér er lagt til.
Ég treysti mér til þess að fullyrða að verjandinn Atli Gíslason væri mér sammála um þetta. Hann myndi t.d. aldrei sætta sig við það að skjólstæðingar hans yrðu ákærðir og þess krafist að þeir væru látnir sæta refsingu án þess að þeir fengju tækifæri til að bera hönd yfir höfðu sér fyrir nefndinni.
Og ég fullyrði líka að háttvirtur þingmaður, Atli Gíslason, myndi enn síður sætta sig við að þurfa sjálfur að sæta slíkri meðferð persónulega.
Virðulegi forseti.
Við þær aðstæður sem ég hef hér líst er ákæruvaldi, í þessu tilviki okkur alþingismönnum, óheimilt að lögum að ákæra ráðherrana fyrrverandi.
Við saksækjum ekki borgara þessa lands og krefjumst þess að þeir verði látnir sæta refsingu nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu. Þetta er meginregla okkar réttarfars. Hana skulum við virða.
Ekkert ákæruatriðanna uppfyllir þetta grundvallarskilyrði þess að ákæra sé gefin út.
Þar við bætist að saknæmisskilyrði laga eru ekki uppfyllt og enn síður er hægt að benda á nauðsynlegt orsakasamhengi í þessum málatilbúnaði öllum.
Þá verður ekki framhjá því litið að verknaðarlýsingar í ákærunni eru svo almennar og ómarkvissar að þær geta að mínu mati engan veginn leitt til sakfellingar.
Þeir sem hafa fylgst með réttarframkvæmd vita að íslenskir dómstólar hafa á síðustu misserum gert meiri og meiri formkröfur varðandi það með hvaða hætti verknaðarlýsingar í ákærum skuli vera úr garði gerðar.
Í raun má segja að dómstólar geri kröfur um að ákæruatriðin og verknaðarlýsingarnar skuli vera klæðskerasniðnar að þeim brotum sem ákært er fyrir og krafist refsingar vegna.
Þetta þekkjum við t.d. í tenglum við Baugsmálin sem mjög voru til umfjöllunar fyrir ekki svo löngu síðan.
Þegar sú ákæra sem hér liggur fyrir er borin saman við þessar formkröfur sem dómkerfið hefur í framkvæmd gert til ákæruvaldsins getur maður ekki varist þeirri hugsun að verði þessi ákæra gefin út og mál höfðað gegn ráðherrunum fyrrverandi þá hljóti Landsdómur að komast að þeirri niðurstöðu að vísa málinu frá, a.m.k. vilji dómsvaldið vera sjálft sér samkvæmt.
Virðulegi forseti.
Ég get ekki látið hjá líða að lýsa furðu minni á því ákæruatriði sem snýr að Icesave-reikningum Landsbanka Íslands, en flutningsmenn tillögunnar leggja til að ráðherrarnir fjórir verði ákærðir fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninganna yfir í dótturfélag í Bretlandi og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
Þessi ákæruliður samræmist auðvitað engan veginn meginröksemdum íslenskra stjórnvalda í þeirri hörðu deilu sem íslensk stjórnvöld hafa átt í við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.
Við höfum allar götur haldið því fram að íslenska ríkið geri að lögum hvorki ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands né á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
Engu að síður leggur meirihlutinn til að ráðherrarnir fyrrverandi verði ákærðir fyrir að vanrækja skyldur, sem íslensk stjórnvöld hafa mánuðum saman neitað að kannast við í deilunni við Breta og Hollendinga.
Þessi þversögn í málatilbúnaði flutningsmanna tillögunnar er ekki bara óskiljanlegur að mínu mati, heldur beinlínis skaðlegur fyrir hagsmuni íslenska ríkisins.
Og ég efast ekki um það eina mínútu að Bretar og Hollendingar myndu gera sér mat úr henni, verði ákæran gefin út.
Virðulegi forseti.
Ég vil síðan nefna eitt praktískt en mikilvægt atriði til viðbótar sem ekki hefur komið til tals í þessari umræðu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að verði ákæra gefin út og mál höfðað þá muni meðferð þessa máls taka ógnarlangan tíma og að við þurfum að bíða í allt að 2 ár eftir niðurstöðu Landsdóms.
Þessa ályktun dreg ég af þeim réttarfarsákvæðum sem um þetta mál munu gilda, m.a. 51. gr. landsdómslaga, 111. og 112. gr. laga um meðferð sakamála og 6. mgr. 14. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis.
Af þeim leiðir að sá saksóknari sem skipaður yrði þyrfti að rannsaka málið frá grunni, með rannsókn á málinu í heild og tilheyrandi skýrslutökum, ekki einungis yfir sakborningunum sjálfur, heldur einnig yfir öllum þeim vitnum sem rannsóknarnefnd Alþingis talaði við..
Landsdómur þyrfti jafnframt sjálfur að rannsaka málið frá grunni, enda getur skýrsla rannsóknarnefndarinnar lögum samkvæmt ekki talist lögfull sönnun í slíku máli, hversu góð mönnum þykir hún vera, enda kemur það fram í lögum um rannsóknarnefndina sjálfa.
Þessi skoðun byggir ekki síður á meginreglum sakamálaréttarfars um að sönnunarfærsla í sakamálum fyrir dómi skuli vera munnleg. Hún felur það í sér að Landsdómur þyrfti að kalla fyrir öll þau vitni sem sakborningar vildu leiða fyrir dóminn vegna hvaða máls sem er sem fjallað er um í rannsóknarskýrslunni.
Við verðum að hafa í huga í því sambandi að vitnin sem komu fyrir rannsóknarnefndina og gáfu þar skýrslu voru aldrei gagnspurð af lögmönnum þeirra sakborninga sem nú er lagt til að verði ákærðir.
Allt mun þetta taka langan tíma.
Það verður að sjálfsögðu þungbært fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og lagt er til að ákærðir verði.
En það er ekki síður afdrifaríkt fyrir dómskerfið, því 5 reyndustu dómarar Hæstaréttar Íslands sitja í Landsdómi, og munu líklega ekki gera mikið annað meðan á þessum málarekstri fyrir Landsdómi stendur.
Það mun líklega koma í veg fyrir að önnur mál fái afgreiðslu í réttarkerfinu, svo sem hugsanleg sakamál sem kunna að verða höfðuð gegn sakborningum sem gengdu lykilstöðum í fjármálakerfinu og mál sem tengjast uppgjörum á þrotabúum fjármálafyrirtækjanna.
Ég er ekki að segja að þetta atriði sem ég er að nefna hér eigi að vera ákvörðunarástæða fyrir því hvernig alþingismenn eigi að greiða atkvæði í þessu máli, en það er mikilvægt að það eru líkur á að störfum dómskerfið, sem nú þegar er störfum hlaðið, kann að leggjast á hliðina, a.m.k. tímabundið, verði þetta mál höfðað.
Virðulegi forseti
Eins og þeir sem hafa hlýtt á þessa ræðu hafa kannski áttað sig á þá er ég í grundvallaratriðum mótfallinn þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar. Ég get ekki stutt hana. Ég tel að það séu ekki forsendur til þess að ákæra það fólk sem hér um ræðir. Ég tel að það séu ekki efnislegar ástæður til þess að gera það og ég tel að sú málsmeðferð sem slík málshöfðun byggir á brjóti í meginatriðum gegn mannréttindareglum, meginreglum sakamálaréttarfars og meginreglum um sanngjarna málsmeðferð fyrir dómi.
Menn tala mikið um mikilvægi þess að einstaklingar axli ábyrgð á því sem gerst hefur. Í mínum huga er það ljóst að hin pólitíska ábyrgð hefur verið borin. Allt þetta fólk hefur vikið úr sínum embættum, það starfar ekki lengur á vettvangi stjórnmálanna. Það hefur fengið sinn dóm sem birtist í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sá dómur er þeim að sjálfsögðu mjög þungbær.
Ég hlýt að lokum að varpa spurningu fram til þeirra sem standa að þessum tillöguflutningi:
Hvernig ætla þeir að axla sína ábyrgð, verði ákæran gefin út, mál höfðað fyrir Landsdómi, en málinu vísað frá eða þeir einstaklingar sem hér um ræðir sýknaðir?
Hvernig ætla þeir að axla sína ábyrgð?
Fimmtudagur, 16. september 2010
Kviðdómur Samfylkingarinnar
Hún sýnir fyrst og fremst í hvers konar ógöngur þingflokkur Samfylkingarinnar er kominn í Landsdómsmálinu.
Varaformaður þingflokksins, Skúli Helgason, lét hafa sig út í að halda því fram í fjölmiðlum í dag að þetta sé liður í þeirri faglegu umfjöllun sem þingflokkur Samfylkingarinnar vilji bjóða upp á!
Öllu má nú nafn gefa!
Ég spyr:
Hefðu hinir faglegu þingmenn Samfylkingarinnar ekki átt að fá þessa hugdettu fyrr?
Hefði til dæmis ekki verið faglegra ef fulltrúar Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni hefðu kallað ráðherrana fyrrverandi fyrir nefndina og leyft þeim að verja sig og útskýra mál sitt áður en þeir ákváðu að leggja það til við Alþingi að ráðherrarnir yrðu ákærðir og þess krafist að þeir yrðu látnir sæta fangelsisrefsingu?
Eða er kannski faglegra að skjóta fyrst, og spyrja svo?
Getur kannski verið að farnar séu að renna tvær grímur á einhverja?
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- allib
- almaogfreyja
- andrigeir
- audbergur
- audunnh
- abg
- axelaxelsson
- arniarna
- aslaugfridriks
- astamoller
- baldher
- baldvinjonsson
- benediktae
- bergrun
- kaffi
- bergurben
- bjarnihardar
- bjarnimax
- bjorgvinr
- sveifla
- binnag
- bryndisharalds
- skordalsbrynja
- brandarar
- charliekart
- dansige
- doj
- deiglan
- doggpals
- egillg
- erla
- erlendurorn
- skotta1980
- ea
- fsfi
- vidhorf
- hressandi
- gammurinn
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisliblondal
- gillimann
- grettir
- gudni-is
- gummibraga
- phoenix
- gunnarbjorn
- gussi
- laugardalur
- habbakriss
- smali
- haddi9001
- hhbe
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heimssyn
- herdis
- hildurhelgas
- drum
- hjaltisig
- hlekkur
- kolgrimur
- hlodver
- don
- hvitiriddarinn
- ingabesta
- golli
- ibb
- bestiheimi
- jakobk
- fun
- stjornun
- skallinn
- jonasegils
- forsetinn
- jonmagnusson
- bassinn
- jonsnae
- julli
- komment
- karisol
- kje
- kjarrip
- kjartanvido
- kolbrunb
- kristinrichter
- kristjanb
- kristjangudm
- liljabolla
- altice
- maggaelin
- gummiarnar
- martasmarta
- mal214
- nielsfinsen
- ottoe
- olibjossi
- obv
- nielsen
- skari
- pkristbjornsson
- jabbi
- pbj
- storibjor
- iceland
- pjeturstefans
- raggibjarna
- raggiraf
- raggipalli
- ragnar73
- schmidt
- bullarinn
- salvor
- fjola
- sigbragason
- vitaminid
- joklamus
- sv11
- sjonsson
- siggikaiser
- sisi
- siggisig
- sigurgeirorri
- mogga
- sigurjonb
- sms
- sjalfstaedi
- hvala
- hvirfilbylur
- stebbifr
- eyverjar
- styrmirh
- summi
- brv
- sveinn-refur
- stormsker
- saethorhelgi
- tidarandinn
- daystar
- valdimarjohannesson
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- nytthugarfar
- vibba
- villagunn
- va
- villithor
- xenon
- thorbjorghelga
- steinig
- thorsteinnhelgi
- thorasig
- doddidoddi
- thorolfursfinnsson
- toddi
- hugsun
- ornsh