Óskiljanleg þöggun

Það var átakanlegt að hlusta á Magnús Magnússon, kvikmyndagerðarmann, lýsa raunum sínum í Kastljósi Sjónvarpsins í gær.  Magnús missti heimili sitt eftir að hafa orðið óvinnufær vegna hvítblæðis, en sýslumaður bauð honum að leigja heimili sitt fyrir 320.000 krónur á mánuði eða þrefalda þá upphæð sem hann greiddi af húsnæðinu áður og lenti í vanskilum með.

Það er ekki nema furða að Magnús hafi spurt hvort þetta sé sú skjaldborg sem ríkisstjórn Íslands lofaði að slá um heimilin í landinu.

Í umræðum á Alþingi í gær settum við Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fram þá ósk að Alþingi nýtti tímann sem skapast meðan þingmannanefnd Atla Gíslasonar fer yfir ákærurnar yfir ráðherrunum fjórum til þess að ræða önnur mál sem skipta sköpum fyrir almenning og fyrirtækin í landinu, mál sem brenna á þjóðinni.

Þessari beiðni okkar var því miður hafnað af þeim sem stýra störfum Alþingis, þ.e. fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna.

Það þýðir að engin önnur mál verða tekin til umræðu á Alþingi meðan ákærurnar eru til meðferðar í þingmannanefndinni.

Þetta þýðir að málefni skuldugra einstaklinga, eins og Magnúsar Magnússonar viðmælanda Kastljóssins hafa verið sett í frost á Alþingi af ríkisstjórnarflokkunum.

Það sama má segja um málefni atvinnulífsins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, þarf ekki að standa skil á yfirlýsingum sínum í hollenskum fjölmiðlum um að Hollendingar þurfi ekki að óttast neitt varðandi Icesave-reikninga Landsbankans, því Íslendingar muni borga.

Magma-málið má ekki ræða.

Ekki frekar en dóm Hæstaréttar Íslands í gengistryggingarmálinu og útspil Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í kjölfarið.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sem á dögunum var dæmd í héraðsdómi fyrir að brjóta lög í tengslum við úrskurð um virkjanamál í Neðri-Þjórsá þarf heldur ekki að svara fyrir sínar gjörðir á Alþingi.

Fjölmörg fleiri þjóðþrifamál mætti nefna sem krefjast umfjöllunar á Alþingi.

Ákvörðun þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að þagga þessi mál niður er óskiljanleg.

Þó mikil spenna hafi gripið um sig á Alþingi vegna framkominna tillagna um að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands og krefjast refsingar yfir þeim, má það ekki gerast, og á ekki að gerast, að alþingismenn verði svo sjálfhverfir að þeir neiti að ræða önnur mál en þau sem snúa að þeim sjálfum og fyrirrennurum þeirra.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband