Miðvikudagur, 31. október 2007
Útrás ríkiseinokunarverslunar

Úrtölumenn frumvarpsins hafa máli sínu til stuðnings einnig bent á að engin ástæða sé til þess að heimila einkaaðilum verslun með þessar vörur. Sú þjónusta sé best komin í höndum ríkisins.
Þá hefur því verið haldið fram að framvarp okkar um að heimila sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum sé róttækt og feli í sér of mikið frelsi í verslun með þessar vörur. Um þær gildi önnur sjónarmið en aðrar neysluvörur og því eigi að haga verslun með þær með öðrum hætti en almennar neysluvörur.
Ég hef tekið undir það, m.a. með Lýðheilsustöð, að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara. Hana sé ekki hægt að setja í flokk með eplum og appelsínum. Af þeirri ástæðu erum við sammála um að fólk þyrfti að hafa náð 20 ára aldri til þess að geta keypt þessarar vörur og að þeir sem afgreiddu þær þyrftu að hafa náð sama aldri. Að því leyti er ég sammála þeim sem telja að um verslun með þessar vörur eigi að gilda sérreglur.
Ég get hins vegar ekki tekið undir það að frumvarpið sé róttækt, enda tel ég að samþykkt þess muni ekki leiða til þeirra róttæku breytinga á lífsháttum Íslendingar sem andstæðingar frumvarpsins óttast að það muni gera eða að það kollvarpi núverandi fyrirkomulagi verslunar með þessar vörur.
Ég hef á síðustu vikum furðað mig á því hvers vegna þeir sem andsnúnir eru frumvarpi okkar á þeim forsendum að með samþykki þess aukist aðgengi að áfengi, og að slíkt muni auka á áfengisvandann í þjóðfélaginu, hafa ekki látið heyra í sér fyrr og þá beint spjótum sínum að hinu opinbera.
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum nú er sú að á síðustu 10 árum hefur ÁTVR gengið hart fram í því að auka aðgengi fólks að áfengi, þar á meðal að sterku víni. Í því sambandi má nefna að á árunum 1997-2005 opnaði ÁTVR hvorki meira né minna en 22 nýjar Vínbúðir um allt land. Á sama tíma hefur þjónusta ÁTVR verið stóraukin og opnunartími lengdur.
Ég hefði haldið að þeir sem nú berjast gegn því léttvín og bjór verði seldur í matvöruverslunum hefðu kannski átt að láta heyra í sér fyrr, í ljósi þeirrar þróunar sem ég hef hér rakið. Ég hef hins vegar ekki orðið mikið var við slík viðbrögð.
Í dag birtist athyglisverð frétt í dagblaðinu 24 stundum sem ástæða er til að vekja athygli á, en fyrirsögn fréttarinnar er: ,,Áfengið er komið í matvöruverslanir." Í fréttinni segir:
,,Áfengi er selt í matvöruverslunum og á bensínstöðvum. ÁTVR hefur gert samstarfssamninga um allt land, þótt frumvarp sem leyfir áfengissölu í matvörubúðum bíði afgreiðslu á þingi.
Vínbúðir eru þegar reknar samhliða matvöruverslunum. Í versluninni Kjarvali á Hellu ganga viðskiptavinir í gegnum verslunina, framhjá mjólkinni og kókosbollunum, áður en þeir koma að Vínbúðinni, sem er inni í versluninni. Vínbúðin er þó með sérstakan verslunarstjóra á sínum snærum ásamt því að vera með annan afgreiðslutíma en Kjarval. Í versluninni Samkaup-Strax á Djúpavogi er fyrirkomulega Vínbúðarinnar svipað.
25 verslanir á landsbyggðinni.
Nú, fimmta árið í röð, liggur fyrir frumvarp á Alþingi sem heimilar sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum. Samkvæmt upplýsingum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eru 25 vínbúðir á landsbyggðinni reknar í samstarfi við einkaaðila samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. ÁTVR leigir húsnæði af verslunum og öðrum þjónustuaðilum, en útvegar ávallt eigin verslunarstjóra.
Elsa Bergmundardóttir er útibússtjóri vínbúðar í Ólafsvík. Þar er Vínbúð rekin í versluninni Þóru, en samstarfið hefur varað í 20 ár. ,,Við erum með barnaföt og garn," segir hún og bætir við að alltaf sé nóg að gera í Vínbúðinni, töluvert meira en í barnafatadeildinni. ,,Bjórinn er alltaf vinsæll. Ég er útibússtjóri. Svo er ein manneskja með mér á virkum dögum og svo bætist ein við á föstudögum."
Elsa segir að til standi að breyta búðinni, en nú er áfengi afgreitt yfir borð. ,,Vínbúðin er alveg eins og hún var þegar hún var opnuð fyrir 20 árum.""
Sú þróun sem ég hef hér rakið er afar athyglisverð. Hún sýnir að ÁTVR hefur staðið í mikilli útrás, sem lítið hefur farið fyrir í opinberri umræðu, og gengið býsna langt í því að auka þjónustu við þá sem kaupa sér áfengi og aðgengi þeirra að vörunum, þ. á m. að sterku áfengi. Fyrir liggur að í dag stunda einkaaðilar slíka verslun á grundvelli samstarfssamninga og fer sú verslun jafnvel fram í barnafataverslunum og á bensínstöðvum.
Sá raunveruleiki sem hér hefur verið lýst sýnir að það frumvarp sem við sautjánmenningarnir höfum lagt fram á Alþingi er síður en svo róttækt. Það er þvert á móti hófsamt, enda gengur það mun skemur en framganga ríkisins hefur gert í verslun með þessar vörur þar sem það mælir einungis fyrir um að heimila sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum, en ekki sterks víns í matvöruverslunum, barnafataverslunum og á bensínstöðvum, eins og nú tíðkast.
Maður hlýtur því að velta því fyrir sér í ljósi þess hvort það sé eitthvað betra í hugum þeirra sem nú berjast gegn frumvarpinu, á þeim forsendum að það auki aðgengi almennings að þessum vörum, að það sé ríkið auki aðgengi að þessum vörum eða einkaaðilar?
Getur það verið?
Ég get að lokum upplýst að sú þróun sem hér hefur verið rakin er í samræmi við þá stefnumörkun sem þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, þ.á m. Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Þuríður Backmann og Árni Þór Sigurðsson hafa sett fram og barist fyrir í þessum málaflokki.
Fyrir þeirri stefnu mun ég gera nánari grein í öðrum pistli á næstu dögum.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 31. október 2007
Hið meinta skeytingarleysi
Markmið þessa frumvarps er einfalt, það er að afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu á léttvíni og bjór.
Andstæðingar frumvarpsins hafa teflt fram ýmsum sjónarmiðum í þeirri umræðu. Sum þessara sjónarmiða hafa verið málefnaleg, önnur ekki.
Ég ætla mér ekki hér að rekja öll þessi sjónarmið og hrekja að þessu sinni. Það mun ég þó eflaust gera síðar.
Mér finnst hins vegar ástæða til að svara sjónarmiðum sem fram hafa komið um meint skeytingarleysi flutningsmanna frumvarpsins gagnvart áfengisvandanum svokallaða.
Efnislega hefur því verið haldið fram af andstæðingum frumvarpsins að við sem viljum afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu á léttvíni og bjór séum annað hvort blind eða skeytingarlaus gagnvart áfengisvandanum og að við gefum því böli sem þeir sem sjúkir eru af áfengissýki og aðstandendum þeirra, sem þurft hafa að þola mikið böl, engan gaum.
Þetta er ekki rétt.
Í þessu sambandi er ástæða til að ítreka það einu sinni enn, sem við flutningsmenn frumvarpsins höfum margoft haldið fram, að þó svo menn séu þeirrar skoðunar að fólk eigi almennt að hafa frelsi til þess að gera það sem hugur þeirra stendur til, svo lengi sem í þvi felist ekki bein skerðing á frelsi annarra og að sú hegðun brjóti ekki í bága við lög, þá þýðir það ekki að þeir hinir sömu loki augunum fyrir því að sumir kunni ekki með það frelsi að fara. Í því felst sú afstaða að lagareglur séu miðaðar við þarfir meginþorra fólks. Með öðrum orðum að þeim meginþorra fólks sem er treystandi til þess að geta keypt sé léttvín og bjór í öðrum verslunum en ríkisreknum verslunum sé ekki meinað að gera það vegna þeirra sem hafa misst eða munu hugsanlega missa stjórn á neyslu sinni.
Í þessu felst að það sé ekki rétt að bregðast við þeim vandamálum sem uppi eru í þjóðfélaginu með boðum og bönnum heldur með öðrum aðferðum.
Því eigum við að takast á við vanda þeirra sem ekki kunna eða geta umgengist frelsið, í þessu tilviki, leiðast út í ofneyslu áfengis, með öðrum og ábyrgari hætti. Það hljótum við að gera með því, annars vegar að leita skýringa á því hvers vegna fólk leiðist á glapstigu vegna áfengisneyslu og nýta þá þekkingu okkar til þess að koma í veg fyrir að það gerist með öflugu forvarnarstarfi. Hins vegar eigum við að taka á stöðu þeirra sem áfengissjúkir eru með því að efla meðferðarúrræði.
Ég hygg að allir þeir þingmenn sem að frumvarpinu standa sem tjáð hafa sig um það á síðustu dögum vikum hafi lýst yfir einlægum vilja sínum til þess að leggja lóð sitt á vogarskálar þess að nauðsynlegt sé að efla og styrkja forvarnir vegna ofneyslu áfengis. Öll höfum við einnig lagt áherslu á nauðsyn þess að auka aðstoð við þá sem eiga um sárt að binda vegna ofneyslu.
Við höfum hins vegar ekki verið reiðubúinn til að gefa eftir það grundvallarsjónarmið okkar að ástæða sé til að afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu með þessar vörur.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 31. október 2007
Starfsemi Íslandspósts hf. rædd á Alþingi
Á undanförnum vikum og mánuðum hef ég látið mig starfsemi Íslandspósts hf. nokkru varða. Í skrifum á þessari heimasíðu og í opinberri umræðu hef ég gagnrýnt að Íslandspóstur hf. standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi félagsins nær ekki til, s.s. á prentmarkaði, í smásöluverslun með ritföng og á fleiri sviðum.
Ástæða gagnrýni minnar er sú að þó svo að Íslandspóstur sé hlutafélag þá er það að öllu leyti í eigu hins opinbera og telst því vera ríkisfyrirtæki. Slík fyrirtæki eiga að mínu mati ekki að stunda samkeppni við einkaaðila á samkeppnismarkaði.
Á síðustu mánuðum hefur hafa stjórnendur Íslandspósts hf. hins vegar ákveðið að hefja slíka samkeppni af fullum þunga og hafa numið ný lönd á nýjum mörkuðum.
Við slíka tilburði geri ég alvarlegar athugasemdir.
Af þeirri ástæðu þótti mér ástæða til þess að taka málið til umræðu á Alþingi. Það gerði ég í gær með því að leggja fram fyrirspurn til Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, um starfsemi Íslandspósts hf. Fyrir samgönguráðherrann lagði ég tvær spurningar svohljóðandi:
1. Er samgönguráðherra fylgjandi því að Íslandspóstur hf. stundi samkeppnisrekstur við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi fyrirtækisins nær ekki til?
2. Hyggst samgönguráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að Íslandspóstur hf. stundi slíka samkeppni?
Ég vænti þess að um málið verði rætt á næstu vikum á Alþingi og það verður spennandi að heyra viðhorf ráðherrans til málsins og svör hans við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann.
Vonandi mun sú umræða leiða til þess að samkeppni ríkisins við einkaaðila líði undir lok.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 27. október 2007
Stjórnarskráin, stjórnmálin og sjávarútvegurinn
Í gær flutti ég ræðu á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna sem haldið var á Hilton Hótel Nordica.
Þar sagði ég eftirfarandi:
x x x
Fundarstjóri. Góðir fundargestir.
Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir það tækifæri að fá að ávarpa aðalfund Landssambands Íslenskra útvegsmanna. Þetta er fyrsti aðalfundur sambandsins sem ég sæki, en vonandi ekki sá síðasti.
Frá því að ég hóf stjórnmálaþátttöku hef ég alltaf haft áhuga á sjávarútvegsmálum, ekki síst þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég tel að byggja eigi greinina á. Í stjórnmálaumræðunni hef ég lagt mig fram um það að halda þessum sjónarmiðum fram með eins afdráttarlausum hætti og ég hef getað, einfaldlega vegna þess að ég trúi því að þau séu rétt og greininni fyrir bestu.
Eins og sjá má á dagskrá þessa fundar þá ber erindi mitt yfirskriftina ,,Stjórnarskráin og stjórnmálin." Ástæðan fyrir þessari yfirskrift er sú að aðkoma mín að málefnum sjávarútvegsins hefur fyrst og fremst verið á vettvangi stjórnmálanna og þá ekki síst í umræðum um stjórnarskránna, einkum um hugmyndir manna um að setja í stjórnarskrá ákvæði sem mæla fyrir um að náttúruauðlindir á Íslandi og við Ísland skuli vera í svokallaðri ,,þjóðareign".
Áður en ég vík að því atriði finnst mér ástæða til að nefna það sérstaklega að líklega horfi ég á sjávarútveginn frá öðru sjónarhorni en flest ykkar sem hér eruð í salnum.
Ástæðan er sú að ég hef aldrei verið á sjónum, aldrei starfað við útgerð, aldrei migið í saltan sjó. Ég hef aldrei átt hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtæki eða setið í stjórn slíks fyrirtækis. Mín einu tengsl við sjávarútveginn eru þau að afi minn heitinn var hafnarverkamaður í Ólafsvík á síðustu öld. Þar af leiðandi mun ég seint teljast til hinna innvígðu og innmúruðu í íslenskum sjávarútvegi, þó svo að ég og fleiri skoðanabræður mínir hafi margoft verið sakaðir um að ganga erinda útgerðarinnar eða vera sérstakar málpípur hennar. Ég hef hins vegar hagsmuni af því eins og allir aðrir landsmenn að um sjávarútveginn, eins og aðrar atvinnugreinar giltu skynsamlegar reglur og að atvinnugreininni vegni vel.
x x x
Fyrir mann eins og mig sem stend fyrir utan þessa atvinnugrein og fylgist með henni utan frá þá hafa þær breytingar sem átt hafa sér stað í sjávarútvegi ekki farið framhjá mér. Í mínum huga er sjávarútvegurinn framsækin og nýjungagjörn atvinnugrein sem hefur staðið af sér ýmiss áföll sem á henni hafa dunið með hagræðingu, skynsemi og myndarskap. Ég tel ólíklegt að það hefði tekist án núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.
Í opinberri umræðu og stjórnmálum hefur mér hins vegar fundist fiskveiðistjórnunarkerfið og sjávarútvegurinn í heild, því miður hafa átt í býsna mikilli varnarbaráttu. Við bárum vissulega gæfu til þess að kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum var komið á, sem reynst hefur feikilega vel. Það er fagnaðarefni að það tókst að koma smábátum í kvótakerfi og líklega hefur það styrkt kvótakerfið í sessi. Þrátt fyrir það býr sjávarútvegurinn við of mikla óvissu.
Það er merkilegt hve ýmis áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu hafa lengi verið reiðubúin til þess að fórna hagsmunum sjávarútvegsins til þess að ná fram ýmsum pólitískum markmiðum eða áhugamálum sínum. Einhverra hluta vegna hefur að mínum dómi að vissu leyti verið gefið skotleyfi á sjávarútveginn, sem er nokkuð sem aðrir atvinnuvegir hafa ekki þurft að þola, heldur þvert á móti notið mikillar velvildar.
- Mér hefur fundist sem þessi öfl hafi skort skilning á mikilvægi þess að sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, þurfi búi við stöðugleika í stað óvissu um það sem framtíðin ber í skauti sér. Það hlýtur að vera óþolandi fyrir fyrirtæki í þessari atvinnugrein að þurfa að starfa í slíkri óvissu.
- Það hlýtur að vera óþolandi að þurfa að sæta sérstakri skattlagningu umfram aðrar atvinnugreinar.
- Það hlýtur að vera óþolandi að þurfa að hafa það hangandi yfir sér að hluti aflaheimilda þeirra verði hugsanlega tekinn af þeim og færður til annarra.
- Það hlýtur að vera óþolandi að hafa þá hótun hangandi yfir sér að komist tiltekin stjórnmálaöfl til valda megi búast við því að aflaheimildir fyrirtækjanna verði gerðar upptækar eða þær þjóðnýttar.
- Og það hlýtur að vera óþolandi að búa við óvissu um það hvort íslensk stjórnvöld muni halda um stjórn fiskveiða við Íslandsstrendur í framtíðinni.
Þessari óvissu þarf að eyða. Fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa, eins og fyrirtæki í öllum öðrum atvinnugreinum, að búa við stöðugleika. Þau þurfa að geta treyst því að þær leikreglur sem þeim er ætlað að starfa eftir séu almennar og að þær taki ekki grundvallarbreytingum til framtíðar.
x x x
Því miður verður ekki sagt að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi búið við mikinn stöðugleika á síðustu misserum. Ég þarf auðvitað ekki að fara yfir það hér hversu mikið áfall skerðing þorskveiðiheimilda er fyrir íslenska útgerð og ekki hefur hátt gengi krónunnar gert útvegsfyrirtækjunum auðveldara fyrir.
Ég tók eftir því að minn góði flokksbróðir, sjávarútvegsráðherrann, vék að verðbólgunni og styrk krónunnar á fundinum í gær og sagði hana stafa einkanlega af hækkun húsnæðisverðs sem kæmi beint í bakið á útflutningsgreinunum og veikti stöðu þeirra.
Þetta er auðvitað rétt hjá sjávarútvegsráðherranum.
Ég vil hins vegar bæta því við að til þess að styrkja stöðu útflutningsgreinanna þurfa allir þeir sem hlut eiga að máli að taka höndum saman. Lánastofnanir verða ekki bara að halda að sér höndum í útlánum til húsnæðiskaupa, heldur verða ríki og sveitarfélög auðvitað líka að gæta að sér og ganga á undan með góðu fordæmi með því að sína ráðdeild og sparsemi.
x x x
Góðir fundarmenn.
Einn angi þessarar varnarbaráttu sem ég minntist á hér áðan birtist okkur ljóslifandi undir lok síðasta kjörtímabils.
Þá var lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga þar sem lagt var til að mælt yrði fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins að náttúruauðlindir Íslands skyldu vera ,,þjóðareign", en frumvarpið átti rót sína að rekja til ákvæða stefnuyfirlýsingar síðustu ríkisstjórnar.
Sjálfur tók ég virkan þátt í umræðu um þetta frumvarp á vettvangi Alþingis og átti sæti í sérnefnd þingsins um stjórnarskrármál sem hafði þetta mál með höndum.
Þó svo að lesa hefði mátt út úr frumvarpinu það yfirlýsta markmið flutningsmanna þess að með því væri ætlunin sú að festa í stjórnarskrá fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar varðandi nýtingu náttúruauðlinda, án þess að haggað yrði við réttindum einstaklinga og lögaðila sem njóta verndar skv. eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, má draga ýmsan lærdóm af þeirri umræðu sem átti sér stað um frumvarpið á Alþingi og í þjóðfélaginu.
Sú umræða, sem af hálfu þeirra sem aðhyllast þjóðareign á náttúruauðlindum, snérist fyrst og fremst um að kollvarpa núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Hún leiddi líka í ljós að meðal stjórnmálamanna úr flestum stjórnmálaflokkum virðist vera ríkur vilji til þess að haga málum með þeim hætti að náttúruauðlindirnar, þ. á. m. sjávarauðlindin, verði færðar úr höndum þeirra sem þær eiga og/eða nýta í dag og til ríkisins.
Sem betur fer varð frumvarp þetta ekki að lögum, enda var það algjörlega óhugsandi fyrir okkur, sem erum fylgjandi núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, einkaframtaki og eignarréttarfyrirkomulagi í okkar þjóðskipulagi og höfnum þjóðnýtingu hvers konar, að veita þeim aðilum sem berjast fyrir slíkri þjóðnýtingu vopn í hendur sem hefðu getað auðveldað þeim í framtíðinni að hrinda þeim fyrirætlunum sínum í framkvæmd að gera eignir manna eða réttindi upptæk, hvort sem er á grundvelli svokallaðrar ,,fyrningarleiðar" eða með öðrum leiðum, hvaða nafni sem menn vilja gefa þjóðnýtingunni.
Þó svo að hugtakið ,,þjóðareign" kunni að hljóma vel í eyrum einhverra, þá megum við aldrei gleyma því að þegar slíkt hugtak hefur verið lögfest, ég tala nú ekki um í stjórnarskrá, þá hefur það réttaráhrif. Þau réttaráhrif geta aldrei og munu aldrei, sama hvernig á þau er litið, gera annað en að grafa undan einkaframtakinu og eignarréttarfyrirkomulaginu.
Á síðustu árum hafa átt sér stað ótrúlegar framfarir á Íslandi, sama hvert litið er. Íslendingar hafa stigið stórkostleg framfaraskref á öllum sviðum atvinnulífsins.
Þrátt fyrir það er viðbúið að á komandi misserum og árum muni tilteknir stjórnmálamenn halda áfram að berjast fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði fest í lög eða stjórnarskrá. Slíkar ráðstafanir myndu fela í sér stórt skref afturábak á þeirri framfarabraut sem við höfum verið á og kynni að hafa í för með sér mikið bakslag fyrir áframhaldandi vöxt og viðgang íslenskra fyrirtækja sem gera rekstur sinn út á nýtingu náttúruauðlinda.
Þar fyrir utan myndi lögfesting ákvæðis um náttúruauðlindir í þjóðareign tryggja okkur sess í hópi Suður- og Austur-Evrópuþjóða sem hafa farið þessa leið, þjóða á borð við Spán, Portúgal og Kýpur, annars vegar, og Eistland, Búlgaríu og Rúmeníu, hins vegar.
Menn geta síðan deilt um það hversu eftirsóknarverður slíkur félagsskapur getur talist í þessu sambandi.
Ég held að sú umræða sem átti sér stað undir lok síðasta kjörtímabils um lögfestingu stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á náttúruauðlindum ætti að kenna mönnum að vera ávallt á varðbergi gagnvart slíkum hugmyndum, enda eru þær ekki til annars fallnar en að veikja stöðu okkar mikilvægustu atvinnugreina, þ. á m. sjávarútvegsins.
x x x
Annar angi þessarar varnarbaráttu sjávarútvegsins sem ég nefndi hér áðan eru þær sértæku og íþyngjandi aðgerðir sem stjórnvöld hafa á síðustu árum gripið til og reynst hafa sjávarútveginum dýrkeyptar. Þar á ég sérstaklega við úthlutun byggðakvóta, álagningu veiðileyfagjalds og svokallaða línuívilnun.
Ég hygg að fáar atvinnugreinar hafi þurft að þola jafn viðurhlutamikið inngrip í starfsemi sína frá stjórnvöldum og sjávarútvegurinn.
Ég hef alla tíð verið andsnúinn sértækum aðgerðum sem þessum, enda eru þær að mínu mati óskynsamlegar og ósanngjarnar, hvort sem er í skattalegu tilliti, frá hagfræðilegu sjónarmiði séð, jafnræðissjónarmiðum eða byggðapólitískum sjónarmiðum.
Á dögunum kynnti sjávarútvegsráðherra að hann myndi fella niður veiðileyfagjald á þorsk, tímabundið næstu tvö árin, vegna skerðingar þorskveiðiheimilda.
Þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherrans ber að fagna, eins og öðrum skattalækkunum sem ráðist er í. Sjálfur hefði ég hins vegar viljað sjá ráðherrann ganga lengra og nota tækifærið til þess að fella gjaldið alfarið niður á alla nytjastofna. Það hljóta allir að sjá hversu vitlaus þessi gjaldtaka er, ef þeir bara skoða hvað er til skiptanna í atvinnugreininni og hugleiða þær sveiflur sem hún býr við.
Ég óttast hins vegar í hreinskilni sagt að sjávarútvegsráðherra muni ekki eiga þess kost að fella gjaldið alfarið niður. Ástæðan er sú að uppi eru upp tvö ólík sjónarmið gagnvart þessari gjaldtöku meðal stjórnmálamanna. Annars vegar sjónarmið okkar, sem viljum hana burt, og hins vegar sjónarmið þeirra sem vilja viðhalda veiðileyfagjaldinu og helst hækka það. Eins fáránlega og það hljómar má skjóta því hér inn að fylgismenn veiðileyfagjaldsins tala á sama tíma af miklum hátíðleik um mikilvægi þess að veita fyrirtækjum í öðrum greinum, s.s. fjármálafyrirtækjum og hátæknifyrirtækjum, sérstakar skattaívilnanir vegna sinnar starfsemi!
Þeim sem þannig tala er ekki umhugað um jafnræði. Þeir mæla fyrir mismunun.
Þó svo að eflaust muni, við meðferð veiðileyfagjaldsmálsins, koma fram kröfur um að veiðileyfagjaldið verði fellt úr gildi óttast ég mjög að á endanum verði menn að sætta sig við að niðurfellingin verði með þeim hætti sem kynnt hefur verið eða að ástandið haldist óbreytt. Og standi ég frammi fyrir þessum tveimur valkostum, þá vel ég frekar þann fyrri. En ég vona auðvitað að talsmenn auðlindaskatts verði fyrr en síðar tilbúnir til að leggja hugmyndafræðina sína til hliðar þegar þeir sjá hversu þung byrði þetta er í raun fyrir greinina.
Það hlýtur síðan að vera framtíðarbaráttumál okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir því að:
- Að afnema þessa sértæku og óréttlátu skattheimtu á sjávarútvegsfyrirtækin og hinar dreifðu byggðir.
- Að afnema línuívilnun.
- Og að afnema það fyrirkomulag úthlutunar byggðakvóta, sem gengur ekki út á neitt annað en að færa veiðiheimildir með stjórnvaldsaðgerðum frá vel reknum útgerðarfyrirtækjum, einkum á landsbyggðinni, til annarra sem standa höllum fæti.
Með öðrum orðum þurfum við að berjast fyrir því að tími hinna sértæku og íþyngjandi aðgerða gagnvart sjávarútveginum líði undir lok.
x x x
Í þriðja lagi vil ég nefna umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu sem reglulega skýtur upp kollinum. Af fréttaskeytum síðustu daga að dæma virðast áhugamenn um aðild aftur vera farnir að láta að sér kveða, eftir að hafa legið í leyni um nokkurt skeið.
Nú vill þetta ágæta fólk fara að láta kanna hvort EES-samningurinn brjóti í bága við stjórnarskránna og vill auk þess breyta stjórnarskránni til að greiða fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa Evrópusinnar að mínu mati talað af ákveðinni lítilsvirðingu um sjávarútveginn. Þeir hafa ítrekað sagt að þar sem vægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum skipti nú minna og minna máli sé það ekkert tiltökumál að íslensk útgerðarfyrirtæki að þurfa að lúta reglum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
Mér finnst miður að íslenskir stjórnmálamenn tali með þessum hætti um eina undirstöðuatvinnugrein landsins. Raunar ættu stjórnmálamenn ekki að tala með þessum hætti um neina atvinnugrein.
Í mínum huga kemur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki til greina. Í henni væri fólgin óþolandi óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar á Íslandi. Þeir sem fylgst hafa með þeim að undanförnu vita að drög að stjórnarskrá sambandsins, sem felld voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi og Frakklandi og hurfu í kjölfarið af yfirborði jarðar, hafa dúkkað upp á nýjan leik. Nú í formi fjölda samninga, sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins og verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. Í þessum samningum verður endanlega staðfest, að stjórn sjávarauðlinda verður á valdi Evrópusambandsins, en ekki aðildarríkja þess. Þetta er mikilvægt fyrir okkur að hafa á hreinu, því hér dettur engum manni í hug að framselja yfirráð yfir auðlindunum til Belgíu. Það fæli í sér tilræði við íslenskan sjávarútveg. Það vita allir sem hafa látið þessi mál sig varða, einnig þeir sem hlynntir eru aðild. En því miður virðast þeir enn vera reiðubúnir til að fórna hagsmunum heillar atvinnugreinar fyrir þetta áhugamál sitt.
Gegn öllum slíkum áformum þarf að berjast og í þeirri baráttu þurfa útvegsmenn að taka fullan þátt.
x x x
Góðir fundarmenn.
Oft hafa menn talað eins og kvótakerfið eigi sök á öllum vandamálum landsbyggðarinnar. Ég held að nær sanni sé að kerfið hafi komið í veg fyrir algjört hrun á landsbyggðinni. Vel rekin fyrirtæki sem skila hagnaði skapa vel launuð störf, sem fólk sækist eftir að starfa hjá. Enginn vill vinna í fyrirtæki sem á í basli, þegar nóg er að tækifærum annars staðar. Skynsamlegasta leiðin er sú að hætta að líta svo á að sjávarútvegur hafi sérstakt félagslegt hlutverk, umfram aðrar atvinnugreinar. Það hjálpar engum að sjávarútvegur á Íslandi sé rekin á félagslegum forsendum en ekki viðskiptalegum og lúti stöðugum fyrirmælum frá stjórnamálamönnum. Tímarnir hafa breyst og það þýðir ekkert fyrir okkur að lifa í fortíðinni. Fólk leitar sífellt nýrra tækifæra og það þýðir ekkert að reyna að vinna gegn því.
Umræða um þessa atvinnugrein þarf að vera uppbyggileg. Því miður hefur hún á köflum ekki verið það. Ómálefnaleg umræða hefur leitt af sér óskynsamlegar aðgerðir, sem hafa komið niður á fyrirtækjum í greininni. Þær hafa komið niður á eigendum þeirra, starfsfólkinu, þeim sem selja sjávarútvegsfyrirtækjum þjónustu sína, íbúum í sjávarbyggðum og landsmönnum öllum.
Það er kominn tími til ljúka þeirri varnarbaráttu sem sjávarútvegurinn hefur staðið í á síðustu árum og hefja nýja sókn.
Kærar þakkir."
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 24. október 2007
Á ferð í Kanada
Um helgina sótti ég fund þingmannanefndar um norðurskautsmál sem haldinn var í Ottawa í Kanada, en nefndin er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi og öðrum Norðurlöndum, Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada og Evrópusambandsins.
Ferðin gekk, svo ekki sé meira sagt, afar brösuglega þar sem tengiflugi mínu til og frá Kanada var aflýst. Því þurfti ég að eyða meiri tíma á flugvöllum og flugvallarhótelum en ég kæri mig um að rifja upp.
En þrátt fyrir miklar hremmingar á ferðalögum mínum um Norður-Ameríku tókst mér að mæta á fund nefndarinnar sem haldinn var í glæsilegu þinghúsi þeirra Kanadamanna. Þar gerði ég grein fyrir helstu sjónarmiðum sem fram komu á fundi Nato, sem haldinn var í Reykjavík dagana 5. til 9. október sl., sem hafa þýðingu fyrir aðildarlönd samstarfsins um norðurskautsmál.
Jafnframt geri ég grein fyrir merku framtaki Háskólans á Akureyri sem um þessar mundir er að þróa námsleið á sviði heimskautalögfræði þar sem áhersla er lögð á löggjöf sem varðar þennan hluta heimsins, einkum á sviði umhverfisréttar, haf- og sjóréttar, auðlindaréttar og fleiri réttarsviða. Í tengslum við þessa uppbyggingu Háskólans á Akureyri hyggst skólinn taka upp viðamikið samstarf við alþjóðlega háskóla á norðurslóðum. Óhætt er að segja að framtak Háskólans á Akureyri hafi vakið mikla athygli og góðar undirtektir þeirra þingmanna sem fundinn sóttu.
Frá því að ég kom aftur heim til Íslands hef ég verið að fara yfir þær umræður sem hafa átt sér stað um frumvarp mitt og 16 samþingmanna minna um að heimila sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum meðan ég var í Vesturheimi.
Ég fæ ekki betur séð en að sú umræða hafi verið býsna fyrirferðamikil og að þar hafi komið fram ýmsar fullyrðingar sem ástæða er til að gera athugasemdir við.
Það mun ég gera á þessum vettvangi þegar mér vinnst tími til.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 16. október 2007
Hvað fær Alfreð?
Í dag tekur nýr meirihluti við stjórnartaumunum í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir að Björn Ingi Hrafnsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í borgarstjórn, ákvað að sprengja meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í loft upp og ganga þess í stað til liðs við andstæðinga sína í minnihlutanum.
Eins og fram hefur komið lék Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi flokksins og fyrrum stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, lykilhlutverk í því að gera Birni Inga kleift að fara á bak við samstarfsmenn sína í meirihlutanum, með því að bera skilaboð til Dags B. Eggertssonar og annarra borgarfulltrúa minnihlutans um að Björn Ingi væri fús til samstarfs með þeim. Það væri barnaskapur að halda því fram að það hefði hann ekki gert með vitund og vilja Björns Inga meðan hann var ennþá í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi hefur Alfreð Þorsteinsson nú gengið í endurnýjun lífdaga og komið inn í íslensk stjórnmál á nýjan leik eins og ferskur andblær. Í ljósi þeirra atburða sem borgarbúar hafa orðið vitni að á síðustu dögum er óhætt að segja að Alfreð Þorsteinsson sé sannkallaður guðfaðir nýja REI-listans og í raun andlit nýja meirihlutans.
Síðustu daga hefur hinn nýji meirihluti verið að skipta með sér verkum og útdeila verkefnum til flokksmanna í þeim fjórum stjórnmálaflokkum sem að honum standa.
Bleik er illa brugðið ef Alfreð Þorsteinssyni verður ekki tryggður einhver feitur biti af þeirri köku sem nú er verið að skipta.
Sigurður Kári.
Sunnudagur, 14. október 2007
Þjónustusamningur, klókindi Björns Inga og hagsmunir framsóknarmanna.
Það er óhætt að segja að Orkuveitumálið verði vafasamara og vafasamara með hverjum deginum sem líður.
x x x x x
Í gær var til dæmis greint frá innihaldi svokallaðs þjónustusamnings sem gerður var milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest. Samningurinn var gerður þann 3. október, tveimur dögum áður en samruni Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy var tilkynntur.
Eins og fram hefur komið er samningurinn til 20 ára og óuppsegjanlegur. Slík samningsákvæði eru útaf fyrir sig fáheyrð. Önnur ákvæði samningsins eru það ekki síður, svo ekki sé meira sagt.
Í samningnum kemur meðal annars fram:
- Að Reykjavik Energy Invest fái forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum Orkuveitu Reykjavíkur á samningstímanum, þ.e. næstu 20 árum.
- Að Orkuveita Reykjavíkur skuldbindi sig til þess að upplýsa Reykjavik Energy Invest og vísa þangað öllum ábendingum og fyrirspyrnum um að hagnýta jarðhita, hvar sem er í heiminum, nema hér á landi.
- Að Reykjavik Energy Invest megi nota vörumerki Orkuveitu Reykjavíkur í starfi sínu auk nafnanna Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavik Energy, sem mun vera það heiti sem Orkuveitan hefur sjálf notað erlendis.
- Að sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur skuli vera tiltækir fyrir Reykjavik Energy Invest.
- Að þjónustusamningurinn milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest gildi næstu 20 árin, eins og áður segir, óháð því hver eigi félagið, opinberir-, einka- eða erlendir aðilar.
Þessi samningsákvæði eru auðvitað með fullkomnum ólíkindum og það er nauðsynlegt að fá það fram hverjir stóðu að þessari samningsgerð.!
Er nema furða að menn klóri sér í hausnum og velti því fyrir sér á hvers konar ferðalagi þeir menn sem að þessum samningi stóðu voru? Og hvernig datt þeim til hugar að halda efnisatriðum hans leyndum frá kjörnum fulltrúum borgarbúa?
Það verður ekki annað séð en að með þessum samningi hafi þeir sem að honum stóðu verið að hirða flest það bitastæðasta í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar út úr fyrirtækinu og afhenda það öðru fyrirtæki næstu 20 árin! Verkefni á erlendri grundu, starfsfólkið og nafnið!
Fyrir þetta ,,lítilræði" mun Orkuveitan hafa fengið greidda 10 milljarða króna.
Í þessu sambandi vakna síðan auðvitað spurningar um það hvert framlag Geysis Green Energy til þessa samruna var. Það framlag hlýtur að hafa verið býsna drjúgt, a.m.k. ef tekið er mið af framlagi Orkuveitunnar.
Það hefur hins vegar, eftir því sem ég best veit, aldrei verið upplýst, ekki frekar en með hvaða hætti þessir 10 milljarðar verða greiddir. Það skiptir máli að það liggi fyrir.
x x x x x
Tengt þessu eru ágætar hugleiðingar Eyþórs Arnalds á bloggsíðu hans frá því í gær, en þar segir:
,,Hvers virði er 20 ára einkaréttur á útrás OR?
Það er fyrst núna að heildarmyndin er aðeins að skýrast í REI-málinu. Samingur OR og REI sem undirritaður var 3. október er óuppsegjanlegur og til 20 ára var fyrst dreginn fram í dagsljósið í gær. Þessi samningur veitir REI forgang á öll erlend verkefni sem kunna að koma á borð OR næstu 20 ár. Ennfremur hefur REI fullan aðgang að öllum gögnum og sérfræðingum OR.
Hvers virði er svona samningur?
Stjórnarformaður OR kastaði fram 300 milljarða verðmiða á OR nýverið.
Hvers virði er útrás OR næstu 20 árin?
10 milljarðar eru 3% af 300 milljörðum.
Er útrásin svona lítill hluti af framtíðarvirði OR?
Eða hvað?
Nú er að sjá hvernig Svandís Svavarsdóttir og félagar taka á þessu máli."
x x x x x
Furðulegt var að horfa á Björn Inga Hrafnsson segja glottandi á hjartnæmum fundi framsóknarmanna í Reykjavík að hann hefði gert samning sem honum væri hrósað fyrir í atvinnulífinu, en vegna þess að hann starfaði í stjórnmálum væri hann skammaður.
Sagði Björn Ingi hróðugur að hefði óháður matsmaður verið fenginn til þess að leggja mat á verðmæti þeirra verðmæta sem Orkuveita Reykjavíkur lagði til Reykjavik Energy Invest, væri ljóst að sá matsmaður hefði metið verðmætin á 2 til 3 milljarða, en ekki 10 eins og gert hefði verið, enda hefði Orkuveitan lagt fram óáþreifanlegar eignir, án þess að á þjónustusamninginn væri minnst.
Bíðum nú aðeins við. Var Björn Ingi Hrafnsson að halda því fram að vegna kænsku sinnar við samningaborðið væru borgarbúar nú 8 milljörðum ríkari en þeir væru ef fagmenn hefðu verið fengnir til þess að semja fyrir hönd borgarbúa í málinu?
Var Björn Ingi, með öðrum orðum, að halda því fram að hann hefði tekið 8 milljarða snúning á forsvarsmönnum FL Group, Atorku og Glitnis?
Ég á erfitt með að trúa því, en það er ekki hægt að skilja Björn Inga öðruvísi.
x x x x x
Þá var á það bent í fréttum Sjónvarpsins í gær að menn úr innsta kjarna Framsóknarflokksins höfðu verulega hagsmuni af því að samruni Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy næði fram að ganga á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur.
Voru þar m.a. nefndir til sögunnar Finnur Ingólfsson, fyrrum varaformaður Framsóknarflokksins og ráðherra og þingmaður flokksins til margra ára, Helgi S. Guðmundsson, fyrrverandi formaður fjármálaráðs Framsóknarflokksins, sem einnig hefur átt sæti í bankaráði Seðlabankans og Landsbankans fyrir hönd Framsóknarflokksins, og Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður, sem um margra ára skeið hefur gætt hagsmuna framsóknarmanna í atvinnulífinu.
Það verður að teljast í hæsta máta afar óeðlilegt að ekki hafi verið getið um tengsl lykilmanna úr Framsóknarflokknum við Geysir Green Energy áður en ákvörðun um samruna félagsins við Reykjavik Energy Invest og þá hagsmuni sem þeir höfðu af því að samruninn myndi ná fram að ganga. Og af hverju í ósköpunum var það ekki gert?
Þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort framganga Björns Inga Hrafnssonar við samruna fyrirtækjanna tveggja og sá þungi sem hann lagði á að samruninn gengi eftir tengdist hagsmunum þessara valinkunnu framsóknarmanna sem hér hafa verið nefndir.
Það skyldi þó ekki vera að þeir sjái sóknarfæri fyrir sig í þeirri stöðu sem nú er uppi?
x x x x x
Það verður fróðlegt að sjá hvort Svandís Svavarsdóttir, sem hefur verið í heilagri krossferð gegn áformum og gerðum Björns Inga Hrafnssonar, mun standa í lappirnar gagnvart áformum hans í máli þessu eða kokgleypa öll stóru orðin sem hún hefur haft uppi vegna þess.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 13. október 2007
Grátur og gnístran tanna
Hún var hjartnæm stundin sem Björn Ingi Hrafnsson átti með flokksbræðrum sínum og -systrum í félagsheimili Framsóknarflokksins við Hverfisgötuna í Reykjavík í dag.
Þar lýsti Björn Ingi því yfir að hann hefði ekki átt annarra kosta völ en að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Sú ástæða sem hann færði fyrir þeirri niðurstöðu sinni var sú að óeiningin og þær innbyrðis deilur sem átt hefðu sér stað innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins hefðu verið slíkar að hann hefði séð sig tilneyddan til þess að skipta um lið og ganga til liðs við andstæðinga sína í stjórnarandstöðunni. "Það var ekkert annað í stöðunni."
Þá virðist sem Birni Inga hafi þótt full ástæða til þess að slíta meirihlutasamstarfinu vegna þess að sjálfstæðismenn vildu selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest heldur fyrr en hann sjálfur hefði kosið. Að öðru leyti verður ekki séð að Björn Ingi hafi átt í nokkrum einustu útistöðum við samstarfsmenn sína í borgarstjórn.
Enda tók Björn Ingi það sérstaklega fram á fundinum að samstarf sitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson hefði verið með eindæmum gott og að milli þeirra hefði ríkt góður trúnaður!
Birni Inga og öðrum Framsóknarmönnum hefur á síðasta sólarhring verið tíðrætt um hversu mjög þeim hefði mislíkað sú meðferð sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði þurft að þola af hálfu samflokksmanna sinna, en orðrétt sagði Björn Ingi:
,,Og ég hef fundið til með vini mínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, síðustu daga. Mér hefur ekki fundist hann eiga skilið þá meðferð sem hann hefur fengið."
Að lokinni ræðu sinni grét Björn Ingi.
Hann þurfti hins vegar ekki að gráta lengi því í táraflóðinu mætti hann opnum og dúnmjúkum faðmi Alfreðs Þorsteinssonar, sem hefur á síðustu dögum gengið í endurnýjun lífdaga og komið inn í íslensk stjórnmál eins og ferskur andblær, Birni Inga, nýjum samstarfsmönnum hans og borgarbúum öllum til mikillar gleði, enda hlýtur að það að teljast mikill búhnykkur fyrir nýjan meirihluta að eiga slíkan mann að á raunastundu!
Af fréttum og ummælum valinkunnra framsóknarmanna, eins og Óskars Bergssonar, verður ekki annað séð en að Alfreð Þorsteinsson hafi leikið lykilhlutverk í því að sprengja sitjandi meirihluta (sem er útaf fyrir sig nokkuð sérstakt þar sem Framsóknarflokkurinn átti aðild að þeim meirihluta) og að mynda þann nýja. Það er því ekki ofsögum sagt að Alfreð Þorsteinsson megi kalla með rentu guðföður REI-listans og eiginlega andlit hins nýja meirihluta.
x x x x x
Maður hlýtur auðvitað, í ljósi atburða síðustu daga, að velta því fyrir sér hvort einhver trúir orði af því sem Björn Ingi Hrafnsson hefur sagt um endalok samstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og um ástæður endalokanna.
Ég er til dæmis ekki viss um að væntumþykja, trúnaður og vinátta hafi verið Birni Inga ofarlega í huga þegar hann ákvað að mæta ekki til fundar við Vilhjálm og sjálfstæðismenn og samdi þess í stað á sama tíma um nýjan meirihluta við fulltrúa minnihlutans. Vera má að Björn Ingi hafi fundið til með vini sínum Vilhjálmi meðan á þeim samningum stóð, en sú illa meðferð sem Björn Ingi talar um var meðferð hans sjálfs á Vilhjálmi og fyrrum samstarfsmönnum sínum í borgarstjórn. Sú meðferð á hins vegar ekkert skilið við vinskap.
Gráturinn í félagsheimil Framsóknarflokksins (sem minnir óneitanlega um margt á sögufrægt atriði í stórgóðri kvikmynd, Broadcast News, fyrir þá sem hana þekkja) breytir engu þar um.
Það verður auk þess ekki séð að staðhæfingar Björns Inga um óeiningu og illvígar deilur innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins eigi við rök að styðjast.
Þvert á móti hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins oft og ítrekað lýst því yfir að þeir beri fullt traust til Vilhjálms borgarstjóra. Þar við bætist að borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margoft lýst því yfir að þeir séu sammála um þá stefnumörkun sem þeir hafa tekið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og þá grundvallarskoðun sína að það sé í andstöðu við þá hugmyndafræði sem þeir og við sjálstæðismenn aðhyllumst að það sé ekki og eigi ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að stunda hlutabréfabrask, spákaupmennsku og áhættufjárfestingar á kostnað skattgreiðenda.
Og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins njóta virðingar fyrir að hafa ekki selt þessar hugsjónir sínar fyrir völd í Reykjavíkurborg.
x x x x x
Það dylst auðvitað engum sem á þessa atburðarás hefur horft að það er, svo ekki sé meira sagt, ótrúverðugt af Birni Inga að lýsa því yfir hann líti á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem vin sinn, og jafnframt að honum hafi ofboðið sú meðferð sem Vilhjálmur þurfti að þola í tengslum við þetta má.
Þetta sjá allir.
Björn Ingi Hrafnsson var í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Honum skolaði á land borgarstjórnar Reykjavíkur við síðustu kosningar með lágmarksfylgi á bak við sig. Þrátt fyrir það létu Vilhjálmur og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hann ekki líða fyrir þann litla stuðning sem að baki honum var, heldur þvert á móti, tryggðu þau honum miklu meiri völd en fylgi kjósenda hans gaf tilefni til.
Þetta traust sem sjálfstæðismenn í borgarstjórn sýndu Birni Inga Hrafnssyni endurgalt hann þeim með því að hlaupast undan merkjum og mynda samstarf með andstæðingum meirihlutans í borgarstjórn.
Hann þakkaði traustið með því að stinga samstarfsfélaga sína í bakið, um hábjartan dag, og hafði ekki einu sinni fyrir því að segja þeim það augliti til auglitis á þeim fundum sem hann hafði verið boðaður á.
Allar lýsingar Björns Inga á vinskap þeirra Vilhjálms Þ. og þeirri meðferð sem hann telur að Vilhjálmur hafi þurft að sæta er því fullkominn fyrirsláttur. Það er ekki stórmannlegt að reyna að koma sökinni yfir á aðra.
Ólíklegt er að í nútímastjórnmálum hafi nokkur stjórnmálamaður sýnt jafn mikil óheilindi í garð samstarfsmanna sinn og Björn Ingi gerði gagnvart samstarfsmönnum sínum í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur.
Grátur og faðmlög við Alfreð Þorsteinsson geta engu um það breytt.
x x x x x
Ég spái því að það muni reynast Degi B. Eggertssyni erfitt að mynda starfhæfa stjórn í Reykjajvíkurborg við þær aðstæður sem nú eru uppi. Samstarfsstjórn fjögurra ólíkra flokka og stjórnmálamanna sem átt hafa í hatrömum deilum sín á milli er ekki líkleg til mikilla afreka.
Nú berast reyndar fréttir af því að nýr meirihluti í borgarstjórn hafi yfirhöfuð ekki gert það upp við sig hvort hann muni gera með sér neinn málefnasamning, sem er auðvitað sérsakt í ljósi fyrri yfirlýsinga og vanþóknunar Dags B. Eggertssonar af því að þannig sé staðið að málum.
Innan þeirra stjórnar mun Svandís Svavarsdóttir eiga erfiðast uppdráttar. Svandís hefur allt frá því að meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gengið hart fram gegn Birni Inga Hrafnssyni og meðal annars sakað hann um grófa spilliingu.
Eins og rakið er í leiðara Morgunblaðsins í dag sagði Svandís þetta þann 5. október sl. um Björn Inga:
,,Þessir menn haga sér með opinbert fyrirtæki og opinbert fé eins og þeir séu með sjoppu, sem þeiri eigi sjálfir á sinni kennitölu."
Svandís sagði einnig:
,, ... það er greinilegt að fólki er algjörlega misboðið. Maður finnur svo sterkt fyrir því, að þessi gjörningur sem þarna fer fram er táknrænn fyrir svo margt. Hann er táknrænn fyrir spillingu í stjórnmálum og menn sem fara með völd almennings sem sín eigin."
Sjálfur hafði ég bundið nokkrar vonir við að Svandís væri stjórnmálamaður þeirrar gerðar að hún stæði fast á sínum grundvallarsjónarmiðum og gæfi ekki á þeim afslátt. En þrátt fyrir öll stóru orðin sem hún hefur látið falla um Björn Inga Hrafnsson þurfti hann ekki svo mikið meira en að veifa henni að hún var kominn upp í með framsóknarmanninum.
Þar fyrir utan verður auðvitað athyglisvert að fylgjast með framgöngu Svandísar Svavarsdóttur sem hafði sig svo mjög í frammi gegn sameiningu útrásarfyrirtækjanna tveggja, Reykjavik Energi Invest og Geysir Green Energy, og gegn þeim kaupréttarsamningum sem ætlunin var að gera við útvalda einstaklinga.
Nú hefur hins vegar verið myndaður nýr vinstri meirihluti í Reykjavík. Ekki verður betur séð en að sá meirihluti sé myndaður um að Orkuveita Reykjavíkur skuli áfram fá að taka þátt í spákaupmennsku og áhættusömum hlutabréfaviðskiptum, á kostnað almennings í Reykjavík. Hann er virðist byggja á því sjónarmiði að eðlilegt sé að blanda saman opinberum rekstri og einkarekstri í útrásarverkaefnum í fjarlægum löndum. Hann er myndaður á grundvelli þeirrar spár að verðmæti REI muni margfaldast í nánustu framtíð, án þess að þeirri staðhæfingu sé hægt að finna nokkurn stað.Það kemur auðvitað mjög á óvart að Svandís Svavarsdóttir og Vinstrihreyfingin grænt framboð skuli snúa blaðinu gersamlega við og séu nú reiðubúin til þess að kyngja öllum þeim stóru orðum sem þau hafa látið falla um þetta mál.
x x x x x
Einkennilegust í öllu þessu púsluspili er auðvitað staða Margrétar Sverrisdóttur. Margrét verður seint sökuð um að hafa ekki reynt fyrir sér á vettvangi stjórnmálanna. Hún hefur margoft verið í framboði til Alþingis og borgarstjórnar Reykjavíkur, fyrst fyrir Frjálslynda flokkinn en nú síðast fyrir Íslandshreyfinguna, þar sem hún gegnir nú varaformennsku. Það sem hins vegar gerir stóðu hennar einkennilega er sú staðreynd að nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur gefið til kynna að Margrét verði forseti borgarstjórnar, án þess að Margrét hafi nokkurn tíma hlotið kosningu í þau embætti sem hún hefur boðið sig fram í.
x x x x x
Það verður ekki annað sagt en að atburðir síðustu daga veki upp spurningar um hvort breyting sé að verða á þeim vinnubrögðum sem fram til þessa hafa verið viðhöfð í íslenskum stjórnmálum.
Ég spái því að ýmislegt eigi eftir að koma fram í dagsljósið varðandi málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest og ég er ekki viss um að það allt muni þar þola dagsins ljós.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 10. október 2007
Dagur B. Eggertsson á hálum ís

Samkvæmur þeirri skoðun sinni lýsti Dagur því yfir í gær að hann teldi þá ákvörðun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest ,,fráleita". Rökin sem Dagur færði fyrir þessari skoðun sinni voru þau að með sala OR á hlut sínum í REI feli ,,í sér að borgarbúar og eigendur Orkuveitunnar verði af þeirri margföldun í verðgildi fyrirtækisins sem spáð hefur verið á næstu árum." Er í Morgunblaðinu haft eftir Degi að upphæðin sem borgarbúar verði af geti numið allt að 50 milljörðum króna.
Það er nefnilega það! Er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins virkilega að hafa 50 milljarða af borgarbúum? Eða er Dagur B. Eggertsson kominn svolítið fram úr sjálfum sér í viðleitni sinni til þess að afla sjálfum sér og flokki sínum vinsælda?
Yfirlýsing Dags B. Eggertssonar hlýtur að gefa tilefni til þess að til hans sé varpað fram nokkrum spurningum, sem vonandi fást einhver svör við í komandi framtíð.
Ég leyfi mér til dæmis að spyrja hvaðan sú tala sem Dagur nefnir, 50 milljarðar, er komin? Með hvaða rökum getur Dagur B. Eggertsson stutt þá fullyrðingu sína að hugsanlega verði borgarbúar af 50 milljarða króna hagnaði með sölu hlutabréfa OR í REI eða er hér einungis um spádóm hans sjálfs að ræða?
Ef eitthvað mark er takandi á þessari yfirlýsingu Dags B. Eggertssonar er spurning hvort hann lumi ekki á fleiri fjárfestingarhugmyndum fyrir Reykjavíkurborg fyrst hann er svona naskur við verðmat á Reykjavik Energy Invest. Það væri auðvitað synd ef borgarbúar myndu verða af enn fleiri tugum milljarða af því að borgarfulltrúum Reykjavíkur skorti framsýni Dags til þess að fara út á markaðinn og fjárfesta í samræmi við ráðleggingar hans!
Þeir eru ekki á hverju strái fjárfestingarráðgjafarnir sem sjá fyrir um 300% verðhækkun á hlutabréfum einstakra fyrirtækja. En Dagur er auðvitað einstakur og sér slíkar hækkanir fyrir.
Maður skyldi ætla að bankarnir myndu slást um menn sem sjá slíka þróun fyrir, enda sitja þeir venjulega um slíka menn, enda eru þeir afar verðmætir.
Hins vegar er ólíklegt að Dagur B. Eggertsson verði tekinn trúanlegur á þessum vettvangi. Á vefsvæði Morgunblaðsins er haft eftir Degi að þjóðin ,,hafi horf upp á bankana, sem seldir voru á 12 milljarða, 50-100 faldast í verði fyrir augunum á sér."
Miðað við það sem Dagur B. Eggertsson hefur áður sagt er ekki hægt að draga aðra ályktun en að hann telji að býða hefði átt með sölu bankana til þess að hagnaðurinn yrði meiri.
En vegna þessarar yfirlýsingar Dags er rétt að taka fram þá staðreynd að þegar Landsbankinn var seldur, þá fóru þau viðskipti fram á genginu 3,91. Í dag er gengi Landsbankans ekki á bilinu 200 til 400, eins og Dagur virðist halda, heldur í kringum 43.
Það er ríflega tíföldun á gengi bankans, sem er í sjálfu sér góð ávöxtun. En verðum við ekki að gefa nýjum eigendum bankans, stjórnendum og starfsfólki einhvern heiður af því hversu vel hefur gengið við að styrkja og efla fyrirtækið og auka verðmæti þess?
Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að stjórnmálamönnum í andstöðu hlaupi kapp í kinn þegar þeir telja að andstæðingar sínir hafi gefið á sér höggstað. Hitt er annað mál að stjórnmálamenn geta ekki ætlast til þess að þeir komist upp með að geta sagt hvað sem er án þess að fullyrðingar þeirra standist skoðun. Hvað þá ætlast til þess að þeir sem á þá hlusta trúi öllu sem þeir segja eins og nýju neti.
Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, og þar er Dagur B. Eggertsson ekki undanskilinn, að þeir vandi málflutning sinn og haldi ekki fram einhverjum staðlausum stöfum sem ekki eru í nokkru samræmi við raunveruleikann í von um stundarvinsældir. Slíkar yfirlýsingar eru ósanngjarnar gagnvart almenningi.
Því miður hefur Dagur gerst sekur um slíkan málflutning að þessu sinni og verður ekki annað sagt en að hann sé á hálum ís.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 9. október 2007
Skynsamleg ákvörðun
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins ákvað í dag að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest yrði seldur.
Sú ákvörðun er skynsamleg. Hún er líka í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Það er ekki hlutverk hins opinbera, og skiptir þar engu hvort um er að ræða ríki eða sveitarfélög eða fyrirtæki í þeirra eigu, að stunda áhættufjárfestingar eða samkeppnisrekstur. Um þetta sjónarmið hefur veri ð sátt innan Sjálfstæðisflokksins sem kristallaðist í andstöðu borgarfulltrúa flokksins á síðustu kjörtímabilum gegn áformum Alfreðs Þorsteinssonar og vinstrimeirihlutans í borgarstjórn á vettvangi risarækjueldis og gagnaflutninga.
Áhættufjárfestingar og samkeppnisrekstur er á verksviði einkaaðila. Hið opinbera á einungis að einbeita sér að því að sinna þeirri almannaþjónustu sem þeim er falið að sinna og láta þar við sitja. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að spila með peninga og eigur umbjóðenda sinna, jafnvel þó gróðavon sé talin mikil. Við slíkar aðstæður verða stjórnmálamenn að standast freistingarnar, enda getur brugðið til beggja vona þegar ráðist er í slíkar fjárfestingar. Þegar fjárfestingarævintýri stjórnmálamanna fara í vaskinn þá tapa þeir fjármunum annarra. Einkaaðilar tapa sínum eigin. Á þessu tvennu er reginmunur.
Ég tók eftir því að ekki eru stjórnmálamenn allra flokka í borgarstjórn sammála þessum sjónarmiðum. Einn þeirra er Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, sem telur raunar ákvörðun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins ,,fráleita". Í frétt á vef Morgunblaðsins í dag er haft eftir Degi að sala Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í REI feli ,,í sér að borgarbúar og eigendur Orkuveitunnar verði af þeirri margföldun í verðgildi fyrirtækisins sem spáð hefur verið á næstu árum."
Það er erfitt að skilja ummæli Dags B. Eggertssonar örðuvísi en svo að hann telji eðlilegt að hann og aðrir kjörnir fulltrúar hafi með höndum það hlutverk að stunda spákaupmennsku og áhættufjárfestingar á hlutabréfamarkaði fyrir hönd borgarbúa, a.m.k. ef gróðavon er mikil.
Það er ekki hægt að túlka orð Dags á annan veg en þann að hann líti svo á að eðlilegt sé að hið opinbera hasli sér frekar völl á hlutabréfamarkaði og fjárfesti á öllum þeim sviðum þar sem gróðavon finnst, hugsanlega í fjármálafyrirtækjum, í sjávarútvegi, í hátækniiðnaði eða á hvaða sviði sem er.
Í ljósi yfirlýsingar Dags B. Eggertssonar mega borgarbúar þakka fyrir að hann hafi ekki haldið um tékkhefti Reykjavíkurborgar þegar gengi hlutabréfa í ýmsum framsæknum netfyrirtækjum var sem hæst fyrir nokkrum misserum síðan. Ef svo hefði verið eru líkur á því að Dagur og félagar hefðu skilið við borgarsjóð enn skuldugri en þeir gerðu. Og finnst mörgum nóg um samt.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 203815
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh