Fyrstu verkin á þessu þingi

Á fyrsta starfsdegi Alþingis lagði ég fram tvö lagafrumvörp.  Til viðbótar er ég meðflutningsmaður að tveimur öðrum lagafrumvörpum.  Þessi frumvörp eru eftirfarandi:

I.  Frumvarp sem heimilar sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum

Í fyrsta lagi er ég nú fyrsti flutningsmaður frumvarps þar sem lagt er til að einkasala ríkisins á sölu á léttvínum og bjór verði afnumin og hún heimiluð í matvöruverslunum.  Síðustu fjögur árin hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, verið fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en nú hef ég tekið við keflinu af honum.

Meðflutningsmenn mínir að frumvarpinu eru þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Þetta er í fimmta skipti sem frumvarp þetta er lagt fram í þessari mynd.  Frá því að það var síðast lagt fram hafa farið fram kosningar til Alþingis og breytingar hafa orðið á ríkisstjórninni.  Að sjálfsögðu bindum við sem að málinu stöndum vonir við að viðhorfsbreyting hafi orðið til þessa máls og að það verði loksins samþykkt sem lög frá Alþingi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á undanförnum árum og áratugum hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti staðið að viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta jafn vel og hið opinbera.  Nú er svo komið að að til algerra undantekninga heyrir að ríki og sveitarfélög standi í verzlunarrekstri.  Ein þeirra undantekninga er sú þjónusta sem Á.T.V.R. veitir.

Við teljum tíma til kominn að á því verði breyting.

II.  Frumvarp um afnám framlagningar á álagningar- og skattskrám

Í öðru lagi hef ég lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt, en frumvarpið hefur það að markmiði að afnema þá skyldu sem hvílir samkvæmt lögunum á skattstjórum þessa lands að leggja fram álagningar- og skattskrár þar sem fram koma upplýsingar um tekjur einstaklinga.

Eins og ég hef margoft haldið fram, bæði í umræðum og á Alþingi, þá tel ég að núgildandi fyrirkomulag brjóti gegn grundvallarréttindum einstaklinga til friðhelgi einkalífs, en á öðrum stöðum í löggjöfinni hefur verið viðurkennt að fjárhagslegar upplýsingar einstaklinga teljist til slíkra upplýsinga sem ástæða sé til að farið sé leynt með.

Meðflutningsmenn að þessu frumvarpi eru þingmennirnir Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller, Kristján Þór Júlíusson, Jón Magnússon, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

III.  Frumvarp um afnám iðnaðarmálagjalds

Í þriðja lagi er ég meðflutningmaður að frumvarpi um brottfall laga um iðnaðarmálagjald, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal.

Tilgangur frumvarpsins er sá að fella niður lagaskyldu iðnfyrirtækja til að greiða iðnaðarmálagjald til Samtaka iðnaðarins.  Iðnaðarmálagjaldið er innheimt af skattyfirvöldum með öllum þeim úrræðum sem þau hafa og er í reynd ígildi félagsgjalds til samtakanna, burtséð frá því hvort viðkomandi greiðendur vilji tilheyra samtökunum eða ekki.

IV.  Frumvarp um afnám búnaðarmálagjalds

Í fjórða og síðasta lagi er ég síðan, ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur, meðflutningsmaður að frumvarpi um brottlaga um búnaðarmálagjald, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal.

Tilgangur frumvarpsins er sá að fella niður skyldu bænda til að greiða búnaðargjald, sem er annars vegar félagsgjald til lögbundinna stéttarfélaga bænda, Bændasamtaka Íslands, ýmissa búnaðarsambanda og búgreinasambanda og hins vegar iðgjald til sérstaks tryggingasjóðs, Bjargráðasjóðs.

Eins og kunnugt er hefur afkoma bænda því miður ekki verið góð undanfarna áratugi og færa má rök fyrir því að bændur hefðu flestir hverjir getað ráðstafað þessum fjármunum sjálfir eftir sínum eigin þörfum.  Þetta búnaðargjald, sem við viljum afnema, nemur 1,2% af heildartekjum bús óháð afkomu.  Það getur því verið miklu hærra hlutfall af tekjum hvers einstaks bónda og mjög erfitt tekjulágum bændum.  Með samþykkt frumvarpsins myndi hins vegar ekkert koma í veg fyrir að bændum væri heimilt að greiða félaggjald til þeirra stéttarfélaga sem þeir sjálfir kysu að vera félagar í eða greiða iðgjald til Bjargráðasjóð, kærðu þeir sig um.

V.  Önnur frumvörp væntanleg

Fyrir utan þau frumvörp sem ég hef hér gert grein fyrir mun ég að líkindum leggja fram fleiri frumvörp sem varða munu kosningalöggjöfina, löggjöf um áfengisauglýsingar, sem flestir telja að sé fyrir löngu gengin sér til húðar, ærumeiðingarlöggjöfina og fleira. 

Sigurður Kári.


Það eru engar töggur í stjórnarandstöðunni

myndAlþingi Íslendinga hefur verið sett.  Setning Alþingis var að þessu sinni með nokkuð óvenjulegu sniði, því í fyrsta skipti var flutt tónlist við setninguna þegar þingmenn gengu í húsið.  Að mínu mati setti þessi tónlistarflutningur hátíðlegan blæ á setningarathöfnina.

Að venju flutti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp og forseti Alþingsins, Sturla Böðvarsson, kynnti nýjungar sem hann hyggst beita sér fyrir á starfsháttum þingsins.

Í gærkvöldi flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, stefnuræðu sína og að henni lokinni fóru fram umræður um hana.

Af ræðum gærkvöldsins að dæma kemur stjórnarandstaðan ekki beinskeitt  til þessa þings, enda var gagnrýni hennar á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar máttlítil.  Auðvitað áttu einstakir ræðumenn stjórnarandstöðuflokkanna sína spretti, eins og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, en einkum þegar þeir sögðu brandara og slógu á létta strengi.  Efnislega voru ræður þeirra máttlausar.  Það duldist engum þeim sem á horfði.

Vandi stjórnarandstöðunnar er sá að það eru engar töggur í henni og hana skortir allan trúverðugleika.  Þá er stjórnarandstaðan ósamstíga og sundruð og mun eiga í miklum erfiðleikum með að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut.  Vissulega hefur stjórnarandstaðan minni þingstyrk nú en oft áður.  En smæð hennar segir ekki alla söguna.  Allir sem til þekkja vita að það andar ísköldu milli framsóknarmanna og vinstri grænna.  Það er auðvitað misskilningur að halda að forysta framsóknarflokksins, með Guðna Ágústsson, formann, og Valgerði Sverrisdóttur, varaformann, sé búin að gleyma, hvað þá fyrirgefa, forystumönnum vinstri grænna það einelti sem þeir hafa lagt Framsóknarflokkinn í á síðustu árum.

Þuríður Backmann, þingmaður vinstri grænna, viðurkenndi í viðtali við Morgunblaðið í gær að samstarf stjórnarandstöðuflokkanna væri "óskrifað blað".  Það er ekki gæfuleg yfirlýsing í upphafi þings.

Í mínum huga er ljóst að stjórnarandstaða með þessa tvo flokka sem burðarása er ekki líkleg til mikilla afreka.

Sigurður Kári.


Tvítyngd stjórnsýsla?

647-220Á laugardag birtist grein í Morgunblaðinu eftir Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, þar sem hann lagði til að hugað yrði að tvítyngdri stjórnsýslu, enskri og íslenskri, hér á landi.  Í greininni segir m.a.:

,,Við ættum einnig að huga að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri, sem myndi gera Ísland að enn álitlegri kosti fyrir erlenda fjárfesta og auðvelda samskipti.  Það segir sig sjálft að tryggja þarf hagstætt skattaumhverfi og áreiðanlegri fjarskipti við umheiminn með nýjum sæstreng."

Ritstjóri vefritsins Eyjunnar, Pétur Gunnarsson, óskaði eftir viðbrögðum mínum við skrifum varaformanns Samfylkingarinnar og spurði hvort ég væri sammála Ágústi Ólafi um það hvort huga ætti að tvítyngdri stjórnsýslu, enskri og íslenskri, hér á landi.

Spurningunni svaraði ég með eftirfarandi hætti:

“Nei, ég er ekki sammála varaformanni Samfylkingarinnar um huga ætti að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri, hér á landi? Satt best að segja að mér finnst hugmyndin frekar einkennileg og átta mig ekki alveg á því á hvaða ferðalagi varaformaðurinn er í þessu máli.

Þó svo að menn kunni að vera hlynntir því að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu þá mega þeir hinir sömu ekki gleyma því að við erum ennþá Íslendingar og íslenska er okkar tungumál og tengist menningu okkar og sögu órjúfanlegum böndum. Íslenska stjórnkerfið, stjórnsýslan og lögin eru hluti af þessari menningu. Ég held að með því að enskuvæða stjórnsýsluna værum við að stíga stórt skref í átt frá okkar menningararfleifð, skref aftur á bak.

Í þessu sambandi hlýtur maður að velta því fyrir sér hversu langt menn vilja ganga í að enskuvæða stofnanir samfélagsins. Er til að mynda einhver munur á tvítyngdri stjórnsýslu og tvítyngdum dómstólum? Bæði stjórnsýslan og dómstólar starfa samkvæmt lögum, fjalla um hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja og vilji menn stíga það skref sem Ágúst Ólafur vill stíga varðandi stjórnsýsluna eru þá dómstólarnir ekki næstir? Það hlýtur að vera. Lagasafn Íslands hlyti einnig að verða gefið út á ensku svo útlendingar gætu kynnt sér þær réttarreglur sem hér gilda og svo framvegis. Mér segir svo hugur að eitthvað myndi svona ævintýri kosta skattgreiðendur.

Hugmyndir eins og þessar eru mér því ekki að skapi. Þar fyrir utan sé ég ekki hvert vandamálið er. Starfsfólk stjórnsýslunnar er almennt vel menntað og getur auðveldlega greitt úr málum fyrirtækja hvort sem þau eru innlend eða erlend. Þar fyrir utan er það svo í raunveruleikanum að það eru ekki fyrirtækin sjálf sem annast hagsmunagæslu sína gagnvart stjórnvöldum. Það gera íslenskir lögmenn sem starfa fyrir þessi fyrirtæki og eftir því sem ég veit best þá eru þeir fullfærir um að gera það í því stjórnsýsluumhverfi sem við búum við í dag.

Ég get hins vegar heils hugar tekið undir það með Ágústi Ólafi að við eigum að stefna að því að gera Ísland að enn álitlegri kosti fyrir erlenda fjárfesta. Það gerum við með því að styrkja og efla menntakerfið, tryggja hagstætt skattaumhverfi, einfalda alla stjórnsýslu og fleira og fleira. Enskuvæðing íslenskrar stjórnsýslu er hins vegar ekki leiðin til þess.

Við eigum að stefna að því að styrkja og efla íslenska tungu, ekki grafa undan henni.”

Sigurður Kári.


Furðu lostnir fréttamenn

Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um stóra Fáskrúðsfjarðarmálið.  Þessa dagana opnar maður ekki blað eða kveikir á sjónvarpi eða útvarpi án þess að um það sé fjallað.  Það er auðvitað eðlilegt enda málið umfangsmikið og þess eðlis að um það sé rækilega fjallað.

Tvennt vil ég nefna í tengslum við Fáskrúðsfjarðarmálið.

Í fyrsta lagi er ég sammála Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, sem lýsti atburðum fimmtudagsins sem merkum í sögu lögreglu og landhelgisgæslu, enda hafa íslensk löggæsluyfirvöld aldrei áður náð að koma í veg fyrir jafn stórfellt smygl á fíkniefnum til landsins og nú.  Það er rétt hjá dómsmálaráðherranum að árangur lögreglu og landhelgisgæslu ,,byggist á árverkni, trausti og trúnaði milli þeirra, sem hafa unnið að því að upplýsa málið og einnig þeim breytingum, sem orðið hafa á skipan lögreglumála og landhelgisgæslu, auk víðtæks alþjóðlegs samstarfs."

Það er auðvitað ljóst að breytt skipan lögreglumála og landhelgisgæslu og aukið alþjóðlegt samstarf íslenskra löggæsluaðila og erlendra gerir yfirvöldum frekar kleift en áður að takast á við skipulagða glæpastarfsemi á borð við fíkniefnasölu og fíkniefnainnflutning.  Þar skipta einnig máli þær heimildir og þau tæki sem yfirvöld hafa yfir að ráða samkvæmt lögum til þess að berjast gegn og uppræta slíka starfsemi.

Það er ekki langt síðan að andstæðingar dómsmálaráðherrans í stjórnmálum gagnrýndu hann harkalega fyrir áform sín um að veita löggæsluaðilum áhrifaríkari tæki til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.  Ýmsir fjölmiðlar og blaðamenn fóru á þeim tíma einnig hamförum gagnvart ráðherranum, vegna hugmynda sem hann setti þá fram um að setja á stofn sérstaka greiningardeild innan embættis Ríkislögreglustjóra sem ætlað var að gera lögregluna betur í stakk búna í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Fróðlegt væri að heyra sjónarmið þeirra sem þá gengu harðast fram gegn dómsmálaráðherranum í ljósi þess árangurs sem lögreglan náði á fimmtudaginn á Fáskrúðsfirði.  Af skiljanlegum ástæðum hafa þessir aðilar látið lítið fyrir sér fara síðustu daga.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna sérstaklega í tengslum við Fáskrúðsfjarðarmálið eru viðbrögð fjölmiðla við atburðunum fyrir austan.  Um leið og málið komst í hámæli á fimmtudag furðuðu reyndir fjölmiðlamenn sig á því að ekkert hefði spurst út um rannsókn lögreglunnar á málinu, sérstaklega í ljósi þess hversu fjölmenn og viðamikil rannsóknin hefði verið.  Á þessu var Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, gjörsamlega gáttaður í viðtali á fimmtudagskvöldið í þættinum Ísland í dag á Stöð 2.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að forsenda þess að lögreglan nái að upplýsa mál sem þessi er sú að rannsóknir mála fari leynt, enda er þeim sem að slíkum rannsóknum vinna beinlínis skyld samkvæmt lögum að halda slíkum upplýsingum leyndum.

Maður hlýtur hins vegar að velta því fyrir sér hvað veldur því að íslenskir blaðamenn séu nú svo furðu lostnir yfir því að hafa ekkert frétt af þessari viðamiklu rannsókn lögreglunnar fyrr en hún lét til skarar skríða austur á Fáskrúðsfirði.

Hefur aðgangur íslenskra fjölmiðla að slíkum upplýsingum verið annar og meiri áður?

Sigurður Kári

 


Útgjöld Íslendinga til menntamála langt umfram meðaltal OECD

myndafhaskoliÁ síðasta kjörtímabili og í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hef ég ítrekað staðið í rökræðum við stjórnmálamenn úr öðrum stjórnmálaflokkum um það hvernig við Íslendingar höfum staðið að fjárframlögum til menntamála. 

Í þeim umræðum, sem hafa átt sér stað á Alþingi, í fjölmiðlum og á bloggsíðum, hafa andstæðingar mínir staðfastlega haldið því fram að við Íslendingar værum eftirbátar annarra ríkja þegar kemur að fjárframlögum til menntamála.  Slíkum staðhæfingum hef ég ávallt hafnað og bent á að þvert á móti stæðum við öðrum þjóðum framar á því sviði.   Í þeirri umræðu hef ég eftir fremsta megni reynt að rökstyðja mál mitt með því að vísa til þeirra tölfræðilegu upplýsinga sem safnað hefur verið saman og birtar af óháðum rannsóknaraðilum.

Í dag birtist áhugaverð frétt um þetta mál á vefsíðu Morgunblaðsins, en þar segir:

,,Útgjöld Íslendinga til menntastofnana á nemanda í Bandaríkjadölum árið 2004 voru umtalsvert hærri en árið 2003. Alls vörðu Íslendingar 8264 Bandaríkjadölum á hvern nemanda í fullu námi frá grunnskólastigi til háskólastigs en höfðu varið 7438 dölum á nemanda árið 2003. Meðaltal OECD ríkja 2004 var 7061 Bandaríkjadalir.

Þetta kemur fram í ritinu Education at a Glance 2007, sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefir út árlega. Á öllum skólastigum nema á leikskólastigi vörðu Íslendingar hærri upphæð á nemanda árið 2004 en árið 2003.

Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 8% af vergri landsframleiðslu árið 2004 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Ísland varði einnig 8% af vergri landsframleiðslu til menntamála árið 2003. Meðaltal OECD ríkja var 5,8%."

Vonandi verður ekki þörf á því að deila um þessar staðreyndir í umræðum um fjárframlög til menntamála á því kjörtímabili sem nú er hafið.

Sigurður Kári.


Í minningu Ásgeirs Elíassonar

Í gær var Ásgeir Elíasson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, jarðsunginn í Hallgrímskirkju.  Útförin var einstaklega fjölmenn enda var Ásgeir vinamargur eftir að hafa verið einn helsti framámaður í íslensku íþróttalífi um áratuga skeið.

Ásgeir Elíasson lést á dögunum langt fyrir aldur fram, einungis 57 ára að aldri.

Þó svo að þetta sumar hafi fyrir margra hluta sakir verið afar ánægjulegt og gott þá verð ég að segja að því miður hafa alltof margir einstaklingar sem ég hef þekkt og mér verið kærir fallið frá þetta sumarið, langt fyrir aldur fram.

Ásgeir Elíasson var um margt einstakur.  Hann var afbragðsgóður íþróttamaður og náði þeim árangri að leika með landsliðum Íslands í þremur keppnisíþróttum, knattspyrnu, handknattleik og blaki.  Það er árangur sem fáir munu leika eftir.

Ég man fyrst eftir Ásgeiri þegar hann kenndi mér leikfimi í íþróttahúsi Fellaskóla, en á þeim tíma sóttum við nemendur Hólabrekkuskóla leikfimitíma þangað.  Ætli ég hafi ekki verið 7 eða 8 ára.  Síðar kynntist ég Ásgeiri og hans fjölskyldu betur, þegar ég æfði og lék knattspyrnu með Fram.  Ásgeir var á þeim tíma þjálfari meistaraflokks Fram og var einn sigursælasti þjálfarinn í sögu félagsins, en eldri sonur hans Þorvaldur, lék með okkar liði.  Þó svo að Ásgeir hafi ekki þjálfað okkur á þeim árum fylgdist hann gaumgæfilega með því hvernig okkur vegnaði á vellinum og kvatningar hans voru ómetanlegar.  Endrum og sinnum fengum við strákarnir í 2. flokki að spila með 1. flokki, sem Ásgeir lék með ásamt því að þjálfa meistaraflokk félagsins.

Ásgeir Elíasson var sá þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem bestum árangri hefur náð.  Hann var hæglátur og þægilegur í samskiptum og í alla staði mikill sómamaður.  Það er mikill missir af honum.

Dedda og strákarnir, Doddi og Mummi, eiga samúð mína alla.

Blessuð sé minning Ásgeirs Elíassonar.

Sigurður Kári.


Nýr formaður SUS

Þórlindur Kjartansson var í dag kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á fjölmennu sambandsþingi sem haldið var á Seyðisfirði.  Hlaut Þórlindur rúmlega 90% greiddra atkvæða, en enginn annar hafði gefið kost á sér til formennsku hjá sambandinu.

Þórlindur hlaut öfluga kosningu á þinginu og ég vil nota þetta tækifæri og óska honum innilega til hamingju með hana.  Það eru mikil tímamót í lífi þess sem býður sig fram til starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hljóta kosningu til formennsku hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, enda er sambandið langöflugasta og fjölmennasta ungliðahreyfing stjórnmálaflokkanna og hefur verið það um langt skeið.  Starf formanns þess er annasamt og krefjandi.  Það þekki ég af eigin raun eftir að hafa gegnt formennsku hjá SUS á árunum 1999 til 2001.

Ég óska líka nýkjörnum stjórnarmönnum innilega til hamingju með kjörið og hlakka til að eiga gott samstarf við nýja forystu ungliðahreyfingarinnar.

Sigurður Kári.


Maó, sagan sem aldrei var sögð

maoBókin ,,Maó, sagan sem aldrei var sögð", eftir hjónin Jung Chang og Jon Halliday, er komin út hjá Máli og menningu.  Þýðandi bókarinnar á íslensku er Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Óhætt er að segja að bókin um Maó sé athyglisverð enda eru hún ein af umtöluðustu og umdeildustu ævisögum sem út hafa komið á síðustu árum.

Söguskýringar á Maó hafa í gegnum tíðina verið ákaflega misvísandi.  Fylgismenn hans í Kína og á vesturlöndum hafa í gegnum tíðina dregið upp af honum fagra mynd á meðan aðrir sem hafa haft efasemdir um ágæti hans lýst honum sem mesta illmenni sögunnar, manni sem hafi skotið öðrum harðstjórum á borð við Josef Stalín og Adolf Hitler ref fyrir rass.  Svo yfirgripsmikil hafi illvirki hans verið, enda hafi Maó ekki vílað fyrir sér að fórna lífum um 70 milljóna þegna sinna til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum og þjóna valdasýki sinni, m.a. í hungursneiðum Kína og í Menningarbyltingunni svokölluðu.

Sjálfur hallast ég að síðari lýsingunni á Maó og ég þykist vita að höfundar hinnar nýútkomnu bókar gera það líka.

Hins vegar eru, eins og áður segir, ekki allir á sama máli og svo virðist sem Maó eigi sér enn í dag sína málsvara.  Einn þeirra er Arnþór Helgason, sem starfað hefur sem blaðamaður á Morgunblaðinu, sem telur að Maó hafi komið ýmsu góðu til leiðar í valdatíð sinni þó vissulega hafi hann mörg mannslíf á samviskunni.  Í pistli á heimasíðu sinni segir Arnþór m.a.:

,,Ekki ætla ég að halda því fram að Mao hafi verið einhver engill. Hann var heldur enginn djöfull í mannsmynd. Hins vegar verður að skoða þróun hans í samhengi við kínverska sögu og þær hefðir sem kínverska þjóðin hefur orðið að glíma við. Kínverjum hefur enn ekki tekist til fulls að brjóta af sér fjötra margs konar áþjánar sem fylgdi keisaraveldinu. Valdatími Maos formanns var þó merk tilraun til þess.

Lengi lifi hugsun Maos formanns!

Lengi lifi umræðan um Mao formann!"

Þetta er merkileg lofræða um Maó og það verður fróðlegt að sjá hversu vel hún rímar við þá frásögn sem fram kemur í hinni nýju bók.

Það er líka merkilegt, í ljósi sögunnar, að blaðamaður á Morgunblaðinu skuli fara orðum sem þessum um Maó formann.  Einhverntíma hefði slíkt eitt og sér vakið sérstaka athygli.

Sigurður Kári.


Frábær úrslit gegn Spánverjum.

small_ThjodfaninnGIF_1346157826Fyrir landsleikinn við Spánverja átti ég ekki von á því að íslenska landsliðið ætti mikla möguleika á stigi úr leiknum.  Auðvitað bar maður þá von í brjósti að íslenska landsliðið myndi sýna stjörnuleik og ná góðum úrslitum, en stig var fjarlægur draumur.

Það er ekki að ástæðulausu að bjartsýninni fyrir leikinn væri stillt í mjög mikið hóf, a.m.k. hjá mér.  Spánverjar hafa einfaldlega á að skipa einu af bestu landsliðum Evrópu.  Í okkar lið höfðu verið höggvin stór skörð, því menn á borð við Eið Smára Gudjohnsen og Brynjar Björn Gunnarsson gátu ekki leikið með liðinu í þessum leik.  Og í ofanálag hefur íslenska landsliðið ekki verið að sýna sínar bestu hliðar upp á síðkastið.

Engu að síður gekk maður vonsvikinn af Laugardalsvellinum í gærkveldi.  Ekki vegna þess að strákarnir okkar spiluðu illa, heldur vegna þess að þeir náðu ekki að vinna leikinn, sem var eitthvað sem fæstir, ef einhverjir, bjuggust við fyrir leik, því vorum hársbreidd frá því að sigra Spánverjana.

Mér fannst íslenska liðið spila afar vel í fyrri hálfleik með rok og rigningu í fangið.  Auðvitað hjálpaði það okkur mjög að leikstjórnandi Spánverja, Xabi Alonso, leikmaður Liverpool, var rekinn af velli fyrir fóskulegt og heimskulegt brot á Arnari Þór Viðarssyni.  En það verður hins vegar ekki af strákunum tekið að þeir léku sinn besta hálfleik í langan tíma.  Vörnin var þétt og skyndisóknirnar hættulegar.  Markið sem Emil Hallfreðsson skoraði var síðan eitt það besta sem íslenska liðið hefur skorað í langan tíma.  Undirbúningur marksins hjá Kristjáni Sigurðssyni, Grétari Rafni Steinssyni og Gunnari Heiðar Þorvaldssyni var frábær svo ekki sé minnst á gullsendingu Jóhannesar Karls Guðjónssonar.  Og afgreiðlan hjá Emil var fyrsta flokks.

Í seinni hálfleiknum lágum við í vörn, nánast allan tímann.  Íslenska liðið skapaði sér hins vegar góð marktækifæri í seinni hálfleik sem grátlegt var að skyldu ekki nýtast og því fór sem fór.  Það var alltaf viðbúið að Spánverjum tækist að skora mark úr þeim fjölmörgu og þungu sóknum sem þeir áttu í leiknum.

Sjálfur hefði ég viljað sjá íslenska liðið halda boltanum betur innan liðsins í seinni hálfleik og sækja grimmar á Spánverjana.  Ég hefði viljað sjá Eyjólf Sverrisson færa Emil framar á völlinn eða bæta við öðrum sóknarmanni til þess að setja meiri pressu á Spánverjana, enda voru þeir einum færri og urðu að sækja.  Við höfðum hins vegar engu að tapa því hefði maður viljað sjá íslenska liðið taka meiri áhættur í sóknarleiknum.

Hvað sem því líður er ljóst að úrslit leiksins og frammistaða íslenska liðsins var framar vonum.  Leikur liðsins var að mínu mati betur skipulagður en áður, baráttan meiri sem og viljinn til þess að sigra.

Vonandi mun íslenska landsliðið halda áfram á sömu braut á miðvikudaginn í leiknum gegn Norður-Írum.  Þann leik væri gaman að vinna.

Sigurður Kári.


Það er gott að búa á Íslandi

Vefsíða Morgunblaðsins birtir frétt þess efnis í dag að Ísland sé í öðru sæti á lista yfir þau ríki þar sem lífgæði eru mest.  Í fyrsta sæti eru frændur okkar Norðmenn en í sætinu fyrir neðan okkur Íslendingar eru Ástralir.  Fram kemur í fréttinni að listinn sé byggður á niðurstöðum rannsóknar þar sem boriislandð var saman efnahagslíf 183 ríkja.

Samkvæmt listanum eru lífgæði mest í eftirtöldum löndum:

1. Noregur
2. Ísland
3. Ástralía
4. Írland
5. Svíþjóð
6. Kanada
7. Japan
8. Bandaríkin
9. Finnland, Holland og Sviss
12. Belgía og Lúxemborg
14. Austurríki
15. Danmörk
16. Frakkland
17. Ítalía og Bretland
19. Spánn
20. Nýja Sjáland

Niðurstaða rannsóknarinnar og afar sterk staða Íslands í samanburði við aðrar þjóðir heimsins hlýtur að vera til merkis um að vel hafi tekist við stjórn efnahagsmála á Íslandi á síðustu árum og áratugum.  Þessar niðurstöður ættu jafnframt að sýna almenningi í eitt skipti fyrir öll hversu ótrúverðugur málflutningur þeirra stjórnmálamanna, sem setið hafa í stjórnarandstöðu á síðustu árum hefur verið, en þeir hafa ítrekað haldið því fram að lífskjör og lífsgæði á Íslandi standist ekki samanburð við önnur ríki.

Þegar listinn er skoðaður vekur athygli að í Noregi og á Íslandi skuli lífsgæði vera meiri en í löndum Evrópusambandsins.  Því hefur þráfaldlega verið haldið fram af Evrópusinnum að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið muni lífgæði hér á landi batna til mikilla muna.

Af niðurstöðum rannsóknarinnar að dæma virðast bæði Íslendingar og Norðmenn braggast ágætlega án þess að vera undir verndarvæng kommisaranna í Brussel.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband