Fyrstu verkin á þessu þingi

Á fyrsta starfsdegi Alþingis lagði ég fram tvö lagafrumvörp.  Til viðbótar er ég meðflutningsmaður að tveimur öðrum lagafrumvörpum.  Þessi frumvörp eru eftirfarandi:

I.  Frumvarp sem heimilar sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum

Í fyrsta lagi er ég nú fyrsti flutningsmaður frumvarps þar sem lagt er til að einkasala ríkisins á sölu á léttvínum og bjór verði afnumin og hún heimiluð í matvöruverslunum.  Síðustu fjögur árin hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, verið fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en nú hef ég tekið við keflinu af honum.

Meðflutningsmenn mínir að frumvarpinu eru þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Þetta er í fimmta skipti sem frumvarp þetta er lagt fram í þessari mynd.  Frá því að það var síðast lagt fram hafa farið fram kosningar til Alþingis og breytingar hafa orðið á ríkisstjórninni.  Að sjálfsögðu bindum við sem að málinu stöndum vonir við að viðhorfsbreyting hafi orðið til þessa máls og að það verði loksins samþykkt sem lög frá Alþingi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á undanförnum árum og áratugum hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti staðið að viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta jafn vel og hið opinbera.  Nú er svo komið að að til algerra undantekninga heyrir að ríki og sveitarfélög standi í verzlunarrekstri.  Ein þeirra undantekninga er sú þjónusta sem Á.T.V.R. veitir.

Við teljum tíma til kominn að á því verði breyting.

II.  Frumvarp um afnám framlagningar á álagningar- og skattskrám

Í öðru lagi hef ég lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt, en frumvarpið hefur það að markmiði að afnema þá skyldu sem hvílir samkvæmt lögunum á skattstjórum þessa lands að leggja fram álagningar- og skattskrár þar sem fram koma upplýsingar um tekjur einstaklinga.

Eins og ég hef margoft haldið fram, bæði í umræðum og á Alþingi, þá tel ég að núgildandi fyrirkomulag brjóti gegn grundvallarréttindum einstaklinga til friðhelgi einkalífs, en á öðrum stöðum í löggjöfinni hefur verið viðurkennt að fjárhagslegar upplýsingar einstaklinga teljist til slíkra upplýsinga sem ástæða sé til að farið sé leynt með.

Meðflutningsmenn að þessu frumvarpi eru þingmennirnir Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller, Kristján Þór Júlíusson, Jón Magnússon, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

III.  Frumvarp um afnám iðnaðarmálagjalds

Í þriðja lagi er ég meðflutningmaður að frumvarpi um brottfall laga um iðnaðarmálagjald, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal.

Tilgangur frumvarpsins er sá að fella niður lagaskyldu iðnfyrirtækja til að greiða iðnaðarmálagjald til Samtaka iðnaðarins.  Iðnaðarmálagjaldið er innheimt af skattyfirvöldum með öllum þeim úrræðum sem þau hafa og er í reynd ígildi félagsgjalds til samtakanna, burtséð frá því hvort viðkomandi greiðendur vilji tilheyra samtökunum eða ekki.

IV.  Frumvarp um afnám búnaðarmálagjalds

Í fjórða og síðasta lagi er ég síðan, ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur, meðflutningsmaður að frumvarpi um brottlaga um búnaðarmálagjald, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal.

Tilgangur frumvarpsins er sá að fella niður skyldu bænda til að greiða búnaðargjald, sem er annars vegar félagsgjald til lögbundinna stéttarfélaga bænda, Bændasamtaka Íslands, ýmissa búnaðarsambanda og búgreinasambanda og hins vegar iðgjald til sérstaks tryggingasjóðs, Bjargráðasjóðs.

Eins og kunnugt er hefur afkoma bænda því miður ekki verið góð undanfarna áratugi og færa má rök fyrir því að bændur hefðu flestir hverjir getað ráðstafað þessum fjármunum sjálfir eftir sínum eigin þörfum.  Þetta búnaðargjald, sem við viljum afnema, nemur 1,2% af heildartekjum bús óháð afkomu.  Það getur því verið miklu hærra hlutfall af tekjum hvers einstaks bónda og mjög erfitt tekjulágum bændum.  Með samþykkt frumvarpsins myndi hins vegar ekkert koma í veg fyrir að bændum væri heimilt að greiða félaggjald til þeirra stéttarfélaga sem þeir sjálfir kysu að vera félagar í eða greiða iðgjald til Bjargráðasjóð, kærðu þeir sig um.

V.  Önnur frumvörp væntanleg

Fyrir utan þau frumvörp sem ég hef hér gert grein fyrir mun ég að líkindum leggja fram fleiri frumvörp sem varða munu kosningalöggjöfina, löggjöf um áfengisauglýsingar, sem flestir telja að sé fyrir löngu gengin sér til húðar, ærumeiðingarlöggjöfina og fleira. 

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð Örn Jónsson

Þú stendur þig vel.  Nú er bara að koma þessum málum í gegn.

Davíð Örn Jónsson, 4.10.2007 kl. 15:39

2 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ánægjulegt þega SUS frumvörp koma inn á Alþingi en stundum er sagt að gamlir SUS menn gleymi hugsjónunum þegar þeir komast inn á þing.  Núna þarf bara að koma þessu í gegn.

Ég er ánægður með þig

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 4.10.2007 kl. 17:08

3 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Þú ert frábær Siggi Kári   og þið öll hin sem standið að þessum frumvörpum.  Glæsileg byrjun. 

Og svo er bara nokkuð gaman að fá að fylgjast með framvindu mála hérna á síðunni þinni

Vilborg G. Hansen, 4.10.2007 kl. 17:38

4 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Hvorutveggja mikil þjóðþrifa mál og

Þórdís Bára Hannesdóttir, 4.10.2007 kl. 19:38

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

bætir hag fólksins í landinu

Þórdís Bára Hannesdóttir, 4.10.2007 kl. 19:39

6 identicon

Gangi ykkur vel

 Styð þessi frumvörp heilshugar :)

Kveðja úr Kópavoginum

Unnur B. Johnsen (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 20:52

7 identicon

Ágæti Þorvaldur.

Sú viðskiptahugmynd sem þú nefnir gengi ekki upp samkvæmt frumvarpinu, því í 10 gr. þess segir:

,,Sveitarstjórn skal setja eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu smásöluleyfis:

a. Afgreiðslutími skal ekki vera lengri en til kl. 20.00.

b. Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 20 ára.

c. Önnur málefnaleg atriði, svo sem um staðsetningu verslunar, aðgengi, afgreiðslutíma, sbr. þó ákvæði a-liðar, merkingar o.fl.

Sveitarstjórn er óheimilt að veita smásöluleyfi fyrirtækjum sem stunda blandaða smásöluverslun aðra en rekstur stórmarkaða eða matvöru- eða nýlenduvöruverslunar, svo sem starfsemi sem fellur undir eftirfarandi ISAT-flokka: 50.11.4 (söluturnar), 50.11.5 (söluturnar með ís eða samlokugerð), 50.11.6 (matsöluvagnar) og 52.12 (önnur blönduð smásala).  Þá er sveitarstjórn óheimilt að veita smásöluleyfi til blaðsöluturna, sbr. ÍSAT-flokk 52.26, og myndbandaleigna, sbr. ÍSAT-flokk 71.40.1."

Ég vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

Sigurður Kári Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 00:36

8 identicon

Þú ert langflottastur. Hamraðu þessu í gegn.

Bjarni Már Magnússon (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 04:02

9 identicon

Til hamingju Þorvaldur.

Þú hefur komist að því (með hjálp) sem svo fáir sem vilja leyfa frjálsa áfengissölu hafa hugsað útí.   Því það er svo kúl og frjálslynt að hafa þetta að skoðun að menn gleyma hvað þetta þýðir.   

Eina sem gæti mögulega komið útúr breytingu á lögum væri að sérverslanir (ostabúðin, fiskisaga oþh) færu að selja hjá sér léttvín, væntanlega með mun meiri álagningu en blessað ÁTVR. 

Ragnar Ríkharðsson (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 11:23

10 identicon

Kæri Capitalist

Áfengi er selt í verzlunum hér á landi. Hér er líka svipað fyrirkomulag og í flestum ríkjum Bandaríkjanna, þ.e. sérstakar áfengisverzlanir. En þú telur Bandaríkin greinilega ekki vera siðmenntaða þjóð og eflaust margir sammála því.

Mér líst ekkert á þetta frumvarp af þeirri ofureinföldu ástæðu að ávinningurinn er nánast enginn, og flest rök benda til að vandinn muni aukast við þetta. Það eitt skiptir máli. Hagur þjóðarinnar, ekki einstaklinga. Félagsvandi, heilsuvandi, vandi varðandi ofbeldi og glæpi og vinnutap. Þessir hlutir kosta skattgreiðendur gríðarlegt fjármagn.

Þegar svona frumvarpi er fleygt fram finnst mér það vera lágmark að koma á sama tíma með raunhæfar og öflugar tillögur um aukið fjármagn í forvarnir, meðferðir og félagsleg úrræði. Að öðrum kosti er verknaðurinn mjög óábyrgur.

Páll Geir Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband