Bjarney S. Guðmundsdóttir - Minningarorð

Í dag  kveð ég hana ömmu mína.  Eyju ömmu sem ég minnist með miklum hlýhug , þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og fyrir allt það uppbyggilega og góða sem hún kenndi mér.

Ég var mikið hjá henni ömmu minni þegar ég var yngri, sérstaklega þegar ég var barn.  Þó svo að hún og afi hafi búið við þröngan kost og aldrei haft mikið umleikis vorum við systkinin alltaf velkomin til hennar.  Hún tók okkur opnum örmum og hjá henni skorti okkur aldrei neitt.

Við amma eyddum heilu og hálfu dögunum við að spila hvort við annað.  Hún kenndi mér að spila og líka að tefla.  Það tók mig mörg ár að máta þá gömlu, enda var hún býsna lunkin í skákinni.

Hún amma mín lifði tímana tvenna.  Lífshlaup hennar var erfitt.  Hún fékk aldrei neitt upp í hendurnar og þurfti, held ég, að mörgu leyti að hafa meira fyrir lífinu en flestir aðrir.  Það markaði allt hennar líf að hafa fæðst og alist upp vestur á Hornströndum þar sem lífsbaráttan var harðari en víðast hvar á Íslandi, einkum á vetrum.  Hún sagði mér oft sögur af því hvernig lífið á Hornströndum var þegar hún var ung og hversu erfitt það var.  Ég sé alltaf eftir því að hafa aldrei skrásett þessar sögur, einkum eftir að hún fór að gleyma.  En ég held að sögurnar og lýsingar hennar á því sem hún þurfti að ganga í gegnum hafi haft mikil og góð áhrif á mitt eigið gildismat.

Ömmu minnar biðu heldur engar vellystingar þegar hún flutti suður.  Lífið var ekki samfelldur dans á rósum á Grímsstaðarholtinu á árunum eftir stríð og heldur ekki í verkamannabústöðunum í Breiðholtinu síðar.  Það var erfitt.

En hún kvartaði aldrei.  Hún var stolt af sínu.  Hún var stolt af störfum sínum, bæði af ævistarfi sínu sem verkakona og ekki síður fyrir störf sín í þágu Verkakvennafélagsins Sóknar.  Hún stóð með sínu fólki og skeytti aldrei skapi, sama hvað gekk á, þó oft hafi hún haft tilefni til.  Ég sá hana aldrei reiðast.

Við amma vorum sammála um flest, en ekki allt.  Hún talaði vel um alla nema íhaldsmenn.  Á íhaldinu hafði hún litlar mætur.  Hún var hrifnari af Guðmundi jaka og þeim.  Af þeim ástæðum gerðum við amma með okkur þegjandi samkomulag um að tala ekki um stjórnmál eftir að ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn.  Það samkomulag héldum við alla tíð.

Eyja amma mín var alla tíð glaðlynd, hlý og góð.  Hjá henni var óskaplega gott að vera.

Ég kveð hana ömmu með miklum hlýhug og söknuði.  Mér þótti þá og þykir enn afar vænt um hana og ég þakka henni fyrir allt sem hún hefur fyrir mig gert.

Guð blessi minningu ömmu minnar.

Sigurður Kári Kristjánsson

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Skjaldborg ríkisstjórnarinnar um erlenda vogunarsjóði og spákaupmenn

Nú hefur verið upplýst að þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar endureisti viðskiptabankana eftir hrun ákvað hún að slá skjaldborg um erlenda vogunarsjóði og erlenda spákaupmenn, en snéri baki við almenningi og fyrirtækjum á Íslandi.

Þetta kemur fram í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar um endurreisn viðskiptabankanna, sem rædd var á Alþingi í dag.

Ég tók þátt í umræðunni en ræða mín var svohljóðandi:  

Virðulegi forseti.

Alvarlegustu fréttirnar fyrir almenning í þessu landi sem finna má í skýrslu fjármálaráðherra eru þær að nú er komið í ljós að eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum í febrúar árið 2009 varð grundvallarstefnubreyting íslenskra stjórnvalda varðandi endurreisn bankakerfisins.

Sú stefnubreyting reyndist íslenskum almenningi dýrkeypt.  Fólkið í landinu er enn að súpa seyðið af henni og hefur þurft að gjalda hana dýru verði.

Þessi svarta skýrsla sem við ræðum hér í dag er dapurlegur vitnisburður um afdrifarík mistök og afglöp núverandi ríkisstjórnar sem því miður verða ekki aftur tekin, en hljóta að hafa afleiðingar.

Virðulegi forseti.

Það þarf ekki að lýsa því í mörgum orðum hvað varð um viðskiptabankana þrjá eftir hrun.

Þeim var skipt upp í gamla banka og nýja.

Við þessar aðgerðir voru skuldabréfasöfn bankanna, þ.e. lán heimila og fyrirtækja, flutt úr gömlu bönkunum og í þá nýju með miklum afslætti eða afskriftum sem námu líklega 60-70%, hvorki meira né minna.

Þessi afsláttur helgaðist annars vegar af því að talið var að dómstólar myndu líklegast dæma gengistryggð lán, sem höfðu stökkbreyst, ólögleg, eins og síðar kom í ljós, og hins vegar lá fyrir að hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu myndu geta staðið skil á nema hluta þeirra.

Skýrslan verður ekki skilin öðruvísi en að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði ákveðið að láta þessi miklu afsláttarkjör renna til íslenskra heimila og fyrirtækja.  Hefði sú ákvörðun fengið að standa hefði hún leitt til þess að stjórnvöldum hefði verið mögulegt að ráðast í leiðréttingar og niðurfærslur á stökkbreyttum skuldum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.

Það var hins vegar því miður ekki gert.

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum, sem var í febrúar árið 2009, var endurreisnaráætluninni breytt, eins og fram kemur m.a. á bls. 5 og bls. 22 í skýrslunni. 

Núverandi ríkisstjórn tók sem sagt ákvörðun um grundvallarstefnubreytingu sem fólst í því að í stað þess að nota afsláttinn af skuldabréfasöfnunum til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu var ákveðið að ganga til samninga við erlenda kröfuhafa um það hversu stóran hluta afsláttarins væri hægt að láta ganga til baka til erlendu kröfuhafanna.

Frá þeim samningum var gengið.

Afslátturinn og afskriftirnar runnu í vasa útlendinga.  Almenningur sat eftir slippur og snauður með skuldirnar á herðunum og bankarnir fengu skotleyfi til þess að innheimta hjá fólki kröfur sem þegar höfðu að stórum hluta verið afskrifaðar.

Allt var þetta gert í boði þessarar ríkisstjórnar, norrænu velferðarstjórnarinnar, og afleiðingarnar þekkja allir.

Virðulegi forseti.

Fjármálaráðherra hefur reynt að verja þessa ákvörðun sína og ríkisstjórnarinnar annars vegar með því að segja að með henni hafi íslenska ríkið komið sér hjá málshöfðunum og hins vegar með því að segja að með ákvörðunum sínum hafi ríkisstjórnin sparað ríkissjóði gríðarlega fjármuni.

Hvorug afsökunin hefur reynst tæk.

Sýnt hefur verið fram á að kostnaður ríkissjóðs af ákvörðun fjármálaráðherra varð meiri en hann hefði orðið hefði ríkiðátt bankana áfram.

Og bæði Eftirlitsstofnun EFTA og íslenskur dómstóll hefur staðfest lögmæti neyðarlaganna.

Ótti fjármálaráðherra við málshöfðun var því óþarfur.

Virðulegi forseti.

Stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar um endurreisn viðskiptabankanna verður ekki líst öðruvísi en sem tilræði við almenning í þessu landi.

Með því að láta afskriftir á skuldabréfasöfnunum renna til erlendra kröfuhafa gerðist ríkisstjórnin sek um:

  • - Að bregðast almenningi og heimilum landsins og,
  • - Að bregðast íslenskum fyrirtækjum.

Í stað þess að standa vörð um hagsmuni sinnar eigin þjóðar sló ríkisstjórnin skjaldborg um erlenda vogunarsjóði og erlenda spákaupmenn.

Eftir sitja íslensk fyrirtæki og íslensk heimili í sárum.

Að mínu mati staðfestir þessi svarta skýrsla að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í sínum störfum og hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu.

Nú þýðir ekki að kenna Sjálfstæðisflokknum um eða skýla sér á bakvið Fjármálaeftirlitið, eins og fjármálaráðherra hefur reynt að gera í umræðunni.

Á þessum afglöpum ber fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, mesta ábyrgð en ekki síður forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, og í raun allir ráðherrarnir í ríkisstjórn.

Framganga þeirra hlýtur að hafa afleiðingar, ekki síst í ljósi þess að nú standa yfir réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, fyrir, að því er virðist, minni sakir, en þessi ríkisstjórn hefur gerst sek um gagnvart íslensku þjóðinni.

Ég krefst þess að fjármálaráðherra og forsætisráðherra að útskýri hvernig þau ætla að axla ábyrgð á þeim alvarlegu mistökum sem nú liggja fyrir.

Sigurður Kári.


Lyfseðilsskyldu lyfin í undirheimunum

Ég og Birgir Ármannsson, félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, óskuðum í dag eftir fundi í allsherjarnefnd Alþingis, en báðir eigum við sæti í nefndinni.

Ástæða þessarar beiðni okkar er sú að undanfarna daga hefur átt sér stað sláandi umfjöllun í fjölmiðlum, einkum í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, þar sem varpað er ljósi á það hversu mikið magn lyfseðlisskyldra lyfja, ekki síst morfínlyfja og rítalíns, er í umferð í undirheimum landsins þar sem þau ganga kaupum og sölum.

Undir venjulegum kringumstæðum er eðlilegt að slík mál séu rædd í heilbrigðisnefnd þingsins.

Hins vegar eru nú komnar fram svo sterkar vísbendingar um að umfang lyfseðilsskyldra lyfja í umferð sé slíkt að ekki verði einungis litið á vandamálið sem heilbrigðismál heldur varði það ekki síður málasvið allsherjarnefndar.

Eins og kunnugt er fjallar allsherjarnefnd Alþingis meðal annars um mál sem varða refsilöggjöfina, meðferð ávana- og fíkniefna, starfsemi lögreglunnar og málefni tollgæslunnar. 

Þar sem hugsanlegt er að þeir sem bera ábyrgð á umfangi lyfseðilsskyldra lyfja í undirheimum landsins geti hafa bakað sér refsiábyrgð og að tengsl geti verið við aðra brotastarfsemi óskuðum við eftir því að nefndin yrði kölluð saman til þess að ræða m.a. umfang vandans og ástæður hans, en ekki síður til þess að fá útskýringar á því hvernig hægt er að bregðast við honum með árangurríkum hætti.

Við óskuðum eftir því að landlæknir yrði boðaður til fundarins, ásamt forsvarsmönnum SÁÁ, fíkniefnalögreglunnar og tollgæslunnar.

Vonandi skilar fundurinn einhverjum árangri, enda ekki vanþörf á.

Sigurður Kári.


Svarbréf ríkisstjórnar Íslands til ESA

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, þarf að útskýra hvers vegna ríkisstjórn Íslands ákvað að tefla ekki fram ýtrustu vörnum íslenska ríkisins í svarbréfi sínu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), vegna Icesave-málsins sem kynnt var í Þjóðmenningarhúsinu á mánudaginn.

Ástæðan er sú að í svarbréfinu til ESA er ekki að finna veigamikla málsástæðu sem íslenska ríkið hefði getað byggt vörn sína á.

Til að útskýra þessa fullyrðingu mína nánar er rétt að rifja eftirfarandi upp.

Ummæli forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

Þann 26. maí 2010 sendi ESA íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf vegna Icesave-málsins. Í áminningarbréfinu kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið sé skuldbundið samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar til þess að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu, 20.887 evrum, til breskra og hollenskra sparifjáreigenda.

Skömmu eftir að ESA hafði sent íslenskum stjórnvöldum þetta áminningarbréf fagnaði EFTA 50 ára afmæli sínu.

Í tilefni af því var blásið til fundahalda í Reykjavík þar sem Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), lýsti meðal annars afstöðu sinni til Icesave-málsins með mjög afdráttarlausum hætti.

Hvarvetna kom fram í máli hans að hann teldi að málstaður íslenska ríkisins væri með þeim hætti að ekkert fengi breytt þeirri niðurstöðu ESA sem lýst var í áminningarbréfinu.

Forseti eftirlitsstofnunarinnar lýsti þessari eindregnu afstöðu sinni opinberlega í Fréttablaðinu hinn 25. júní 2010, en þar sagði hann:

„Það er ljóst að allt veltur á því hvort Íslendingar endurgreiði þessar 20.000 evrur á hvern innlánsreikning. Fari svo erum við reiðubúin að láta málið niður falla.“ Jafnframt sagði Per Sanderud í viðtalinu:

„Fari þetta fyrir dómstólinn mun hann staðfesta að Íslendingum beri að borga þessar 20.000 evrur og dómstóllinn mun fylgja því eftir.“

Fyrirfram uppkveðinn dómur

Öllum sem lesa þessi ummæli forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) má vera ljóst að í þeim felst mjög ákveðin og eindregin afstaða hans, og eftir atvikum þeirrar stofnunar sem hann er í forsvari fyrir, gegn hagsmunum og málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

Ummælin eru í það minnsta svo gildishlaðin að draga verður í efa að sá sem þau lét falla geti með óhlutdrægum hætti tekið afstöðu til þess deilumáls sem hann sjálfur hefur nú til meðferðar.

Að mínu mati gerðist forseti eftirlitsstofnunarinnar með orðum sínum sekur um að kveða upp dóm í Icesave-málinu fyrirfram og án þess að hafa kynnt sér málstað annars málsaðilans, sem í þessu tilviki er íslenska ríkið.

Réttlát málsmeðferð

Sú grundvallarregla er í hávegum höfð í öllum réttarríkjum hins vestræna heims að þeir sem aðild eiga að réttarágreiningi fyrir dómstólum eða eftirlitsstofnunum skuli eiga skilyrðislausan rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Skiptir þar ekki mál hvort einstaklingur á í hlut, lögaðili eða ríki.

Í meginreglunni um réttláta málsmeðferð felst ekki síst að aðilar máls eigi ekki að þurfa að sæta því að dómari komist að niðurstöðu sinni fyrirfram, heldur beri honum að kynna sér málsástæður beggja málsaðilanna áður en hann úrskurðar eða dæmir um þann ágreining sem honum hefur verið treyst til að leysa.

Ekki verður annað séð en að þessa grundvallarreglu hafi Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), brotið með þeim ummælum sem hér hafa verið eftir honum höfð.

Í ljósi þeirra blasir við að hann er vanhæfur til þess að skera úr þeim ágreiningi í Icesave-málinu sem nú er til meðferðar hjá þeirri eftirlitsstofnun sem hann er forseti fyrir enda má með réttu efast stórlega um óhlutdrægni hans í málinu.

Dómarinn víki sæti

En á þessu er ekki byggt í þeirri vörn íslenska ríkisins sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti í Þjóðmenningarhúsinu.

Þar er þess af einhverjum ástæðum ekki krafist að forseti eftirlitsstofnunarinnar víki sæti og að aðrir óhlutdrægir úrskurðaraðilar verði fengnir til þess að skera úr ágreiningnum.

Hér skal ekki lítið úr því gert að í svarbréfi sínu til ESA eru röksemdir Íslendinga í Icesave-málinu að mörgu leyti skilmerkilega reifaðar. Og það er sérstakt fagnaðarefni að þar geri nú íslenska ríkisstjórnin röksemdir okkar sem börðumst gegn samþykkt Icesave-laganna að sínum.

En sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að láta það yfir sig ganga að núverandi forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) skuli úrskurða í svo gríðarlegu hagsmunamáli, þrátt fyrir að hafa komst að niðurstöðu fyrirfram og lýst henni opinberlega yfir, er að mínu mati óskiljanleg.

Nú stendur upp á Árna Pál Árnason og ríkisstjórn Íslands að útskýra hvers vegna þess var ekki krafist af hálfu íslenska ríkisins að dómarinn viki sæti.

Þær útskýringar verða íslensk stjórnvöld að færa fram.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Telur Össur að ríkisstjórnin hafi enn styrkt sig í sessi?

Þegar Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna lýsti Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, því yfir að brottför þeirra úr stjórnarliðinu styrkti ríkisstjórnina.

Í gær fór Ásmundur Einar Daðason sömu leið og Atli og Lilja.  Össur hlýtur að vera þeirrar skoðunar að brotthvarf Ásmundar Einars styrki ríkisstjórnina enn frekar.

En auðvitað er það ekki svo.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur aldrei staðið veikar og í rauninni er það svo að líf hennar hangir á bláþræði.  Hún styðst einungis við minnsta mögulega þingmeiri hluta 32 alþingismanna.  Hefði Þráinn Bertelsson ekki gengið til liðs við ríkisstjórnina þegar hann yfirgaf Borgarahreyfinguna hefði ríkisstjórnin ekki meirihlutastuðning á Alþingi.

Sú staðreynd að ríkisstjórnin nýtur nú aðeins stuðnings 32 alþingismanna þýðir í raun að hver og einn þingmaður Samfylkingar og Vinstri grænna hefur neitunarvald í öllum málum ríkisstjórnarinnar.

Það er afleit staða fyrir Jóhönnu og Steingrím.  Ekki síst í ljósi þeirra erfiðu verkefna sem framundan eru og ekki síður vegna þess að þingflokkur Vinstri grænna logar enn í illdeilum sem ekki sér fyrir endann á.

Sigurður Kári.


Hvenær verður kosið?

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave liggja fyrir.  Í þriðja skiptið hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar verið gerð afturreka með mál sem þau hafa lagt ofuráherslu á að fá samþykkt og lagt pólitíska framtíð sína að veði fyrir.

Það gerðist fyrst þegar þau lögðu Svavarssamninginn fyrir Alþingi, án þess að hafa fyrir honum meirihlutastuðning.  Það kom í ljós þegar þau voru gerð afturreka með samninginn gegn eigin vilja.

Það gerðist aftur þegar fólkið í landinu hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu Icesave-samningnum sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms, landaði.  98% þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði gegn þeim samningi.

Og nú hefur þjóðin í þriðja skiptið gert ríkisstjórnina afturreka í Icesave-málinu og hafnað með afgerandi hætti lögum sem þau lögðu fram á Alþingi, börðust fyrir og samþykktu.

Vandi Jóhönnu og Steingríms

Forsætisráðherra þjóðarinnar og fjármálaráðherranum hafa verið mislagðar hendur um flest.  Það finna heimilin og fyrirtækin í landinu á eigin skinni á degi hverjum. 

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar er aðeins enn ein birtingarmynd þess vanda sem ríkisstjórnin á við að etja.  Ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er ófær um að leysa þau verkefni sem henni hafa verið falin. 

Það sjá allir.

En vandi ríkisstjórnarinnar er víðtækari.  Hann snýr ekki einungis að íslensku þjóðinni heldur nær hann ekki síður út fyrir landssteinana.

Hvernig er til dæmis hægt að ætlast til þess að ráðamenn annarra þjóða sem við eigum í samskiptum og samningaviðræðum við, svo sem um aðild Íslands að Evrópusambandinu, geti tekið þessa ríkisstjórn Íslands alvarlega og tekið mark á yfirlýsingum hennar þegar staðfest er að hún nýtur ekki stuðnings eigin þjóðar og logar auk þess í innbyrðis átökum?

Og hversu trúverðugt er að fela Jóhönnu og Steingrími, eftir allt sem á undan hefur gengið, það verkefni að taka til varna fyrir Íslands hönd í hugsanlegum málaferlum við Breta og Hollendinga og halda í þeim fram málstað sem þau hafa fram til þessa ekki haft neina einustu sannfæringu fyrir og lögðu meira að segja til að við Íslendingar tækjum á okkur 500 milljarða króna ólögvarða kröfu frekar en að láta reyna á réttarstöðu okkar?  Myndi það ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar betur að fela öðrum þetta verkefni?

Það blasir við að nú ber þessu ágæta fólki skylda til að horfast í augu við veruleikann þá stöðu sem það er komið í.  Ríkisstjórnin getur ekki setið og látið eins og ekkert hafi í skorist.  Henni ber að boða nú þegar til kosninga í landinu.

Gjá milli þings og þjóðar

En krafan um kosningar snýr ekki bara að ríkisstjórninni.  Hún snýr að einnig að Alþingi.  Drjúgur meirihluti alþingismanna greiddi atkvæði sitt með Icesave-lögunum.  Þjóðin hafnaði þeim hins vegar með afgerandi hætti.  Það sýnir að gjá hefur myndast milli þings og þjóðar.  Þá gjá þarf að brúa og Alþingi þarf að endurheimta það traust sem nauðsynlegt er og augljóslega skortir.  Það verður aðeins gert í almennum þingkosningum.

Kjósa þarf um framtíðina

Í síðustu alþingiskosningum var kosið um fortíðina.  Nú þarf þjóðin að horfa fram veginn.  Stjórnmálaflokkarnir þurfa að leggja fyrir þjóðina þá stefnu sem þeir vilja byggja endurreisn þessa samfélags á til framtíðar og gefa henni tækifæri til að kjósa um framtíðina og ákveða hvert skal stefna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fer með þingrofsréttinn.  Nú skuldar hún þjóðinni svör við því hvenær hún hyggst óska lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og hvernær verður kosið til Alþingis?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


Vantrausti lýst á ríkisstjórnina og kosninga kafist

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði í dag fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og krefst þess að efnt verði til alþingiskosninga.

Vantrauststillöguna rökstyðjum við með eftirfarandi hætti:  

Sjálfstæðisflokkurinn lagði á alþingi í dag fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Þess er krafist að þing verði rofið 11. maí og boðað verði til kosninga hið fyrsta.

Algjör stöðnun ríkir í  atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir er ófær um að leysa þau verkefni sem henni hafa verið falin í stóru jafnt sem smáu.  Niðurstaða þjóðaratkvæða-greiðslunnar um liðna helgi er aðeins enn ein birtingarmynd þess vanda sem ríkisstjórnin á við að etja.

Við slíkar aðstæður og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi ber Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og efna til alþingiskosninga. 

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu liðinnar helgi snýr ekki einungis að ríkisstjórninni heldur einnig að alþingi.  Drjúgur meiri hluti alþingismanna studdi samningana með atkvæði sínu en þjóðin hafnaði þeim í almennum kosningum.  Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt fyrir alþingismenn að sækja sér nýtt umboð hjá þjóðinni og slíkt verður aðeins gert með almennum þingkosningum.  Slíkt skref af hálfu alþingis er mikilvægt til þess að skapa aukið traust á milli þings og þjóðar.

Lykillinn að viðreisn landsins er sá að skapa verðmæti.  Það þarf að greiða fyrir innlendri og erlendri fjárfestingu og sá fræjum fyrir uppskeru sem skilar sér í atvinnu á næstu árum. Íslenska þjóðin þarf sárlega á hagvexti að halda svo skapa megi störf handa þeim þúsundum Íslendinga sem nú ganga um atvinnulausir.  Ríkisstjórnin hefur reynst óhæf til þess að leysa þessi verkefni.  Sú stöðnun sem hún ber ábyrgð á og lýsa má sem almennu átaki hennar gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, hefur valdið gríðarlegu tjóni sem einungis mun aukast að óbreyttu. 

Listinn á þessu sviði er langur. Óvissa í rekstarumhverfi og fjandsamleg afstaða gagnvart fjárfestingum, auknir skattar og álögur, skuldavandi heimila og fyrirtækja viðvarandi og landflótti vegna atvinnuleysis. Á meðan fólk flýr land í leit að vinnu hafa Íslandi boðist fjölmörg  tækifæri til atvinnusköpunar frá erlendum fjárfestum. Þau verkefni hafa ekki hugnast ríkisstjórninni.

Ákvarðanir virðast teknar eftir geðþótta en ekki eftir stefnu eða þörfum þjóðarinnar.  Ríkisstjórnin hefur hvað eftir annað þvælst fyrir nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu á ólíkum stigum stjórnsýslu og engu skiptir einstaka ráðherra þótt þeir séu dæmdir fyrir þessar fráleitu tilraunir sínar.

Þessi ríkisstjórn hefur engan vilja til samstarfs, hvorki við aðila vinnumarkaðarins né á hinu pólitíska sviði. Berlega kom í ljós þegar ákvörðun var tekin á fundi Norður-Atlantshafsráðsins um að taka yfir hernaðaraðgerðir í Líbýu, að samráð er ekki haft milli flokkanna um mikilvægar ákvarðanir.   Öll sú orka sem fara á í að vinna þjóðinni gagn fer í innanflokksátök. Stjórnarflokkarnir eru jafnvel ósammála um þau mál sem þeir sjálfir leggja fram á Alþingi. Umsókn Íslands að Evrópusambandinu, fyrningarleið í sjávarútvegi og  fjárlög hafa orðið að deiluefni bæði innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.

Einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin,  hefur sett endurreisn landsins í gíslingu í einstrengingslegum tilraunum sínum til að þvinga þjóðina í Evrópusambandið - studd af vinstri grænum sem virðast láta sér vel líka - þrátt fyrir stefnu flokksins í aðra átt. Augljóst er, að aðild að ESB er í andstöðu við meginþorra þjóðarinnar og aðildarferlið einungis til þess fallið að auka enn frekar á sundrungu og erfiðleika hennar. 

Grunngildi og lög hafa verið virt að vettugi hjá stjórnarflokkunum.  Forsætisráðherra hefur brotið jafnréttislög og umhverfisráðherra var dæmdur fyrir lögbrot í tengslum við aðalskipulag Flóahrepps. Þá voru fyrstu almennu kosningarnar sem dæmdar voru ógildar haldnar á vakt þessarar ríkisstjórnar og í framhaldi sniðgekk hún niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. 

Ríkisstjórnina skortir stuðning og traust fólksins í landinu. Hún forgangsraðar ekki í þágu Íslendinga, skortir framtíðarsýn og skilning á því að í mannauði þjóðarinnar felast verðmætin.

Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að boðað verði til kosninga hið fyrsta.

Sigurður Kári.


Nei

Ég mun segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave.

Þegar greidd voru atkvæði um málið á Alþingi sagði ég líka nei og skoðun mín hefur ekki breyst.

Kjarni Icesave-málsins er sá að íslenska ríkinu ber engin skylda lögum samkvæmt til þess að gangast í ábyrgðir fyrir kröfum Breta og Hollendinga.

Um það eru allir lögfræðingar sammála, meira að segja þeir sem vilja segja já.

Og fyrst okkur ber engin skylda til þess að ábyrgjast þessar kröfur, hvers vegna ættum við að gera það?

Við þá sem óttast áhættuna af því að dómstólar skeri úr um árgreininginn milli Íslendinga, Breta og Hollendinga vil ég segja þetta:

Þeir sem helst þurfa að óttast niðurstöðu dómstóla í Icesave-málinu eru Bretar og Hollendingar, ekki Íslendingar.

Heldur einhver að þjóð eins og Bretar, sem hikuðu ekki við að beita Íslendinga, bandalagsþjóð sína í NATÓ, hryðjuverkalögum, myndu hika við það að draga okkur fyrir dómstóla ef þeir teldu sig eiga möguleika á sigri í slíku dómsmáli?

Auðvitað ekki.

Bretar væru fyrir löngu búnir að draga Íslendinga fyrir dómstóla ef þeir teldu sig eiga þangað eitthvað erindi og teldu sig hafa eitthvað ,,case" gegn okkur.

Það að Bretar hafi ekki dregið okkur fyrir dómstóla segir allt sem segja þarf.

Ég segi nei.

Sigurður Kári.


Hvar eru myndirnar af Jóhönnu og Steingrími?

Ég hef fylgst nokkuð spenntur með auglýsingum Áfram-hópsins sem berst fyrir því að Icesave-lögin verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn.

Það skal skýrt tekið fram að ég tilheyri ekki þeim hópi og styð ekki þann málstað sem hann berst fyrir.

Í yfirgripsmikilli auglýsingaherferð Áfram-hópsins hefur þeirri þekktu áróðursherferð verið beitt að birta myndir af fólki sem styður samþykkt laganna.

Reyndar hafa áróðursmeistarar hópsins bryddað upp á þeirri vafasömu nýjung að birta myndir af kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, án þess að hafa fyrir því að spyrja þá kurteisislega leyfis.

Allir sjá hver tilgangurinn með slíkum myndbirtingum er, þó efast megi um hversu vönduðum meðölum er þar beitt.

Í auglýsingaflóði Áfram-hópsins hefur eitt vakið sérstaka athygli mína, að undanskyldum hákarlinum.

Af einhverjum ástæðum hefur Áfram-hópurinn enn ekki séð ástæðu til að birta myndir af þeim sem lögðu Icesave-frumvarpið fram, börðust fyrir því og hafa mesta pólitíska hagsmuni af því að lögin verði samþykkt þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Það eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Hvers vegna birtir Áfram-hópurinn ekki myndir af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í auglýsingum sínum?

Ég efast um að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefði mikið á móti því að fá að birtast í einni auglýsingu eða tveimur, væri stemming fyrir því.

Getur verið að ástæðan sé sú að Áfram-hópurinn telur að það skaði málstaðinn að birta myndir af þessu ágæta fólki?

Sigurður Kári.


Stjórnleysi

Það ríkir stjórnleysi og stjórnmálakreppa á Íslandi.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti forsætisráðherra var sagt að rómaðir verkstjórnarhæfileikar hennar myndu koma að góðum notum við erfiðar aðstæður í kjölfar efnahagshruns.

Nú tveimur árum síðar hefur komið í ljós að verkstjórinn er ekki starfi sínum vaxinn og geta Jóhönnu til að stýra þjóðarskútunni stórlega ofmetin.

Þar nægir einungis að líta til síðustu daga í lífi þessarar ríkisstjórnar.  Óhætt er að segja að þeir hafa ekki verið neinn dans á rósum.

Raunar hefur ríkisstjórninni verið mislagðar hendur allt frá því að hún tók við.

En það hefur verið beinlínis átakanlegt að fylgjast með ríkisstjórn Jóhönnu síðustu 10 daga eða svo.

1. Í byrjun síðustu viku missti ríkisstjórnin tvo þingmenn, þau Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason, fyrir borð. Því haldið fram að það styrkti ríkisstjórnina.

2. Í kjölfarið komst kærunefnd jafnréttismála að því að Jóhanna Sigurðardóttir hefði brotið jafnréttislög. Stuðningsmenn hennar hafa reyndar reynt að gera lítið úr því og reynt af veikum mætti að sannfæra almenning um að um ,,faglegt lögbrot" hafi verið að ræða.

3. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsti andstöðu við frumvarp eigin ríkisstjórnar um breytingar á stjórnarráðinu og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gerði alvarlega fyrirvara frumvarpið.

4. Stjórnlagaráði var komið á fót með minnihluta atkvæða þingmanna og án stuðnings forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, og tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, Jóns Bjarnasonar og Ögmundar Jónassonar.

5. Ríkisstjórnin festi gjaldeyrishöft í sessi til ársins 2015, við litlar vinsældir, og rammaði þar inn vantrú sína á eigin hagkerfi.

6. Vinstri grænir komust á lista hinna viljugu og staðföstu vegna hernaðaraðgerðanna í Líbíu, fyrir tilstuðlan Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra.

Þær aðgerðir styður Össur, en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og félagar hans í Vinstri grænum ekki og segjast nú ekki hafa verið spurður álits.

Fyrir utanaðkomandi virðist sem utanríkisráðherrann sé  í annarri ríkisstjórn en fjármálaráðherrann.  Og sjávarútvegsráðherrann er upp á kant við þá báða!

7. Heilbrigðiskerfið er í uppnámi, þar sem samningar sérfræðilækna eru að renna út og ekkert sem bendir til þess að við þá verði samið.

8. Og Samtök atvinnulífsins gáfust upp á ríkisstjórninni og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru upp í loft.

Svona voru síðustu dagar í lífi þessarar ríkisstjórnar og hefur þá ekkert verið minnst á það að hér ganga 14 þúsund manns atvinnulausir, fyrir utan þá sem flúið hafa land, hagvöxtur er enginn, skuldavandi heimilanna virðist viðvarandi og svo mætti lengi telja.

Vera kann að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sitji fastur við sinn keip og haldi því fram að allt þetta hafi styrkt ríkisstjórnina.

Við öðrum blasir við að það ríkir algjört stjórnleysi í landinu.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma til ráðherra á Alþingi í gær lýsti ég þessari skoðun minni við sjálfan verkstjórann, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Ég bað hana útskýra fyrir mér, væri hún mér ósammála, hvað fælist í hugtakinu ,,stjórnleysi" ef ofangreint gerði það ekki.

Ég fékk þau svör frá forsætisráðherranum að hér ríkti ekkert stjórnleysi.  Ríkisstjórnin hefði náð gríðarlegum árangri og að allt væri á réttri leið.

Mér varð því ekki að ósk minni um að fá skýringu á hugtakinu ,,stjórnleysi".

En Jóhönnu tókst ljómandi vel að útskýra fyrir mér hugtakið ,,fullkomin afneitun".

Sigurður Kári.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband