Veikt stjórnlagaráð

Tillaga um að skipa stjórnlagaráð var samþykkt á Alþingi í dag með einungis 30 atkvæðum.

Það þýðir að minnihluti alþingismanna greiddi tillögunni atkvæði sitt.

Það vakti athygli að tveir ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur greiddu tillögunni ekki atkvæði sitt, þeir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, studdi heldur ekki tillöguna.

Ég efast ekki um að þennan dræma stuðning við tillöguna með skýra með því að með henni var lagt til að niðurstaða Hæstaréttar Íslands um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings yrði að engu höfð og þannig látið að æðsti dómstóll landsins hefði aldrei fjallað um málið.

Um það voru allir þeir sérfræðingar sem um málið fjölluðu fyrir allsherjarnefnd Alþingis sammála.

En á þá var ekki hlustað og nú liggur niðurstaðan fyrir.

Eins og minn gamli prófessor, Sigurður Líndal, benti á grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið hinn 17. mars sl., þá er þetta ekki burðugt upphaf né gott veganesti í því mikilvæga verkefni sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar á Alþingi í dag sýnir hversu vanhugsuð sú hugmynd að skipa stjórnlagaráð á rústum stjórnlagaþingsins var.  Um hana var engin samstaða á Alþingi og um hana er engin samstaða í samfélaginu.  Í raun má segja að stjórnlagaráðið sé andvana fætt.

Nú bíður þeirra 25 einstaklinga sem hlutskarpastir voru í stjórnlagaþingskosningunum, sem síðar voru ógiltar, það erfiða hlutskipti að ákveða hvort þeir hyggist taka sæti í hinu nýja stjórnlagaráði í skugga niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og þeirra hörðu deilna sem um það hafa risið.

Þeir sem það gera þurfa að gera sér grein fyrir því að í ljósi þess hvernig til stjórnlagaráðsins er stofnað, og ekki síður í ljósi þess að einungis minnihluti alþingismanna samþykkti á endanum að koma því á fót, veikir mjög umboð þess.

Það sjá allir.

Sigurður Kári.


Tvískinnungur Vinstri grænna

Nú berast ályktanir frá flokksfélögum Vinstri grænna í Suðurkjördæmi þar sem skorað er á Atla Gíslason að segja af sér þingmennsku eftir að hann og Lilja Mósesdóttir ákváðu að segja skilið við þingflokk Vinstri grænna.

Vinstri grænir segja að Atli eigi að sjá sóma sinn í því að hverfa af þingi þar sem hann sitji þar ekki lengur í umboði þeirra sem hann kusu.

Ég spyr:  En hvað með Þráinn Bertelsson?

Þráinn situr í þingflokki Vinstri grænna þrátt fyrir að vera ekki kjörinn á þing fyrir þann flokk. 

Fyrir þá sem ekki muna var Þráinn Bertelsson kjörinn á þing fyrir Borgarahreyfinguna sem síðan sprakk í loft upp og varð að Hreyfingunni.

Hann sat reyndar á Alþingi um skamma hríð sem óháður þingmaður áður en hann gekk til liðs við þingflokk Vinstri grænna.

Ekki varð ég var við að sú ákvörðun Þráins að ganga til liðs við þingflokk Vinstri grænna hafi valdið miklu uppnámi í flokksfélögum Vinstri grænna.  Ekki einu sinni í félögunum í Suðurkjördæmi.  Þá samþykktu Vinstri grænir engar ályktanir, heldur fögnuðu liðstyrknum.

En nú er allt annað hljóð komið í strokkinn.

Er sem sagt í lagi að þingmenn úr öðrum flokkum gangi í þingflokk Vinstri grænna, en ekki úr honum?

Það sjá allir tvískinnunginn í þessum málflutningi.

Sigurður Kári.


Sigurður Líndal hefur lög að mæla

Minn gamli prófessor, Sigurður Líndal, skrifar afdráttarlausa og skýra grein í Fréttablaðið í dag, undir yfirskriftinni ,,Stjórnlagaráð - til upprifjunar".

Þar fjallar hann um þá tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að skipað verði stjórnlagaráð í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til stjórnlagaþings.

Í grein sinni segir Sigurður:

"Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skal Hæstiréttur skera úr um gildi kosninga fulltrúa á þingið. Þetta gerði Hæstiréttur með ákvörðun 25. janúar 2011 og lýsti kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 ógilda.

Ákvörðun Hæstaréttar verður ekki hnekkt og með lagasetningu sinni fól Alþingi æðsta handhafa dómsvaldsins endanlegt úrskurðarvald Ákvörðun Hæstaréttar er því í reynd hæstaréttardómur eða að minnsta kosti ígildi slíks dóms.

Nú liggur fyrir þingsályktun um að skipa 25 manna stjórnlagaráð og binda skipun þeirra og varamanna við þá sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings eða með öðrum orðum binda kjörið við hóp manna sem hlutu ógilda kosningu og eru því umboðslausir.

Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins.

Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni, eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald.

Ekki bætir úr þótt einhverjar málamyndabreytingar séu gerðar á hlutverki stjórnlagaráðs frá því sem ákveðið var um stjórnlagaþing.

Það má svo sem segja að þetta sé í samræmi við það sem nú tíðkast í umgengni við lög og reglur, jafnt í stjórnmálum sem atvinnulífi.

En gott væri að þeir sem hyggjast taka sæti í stjórnlagaráði hugleiddu stöðu sína og þá jafnframt hvort þetta sé gæfuleg byrjun á því að setja nýja stjórnarskrá."

Sigurður Líndal hefur lög að mæla.

Óskandi væri að alþingismenn og ráðherrar tækju mark á þessum skrifum prófessorsins.

Sigurður Kári.


Ofurskattar og yfirboð

Nú er hafin einkennileg samkeppni milli stjórnmálamanna á vinstrikantinum.

Sú samkeppni gengur út á það hver þorir að ganga lengst í skattheimtu gagnvart fólki á Íslandi.

Á mánudaginn lagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri grænna, til að tekjuskattur á tekjur yfir einni milljón króna yrði 60-70%.  Lilja hefur greinilega verið í læri hjá Indriða H. Þorlákssyni því henni tókst finna skattinum nýtt og ferskt nafn, ,,stríðsskatt".

Og það var eins og við manninn mælt.

Fram á sjónarsviðið braust Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi ganga lengra og yfirbauð Lilju.  Hún sagðist treysta því að ríkisstjórnin myndi strax leggja fram lagafrumvarp sem tryggði að ríkið tæki 70-80% í skatta af tekjum yfir 1.200 þúsund krónum.

Og undir þessi sjónarmið hafa Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, tekið.

Það kemur mér ekki á óvart.

Tekjur sem nema einni milljón króna á mánuði eru vissulega háar. 

Þrátt fyrir það sé ég enga réttlætingu fyrir þeirri skattpíningu sem þingkonurnar tala fyrir.  Slíkir ofurskattar eru óskynsamlegir og skaðlegir og munu engu skila öðru en meiri óánægju í samfélaginu, landflótta auk þess sem þeir hafa letjandi áhrif á getu fólks og vilja til þess að auka tekjur sínar.

Nái þær hins vegar vilja sínum fram er mikilvægt að átta sig á því að slík ofurskattlagning myndi ekki einungis ná til Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, og Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og ýmissa annarra bankamanna sem vilji stendur til að greiði enn hærri skatta en þeir gera nú.

Fleiri fengju að finna fyrir því og þá ekki einungis þeir ríkisforstjórar sem starfa í umboði núverandi ríkisstjórnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem sumum íslenskum vinstrimönnum er mjög í nöp við um þessar mundir, væri einn þeirra, svo dæmi sé tekið.

Forstjórar stærstu fyrirtækja landsins myndu væntanlega flestir verða þessum ofursköttum að bráð og líklega einhverjir millistjórnendur einnig.  Sjómenn, læknar, verkfræðingar, flugstjórar, lögfræðingar og einhverjir fjölmiðlamenn einnig svo dæmi séu tekin.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar hugmyndir um ofurskatta eru settar fram, að því er virðist í fyllstu alvöru.

Þá er ekki síður mikilvægt að hafa í huga hver reynsla þeirra ríkja hefur verið sem farið hefur þessa leið í skattheimtu í gegnum tíðina.

Þegar Bítlarnir nutu hvað mestra vinsælda um heim allan voru þeir John, Paul, George og Ringo ekki þeir stóreignamenn sem flestir héldu.  Ástæðan var sú að þeir þurftu að greiða 97% af tekjum sínum í ríkissjóð.

Það leiddi auðvitað til þess að þeir hrökluðust frá Bretlandi, en sömdu í tilefni af aðför breskra skattyfirvalda að sér óðinn Taxman, sem naut mikilla vinsælda.

Sama má segja um tekjuhæstu afreksmenn Svíþjóðar í íþróttum og listum.  Meðan skattpíningin var sem mest þar í landi voru helstu stjörnur Svía á öllum sviðum með lögheimili í furstadæminu Mónakó eða í sambærilegum lágskattasvæðum.

Verst úti í skattkerfi Svía varð rithöfundurinn Astrid Lindgren sem var gert að greiða 102% tekna sinna til sænska ríkisins.

Grein sem Lindgren ritaði í Expressen árið 1976 um þessa ofurskattlagningu varð til þess að skattkerfinu í Svíþjóð var breytt.

En nú, rúmum þrjátíu árum síðar, skjóta sambærilegar hugmyndir upp kollinum á Íslandi og það þarf engum að koma á óvart að þær komi af vinstrivængnum.

Og þó svo að ég sé þeirrar skoðunar að íslenskum vinstrimönnum séu mislagðar hendur um flest, þá mega þeir eiga það sem þeir eiga, þ.e. ákaflega fjörugt ímyndunarafl þegar kemur að því að kokka upp aðferðir til þess að hækka skatta á fólkið sitt.

Sigurður Kári.


Á svig við Hæstarétt Íslands

Þrír þingmenn þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi, Samfylkingar, Vinstri grænna og Hreyfingar, hafa nú lagt fram tillögu á Alþingi þar sem lagt er til að skipað verði 25 manna stjórnlagaráð sem ætlað er að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni.
 
Þingmennirnir leggja til að Alþingi hafi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstóls landsins, um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings, að engu.
 
Ógild kosning
 
Rifjum upp að það var kosið til stjórnlagaþings á síðasta ári.  Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna bryti í bága við lög landsins.  Þess vegna var kosningin ógilt og í kjölfarið kjörbréf þeirra sem bestum árangri náðu.  Kosningin hafði því ekkert gildi að lögum.
 
Engu að síður leggja þingmennirnir nú til að áfram skuli haldið eins og ekkert hafi í skorist.  Þeir 25 einstaklingar sem hlutskarpastir voru í hinum ógildu kosningunum, og hafa þar af leiðandi ekki lengur kjörbréf frá landskjörsstjórn upp á vasann, skuli engu að síður taka sæti á þessari samkomu, sem nú verður gefið annað nafn, stjórnlagaráð.  Verkefni þeirra verður það sama og launakjör væntanlega óbreytt.
 
Grafið undan Hæstarétti
 
Það blasir auðvitað við öllum að með tillögu sinni eru þingmennirnir að leggja til að Alþingi fari á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og hafi hana að engu.  Það sjá ekki bara pólitískir andstæðingar þingmannanna.  Undir þá skoðun hafa tveir lagaprófessorar við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík tekið.  Það hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi, eðlilega líka gert, enda getur hann ekki annað.  Dómsmálaráðherra landsins getur ekki stutt tillögu sem hefur það að markmiði að hafa niðurstöðu æðsta dómstóls landsins að engu.  Hann getur ekki tekið þátt í því að grafa undan Hæstarétti með þessum hætti.  Það segir sig sjálft.
 
Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að á Alþingi Íslendinga fyrirfinnist fólk sem sér enga ástæðu til þess að farið sé að niðurstöðum Hæstaréttar.  Enn alvarlegra er að þingmennirnir virðast njóta liðsinnis og stuðnings forsætisráðherra og fjármálaráðherra landsins við þennan fráleita tillöguflutning.
 
Æskilegt fordæmi?
 
Þeir alþingismenn sem flytja eða ætla að styðja tillöguna um stjórnlagaráð, eins og hún er fram sett, verða að svara þeirri spurningu hvort þeir telji yfir höfuð að það sé ástæða til þess að hér á landi sé starfræktur Hæstiréttur.  Afstaða þeirra til niðurstöðu dómstólsins í stjórnlagaþingsmálinu hlýtur að benda til þess að þeir telji hann óþarfan, fyrst þeir sjá ekki ástæðu til að fara að niðurstöðum hans.
 
Þar við bætist sú skammsýni sem í tillögunni felst.
 
Hvernig geta þeir alþingismenn sem að tillögunni standa ætlast til þess að almenningur á Íslandi hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum, ætli þeir sér ekki að gera það sjálfir í þessu?
 
Þeirri spurningu verða þingmennirnir auðvitað að svara.
 
Og hvað ætli yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til Alþingis, en hópur manna myndi engu að síður ákveða að þeir sem bestum árangri næðu í hinni ógildu kosningu myndu engu að síður taka sæti á Alþingi, sem starfa ætti það kjörtímabilið en undir nýju nafni?
 
Það hefði verið full ástæða fyrir þingmennina og þá sem styðja tillöguflutning þeirra að velta því fyrir sér hvaða fordæmi þeir eru að setja til framtíðar.
 
Stjórnmál í ógöngum
 
Hafi Ísland glatað trausti umheimsins í efnahagshruninu er þessi tillöguflutningur ekki til þess fallinn að endurheimta það traust sem glatast hefur.
 
Sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga felast að minnsta kosti í því að fréttir af því að hópur alþingismanna leggi það til við Alþingi að niðurstöður Hæstaréttar Íslands verði að engu hafðar berist ekki langt út fyrir landsteinana.
 
Slíkur fréttaflutningur myndi endurspegla með skýrum hætti í hversu miklar ógöngur stjórnmál á Íslandi hafa ratað. 
 
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


Minning: Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður

Góður og kær vinur, Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður, var jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag.

Í tilefni að því skrifaði ég minningargrein um Guðmund Ingva sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

Með hlýhug og söknuði kveð ég Guðmund Ingva Sigurðsson, hæstaréttarlögmann, sem nú er fallinn frá.

Guðmundi Ingva kynntist ég þegar ég réð mig til starfa á lögmannsstofu hans, Lex, í kjölfar útskriftar frá lagadeild Háskóla Íslands.  Þegar ég hóf minn lögmannsferil hafði Guðmundur Ingvi stundað lögfræðistörf í hálfa öld og rekið og flutt mörg af umtöluðustu og umfangsmestu dómsmálum sögunnar.  Það var ómetanlegt fyrir ungan lögfræðing sem var að stíga sín fyrstu skref í faginu að eiga óheftan aðgang að slíkum viskubrunni sem Guðmundur Ingvi var.  Frá fyrsta degi mínum í því starfi tók hann mér einstaklega vel og alla tíð fann ég fyrir miklum velvilja og hlýhug frá honum í minn garð.  Hann reyndist mér alla tíð afar vel og fyrir það verð ég honum ávallt þakklátur.

Guðmundur Ingvi var hlýr maður og einlægur.  Hann hafði ríka réttlætiskennd og fann til mikillar samúðar með þeim sem áttu undir högg að sækja.

Fáum mönnum hef ég kynnst sem hafa haft jafn mikinn áhuga á fólki og fyrirbærum úr öllum kimum samfélagsins eins og Guðmundur Ingvi.  Hann var þeirrar gerðar að hann gerði aldrei upp á milli manna, hvort sem þeir höfðu notið velgengni í lífinu eða ekki.

Meðan við störfuðum saman ræddum við Guðmundur Ingvi oft um pólitík.  Hann vissi hvar ég hafði staðsett mig á þeim vettvangi, en aldrei vissi ég hvar hann stóð, þó ég hafi gert mér upp hugmyndir um það.  En ég lét mér það alltaf í léttu rúmi liggja.  Mannkostir hans voru þess eðlis að það skipti mig engu máli.

Guðmundur Ingvi  var bráðfyndinn og skemmtilegur maður, eins og hann átti kyn til, og gerði óspart grín að samferðamönnum sínum, en ekki síður að sjálfum sér.  Það var alltaf jafn skemmtilegt umgangast hann og hlusta á allar sögurnar sem hann hafði á hraðbergi. 

Um leið og ég sendi fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum mínar innilegustu samúðarkveðjur vil ég þakka fyrir það að hafa verið svo lánsamur að hafa fengið að kynnast og starfa með þessum merka manni, eiga með honum samleið og í honum góðan vin.

Guð blessi Guðmund Ingva Sigurðsson.  Hans mun ég alltaf minnast af miklum hlýhug og þakklæti.

Sigurður Kári.


Jóhanna krafðist skattalækkana á bensín árið 2006

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skrifaði harðorðan pistil á heimasíðu Samfylkingarinnar hinn 4. maí 2006.

Þar barðist hún eins og ljón fyrir því að skattar á bensín yrðu lækkaðir strax, enda stefndi í mikið óefni.  Bensínlíterinn gæti farið í 150 krónur og við því yrði að bregðast fyrir heimilin í landinu.

Pistillinn er holl lesning, ekki síst fyrir núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, nú þegar verð á bensínlítranum stefnir í 230 krónur, en eins og kunnugt er hafa þau ekki uppi nein áform um að lækka skatta á bensíni og díselolíu, heldur ætlar Steingrímur að láta við það sitja að skipa nefnd.

Pistill Jóhönnu frá árinu 2006 var svohljóðandi (undirstrikanir eru mínar):

,,Lækkum strax bensínverð

Fjármálaráðherra hefur lagt til á Alþingi að tímabundin lækkun á dísilolíu um 4 kr. til að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísílolíu verði framlengd til áramóta.

Óskiljanlegt er af hverju ráðherrann leggur ekki til tímabundna lækkun á bensíni einnig, sem myndi hafa áhrif til að slá á verðbóluna.  Ef vörugjald af bensíni yrði lækkað tímabundið til n.k. áramóta um 7-8 kr. þá hefði það 0,4% áhrif til lækkunar á vísitölunni.  Jafnframt myndi það lækka útfjöld heimilanna vegna bensínkostnaðar um 750 milljónir króna.  Þrátt fyrir slíka lækkun myndi ríkissjóður engu að síður auka tekjur sínar af bensíni um 500 milljónir m.v. það sem áætlað var í fjárlögum þessa árs.  Væntanlega mun ríkissjóður hagnast enn meira á bensínokrinu og hefur t.d. framkvæmdastjóri FÍB nefnt að hugsanlega gæti bensínlítrinn farið í 150 kr.  Þingmenn Samfylkingarinnar munu á Alþingi leggja fram breytingartillögu við frumvarp fjármálaráðherra þessa efnis, þannig að þingheimur mun þurfa að taka afstöðu til bensínlækkunar á yfirstandandi þingi.

Útgjaldaauki 40.000 á hvern fjölskyldubíl

Ef samstaða næðist á Alþingi um að fara þá leið sem Samfylkingin leggur til þannig að bensínlítrinn lækkaði um 7-8 kr. þá er bensínlítrinn nú milli 14-15 krónur yfir meðalverði á liðnu ári.  Bensínlítrinn hér á landi er með því hæsta í heimi og er skýringin á því ofurskattar ríkisins á bensíni sem hirðir meira en 60% af útsöluverði bensíns í ríkissjóð.  Skattar ríkissjóðs af bílum og umferð voru áætlaðir um 40 milljarðar á s.l. ári en fór í 47 milljarða m.a. vegna gífurlegra hækkana á eldsneyti.  M.v. bensínverð í dag þá hækka útgjöld vegna meðal fjölskyldubíls yfir eitt ár um 40.000 og þarf að auka vinnutekjur um ca 64 þúsund krónur yfir árið til að standa undir hækkuninni einni og sér.

Blóðmjólkaðir bifreiðaeigendur

Í því verðbólguskeiði sem nú gengur yfir, sem m.a. hækkar skuldir og afborganir og rýrir verulega kjör heimilanna er auðvitað einboðið að fara þá leið að lækka tímabundið skatta á bensín.  Ekki síst er það nauðsynlegt því það myndi hjálpa verulega til að draga úr verðbólgunni og skila sér í bættri afkomu heimila og fyrirtækja.  Þessi leið var einmitt valin af ríkisstjórninni árið 2002 með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði væru umtalsverð og gætu stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.  Hafi þessi rök átt við þá eiga þau ekki síður við nú árið 2006, þegar bensínhækkanir eru enn meiri en þær voru árið 2002 og engin sér nú fyrir endann á þeirri verðhækkunarhrinu, sem m.a. gætu stofnað kjarasamningum í hættu síðar á árinu líkt og gerðist árið 2002.  Skattaokrinu á eldsneyti verður að linna.  Ríkissjóður getur ekki endalaust blóðmjólkað bifreiðaeigendur."

Svo mörg voru þau orð.

Hafi þau átt við árið 2006 eiga þau enn frekar við í dag.

Nú er Jóhanna Sigurðardóttir í kjörstöðu til þess að standa við stóru orðin.

Spurningin er bara þessi:  Skipti hún um skoðun við það að verða forsætisráðherra?

Sigurður Kári.


Þingmaður Framsóknarflokksins snýst í hringi

Ekki eru þær burðugar útskýringarnar sem Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, býður upp á þegar hann reynir að rökstyðja hvers vegna hann ákvað að vera ekki flutningsmaður eigin tillögu og nokkurra annarra þingmanna um ,,stjórnlagaráð".

Höskuldur var einn þeirra þingmanna sem mynduðu meirihluta samráðshóps sem komst að þeirri niðurstöðu að sú leið skyldi farin í stað þess að slá stjórnlagaþingið af eða boða til nýrra kosninga.

En nú ber svo við að þingmaðurinn treystir sér ekki til þess að flytja eigin tillögu á Alþingi.

Í viðtali við Höskuld í Morgunblaðinu í dag vísar Höskuldur á ríkisstjórnina og segir að hann hefði kosið að hún hefði flutt málið á Alþingi, þ.e. lagt tillöguna fram.

Full ástæða er til þess að benda Höskuldi Þórhallssyni á að tillagan um stjórnlagaráð er þingsályktunartillaga, þ.e. tillaga Alþingis um að forseta Alþingis verði falið að skipa þá 25 sem hlutskarpastir urðu í kosningu sem Hæstiréttur Íslands komst að niðurstöðu um að bryti gegn landslögum í stjórnlagaráð, þrátt fyrir niðurstöðu æðsta dómstól landsins.

Og þá vaknar þessi spurning: 

Hvernig getur það talist eðlilegra að framkvæmdavaldið, þ.e. ríkisstjórnin, leggi fram og mæli fyrir tillögu, sem er tillaga Alþingis, en að alþingismenn geri það sjálfir?

Rifjum það upp að þingmenn hafa á síðustu missirum lagt mikla áherslu á að staða Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu verði styrkt.

Í þeirri umræðu hefur Höskuldur Þórhallsson ekki dregið neitt af sér og talað máli Alþingis.

Með því að útskýra fjarveru sína á tillögu Alþingis um stjórnlagaráð virðist þingmaðurinn í fljótu bragði nú hafa skipt um skoðun.

Útskýringar hans verða a.m.k. ekki túlkaðar öðruvísi en þannig að hann telji eðlilegra að ráðherrar leggi fram og mæli fyrir tillögum Alþingis en að alþingismenn geri það sjálfir.

Ég trúi því hins vegar ekki að Höskuldur hafi skipt um skoðun og sé nú skyndilega orðinn talsmaður framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Ég vil að hann njóti vafans.

Ég held að afstöðu hans megi frekar skýra út með því að það séu farnar að renna á hann tvær grímur um ágæti eigin tillögu um að skipað verði stjórnlagaráð á rústum stjórnlagaþingsins.

Sigurður Kári.


Hver hótaði forsetanum?

Á fimmtudaginn spurði ég Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi að því hvort hún hefði hótað Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, afsögn sinni eða að ríkisstjórnin færi frá staðfesti forsetinn ekki Icesave-lög ríkisstjórnarinnar.

Svar Jóhönnu var nei.

Hún aftók með öllu að hafa haft í slíkum hótunum við forsetann.

Tilefni þessarar fyrirspurnar minnar til forsætisráðherrann voru ummæli sem Ólafur Ragnar lét falla í viðtali í Silfri Egils, sunnudaginn 13. febrúar sl., viku áður en hann synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.  Þar sagði forsetinn m.a.:

,,Ég tel auðvitað æskilegast að við finnum eitthvert form þá þar sem þessi ákvörðun hvílir ekki bara á einum manni.  Þetta er ekkert létt byrði að bera, að láta öll spjót standa á sér, láta ráðherra hóta sér að segja af sér, eða ríkisstjórnin fari frá, og svo framvegis og ég veit ekki hvað og hvað, og stefna þjóðinni í efnahagslegar ógöngur og allt þetta sem sagt er við forsetann ef hann taki þessa ákvörðun."

Ég trúi því ekki að forseti Íslands hafi látið þessi orð falla að tilefnislausu.  Slíkt er einfaldlega óhugsandi.

Við blasir að einhver ráðherranna hótaði forsetanum afsögn sinni og/eða því að stjórnin færi frá synjaði forsetinn Icesave-lögum ríkisstjórnarinnar staðfestingar.

Vandinn er hins vegar sá að nú vill enginn  gangast við þeim hótunum.

Allir sem fylgjast með stjórnmálum vita að slíkar hótanir setja ekki aðrir fram en forystumenn stjórnarflokkanna.

Það gera einstakir fagráðherrar ekki.  Ég sé að minnsta kosti ekki Jón Bjarnason eða Guðbjart Hannesson fyrir mér ganga til Bessastaða með slíkar hótanir í farteskinu.

En Jóhanna kannast ekkert við slíkt og ekki heldur Steingrímur J. Sigfússon.

Það blasir við að öll saga þessa máls hefur enn ekki verið sögð.

Ég tók eftir því að svar Jóhönnu við fyrirspurn minni við fyrirspurn minni var borið undir forseta Íslands á fimmtudaginn.

Hann neitaði að tjá sig.

Þau viðbrögð eru út af fyrir sig athyglisverð.  Ólafi Ragnari hefði verið í lófa lagið að staðfesta að svar Jóhönnu við fyrirspurn minni væri rétt hefði hann séð ástæðu til þess.

En það gerði hann ekki, sem vekur upp spurningar.

Það er auðvitað nauðsynlegt að upplýst verði í eitt skipti fyrir öll hver það var sem hafði í hótunum við forsetann með þeim hætti sem hann sjálfur hefur líst.

Og á meðan það hefur verið upplýst búum við Íslendingar ekki einungis við ríkisstjórn sem stendur ekki við loforð sín, heldur læðist að manni sá grunur að þjóðin sitji nú uppi með svo auma ríkisstjórn að hún getur ekki einu sinni staðið við hótanir um eigin afsögn!

Sigurður Kári.


Grafið undan Hæstarétti Íslands

Af þeim kostum sem í boði voru, eftir að Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda, ákvað meirihluti samráðsnefndar um stjórnlagaþing að velja þann versta.

Með því að leggja til að skipað verði svokallað ,,stjórnlagaráð", skipað þeim 25 einstaklingum sem hlutskarpastir voru í kosningum til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur dæmdi ógildar, eru þeir alþingismenn sem að þeim tillöguflutningi standa að leggja það til að Alþingi fari á svig við ákvörðun æðsta dómstól Íslands og hafi hana að engu.

Undir þá skoðun taka lagaprófessorarnir Róbert R. Spanó og Ragnhildur Helgadóttir í fjölmiðlum í dag.

Tillaga þingmannanna um ,,stjórnlagaráð" er ekkert annað en fráleit.

Maður hlýtur auðvitað að velta því fyrir sér hvort þeir sem styðja tillöguna eða standa að henni telji yfir höfuð að það sé ástæða til þess að hér á landi sé Hæstiréttur?

Það fyrirfinnst að minnsta kosti fólk á Alþingi sem sér enga ástæðu til þess að eftir niðurstöðum hans sé farið.

Það eitt og sér er mjög alvarlegt, en afstaða þeirra hlýtur að benda til þess að það telji dómstólinn óþarfan, fyrst ekki sé ástæða til að fara að niðurstöðum hans.

Við skulum rifja það upp að hér var kosið til stjórnlagaþings.  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna bryti í bága við lög landsins.  Þess vegna var kosningin ógild og kjörbréf þeirra sem bestum árangri náðu ógilt.

Kosningin hafði því ekkert gildi, stjórnlagaþingið var ekki sett á stofn og þeir sem flest atkvæði fengu eru umboðslausir.

Samt sem áður eru til alþingismenn sem telja að þessi skýra niðurstaða skipti engu máli.  Það sé engin ástæða til þess að hlusta á æðsta dómstól landsins.  Úr því að niðurstaða Hæstaréttar var þeim ekki þóknanleg þá er lagt til að stjórnlagaþingið fái bara nýtt nafn og fulltrúarnir með ógildu kjörbréfin sín taki til við að skrifa nýja stjórnarskrá eins og ekkert hafi í skorist!

Hafi Ísland glatað trausti umheimsins af öðrum ástæðum er þessi tillöguflutningur ekki til þess fallinn að endurheimta það traust.

Sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga felast að minnsta kosti í því að fréttir af þessum tillöguflutningi berist ekki langt út fyrir landsteinana.

Við þetta allt saman bætist svo að sú ætlan þingmannanna að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands lýsir einstaklega mikilli skammsýni af þeirra hálfu.

Hvernig geta þessir alþingismenn ætlast til þess að almenningur í þessu landi hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum ætli þeir sér ekki að gera það sjálfir í þessu?

Þessari spurningu verða þingmennirnir að svara.

Og hvað ætli að yrði sagt ef Hæstiréttur Íslands myndi ógilda kosningar til Alþingis, en engu að síður yrði ákveðið að þeir sem bestum árangri náðu í hinni ógildu kosningu myndu engu að síður taka sæti á Alþingi, sem gefið yrði nýtt nafn?

Það hljóta allir að sjá fáránleikan í þessum tillöguflutningi.

Það gerir að minnsta kosti Ögmundur Jónasson.  Það má hann eiga, enda er Ögmundur innanríkisráðherra og þar með æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi.

Ögmundur hefur líst því yfir að hann ætli ekki að styðja tillögu þingmannanna um að komið verði á ,,stjórnlagaráði".  Enda getur hann það ekki af þeirri einföldu ástæðu að dómsmálaráðherra landsins getur stöðu sinnar vegna ekki stutt tillögu sem hefur það að markmiði að hafa niðurstöður æðsta dómstóls landsins að engu.

Nú stendur upp á að þingmenn á Alþingi Íslendinga að svara þeirri spurningu hvort þeir ætla að taka þátt í því að grafa undan æðsta dómstóli landsins með þeim hætti sem nú lagt er til eða ekki.

Ég hef að minnsta kosti gert upp minn hug.

Ég mun standa vörð um Hæstarétt Íslands og réttarkerfið í landinu og gegn tillögunni.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband