Skjaldborg ríkisstjórnarinnar um erlenda vogunarsjóði og spákaupmenn

Nú hefur verið upplýst að þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar endureisti viðskiptabankana eftir hrun ákvað hún að slá skjaldborg um erlenda vogunarsjóði og erlenda spákaupmenn, en snéri baki við almenningi og fyrirtækjum á Íslandi.

Þetta kemur fram í skýrslu Steingríms J. Sigfússonar um endurreisn viðskiptabankanna, sem rædd var á Alþingi í dag.

Ég tók þátt í umræðunni en ræða mín var svohljóðandi:  

Virðulegi forseti.

Alvarlegustu fréttirnar fyrir almenning í þessu landi sem finna má í skýrslu fjármálaráðherra eru þær að nú er komið í ljós að eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum í febrúar árið 2009 varð grundvallarstefnubreyting íslenskra stjórnvalda varðandi endurreisn bankakerfisins.

Sú stefnubreyting reyndist íslenskum almenningi dýrkeypt.  Fólkið í landinu er enn að súpa seyðið af henni og hefur þurft að gjalda hana dýru verði.

Þessi svarta skýrsla sem við ræðum hér í dag er dapurlegur vitnisburður um afdrifarík mistök og afglöp núverandi ríkisstjórnar sem því miður verða ekki aftur tekin, en hljóta að hafa afleiðingar.

Virðulegi forseti.

Það þarf ekki að lýsa því í mörgum orðum hvað varð um viðskiptabankana þrjá eftir hrun.

Þeim var skipt upp í gamla banka og nýja.

Við þessar aðgerðir voru skuldabréfasöfn bankanna, þ.e. lán heimila og fyrirtækja, flutt úr gömlu bönkunum og í þá nýju með miklum afslætti eða afskriftum sem námu líklega 60-70%, hvorki meira né minna.

Þessi afsláttur helgaðist annars vegar af því að talið var að dómstólar myndu líklegast dæma gengistryggð lán, sem höfðu stökkbreyst, ólögleg, eins og síðar kom í ljós, og hins vegar lá fyrir að hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu myndu geta staðið skil á nema hluta þeirra.

Skýrslan verður ekki skilin öðruvísi en að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði ákveðið að láta þessi miklu afsláttarkjör renna til íslenskra heimila og fyrirtækja.  Hefði sú ákvörðun fengið að standa hefði hún leitt til þess að stjórnvöldum hefði verið mögulegt að ráðast í leiðréttingar og niðurfærslur á stökkbreyttum skuldum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.

Það var hins vegar því miður ekki gert.

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við völdum, sem var í febrúar árið 2009, var endurreisnaráætluninni breytt, eins og fram kemur m.a. á bls. 5 og bls. 22 í skýrslunni. 

Núverandi ríkisstjórn tók sem sagt ákvörðun um grundvallarstefnubreytingu sem fólst í því að í stað þess að nota afsláttinn af skuldabréfasöfnunum til bjargar heimilum og fyrirtækjum í landinu var ákveðið að ganga til samninga við erlenda kröfuhafa um það hversu stóran hluta afsláttarins væri hægt að láta ganga til baka til erlendu kröfuhafanna.

Frá þeim samningum var gengið.

Afslátturinn og afskriftirnar runnu í vasa útlendinga.  Almenningur sat eftir slippur og snauður með skuldirnar á herðunum og bankarnir fengu skotleyfi til þess að innheimta hjá fólki kröfur sem þegar höfðu að stórum hluta verið afskrifaðar.

Allt var þetta gert í boði þessarar ríkisstjórnar, norrænu velferðarstjórnarinnar, og afleiðingarnar þekkja allir.

Virðulegi forseti.

Fjármálaráðherra hefur reynt að verja þessa ákvörðun sína og ríkisstjórnarinnar annars vegar með því að segja að með henni hafi íslenska ríkið komið sér hjá málshöfðunum og hins vegar með því að segja að með ákvörðunum sínum hafi ríkisstjórnin sparað ríkissjóði gríðarlega fjármuni.

Hvorug afsökunin hefur reynst tæk.

Sýnt hefur verið fram á að kostnaður ríkissjóðs af ákvörðun fjármálaráðherra varð meiri en hann hefði orðið hefði ríkiðátt bankana áfram.

Og bæði Eftirlitsstofnun EFTA og íslenskur dómstóll hefur staðfest lögmæti neyðarlaganna.

Ótti fjármálaráðherra við málshöfðun var því óþarfur.

Virðulegi forseti.

Stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar um endurreisn viðskiptabankanna verður ekki líst öðruvísi en sem tilræði við almenning í þessu landi.

Með því að láta afskriftir á skuldabréfasöfnunum renna til erlendra kröfuhafa gerðist ríkisstjórnin sek um:

  • - Að bregðast almenningi og heimilum landsins og,
  • - Að bregðast íslenskum fyrirtækjum.

Í stað þess að standa vörð um hagsmuni sinnar eigin þjóðar sló ríkisstjórnin skjaldborg um erlenda vogunarsjóði og erlenda spákaupmenn.

Eftir sitja íslensk fyrirtæki og íslensk heimili í sárum.

Að mínu mati staðfestir þessi svarta skýrsla að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í sínum störfum og hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu.

Nú þýðir ekki að kenna Sjálfstæðisflokknum um eða skýla sér á bakvið Fjármálaeftirlitið, eins og fjármálaráðherra hefur reynt að gera í umræðunni.

Á þessum afglöpum ber fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, mesta ábyrgð en ekki síður forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, og í raun allir ráðherrarnir í ríkisstjórn.

Framganga þeirra hlýtur að hafa afleiðingar, ekki síst í ljósi þess að nú standa yfir réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, fyrir, að því er virðist, minni sakir, en þessi ríkisstjórn hefur gerst sek um gagnvart íslensku þjóðinni.

Ég krefst þess að fjármálaráðherra og forsætisráðherra að útskýri hvernig þau ætla að axla ábyrgð á þeim alvarlegu mistökum sem nú liggja fyrir.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband