Svarbréf ríkisstjórnar Íslands til ESA

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, þarf að útskýra hvers vegna ríkisstjórn Íslands ákvað að tefla ekki fram ýtrustu vörnum íslenska ríkisins í svarbréfi sínu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), vegna Icesave-málsins sem kynnt var í Þjóðmenningarhúsinu á mánudaginn.

Ástæðan er sú að í svarbréfinu til ESA er ekki að finna veigamikla málsástæðu sem íslenska ríkið hefði getað byggt vörn sína á.

Til að útskýra þessa fullyrðingu mína nánar er rétt að rifja eftirfarandi upp.

Ummæli forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

Þann 26. maí 2010 sendi ESA íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf vegna Icesave-málsins. Í áminningarbréfinu kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið sé skuldbundið samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar til þess að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu, 20.887 evrum, til breskra og hollenskra sparifjáreigenda.

Skömmu eftir að ESA hafði sent íslenskum stjórnvöldum þetta áminningarbréf fagnaði EFTA 50 ára afmæli sínu.

Í tilefni af því var blásið til fundahalda í Reykjavík þar sem Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), lýsti meðal annars afstöðu sinni til Icesave-málsins með mjög afdráttarlausum hætti.

Hvarvetna kom fram í máli hans að hann teldi að málstaður íslenska ríkisins væri með þeim hætti að ekkert fengi breytt þeirri niðurstöðu ESA sem lýst var í áminningarbréfinu.

Forseti eftirlitsstofnunarinnar lýsti þessari eindregnu afstöðu sinni opinberlega í Fréttablaðinu hinn 25. júní 2010, en þar sagði hann:

„Það er ljóst að allt veltur á því hvort Íslendingar endurgreiði þessar 20.000 evrur á hvern innlánsreikning. Fari svo erum við reiðubúin að láta málið niður falla.“ Jafnframt sagði Per Sanderud í viðtalinu:

„Fari þetta fyrir dómstólinn mun hann staðfesta að Íslendingum beri að borga þessar 20.000 evrur og dómstóllinn mun fylgja því eftir.“

Fyrirfram uppkveðinn dómur

Öllum sem lesa þessi ummæli forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) má vera ljóst að í þeim felst mjög ákveðin og eindregin afstaða hans, og eftir atvikum þeirrar stofnunar sem hann er í forsvari fyrir, gegn hagsmunum og málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

Ummælin eru í það minnsta svo gildishlaðin að draga verður í efa að sá sem þau lét falla geti með óhlutdrægum hætti tekið afstöðu til þess deilumáls sem hann sjálfur hefur nú til meðferðar.

Að mínu mati gerðist forseti eftirlitsstofnunarinnar með orðum sínum sekur um að kveða upp dóm í Icesave-málinu fyrirfram og án þess að hafa kynnt sér málstað annars málsaðilans, sem í þessu tilviki er íslenska ríkið.

Réttlát málsmeðferð

Sú grundvallarregla er í hávegum höfð í öllum réttarríkjum hins vestræna heims að þeir sem aðild eiga að réttarágreiningi fyrir dómstólum eða eftirlitsstofnunum skuli eiga skilyrðislausan rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Skiptir þar ekki mál hvort einstaklingur á í hlut, lögaðili eða ríki.

Í meginreglunni um réttláta málsmeðferð felst ekki síst að aðilar máls eigi ekki að þurfa að sæta því að dómari komist að niðurstöðu sinni fyrirfram, heldur beri honum að kynna sér málsástæður beggja málsaðilanna áður en hann úrskurðar eða dæmir um þann ágreining sem honum hefur verið treyst til að leysa.

Ekki verður annað séð en að þessa grundvallarreglu hafi Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), brotið með þeim ummælum sem hér hafa verið eftir honum höfð.

Í ljósi þeirra blasir við að hann er vanhæfur til þess að skera úr þeim ágreiningi í Icesave-málinu sem nú er til meðferðar hjá þeirri eftirlitsstofnun sem hann er forseti fyrir enda má með réttu efast stórlega um óhlutdrægni hans í málinu.

Dómarinn víki sæti

En á þessu er ekki byggt í þeirri vörn íslenska ríkisins sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti í Þjóðmenningarhúsinu.

Þar er þess af einhverjum ástæðum ekki krafist að forseti eftirlitsstofnunarinnar víki sæti og að aðrir óhlutdrægir úrskurðaraðilar verði fengnir til þess að skera úr ágreiningnum.

Hér skal ekki lítið úr því gert að í svarbréfi sínu til ESA eru röksemdir Íslendinga í Icesave-málinu að mörgu leyti skilmerkilega reifaðar. Og það er sérstakt fagnaðarefni að þar geri nú íslenska ríkisstjórnin röksemdir okkar sem börðumst gegn samþykkt Icesave-laganna að sínum.

En sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að láta það yfir sig ganga að núverandi forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) skuli úrskurða í svo gríðarlegu hagsmunamáli, þrátt fyrir að hafa komst að niðurstöðu fyrirfram og lýst henni opinberlega yfir, er að mínu mati óskiljanleg.

Nú stendur upp á Árna Pál Árnason og ríkisstjórn Íslands að útskýra hvers vegna þess var ekki krafist af hálfu íslenska ríkisins að dómarinn viki sæti.

Þær útskýringar verða íslensk stjórnvöld að færa fram.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband