Lyfseðilsskyldu lyfin í undirheimunum

Ég og Birgir Ármannsson, félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, óskuðum í dag eftir fundi í allsherjarnefnd Alþingis, en báðir eigum við sæti í nefndinni.

Ástæða þessarar beiðni okkar er sú að undanfarna daga hefur átt sér stað sláandi umfjöllun í fjölmiðlum, einkum í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, þar sem varpað er ljósi á það hversu mikið magn lyfseðlisskyldra lyfja, ekki síst morfínlyfja og rítalíns, er í umferð í undirheimum landsins þar sem þau ganga kaupum og sölum.

Undir venjulegum kringumstæðum er eðlilegt að slík mál séu rædd í heilbrigðisnefnd þingsins.

Hins vegar eru nú komnar fram svo sterkar vísbendingar um að umfang lyfseðilsskyldra lyfja í umferð sé slíkt að ekki verði einungis litið á vandamálið sem heilbrigðismál heldur varði það ekki síður málasvið allsherjarnefndar.

Eins og kunnugt er fjallar allsherjarnefnd Alþingis meðal annars um mál sem varða refsilöggjöfina, meðferð ávana- og fíkniefna, starfsemi lögreglunnar og málefni tollgæslunnar. 

Þar sem hugsanlegt er að þeir sem bera ábyrgð á umfangi lyfseðilsskyldra lyfja í undirheimum landsins geti hafa bakað sér refsiábyrgð og að tengsl geti verið við aðra brotastarfsemi óskuðum við eftir því að nefndin yrði kölluð saman til þess að ræða m.a. umfang vandans og ástæður hans, en ekki síður til þess að fá útskýringar á því hvernig hægt er að bregðast við honum með árangurríkum hætti.

Við óskuðum eftir því að landlæknir yrði boðaður til fundarins, ásamt forsvarsmönnum SÁÁ, fíkniefnalögreglunnar og tollgæslunnar.

Vonandi skilar fundurinn einhverjum árangri, enda ekki vanþörf á.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband