Þriðjudagur, 4. september 2007
Ritfangaverslun ríkisins!
Á föstudag skrifaði ég pistil á þessa heimasíðu um málefni Íslandspósts hf. Þar gagnrýndi ég að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hf. hefði ákveðið að hefja samkeppni við einkaaðila á prentmarkaði og á sölumarkaði með skrifstofuvörur og fleira.
Pistillinn frá því á föstudag hefur vakið upp mikil viðbrögð. Sjálfur hef ég rætt við fjölmiðla og einkakaðilar sem hagsmuna eiga að gæta hafa einnig sagt skoðun sína.
Daginn sem ég skrifaði pistil um starfsemi Íslandspóst hf. birti fréttastofa Ríkissjónvarpsins frétt af opnun nýs pósthúss Íslandspósts hf. á Reyðarfirði, sem er eitt af fjölmörgum nýjum pósthúsum fyrirtækisins á landsbyggðinni. Í inngangi fréttarinnar kom fram að verslun með ritföng, aðgangur að netinu og önnur nýbreytni yrði í boði í þessum nýju pósthúsum.
Í viðtali við fréttamann sagði Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri pósthúsasviðs Íslandspósts hf., að fyrirtækið skilgreindi sig sem flutningafyrirtæki og að nýju húsin væru hönnuð með það að markmiði að vera aðgengisleg fyrir vörur til flutninga inn og út úr húsunum.
Það er vel skiljanlegt, enda felst hlutverk fyrirtækisins fyrst og fremst í því að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónustu fyrir fyrirtæki og einstaklinga, eins og fram kemur á heimasíðu Íslandspósts hf.
Í ljósi þess að Íslandspóstur hf. er ríkisfyrirtæki væri óskandi að fyrirtækið myndi einbeita sér að því að veita þessa grunnþjónustu, en léti vera að vinna ný lönd á samkeppnismarkaði við einkaaðila, enda getur samkeppni ríkis og einkaaðila seint talist sanngjörn.
Því er hins vegar því miður ekki að heilsa í tilviki Íslandspósts hf.
Af myndum sem birtust í frétt Ríkissjónvarpsins frá því á föstudag má sjá að fyrirtækið býður nú til sölu ljósritunarpappír og geisladiska, en þar er einnig boðin til sölu hvers kyns ritföng og föndurvörur, ásamt öðru.
Aðspurður að því hvort það væri hlutverk þessa ríkisins að hefja samkeppni við ritfangaverslanir og þess háttar fyrirtæki sagði Hörður það hlutverk stjórnenda fyrirtækisins að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt og fjölbreyttari rekstur sé hluti þess að það markmið náist. Í viðtali við Ríkissjónvarpsins sagði Hörður:
,,Auðvitað munu kannski einhverjir, hérna, ergja sig á því að við séum að fara út á nýtt svið, en þetta er bara okkar hlutverk. Við erum að reka fyrirtæki eins og hvert annað fyrirtæki í landinu."
Hér er á ferðinni yfirgripsmikill misskilningur hjá framkvæmdastjóra pósthúsasviðs Íslandspósts hf. og öðrum stjórnendum fyrirtækisins. Það er ekki hlutverk ríkisins að stunda verslun með ritföng og föndurvörur, ekki frekar en það er hlutverk ríkisins að standa í samkeppnisrekstri við einkaaðila á öðrum smásölumarkaði. Á grundvelli þessarar röksemdafærslu Harðar gæti ríkið allt eins ákveðið að hefja smásöluverslun með matvöru, fatnað, raftæki eða hvað eina sem mönnum kynni að detta í hug.
Sá alvarlegi misskilningur kemur einnig fram í viðtali Ríkissjónvarpsins við Hörð Jónsson að hann og aðrir forsvarsmenn Íslandspósts hf. séu að reka fyrirtæki eins og hvert annað fyrirtæki í landinu.
Íslandspóstur hf. er ekki eins og hvert annað fyrirtæki í landinu. Íslandspóstur hf. er ríkisfyrirtæki hefur einkaleyfi í lögum til þess að stunda sína kjarnastarfsemi sem felst í því að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónstu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Sem ríkisfyrirtæki er staða Íslandspóst hf. ennfremur allt önnur en annarra fyrirtækja í landinu sem ekki hafa sjálfan ríkissjóð að bakhjarli.
Reyndar skín í gegn í viðtalinu við Hörð að hann er vel upplýstur um þessa hluti, enda viðurkennir hann að auðvitað muni einhverjir ergja sig á því að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hf. sé að færa starfsemi sína inn á önnur svið, sem ótengd eru kjarnastarfsemi fyrirtækisins.
Ég er einn þeirra sem ergi mig og vona að stjórnendur Íslandspósts hf. sjái á hvers kyns villigötum þeir eru.
Ég ergi mig líka á því að árið 2007 hafi verið stofnuð Ritfangaverslun ríkisins.
Lái mér hver sem vill!
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mánudagur, 3. september 2007
Frank Caliendo
Ég hef alltaf haft gaman að grínistum sem eru með uppistand sem svo er kallað. Ég hef ekki síður gaman að góðum eftirhermum. Við Íslendingar eigum margar slíkar, en í Bandaríkjunum eru til menn sem eru alveg óhemju fyndnir og magnaðar eftirhermur.
Einn þeirra er bandaríski grínarinn Frank Caliendo. Hann er alveg hreint frábær eftirherma og leikur ýmsar heimsþekktar persónur ótrúlega vel.
Í stuttu myndbroti, sem finna má hér , fer Frank á miklum kostum þegar hann leikur menn á borð við George Bush, Bill Clinton, Seinfeld, George og Kramer, Al Pacino, Robert de Niro og fleiri.
Sjón er sögu ríkari.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 31. ágúst 2007
Íslandspóstur hf. á gráu svæði

Þó svo að Íslandspóstur hf. sé hlutafélag þá er félagið að öllu leyti í eigu ríkisins og ber því nafnið ,,ríkisfyrirtæki" með rentu. Sem slíkt á það ekki, að mínu mati, að útvíkka starfsemi sína þannig að það þrengi að starfsemi einkarekinna fyrirtækja sem starfa á sama vettvangi. Í þessu tilviki met ég það svo að Íslandspóstur hf. sé á afar gráu svæði.
Ekki er langt síðan Íslandspóstur hf. keypti prentsmiðjuna Samskipti af einkaaðilum. Með þeim kaupum blandaði fyrirtækið sér í samkeppni á markaði sem einkafyrirtæki hafa séð um að þjónusta. Kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum orkuðu að mínu mati tvímælis og þá skoðun mína lét ég opinberlega í ljós í kjölfarið.
Eins og alþjóð veit reka einkaaðilar á Íslandi fyrirtæki sem annast sölu á ,,skrifstofuvörum, pappír, geisladiskum, kortum og öðrum svipuðum vörum." Nú er reyndar óljóst af frétt Viðskiptablaðs Morgunblaðsins hvaða vörur forsvarsmenn Íslandspósts hf. telja að teljist til skrifstofuvara. Undir það hugtak geta fallið allt frá strokleðra til skrifborða. Samkvæmt mínum heimildum ætlar Íslandspóstur hf. sér því miður stóra hluti á þessum markaði.
Ekki trúi ég því að félagar mínir í þingflokki Sjálfstæðiflokksins séu sérstaklega hrifnir af því að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hf. hefji nú mikla markaðssókn á þessu sviði gagnvart einkaaðilum á markaði, fyrirtækjum sem um áratugaskeið hafa haft með höndum af þessu tagi. Bæði ganga þau gegn þeim grunvallarsjónarmiðum sem við sjálfstæðismenn fylgjum hvað varðar þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði, en til viðbótar kunna framtíðaráform Íslandspósts hf. að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki sem á þessum markaði starfa sæki inn á nýja markaði, einkum á landsbyggðinni.
Það væri miður ef sú yrði raunin.
Á síðustu mánuðum hefur átt sér stað nokkur umræða um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Hefur þar helst verið fjallað um mögulega einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Um einkavæðingu þeirra hafa verið afar skiptar skoðanir, sem eðlilegt er.Ég á hins vegar erfitt með að sjá að einhver geti verið á móti því að Íslandspóstur hf. verði einkavæddur og mun berjast fyrir því að það verði gert fyrr en síðar.Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Páll Hreinsson skipaður hæstaréttardómari
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skipaði í gær Dr. Pál Hreinsson, deildarforseta lagadeildar Háskóla Íslands, dómara við Hæstarétt Íslands. Fjórir mjög hæfir umsækjendur sóttust eftir stöðu hæstaréttardómara og valdi dómsmálaráðherra Pál úr hópi þeirra.
Sú ákvörðun Björns Bjarnasonar að skipa Pál Hreinsson í embættið er skynsamleg. Páll er afburðafær lögfræðingur og án vafa einn sá fremsti á sínu sviði hér á landi.
Sjálfur þekki ég verk Páls Hreinssonar á sviði lögfræðinnar. Hann kenndi mér stjórnsýslurétt við lagadeild Háskóla Íslands veturinn 1994-1995. Páll var þá dósent við deildina og afar vinsæll meðal nemenda, enda afbragðs kennari og fræðimaður. Sem alþingismaður hef ég átt afar gott samstarf við Pál vegna löggjafar á ýmsum sviðum og er óhætt að segja að í öllum þeim störfum hafi fagmennska hins nýja hæstaréttardómara verið fyrsta flokks.
Ég óska Páli Hreinssyni til hamingju með embættið.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 24. ágúst 2007
Höfn í Hornafirði
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt sinn sumarfund þetta árið á Höfn í Hornafirði. Við funduðum á þriðjudag á Hótel Höfn en nýttum miðvikudaginn til þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu.
Í þetta skiptið heimsóttum við útibú Fiskistofu á Höfn, sjávarútvegsfyrirtækin Bestfisk og Skinney-Þinganes og hið stórmerkilega Humarhótel. Þá fórum við í hina merku Nýheima þar sem heimamenn kynntu fyrir okkur starfsemi heimanna og sveitarfélagsins auk þess sem við litum við á Jöklasýningunni í bænum.
Að loknum þessum heimsóknum héldum við í skoðunarferð um nágreinni Hafnar, meðal annars inn að Hoffelli og lukum svo ferðinni með heimsókn til Egils Jónssonar og frú Dóru á Seljavöllum þar sem okkur var sýnd einstök gestrisni.
Það er alltaf jafn gaman að koma austur á Höfn. Náttúrufegurðin á þessu svæði er ótrúleg enda andstæðurnar í landslaginu magnaðar.
Það er vert að nefna það sérstaklega að við í þingflokknum snæddum kvöldverð ásamt heimamönnum á nýju veitingahúsi í miðbæ Hafnar sem heitir Humarhöfnin. Þar borðaði ég líklega þann besta humar sem ég hef bragðað. Hann var hreint út sagt frábær. Humarhöfnin er skemmtilegur veitingastaður sem nýlega var opnaður í gamla Kaupfélagshúsinu í bænum. Ekki varð ég var við mikla ,,framsóknarlykt" í húsinu, enda ilmurinn af humrinum magnaður.
Mér finnst ástæða til að benda þeim sem leggja leið sína á Höfn í Hornafirði og hafa áhuga á því að borða góðan humar í þessum mikla humarbæ að líta við á Humarhöfninni. Þaðan fer enginn svikinn.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 16. ágúst 2007
Áhugaverð ráðstefna RSE um gjaldmiðla og alþjóðavæðingu
Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, stendur fyrir mjög áhugaverðri ráðstefnu á fimmtudaginn í næstu viku. Á ráðstefnunni, sem fram fer á Hótel Nordica og ber yfirskiftina ,,Gjaldmiðlar og alþjóðavæðing", verður fjallað um áhrif aukins efnahagslegs frelsis á stöðu gjaldmiðla.
Ráðstefnan er kjörinn vettvangur fyrir þá sem áhuga hafa á gjaldeyrismálum og stöðu einstakra gjaldmiðla, svo sem krónunnar, en um fátt hefur jafn mikið verið rætt á síðustu misserum á Íslandi en stöðu íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.
Hinn nýskipaði viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, mun flytja setningarávarp á ráðstefnunni. Það verður áhugavert að heyra sjónarmið ráðherrans til þessa málefnis, en eins og kunnugt er hefur Björgvin G. Sigurðsson ekki talist til helstu talsmanna íslensku krónunnar og hefur, af því er ég best veit, verið talsmaður þess að við Íslendingar tökum upp evru í stað krónu.
RSE hefur fengið nokkra valinkunnu sérfræðinga til að flytja erindi á ráðstefnunni.
Ber þar fyrst að nefna Benn Steil, forstöðumann aþjóðahagfræðisviðs Council on Foreign Relations, en erindi hans mun bera yfirskriftina ,,Endalok þjóðargjaldmiðla." Óhætt er að segja að sjónarmið Steil um þjóðargjaldmiðla hafi vakið athygli.
Þá mun Gabriel Stein, aðalhagfræðingur alþjóðahagfræðisviðs hjá Lombard Steet Research, flytja erindi um smáríki og myntbandalög.
Þriðji erlendi gesturinn á ráðstefnunni er Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador, en hans erindi ber yfirskriftina ,,Dollaravæðing, skref fyrir skref."
Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, mun síðan fjalla um stöðu íslensku krónunnar.
Að loknum þessum erindum munu fyrirlesararnir fjórir sitja í pallborði ásamt innlendum sérfræðingum og aðilum úr viðskiptalífinu og ræða málefni ráðstefnunnar.
Það er ástæða til að mæla með þessari ráðstefnu RSE um þetta hitamál sem hefur verið svo áberandi í þjóðmálaumræðunni á Íslandi, enda ekki á hverjum degi sem jafn frambærilegir erlendir gestir koma hingað til lands til viðræðna um þessi málefni.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2007 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Tekjublöð Frjálsar verslunar og Mannlífs
Ef mér skjátlast ekki munu óseld tekjublöð Frjálsrar verslunar og Mannlífs verða fjarlægð úr sölurekkum bókabúða og verslana á næstu dögum. Ástæðan er sú að samkvæmt lögum er einungis heimilt að birta þær viðkvæmu persónuupplýsingar sem þar er að finna í takmarkaðan tíma, eða í tvær vikur ef ég man rétt.
Ég ætla ekki að ítreka skoðanir mínar hér á því hversu ósmekklegt mér finnst að tekjur nafngreindra manna séu birtar á torgum. Þeim hef ég margoft komið á framfæri og sé ekki ástæðu til þess að gera það aftur hér.
Mér þætti hins vegar áhugavert að fá upplýsingar um það, þegar síðasti söludagur þessara blaða er á enda runninn, hversu margir Íslendingar sáu ástæðu til að fjárfesta í þessum blöðum.
Ég geri ekki ráð fyrir að útgefendur þessara blaða muni leggja sig sérstaklega fram um að birta þær upplýsingar, enda myndu þær upplýsa með nokkuð áreiðanlegum hætti hversu miklar tekjur útgefendur þeirra hefðu af því að birta tekjur annarra.
En það væri sannarlega áhugavert ef hægt væri að upplýsa hversu vel salan hefði gengið þetta árið. Eiginlega væri sanngjarnt að birta þessar upplýsingar í ljósi þess hvert umfjöllunarefni blaðanna er.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Gott Viðskiptablað
Um nokkra hríð hef ég verið áskrifandi Viðskiptablaðsins og hef lagt það í vana minn að lesa blaðið vel og vandlega þegar ég fæ það í hendur.
Mér finnst ástæða til þess að nota þennan vettvang til þess að hrósa ritstjóra blaðsins og þeim sem starfa á ritstjórninni fyrir störf þeirra og skrif. Auðvitað er ég ekki alltaf sammála þeim sjónarmiðum sem birtast í blaðinu, en á heildina litið er Viðskiptablaðið heilsteypt, vel skrifað og áhugavert blað, ekki síst helgarblaðið.
Eðli málsins samkvæmt ber mest á fréttum af viðskiptalífinu í Viðskiptablaðinu. En þar fyrir utan býður blaðið upp á mjög áhugavert efni um þjóðmál, menningu og í rauninni allt milli himins og jarðar. Þeir pistlahöfundar sem skrifa í blaðið, s.s. Jón Gnarr, Hrafn Jökulsson og Ívar Páll Jónsson, eiga oft fantagóða spretti, svo ekki sé minnst á frábæra fjölmiðlapistla Ólafs Teits Guðnasonar og stjórnmálapistla Andrésar Magnússonar.
Mér finnst ástæða til að hrósa því sem vel er gert og að mínu mati er ástæða til að mæla með Viðskiptablaðinu, enda stendur blaðið undir slíkum meðmælum.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 13. ágúst 2007
Flugvellir
Ég hef verið nokkuð virkur þátttakandi í umræðunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég hef fram til þessa ekki legið á þeirri skoðun minni að æskilegt sé að finna flugvellinum annað stæði í Reykjavík en í Vatnsmýrinni, enda er Vatnsmýrin gósenland fyrir íbúabyggð í miðborginni.
Ég var staddur í grillveislu á dögunum þar sem flugvallarmálið kom til umræðu. Ágætur maður sem staddur var í þessum selskap spurði mig hvort ég væri þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður eða suður. Ég tjáði honum að ég væri þingmaður norðurkjördæmisins.
Þá benti hann mér vinsamlega á að mitt kjördæmi væri það eina á landinu sem ekki hefði flugvöll innan sinna marka. Slíkt ástand væri íbúum kjördæmisins auðvitað ekki bjóðandi. Vildi ég berjast fyrir hagsmunum míns kjördæmis og íbúa þess ætti ég að sjálfsögðu að hefja baráttu fyrir því að flugvöllur yrði byggður í kjördæminu svo íbúar þess yrðu jafnsettir íbúum annarra kjördæma.
Þetta fannst mér athyglisverður vinkill í umræðunni um flugvelli á Íslandi. Ég er hins vegar ekki viss um að ég taki hann á orðinu og geri þetta mál að baráttumáli mínu í stjórnmálum.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 4. ágúst 2007
Leiðari Fréttablaðsins í dag
Jón Kaldal, annar tveggja ritstjóra Fréttablaðsins skrifar leiðara blaðsins í dag. Fyrirsögn leiðarans er: ,,Tvær grímur renna á stuðningsmenn RÚV: Velkomnir í hópinn"
Í upphafi leiðarans segir:
,,Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar Alþingis, eru boðnir velkomnir í hóp þeirra sem setja spurningarmerki við stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Um leið er þeim þakkað fyrir að halda lifandi umræðunni um þá ójöfnu stöðu sem sannarlega ríkir í samkeppni Ríkisútvarpsins við einkarekna fjölmiðla."
Í kjölfarið rekur Jón Kaldal að við Björn hefðum báðir greitt atkvæði með umdeildu frumvarpi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins á síðasta þingi.´
Síðar í leiðaranum segir:
,,Birni og Sigurði Kára hefur verið núið því um nasir að sinnaskipti þeirra um málefni Ríkisútvarpsins séu ekki trúverðug í ljósi þess hversu skammt er liðið frá stuðningi þeirra við frumvarpið."
Ritstjórinn nefnir réttilega að slík gagnrýni sé ósanngjörn, eins og vikið verður að síðar. Í lok leiðarans segir hann:
,,Hitt er svo annað mál að erfitt er að una lengur við að gengið sé á rétt þeirra sem keppa við ríkið með því að láta Ríkisútvarpið leika lausum hala á auglýsingamarkaði. Björn og Sigurður Kári mega gjarnan beita sér fyrir leiðréttingu í þeim efnum."
Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég er þakklátur Jóni Kaldal fyrir leiðarann í dag, enda lít ég á skrif hans sem hrós í minn garð. Ég er einnig þakklátur fyrir að vera loksins boðinn velkominn í hóp þeirra sem setja spurningamerki við stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði.
Reyndar hefði ég talið að ég hefði verðskuldað inngöngu í þennan hóp mun fyrr, því frá því að ég tók mín fyrstu skref í stjórnmálum hef ég verið þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk ríkisins að reka fjölmiðil. Frá því að ég tók sæti á Alþingi hef ég gert mitt besta til þess að hrinda þessari skoðun minni í framkvæmd. Sem dæmi um það má nefna að ég hef oftar en einu sinni verið flutningsmaður frumvarps sem mælir fyrir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Það frumvarp hefur hins vegar aldrei náð fram að ganga. Hins vegar finnst mér í ljósi minna verka einkennilegt að ég sé titlaður í fyrirsögn sem stuðningsmaður ríkisrekins fjölmiðils.
Úr því að ritstjóri Fréttablaðsins nefnir að mér og Birni Bjarnasyni hafi verið núið því um nasir að sinnaskipti okkar um málefni Ríkisútvarpið séu ekki trúverðug vegna þess hversu skammt er liðið frá stuðningi okkar við frumvarpið er ástæða til að taka eftirfarandi fram:
Við meðferð frumvarpsins um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins lá ég aldrei á þeirri skoðun minni, hvorki í umræðum á Alþingi eða í fjölmiðlum, að ég væri þeirrar skoðunar að það væri ekki hlutverk ríkisins að reka fjölmiðil. Að því leyti hef ég alltaf verið samkvæmur sjálfum mér. Mér er því ókunnugt um hin meintu sinnaskipti sem sagt er að ég hafi gerst sekur um. Þvert á móti hef ég frekar haft frumkvæði að því að halda þessum skoðunum mínum fram en hitt, meðal annars undir rekstri þessa máls.
Hitt er annað mál að ég studdi frumvarpið um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, enda taldi ég að úr því að meirihluti þeirra sem á þeim tíma áttu sæti á Alþingi væri þeirrar skoðunar að ríkið ætti að halda úti og reka fjölmiðil væri það rekstrarform sem frumvarpið mælti fyrir um miklu skynsamlegra en gamla ríkisstofnunarmódelið, sem fyrir löngu hafði gengið sér til húðar.
Sú staðreynd að ég studdi breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins hafði því ekkert með afstöðu mína til þeirrar grundvallarspurningar hvort ástæða væri til þess að ríkið stæði í fjölmiðlarekstri eða ekki og skoðun mín um það álitaefni stendur óhögguð.
Eins og áður kemur fram kvetur Jón Kaldal mig og Björn Bjarnason til þess að beita okkur fyrir því að böndum verði komið á fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, enda sé ekki lengur hægt að una við það að Ríkisútvarpið leiki lausum hala á þeim markaði.
Þessi kvatning ritstjóra Fréttablaðsins er réttlætanleg og ástæða til þess að mark sé á henni tekið.
Hins vegar er rétt að koma því á framfæri að þegar frumvarpið um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins var til meðferðar á Alþingi á síðasta kjörtímabili gerði ég, sem formaður þeirrar nefndar sem hafði málið til meðferðar, allt sem í mínu valdi stóð til þess að koma til móts við það sjónarmið sem ritstjóri Fréttablaðsins reifar undir lok leiðara síns. Í þeirri baráttu hafði ég fullt umboð míns flokks og gerði ítrekað grein fyrir afstöðu minni til málsins í fjölmiðlum undir meðferð málsins, þ. á m. í viðtölum við Fréttablaðið.
Ritstjóri Fréttablaðsins getur svo getið í eyðurnar og velt því fyrir sér hvers vegna niðurstaðan varð önnur.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh