Björn og Ríkisútvarpið

Ruv1(1)Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og fyrrum menntamálaráðherra, skrifar afar athyglisverðan dagbókarpistil á heimasíðu sína í gær, miðvikudag.  Í pistlinum segir m.a.:

,,Hlutafélagavæðing RÚV var ekki til þess að kaupa starfsmenn annarra stöðva og veita þeim ríkisskjól.  Væri ekki best, að selja batteríið allt (fyrir utan gömlu gufuna), svo að snillingarnir gætu keppt við Baugsmiðlana á jafnréttisgrundvelli, án þess að fá nefskatt?"

Ég held að óhætt sé að svara spurningu Björns játandi.

Sigurður Kári.


Þreyttur valdaflokkur?

is%7DindÍ morgun fór ég í viðtal á Útvarpi Sögu hjá Jóni Magnússyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, en hann leysir Jóhann Hauksson, Morgunhana, af þessa vikuna. 

Viðtalið var langt og ítarlegt og að mínu mati ljómandi skemmtilegt.  Við Jón fórum um víðan völl og ræddum um hin ýmsu viðfangsefni stjórnmálanna milli þess sem við hlýddum á tónlist meistaranna Roy Orbison og Johnny Cash.

Þegar talið barst að Sjálfstæðisflokknum lýsti Jón flokknum ítrekað sem þreyttum valdaflokki.  Ekki taldi ég hversu oft Jón lýsti flokknum mínum með þessum hætti, en óhætt er að segja að hann gerði það alloft.

Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að á þriðjudaginn síðastliðinn birti Gallup skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna.  Samkvæmt könnuninni bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig fylgi og nýtur nú stuðnings 45% þjóðarinnar.

Það er einsdæmi og sérstakt afrek að stjórnmálaflokkur sem átt hefur aðild að ríkisstjórn í rúm 16 ár og leitt hana mestan þann tíma skuli njóta svo mikils fylgis meðal þjóðarinnar.

Í ljósi niðurstöðu skoðanakönnunar er kannski rétt að velta því fyrir sér hvort lýsing Jóns Magnússonar á Sjálfstæðisflokknum sem ,,þreyttum valdaflokki" standist?  Af niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna gerir hún það alls ekki.

Þvert á móti sýnir niðurstaða könnunarinnar hversu mikla samleið verk og stefna Sjálfstæðisflokksins á meðal þjóðarinnar.

Kannski er kominn tími til að stjórnmálamenn í öðrum stjórnmálaflokkum fari að viðurkenna þá staðreynd.

Sigurður Kári.


Álagningarskrárnar lagðar fram

Síðustu daga hafa fjölmiðlar verið uppfullir af fréttum af því hversu háa skatta nafntogaðir einstaklingar greiða til samfélagsins vegna tekna sinna.  Birtir hafa verið topp 10 listar í skattumdæmum og skattakóngar og skattadrottningar verið krýndar.  Einnig hefur borið á fréttum þar sem gerð er grein fyrir því hverjir komast ekki á listana yfir hæstu skattgreiðendur.

peningarAllar eru þessar fréttir tilkomnar vegna framlagningar svokallaðra álagningarskráa sem skattstjórar um allt land leggja fram lögum samkvæmt.  Þær liggja nú frammi á skattstofum landsins og landsmönnum gefst nú tækifæri til að kynna sér hversu háir skattar eru lagðir á fólkið í landinu.

Í tilefni af framlagningu álagningaskránna hefur Samband ungra sjálfstæðismanna útbúið gestabók sem liggur frammi á skattstofunni í Reykjavík.  Gestabókin ber yfirskriftina ,,Gestabók fyrir snuðrara", en þar er þeim sem hafa geð í sér að grafast fyrir um þessar persónulegu upplýsingar boðið að skrá sig.  Í frétt á miðopnu Morgunblaðsins í dag er haft eftir Borgari Þór Einarssyni, formanni SUS, að með því að skrá sig í gestabókina gætu lesendur skránna látið í ljós að þeir skömmuðust sín ekki fyrir að fletta upp launagreiðslum til samborgara sinna.

Með framlagningu gestabókarinnar eru ungir sjálfstæðismenn að mótmæla framlagningu skránna og að vekja athygli á því hversu ósmekkleg hún er, enda getur það varla talist eðlilegt að tekjur manna séu birtar á torgum með þessum hætti, en búast má við því að á næstunni líti dagsins ljós tímarit sem þar sem tekjur 3000 nafngreindra einstaklinga eru birtar.

Sjálfur hef ég beitt mér fyrir því að framlagning þessara skráa verði lögð af, enda tel ég að fólk eigi rétt á því að með fjárhagsleg málefni einstaklinga sé farið með sem einkamál.  Síðastu fjögur árin hef ég lagt fram frumvarp á Alþingi þessa efnis.

Í greinargerð með frumvarpinu rökstyð ég hvers vegna ég tel að afnema eigi birtingu þessara upplýsinga, en þar segir:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af. Ákvæði um birtingu slíkra skráa er að finna í 98. gr. núgildandi laga um tekjuskatt, nr. 90 7. maí 2003. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir semja og leggja fram til sýnis eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu, en í henni skal tilgreina þá skatta sem á hvern gjaldanda hafa verið lagðir samkvæmt lögum þessum. Senda skal hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skal skattstjóri auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið svo og hvar og hvenær álagningarskrár liggi frammi. Hafi skattaðili annað reikningsár en almanaksárið skal skattstjóri í stað auglýsingar skv. 3. málsl. senda honum tilkynningu um álagninguna með ábyrgðarbréfi og birta álagninguna í næstu útgáfu á álagningar- og skattskrá. Þá skal skattstjóri senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila, sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda.“

Í 2. mgr. 98. gr. núgildandi laga segir síðan:

„Þegar lokið er álagningu skatta og kærumeðferð, sbr. 99. gr., skulu skattstjórar semja og leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu en í henni skal tilgreina álagðan tekjuskatt hvers gjaldanda og aðra skatta eftir ákvörðun ríkisskattstjóra. Skattskrá skal liggja frammi til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi. Skattstjóri eða umboðsmaður hans auglýsir í tæka tíð hvar skattskrá liggur frammi. Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“

Eins og sjá má af framangreindum lagaákvæðum leggur núgildandi löggjöf þá skyldu á skattstjóra landsins að leggja álagningar- og skattskrár fram til birtingar og er þeim jafnframt gert að auglýsa rækilega hvar og hvenær skrárnar liggi frammi. Jafnframt heimila núgildandi lög opinbera birtingu á upplýsingum úr skránum auk þess sem útgáfa þeirra upplýsinga sem fram koma í skattskrám í heild eða að hluta er heimil.

Forsaga birtingar álagningar- og skattskráa.

Skattyfirvöldum hefur um áratugaskeið verið skylt að lögum að leggja skattskrár einstaklinga fram til birtingar og að auglýsa framlagningu þeirra sérstaklega. Af orðalagi eldri laga um tekjuskatt og eignarskatt er ljóst að tilgangurinn með framlagningu skattskrár hefur verið sá að upplýsa gjaldendur um álagðan skatt á tekjur og eignir hvers og eins, en jafnframt að tryggja gjaldendum heimild til að fá upplýst hjá skattyfirvöldum um grundvöll viðmiðunar tekna og eigna til myndunar skattstofns og kæruheimildir vegna slíkra ákvarðana. Enn fremur tryggðu ákvæði eldri laga sérhverjum gjaldanda kæruheimild vegna ákvörðunar skattyfirvalda um skattstofn þriðja manns til tekjuskatts og eignarskatts. Með öðrum orðum var tilgangur laganna í öndverðu sá að gefa almenningi tækifæri til að kynna sér álagningu á samborgara sína enda var slíkt talið nauðsynlegt til að tryggja að mögulegt væri að ganga úr skugga um að allir skattborgarar landsins greiddu þá skatta sem þeim bæri í samræmi við greiðslugetu og að skattálagning annarra gengi ekki gegn hagsmunum almennings. Voru almenningi því heimilaðar svokallaðar samanburðarkærur ef grunsemdir voru um að tekjur og eignir tiltekinna einstaklinga væru of lágt taldar eða ótaldar. Þannig segir í 35. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 74 27. júní 1921:

„Innan marzmánaðarloka skal skattanefnd hafa lokið við ákvörðun tekna og eigna og samið skrá um alla þá, sem tekjuskatt eða eignaskatt eiga að greiða í hreppnum eða kaupstaðnum.
Skattskráin skal framlögð 1. dag aprílmánaðar á þingstað hreppsins eða öðrum hentugum stað, er auglýstur skal fyrirfram, og í kaupstöðum á bæjarþingstofunni eða skrifstofu bæjarfógeta, og liggja þar til sýnis til 15. dags sama mánaðar.
Sjerhver gjaldandi getur snúið sjer til skattanefndar og fengið hjá henni vitneskju um, eftir hverju hún hefir farið við ákvörðun tekna hans og eigna.“

Í 36. gr. laganna er síðan að finna þær kæruheimildir sem gerð er grein fyrir hér að framan, en þar segir:

„Ef einhver er óánægður með ákvörðun skattanefndar um tekjur hans og eign, skal hann bera upp kæru sína brjeflega fyrir formanni skattanefndar fyrir 15. dag aprílmánaðar. Innan sama tíma er hverjum gjaldanda heimilt að kæra yfir því, að skattskyldum manni sé slept eða tekjur og eign einhvers sje of lágt ákveðin, svo og að bera upp aðfinningar um hvert það atriði í skattskránni, sem að einhverju leyti getur snert hagsmuni hans. Formaður kveður nefndarmenn til fundar ásamt kæranda og þeim, sem kært er yfir og skal úrskurður feldur um kæruna fyrir lok sama mánaðar og hlutaðeigendum gert viðvart um úrslitin.
Skattanefnd leiðrjettir skattskrána samkvæmt úrskurðum þeim, sem feldir eru, og sendir hana síðan ásamt framtalsskýrslum tafarlaust til formanns yfirskattanefndar.“

Sambærileg ákvæði var síðan að finna í 36. gr. og 37. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 6 9. janúar 1935, og í 37. gr. og 38. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 46 14. apríl 1954.
Með setningu laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 70 28. apríl 1962, var gerð veigamikil breyting á fyrrgreindum ákvæðum. Samkvæmt ákvæðum 39. gr. og 40. gr. laganna var skattstjórum eftir sem áður gert að leggja skattskrár fram í umdæmum sínum. Hins vegar var felld niður sú kæruheimild sem gjaldendur höfðu vegna ákvörðunar skatta á tekjur og eignir þriðja manns. Í greinargerð með frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem varð að lögum nr. 70 28. apríl 1962, kemur fram rökstuðningur fyrir breytingunni, en þar segir:

„Fellt er niður ákvæði 2. málsl. 38. gr. núgildandi laga um heimild gjaldenda til þess að kæra út af því, að tekjur og eign annarra gjaldenda sé of lágt ákveðin o.s.frv. Þessu ákvæði mun sjaldan eða aldrei hafa verið beitt, og verður því að teljast óþarft. Auðvitað getur hver gjaldþegn eftir sem áður komið á framfæri við skattstjóra eða umboðsmann hans hverjum þeim upplýsingum og ábendingum, sem hann telur ástæðu til.“

Fram til ársins 1979 lögðu skattyfirvöld einungis fram skattskrár, m.a. samkvæmt þeim ákvæðum sem vikið er að hér að framan. Fram að þeim tíma var ekki gerður lagalegur munur á skattskrám annars vegar og álagningarskrám hins vegar. Með setningu laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75 14. september 1981, var slíkur greinarmunur gerður og skattstjórum gert skylt að leggja bæði álagningar- og skattskrár fram árlega, samkvæmt ákvæðum 98. gr. laganna. Með 8. gr. laga nr. 7/1984 var opinber birting og útgáfa álagningar- og skattskráa síðan heimiluð og hefur verið það síðan. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fylgdi lagabreytingunni árið 1984 kom fram það álit meiri hluta nefndarinnar að ótvírætt væri að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar væri í heild til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og að slík birting gegndi að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Framlagning álagningar- og skattskráa væri þannig hugsuð sem þáttur í virku skatteftirliti og ætlað að koma í veg fyrir undanskot frá skatti.

Frá því að síðastnefndu breytingarnar á skattalögum voru gerðar hefur framkvæmd laganna verið sú að skattstjórar hafa árlega lagt fram álagningar- og skattskrár í hverju umdæmi og jafnframt hefur efni þeirra verið gerð ítarleg skil í fjölmiðlum. Með frumvarpi þessu er lagt til að breyting verði gerð þar á.

Löggjöf á Norðurlöndum.

Reglur um birtingu upplýsinga um skattgreiðslur einstaklinga eru ekki samræmdar á Norðurlöndum. Ákvæði norskra laga munu vera sambærileg núgildandi ákvæðum íslenskra laga hvað varðar birtingu upplýsinga úr skattskrám. Samkvæmt sænskum lögum hafa þarlend skattyfirvöld víðtækar heimildir til að birta upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga. Í dönskum lögum er hins vegar kveðið á um algera leynd um skattgreiðslur einstaklinga.

Annmarkar á núgildandi löggjöf.

Ýmsa annmarka má nefna á núgildandi löggjöf hvað varðar álagningar- og skattskrár einstaklinga. Tölvutæknin gerir það að verkum að álagningar- og skattskrár eru unnar á tölvutæku formi. Með afhendingu skránna kunna að rísa fjölmörg álitamál. Þannig má nefna að með samtengingu slíkra skráa við aðrar skrár er hægt að kalla fram nákvæmar persónuupplýsingar um alla landsmenn. Slíkar upplýsingar má nota í ýmsu skyni og sú hætta er fyrir hendi að þær kunni að verða notaðar í annarlegum tilgangi.

Núgildandi löggjöf leysir þennan vanda ekki að öllu leyti. Samkvæmt lögum ber að leggja álagningarskrár fram síðsumars en endanleg skattskrá er ekki lögð fram fyrr en í janúarmánuði. Ólík ákvæði gilda reyndar um birtingu skránna. Þannig er ótvírætt tekið fram að skattskrá megi birta og gefa út í heild eða að hluta. Um álagningarskrána segir hins vegar ein vörðungu að hún skuli liggja frammi til sýnis í tiltekinn tíma. Ekki er hins vegar kveðið á um í núgildandi skattalögum hvort afhenda megi skrárnar á tölvutæku formi eða hvort vinna megi úr þeim líkt og tíðkast í fjölmiðlum, þó að vera kunni að lög um meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 23. maí 2000, kunni að setja slíkri meðferð einhverjar skorður.

Helstu rök fyrir frumvarpinu.

Eins og áður segir er ljóst að tilgangurinn með því að skylda skattyfirvöld að lögum til að leggja fram skattskrár einstaklinga var í fyrsta lagi sá að upplýsa gjaldendur um álagðan skatt á tekjur og eignir hvers og eins og grundvöll viðmiðunar tekna og eigna til myndunar skattstofns og kæruheimild vegna slíkra ákvarðana. Í öðru lagi var tilgangurinn sá að tryggja almenningi kæruheimild vegna ákvörðunar skattyfirvalda um skattstofn þriðja manns til tekjuskatts og eignarskatt. Af orðalagi eldri lagaákvæða má ljóst vera að forsenda þess að gjaldendur gætu neytt kæruheimildar sinnar gagnvart þriðja manni var sú að skattskrárnar lægju frammi. Að öðrum kosti hefði almenningi verið ómögulegt að beita kæruheimild sinni. Þegar lögfest var breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 70 28. apríl 1962 og áðurnefnd kæruheimild gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns var felld niður, brustu þær forsendur sem lágu að baki framlagningu skattskráa einstaklinga.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum 98. gr. laga nr. 90 7. maí 2003 hvílir á skattstjórum sú skylda að senda hverjum gjaldanda sérstaka tilkynningu eða álagningarseðla með upplýsingum um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir á viðkomandi skattári. Í slíkum tilkynningum koma fram sömu upplýsingar og birtar eru í framlögðum álagningar- og skattskrám. Frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir að breyting verði gerð á þeirri framkvæmd. Í ljósi hennar verður hins vegar ekki séð að framlagning álagningar- og skattskráa samkvæmt núgildandi löggjöf feli í sér annan tilgang en að gefa almenningi kost á að kynna sér fjárhagsleg málefni náungans.

Veigamestu rökin að baki frumvarpinu eru þau að telja verði að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt. Ljóst má vera að með framlagningu álagningar- og skattskráa fer fram birting á upplýsingum sem gefa glögga mynd af tekjum nafngreindra einstaklinga. Færa má rök fyrir því að notkun upplýsinganna hafi breyst verulega frá því að tryggja kærurétt gjaldenda gagnvart samborgurum sínum til þess að vera orðnar að þaulskipulagðri markaðsvöru. Í framkvæmd hefur þróunin orðið sú á síðustu árum að framlagning álagningar- og skattskránna hefur orðið uppspretta frétta um fjárhagsleg málefni einstaklinga. Það er orðinn árlegur viðburður að fjölmiðlar vinni upplýsingar upp úr álagningar- og skattskrám um tekjur manna. Birtir eru listar yfir tekjuhæstu einstaklingana í hverri starfsgrein, gjarnan með samanburði frá ári til árs. Leiða má líkur að því að fjölmiðlaumræða af slíku tagi feli í sér hættu á að einstaklingar verði fyrir óverðskuldaðri áreitni vegna tekna sinna, ýmist vegna þess að þær þyki of háar eða of lágar.

Framlagning álagningar- og skattskráa getur haft fleiri ókosti í för með sér. Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Á flestum vinnustöðum eru launakjör starfsmanna trúnaðarmál launþega og vinnuveitanda. Með því að skylda skattstjóra til að leggja álagningar- og skattskrár fram gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.

Allt frá því að lögfest voru lagaákvæði um framlagningu álagningar- og skattskráa fyrir áratugum síðan hafa gríðarlegar umbætur átt sér stað hvað varðar réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu og réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs hefur verið bættur verulega. Má í því sambandi nefna setningu laga nr. 92 1. júní 1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, laga nr. 121 28. desember 1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslulaga, nr. 37 30. apríl 1993, og upplýsingalaga, nr. 50 24. maí 1996. Þá hefur í íslenskri löggjöf verið lögð aukin áhersla á vernd mannréttinda meðal annars með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu með lögum nr. 62 19. maí 1994 og með endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 og 1997. Á sama tíma hefur réttarvitund almennings tekið breytingum og ætla má að almennir borgarar geri sér betur grein fyrir réttindum sínum en áður og þeim takmörkunum sem ríkisvaldinu eru sett gagnvart þeim, þar á meðal hvað varðar meðferð ríkisvaldsins og annarra aðila á viðkvæmum persónuupplýsingum. Nægir þar að nefna þær umræður sem sköpuðust um meðferð heilsufarsupplýsinga einstaklinga í aðdraganda setningar laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði, nr. 139 22. desember 1998.

Víða í íslenskri löggjöf er réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs tryggður og hömlur settar við meðferð, birtingu eða opinberun á viðkvæmum persónuupplýsingum einstaklinga. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33 17. júní 1944, er friðhelgi einkalífs einstaklinga vernduð. Sambærilega reglu er að finna í 8. gr. laga nr. 62 19. maí 1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig má nefna að í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 23. maí 2000, er kveðið á um friðhelgi einkalífs en skv. 1. gr. laganna er þeim meðal annars ætlað að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Þá er víða í löggjöfinni kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna um einkahagi einstaklinga, svo sem um fjárhagsmálefni þeirra. Þannig er skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því sem þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila, samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 90 7. maí 2003, um tekjuskatt. Hið sama gildir um þá sem veita áðurnefndum aðilum aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um skattframtöl.

Í 22. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, er lögð þagnarskylda á lögreglumenn og annað starfslið lögreglu um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þagnarskyldan meðal annars til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari.

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161 20. desember 2002, um fjármálafyrirtæki, er ákvæði um bankaleynd fjármálafyrirtækja. Þar er mælt fyrir um að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu slíkra fyrirtækja séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varða viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þeirra, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Skv. 2. mgr. 58. gr. laganna gildir þagnarskyldan jafnframt um hvern þann sem veitir viðtöku upplýsingum sem getið er um í 1. mgr. 58. gr. Sambærileg ákvæði um þagnarskyldu um persónuleg málefni einstaklinga, þar á meðal fjárhagsleg málefni þeirra, gilda samkvæmt lögum um endurskoðendur, nr. 18 17. apríl 1997, og lögum um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998.

Telja verður að núgildandi ákvæði 98. gr. laga nr. 90 7. maí 2003, um tekjuskatt, um framlagningu álagningar- og skattskráa séu í verulegu ósamræmi við framangreind ákvæði og þær meginreglur sem lögfestar hafa verið í sérlögum um þagnarskyldu um upplýsingar sem varða fjárhagsleg málefni einstaklinga. Auk þess verður að telja að framlagningin brjóti í bága við meginreglur 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. laga nr. 62 19. maí 1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs.

Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar löggjöf sem mælir fyrir um svo yfirgripsmikla röskun á friðhelgi einkalífs einstaklinga sem núgildandi löggjöf kveður á um. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að slíkar ástæður séu fyrir hendi og því sé nauðsynlegt að gera þær breytingar á núgildandi ákvæði 98. gr. laga nr. 90 7. maí 2003, um tekjuskatt, sem frumvarp þetta kveður á um.

Að lokum er rétt að geta þess að frumvarp þetta felur það ekki í sér að neinu leyti að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núgildandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Gerir frumvarpið því ráð fyrir að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum lýkur einkaskattrannsóknum borgaranna á hverjum öðrum."

Þegar Alþingi kemur aftur saman í októberbyrjun mun ég leggja þetta frumvarp fram í enn eitt skiptið, í þeirri von að það verði nú loksins gert að lögum.

Verði mér að ósk minni munu þeir skattgreiðendur sem nú hafa verið nafngreindir í fjölmiðlum fá að vera í friði með tekjur sínar.

Sigurður Kári.


Enn berst Útvarpi Sögu liðsstyrkur frá Frjálslynda flokknum

utvarpsaga%20logo_2127958345Fyrir nokkur ritaði ég pistil á þessa heimasíðu þar sem ég vakti athygli á því að tveir af frambjóðendum Frjálslynda flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar, þau Grétar Mar Jónsson, alþingismaður, og Ásgerður Jóna Flosadóttir, væru orðnir dagskrárgerðarmenn á Útvarpi Sögu, þeirri ágætu talmálsstöð.

Ástæðan fyrir því að ég vakti athygli á þessum sérstæðu mannaráðningum innan stöðvarinnar var sú að fram til þessa hefur útvarpsstjórinn, Arnþrúður Karlsdóttir, lagt mikið upp úr því að stöðin sé frjáls, óháð og hlutlaus.

Ég ljósi þeirrar miklu áherslu sem útvarpsstjórinn hefur lagt á þessa þætti þótti mér heldur einkennilegt að tveir af dagskrárgerðarmönnum stöðvarinnar væru innvígðir og innmúraðir félagar í Frjálslynda flokknum.

Raunar er það svo að Útvarp Saga hefur á síðustu mánuðum og misserum sýnt málflutningi Frjálslynda flokksins mikla athygli og hefur mér á köflum þótt sem stöðin hafi virkað sem málgagn flokksins og forystu hans.

Niðurstaða mín var sú að hafi Útvarp Saga einhverntímann verið frjáls, óháð og hlutlaus þá væri hún það ekki lengur, þrátt fyrir að innanborðs á Útvarpi Sögu væru ágætir dagskrárgerðarmenn, eins og Jóhann Hauksson og Sigurður G. Tómasson.

Mér finnst ástæða til að taka það sérstaklega fram, vegna þeirra viðbragða sem ég fékk við fyrri skrifum mínum um Útvarp Sögu, að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fjölmiðlar taki afstöðu með eða á móti mönnum, málefnum eða stjórnmálaflokkum, svo lengi sem liggi fyrir hvaða erinda fjölmiðlarnir eru að ganga.  Ég minnist þess ekki að forsvarsmenn Útvarps Sögu hafi séð ástæðu til að gera grein fyrir tengslum stöðvarinnar og Frjálslynda flokksins eða yfir höfuð viðurkennt að þau séu fyrir hendi, heldur hafa þeir frekar ítrekað hið afdráttarlausa hlutleysi stöðvarinnar.

4809982359Ég varð enn sannfærðari í trúnni á hlutdrægni stöðvarinnar þegar ég vaknaði í morgun og kveikti á útvarpinu og ætlaði mér að hlusta á morgunþátt Jóhanns Haukssonar, Morgunhanann.  Því miður var Jóhann ekki við hljóðnemann, heldur leysti annar geðþekkur dagskrárgerðarmaður hann af, nefnilega hinn vörpulegi Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins.  Og ekki leið á löngu þar til varaformaður Frjálslynda flokksins og fyrrverandi þingmaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, var mættur í stúdíóið til að ræða við Jón um landsins gagn og nauðsynjar.

Nú bíð ég spenntur eftir því að heyra í þeim Kristni H. Gunnarssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni, en þeir eru einu þingmennirnir í þingflokki Frjálslynda flokksins sem ekki hafa komist á launaskrá hjá Útvarpi Sögu sem dagskrárgerðarmenn.

Þeir félagar hljóta að hefja upp raust sína á öldum þessa ljósvaka fyrr en síðar.

Sigurður Kári.

 


Hvers vegna talar Ögmundur Jónasson máli Hamas-samtakanna?

630-220Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur á síðustu dögum verið á ferðinni fyrir botni Miðjarðarhafs og heimsótt þar helstu skrautfjaðrir Ísraels og Palestínu.

Sjaldan eða aldrei hefur nokkru ferðalagi íslensks stjórnmálamanns verið gerð jafn mikil og ítarleg skil í fjölmiðlum og þessu, að minnsta kosti í innlendum fjölmiðlum.  Af umfangi fréttanna og fyrirferð þeirra mætti halda að sjálfur frelsarinn væri loksins snúinn aftur til fyrirheitna landsins, eftir nokkra bið.

Mikið hefur verið fabúlerað um tilgang ferðar Ingibjargar Sólrúnar til Ísraels og Palestínu.  Ýmist hafa verið settar fram kenningar um að Ingibjörg Sólrún ætli sér nú að koma loks á friði fyrir botni Miðjarðarhafs á meðan aðrir telja að ferðin sé liður í kosningabaráttu Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Um báðar þessar kenningar mætti hafa langt mál, sem ég ætla að spara mér að þessu sinni.

Sá stjórnmálamaður sem hefur haft sig hvað mest frammi í umræðunni um þessa miklu ferð Ingibjargar Sólrúnar suður til Ísrael og Palestínu er Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna.  Hefur Ögmundur ritað greinar í blöð um ferðina, en einnig tjáð sig um hana og tilgang hennar á opinberum vettvangi og hefur satt best að segja haft allt á hornum sér varðandi þessa ferð Ingibjargar.

Síðasta framlag Ögmundar til umræðunnar um þessi mál var í Kastljósi Sjónvarpsins fyrr í kvöld.  Í þættinum ræddi Ögmundur með ábúðarfullum hætti framgöngu utanríkisráðherrans í viðræðum við fyrirmenn í Palestínu og Ísrael og gagnrýndi Ingibjörgu Sólrúnu harðlega fyrir að hafa ekki rætt við forsvarsmenn Hamas-samtakanna um það hvernig koma mætti á friði milli landanna tveggja.

Í þættinum lagði Ögmundur mikla áherslu á að meginreglur lýðræðisins væru virtar og ekki væri hægt að líta framhjá því að Hamas-samtökin hefðu unnið stórsigur í lýðræðislegum kosingum í Palestínu.  Því hefði íslenski utanríkisráðherrann átt að ræða við fulltrúa Hamas-samtakanna, en ekki einungis við Abbas, leiðtoga Palestínumanna.

Nú skal ósagt látið hversu mikil áhrif Íslendingar geta haft á það hvort friður náist í milli Palestínumanna og Ísraela.  Spennan milli þessara tveggja þjóða er mikil en hún er ekki síður mikil milli stríðandi fylkinga í Palestínu, þar sem ríkt hefur borgarastyrjöld.  Sem dæmi um það má nefna að í kvöld bárust fréttir af því að þingmaður Fatah-hreyfingarinnar hefði orðið fyrir skotárás á Gasasvæðinu þar sem Hamas-liðar hafa rænt völdum.

Hversu ábúðarfullur og sanngjarn sem Ögmundur Jónasson reynir að sýnast í fjölmiðlum í umræðum um þetta mál, vopnaður meginreglum lýðræðislegra leikreglna, verður ekki framhjá því litið að þau samtök sem hann talar fyrir, Hamas-samtökin, eru hryðjuverkasamtök.  Hamas-samtökin hafa það að markmiði að þurrka Ísraelsríki út af landakortinu og hafa beitt óvönduðum meðölum til þess að ná því markmiði sínu.  Fulltrúar þeirra hafa á samviskunni fjöldan allan af sprengjuárásum, m.a. í strætisvögnum, gegn óbreyttum borgurum, saklausum mönnum, konum og börnum..

Ekki fæ ég séð hvers vegna Ögmundur Jónasson leggur svo mikla áherslu á að utanríkisráðherra Íslands ræði við forsvarsmenn samtaka sem hafa slíkt á samviskunni.  Í rauninni sé ég enga ástæðu til þess að við þá sé yfir höfuð talað.  Og þá skiptir engu máli hvort þeir hafi unnið einhverja sigra í lýðræðislegum kosningum heima fyrir.

Í stjórnmálasögunni hafa allskyns menn náð völdum í kosningum þar sem meginreglum lýðræðisins hefur verið fylgt.  Baráttuaðferðir þeirra, skoðanir og ofsóknir gagnvart almennum borgurum, þjóðfélagshópum eða öðrum ríkjum hafa hins vegar leitt til þess að einstakir stjórnmálamenn, ríki eða alþjóðasamfélagið hefur séð ástæðu til þess að fordæma framferði þeirra með því að eiga ekki við þá samskipti.

Þeir hafa verið og munu alltaf vera í rétti til þess að bregðast þannig við, sama hvaða meginreglum Ögmundur Jónasson og Vinstri grænir flagga.

Sigurður Kári.


Flott framtak!

433652AÍ dag var fyrsta strætóskýlinu í Reykjavík gefið nafn.  Þetta strætóskýli stendur við minn gamla skóla, Verzlunarskóla Íslands, og að sjálfsögðu hlaut skýlið nafnið ,,Verzló". 

Það voru borgarfulltrúarnir Gísli Marteinn Baldursson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem hengdu myndarlegt skilti framan á strætóskýlið með nafninu.

Það er umhverfisráð Reykjavíkurborgar sem á heiðurinn af þessu góða framtaki, en Gísli Marteinn gegnir formennsku í ráðinu.

Af fréttum að dæma er ætlunin sú að gefa öllum stoppustöðvum Strætó sitt nöfn sem eru lýsandi fyrir staði sem finna má í nágrenni þeirra.

Mér finnst þetta flott framtak hjá umhverfisráði og gott dæmi um þá fersku strauma sem komu inn í borgarstjórn Reykjavíkur með Gísla Marteini, Þorbjörgu Helgu og félögum þeirra í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

Þegar maður sér fyrsta skiltið hanga framan á strætóskýlinu fyrir framan Verzló veltir maður því fyrir sér hvers vegna ekki var ráðist í þetta verkefni fyrr?  Í rauninni var fáránlegt að setja niður á annað hundrað strætóskýlum út um alla borg án þess að nefna stöðvarnar einhverjum nöfnum.

Hvar sem maður kemur erlendis hafa stoppustöðvar, hvort sem er í leiðakerfi strætisvagna eða lesta, sitt nafn.  Þessi nöfn auðvelda manni mjög að læra á leiðarkerfin og komast á áfangastað.  Fram til þessa hafa þeir útlendingar sem nýtt hafa sér þjónustu Strætó ekki átt sjö dagana sæla þegar þeir hafa verið að ferðast um borgina okkar, á milli ómerktra stoppustöðva.  Ég sé núna hversu erfitt það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þá að koma leiðar sinnar.

Umhverfisráð Reykjavíkurborgar, með Gísla Martein formann í broddi fylkingar, á mikið hrós skilið fyrir að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.  Þó svo að hún láti ekki mikið yfir sér og kosti ekki mikla peninga er hún fersk og snjöll og gott dæmi um litla hugmynd setur skemmtilegan brag á borgina okkar.

Kannski þetta leiði til þess að strætisvagnarnir hætti að keyra um galtómir.

Sigurður Kári.


Mávurinn floginn!

Fl_Mavur0052_1549Ég las frétt um það á vefsíðu Morgunblaðsins, mbl.is, á föstudaginn að mávurinn væri floginn og farinn burt af Tjörninni í Reykjavík.

Þetta eru að mínu mati miklar gleðifréttir því mávurinn á Tjörninni hefur verið þar til stöðugra vandræða.

Ég og yngsti meðlimur fjölskyldunnar, hún Salka sem er 4 ára, höfum nokkrum sinnum í vor og sumar farið niður að Tjörn til þess að gefa öndunum brauð.  Undantekningarlítið hefur brauðið runnið ljúflega ofan í ginið á mávinum, en ekki á öndunum, sem hafa mátt sín lítils í baráttunni um brauðið á Tjörninni.

Á dögunum þegar Salka kom heim úr leikskólanum spurði ég hana hvort ekki hefði verið gaman á leikskólanum þann dag og hvað hún hefði verið að gera.  Hún svaraði spurningunni hróðug þannig að þau krakkarnir hefðu farið niður á Tjörn að gefa mávunum brauð!

Það er ekki skrýtið að börnin líti svo á að helsti tilgangur þess að fara niður á Tjörn sé sá að gefa mávunum brauð.  Slíkt hefur mávagerið verið niðri við Tjörn að endurnar eru þar vart sjáanlegar eða halda sér til hlés.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort mávarnir snúi aftur niður á Tjörn.  Vonandi gerist það ekki.  Það er óneitanlega miklu vinalegra að rölta niður á Tjörn til þess að gefa öndunum brauð en að fóðra þar mávinn.

Sigurður Kári.


Frjáls, óháður og hlutlaus fjölmiðill?

utvarpsaga%20logo_2127958345Ég er einn af þeim sem hlusta endrum og sinnum á Útvarp Sögu.  Stöðin býður upp á þætti þar sem megináherslan er lögð á talað mál sem er góður valkostur í þeirri flóru sem boðið er upp á í íslensku útvarpi.  Að mínu mati býður stöðin upp á ýmsa ágæta þætti, einkum morgunþátt Jóhanns Haukssonar, sem nefndist ,,Morgunhaninn" auk þess sem mér finnst Sigurður G. Tómasson bjóða upp á gott útvarp milli klukkan 9 og 11 á morgnanna. 

Með þessu er ég þó ekki að segja að ég sé endilega sammála þeim sjónarmiðum sem þeir félagarnir setja fram í þáttum sínum, en þeir mega eiga það að þau umfjöllunarefni sem þeir taka sér fyrir hendur eru oft áhugaverð eins og viðmælendurnir oftast einnig.  Þeir erum a.m.k. góðir fyrir sinn hatt.

Útvarpsstöðin Útvarp Saga og útvarpsstjórinn, Arnþrúður Karlsdóttir, hafa um langa hríð lagt mikla áherslu á að stöðin sé frjáls og óháð, hinn hlutlausi vettvangur skoðanaskipta fólksins í landinu.

Eflaust var það svo í byrjun.  Ég tók hins vegar eftir því í aðdraganda varaformannskjörs í Frjálslynda flokknum, milli þeirra Margrétar Sverrisdóttur og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að þessi ágæta útvarpsstöð varð einhverra hluta vegna aðal vettvangur þeirrar kosningabaráttu.  Menn geta dæmt hver fyrir sig hversu hlutlaus umfjöllun um það tiltekna mál var á stöðinni en í mínum huga var alveg ljóst hvorn frambjóðandann stöðin og þeir sem að henni standa studdu í þeim kosningum.

Í alllangan tíma hafa forsvarsmenn Frjálslynda flokksins verið afar fyrirferðamiklir á Útvarpi Sögu.  Þeir hafa reglulega verið þar viðmælendur og flutt þar pistla.  Ekki er útilokað að frambjóðendur og kjörnir fulltrúar þess flokks hafi verið duglegri að nýta sér þennan miðil en fulltrúar annarra flokka.  Það skal ósagt látið, en sé sú raunin þá eiga þeir hrós skilið fyrir.

Ég fæ hins vegar ekki betur séð en að á síðustu vikum hafi forsvarsmenn Útvarps Sögu ákveðið að binda enda á það hlutleysi stöðvarinnar sem þeir áður reyndu að sannfæra almenning um að væri til staðar þar innanbúðar.

Af einhverjum ástæðum eru nú tveir af frambjóðendum Frjálslynda flokksins, þau Grétar Mar Jónsson, þingmaður flokksins, og Ásgerður Jóna Flosadóttir, sem skipaði 2. sætið á lista Fjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, orðnir hvorki meira né minna en dagskrárgerðarmenn á stöðinni.

Nú er ég ekki að segja að Gréta Mar, kollegi minn á Alþingi sé slæmur útvarpsmaður.  Hann stýrir hins vegar umræðuþætti á stöðinni þar sem einungis er fjallað um stjórnmál.

Ætli það myndi ekki heyrast hljóð úr einhverju horni ef ég og félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, hefðum verið fengnir sem dagskrárgerðarmenn á Bylgjunni.  Eða myndi fólki ekki bregða ef framsóknarmennirnir Birkir J. Jónsson og Valgerður Sverrisdóttir yrðu fengin til að stjórna morgunþættinum á FM957?

Hafi Útvarp Saga einhvern tíma verið frjáls, óháður og hlutlaus umræðuvettvangur er réttmætt að efast um svo sé lengur.

Sigurður Kári.


Reykjavíkurborg einkavæðir

or01Á forsíðu Blaðsins í dag birtist frétt þess efnis að Gagnaveita Reykjavíkur, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, verði seld fáist sanngjarnt verð fyrir félagið.  Þetta staðfestir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri í samtali við Blaðið.

Eins og fram kemur í frétt Blaðsins varð fyrsti vísirinn að Gagnaveitu Reykjavíkur fyrirtækið Lína.net sem stofnað var árið 1999.  Gagnaveitan var síðan stofnuð í byrjun árs 2005 og breytt í hlutafélag í byrjun þessa árs.

Í fréttinni er það haft eftir borgarstjóra að eðlilegt sé að ráðast í þessa sölu enda telji hann óeðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur standi í samkeppnisrekstri á sviði gagnaflutninga.  Orkuveitan eigi fyrst og fremst að framleiða rafmagn, heitt og kalt vatn og gera það á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Sjónarmið Vilhjálms borgarstjóra eru hárrétt.  Opinberir aðiliar, hvort sem um er að ræða ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki í þeirra eigu, eiga ekki að standa í samkeppnisrekstri, hvort sem er á sviði gagnaflutninga eða á öðrum sviðum.  Þess vegna eru áform meirihlutans í Reykjavík um að selja fyrirtækið skynsamleg.

Þó svo að hugmyndafræði meirihlutans um að selja fyrirtæki sem er í samkeppni við einkaaðila á sama markaði sé hárrétt, er rétt að taka fram að það sjónarmið nær til fleiri fyrirtækja en þeirra sem eru í beinni samkeppni á markaði.  Að mínu mati á hið opinbera yfir höfuð ekki að standa í rekstri sem einkaframtakið getur sinnt jafn vel eða jafnvel betur.

Þó svo að risastór skref hafi verið stigin í einkavæðingu ríkisfyrirtækja á síðustu árum og áratugum blasir við að fjölmörg fyrirtæki sem nú eru í ríkiseigu ætti að selja einkaaðilum.  Nægir þar að nefna þrjú augljós dæmi, nefnilega Íslandspóst, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Vonandi verða þessi fyrirtæki leyst úr viðjum ríkisrekstrarins á komandi mánuðum eða misserum.

Sigurður Kári.


Enn um bensínverð í Reykjavík og á landsbyggðinni

2004-01_Thumb_9517_BensinÁ föstudaginn var skrifaði ég pistil á þessa heimasíðu um bensínverð og velti því fyrir mér hvort bensínverð hér á höfuðborgarsvæðinu væri hærra en á landsbyggðinni. 

Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum var sú að í síðustu viku fór ég norður í land og tók þá eftir því að veriðið á bensínlítranum hér í Reykjavík var 4 krónum hærra en á Akureyri.

Diggur norðlenskur lesandi þessarar heimasíðu, Hermann Einarsson, skrifaði athugasemd við þennan pistil minn og taldi að ég hefði keypt bensínið hjá Orkunni norðan heiða og að það skýrði verðmuninn.

Það er ekki rétt.  Ég keypti bensínið hjá einu af stóru olíufélögunum í sjálfsafgreiðslu.  Bensínið var keypt hjá sama fyrirtæki, á sitthvorum staðnum, og þjónustustigið sem ég valdi mér var það sama.  Samt var verðmunurinn 4 krónur á hvern lítra.

Um síðustu helgi fór ég síðan í sumarbústað fyrir austan fjall.  Eins og áður tók ég bensín hér í Reykjavík áður en ég lagði af stað og dældi því sjálfur á bílinn.  Líterinn kostaði nú 126,3 krónur hér í höfuðborginni.

Ég veitti því sérstaka eftirtekt hvað bensínlíterinn hjá sama fyrirtæki kostaði þegar ég var kominn yfir Hellisheiði og austur á Selfoss.  Og það var ekki að sökum að spyrja, bensínlíterinn á Selfossi var 4 krónum ódýrari en í Reykjavík og kostaði 122,3 krónur.

Maður hlýtur að spyrja hvort það sé tilviljun að bensínlíterinn sé 4 krónum ódýrari norðan heiða og austan en í Reykjavík?  Ekki fæ ég séð að nein sérstök rök réttlæti slíkan verðmun, a.m.k. ekki á Selfossi annars vegar og í Reykjavík hins vegar.  Ég geri ráð fyrir að bensínið sem selt er á Selfossi sé flutt þaðan frá Reykjavík.  Flutningskostnaður úr Örfyrisey og upp á Höfða er lægri, en flutningskostnaður frá sama stað og austur á Selfoss.  Samkvæmt því ætti bensínlíterinn að vera dýrari á Selfossi en á Höfðanum í Reykjavík, en svo er ekki.

Nú má ekki skilja þessa þessar óvísindalegu verðkannanir mínar á bensínverði þannig að ég sé með þeim að berjast fyrir því að verðlag á bensíni á landsbyggðinni verði hækkað til móts við það sem gerist og gengur í Reykjavík.  Þvert á móti myndi ég vilja sjá bensínverð lækka í Reykjavík til móts við það sem gerist og gengur á landsbyggðinni, a.m.k. á þessum tveimur stöðum sem ég hef hér nefnt, enda sé ég engin rök fyrir því af hverju Reykvíkingar ættu að greiða fleiri krónur fyrir bensínið en íbúar landsbyggðarinnar.

Hvort sem þeir sem lesa þessa þessar hugleiðingar eru mér sammála eða ekki væri forvitnilegt að fá skýringar á því af hverju þessi verðmunur stafar.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband