Mánudagur, 16. júlí 2007
Kær og góður vinur fallinn frá
Kær vinur minn, Einar Oddur Kristjánsson, er látinn. Hann lést á laugardaginn, langt fyrir aldur fram, einungis 64 ára að aldri.
Ég fékk þessi sorglegu tíðindi síðdegis á laugardaginn.
Ég hef þekkt Einar Odd og hans fjölskyldu í fjölda ára. Brynhildi dóttur hans kynntist ég fyrst úr fjölskyldunni á Sólbakka. Einar og Sigrúnu heimsótti ég fyrst vestur árið 1999 þegar ég sóttist eftir embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, en Binna og Teitur Björn voru mér innan handar í kosningabaráttunni þar fyrir vestan. Frá þeim tíma var mjög kært milli mín og þeirra allra.
Leiðir okkar Einars Odds lágu saman í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eftir alþingskosningarnar 2003. Við Einar Oddur vorum sessunautar á þingflokksfundum og með okkur myndaðist mikill og kær vinskapur. Ég minnist þess sérstaklega hversu vel Einar Oddur tók mér sem nýjum þingmanni eftir þessar kosningar. Til hans var alltaf gott að leita, sama hvert erindið var Hann var einlægur og ráðagóður og einkar skemmtilegur.
Í mínum huga var Einar Oddur einn áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu áratuga á Íslandi. Hann var fastur fyrir og fylginn sér. Mikill málafylgjumaður á Alþingi sem barðist af heilindum fyrir hagsmunum sinna umbjóðenda. Hann Einar Oddur hafði mikla persónutöfra og var ákaflega mikill orator. Þegar hann flutti ræður sínar á Alþingi kappkostuðu þingmenn að missa ekki af þeim, svo snjallar voru þær.
Með andláti Einars Odds hverfur á braut afar merkilegur stjórnmálamaður, góður samstarfsmaður, en fyrst og fremst kær og góður vinur sem mér þótti afar vænt um. Ég á eftir að sakna hans sárt.
Sigrúnu og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.
Guð geymi Einar Odd.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 13. júlí 2007
Er bensínið dýrara á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni?
Eins og komið hefur fram á þessari síðu hef ég verið töluvert á ferðinni um landið þetta sumarið. Og í síðustu viku gerðum við í fjölskyldunni víðreist um Norðurland.
Ég veitti því sérstaka eftirtekt hvað líterinn af bensíni í sjálfsafgreiðslu kostaði þegar ég lagði í hann frá Reykjavík, en eins og gengur tók ég bensín í upphafi ferðarinnar. Verðið á lítranum var 124 krónur.
Þegar ég þurfti síðan að bæta bensíni á bílinn norður í landi vakti það athygli mína að bensínlíterinn þar var nokkuð ódýrari og kostaði sléttar 120 krónur, einnig í sjálfsafgreiðslu.
Á ferð minni um norðurland stoppaði ég nokkrum sinnum á bensínstöðvum og keypti eldsneyti á þessum kjörum. Þegar við komum aftur suður til Reykjavíkur hafði bensínverðið hækkað í 124 krónur.
Eldsneytisverð á Íslandi er alltof hátt. Um það verður ekki deilt. Ástæður þessa háa verðlags eru margvíslegar og ber ríkið þar mikla ábyrgð, enda er skattheimta og önnur gjaldtaka af eldsneyti gríðarlega há hér á landi sem kemur fram í verðlaginu.
En getur það verið að við höfuðborgarbúar þurfum að borga meira fyrir bensíndropann en íbúar landsbyggðarinnar?
Af reynslu minni virðist svo vera, án þess að ég ætli að fullyrða nokkuð um það.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 13. júlí 2007
Tvær bækur - ,,Viltu vinna milljarð?" og "Kommúnisminn - sögulegt ágrip"
Á síðustu dögum hef ég verið að lesa tvær bækur sem mér finnst ástæða til að minnast á.
Sú fyrri heitir ,,Viltu vinna milljarð?", eftir Vikas Swarup í þýðingu Helgu Þórarinsdóttur. Á forsíðu bókarinnar kemur fram að bókin hafi fengið Bókmenntaverðlaun árið 2006 sem starfsfólk bókaverslana veitir sem best þýdda skáldsagan, enda er hún prýðilega þýdd.
,,Viltu vinna milljarð?" er ágætis saga sem gerist á Indlandi. Í raun er bókin safn smásagna sem tengjast saman. Þetta er reifari sem tilvalið er að lesa í sumarfríinu.
Hin bókin sem ég er að lesa er af öðrum toga, en hún heitir ,,Kommúnisminn - sögulegt ágrip", eftir Richard Pipes. Pipes er einn þekktasti sérfræðingur heims í nútímasögu Rússlands og er hann prófessor emeritus í sagnfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Jakob F. Ásgeirsson og Margrét Gunnarsdóttir, þýddu bókina, en hana fékk ég að gjöf frá góðum vini mínum Ólafi Hrófssyni, miklum Sjálfstæðismanni í Reykjavík.
Það sem mér fannst mest sjarmerandi við þessa bók þegar ég fór að skoða hana var tilvitnun í Malcolm Muggeridge, sem birt er fremst í bókinni, en þar segir:
,,Það sem var mest uppörvandi við sovétkerfið voru ófarir þess. Ef það hefði reynst árangursríkt ... hefði ég vitað að því væru engin takmörk sett hversu langt væri hægt að ganga í ógnunum og þrælmennsku gagnvart manninum."
Eins og fram kemur á baksíðu bókarinnar rekur Pipes sögu kommúnismans á skýran og aðgengilegan hátt. Þar er lýst fræðilegum grundvelli kommúnismans, fjallað um fyrstu hugmyndir um eignalaust samfélag og hvernit til varð kenning um afnám séreignarréttarins og vopnaða byltingu.
Rakin er saga kommúnismans í Rússlandi og velt vöngum yfir því hvers vegna Rússland, þvert á alla spádóma Marx, varð fyrst landa til að verða kommúniskt.
Sagt er frá stjórnarháttum Leníns og Stalíns í Sovétríkjunum, samyrkjuvæðingunni og ógninni miklu, hnignun kommúnistastjórnarinnar í Moskvu og falli hennar.
Fjallað er um sögu kommúnismans á heimsvísu - útbreiðslu hans til Austur-Evrópu, Kína og þróunarlanda, viðtökur hans á Vesturlöndum og kalda stríðið.
Loks er reynt að grafast fyrir um hvers vegna kommúnisminn mislukkaðist og gerð grein fyrir þeim mannfórnum sem kommúnisminn kallaði yfir heimsbyggðina á 20. öldinni.
Það er óhætt að segja að byrjun bókarinnar lofi góðu og að lestri hennar loknum mun ég eflaust geta mælt með þessari forvitnilegu bók.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 13. júlí 2007
Ísland - sækjum það heim
Eins og ég greindi frá fyrir nokkru á heimasíðu minni þá eignaðist fjölskyldan hund um síðustu páska. Hundurinn, sem heitir Bjartur, er af Labrador-kyni, er nú á 6 mánuði og braggast vel.
Þegar við eignuðumst Bjart varð ljóst að við myndum ekki fara til útlanda þetta sumarið heldur sækja Ísland heim, enda ófært og ábyrgðarlaust að skilja lítinn hvolp hjá ókunnugum um nokkra vikna skeið.
Síðustu vikurnar höfum við staðið við þessi heit okkar. Um þar síðustu helgi var ferðinni heitið í sumarbústað foreldra minna sem staðsettur er rétt utan við Hellu, ekki langt frá Keldum, heimili Drífu Hjartardóttur, fyrrum alþingskonu Sjálfstæðisflokksins. Ég nýtti ferðina til þess að spila golf á Strandavelli á Hellu og tók þátt í golfmóti milli lögmanna og lækna. Strandavöllur var í góðu formi, eins og læknarnir, en við í lögmannaliðinu náðum okkur ekki á stik og steinlágum.
Á mánudagsmorgun hélt fjölskyldan síðan norður í land. Ferðinni var heitið til Húsavíkur þar sem föðurfjölskylda Birnu kom saman í tilefni af því að amma hennar, Jakobína Grímsdóttir, frá Syðstabæ, hefði orðið 100 ára þann dag. Við dvöldum í tvær nætur á Húsavík, gengum á Húsavíkurfjall, fórum í golf á ljómandi skemmtilegum golfvelli Húsvíkinga og borðuðum á veitingahúsinu Sölku, sem var skemmtilegt í ljósi þess að yngsti fjölskyldumeðlimurinn ber það nafn.
Það var mikið mannlíf á Húsavík. Í miðbænum og við höfnina verður varla þverfótað fyrir ferðamönnum sem ýmist eru á ferðalagi um Norðurland eða eru komnir til bæjarins til þess að fara í hvalaskoðunarferðir og heimsækja hvalasafn Ásbjörns Björgvinssonar, sem ég hef margoft heimsótt. Hin merka kirkja bæjarbúa er einnig sérstakt aðdráttarafl, enda einstaklega fallegt mannvirki þar á ferð.
Á miðvikudag héldum við frá Húsavík og til Akureyrar. Þann dag hófst þar N1-mótið í knattspyrnu þar sem drengir í 5. flokki allsstaðar af landinu etja kappi. Við fylgdum okkar manni, Sindra, sem er 11 ára knattspyrnukappi hér á heimilinu og leikur með KR og studdum hann með ráðum og dáð. Sá stuðningur var auðvitað dálítið erfiður til að byrja með fyrir mig. Ekki vegna þess að ég eigi erfitt með að styðja Sindra, heldur vegna þess að ég er fæddur og uppalinn Frammari og ekki vanur því að standa eins og klettur við bakið á KR-ingum. Slíkt breytist þó fljótt þegar efnilegur leikmaður af heimilinu leikur fyrir félagið.
Strákarnir í KR stóðu sig vel þó ekki hefði þeim tekist að sigra mótið. Sjálfur skemmti ég mér ekki síður vel í hlutverki foreldris á hliðarlínunni en sem keppandi þegar ég á yngri árum tók þátt í svona mótum. Það er frábært að sjá hversu mikið strákarnir leggja á sig til þess að ná árangri og tilfinningar leikmanna eru miklar, líkt og þeir séu að leika um heimsmeistaratitilinn í hverjum leik. Það er ekki annað hægt en að mæla með því við fólk sem á krakka í yngri flokkum knattspyrnuliðanna á Íslandi að sækja mót eins og þessi. Þau eru stórkostleg skemmtun fyrir börnin og foreldrana.
Ég get heldur ekki látið hjá líða að nefna hversu vel var staðið að allri skipulagningu þessa móts af hálfu KA-manna, sem áttu veg og vanda að mótshaldinu. Það er sérstakt afrek að halda tímaáætlun upp á mínútu á knattspyrnumóti þar sem leiknir eru tæplega 600 knattspyrnuleikir.
Meðan á N1-mótinu stóð gistum við Birna á Dalvík, í tjaldi hjá vinafólki okkar. Það var einstaklega hressandi og gott, en síðustu næturnar gistum við í ákaflega huggulegu íbúðarhúsi á Akureyri. Á þeim tíma nutum við alls þess besta sem Akureyri hefur upp á að bjóða og heimsóttum flesta þá staði sem við gátum sem markverðir eru á Akureyri og í nágrenninu.
Við munum halda áfram eftir föngum að ferðast um landið það sem eftir er sumars. Að ferðast um Ísland er engu síðra en að ferðast til annarra landa. Líklega skemmtilegra ef eitthvað er. Íslenska náttúra er enda engu lík og náttúrufegurðin á þeim stöðum sem maður keyrir framhjá á leiðinni norður er einstök. Nægir þar að nefna staði eins og Norðurárdalinn, Vatnsdalshólana, Hraun í Öxnardal, svo dæmi séu tekin.
Það er því óhætt að mæla með því að sækja Ísland heim þetta sumarið.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 22. júní 2007
Stelpurnar okkar!
Stelpurnar í kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu stóðu sig afspyrnuvel í gær þegar þær sigruðu Serba 5-0 og fylgdu þar með eftir góðum sigri á landsliði Frakka. Árangur íslenska kvennalandsliðsins er frábær og vonandi halda þær áfram að gera það gott. Þá er aldrei að vita nema við komumst loksins í úrslit í lokakeppni í knattspyrnu og að konurnar verði fyrstar til þess að ná þeim árangri.
Fyrir mína parta finnst mér ekki síst gaman að sjá hversu fær þjálfari íslenska liðsins er. Sá heitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum Víkingur og KR-ingur, og gamall skólabróðir minn úr Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Á yngri árum háðum við marga hildi á fótboltavellinum. Hann var teknískur sóknarmaður. Ég var harðskeyttur varnarmaður og minningin segir mér að oftast hafi ég haft hann undir, a.m.k. kýs ég að túlka söguna með þeim hætti. Ekki vissi ég að Siggi Raggi gæti þjálfað þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari kvenna, en hann er að sýna það núna hversu miklar töggur eru í honum.
Kvennaboltinn á Íslandi hefur fram til þessa ekki verið sérstaklega hátt skrifaður og þar af leiðandi hefur hann ekki hlotið mikla athygli. Samt sem áður hef ég tekið eftir því að Ásthildur Helgadóttir og Margrét Lára og allar hinar stelpurnar í landsliðinu hafa vaðið eld og brennistein til þess að markaðssetja kvennaboltann og íslenska landsliðið. Ég man t.d. eftir auglýsingum þeirra um árið þegar landsliðskonur klæddust ýmsum búningum í auglýsingum fyrir leiki í von um að glæða aðsóknina.
Þessi uppátæki landsliðskvenna hafa hægt og sígandi skapað stemmingu innan liðsins og utan og í gær gerðist það að tæplega 6000 áhorfendur lögðu leið sína í Laugardalinn til þess að berja þær augum og styðja við bakið á þeim, u.þ.b. 100% fleiri áhorfendur en áður hafa sést á landsleik kvenna á Íslandi. Slík mæting þætti góð á leiki karlalandsliðsins.
Stelpurnar í landsliðinu eiga auðvitað heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu inni á vellinum. En þær eiga ekki síður heiður skilinn fyrir það hversu vel þær hafa staðið að því að markaðssetja sjálfar sig og sína íþrótt í gegnum tíðina.
Sú mikla vinna þeirra hefur skilað árangri og það sýndi sig í gær.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.6.2007 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 22. júní 2007
Öflug Heimssýn
Þann 5. júní sl. var ný stjórn Heimssýnar kjörin á aðalfundi hreyfingarinnar.
Fyrir þá sem ekki þekkja er Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Heimssýn var stofnuð 27. júní 2002, en meginmarkmið hennar er að stuðla að og standa fyrir opinni umræðu um Evrópu- og alþjóðasamstarf. Hefur hreyfingin á umliðnum árum staðið fyrir fjölda funda um Evrópumál, haldið úti heimasíðunum www.heimssyn.is og www.heimssyn.blog.is, auk þess sem hún hefur fengið hingað til lands fjöldan allan af erlendum gestum, m.a. þingmönnum af Evrópuþinginu, til þess að ræða málefni Íslands og Evrópusambandsins.
Sjálfur hef ég átt sæti í stjórn Heimssýnar frá stofnun og gengdi embætti varaformanns á síðasta starfsári.
Að þessu sinni voru kjörin í aðalstjórn hreyfingarinnar, auk mín, þau Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrv. ráðherra, sem jafnframt var kjörinn formaður, Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, Bjarni Harðarson, alþingismaður, Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur, Gísli Freyr Valdórsson, sagnfræðinemi, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur, Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi, og Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra. Í varastjórn hreyfingarinnar voru kjörin þau Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður, Davíð Örn Jónsson, verkfræðinemi, Brynja Björg Halldórsdóttir, menntaskólanemi, Eyjólfur Eysteinsson, fyrrv. útsölustjóri, Illugi Gunnarsson, alþingismaður, Hörður Guðbrandsson, fyrrv. bæjarstjóri Grindavíkur, og Ingvar Gíslason, fyrrv. menntamálaráðherra.
Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar skiptum við stjórnarmenn með okkur verkum. Ragnar Arnalds verður áfram formaður Heimssýnar og ég verð áfram varaformaður. Ritari verður Anna Ólafsdóttir Björnsson og Bjarni Harðarsson heldur um tékkhefti hreyfingarinnar.
Á komandi starfsári má búast við því að Heimssýn haldi áfram því starfi sem hreyfingin hefur staðið fyrir á undanförnum árum. Við munum áfram halda úti málgagni okkar á netinu og vinna að því að fá hingað til lands erlenda aðila til skrafs og ráðagerða og fundahalds.
Að mínu mati á Heimssýn bjarta framtíð fyrir sér og ég hlakka til samstarfsins við það sómafólk sem hlaut kjör í stjórn hreyfingarinnar að þessu sinni.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 18. júní 2007
Glæsilegur sigur á Serbum 17. júní!
Það var frábært að verða vitni að sigri íslenska landsliðsins í handknattleik á því serbneska í Laugardalshöllinni í gær. Leikurinn var með miklum ólíkindum. Ég man a.m.k. ekki eftir því að jafn mörg mörk hafi verið skoruð í jafn mikilvægum leik eins og þessum eða 82.
Serbar eru með hörkugott handboltalið og hefðin fyrir góðum árangri á handboltavellinum er rík hjá þjóðum fyrrum Júgóslavíu. Það var það afrek hjá íslenska liðinu að ná að slá Serba úr leik og tryggja sér þátttökurétt á Evrópumóti landsliða sem fram fer í Noregi í janúar 2008. Þá mun íslenska landsliðið taka þátt í úrslitum stórkeppni í tíunda skiptið í röð, sem er einnig afrek.
Okkar menn stóðu undir væntingum í leikjunum tveimur og stemmingin í Laugardalshöll var einstök. Alfreð Gíslason hefur byggt upp lið sem hefur valinn mann í hverju rúmi og þarf því ekki að treysta á einstaklingsframtak eins eða tveggja leikmanna. Allir íslensku leikmennirnir hafa burði til þess að bera leik liðsins uppi.
Það verður spennandi að sjá hvaða árangri strákarnir ná á Evrópumótinu og ljóst að væntingarnar verða miklar. Til þess að árangur náist þarf forysta HSÍ að gera allt sem hún getur til að tryggja að Alfreð Gíslason stýri liðinu í lokakeppninni, enda hefur Alfreð margsinnis sýnt og sannað hversu snjall þjálfari hann er.
Við vonum það besta.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 7. júní 2007
Þetta er ekki nógu gott - því miður
Ég hef frá upphafi verið einlægur aðdáandi íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Sem slíkur horfði ég á leiki landsliðsins gegn Liechtenstein og Svíþjóð. Úrslit þeirra leikja voru vonbrigði, en það sem olli mér eiginlega meiri vonbrigðum var leikur íslenska liðsins og sá bragur sem var á leikmönnum þess.
Þó svo að íslenska landsliðið sé ekki hátt skrifað á heimsmælikvarða þá eigum við engu að síður góða knattspyrnumenn sem geta leikið góða knattspyrnu og árangursríka. Við eigum landslið sem hægt er að gera kröfur til, þó svo að þær kröfur verði að vera raunhæfar, og oft á tíðum hefur liðið staðið undir þeim kröfum sem gerðar hafa verið til þess.
Íslenska landsliðið stóð ekki undir þeim kröfum sem við gerum til þess í leiknum við Liechtenstein. Jafntefli við það smáríki á heimavelli eru ekki ásættanleg úrslit og leikur liðsins olli vonbrigðum. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Ég gerði mér hins vegar nánar engar vonir um að íslenska liðið myndi leggja það sænska af velli á Råsundaleikvanginum í Stokkhólmi. Ástæðurnar fyrir því eru margþættar. Í fyrsta lagi er sænska liðið mun betra en það íslenska um þessar mundir. Í öðru lagi fór leikurinn fram á þjóðarleikvangi Svía sem er einn sá erfiðasti heim að sækja og í þriðja lagi voru of margir lykilmenn íslenska liðsins á síðustu árum fjarverandi vegna leikbanna, meiðsla og vegna þess að þeir gáfu ekki kost á sér. Í ljósi þessa var engin ástæða til bjartsýni fyrir leikinn gegn Svíum, vildu menn horfa á leikinn raunsæjum augum.
Íslenska landsliðið hefði hins vegar getað gert miklu betur. Leikur liðsins olli vonbrigðum, það skorti á einbeitingu og baráttu leikmanna og óöryggi og hræðsla einkenndu leik liðsins. Það virtist ekki vera nein stemming meðal leikmanna og enginn þeirra virtist þess megnugur að rífa hana upp. Það var einfaldlega enginn bragur á leik íslenska liðsins. Því miður.
Í ljósi úrslita leiksins get ég ekki tekið undir þau orð Eyjólfs Sverrissonar, landsliðsþjálfara, sem höfð eru eftir honum í Morgunblaðinu eftir leikinn, þar sem hann sagði:
,,Varnarleikurinn var alveg ágætur þrátt fyrir að lokatölurnar hafi verið 5-0."
Það er ekkert sem bendir til þess að varnarleikurinn eða aðrir þættir í leik liðsins hafi verið ágætir. Því er ekki hægt að halda fram þegar slík úrslit liggja fyrir og þegar aðdragandi þeirra marka sem liðið fékk á sig er skoðaður að varnarleikurinn hafi þrátt fyrir allt verið alveg ágætur. Hann var það ekki og íslenska liðið þarf að bæta leik sinn í vörn en einnig í sókn.
Í umfjöllun eftir þessa leiki hefur mér fundist sem að íþróttafréttamenn hafi viljað finna sökudólg sem hengdur skuli í hæsta gálga og krafist þess að Eyjólfur yrði rekinn. Hefur að mínu mati meira farið fyrir þeirri kröfu á stundum en umfjöllun um leik liðsins og það ástand sem ríkir innan herbúða þess.
Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ástæður þess að liðið leiki illa og nái engum árangri megi ekki einungis rekja til þjálfarans. Ég held að það séu fleiri þættir sem spila þar inn í. Eflaust má gagnrýna landsliðsþjálfarann þegar ástandið á landsliðinu okkar er eins slæmt og raun ber vitni og sjálfur hefur hann viðurkennt að frammistaða liðsins sé gagnrýniverð. Leikmenn verða líka að líta í eigin barm. Og eins og áður segir virðist augljóst að sá mannskapur sem nú skipar landsliðið virðist ekki hafa inni að halda leikmenn sem geta rifið upp þá stemmingu sem nauðsynleg er innan liðsins til þess að það nái árangri. Það vantar m.ö.o. móralskan leiðtoga sem drífur aðra leikmenn með sér inni á vellinum, auk þess sem eitthvað virðist vanta upp á slíkan hæfileika hjá þjálfaraliði þess.
En það eru hins vegar ekki síst yfirmenn knattspyrnumála á Íslandi sem þurfa að líta í eigin barm. Forysta KSÍ getur varla ætlast til þess að landsliðið okkar nái viðunandi árangri þegar hún ræður til starfa til þess að gera reynslulausan þjálfara en veitir honum og liðinu á sama tíma ekki þá umgjörð og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að árangur náist. Hvernig er hægt að ætlast til þess að slíkur maður nái árangri með liðið þegar hann fær nánast enga æfingaleiki fyrir lið sitt, sem hlýtur að vera forsenda þess að hann geti skoðað leikmenn og mótað samhæft lið? Og af hverju er ekki búið svo um hnútana að slíkum leikjum sé komið á? Þeirri spurningu verður Geir Þorsteinsson, nýkjörinn formaður KSÍ, að svara. Öll knattspyrnulandslið sem ætla sér eitthvað á þessum vettvangi spila fjölda æfingaleikja. Mér skilst að meira að segja vinum okkar í Færeyjum hafi tekist að koma slíkum æfingaleikjum á koppinn. Hvers vegna tekst forystu KSÍ það ekki?
Það er mikið verk að vinna hjá forystu KSÍ og íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Vonandi tekst að stokka spilin í því landsleikjafríi sem nú er hafið. Þar gegnir forysta KSÍ lykilhlutverki. Við sem viljum veg íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem mestan vonum að tíminn verður nýttur til hins ítrasta og að vel takist til.
Þetta er ekki nógu gott - því miður.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Samstarf Háskóla Íslands og Harvard háskóla undirritað
Í dag undirrituðu Háskóli Íslands og Harvard háskóli í Bandaríkjunum merkilegan samstarfssamning sem heilbrigðisráðherra staðfesti með undirritun sinni.
Um er að ræða samstarfssamning milli Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Faraldsfræðideildar Harvard háskóla, Harvard School og Public Health. Samstarfið felur í sér sameiginleg rannsóknarverkefni og uppbyggingu á framhaldsmenntun í lýðheilsuvísindum við Háskóla íslands, en jafnframt ætla skólarnir að vinna að rannsóknarverkefni á krabbameini í blöðruhálskirtli sem byggir á einstökum íslenskum gögnum.
Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands er ný af nálinni, en hún fer með þverfræðilegt meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum. Um 50 nemendur hefja nám við deildina í haust og munu kennarar og nýdoktorar við Faraldsfræðideild Harvard háskóla taka þátt í þróun námsbrautarinnar ásamt því að kenna námsefnið, eins og fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Verkefnið sem snýr að rannsókn á krabbameini í blöðruhálskirtli er á byrjunarstigi en slíkt krabbamein er í dag næstalgengasta dánarorsökin vegna krabbameina hérlendis. Auk Harvard háskóla koma Krabbameinsfélagið, Hjartavernd og Landspítalinn að rannsókninni sem snýr að áhættuþáttum og forspárþáttum um framvindu sjúkdómsins og lífsgæðum sjúklinga.
Það er engum blöðum um það að fletta að samningurinn felur í sér mikla viðurkenningu á störfum þeirra sem komið hafa að stofnun og uppbyggingu hinnar nýju Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Harvard háskóli er ein virtasta menntastofnun heimsins. Hún velur samstarfsaðila sína af mikilli kostgæfni og þeir sem til þekkja vita að skólinn fer ekki í samstarf sem þetta nema samstarfsaðilarnir standi þeim jafnfætis á þeim fræðasviðum sem um ræðir.
Þess vegna er samstarfssamningur háskólanna tveggja mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands og forsvarsmenn hinnar nýju Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, þar á meðal fyrir góða vinkonu mína, dr. Unni Önnu Valdimarsdóttur, dósent við miðstöðina, og fyrir framtak sitt eiga þeir heiður skilinn.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 4. júní 2007
Evrópuspuni Guðna Ágústssonar
Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með málflutningi Guðna Ágústssonar eftir að hann tók við embætti formanns Framsóknarflokksins.
Í mínum huga er Guðni Ágústsson vel að titlinum kominn, ef svo má segja, enda hef ég haft það á tilfinningunni að hann eigi mikið í því fylgi sem Framsóknarflokkurinn þó hlaut í nýliðnum kosningum til Alþingis.
Á fyrstu vikum sínum í formannsstóli Framsóknarflokksins hefur Guðni Ágústsson verið að setja mark sitt á stefnu flokksins. Augljóst er að Guðni hefur talið þann kostinn vænstan fyrir Framsóknarflokkinn að sveigja stefnu hans hressilega til vinstri. Það þarf svo sem ekki að koma mjög á óvart því Guðni Ágústsson hefur margoft lýst sig fulltrúa vinstriarms Framsóknarflokksins. Þó svo að ég sé fyrir mitt leyti ekki hrifinn af því þegar stjórnmálaflokkar sveigja stefnu sína til vinstri á eftir að koma í ljós hvort sú stefnubreyting verður Framsóknarflokknum til framdráttar.
Þar sem ég hef fylgst af athygli með opinberri framgöngu Guðna Ágústssonar hef ég ekki komst hjá því heyra hann lýsa skoðunum sínum í Evrópumálum. Guðni hefur alla tíð verið andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu öfugt við forvera hans í formannsstóli Framsóknarflokksins, en Halldór Ásgrímsson talaði ekki einungis hlýlega til Evrópusambandsins heldur spáði því beinlínis þegar hann gengdi embætti forsætisráðherra að árið 2015 yrði Ísland orðið aðili að sambandinu. Valgerður Sverrisdóttir, varaformannskandídat Framsóknarflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hefur tekið í svipaðan streng.
Frá því að Guðni varð formaður Framsóknarflokksins hefur hann lagt sig allan fram við að koma þeirri stefnu Framsóknarflokksins á framfæri að flokkurinn sé andsnúinn því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og kveður því við nokkuð nýjan tón hjá framsóknarmönnum í þessum efnum, þó auðvitað sé minnisstætt kosningaslagorð Framsóknarflokks Steingríms Hermannssonar á síðustu öld ,,X-B, ekki EB!". Má því segja að Guðni Ágústsson feti nú í fótspor Steingríms.
En Guðni hefur ekki látið við það sitja að skýra stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum, heldur hefur hann einnig lagt nokkuð mikið á sig við að rangtúlka stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum. Það gerði hann til að mynda í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á fimmtudag. Þar sagði Guðni meðal annars:
,,Það sem hins vegar vekur mesta athygli nú er að Sjálfstæðisflokkurinn er að snúast Evrópusambandinu á hönd. Það sem ekki var á dagskrá í gær heitir í dag opinber umræða um Evrópumál. ... Spurningin er hvort Evrópusýn Samfylkingarinnar verði hin nýja sólarsýn Sjálfstæðisflokksins. Ég á mér ekki þann draum."
Ég get gert þá játningu hér að ég á mér heldur ekki þann draum að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og er að því leyti sammála Guðna Ágústssyni. Og ég tel að meginþorri sjálfstæðismanna sé mér sammála, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei haft það á sinni stefnuskrá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Sú stefna hefur aldrei breyst, þó svo að Guðni Ágústsson geri nú sitt besta til þess að sannfæra fólk um annað. Í því sambandi bendi ég á að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var í apríl, var samþykkt ályktun um utanríkismál þar sem sú stefna flokksins var áréttuð, en þar segir m.a.:
,,Evrópusambandið er bæði einn stærsti sameiginlegi markaður veraldar og mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gerður var undir stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins hefur átt stóran þátt í mikilli hagsæld á Íslandi á umliðnum árum og heldur áfram að þjóna hagsmunum okkar vel hvað varðar viðskipti við ríki álfunnar. Ekki er annars að vænta en að EES-samningurinn muni halda gildi sínu. Sjálfstæðisflokkurinn telur aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum er háttað. Mikilvægt er að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja."
Hvernig dettur Guðna Ágústssyni að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að snúast Evrópusambandinu á hönd þegar landsfundur flokksins segir beinlínis að hann telji ,,aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslenskum þjóðarinnar eins og málum er háttað"?
Bollaleggingar Guðna Ágústssonar um meintan vilja Sjálfstæðisflokksins til þess að gera Ísland að aðila Evrópusambandsins gengur auðvitað ekki upp og það veit Guðni auðvitað vel. En ástæðan fyrir þessum spuna formanns Framsóknarflokksins er auðvitað sá hluti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um Evrópumál þar sem kvatt er til opinskárrar umræðu um Evrópumál, en þar segir:
,,Ríki Evrópusambandsins eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum."
Hvernig geta menn verið á móti því að opinskáar umræður fari fram um Evrópumál, eins og önnur mikilvæg mál? Við sjálfstæðismenn höfum um árabil staðið fyrir miklum umræðum um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, nú síðast í Evrópunefnd forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar. Niðurstöður þeirrar skýrslu benda ekki til þess að pólitískur vilji standi til þess meðal stjórnmálaflokkanna að stefna að aðild Íslands að Evrópusambandinu, allra síst af hálfu sjálfstæðismanna í nefndinni. Hins vegar er ljóst að margt má gera til þess að efla starfsemi Alþingis og stjórnkerfisins á vettvangi Evrópumála.
Formaður Framsóknarflokksins getur að mínu mati sofið sallarólegur yfir framtíð Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa ekki talið aðild að sambandinu þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar og verður ekki séð að á því verði breyting í nánustu framtíð.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 203816
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh