Tekjuafgangur ríkissjóðs árið 2007

money_3Í gær afgreiddum við þingmenn fjáraukalög fyrir árið 2007 sem lög frá Alþingi.  Þar með liggur fyrir hversu mikill tekjuafgangur varð af fjárlögum þessa árs.

Afgangurinn nam 82,8 milljörðum króna.  Ég hygg að aldrei í sögunni hafi ríkissjóður áður skilað jafn miklum tekjuafgangi. 

Sé ekki tekið tillit til tekna ríkisins af sölu eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli nemur tekjuafgangur ríkisins 68,3 milljörðum króna.  Slík niðurstaða myndi einnig slá öll met.

Þetta er mikið fagnaðarefni og sýnir hversu sterk staða ríkissjóðs er um þessar mundir.

Sigurður Kári.


Þingmaður og hæstaréttarlögmaður

VG-S-1-Atli_Gislason_055Ég hef upp á síðkastið velt því dálítið fyrir mér hvað ræður því hvernig menn sem taka þátt í opinberri umræðu eru kynntir til leiks þegar þeir tjá sig um málefni líðandi stundar.

Hér er kannski ekki á ferðinni mjög merkileg stúdía, en hún er engu að dálítið athyglisverð.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að einn tiltekinn þingmaður er kynntur með öðrum hætti en aðrir alþingismenn þegar þeir koma fram í fjölmiðlum.  Þetta er Atli Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Það er nefnilega þannig að nánast í hvert einasta skipti sem vitnað er til þess sem Atli Gíslason hefur til málanna að leggja um nánast hvað sem er þá er hann kynntur til leiks sem Atli Gíslason, þingmaður og hæstaréttarlögmaður.

Ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar af hverju Atli er ekki bara titlaður þingmaður vinstri grænna þegar hann tjáir sig í fjölmiðlum.  Þarf hann eitthvað sérstaklega á fleiri vegtyllum að halda?  Af hverju taka fjölmiðlamenn það alltaf sérstaklega fram að Atli sé einnig hæstaréttarlögmaður?

Það er auðvitað alkunna að Atli er menntaður lögfræðingur og hefur um margra ára skeið starfað sem lögmaður og átt farsælan starfsferil sem slíkur.  Og er að mínu mati er Atli ágætislögfræðingur, þó mér hafi oft á tíðum fundist hann ganga alltof langt í því að reyna að klæða stjórnmálaskoðanir sínar í lögfræðilegan búning, eins og stjórnmálamaður í dulargervi fræðimannsins.  Um það gæti ég tekið mörg dæmi.

En er einhver ástæða til að taka það fram í hvert skipti sem Atli Gíslason tjáir stjórnmálaskoðanir sínar að taka það sérstaklega fram að hann sé ekki bara þingmaður heldur líka hæstaréttarlögmaður?  Er það hugsanlega gert til þess að gefa orðum hans meira vægi en þau annars hefðu?

Þeirri spurningu verða aðrir að svara en ég, en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvort það eru fjölmiðlamennirnir sjálfir sem eiga frumkvæðið að slíkri kynningu eða Atli sjálfur.

Þetta fyrirkomulag væri auðvitað eðlilegt ef fjölmiðla- og blaðamenn létu það sama ganga yfir alla kollega Atla í þessum efnum.  Hvers á Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, til dæmis að gjalda?  Jón er hæstaréttarlögmaður eins og Atli Gíslason og hefur starfað við lögmennsku álíka jafn lengi og hann.  Hann er hins vegar aldrei titlaður annað en þingmaður Frjálslynda flokksins þegar hann kemur fram í fjölmiðlum.  Af hverju fær Jón ekki að njóta þess eins og Atli í fjölmiðlum að vera hæstaréttarlögmaður, sem hann svo sannarlega er?

Væri nú ekki ráð hjá íslenskum blaða- og fjölmiðlamönnum að láta sömu reglu yfir alla ganga.  Vilji þeir titla Atla Gíslason þingmann og hæstaréttarlögmann, væri þá er ekki rétt að nefna það að Steingrímur J. Sigfússon er ekki bara þingmaður vinstri grænna heldur einnig jarðfræðingur?  Og á Þuríður Backmann, þingkona vinstri grænna, það ekki skilið að þess sé sérstaklega getið að hún sé hjúkrunarfræðingur?  Maður skyldi ætla að það væri eðlileg krafa.

Til þess að gæta allrar sanngirni er rétt að taka það fram að Atli Gíslason er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem titlaður er í fjölmiðlum með þessum hætti.

Í því sambandi minnist ég þess sérstaklega einn tiltekinn borgarfulltrúi Reykvíkinga, sem nú er orðinn borgarstjóri í Reykjavík, var aldrei kynntur til leiks í fjölmiðlum með öðrum hætti en sem Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarfulltrúi.

Sigurður Kári.


Össur svarar

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur svarað þeirri gagnrýni sem ég setti fram vegna skrifa hans um sjálfstæðismenn í Reykjavík.  Gagnrýninni svarar Össur með þessum hætti á heimasíðu sinni:

,,Agavöndinn úfinn skekur,

alþingismaðurinn klári.

Orðvar sjálfur svo undrun vekur,

- elsku Sigurður Kári!"

Ég get ekki annað en hrósað iðnaðarráðherranum fyrir þetta elskulega svar og aldrei að vita nema ég setjist niður við gott tækifæri og semji vísu, jafnvel vísnabálk, um ráðherrann.

Sigurður Kári.


,,Gríðarleg skemmdarverk sexmenninganna"

631-220 Samstarfsmaður minn í stjórnarmeirihlutanum á Alþingi, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sér ástæðu til þess að veitast með harkalegum hætti að sjálfstæðismönnum í Reykjavík í pistli á heimasíðu sinni.

 x x x

Pistillinn ber yfirskriftina ,,Gríðarleg skemmdarverk sexmenninganna", og vísar þar til borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, þeirra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Gísla Marteins Baldurssonar, Kjartans Magnússonar, Júlíusar Vífils Ingvarssonar, Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur og Jórunnar Frímannsdóttur.

Í pistli sínum segir Össur m.a.:

,, Harðvítugustu innanflokksátök seinni ára í Sjálfstæðisflokknum hafa því miður nánast ónýtt vörumerkið REI hvað útrás varðar, og stórskaðað viðskiptavild Orkuveitunnar. Skemmdarverk þeirra má líklega meta á milljarðatugi ef miðað er við þá framvindu sem var í kortunum."

Og áfram skrifar iðnaðarráðherrann:

,, Ég hika ekki við að meta kostnaðinn af skemmdum þeirra (það er þeirra borgarfulltrúa sem nefndir eru hér að ofan - innskot mitt) á REI á tugi milljarða. Þá er ótalinn skaðinn sem hlýst af missi lykilmanna en flótti þeirra virðist brostinn á, og láir þeim enginn."

Og enn skrifar ráðherrann:

,,Menn skulu ekki fara neitt í grafgötur með það, að valdarán sexmenninganna í borgarstjórnarflokki íhaldsins, sem framið var til að svala særðum metnaði, hefur haft ótrúleg verðmæti af Reykvíkingum, og laskað Orkuveituna og starfsmenn þess gríðarlega."

Í lok þessa pistils uppnefnir ráðherrann einn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífil Ingvarson, Júlíus Fífil, og spyr svo:

,,Er þetta lið með réttu ráði?", og vísar til borgarfulltrúanna sem að ofan greinir.

x x x

Við þessar hörðu árásir Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, á sjálfstæðismenn í Reykjavík er ástæða til að gera athugasemdir.

Það velkist engin í vafa um það sem les pistil Össurar að hann vill gera borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ábyrga fyrir því að hafa tugmilljarða verðmæti af borgarbúum, fyrir að hafa laskað Orkuveituna, unnið skemmdarverk á Reykjavik Energy Invest og veist að starfsmönnum borgarinnar.

Er það réttmætt?

Glæpur þeirra var einungis sá að gera athugasemdir við að stjórnmálamenn í Reykjavík og embættismenn á þeirra vegum stunduðu áhættufjárfestingar með milljarða af skattfé borgarbúa og að gerðir yrðu samningar við útvalda gæðinga stjórnmálamanna sem hefðu getað tryggt þeim umtalsverðan hagnað í eigin vasa.

Það voru reyndar fleiri stjórnmálamenn sem gerðu alvarlegar athugasemdir við þessi áform.  Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, er einn þeirra, en hún hvorki meira né minna en höfðaði dómsmál sem hafði það að markmiði að ógilda allar þær ákvarðanir sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leyfðu sér að gera athugasemdir við.

Iðnaðarráðherrann virðist hins vegar vera búinn að gleyma því að frá því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gerðu athugasemdir sínar opinberar hefur verið skipt um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.  Björn Ingi Hrafnsson kaus, eins og frægt er orðið, að yfirgefa samstarfsmenn sína í þáverandi meirihluta, þar sem hann var ósáttur við að njóta ekki stuðnings við þessi áform sín meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og mynda þess í stað nýjan meirihluta með Svandísi, Margréti Sverrisdóttur og borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, undir forystu Dags B. Eggertssonar.

Allar þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um málefni Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið teknar af meirihluta borgarstjórnar sem leiddur er af Samfylkingunni, flokki iðnaðarráðherrans.  Í því meirihlutasamstarfi hefur flokkur Össurar Skarphéðinssonar haft öll tök á að koma áherslum sínum varðandi málefni Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur til framkvæmda.  Og það verður ekki framhjá því litið að það eru fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, með Dag B. Eggertsson og stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur, Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrum félaga Össurar í þingflokki Samfylkingarinnar, í broddi fylkingar, sem bera mesta ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um málefni REI og Orkuveitunnar.

Hafi iðnaðarráðherrann einhverjar athugasemdir við þær ákvarðanir eða sé hann þeim ósammála væri honum nær að beina orðum sínum til þessara samflokksmanna sinna, í stað þess að veitast með stóryrðum og ásökunum að sex borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sem nú eiga sæti í minnihluta borgarstjórnar og hafa því stöðu sinnar vegna ekkert með þessar ákvarðanir að gera.

Sannleikurinn er nefnilega sá að frá því að Össur lýsti hróðugur frá landvinningum sínum í orkumálum í Indonesíu og á Filippseyjum hefur ekkert gerst, annað en það að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Margrétar Sverrisdóttur ákvað að ógilda ákvörðun um samruna REI og Geysis Green Energy.

Svo virðist sem iðnaðarráðherrann sé ósáttur við þá ákvörðun, en hann getur ekki kennt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að hún var tekin.  Það gerðu aðrir.

x x x

Í annan stað finnst mér ástæða til þess að benda Össuri Skarphéðinssyni, í fullri vinsemd á, að hann starfar ekki lengur í stjórnarandstöðu, heldur er hann iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Íslands.  Ég tel að sem slíkur þurfi hann að gæta betur að orðum sínum og gerðum en honum var nauðsynlegt að gera meðan hann var óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður og hafði uppi óábyrgan málflutning um allt milli himins og jarðar.

Ég tel að iðnaðarráðherrann ætti einnig að hafa það í huga að í núverandi ríkisstjórn á hann í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, flokk þess fólks sem hann veitist svo harkalega að í tilvitnuðum pistli sínum og sakar um gríðarleg skemmdarverk.

Í ljósi þess hvernig því samstarfi er háttað sem iðnaðarráðherrann tekur þátt í á vettvangi landsmálanna hefði ég talið heiðarlegra af honum að haga orðum sínum gagnvart samstarfsflokknum með öðrum hætti en hann gerði í tilvitnuðum pistli sínum.

Hafi iðnaðarráðherrann efnislegar athugasemdir við skoðanir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í málinu færi betur á því að hann kæmi þeim á framfæri með málefnalegum hætti, en ekki með stóryrðum, sleggjudómum og árásum.

x x x

Össur Skarphéðinsson á að baki lengri feril í stjórnmálum en ég.  Reyndir menn í stjórnmálum taka því oft illa þegar yngri menn reyna að siða þá til og segja þá gjarnan í hæðni að þegar þannig háttar til sé eggið farið að kenna hænunni.

Þrátt fyrir það tel ég mig af nokkru öryggi geta komið einni ábendingu á framfæri við iðnaðarráðherann sem hann ætti að gefa gaum:

Þó svo að stjórnmálamönnum hlaupi oft kapp í kinn í stjórnmálaumræðunni og sé mikið niðri fyrir í umræðum um einstök málefni, þá kann það aldrei góðri lukku að stýra að uppnefna þá einstaklinga sem þeir eru ósammála.

Það er engum sómi af slíkum málflutningi, ekki einu sinni iðnaðarráðherranum.

Sigurður Kári.


Sköpunarsögur

getfile Út er komin áhugaverð bók eftir Pétur Blöndal, blaðamann á Morgunblaðinu, sem ber titilinn Sköpunarsögur.

Sköpunarsögur er fyrsta bók höfundar, en hér er á ferðinni viðtalsbók þar sem tólf rithöfundar segja frá því hvernig hugmyndir þeirra að skáldverkum kvikna og verða að skáldverki, bók, kvikmynd eða leikriti. 

Í Sköpunarsögum fá lesendur innsýn í þá vinnu og þær starfsaðferðir sem liggja að baki fullkláruðu skáldverki.  Í bókinni segja rithöfundarnir frá því hvert þeir sækja fyrirmyndir sínar, hvenær sólarhringsins þeir skrifa, hvernig hugmyndirnar kvikna, hvernig þeir takast á við ritteppur og svo framvegis.

Höfundarnir tólf eru á mismunandi aldri og eiga því mislangan feril að baki, en þeir eru Guðrún Helgadóttir, Elías Mar, Sigurður Guðmundsson, Sjón, Vigdís Grímsdóttir, Einar Kárason, Guðrún Eva Mínervudóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Hannes Pétursson, Kristín Marja Baldursdóttir, Kristján Karlsson og Þorsteinn heitinn Gylfason, en viðtal Péturs Blöndal við Þorstein er að ég hygg síðasta viðtalið sem við hann var tekið áður en hann lést.

Sköpunarsögur er áhugaverð bók sem vert er að vekja athygli á.

Sigurður Kári.


Verður leyndinni af REI-málinu aflétt?

or01 Í gær bárust fréttir af því að náðst hefði samkomulag um að Orkuveita Reykjavíkur myndi kaupa aftur það hlutafé sem eignarhaldsfélög Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar lögðu inn í Reykjavik Energy Invest (hér eftir nefnt REI) í september síðastliðnum.  Í kjölfarið mun Bjarni Ármannsson segja skilið við REI og láta af stjórnarformennsku um áramót.

Því er ljóst að Bjarni Ármannsson mun yfirgefa REI og að það mun vera í 100% eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Það hlýtur auðvitað að vera ákveðið áfall fyrir REI og Orkuveitu Reykjavíkur að Bjarni Ármannsson skuli yfirgefa félagið og selja allt sitt hlutafé í því, ekki síst í ljósi þess að hann hefur sjálfur lýst því yfir að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur fóru þess sérstaklega á leit við hann í aðdraganda REI málsins svokallaða að hann myndi fjárfesta í félaginu til þess að taka þátt í þeirri útrás sem fyrirhuguð var.

En afleiðingar samkomulagsins eru ekki einungis þær að REI hafi misst Bjarna Ármannsson fyrir borð.  Í því felst að Orkuveita Reykjavíkur verður 100% eigandi REI.  Það þýðir að REI verður ekki rekið eins og hvert annað hlutafélaga, heldur verður það svokallað opinbert hlutafélag sem hefur ákveðna þýðingu.

Á 132. löggjafarþingi lagði þáverandi iðnaðar- og viðskiparáðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, en frumvarpinu var ætlað að setja reglur um hlutafélög sem hið opinbera ætti, svokölluð opinber hlutafélög.  Frægasta opinbera hlutafélagið er líklega Ríkisútvarpið ohf.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins merkir hugtakið opinbert hlutafélag:  „félag sem hið opinbera á að öllu leyti."

Í athugasemdum með greininni er inntak hugtaksins ,,opinbert hlutafélag" skilgreint nánar en þar segir:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nokkur sérstök ákvæði um opinber hlutafélög.  Í greininni eru þau skilgreind þannig að um sé að ræða félög sem hið opinbera á að öllu leyti, t.d. ríki og ríkisstofnanir og sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga."

Lítill vafi er á því að REI teljist vera opinbert hlutafélag í skilningi hlutafélagalaga eftir kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar í félaginu.

Samkvæmt frumvarpinu, sem síðar varð að lögum frá Alþingi, voru lögfestar sérstakar reglur sem gilda um opinber hlutafélög, en eiga ekki við um almenn hlutafélög. 

Þannig segir í frumvarpinu, sem nú er orðið að lögum:

,,Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund.  Kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi, og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, er heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir."

Í athugasemdum við þetta ákvæði segir:

,,Rétt þykir að auka möguleika almennings á að fá upplýsingar um málefni opinberra hlutafélaga með þeim hætti að heimila fjölmiðlum að sækja aðalfundi í þessum félögum.  Samsvarandi ákvæði í 65. gr. dönsku hlutafélagalaganna."

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sagði m.a. um þetta ákvæði:

,,Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi, og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir.  Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slíkar m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum."

Í ljósi þeirrar miklu leyndar sem hvílt hefur yfir málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og REI er ljóst að ástæða er til þess að almenningur fái nánari upplýsingar um það hvað hefur gengið á innan þessa félags, sem á endanum er í eigu borgarbúa.  Jafnframt leiðir lagabreytingin til þess að kjörnir fulltrúar geta á aðalfundi krafist þeirra upplýsinga sem þeir hafa ekki haft aðgang að, eins og virtist vera raunin í aðdraganda samruna REI og Geysis Green Energy.

Þá segir í frumvarpinu að :  ,,Í samþykktum opinbers hlutafélags skal kveðið á um að ætíð skuli boða stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafund, svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfund."

Þá segir í frumvarpinu, sem varð að lögum, að fulltrúar fjölmiðla skuli ,,í síðasta lagi fjórtán dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabók vegna aðalfundar eða staðfestu endurrita fundargerðar aðalfundar á skrifstofu félagsins."

Í athugasemdum við þessar lagagreinar segir:

,,Rétt þykir að kveða á um skyldu til að boða ákveðna aðila á hluthafafundi í opinberu hlutafélagi.  Fulltrúa fjölmiðla skal þó aðeins boða á aðalfund.  Félaginu er að sjálfsögðu heimilt að bjóða fleiri aðilum á hluthafafundi, t.d. fulltúum starfsmanna."

En jafnframt segir:

,,Hér er lagt til að fulltrúar fjölmiðla eigi aðgang að fundargerðarbók eða staðfestu endurriti fundargerða vegna aðalfundar sem þeir hafa rétt til að sækja.  Einungis hluthafar eiga þennan aðgang nú.  Réttur fjölmiðlanna takmarkast við aðalfundinn.  Félag getur, ef því sýnist svo, veitt rýmri aðgang að fundargerðum sínum, jafnvel á vefnum."

Í ljósi þess leyndarhjúps sem hvílt hefur yfir málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og REI verður fróðlegt að sjá hvort kjörnir fulltrúar Reykvíkinga í borgarstjórn og blaðamenn á fjölmiðlum munu sjá ástæðu til að nýta sér þær heimildir sem ákvæði hlutafélagalaga, sem hér hefur verið lýst, kveða á um.

Geri þeir það, að því gefnu að Orkuveita Reykjavíkur kaupi hlut Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar,  er ekki ólíklegt að ýmsar athyglisverðar upplýsingar verði dregnar fram í dagsljósið.

Sigurður Kári.


Um sjónvarpsauglýsingar

nammi2Á mánudagskvöldið tók ég þátt í umræðum í spjallþættinum Ísland í dag á Stöð 2, ásamt Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

Tilefni umræðunnar var þingsályktunartillaga sem Ásta Ragnheiður lagði fram á Alþingi á dögunum en tillagan hefur það að markmiði kanna grundvöll fyrir því að settar verði reglur um takmörkun auglýsinga á matvörum sem beint er að börnum ef matvörurnar teljast óhollar, þ.e. innihalda mikla fitu, sykur eða salt.  Er tillagan meðal annars sett fram með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna, en í framkvæmd myndi það þýða, samkvæmt tillögunni, að banna auglýsingar á slíkum vörum í sjónvarpi þegar barnaefni er á dagskrá og heimila þær ekki fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin.

Um það verður ekki deilt að offita, þar á meðal meðal barna, er orðin vandamál á Íslandi sem ástæðulaust er að loka augunum fyrir.  Þvert á móti er hér á ferðinni vandi sem bregðast þarf við og berjast gegn.  Undir það hljóta allir að taka sem vilja stuðla að heilbrigðu líferni barna, ungmenna og landsmanna allra.  Af þeirri ástæðu verður því ekki á móti mælt að tilgangur þingsályktunartillögur Ástu Ragnheiðar er göfugur.

x x x

Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni vill tillöguflytjandinn berjast fyrir því að heilbrigðisráðherra leitist við að ná samstöðu milli framleiðenda, innflytjenda og auglýsenda um að auglýsingum á óhollu matarræði verði ekki beint að börnum og ungmennum.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að æskilegt væri ef framleiðendur, innflytjendur og auglýsendur myndu sjá sóma sinn í því að auglýsa ekki óholl matvæli og drykkjarföng á dagskrártímum í sjónvarpi þegar börn sitja helst við skjáinn.  Þeir eiga sjálfir að finna hjá sér þá sómatilfinningu að reyna ekki að ota óhollu skyndibitafæði, sælgæti og gosdrykkjum að börnum með þeim hætti.

Ég myndi fagna því ef þeir gerðu það að eigin frumkvæði.

x x x

Hins vegar lýsti ég þeirri skoðun minni í þættinum að ég væri almennt andsnúinn því að sett yrðu lög sem takmörkuðu birtingu auglýsingar á löglegum almennum neysluvörum.  Við búum í frjálsu landi og það er eðlilegt að framleiðendum, innflytjendum og söluaðilum sé heimilt að koma vörum sínum á framfæri á auglýsingamarkaði, hvort sem þær innihalda sykur, salt eða fitu.

Við búum í frjálsu landi og eigum því að forðast í lengstu lög að hefta frelsi manna með lögum til þess að koma löglegum neysluvörum sínum á framfæri við neytendur.

Jafnframt tel ég, vilji menn á annað borð ráðast í slíka löggjöf, að erfitt yrði að vega það og meta hvaða vörur teldust óhollar og óæskilegar til auglýsinga á tilteknum útsendingartímum sjónvarpsstöðva og hverjar ekki.

Ég efast ekki um að í slíkum lögum yrði lagt bann við því að auglýsa sælgæti, sykraða gosdrykkir og óhollt skyndibitafæði fyrir útsendingu Stundarinnar okkar og annarra slíkra þátta.  En hvað með aðrar vörur sem einnig eru óhollar og stútfullar af sykri, aspartami, msg og öðrum viðbættum gerviefnum?  Ég nefndi í því sambandi allskyns skyr-, jógúrt- og mjólkurvörur?  Ætti að banna auglýsingar með slíkar vörur gagnvart börnum og ungmennum?

Ég veit það ekki.  En hitt veit ég þó að erfitt yrði að skilgreina hvaða vörur mætti auglýsa og hverjar ekki.

x x x

Í þessum umræðum benti ég líka á það mikilvæga atriði að þó svo að máttur auglýsinga kunni að vera mikill, meðal annars gagnvart börnum og ungmennum, þá eru það á endanum foreldrar þeirra sem kaupa þessar vörur og heimila þeim neyslu þeirra.

Það eru ekki börnin sem fara með fjárráð heimilanna og ákveða hvað er keypt og hvers er neytt.  Slíkar ákvarðanir taka foreldrarnir.

Það er því fyrst og fremst á ábyrgð foreldra barnanna ef þau neyta óhollra matvæla í óhóflegu magni sem leiðir til offituvandamála.  Þeirri ábyrgð verður hvorki hægt að velta yfir á framleiðendur, innflytjendur eða seljendur varanna né á auglýsendur.

x x x

1106231952_reynir_traustasonReynir Traustason, ritstjóri DV, sýnir mér þá upphefð í leiðara sínum í dag að helga skrif sín mér og þeirri umræðu sem ég hef hér rakið.  Þar vísar Reynir til umræðna okkar Ástu Ragnheiðar í þættinum Ísland í dag frá því á mánudagskvöldið.

Í upphafi leiðarans segir Reynir það góða viðleitni hjá Ástu að vilja stemma stigu við þeim auglýsingum sem ýta undir það að börn leggi sér til munns óhollustu.

Ég held að ég, Reynir og Ásta Ragnheiður séum sammála um að óæskilegt sé að börn leggi sér óhollustu til munns.  Að minnsta kosti hef ég lagt mig fram um að slíkt viðgangist ekki á mínu heimili.

Í leiðaranum segir Reynir að athyglisvert hafi verið að heyra mig þvertaka fyrir að banna ætti auglýsingar á óhollustu í barnatímum.

Eins og ég hef rakið hér þá tel ég óskynsamlegt að grípa til slíkra aðgerða með lögum.  Hins vegar fyndist mér æskilegt ef framleiðendur, innflytjendur og seljendur slíkra vara myndu sjálfir sjá sóma sinn í því að birta ekki slíkar auglýsingar þegar börn skipa meginþorra áhorfenda.

En Reynir heldur áfram og gefur mér þá smekklegu einkunn að ég sé ekki beittasti hnífurinn í skúffunni þegar kemur að því að halda stefnunni við að verja frelsið.  Í leiðaranum segir:

,,Hann var í sama spjallþætti spurður um ríkjandi bann í íslenskum fjölmiðlum við auglýsingum á áfengi og tóbaki sem ríkið sér um að selja.  Þingmaðurinn fann því allt til foráttu að íslenskir fjölmiðlar mættu auglýsa umrædd vímuefni sem eru þó fullkomlega lögleg.  Ástæðan væri sú að fólk þyrfti að hafa náð tilteknum aldri til að neyta áfengis.  Þetta er auðvita ekkert annað en furðupólitík og hundalógík því erlendar sjónvarpsrásir, dagblöð og tímarit birta auglýsingar af umræddu tagi og ranglætið er sláandi.  Frelsið sem þingmaðurinn boðar er því aðeins fyrir suma."

x x x

Eins og Reynir Traustason veit þá er óheimilt samkvæmt núgildandi lögum að auglýsa áfengi.  Samt sem áður hafa íslenskir fjölmiðlar á síðustu misserum verið uppfullir af slíkum auglýsingum.  Ástæðan er sú að núgildandi löggjöf er haldin stórkostlegum göllum vegna þess hversu erfitt er að framfylgja bannákvæðum laganna, þau séu gengin sér til húðar.  Það er að minnsta kosti skoðun þeirra sem falið hefur verið að framfylgja þeim.

Ég sé mig hins vegar tilknúinn til þess að leiðrétt hinn flugbeitta penna sem skrifaði leiðara DV í dag.  Hann sagði að ég hefði fundið því allt til foráttu að heimila íslenskum fjölmiðlum að auglýsa áfengi og tóbak.

Það skal tekið fram að ég hef aldrei lagt til að heimilað verði að auglýsa tóbak.  Ég hef hins vegar aldrei verið fylgismaður auglýsingabanns á áfengi.

Ef Reynir Traustason hefði haft fyrir því að kynna sér mín störf á Alþingi frá árinu 2003 áður en hann ritaði leiðara sinn í dag þá hefði hann séð að ég hef oftar en einu sinni lagt fram frumvarp sem mælir fyrir um það að heimila auglýsar með léttvín og bjór í íslenskum fjölmiðlum, með ýmsum takmörkunum sem fram koma í frumvarpinu.  Þær takmarkanir helgast af þeirri staðreynd að flutningsmenn frumvarpsins töldu og telja enn áfengi ekki vera eins og hverja aðra neysluvöru, eins og epli og appelsínur, þegar af þeirri ástæðu að kaupendur þurfa að hafa náð 20 ára aldri til þess að geta keypt þær.  Því væri réttlætanlegt að um slíkar auglýsingar giltu sérsjónarmið í stað þess að heimilt væri að birta slíkar auglýsingar í sjónvarpi til dæmis í aðdraganda sýninga á Stundinni okkar og öðru barnaefni.  Sú stefna mín stendur óhögguð.  Hins vegar er erfitt að halda því fram að með þessum tillöguflutningi mínum hafi ég leitast við að tryggja frelsi sumra en ekki allra, eins og Reynir heldur fram.

Sú leið sem lögð var til í frumvarpinu er ekki nein prívatskoðun mín, því sex aðrir alþingismenn fluttu málið með mér.  Þar við bætist að frumvarpið er í samræmi við tillögur sem stýrihópur ríkislögreglustjóra um viðbrögð við áfengisauglýsingum lagði til skýrslu sem út kom í nóvembermánuði árið 2001 og í samræmi við niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá 25. febrúar 2004 og dóm Evrópudómstólsins í máli nr. E-4/04 (Pedicel AS vs. Social - og helsedirektoratet).

Ég kippi mér ekki upp við það þó Reynir Traustason lýsi mér sem bitlausum hníf og kalli skoðanir mínar, sem byggjast á tillögum og niðurstöðum málsmetandi stofana á Íslandi og í Evrópu, hundalógík og furðupólitík.

Í fullri vinsemd kann ég því hins vegar ekkert sérstaklega vel að ritstjórinn geri mér upp skoðanir og fari rangt með.

Sigurður Kári.


Harðskafi eftir Arnald Indriðason

3 Ég tók mig til í gærkvöldi og las skáldsöguna Harðskafi eftir Arnald Indriðason.

Arnald þarf auðvitað ekki að kynna fyrir neinum enda er hann vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar um þessar mundir.  Sjálfum hefur mér fundist hann afbragðsgóður spennusagnahöfundur og ég held að ég geti með fullri sæmd kallað mig aðdáanda hans.

Ég hef lesið allar bækur Arnaldar.  Þær eru auðvitað misgóðar, sem eðlilegt er.  Fram til þessa hef ég verið hrifnastur af Mýrinni, Grafarþögn og Kleifarvatni, ekki síst vegna skemmtilegra kafla í þeirri bók sem gerðust í Austur-Þýskalandi.  Mér fannst Konungsbók einnig fín aflestrar og það sama má segja um Napóleonskjölin.

Að mínu mati gefur Harðskafi bestu bókum Arnaldar lítið eftir.  Ég skal játa það að mér finnst titill bókarinnar dálítið sérstakur, en hún er vel skrifuð, spennandi og fléttur sögunnar ganga fullkomlega upp.  Fyrir mér er það ágætur mælikvarði á skemmtanagildi bókarinnar að ég lagði hana ekki frá mér fyrr en ég hafði lokið henni.  Það er klárlega til marks um það hversu vel Arnaldur heldur lesandanum við efnið.

Fyrir mér var endurkoma Erlends Sveinssonar, rannsóknarlögreglumanns, mikið fagnaðarefni.  Erlendur er líklega orðin ein dáðasta söguhetja nútímabókmennta og í Harðskafa er Erlendur í algjöru aðalhlutverki.  Minna fer hins vegar fyrir Sigurði Óla og Elínbjörgu í bókinni, en það kemur alls ekki að sök.

Það er því að mínu mati full ástæða til að mæla með Harðskafa Arnaldar Indriðasonar.

Sigurður Kári.


Heimsókn til Landhelgisgæslu Íslands

Myndin er tekin af vefsvæði Sivjar Friðleifsdóttur, alþingismanns.Á mánudaginn fór ég í stórmerkilega heimsókn ásamt Allsherjarnefnd Alþingis til Landhelgisgæslu Íslands.

Heimsóknin var hin fróðlegasta í alla staði og við sem sæti eigum í nefndinni fengum þarna tækifæri til þess að kynnast af eigin raun því gríðarlega viðamiklu og mikilvægu starfsemi sem Landhelgisgæslan sinnir.

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu umsvifamikil starfsemi Landhelgisgæslunnar er.  Hjá gæslunni starfa rúmlega 160 manns á ýmsum stöðum og gegna þar afar margvíslegum störfum sem við nefndarmenn fengum tækifæri til að kynna okkur.

Í upphafi heimsóknarinnar tók Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, á móti okkur í höfuðstöðvum hennar í Skógahlíð og kynnti hann ásamt Ásgrími L. Ásgrímssyni, yfirmanni hjá Varðstöð siglinga og stjórnstöð, grunnstarfsemi gæslunnar auk þess sem Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur, fór yfir lögin um Landhelgisgæsluna.

Að lokinni þessari almennu kynningu heimsóttum við einstakar deildir eða svið Landhelgisgæslunnar.  Fyrst var ferðinni heitið í höfuðstöðvar Sjómælinga Íslands þar sem Árni Vésteinsson, deildarstjóri sjómælinganna, kynnti okkur þær sjómælingar sem stofnunin og fyrirrennarar hennar hafa staðið fyrir á hafsbotninum í efnahagslögsögunni umhverfis Ísland síðustu ca. 200 árin.  Jafnframt því kynnti Gylfi Geirsson, forstöðumaður fjarskiptasviðs okkur starfsemi sinnar deildar.

Því næst heimsóttum við sprengjueyðinga- og köfunardeild Landhelgisgæslunnar.  Þar leiddi Marvin Ingólfsson okkur um það hvernig sérfræðingar deildarinnar bera sig að við sprengjueyðingu auk þess sem við fengum að sjá sýnishorn af þeim sprengjum sem helst hafa verið notaðar í hryðjuverkaárásum í gegnum tíðina.  Óhætt er að segja að þær séu býsna frábrugðnar þeim sprengjum sem fólk á almennt að venjast úr kvikmyndaheiminum.

Því næst heimsóttum við flugdeild Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli þar sem Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugrekstrarstjóri, Höskuldur Ólafsson, tæknistjóri, og Auðunn F. Kristinsson, yfirstýrimaður, kynntu okkur starfsemi deildarinnar og sýndu okkur flugvél Landhelgisgæslunnar og björgunarþyrlur hennar, ásamt því sem við fengum kynningu á nýrri flugvél gæslunnar sem væntanleg er.

Að lokinni kynningunni tók, ef svo má segja, við hápunktur þessarar heimsóknar, sem var kynnisflug með TF-LIF, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Reykjavík, austur yfir Hellisheiði og til baka.  Fyrir mig var sú ferð ógleymanleg, enda hafði ég aldrei stigið um borð í þyrlu áður.  Ég verð þó að segja að mér fannst mjög þægilegt að fljúga í þyrlunni og ég gat ekki betur heyrt en að félagar mínir í nefndinni gætu alveg vanist þessum ferðamáta.

Frá Reykjavíkurflugvelli héldum við niður að Faxagarði og stigum um borð í Varðskipið Ægi.  Þar ræður ríkjum Kristján Þ. Jónsson, skipherra, sem lóðsaði okkur um allt skipið og sýndi okkur m.a. vírklippurnar sem reyndust okkur Íslendingum ómetanlegar í Þorskastríðinu.  Að lokum fengum við kynningu frá Halldóri B. Nellett, frakvæmdastjóra aðgerðasviðs, og Þórhalli Hákonarsyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, á nýja varðskipinu sem væntanlegt er á næstu misserum og mun verða mikil lyftistöng fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Þessi heimsókn okkar nefndarmanna í allsherjarnefnd var, eins og sjá má, fróðleg og skemmtileg, enda ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að ferðast um í þyrlu.  Hinu má ekki gleyma að heimsóknir eins og þessar til mikilvægra stofnana eru gríðarlega mikilvægar og í raun nauðsynlegar fyrir alþingismenn svo þeir fái tækifæri til að sjá með eigin augum þá starfsemi sem þessar stofnanir hafa með höndum.

Það skal að lokum tekið fram að ljósmynd sú sem birtist hér að ofan er tekin af Siv Friðleifsdóttur, alþingismanni, og birtist á heimasíðu hennar.

Sigurður Kári.


Með fast land undir fótum

m-120xÍ dag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu.  Greinin er svar við sjónarmiðum sem birtust í Staksteinum Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag.

Greinin hljóðar svo:

"Með fast land undir fótum.

Morgunblaðið hefur á síðustu dögum og vikum farið hamförum í málflutningi sínum gegn frumvarpi sem ég og sextán aðrir alþingismenn úr þremur stjórnmálaflokkum flytjum. Þá hefur Morgunblaðið gagnrýnt Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra fyrir að styðja frumvarpið.

Fyrir þá sem það ekki vita er markmið frumvarpsins það að afnema ríkiseinokun á sölu léttvíns og bjórs.

Í ljósi sögunnar og þeirra viðhorfa sem Morgunblaðið hefur síðustu áratugina barist fyrir kemur á óvart að blaðið skuli í umræðum um þetta frumvarp kjósa að slá skjaldborg um ríkiseinokun og ríkiseinkasölu. Sú var tíðin að Morgunblaðið studdi sjónarmið sem stuðluðu að minni ríkisafskiptum og frjálsri verslun og viðskiptum. Ný viðhorf virðast nú hafa rutt sér til rúms innan ritstjórnar blaðsins. Það finnst mér miður.

Á laugardaginn var okkur flutningsmönnum frumvarpsins sýndur sá heiður að Staksteinar Morgunblaðsins voru helgaðir okkur. Þar fullyrðir höfundur Staksteina að með frumvarpinu og þeim tillöguflutningi sem þar er að finna séu þeir sjálfstæðismenn sem að frumvarpinu standa að leika sér að pólitískum eldi. Svo segir Staksteinahöfundur:

,,Sennilega er lífsreynsla þeirra svo takmörkuð, að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera og stjórnmálareynsla þeirra ekki meiri en svo, að þeir átta sig ekki á því hvað þeir eru að vega alvarlega að baklandi eigin flokks."

Höfundur Staksteina hefur óþarfar áhyggjur af því að ég og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stöndum að frumvarpinu njótum ekki stuðnings almennra sjálfstæðismanna í málinu. Það hefði hann séð í hendi sér ef hann hefði haft fyrir því að kynna sér stefnu Sjálfstæðisflokksins áður en hann tók sér penna í hönd. Í ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var í apríl á þessu ári, um viðskipta- og neytendamál segir m.a.:

200px-,,Halda þarf áfram að létta álögum af viðskiptalífi og neytendum, en í næstu skrefum í átt að öflugra og betra viðskiptalífi þarf einnig að felast að ríkið dragi sig alfarið út úr verslunarrekstri, svo og öðrum rekstri þar sem það er í samkeppni við einkaaðila. Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum."

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer með æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins. Þar er stefna Sjálfstæðisflokksins mörkuð og samþykkt. Sú stefna sýnir að við sem að þessu frumvarpi stöndum höfum fast land undir fótum. Okkar bakland eru samþykktir og stefna Sjálfstæðisflokksins.

Vera má að Staksteinahöfundur sé þeirri stefnu ósammála. Hins vegar hefur það hingað til talist til heilindamerkja og stefnufestu þegar stjórnmálamenn leggja sig fram um það að koma stefnu eigin flokks til framkvæmda. Það er því í meira lagi einkennilegt að höfundur Staksteina telji slíka viðleitni okkar til marks um skort á lífsreynslu og stjórnmálareynslu og að í því felist alvarleg aðför að okkar eigin pólitíska baklandi.

Það er merkileg niðurstaða sem erfitt er að fá botn í.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík."

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband