Þingmaður og hæstaréttarlögmaður

VG-S-1-Atli_Gislason_055Ég hef upp á síðkastið velt því dálítið fyrir mér hvað ræður því hvernig menn sem taka þátt í opinberri umræðu eru kynntir til leiks þegar þeir tjá sig um málefni líðandi stundar.

Hér er kannski ekki á ferðinni mjög merkileg stúdía, en hún er engu að dálítið athyglisverð.

Ég hef til dæmis tekið eftir því að einn tiltekinn þingmaður er kynntur með öðrum hætti en aðrir alþingismenn þegar þeir koma fram í fjölmiðlum.  Þetta er Atli Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Það er nefnilega þannig að nánast í hvert einasta skipti sem vitnað er til þess sem Atli Gíslason hefur til málanna að leggja um nánast hvað sem er þá er hann kynntur til leiks sem Atli Gíslason, þingmaður og hæstaréttarlögmaður.

Ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar af hverju Atli er ekki bara titlaður þingmaður vinstri grænna þegar hann tjáir sig í fjölmiðlum.  Þarf hann eitthvað sérstaklega á fleiri vegtyllum að halda?  Af hverju taka fjölmiðlamenn það alltaf sérstaklega fram að Atli sé einnig hæstaréttarlögmaður?

Það er auðvitað alkunna að Atli er menntaður lögfræðingur og hefur um margra ára skeið starfað sem lögmaður og átt farsælan starfsferil sem slíkur.  Og er að mínu mati er Atli ágætislögfræðingur, þó mér hafi oft á tíðum fundist hann ganga alltof langt í því að reyna að klæða stjórnmálaskoðanir sínar í lögfræðilegan búning, eins og stjórnmálamaður í dulargervi fræðimannsins.  Um það gæti ég tekið mörg dæmi.

En er einhver ástæða til að taka það fram í hvert skipti sem Atli Gíslason tjáir stjórnmálaskoðanir sínar að taka það sérstaklega fram að hann sé ekki bara þingmaður heldur líka hæstaréttarlögmaður?  Er það hugsanlega gert til þess að gefa orðum hans meira vægi en þau annars hefðu?

Þeirri spurningu verða aðrir að svara en ég, en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvort það eru fjölmiðlamennirnir sjálfir sem eiga frumkvæðið að slíkri kynningu eða Atli sjálfur.

Þetta fyrirkomulag væri auðvitað eðlilegt ef fjölmiðla- og blaðamenn létu það sama ganga yfir alla kollega Atla í þessum efnum.  Hvers á Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, til dæmis að gjalda?  Jón er hæstaréttarlögmaður eins og Atli Gíslason og hefur starfað við lögmennsku álíka jafn lengi og hann.  Hann er hins vegar aldrei titlaður annað en þingmaður Frjálslynda flokksins þegar hann kemur fram í fjölmiðlum.  Af hverju fær Jón ekki að njóta þess eins og Atli í fjölmiðlum að vera hæstaréttarlögmaður, sem hann svo sannarlega er?

Væri nú ekki ráð hjá íslenskum blaða- og fjölmiðlamönnum að láta sömu reglu yfir alla ganga.  Vilji þeir titla Atla Gíslason þingmann og hæstaréttarlögmann, væri þá er ekki rétt að nefna það að Steingrímur J. Sigfússon er ekki bara þingmaður vinstri grænna heldur einnig jarðfræðingur?  Og á Þuríður Backmann, þingkona vinstri grænna, það ekki skilið að þess sé sérstaklega getið að hún sé hjúkrunarfræðingur?  Maður skyldi ætla að það væri eðlileg krafa.

Til þess að gæta allrar sanngirni er rétt að taka það fram að Atli Gíslason er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn á Íslandi sem titlaður er í fjölmiðlum með þessum hætti.

Í því sambandi minnist ég þess sérstaklega einn tiltekinn borgarfulltrúi Reykvíkinga, sem nú er orðinn borgarstjóri í Reykjavík, var aldrei kynntur til leiks í fjölmiðlum með öðrum hætti en sem Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarfulltrúi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðbergur Daníel Gíslason

Skemmtilegar vangaveltur og þetta er alveg rétt.

Auðbergur D. Gíslason
14 ára Sjálfstæðismaður

Auðbergur Daníel Gíslason, 6.12.2007 kl. 00:03

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sigurður. Ég vil benda þér á þá staðreynd, að Atli Gíslason kemur mjög oft fram sem álitsgjafi um lögfræðileg efni í pólitískum umræðuþáttum, líklega vegna reynslu sinnar af lögmannsstörfum. Það er, held ég meginskýringin á þessum aukatitli umfram alþingismannstitilinn. Jafnréttismál sem eru mikið í umræðunni, þökk sé VG og þar hefur hann mjög oft verið til kallaður, hafa verið Atla mjög hugleikin og bera margar ræður hans á Alþingi þess merki. Þótt þú sért með próf frá lögfæðideildinni, geturðu ekki skilyrt fjölmiðla að titla þig lögfræðing nema, eins og ég hef reyndar oft heyrt, þegar fjallað er um lögfræðileg álitamál og þú ert þáttakandi, þá er menntun þín tiltekin. Þar sem þú hefur ekki reynslu af málavafstri fyrir dómstólum "elsku litli strákurinn", máttu ekki vera svona móðgaður þó fjölmiðlafólk sem stjórna hinum ýmsu umræðuþáttum í fjölmiðlum og sem betur fer eru oft á tíðum mun víðsýnni en ofur staðir pólitíkusar með spöld fyrir augunum eins og gamlir kerruklárar jafnvel þótt þeir séu rétt þornaðir bak við eyrun. Sem dæmi er Guðni alrdrei titlaður frjótæknir (sæðingamaður) eða mjólkursýnatökumaður sem hann hefur þó verið, þó hann komi í viðtalsþætti. Þess er aldrei getið nema þegar Bjarni Harðar er að gera grín að honum á árshátíðum eða þorrablótum fyrir austan fjall. Hvað Jón Magnússon varðar sem þú tekur sem dæmi, er hann mun sjaldnar til kallaður sem löglærður álitsgjafi af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að útskýra.

Ég vona að þetta svari einhverjum af pirringsspurningum þínum varðandi starfsfélaga þinn Atla Gíslason hæstréttarlögmann og alþingismann.

Þórbergur Torfason, 6.12.2007 kl. 00:12

3 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Atli Gíslason hefur einmitt reynslu, áratugareynslu af lögmannsstörfum. Þess vegna má nú alveg kalla hann lögmann og alþingismann. Svo gleymist þetta smám saman með lögmannstitilinn, vertu rólegur.....

Einar Ben Þorsteinsson, 6.12.2007 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband