Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

oktober%202004%20005Ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, skrifar ágætan leiðara í blaðið í dag.  Í upphafi leiðarans segir ritstjórinn:

,,Meirihluti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þeirri skoðun að takmörkuð eignarréttindi á veiðiheimildum með frjálsu framsali séu andstæð mannréttindum.  Sú niðurstaða stangast á við stjórnarskrá Íslands.

Mikilvægt er að ræða þetta álit og bregðast við því.  Verði álit meirihlutans túlkað á þann veg að breyta þurfi fiskveiðistjórnun í grundvallaratriðum blasa við alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar.

Ýmsir hafa óttast um hagsmuni sjávarútvegsins ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu.  Ef taka ætti mark á meirihluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti en þar er um að tefla.  Aðildin að Sameinuðu þjóðunum hefði þannig mun alvarlegri og víðtækari áhrif á sjávarútveginn og sjávarplássin en Evrópusambandsaðild."

Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir það með Þorsteini að aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði jákvæðari áhrif á íslenskan sjávarútveg en ef farið yrði að niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.  Hvort tveggja hefði alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnugreinina.

Að öðru leyti tek ég undir með ritstjóra Fréttablaðsins.  Verði álit meirihluta nefndarinnar túlkað á þann veg að breyta þurfi stjórnkerfi fiskveiða í grundvallaratriðum þá er viðbúið að slíkt muni hafa í för með sér alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar.

Vilji menn túlka niðurstöður mannréttindanefndarinnar bókstaflega og telja að þær bindi hendur stjórnvalda þá hljóta þeir hinir sömu að fallast á að niðurstöður hennar hefðu ekki einungis í för með sér breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu, heldur einnig á fiskveiðistjórnunarkerfum annarra ríkja sem byggja á kvótakerfi, en ekki síður stjórnkerfum landbúnaðarins sem byggja að grunni til á sömu undirstöðum.  Má þar nefna fiskveiðistjórnunarkerfi Ný-Sjálendinga, Ástrala, Alaskabúa, Evrópusambandsins og fleiri og fleiri ríkja.

Ég efast um að þessar þjóðir myndu sætta sig við slíka íhlutun nefndarinnar í sín innanríkismál.  Hins vegar er óumdeilt að álit nefndarinnar eru ekki bindandi fyrir þjóðríkin og þar af leiðandi ekki fyrir okkur Íslendinga.  Því er rétt að taka undir með ritstjóra Fréttablaðsins þegar hann segir að ef taka ætti mark á meirihluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti okkar.

Það höfum við hins vegar ekki gert.  Ísland er ennþá fullvalda og sjálfstætt ríki og verður það vonandi áfram.  Þó svo að það fyrirfinnist stjórnmálamenn sem telja frekara framsal löggjafarvalds og dómsvalds til annarra ríkja og yfirþjóðlegra stofnana til hagsbóta fyrir Íslendinga, þá ráðum við ennþá okkar eigin málefnum.  Alþingi setur þau lög og reglur sem hér gilda og íslenskir dómstólar dæma samkvæmt þeim.  Því hefur ekki verið breytt.

Hins vegar er sjálfsagt að ræða þetta álit og bregðast við því.

Síðar í leiðara sínum segir Þorsteinn:

,,Breski fulltrúinn í mannréttindanefndinni, Sir Nigel Dodley, bendir réttilega á í séráliti sínu að meirihlutinn virðist fyrst og fremst byggja röksemdafærslu sína á því að fiskimiðin séu samkvæmt íslenskum lögum sameign þjóðarinnar.  Öðru máli kynni því að gegna ef svo væri ekki.  Ráða má af þessu að leysa megi málið með því einu að fella svokallað sameignarákvæði út.

Málsreifun breska fulltrúans bendir þannig til að meirihlutinn byggi niðurstöðu sína á lögfræðilegri rökleysu.  Hún vekur einnig spurningu um hvort nefndir hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að túlka valdsvið sitt með því að túlka samspil íslenskra lagaákvæða í stað þess að meta það eitt hvort þau samræmist sáttmálanum."

Þessi ábending er allrar athygli verð.  Þegar álit meirihluta nefndarinnar er lesið kemst maður ekki hjá því að niðurstaða þess byggi á alvarlegum misskilningi á grundvelli íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Þann misskilning fá íslensk stjórnvöld nú tækifæri til að leiðrétta þegar þau bregðast við álitinu.

Í lok leiðara síns segir ritstjóri Fréttablaðsins:

,,Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem greint hefur frá útfærðum tillögum um viðbrögð.  Einn helsti forystumaður hennar lýsti af þessu tilefni í sjónvarpi á sunnudag tillögu um að svipta alla aflahlutdeild í þorski til þess að úthluta hugsanlegri aukningu í tönnum þegar þar að kemur til annarra en þeirra sem stunda veiðar í dag.  Sviptingin tæki til smábátasjómanna sem keypt hafa þorskveiðiheimildir til að bjarga atvinnu í litlum plássum.

Aflahlutdeildin er undirstaða lánstrausts í sjávarútvegi, ekki síst hjá trillukörlum og minni útgerðum.  Stærri útgerðir hafa breiðari undirstöðu og eiga í einhverjum tilvikum hægara með að bjarga sér.  En víst er að margir munu ekki lifa þorskveiðiskerðinguna af nema á grundvelli þessa lánstrausts.  Samfylkingin vill nú kippa þessu lánstrausti undan smábátasjómönnum jafn sem öðrum.  Afleiðingunum þarf ekki að lýsa.

Það gæti hins vegar reynst utanríkisráðherranum þrautin þyngri að skýra út fyrir mannréttindanefndinni að ráðstafanir af þessu tagi feli í sér aukin mannréttindi.  Ástæða er því til að hvetja til yfirvegaðri og ígrundaðri viðbragða."

Ástæða er til þess að taka undir þessi varnaðarorð Þorsteins Pálssonar.  Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld bregðist við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna með yfirveguðum og ígrunduðum hætti.

Íslenskur sjávarútvegurinn hefur á síðustu mánuðum orðið fyrir miklum og alvarlegum áföllum, einkum vegna skerðingar þorskveiðiheimildanna.  Að mínu mati má þessi mikilvæga atvinnugrein ekki við fleiri áföllum.

Sigurður Kári.


Merkingarlaust rugl?

Alþingi kom saman í dag eftir jólafrí.  Dagana eftir áramót höfum við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins meðal annars nýtt til þess að fara í vinnustaðaheimsóknir sem hafa bæði verið lærdómsríkar og skemmtilegar.

Við upphaf þingfundar í dag svöruðu ráðherrar óundirbúnum fyrirspurnum þingmanna.  Einn þeirra sem kaus að bera fram spurningu til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, var Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, en hann vildi heyra viðhorf forsætisráðherrans varðandi þrjár embættisveitingar tveggja ráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, og Árna Matthiesen, fjármálaráðherra og setts dómsmála, sem mikið hafa verið til umræðu upp á síðustu vikum og dögum.

Í svari sínu sagði forsætisráðherra meðal annars að hann teldi að í þeim málum hefðu þeir ráðherrar  sem um ræðir beitt skipunarvaldi sínu í samræmi við valdheimildar sínar og undirbúið embættisveitingarnar eftir best samvisku.

x x x

Í þessum umræðum vakti það ekki síst athygli mína að í aðdraganda fyrirspurnar sinnar vitnaði Árni Þór Sigurðsson til greinar sem birt var í Fréttablaðinu í dag.  Höfundur þeirrar greinar er minn gamli kennari við lagadeild Háskóla Íslands, Sigurður Líndal, prófessor emeritus.  Tilefni þess að Sigurður skrifar þessa grein eru afstaða og skrif ritstjórnar Morgunblaðsins vegna skipunar Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystara og Héraðsdóm austurlands.

Í upphafi greinarinnar segir Sigurður meðal annars:

,,Morgunblaðið hefur undanfarið gengið fram fyrir skjöldu til að réttlæta skipun dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands sem dómnefnd skv. 12. gr. laga nr. 15/1988 um dómstóla hafði talið standa verulega að baki þremur öðrum umsækjendum.  Í leiðara Morgunblaðsins 10. janúar sl. er þeim ummælum dómnefndarinnar hafnað, að tilvist nefndarinnar setji veitingarvaldinu einhver takmörk.  Þetta sé einfaldlega rangt, enda komi það hvergi fram í neinum lagatexta, nefndin sé að draga til sín vald sem hún hafi ekki.

Nærtækast væri að líta á þessi orð sem merkingarlaust rugl, en ef taka á mark á þeim eru lög ekki annað en tæki valds sem lýtur engum takmörkunum.  Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er.  Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja.  Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýskalandi eftir 1930."

x x x

Eins og fram hefur komið í skrifum mínum á þessari heimasíðu og í blaðagreinum þá er ég ekki alltaf sammála sjónarmiðum Morgunblaðsins.  Síður en svo.

Ég verð hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að minn gamli kennari Sigurður Líndal sé kominn út á ansi hálan ís þegar hann afgreiðir sjónarmið Morgunblaðsins um að álit dómnefndar um hæfi og hæfni dómaraefna bindi ekki hendur ráðherra þegar hann skipar héraðsdómara sem merkingarlaust rugl. 

Í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram, að ráðherra skuli við skipun í embætti héraðsdómara fara að tillögum nefndar, sem samkvæmt lögunum á að fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara. Í reglum, sem settar voru á grundvelli laganna segir í sjöundu grein:

„Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara.“

Þetta þýðir íslensk lög og reglur sem um veitingu dómaraembætta kveða á um að álit nefndarinnar sem meta hæfi og hæfni dómaraefna eru ekki bindandi fyrir ráðherrann sem fer með veitingavaldið.  Hann getur því við val á umsækjendum valið hvern þann sem telst vera hæfur til þess að gegna starfinu svo lengi sem hann byggir niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum.

Menn geta haft skoðanir á því hvort þannig eigi reglurnar að vera eða ekki.  En það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að svona eru þær, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Mönnum er auðvitað einnig frjálst að hafa á því skoðanir hvort það teljist vera málefnalegt að meta áralöng störf manns sem gengt hefur stöðu aðstoðarmanns dómsmálaráðherra mikilvæg við mat á því hvort skipa á þann hinn sama í embætti héraðsdómara eða ekki.  Ég hygg að í skilningi stjórnsýsluréttarins teljist slíkt mat málefnalegt.

x x x

Allt frá því að ég kynntist Sigurði Líndal fyrst sem laganemi við Háskóla Íslands hef ég metið hann mikils og borið til hans hlýhug.  Þess vegna hryggir það mig að sjá minn gamla læriföður setja þá embættisfærslu sem hann gagnrýnir í grein sinni í samhengi við þær embættisfærslur sem viðgengust í Þýskalandi nazismans upp úr 1930.

Slíkar samlíkingar eru ekki smekklegar og það sem meira er, þær eru rangar.

Sigurður Kári.


Vill verkalýðshreyfingin íhlutun í löggjafarvaldi?

vog Kjaraviðræður milli aðila vinnumarkaðarins eru nú komnar á fullt skrið og fregnir herma að fulltrúar verkalýðsfélaganna muni fljótlega vísa viðræðunum til ríkissáttasemjara.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt er að samningar á vinnumarkaði náist og að þeir verði þess eðlis að allir sem að þeim eiga aðild gangi sáttir frá borði, enda felast sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar í því að stöðugleiki ríki á vinnumarkaði.

Ég hef fylgst nokkuð vel með yfirlýsingum forsvarsmanna aðila vinnumarkaðarins í tengslum við þessar kjaraviðræður.  Fram hafa komið þau sjónarmið, meðal annars hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að í þessum kjarasamningum verði lögð áhersla á að nýta það svigrúm sem til staðar er hjá atvinnurekendum til launahækkana til þess að hækka laun lágtekjufólks.  Aðrar stéttir geti við núverandi aðstæður í efnahagslífinu ekki búist við launahækkunum.

Mér finnst ástæða til að taka undir þessi sjónarmið Vilhjálms Egilssonar, enda eru þau skynsamlegt innlegg inn í þessa umræðu.

Að mínu mati er einnig mikilvægt að samninganefndir ríkis og sveitarfélaga horfi til þessara sömu sjónarmiða þegar þær marka stefnu í launamálum opinberra starfsmanna, enda getur ekki talist skynsamlegt við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu að semja um sambærilegar launahækkanir fyrir allar starfsstéttir.  Hyggilegra væri fyrir hið opinbera að einbeita sér að þeim stéttum sem bágust hafa kjörin.  Hef ég þar til að mynda í huga þá sem sinna umönnunarstörfum, svo sem leikskólakennara, sjúkraliða og aðra þá sem gegna sambærilegum störfum.

Fyrir þessari skoðun má a.m.k. færa tvær röksemdir.  Í fyrsta lagi er hér um að ræða störf, sem þrátt fyrir að vera ákaflega mikilvæg í okkar þjóðfélagi, eru afar illa launuð.  Í annan stað má nefna að afar erfitt hefur verið að fá fólk til þess að vinna þessi störf.  Því þarf að breyta.

150px-ASI_logoÉg hef hins vegar sett spurningamerki við ýmsar áherslur verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við þessar kjaraviðræður.  Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, með Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands í broddi fylkingar, hafa lagt mikla áherslu á að stjórnvöld spili út ákveðnum trompum í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.  Þannig hefur Gylfi og félagar hans hjá ASÍ gert kröfu um að gerðar verði breytingar á skattkerfinu, þannig að tekinn verði upp sérstakur persónuafsláttur fyrir tiltekinn hóp launþega, og að auknu fjármagni verði varið til vaxtabóta- og barnabótakerfisins, svo eitthvað sé nefnt.

Nú er ástæða að spyrja hvort eðlilegt sé að aðilar vinnumarkaðarins, í þessu tilviki verkalýðshreyfingin, setji fram slíkar kröfur í tengslum við viðræður sínar við atvinnurekendur um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði?

Það er að mínu mati viðfangsefni stjórnmálamanna hverju sinni að taka ákvarðanir um það hvernig skattalögum er háttað hverju sinni.  Reyndar hygg ég að sú skoðun sé býsna óumdeild, enda segir í 1. málslið 1. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar:  ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum."

Það er Alþingi Íslendinga sem fer með löggjafarvaldið, ekki aðilar vinnumarkaðarins, hvorki samtök atvinnurekenda né verkalýðshreyfingin.  Því verður lögum um tekjuskatt ekki breytt nema Alþingi taki ákvörðun um að ráðast í slíkar breytingar.  Um skattabreytingar verður ekki samið í kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins, samningaviðræðum sem Alþingi á enga aðild að.  Það segir sig auðvitað sjálft.

Af þeirri ástæðu hef ég furðað mig nokkuð á því hvers vegna forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa lagt svo mikla ofuráherslu á að í þessum kjaraviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins verði samið um þær skattkerfisbreytingar sem verkalýðshreyfingin gerir kröfu um í stað þess að þeir einbeiti sér að þeim þáttum kjaraviðræðnanna sem þeir hafa umboð til að semja um.  Nema um sé að ræða tilraun þeirra til íhlutunar í löggjafarvaldi á Íslandi. 

Nú er ekkert óeðlilegt við það að menn hafi skoðanir á því og leggi fram tillögur um það hvernig skattheimtu skuli háttað í íslensku samfélagi.  Það er hins vegar mikilvægt að þeir einstaklingar sem taka þátt í viðræðum um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði átti sig á því að vilji þeir ná fram breytingum á íslenskum skattalögum, hverjar sem þær kunna að vera, þá eiga þeir hinir sömu að bjóða sig fram til Alþingis.

Það er hinn rétti vettvangur til þess að berjast fyrir breytingum á skattkerfinu.

Sigurður Kári.


Tvær bækur

Oft hef ég verið duglegri við bókalestur en yfir nýafstaðna hátíð.  Ástæður þess eru ýmsar, en ég náði þó að komast yfir tvær bækur í þetta skiptið, ein ein er nýútkomin en hin kom út fyrir nokkrum árum.

Þar sem vegurinn endar

getfileÖnnur bókin sem ég las heitir Þar sem vegurinn endar eftir Hrafn Jökulsson, skákfrömuð og góðan kunningja minn.

Segja má að Þar sem vegurinn endar sé eins konar syrpa atburða úr lífi Hrafns allt frá því að hann var ungur drengur í sveit í Stóru-Ávík í Árneshreppi á Ströndum til dagsins í dag.  Í bókinni stiklar Hrafn á sögu sveitarinnar allt frá landnámi, auk þess sem hann segir frá veru sinni þar og kynnum sínum af heimamönnum.  Þá gefur Hrafn lesendum innsýn inn í viðburðarríkt lífshlaup sitt þar sem víða er komið við og óhætt er að segja að frásögnin sé bæði hreinskilin og einlæg.

Kaflar um samskipti Hrafns við föður sinn, Jökul Jakobsson, og fráfall hans eru vel skrifaðir, eins og reyndar öll bókin, og áhrifamiklir.  Þá hafði ég mjög gaman af frásögn Hrafns af veru sinni í Bosníu og Króatíu árið 1992 þegar stríðið á Balkanskaga geysaði, svo ekki sé minnst á frásögn hans af persónulegum erfiðleikum sínum og í kjölfarið á vist sinni á meðferðarheimilinu í Winnipeg í Kanada.

Að mínum dómi fer Hrafn í kostum í bókinni og ég er sammála því sem Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, segir á forsíðu hennar að bók Hrafns sé ,,Yndislestur í orðsins fyllstu merkingu".

Svartur á leik

3Hin bókin sem ég las er allt annars eðlis, en það er Svartur á leik eftir Stefán Mána, sem út kom árið 2004.

Svartur á leik er að því er virðist skáldsaga sem byggir á sannsögulegum atburðum, a.m.k. að hluta, enda leitaði höfundur fanga hjá lögreglu, fangelsismálayfirvöldum og ýmsum aðilum sem kunnugir eru undirheimum Reykjavíkur, við ritun bókarinnar.  Kannski má segja að bókin sé frekar einskonar stúdía á undirheimunum frekar en að hún sé klassískur krimmi.

Í Svartur á leik er lífi glæpamanna í undirheimum Reykjavíkur líst með tilheyrandi ofbeldi, fíkniefnaneyslu og fleiri fylgifiskum þess lífernis sem þar viðgengst.  Og ætli það verði ekki að segjast að slíkt hæfi viðfangsefni höfundarinar.  En sumar þessar lýsingar eru afar grófar, svo ekki sé meira sagt, þó ekki verði því haldið hér fram að þær séu óraunsæjar eða ósannfærandi, enda virðist harkan í þessum heimi alltaf að verða meiri og meiri.  Söguhetjurnar eru undantekningalítið vafasamir glæpamenn með vafasöm viðurnefni.

Þó bókin sé kannski fulllöng miðað við viðfangsefnið og einkennist að mínu mati um of mikið af endurtekningum, þá er hún engu að síður að mörgu leyti skemmtileg aflestrar og áhugaverð og lýsingar á ýmsum atburðum og uppátækjum söguhetjanna býsna spennandi. 

Svartur á leik á hins vegar ekki mikið erindi við viðkvæma og er ekki beint til þess fallin að koma lesendum í hátíðarskap.

Sigurður Kári.


Hlutverk ríkisins?

farart7Á Alþingi þetta haustið hef ég eytt nokkru púðri í að vekja fólk til umhugsunar um það hvert hlutverk ríkisins eigi að vera í okkar samfélagi.

Mín pólitíska sannfæring segir mér að ríkið eigi að láta lítið fyrir sér fara á þeim sviðum sem einstaklingar geta sinnt og eigi frekar að beina kröftum sínum og fjármunum í önnur verkefni.

Trúr þeirri sannfæringu minni hef ég bent á hversu óeðlilegt og ósanngjarnt það er að ríkið og ríkisfyrirtæki standi í samkeppni við einkafyrirtæki á markaði.  Hef ég þar til að mynda beint spjótum mínum að ríkisfyrirtækinu Íslandspósti hf., sem á síðasta ári hóf mikla innrás inn á markaði sem einkaaðilar hafa fram til þessa sinnt, svo sem á sviði verslunar með ritföng, skrifstofuvörur, föndurvörur, geisladiska og fleira.  Það er að mínu mati algjör tímaskekkja að ríkið reki ritfangaverslanir sem þessar og á því verður að verða breyting.

Að sama skapi hef ég beitt mér fyrir því að draga úr umsvifum ríkisins á smásölumarkaði með aðrar vörur.  Nefni ég sérstaklega í því sambandi frumvarp mitt og 16 annarra þingmanna úr þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, sem mælir fyrir um afnám einkaréttar ríkisins á verslun með léttvín og bjór.

Þó svo að um þessar hugmyndir séu skiptar skoðanir á ég erfitt með að skilja afstöðu þeirra sem telja eðlilegt að ríkið standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila, enda vandséð að samkeppnisstaða einkafyrirtækja gagnvart ríkinu geti nokkurn tíma talist sanngjörn. 

Það væri athyglisvert að vita hvort þeir sem eru á öndverðum meiði við þau sjónarmið sem ég hef fært fram í þessu sambandi séu þeirrar skoðunar að ríkið ætti að láta enn frekar að sér kveða á þessum sviðum.  Það hlýtur eiginlega að vera ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir.

En það er á fleiri sviðum sem ríkið hefur haslað sér völl á í samkeppni við einkaaðila.

Eins og kunnugt er hafa verslunarmiðstöðvar sprottið upp eins og gorkúlur um allt Stór-Reykjavíkursvæðið.  Kringlan er reyndar orðin tvítug, Smáralindin er í stækkun og verslunarmiðstöðvar hafa verið byggðar í Mjóddinni í Breiðholti, í Spönginni í Grafarvogi, í Glæsibæ og víðar og víðar.  Þessar verslunarmiðstöðvar eru í eigu einkaaðila, í flestum tilvikum fasteignafélaga, sem leigja eða selja kaupmönnum aðstöðu sína.

Ein fjölsótt verslunarmiðstöð er þó í eigu ríkisins.  Þar leigir ríkið kaupmönnum aðstöðu til starfsemi sinnar, en stendur jafnframt sjálft í smásöluverslun með snyrtivörur, tölvuleiki, kvikmyndir, sælgæti og fleira.

Þetta er verslunarmiðstöðin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hefur vaxið og dafnað á síðustu árum staðið fyrir mikilli markaðssókn þar sem neytendum er bent á að þar sé verðlag hagstæðara en í einkareknu verslunarmiðstöðvunum.  Enginn eðlismunur er á rekstri þeirrar verslunarmiðstöðvar og til dæmis á rekstri Kringlunnar og Smáralindar.

Ég hlýt að spyrja, er það virkilega hlutverk ríkisins að reka slíka verslunarmiðstöð?

Það finnst mér ekki.

Sigurður Kári.


Áramót í útlöndum

Times%20SquareÁ minni ævi hef ég varið langflestum áramótum á Íslandi og líkað vel.  Mér finnst íslensku áramótin einkar hátíðleg, enda halda fáar þjóðir upp á þessi merku tímamót með glæsilegri hætti en við Íslendingar.

Ég gerði reyndar undantekningu frá þessari reglu minni áramótin 1996-1997.  Þeim áramótum varði ég í Lundúnum þar sem ég millilenti á ferð með hópi laganema í heimsókn til Ísrael.

Í annað skiptið á ævinni eyddi ég nú áramótunum í útlöndum.  Í þetta skiptið dvaldi ég í New York borg í Bandaríkjunum.

Ólíkt Lundúnarbúum gera New York búar mikið úr áramótunum.  Í Lundúnum safnast fólk saman á Trafalgartorgi og fagnar áramótum án þess að þar séu skipulagðar uppákomur.  Fólki er ekki boðið upp á nein skemmtiatriði, flugeldum er ekki skotið á loft, þar fer ekki fram niðurtalning fyrir nýja árið og í raun má segja að þar sé ekkert um að vera að frátöldum mannsöfnuðinum.  Að minnsta kosti var það mín upplifun fyrir rúmum 10 árum síðan.

Í Times Square torgi í New York er annað uppi á teningnum.  Þar safnast um það bil ein milljón prúðbúinna manna saman, klukkum er komið fyrir um allt torg þar sem viðstaddir geta fylgst með því hvernær nýja árið gengur í garð, fremstu skemmtikraftar Bandaríkjanna koma fram og kristalskúla fellur á áramótunum.

Það er sannarlega mikil upplifun að upplifa áramót í New York.  Borgin skartar sínu fegursta, borgarbúar eru í góðu skapi og stemmingin í raun ólýsanleg.

Það sem mér fannst hins vegar skyggja nokkuð á hátíðarhöldin var hin gríðarlega öryggisgæsla sem lögregla og her stóðu fyrir í miðborginni.  Á hverju horni hafði verið komið fyrir vegatálmum og varla var þverfótað fyrir laganna vörðum með alvæpni.

Á þessu verður maður hins vegar að hafa skilning.  Það er ekki langt síðan að almennir borgarar í New York urðu fyrir gríðarlegu áfalli þegar hriðjuverkamenn gerðu árás á borgina sem kostuðu þúsundir manna lífið og það er vitað að sömu öfl myndu ekki víla það fyrir sér að láta aftur til skarar skríða gagnvart Bandaríkjamönnum ef tækifæri gefist til þess.  Sú ógn sem af hriðjuverkamönnunum stafar kallar á svo umfangsmikla öryggisgæslu og hana verða gestir í borginni að umbera og skilja.

Hvað sem því líður var ógleymanlegt að eyða áramótunum í New York.  Þó geri ég ráð fyrir því að vera á heimavelli um næstu áramót.

Sigurður Kári.


Gleðileg jól

Senn gengur jólahátíðin í garð.

Ég óska lesendum þessarar síðu og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sigurður Kári.


Jólaundirbúningurinn

jolatra_storJólaundirbúningurinn þetta árið hefur gengið vel fyrir sig og um sumt verið nokkuð óvenjulegur.

Frá því að fundum Alþingis lauk hefur mér gefist tími til þess að efna ýmis loforð sem ég hafði gefið varðandi verklegar framkvæmdir hér á heimilinu, sem ég hef fram til þessa ýtt á undan mér.  Ég hef til dæmis notað tímann til þess að leggja nýjar fúur í sturtubotninn okkar hér á heimilinu, gripið í pensil og kippt ýmsum vandamálum í liðinn sem setið hafa á hakanum.

Hinn eiginlegi jólaundirbúningur hefur að öðru leyti gengið vel.  Jólatréð, sem við keyptum af Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna þetta árið, er komið upp, allar gjafir eru komnar í hús og hreindýrið sem við fengum venju samkvæmt í Melabúðinni býður þess að verða matreitt.  Sjálfur er ég í afar góðu jólaskapi sem hefur verið að stigmagnast alla aðventuna.

Það sem hefur kannski verið óvenjulegast við aðdraganda þessara jóla hjá mér er það að í gær fór ég í viðtal í stórgóðum jólaþætti Loga Bergmanns Eiðssonar á Stöð tvö, Logi í beinni.  Þar ræddum við Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, um jólaundirbúninginn og jólahaldið.  Kolbrún, sem er grænmetisæta, fræddi okkur Loga og áhorfendur um það hvað grænmetisætur leggja sér til munns á þessari miklu hátíð.  Sá hluti viðtalsins tók þó nokkuð óvænta, en fyndna stefnu, þegar við ræddum hvaða áhrif þessi annars ágæti matur hefur á meltingu þeirra sem hans neyta.  Í gegnum tíðina hef ég farið í býsna mörg viðtöl en í þetta skiptið varð ég í fyrsta skipti vitni að því að þáttastjórnandi beinlínis hágrét af hlátri í beinni útsendingu því honum þótti umræðuefnið svo fyndið.  Það var gaman að því.

Að viðtalinu loknu gerði ég síðan nokkuð sem ég hef ekki gert áður í sjónvarpi.  Ég söng jólalag með tveimur af mínum bestu vinum, þeim Selmu Björnsdóttur, stórsöngkonu, og Ólafi Teiti Guðnasyni, fyrrum blaðamanni og núverandi starfsmanni hjá Straumi, fjárfestingabanka, en þetta mikla tríó kallar sig Jólastjörnurnar.

Og fyrst við létum til leiðast að syngja jólalag í þætti Loga ákváðum við að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og fluttum hið stórgóða jólalag ,,Nú á ég jólin með þér", sem Björgvin Halldórsson og Ruth Reginalds gerðu ódauðlegt fyrir nokkrum árum síðan.

Nú er ég enginn lágforgjafarmaður þegar kemur að listsköpun sem þessari, þó ég hafi stundum sungið í góðra vina hópi og eigi mér einhverja sögu á þessu sviði frá Verzlunarskólaárunum. 

Fram til þessa hefur það ekki valdið mér neinu stressi að koma fram í sjónvarpi, en ég skal játa að fyrir þennan flutning vottaði fyrir smá sviðsskrekk og ég skalf aðeins.  Engu að síður fannst mér atriðið ganga ljómandi vel, sem er ekki síst Selmu að þakka, og ég vona að þeir sem það sáu taki viljann fyrir verkið.  Að minnst kosti var þetta fyndið og skemmtilegt.

Á morgun er það svo skatan.  Ég er alinn upp við að borða skötu á Þorláksmessu og finnst sá siður ómissandi þáttur í jólahaldinu.

Sigurður Kári.


Endalok málþófsins?

big-Alingijpg Þingfundum Alþingis þetta árið lauk á föstudag.  Þetta haustþing var nokkuð merkilegt fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta lagi afgreiddi þingið fjáraukalög sem leiddu til þess að ríkissjóður skilar tekjuafgangi árið 2007 upp á litla 82,8 milljarða, sem er metafgangur.  Í annan stað samþykkti Alþingi fjárlög fyrir árið 2008 með tæplega 40 milljarða afgangi, sem hlýtur að teljast býsna góður árangur.  Í þriðja lagi voru samþykkt ný þingskapalög sem breyta þeim leikreglum sem við alþingismenn þurfum að fylgja í störfum okkar á Alþingi.

xxx

Mestu deilurnar á Alþingi á þessu hausti snérumst um þingskapafrumvarpið, sem borið var fram af Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, og formönnum þingflokka Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar.  Vinstrihreyfingin grænt framboð setti sig einn stjórnmálaflokka upp á móti frumvarpinu og gengu þingmenn flokksins, einkum Steingrímur J. Sigfússon, Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson, mjög hart fram í andstöðu sinni við frumvarpið, og kröfðust þess í löngum ræðum að fá að halda áfram að halda langar ræður.

Í lögum um þingsköp er kveðið á um þær leikreglur sem unnið er eftir á Alþingi.  Þar er meðal annars að finna lagaákvæði um hlutverk forseta Alþingis, verklagsreglur þingnefnda, ræðutíma alþingismanna og fleira og fleira.  Frumvarpið sem nú er orðið að lögum er tilraun til þess að haga þessum leikreglum með þeim hætti að starfsemi Alþingis verði skilvirkari, vinnulag betra og til þess að gera pólitíska umræðu innan þessarar stofnunar, sem oft á tíðum hefur einkennst af fáránlega löngum ræðum, markvissari en hún hefur verið.

xxx

Áður en ég tók sæti á Alþingi árið 2003 starfaði ég hjá einkafyrirtæki þar sem áhersla var lögð á markviss, skilvirk og fagleg vinnubrögð.  Þar, eins og hjá öðrum einkafyrirtækjum, var lögð áhersla á að ná hámarksárangri og reynt að tryggja að vinnutími starfsmanna færi ekki til spillis.

Þegar ég tók sæti á Alþingi kynntist ég annars konar vinnubrögðum.  Því miður hefur það komið of oft fyrir að vinnutíma þeirra sem þar starfa hefur verið sólundað og þinginu og þingmönnum verið haldið í gíslingu fárra langorðra ræðumanna.

xxx

Sjálfur hef ég viljað standa vörð um málfrelsi þingmanna og rétt þeirra til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þau mál sem til umræðu eru á hverjum tíma.  Fram til þessa hefur málfrelsi íslenskra þingmanna verið takmarkalaust, með öðrum orðum hafa þær leikreglur sem höfum unnið eftir verið þess efnis að þingmenn hafa haft rétt til þess að tala í ótakmarkaðan tíma um hvert einasta lagafrumvarp sem lagt er fram á Alþingi.

Slíkt fyrirkomulag er í teoríunni auðvitað lýðræðislegt og heillandi.  Vandinn er hins vegar sá að á síðustu árum hafa þingmenn úr fleiri stjórnmálaflokkum en einum misnotað þessa takmarkalausu heimild sína og komið óorði á málfrelsið sem þeim hefur verið treyst fyrir.  Það hafa þeir gert með því að beita málþófi í umræðum um mál sem þeir hafa verið andsnúnir og sett á óheyrilega langar ræður, sem sumar hafa staðið jafnvel í sex til átta klukkustundir.  Það segir sig auðvitað sjálft að slíkar ræður fjalla ekki nema að litlu leyti um efni þeirra mála sem til umræðu eru hverju sinni.  Þegar brögðum eins og þessum er beitt hafa menn lagt mun meira upp úr ræðulengd en efnislegu inntaki ræðunnar.

Sumir þeirra hafa ekki einu sinni haft fyrir því að reyna að fara í felur með þennan ásetning sinn og hafa boðið þingi og þjóð upp á upplestur ýmissa bóka og fræðirita, jafnvel í fullri lengd úr ræðustól Alþingis!

Vonandi heyra þessi vinnubrögð sögunni til eftir samþykkt nýju þingskapalaganna.   Enda er það þjóðþinginu okkar ekki sæmandi að þar sé málum háttað með þessum hætti.

xxx

Ég fæ hvorki séð að málstaður Vinstri grænna í þingskapamálinu hafi notið mikillar samúðar eða hylli innan þings né utan.  Eins og áður hefur komið fram voru þeir einir á báti innan þings og ég hef ekki hitt fyrir nokkurn mann utan þings sem ekki telur eðlilegt að koma böndum á þingmenn sem farið hafa með málfrelsið innan Alþingis með þeim hætti sem ég hef hér lýst.

Ég held að þingmenn Vinstri grænna hafi skynjað þessa neikvæðu strauma sem málflutningur þeirra í málinu hlaut eftir því sem leið á umræðuna um málið.  Vonbrigði þeirra leyndu sér ekki þegar þeir áttuðu sig á því að þeir voru gjörsamlega einangraðir í málflutningi sínum.

Það olli mér hins vegar vonbrigðum að heyra síðustu ræðu Steingríms J. Sigfússonar um málið á föstudag.  Þó svo að ég sé ósammála Steingrími um flesta hluti, ber ég engu að síður virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni og hefur oftast fundist hann málefnalegur í stjórnmálaumræðunni.

Í ræðunni á föstudag fór Steingrímur hins vegar út af strikinu og veittist með ómálefnalegum hætti að forseta þingsins, talaði niður til Alþingis með því að kalla það afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins og gerði lítið úr þeim störfum sem fjöldi fólks vinnur þar eftir bestu samvisku.  Að ræðunni lokinni gekk hann síðan úr þingsalnum, einn þingmanna, áður en þingmenn allra flokka vottuðu forseta þingsins virðingu sína, eins og venja er að gera á síðasta starfsdegi þingsins.

Ég vona að brotthlaup Steingríms eigi sér aðrar skýringar en þær að hann hafi hlaupist á brott í fússi.

xxx

Það verður athyglisvert að sjá hvaða áhrif hin nýju þingskapalög munu hafa á vinnubrögð og pólitíska umræðu á Alþingi á komandi árum.

Vonandi munu þau leiða til endaloka málþófsins sem þar hefur viðgengist, enda nóg komið af þeim ósóma.

Sigurður Kári.


Ekkert miðjumoð

180px-Leaning_Tower_of_PisaVið upphaf þingfundar í gær ræddum við á Alþingi um niðurstöður Písa-könnunarinnar um námsárangur grunnskólanemenda.  Ég tók þátt í þeirri umræðu.

Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að niðurstaða Písa-könnunarinnar eru vonbrigði.  Það er ekki ásættanlegt að lesskilningur íslenskra skólabarna hafi hrakað á síðustu árum og lakari árangur þeirra í náttúrufræði og stærðfræði veldur einnig áhyggjum.

En þó svo að niðurstöður könnunarinnar hafi ekki verið nægilega góðar fyrir okkur Íslendinga ættu þeir sem um hana fjalla að varast að nota þær til þess að tala íslenskt menntakerfi niður, eins og nokkuð hefur borið á.  Slíkt er hvorki skólunum, þeim sem þar starfa eða nemendum til framdráttar.

Eitt vekur sérstaka athygli í könnuninni, en það er sú staðreynd að fjármagn og árangur nemenda í grunnskólum helst ekki endilega í hendur.  Norðmenn verja til að mynda mestu fjármagni til sinna grunnskóla en eru engu að síður aftarlega á merinni þegar kemur að árangri norskra nemenda.  Við Íslendingar fylgjum Norðmönnum fast á eftir þegar kemur að fjárveitingum til grunnskólans, en samt sem áður náum við ekki þeim árangri í könnuninni sem við hefðum viljað sjá.

Þetta er vert að hafa í huga, því á síðustu árum hefur sú gagnrýni sem beint hefur verið að stjórnvöldum varðandi menntamál einkum snúist um það að aukna fjármuni þurfi til skólakerfisins.  Písa-könnunin virðist leiða í ljós að það séu svo aðrir þættir skipti meira máli.

Þó svo að niðurstöður Písa-könnunarinnar séu ekki endilega yfir allan vafa hafnar tel ég að við Íslendingar eigum engu að síður að taka þær alvarlega.  Við eigum að nýta þær með uppbyggilegum hætti til þess að styrkja og efla skólana okkar og bæta þá menntun sem við veitum grunnskólanemum.

Við þurfum að setja undir okkur hausinn og hefjast strax handa við að lagfæra þá hluti sem betur mega fara í skólakerfinu.  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur nú sýnt frumkvæði í þeim efnum og tekið af skarið með því að leggja fram fjögur efnismikil lagafrumvörp á Alþingi um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, og menntunarskilyrði kennara.  Það er lofsvert.

Það er mikilvægt að allir sem að skólamálum koma taki þessar niðurstöður til athugunar og leggi sitt af mörkum í umræðunni.  Á það meðal annars við um alþingismenn, sveitastjórnarmenn, kennara, foreldra, háskólafólk og aðila í viðskiptalífinu.

Við þurfum að taka þær aðferðir sem beitt er innan grunnskólans til skoðunar.  Það þarf meðal annars að meta hvort of mikil áhersla er lögð á uppeldisþættina í skólakerfinu og hvort það sé gert á kostnað faggreinakennslu.  Við þurfum að endurmeta þau námsgögn sem nemendum er boðið upp á og velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til þess að auka samkeppni milli skóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Í þessa vinnu þarf að ráðast með það að markmiði að bæta árangur íslenskra grunnskólanemenda því við eigum ekki að sætta okkur við að þeir séu eftirbátar jafnaldra sinna í öðrum löndum.  Við eigum ekki að sætta okkur við neitt miðjumoð í þessum efnum.

Í þeirri umræðu megum við þó ekki gleyma því að við höfum byggt upp frábært skólakerfi.  Kennararnir okkar eru góður og krakkanir okkar bráðefnilegir.

Við þurfum hins vegar að finna leiðir til þess að draga það besta fram í þeim.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband