Nýr skóli

haus-skoliÁ föstudag undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, og forsvarsmenn Menntafélagsins ehf. samning um rekstur nýs framhaldsskóla sem verður til við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands.  Sjálfur varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstaddur undirritunina.

Eigendur Menntafélagsins ehf. eru Samtök iðnaðarins, Landsamband íslenskra útvegsmanna, Samorka, Samband íslenskra kaupskipaútgerðar og Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur.  Félagið hefur frá árinu 2003 annast rekstur Fjöltækniskólans með góðum árangri, en tekur nú við rekstri hins nýja skóla, auk þess sem félagið mun leggja fram 100 milljónir króna til þróunarstarfs sem nýtt verður til hagsbóta fyrir hinn nýja skóla, kennara og nemendur hans.

Samningur menntamálaráðherra og Menntafélagsins ehf. um einkarekstur hins nýja skóla er sérstakt fagnaðarefni og eiga þeir Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík, og Jón B. Stefánsson, skólameistari Fjöltækniskólans, heiður skilinn fyrir sitt framlag til málsins, en þeir tveir hafa að öðrum ólöstuðum verið helstu driffjaðrir sameiningarinnar.

Með samningi þessum verður til stærsti framhaldsskóli landsins með rúmlega 3.000 nemendur.  Skólinn verður einkarekinn og ljóst að með samningnum verður hlutverk atvinnulífsins við að móta iðn- og starfsnám til framtíðar stærra en áður.

Markmið þessarar sameiningar skólanna tveggja er að efla og styrkja iðn- og starfsnám til framtíðar.  Fulltrúar þeirra atvinnugreina sem um ræðir eru best til þess fallnir að móta slíka framtíðarsýn.  Þeir hafa með því að leggja strax fram 100 milljónir króna til þróunarstarfs innan skólans sýnt vilja sinn í verki svo um munar.

husidEf ég þekki Ögmund Jónasson og félaga hans í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs  rétt er ljóst að þeir munu halda því fram að með samningi þessum hafi Iðnskólinn í Reykjavík verið einkavæddur og að slík breyting sé til mikillar bölvunar.

Slíkar fullyrðingar eiga auðvitað ekki við rök að styðjast.  Hið opinbera mun eftir sem áður koma að rekstri hins nýja skóla með fjárframlögum, sambærilegum og þeim sem þekkjast varðandi rekstur Verzlunarskóla Íslands, auk þess sem hið opinbera mun setja hinum nýja skóla lagareglur og viðmið varðandi hvernig skólastarfinu skuli háttað.

Þá má ekki gleyma því að Iðnskólinn í Reykjavík á sér meira en 100 ára sögu.  Skólinn var rekinn af atvinnulífinu til ársins 1954 þegar ríkið tók við rekstri hans.  Má því segja að með þessum samningi sé skólinn kominn aftur heim, þ.e. undir ábyrgð þeirra atvinnugreina sem honum er ætlað að þjóna.

Það er fagnaðarefni að atvinnulífið skuli taka svo mikla ábyrgð þegar kemur að menntamálum þjóðarinnar sem aðkoma þeirra að rekstri hins nýja skóla sýnir.  Fyrir slíku höfum við sjálfstæðismenn barist um árabil og haft óbilandi trú á erindi þess að menntamálum þjóðarinnar.

Nú er það verkefni þeirra sem um stjórnvölinn halda innan hins nýja félags að sýna fram á mátt einkaframtaksins og að sú breyting sem gerð var á rekstri þessara tveggja menntastofnana verði iðn- og starfsnámi á Íslandi til framdráttar.

Ég hef fulla trú á að samningur menntamálaráðherra og Menntafélagsins ehf. muni marka tímamóti í eflingu iðn- og starfsnáms á Íslandi og tel að allir þeir sem að honum standa eigi heiður skilinn fyrir framlag sitt.

Sigurður Kári.


Guðfaðir klækjastjórnmálanna?

b17ca4676da290fcKönnun Capacent sem birtist á dögunum bendir til þess að einungis 9% landsmanna beri traust til borgarstjórnar Reykjavíkur.  Mun þetta vera versta útreið sem nokkur stofnun samfélagins hefur fengið í könnun þar sem spurt er hversu mikið traust almenningur ber til helstu stofnana þjóðfélagsins.

Niðurstaðan er vond fyrir borgarstjórn Reykjavíkur og út úr þessari stöðu verða þeir sem þar sitja að vinna sig.

Í fréttaviðtali í kvöld heyrði ég haft eftir Degi B. Eggertssyni, fyrrum borgarstjóra í Reykjavík og oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að niðurstaða könnunarinnar væri ,,áfellisdómur yfir klækjastjórnmálunum" og beindi hann orðum sínum augljóslega til þeirra borgarfulltrúa sem nú skipa meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Vel má vera að útskýra megi niðurstöður könnunarinnar með þeim hætti að í henni felist sá áfellisdómur sem Dagur lýsti í viðtalinu.

En getur verið að Dagur sjálfur beri þar einhverja ábyrgð?

Getur verið að Dagur sjálfur hafi beitt klækjum þegar hann lokkaði Björn Inga Hrafnsson og Framsóknarflokkinn til samstarfs við sig og sprengdi þar með meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og komst með því sjálfur að kjötkötlunum?

Getur það verið?

Og getur verið að þeir klækir sem Dagur beitti við myndun þess meirihluta séu þeir sömu sem Dagur telur að þátttakendur í könnuninni séu að lýsa vanþóknun sinni á?

Getur verið að einn höfuðarkitekt hinna nútímalegu umræðustjórnmála, Dagur B. Eggertsson, sé jafnframt guðfaðir klækjastjórnmálanna?

Það skyldi þó ekki vera?

Sigurður Kári. 


Evrópumálin

eu_flag Umræða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er nú farin láta á sér kræla á nýjan leik, eftir að hafa legið í dvala um nokkra hríð.

Ástæður þess að menn eru farnir að ræða það nú hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að Evrópusambandinu eru líklega nokkrar.  Hugmyndir manna um að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill og viðbrögð ráðamanna hér á landi og í Evrópu skýra það að einhverju leyti.

Við upphaf þeirrar umræðu ræddu ýmsir málsmetandi menn þá hugmynd hvort mögulegt væri fyrir Íslendinga að taka upp evru einhliða án þess að ganga í Evrópusambandið.

Eftir að sú hugmynd var slegin út af borðinu af ráðamönnum hérlendis og erlendis Evrópuumræðan þróast á þann veg að nú telja menn einungis tvo kosti í stöðunni.  Annar er sá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu með upptöku evrunnar og öllu öðru sem slíkri aðild fylgir.  Hinn er sá að Íslandi standi utan Evrópusambandsins, láti sér nægja að nýta kosti EES-samningsins og innri markaðarins og haldi sig við krónuna sem gjaldmiðil.

Það eru auðvitað fleiri þættir sem hafa leitt til þess að Evrópuumræðan er nú orðin fyrirferðarmeiri en hún var, til dæmis fyrir síðustu kosningar þar sem enginn flokkur þorði að berjast fyrir Evrópusambandsaðild.  Má þar nefna háa vexti á Íslandi, verðlag á matvöru og fleira.

x x x

Í dag heyrði ég Birgi Guðmundsson, stjórnmálafræðing á Akureyri, tjá sig um þessi mál á einhverri útvarpsstöðinni.  Þar reyndi hann að skýra út hvers vegna meirihluti svarenda í skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem birtist í blaðinu á þriðjudaginn, væri hlynntur því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Í máli Birgis kom réttilega fram að helstu rök þeirra sem berjast gegn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu væru þau að með aðild myndi yfirstjórn sjávarútvegsmála færast frá Íslandi yfir til Brussel.

Hins vegar tók Birgir fram að í Evrópuumræðunni í dag færi minna fyrir þeirri röksemd andstæðinga aðildar sem byggir á því að með aðild væri þjóðin að afsala sér fullveldi og þar með lagasetningarvaldi í eigin málum.

x x x

Við þessa upprifjun Birgis rifjaðist það upp fyrir mér að í mörg ár beittu Evrópusinnar, innan þings sem utan, þeirri röksemd fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að aðild breytti í sjálfu sér engu hvað varðaði framsal fullveldis og löggjafarvald umfram það sem þegar hefði verið gert.  Þeir sögðu að með aðild Íslands að EES hefði Alþingi afsalað sér svo stórum hluta fullveldis og löggjafarvalds því Alþingi innleiddi nú þegar 80-90% af allri reglusetningu Evrópusambandsins.

x x x

Gegn slíkum fullyrðingum börðumst við andstæðingar Evrópusambandsaðildar í mörg ár.

Árið 2005 lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, til þess að fá úr því skorið hvort áðurnefndar röksemdir Evrópusinna stæðust skoðun eða ekki.

x x x

Í fyrsta lagi spurði ég að því hversu margar gerðir stofnanir Evrópusambandsins hefðu samþykkt og gefið út á ári á tímabilinu 1994 til 2004.

Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að með vísan til fyrirspurnarinnar hefði ráðuneytið farið þess á leit við skrifstofu EFTA í Brussel að tekinn yrði saman fjöldi svokallaðra bindandi gerða, en hugtakið ,,gerð" vísar annars vegar til allra formlegra ákvarðana sem teknar eru af stofnunum Evrópusambandsins, óháð því hvort þær eru bindandi eða óbindandi fyrir aðildarríki þess.

Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar, sem byggðar voru á lagagagnagrunni Evrópusambandsins, (EUR-lex) voru eftirfarandi fjöldi tilskipana, reglugerða og ákvarðana settur á þessu tímabili:

Tilskipanir:  1.047.

Reglugerðir:  27.320.

Ákvarðanir:  10.569.

Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu.  Í svarinu kom fram að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktur var af Evrópusambandinu á tímabilinu vörðuðu framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess, en einnig var fjöldi gerða samþykktur á ári hverju sem varðaði framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess þ.m.t. tollamál.

x x x

Í annan stað spurði ég hversu margar þessara gerða hefðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum.

Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að inn í EES-samninginn væru aðeins teknar þær gerðir sem féllu undir gildissvið samningsins.  Gildissvið EES-samningsins er bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsa fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis væru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt).

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá EFTA-skrifstofunni höfðu einungis 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í EES-samninginn á þessu tíu ára tímabili, eða um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu.

x x x

Í þriðja lagi spurðist ég fyrir um það hversu margar þessara gerð hefðu krafist lagabreytinga við innleiðingu hér á landi.

Í svari ráðuneytisins kom fram að ef gerð sem taka á upp í EES-samninginn krefst lagabreytinga gera stjórnvöld við hana svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. EES-samningsins.  Á því 10 ára tímabili sem spurning mín náði til gerðu íslensk stjórnvöld slíkan fyrirvara í 101 skipti við upptöku gerðar í EES-samningsins.

Það þýðir í 0,0025% tilvika var slíkur fyrirvari gerður.

x x x

Þessi niðurstaða sýnir auðvitað að röksemdir þær sem andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa gegn Evrópusambandsaðild og byggja á því að slík aðild fæli í sér mjög víðtækt framsal Íslands á fullveldi sínu og löggjafarvaldi til Brussel á jafn vel við í dag og áður.

Hún sýnir einnig með hvaða hætti hinir kappsfullu Evrópusinnar reyndu að slá ryki í augu almennings í umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu og hvaða breytingar aðild hefði í för með sér.

x x x

Sem betur fer er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skýr hvað varðar hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í stuttu máli kveður hann á um að slík aðild sé ekki á dagskrá, þó ýmsir eigi sér annan draum.

Sigurður Kári.


Castro, kjarasamningar og þjóðnýting

Það er ástæða til að taka heilshugar undir með Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um að aðilar vinnumarkaðarins eigi heiður skilinn fyrir ná saman um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði með þeim hætti sem þeir hafa gert og kynnt hefur verið.

small_0_hendur_heilsastÍ skrifum mínum á þessari heimasíðu hef ég viðrað þá skoðun mína að aðilar vinnumarkaðarins og samningamenn hins opinbera ættu í samningaviðræðum sínum að leggja áherslu á bæta kjör þeirra lægst launuðu, þeirra sem ekki hafa notið launaskriðs á síðustu árum og misserum þannig að þeir nytu forgangs umfram aðra varðandi kjarabætur.  Það er sérstakt ánægjuefni að aðilar vinnumarkaðarins skyldu fara þá leið við gerð nýundirritaðra kjarasamninga.

Hvað aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum þá get ég ekki annað en lýst ánægju minni með framgöngu hennar.  Ástæðan er sú að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa það að markmiði að bæta kjör almennings í landinu með því að lækka skatta.  Það er sérstakt ánægjuefni.  Auðvitað geta menn haft mismunandi meiningar um hvort skynsamlegra sé að lækka persónuafslátt og minnka skerðingarmörk barna- og vaxtabóta eða lækka tekjuskattshlutfallið.  En aðalatriðið er það að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru skattar á fólkið í landinu lækkaðir og því fagna ég.

Lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 18% í 15% er aðgerð sem er mér mjög að skapi.  Ég hef lengi barist fyrir lækkun tekjuskatts á fyrirtæki og nú lítur slík lækkun dagsins ljós.  Lækkun tekjuskatts fyrirtækja er fyrirtækjunum mikilvæg.  Hún er til þess fallin að bæta afkomu þeirra og gerir rekstrarumhverfi þeirra hagstæðara en það var áður.  Það á að vera keppikefli þeirra sem starfa í stjórnmálum að tryggja sterkt atvinnulíf og öflug fyrirtæki, enda er ljóst að ef fyrirtækjum og atvinnulífinu gengur vel, gengur þjóðinni vel.  Lækkun tekjuskattsins skiptir þar miklu máli.  Sú aðgerð er líka skynsamleg við þær aðstæður sem nú ríkja í atvinnulífinu.  Fyrirtækin þurfa við slíkar aðstæður á innspýtingu eins og þessari að halda og hún sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin stendur með atvinnulífinu.  Slík skilaboð ættu að vera atvinnulífinu mikilvæg.

Verkefni framtíðarinnar er síðan að lækka enn álögur á fólk og fyrirtæki með það að markmiði að gera rekstrarumhverfi þeirra enn hagfelldari, ekki einungis til þess að tryggja að þau fyrirtæki sem nú starfa hér á landi haldi starfsemi sinni hér áfram, heldur ekki síður til þess að laða fleiri fyrirtæki að landinu.

Það er verkefni framtíðarinnar.

x x x x x

Fidel Castro tilkynnti í gær að hann myndi láta af embætti forseta Kúbu eftir 49 ára langa valdatíð.

Afsögn Castros eru auðvitað heilmikil tíðindi í alþjóðastjórnmálunum, en ekki get ég sagt að ég sjái sérstaklega mikið eftir hinum kommúníska byltingarleiðtoga af vettvangi stjórnmálanna.  Sem einræðisherra á Kúbu hefur hann haldið þjóð sinni í herkví og kallað yfir hana gríðarlega fátækt og skelfingu.

Óvíst er hver tekur við stjórnartaumum á Kúbu við brotthvarf einræðisherrans eða hvort einhverjar horfur eru á breytingum þar í landi í kjölfar afsagnar Castros.

Eitt er þó víst að Kúbverjar eiga betra skilið en þá meðferð sem þeir hafa sætt af hálfu einræðisherrans og ógnarstjórnar hans síðustu fimm áratugi.

x x x x x

regular_2007newcastlehomeshirtlNú stefnir allt í að Northern Rock bankinn í Bretlandi verði þjóðnýttur.  Breskir skattgreiðendur verða krafðir um litlar 3 til 4 þúsund milljarða króna vegna þjóðnýtingarinnar.

Þjóðnýting Northern Rock er auðvitað mikið áfall fyrir Breta og breskt fjármálalíf.  Það væri að minnsta kosti gríðarlegt áfall fyrir íslenskt fjármálalíf ef einhver viðskiptabankanna, sem fyrir tiltölulega skömmum tíma voru einkavæddir, yrðu þjóðnýttir á nýjan leik.

Vonandi mun slíkt aldrei gerast.

Í þessu sambandi má geta þess að Northern Rock bankinn hefur um margra ára skeið verið helsti stuðningsaðili knattspyrnuliðsins Newcastle United, en liðið ber merki bankans á búningum sínum.

Spurning er hvort breyting verði þar á eftir þjóðnýtinguna.  Það væri að minnsta kosti dálítið kúnstugt að sjá ríkið auglýsa á búningum liðsins í framtíðinni.  Það væri álíka fáránlegt og ef Íbúðarlánasjóður auglýsti á búningum Knattspyrnufélagsins Fram.

Sigurður Kári.


Ótrúlega búðin

443781AÓlafur Þ. Stephensen, ritstjóri 24 stunda, segir í leiðara blaðsins í dag að fréttir af starfsháttum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins séu stundum svo skrýtnar og ótrúlegar að fólk veit varla hvort það á að hlægja eða gráta yfir ruglinu sem fylgir þessum útelta ríkisrekstri.

Undir þetta sjónarmið ritstjórans finnst mér ástæða til að taka.

Í leiðaranum rekur Ólafur að í síðustu viku hafi 24 stundir sagt frá því að þótt tvær nýjar bjórtegundir, bruggaðar á Suðurlandi, væru væntanlegar á markaðinn á næstu vikum, væri bið á því að þær kæmu í vínbúðir á Suðurlandi.

Ég tók mig til og skrifaði álit sem birtist í 24 stundum í dag, undir fyrirsögninni ,,Fylgifiskar ríkiseinokunar."  Í álitinu lýsi ég því að nú sé hljóðið þungt í Sunnlendingum.

Ástæðan er sú að framtaksamir einstaklingar í fjórþungnum hafa framleitt áfengan bjór sem þeir vilja koma á markað.  Sunnlenskir neytendur vilja styðja við bakið á sveitungum sínum og kaupa framleiðslu þeirra.  Þeir eiga hins vegar ekki hægt um vik því reglur ríkiseinkasölunnar, ÁTVR, kveða á um að sunnlenska ölið þurfi að fara í reynslusölu í Reykjavík áður en óhætt er að selja það á sunnlenskum markaði!

Í 24 stundum á þriðjudaginn var sagt frá því að ÁTVR hefði sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ÁTVR hafi lagt ,,sérstaka áherslu á að tryggja að íslensk framleiðsla sé til í þeim vínbúðum sem eru nálægt framleiðslustað."  Einnig er tekið fram að í samræmi við vinnureglu ÁTVR verði  ,,Sunnlendingum tryggður aðgangur að sunnlenskum bjór í vínbúðum í sinni heimabyggð um leið og hann kemur á markað."

Sunnlendingar hafa væntanlega fagnað þessari tilkynningu þar til Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, steig fram á sjónarsviðið og sagði slík áform brjóta gegn 16. Gr. EES-samningsins.  Ríkiseinkasölu væri óheimilt að láta aðrar reglur gilda um innlenda framleiðslu en erlenda.  Sérreglur fyrir sunnlenska ölgerðarmenn væru brot á EES-samningnum.

Málið er því í miklum hnút.

Þó svo að þetta mál varði ekki mikilsverða þjóðarhagsmuni má að mínu mati draga af því mikilvægan lærdóm.

Í því koma í ljós þeir gallar sem eru fylgifiskar þess að ríkið hafi með höndum einokun á sviði smásöluverslunar, enda gilda mun strangari reglur um slíka verslun en frjálsa verslunarhætti.  Málið varpar einnig ljósi á þær hömlur sem ríkiseinokun setur á framleiðendur sem vilja koma vöru sinni á markað.

Eins og kunnugt er hef ég lagt fram frumvarp á Alþingi sem mælir fyrir um að einokun ríkisins á verslun með léttvín og bjór verði afnumin.  Ef Alþingi samþykkti frumvarpið væri höggvið á þennan hnút.  Þá gætu verslunareigendur á Suðurlandi boðið sveitungum sínum upp á sunnlenskt öl og norðlenskir kaupmenn gætu boðið Norðlendingum upp á norðlenskan bjór,  án þess að hann þyrfti fyrst að fara í reynslusölu í Reykjavík eða að hætta væri á að EES-reglur væru brotnar.

Er ekki kominn tími til að fólk velti því fyrir sér hvort fyrirkomulagið er skynsamlegra?

Að óbreyttu fyrirkomulagi ríkiseinokunar áfengisverslunar er ljóst, eins og Ólafur Þ. Stephensen bendir á í leiðara sínum, að þegar sunnlenski bjórinn kemur í búðir, hvort sem það það verður strax eða þegar reynslutímanum lýkur, eftir því við hvaða reglur ÁTVR ætlar að styðjast, verður hann fyrst fluttur til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði, svo hægt sé að flytja hann aftur til neytendanna.  Bjórinn Kaldi, sem bruggaður er á Árskógsströnd í 12 kílómetra fjarlægð frá ríkinu á Dalvík, verður keyrður um 800 kílómetra til Reykjavíkur og norður aftur, framhjá brugghúsinu og í búðina.

Er eitthvað vit í þessu?

Sigurður Kári.


Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

200px-Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttum sem fluttar hafa verið síðustu daga af skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið um fylgi stjórnmálaflokkanna.

x x x

Miklu púðri hefur verið eytt í að segja okkur fréttir af skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði um fylgi flokkanna og birt var á forsíðu blaðsins þann 31. janúar sl., undir fyrirsögninni ,,Samfylking í mikilli sókn."

Samkvæmt könnuninni er ekki ,,marktækur munur á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar".  Rétt mun vera að fylgi flokkanna samkvæmt könnuninni er lítill.  Samkvæmt henni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 36,7% fylgi, en Samfylkingin 34,8%.  Aðrir flokkar njóta minna fylgis, Vinstrihreyfingin grænt framboð 15,4%, Framsóknarflokkurinn 8,9% og Frjálslyndi flokkurinn einungis 3,6% fylgis.

Könnunin sýnir sterka stöðu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna meðal almennings.

x x x

Í fjölmiðlum hefur hins vegar minna farið fyrir niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup, sem birtar voru á mánudag.  Niðurstöður þeirrar könnunar sýna ákaflega sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir því samkvæmt henni nýtur flokkurinn 40,3% fylgis.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup nýtur Samfylkingin 30,3% fylgis, 15,4% styðja Vinstrihreyfinguna grænt framboð, 8,7% Framsóknarflokkinn og 4,4% Frjálslynda flokkinn.

Það er ekki hægt að lesa annað út úr Þjóðarpúlsi Gallup en að Sjálfstæðisflokkurinn beri höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka hvað varðar fylgi á landsvísu.

x x x

Niðurstaða Þjóðarpúls Gallup er auðvitað ánægjuleg og glæsileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fylgismenn hans um allt land.  Og ekki verður séð að umrótið í Ráðhúsi Reykjavíkur hafi haft mikil áhrif á fylgi flokksins í landsmálum.

Maður veltir því hins vegar óneitanlega fyrir sér hvers vegna könnun Gallup hefur ekki verið jafn fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og skoðanakönnun Fréttablaðsins, því það hefur hún svo sannarlega ekki verið.

Sigurður Kári.


Línur að skýrast í Bandaríkjunum

white-houseÁ morgun munu línur væntanlega skýrast í Bandaríkjunum varðandi það hverjir verða frambjóðendur Demókrata og Rebúplíkana í komandi forsetakosningum þar í landi.  Spennandi verður að sjá hver úrslitin verða.

x x x

Spennan hjá Demókrötum er spennan reyndar mun meiri en hjá Repúblíkönum.  Svo virðist sem eitthvað verulega mikið þurfi að gerast til þess að öldungardeildarþingmaðurinn John McCain hljóti ekki tilnefningu.  Hann virðist vera hinn öruggi sigurvegari og nýtur að því er virðist mun meiri stuðnings en helsti keppinauturinn Mitt Romney.

Fyrirfram taldi ég sjálfur að Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóri New York borgar, væri frambærilegastur þeirra sem upphaflega gáfu kost á sér í forvali Repúblíkanaflokksins.  Því miður náði Rudy sér hins vegar aldrei á strik og virtist alls ekki eiga upp á pallborðið hjá kjósendum.

John McCain, sem mér þótti fyrirfram ekki sérstaklega spennandi kostur, nýtur á hinn bóginn mikillar virðingar og trausts meðal Bandaríkjamanna.  McCain er auðvitað gömul hetja úr Víetnamstríðinu og á býsna farsælan feril að baki í stjórnmálunum.   Hann stendur klárlega fyrir utan valdakjarnann í kringum George W. Bush og hefur sett sig upp á móti ýmsum umdeildum málum sem Bush-stjórnin hefur barist fyrir.  Því er ekki víst að óvinsældir Bush í ýmsum fylkjum Bandaríkjanna muni hafa mikil áhrif á gengi John McCain í baráttunni við frambjóðanda Demókrata.

Þar fyrir utan er John McCain almennt í hugum Bandaríkjamanna talinn heiðarlegur stjórnmálamaður, maður réttlætis og sanngirni, en ekki síst fulltrúi klassískra bandarískra gilda.

x x x

obama-clintonÞað er miklu erfiðara að spá fyrir um hvort Barak Obama eða Hillary Clinton hlýtur útnefningu Demókrataflokksins.

Þó svo að skoðanakannanir hafi sýnt að Hillary njóta meira fylgis en Obama þá hafa kosningaúrslit í einstaka fylkjum sýnt að slíkum könnunum er ekki endilega treystandi.  Obama hefur upp á síðkastið verið að sækja mjög í sig veðrið í kosningabaráttunni og fulltrúar sterkra afla í bandarískum stjórnmálum keppast nú við að lýsa yfir stuðningi við hann.

Fyrir mér er Barak Obama miklu meira spennandi frambjóðandi en Hillary Clinton.  Hillary er að mínu mati fulltrúi gamla tímans í Demókrataflokknum og bandarískum stjórnmálum.  Og fyrir mér skortir hana persónutöfrana.  Hillary hefur frekar þau áhrif á mig að hún sé úr stáli en af holdi og blóði, en auk þess er hún ákaflega umdeild meðal bandarískra kjósenda, bæði karla og kvenna.

Obama er annarar gerðar.  Það gustar af honum í kosningabaráttunni og það leika ferskir vindar um hann.  Hann er frábær ræðumaður og virðist eiga mjög auðvelt með að vinna fólk á sitt band og fá það til þess að vinna með sér.

Það sem hins vegar mun hugsanlega vinna gegn honum í baráttunni um útnefningu er sú staðreynd að hann er vinstrisinnaðasti frambjóðandinn sem komið hefur fram í þessu forvali.  Og slíkt fellur bandarískum kjósendum ekki sérstaklega vel í geð.

Ég ætla að leyfa mér að spá því að Barak Obama sigri Hillary Clinton þegar uppi er staðið og verði forsetaframbjóðandi Demókrata.

x x x

En hvort sem það verður Barak Obama eða Hillary Clinton sem hlýtur útnefningu Demókrata er ljóst að forsetakosningarnar verða spennandi og skemmtilegar, en umfram allt öðruvísi en þær hafa verið áður, því aldrei hefur kona eða blökkumaður verið fulltrúi annars flokksins í forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Og af því að ég nefndi hér að Barak Obama væri fulltrúi framtíðarinnar hjá Demókrötum á meðan Hillary væri fulltrúi gamla tímans í flokknum og bandarískum stjórnmálum, hvað má þá segja um John McCain, sem er miklu eldri og af allt annarri kynslóð en þau tvö?

Það er alls ekki víst að aldur John McCain vinni gegn honum í forsetakosningunum.  Enda á hann ekki að gera það.  Árangur í stjórnmálum á ekki að vera undir aldri manna, heldur því sem þeir standa fyrir og hafa fram að færa.  Hins vegar vann hár aldur Bob Dole þegar hann keppti að því að verða forseti.  Sú var hins vegar ekki raunin í tilviki Ronald Reagan.  Reagan var ekkert unglamb þegar hann tók við embætti, en er almennt talinn einn besti forseti Bandaríkjanna af Bandaríkjamönnum sjálfum og stjórnmálaskýrendum.

Á móti kemur að McCain nýtur líklega mun meiri virðingar og trausts en bæði Obama og Clinton í augum almennings.  Hann er hefur meiri reynslu, sem kann að nýtast honum vel í kosningabaráttunni, sérstaklega þegar þrengir að Bandaríkjamönnum í efnahagsmálum og á alþjóðavettvangi.

John McCain verður því ekkert lamb að leika sér við fyrir frambjóðanda Demókrata, hvort sem sá verður Barak Obama eða Hillary Clinton.

x x x

Ég ætla að leyfa mér að spá því að hljóti Hillary Clinton útnefningu Demókrataflokksins muni John McCain sigra hana nokkuð örugglega í forsetakosningunum.

Verði Barak Obama hins vegar frambjóðandi Demókrata verður keppnin harðari, en ég hallast engu að síður að því að McCain hafi Obama undir og verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Að minnsta kosti tel ég mestar líkur á því að svo verði eins og staðan er í dag, þó svo að það hafi ekki hvarflað að mér í upphafi kosningabaráttunnar.

Svo er bara að sjá hvort þessi spádómur rætist.

Sigurður Kári.


Reykjavík og Framsóknarflokkurinn

big-DV0183160207Reykjavk16jpgÞað er eðlilegt að fólki sárni þegar það missir völdin í pólitískum hræringum eins og þeim sem hafa átt sér stað innan borgarstjórnar Reykjavíkur á síðustu dögum.  Ekki er það heldur til þess fallið að bæta skapsmuni fólks þegar það sjálft þarf að bragða á þeim meðölum sem það sjálft hefur notað til þess að komast til valda.

Að mínu mati hafa fulltrúar og stuðningsmenn REI-listans hins vegar farið offari eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og Ólafur F. Magnússon mynduðu nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.  Fyrir utan uppákomuna á pöllum ráðhússins sem meira að segja þingmaður Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, sá ,,sóma" sinn í að taka þátt í, hefur því verið haldið fram að valdi hafi verið misbeitt við myndun meirihlutans, hann sé soralegur og svo má lengi telja.

Þá hafa andstæðingar núverandi meirihluta haft uppi málflutning um Ólaf F. Magnússon, sem ekki er við hæfi að hafa eftir á þessum vettvangi.  Það er ekkert annað en ótrúlegt að þetta sama fólk, sem áður hampaði Ólafi sem ,,arkitekt" eða ,,guðföður" REI-listans og gerði hann síðan að forseta borgarstjórnar, skuli fara fram með þeim hætti sem það hefur gert.  Slík framganga er engum til sóma og lýsir djúpstæðum fordómum í garð þeirra sem hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar.

x x x

Það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks var fullkomlega heimilt að mynda meirihluta í borgarstjórn með Ólafi F. Magnússyni.  Sú meirihlutamyndum hefur ekkert með valdnýðslu að gera eða er skrumskæling á lýðræðinu.  Borgarfulltrúarnir átta sem mynda meirihlutann eru allir réttkjörnir og ekkert því til fyrirstöðu að þeir vinni saman standi vilji þeirra til þess.

Í mínum huga er ekki mikil eftirsjá í þeim meirihluta sem nú er farinn frá völdum.  Hann er ekki merkilegri en svo að þeir flokkar og einstaklingar sem að honum stóðu voru ekki megnugri en svo að þeir gátu ekki komið sér saman um málefnasamning til þess að starfa eftir.  Við borgarbúar vissum því ekki, frekar en borgarfulltrúarnir sjálfir, fyrir hvað þessi bræðingur stóð eða hvaða málum hann vildi ná fram.

Þetta er auðvitað meginástæðan fyrir því að Ólafur F. Magnússon sagði skilið við meirihlutasamstarf REI-listans, enda taldi hann sig ekki vera að ná fram þeim stefnumálum sem hann lofaði að berjast fyrir í síðustu borgarstjórnarkosningum.

x x x

frett_13_framsoknrefsarÉg tók eftir því að Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, var gestur Egils Helgasonar í þætti hans Silfri Egils í gær.

Í þættinum lýsti Siv því yfir að hún hefði mestar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík væri ekki stjórntækur!

Auðvitað er það fjarri sanni að Sjálfstæðifsflokkurinn í Reykjavík sé ekki stjórntækur og allir borgarfulltrúar flokksins standa að baki meirihlutasamstarfinu við Ólaf F. Magnússon.  Það meirihlutasamstarf þarf ekki á neinu heilbrigðisvottorði frá Siv Friðleifsdóttur að halda.

En væri Siv ekki nær að líta frekar í eigin barm en að hafa áhyggjur af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins?  Það hefði ég haldið.

Það er auðvitað dapurlegt að horfa upp á það hvernig komið er fyrir Framsóknarflokknum hér í höfuðborginni.  Sá flokkur virðist haldinn sjálfseyðingarkvöt á alvarlegu stigi, sem birtist nú síðast í skeytasendingum milli Guðjóns Ólafs Jónssonar og Björns Inga Hrafnssonar, sem endaði með því að sá síðarnefndi sagði af sér sem borgarfulltrúi.  Flokkurinn hefur á skömmum tíma svo gott sem þurrkast út á höfuðborginni, ekki síst vegna alvarlegra innanmeina í flokknum sjálfum.  Siv Friðleifsdóttir ætti frekar að eyða kröftum sínum í að reyna að lækna þau innanmein en að missa svefn yfir stöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Það er ekki langt síðan að Framsóknarflokkurinn var í lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum.  Það er liðin tíð og Framsóknarflokkurinn er nú svo gott sem valdalaus í íslenskum stjórnmálum.

Þar við bætist að flestir forystumenn flokksins á höfuðborgarsvæðinu hafa snúið baki við stjórnmálum og horfnir af vettvangi.  Flokkurinn á nú engan þingmann í Reykjavík og er valdalaus í borgarstjórn Reykjavíkur.  Halldór Ásgrímsson er hættur og eftirmaður hans á formannsstóli, Jón Sigurðsson, náði ekki kjöri og er horfinn af vettvangi.  Árni Magnússon, fyrrum krónprins flokksins í Reykjavík og félagsmálaráðherra, er farinn.  Finnur Ingólfsson líka.  Jónína Bjartmarz, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík náði ekki endurkjöri.  Björn Ingi Hrafnsson sagði af sér.  Endurkoma Guðjóns Ólafs Jónssonar í stjórnmálin undir merkjum Framsóknarflokksins er ólíkleg.  Sæunn Stefánsdóttir er ekki lengur á þingi og Anna Kristinsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi flokksins hefur sagt sig úr honum.

,,Framsóknarflokkurinn er mjög traustur flokkur", sagði Siv í Silfri Egils.  Í ljósi atburða síðustu vikna, mánaða og missera má draga í efa að svo sé, a.m.k. hér í höfuðborginni.

Guðna Ágústssonar bíður nú það hlutskipti að reisa Framsóknarflokkinn í Reykjavík upp úr öskustónni.  Það hlutskipti er ekki öfundsvert og eins og ástandið á Framsóknarflokknum í Reykjavík er nú, er ekkert sem bendir til þess að það takist.

Af því ætti Siv kannski að hafa áhyggjur.

Sigurður Kári.


Bindandi álit eða ekki?

 

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í umræðum á Alþingi á miðvikudaginn að hann væri ósammála niðurstöðu Árna M. Matthiesen, fjármálaráðherra og setts dómsmálaráðherra, að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Í sömu andrá lýsti Lúðvík því yfir að hann hefði ekki lesið gögn málsins.

x x x

thumb_sivfridleifsÁ miðvikudagskvöldið mættust síðan í umræðum í Kastljósi þau Birgir Ármannsson, félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, og ræddu skipunina.

Í þættinum var Siv mikið niðri fyrir og lýsti því meðal annars yfir að settur dómsmálaráðherra hefði við skipan héraðsdómara verið bundinn að áliti nefndar sem mat hæfni umsækjenda.  Að minnsta kosti hefði ráðherrann verið bundinn því áliti að hluta.  Þessu hélt hún fram gegn andmælum Birgis.

x x x

Deila þessa máls snýst ekki síst um það hvort settur dómsmálaráðherra hafi við val sitt á þeim dómaraefnum sem sóttu um starfið, og voru taldir hæfir, átt að fara að áliti hinnar lögskipuðu dómnefndar eða ekki.

Mynd_0164092Sumir þeir sem hafa tjáð sig um þetta mál hafa haldið því fram að niðurstaða nefndarinnar hafi bundið hendur ráðherrans, en mér sýnist að þeim hópi tilheyri lögfræðingarnir Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson.  Aðrir, þar á meðal Siv Friðleifsdóttir, telja að álitið hafi bundið hendur ráðherrans að hluta, þannig að honum hafi borið að velja dómara úr hópi þeirra sem hæfastir voru taldir.

Þau þrjú eiga það sameiginlegt að geta ekki bent á þær lagareglur sem styðja þá skoðun þeirra. 

x x x

Við mat á því hvort svo sé er nauðsynlegt að skoða þau lög og þær reglur sem gilda við slíkar aðstæður.  Efni þeirra ræður úrslitum um það hvort álit nefndarinnar bindur hendur ráðherra eða ekki.

Eins og ég hef áður sagt á þessari heimasíðu þá er óumdeilt að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra skuli við skipun í embætti héraðsdómara fara að tillögum nefndar, sem samkvæmt lögunum á að fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara.  Í þeim reglum, sem settur voru á grundvelli laganna um störf nefndarinnar, segir:

,,Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara."

Þeir sem lesa lögin um dómstóla og þær reglur sem settar hafa verið um störf nefndarinnar sjá að þær eru alveg skýrar.  Ráðherrann er við val sitt á dómaraefnum ekki bundinn að niðurstöðu nefndarinnar, hvorki í heild né að hluta.  Um þetta erum við Birgir Ármannsson sammála, enda lýsti hann sömu viðhorfum í Kastjósinu á miðvikudaginn.

x x x

En þessar skýru reglur, sem ég hef hér vísað til, virðast hins vegar, af einhverjum ástæðum, ekki duga sumum þeim sem um þetta mál fjalla, þar á meðal nokkrum lögfræðingum eins og þeim tveimur sem hér hafa verið nefndir.  Og í opinberri umræðu virðist sem fjölmiðlafólk og aðrir sem þátt hafa tekið í henni séu í vafa um það hvort álit nefndarinnar bindi hendur ráðherra eða ekki.

Eftir að Birgir Ármannsson hafði lýst þeim viðhorfum sem við höfum haldið fram í þessu máli og hér er líst sagði Brynja Þorgeirsdóttir, stjórnandi umræðunnar í Kastljósinu:

,,Við höfum hringt í mjög marga lögfróða spekinga í leit að einhverjum sem styður þessi viðhorf sem þú meðal annars ert á ... .  Við höfum ekki fundið neinn ennþá ... ."

x x x

Nú er mér ekki ljóst hversu víðtæk þessi leit var sem Brynja lýsti í Kastljósinu né við hvaða lögspekinga var rætt.

Mér er hins vegar bæði ljúft og skylt að aðstoða Kastljóssfólkið við leitina.

Árið 1994 var gefið út afmælisrit tileinkað Gauki heitnum Jörundssyni, fyrrum umboðsmanni Alþingis og lagaprófessor, sextugum.

Í því riti birtust fjöldi gagnmerkra fræðigreina um lögfræði og ber ein þeirra yfirskriftina Álitsumleitan, en þar er fjallað um þær laga- og réttarreglur sem gilda varðandi álit eins og það sem nú er deilt um og þýðingu þeirra fyrir stjórnvöld.

Höfundur greinarinnar er Dr. Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, fyrrum prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sem ég held að fáir efist um að sé fremsti fræðimaður okkar Íslendinga á svið stjórnsýsluréttar.

Í greininni um Álitsumleitan á bls. 413 (í afmælisritinu), fjallar Dr. Páll um bindandi umsagnir en þar segir m.a.:

,,Þótt stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það tekur ákvörðun í máli, er umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins, nema svo sé fyrir mælt í lögunum."

Þessari fullyrðingu sinni til stuðnings vísar Dr. Páll til tveggja álita umboðsmanns Alþingis (skýrsla umboðsmanns Alþingis 1989, bls. 58 (79) og skýrsla umboðsmanns Alþingis 1990, bls. 158).

Síðan segir Dr. Páll:

,,Þegar mælt er fyrir um bindandi umsagnir í lögum, má segja að stjórnsýsluvaldi í viðkomandi málaflokki sé skipt milli þess stjórnvalds sem formlega tekur ákvörðunina og álitsgjafa (d. funktionel kompetencedeling).  Ýmist takmarka bindandi umsagnir úrlausnarmöguleika stjórnvalds eða binda hann alveg við eina niðurstöðu."

x x x

Það væri kannski eins og að æra óstöðugan að nefna það einu sinni enn að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra sé við skipun í embætti héraðsdómara bundinn við álit dómnefndarinnar og að í reglum sem um störf hennar gilda er sérstaklega tekið fram umsögn nefndarinnar bindi ekki hendur ráðherra.

Þegar inntak laga og reglna sem um þessi mál gilda og þær skoðaðar með hliðsjón af þeim fræðiskrifum Dr. Páls Hreinssonar sem hér hafa verið reifuð ætti öllum vangaveltum stjórnmálamanna, lögfræðinga og fjölmiðlamanna um þær reglur sem unnið er eftir við skipan héraðsdómara á Íslandi að ljúka.  Enda eru þær alveg skýrar.

Samkvæmt þeim hefur stjórnsýsluvaldi ekki verið skipt milli þeirrar dómnefndar sem álitinu skilaði og ráðherra, enda mæla lög ekki fyrir um að svo sé.

Mönnum er síðan frjálst að hafa skoðanir á því hvort þeim reglum eigi að breyta og þá hvernig.  En það er ófært að dregnar séu ályktanir og felldir dómar um embættisfærslur ráðherra, með þeim hætti sem til dæmis Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson hafa gert, á grundvelli réttarreglna sem ekki eru í gildi.

x x x

Að lokum þetta.

Árið 2006 var skipaður nýr dómari við Hæstarétt Íslands.  Fjórir sóttu um embættið.  Lögum samkvæmt gaf Hæstiréttur álit á hæfi og hæfni umsækjendanna fjögurra.  Meirihluti dómaranna við Hæstarétt taldi Dr. Pál Hreinsson hæfastan umsækjenda.

Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra á þeim tíma, skipaði hins vegar Hjördísi Hákonardóttur nýjan dómara við Hæstarétt þrátt fyrir að Dr. Páll væri talinn hæfari af hæstaréttardómurunum.

Í ljósi sögunnar er eðlilegt að spyrja:

Hvar voru þeir sem nú gagnrýna skipun Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara þegar Geir H. Haarde skipaði Hjördísi Hákonardóttur en ekki Dr. Pál Hreinsson dómara við Hæstarétt Íslands?

Af hverju höfðu menn ekki áhyggjur af sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu þá?

Af hverju sögðu Lúðvík Bergvinsson, Siv Friðleifsdóttir, Ástráður Haraldsson og Freyr Ófeigsson ekki orð á þeim tíma um embættisfærslur setts dómsmálaráðherra?

Skiptir kannski máli hvaða einstaklingur á í hlut hverju sinni?

Sigurður Kári.


Kiljan og góðar leiksýningar

kiljanÞað er full ástæða til að hrósa Agli Helgasyni fyrir bókmenntaþáttinn Kiljan sem er á dagskrá Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöldum.  Þátturinn er sannarlega hvalreki á fjörur þeirra sem áhuga hafa á bókmenntum hvers konar.

Mér finnst umfjöllun Egils um bókmenntir í þættinum að mörgu leyti nýstárleg og þess eðlis að hún eykur áhuga áhorfenda á því að kynna sér verk þeirra höfunda sem fjallað er um hverju sinni.  Val á viðmælendum er fjölbreytt og skemmtilegt sem gefur þættinum gott og áhugavert yfirbragð.

Gott dæmi um það var Kiljan gærkvöldsins.  Sá þáttur var að mestu tileinkaður Vilhjálmi frá Skáholti.  Ég get gert þá játningu að þar er á ferðinni höfundur sem ég hef ekki gefið mér tíma til að kynna mér fram að þessu.  En umfjöllun Egils um Vilhjálm í gær vakti hjá mér mikinn áhuga á að kynna mér verk hans sem allra fyrst.

Það er full ástæða til þess að hrósa mönnum þegar þeir standa sig vel og því vil ég hrósa Agli Helgasyni fyrir sérlega vel heppnaðan þátt. 

x x x

259_v_borgarleikhusAð sama skapi finnst mér ástæða til þess að vekja athygli á tveimur fantagóðum leiksýningum sem ég hef nýverið séð.

Annars vegar er þar um að ræða uppsetningu Borgarleikhússins á Degi vonar eftir Birgi Sigurðsson í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar.

Ef ég man rétt þá var Dagur vonar valin leiksýning síðasta árs og óhætt að segja að hún standi undir þeim titli.  Leikritið sjálft er auðvitað frábært, uppsetningin er framúrskarandi og leikarar sýningar standa sig ákaflega vel í sinni túlkun í þessu frábæra leikriti.

Hin leiksýningin sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á og mæla með er uppfærsla Borgarleikhússins á barnaleikritinu Gosi í leikstjórn Selmu Björnsdóttur.  Hafi fólk áhuga á því að fara á skemmtilegt barnaleikrit þá er einboðið að skella sér á Gosa.  Sagan er auðvitað klassísk, uppsetningin er einstaklega vel heppnuð og útlit sýningarinnar er ótrúlega flott.

Það er því full ástæða til þess að mæla með Gosa, bæði fyrir börn og fullorðna.

Mynd_0325268Aðrar sýningar sem mér finnst áhugaverðar í leikhúsunum núna er Brák, einleikur Brynhildar Guðjónsdóttur, í leikstjórn Atla Rafns Sigurðarsonar, sem sýnd er í Landnámssetrinu í Borgarfirði.  Verkið skrifað af Brynhildi sjálfri sem er auðvitað mikið afrek útaf fyrir sig.  Gríðarlega áhugaverð sýning sem mig langar til að sjá.

Og svo er á stefnuskránni hjá mér að fara með krakkana á Skilaboðaskjóðuna í Þjóðleikhúsinu.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband