100 ár frá fæðingu Bjarna Benediktssonar

64-220Í dag var þess minnst með athöfn í Þjóðmenningarhúsinu að 100 ár eru liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar.

Af sama tilefni fylgdi veglegt sérblað með Morgunblaðinu í dag, tileinkað minningu Bjarna.

Það þarf kunnara en frá þurfi að segja að Bjarni Benediktsson var einhver merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar.  Glæsilegur stjórnmálaferill hans er besta sönnun þess, en á ferli sínum gengdi Bjarni Benediktsson embætti borgarstjóra í Reykjavík og gengdi embætti ráðherra í rúma tvo áratugi, lengst allra.  Kom Bjarni víða við og var til að mynda dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra, en því embætti gengdi hann til dauðadags, ásamt því að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum.  Þar fyrir utan var Bjarni Benediktsson skipaður prófessor við lagadeild Háskóla Íslands árið 1932, einungis 24 ára að aldri, en aldrei hefur nokkur maður fyrr eða síðar verið skipaður í prófessorsembætti við lagadeild svo ungur að árum og er raunar óhætt að slá því föstu að met Bjarna Benediktssonar verði ekki slegið í komandi framtíð.

Þeir sem þekktu til Bjarna Benediktssonar eru sammála um að hann hafi verið afburðamaður.  Sjálfur hitti ég hann aldrei, enda var ég ekki fæddur þegar hann lést.  Hins vegar hef ég lesið og kynnt mér fræðirit í lögfræði eftir Bjarna, greinar sem hann skrifaði og ræður sem hann hélt á Alþingi og víðar.  Þær bera þess öll merki að Bjarni hafi borið af á sínu sviði.

Við athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu í dag, sem Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins stjórnaði að miklum myndarskap, voru veittir styrkir til fræðimanna úr rannsóknarsjóði kenndum við Bjarna Benediktsson, en jafnframt fluttu þau Jónas Haralz, fyrrverandi bankastjóri, dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, og Ragna Árnadóttir, settur ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fróðleg erindi.

Ekki síst var erindi dr. Þórs Whitehead athyglisvert því í erindi sínu varpaði prófessorinn nýju ljósi á hernámsandstæðinginn Bjarna Benediktsson, þá borgarstjóra í Reykjavík, og baráttu hans gegn uppbyggingu breska hernámsliðsins á flugvelli í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Vonandi mun dr. Þór Whitehead birta erindi sitt opinberlega, enda er það sérlega fróðlegt fyrir þá sem láta sig málefni flugvallarins í Vatnsmýrinni varða.

Við athöfnina opnaði Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri Reykjavíkur, nýja vefsíðu, www.bjarnibenediktsson.is, sem tileinkuð er ævi og störfum Bjarna Benediktssonar.  Full ástæða er til að hvetja fólk til þess að heimsækja vefsíðuna enda hefur hún að geyma gríðarlega mikinn fróðleik um lífshlaup og ævistörf þessa merka stjórnmálamanns.

Það var vel til fundið hjá þeim sem að þessari minningarathöfn stóðu og við hæfi að minnast 100 ára fæðingarafmælis Bjarna Benediktssonar með þeim myndarskap sem gert var í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Sigurður Kári.


Fjölbreytni og valfrelsi lykilorðin í breytingum á menntakerfinu

mynd%20af%20melaskoliÞað er óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan í menntamálum á Íslandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, lagði í vetur fram fjögur efnismikil og merkileg frumvörp sem nú eru til meðferðar hjá menntamálanefnd Alþingis.

Frumvörp menntamálaráðherra fela í sér heildarendurskoðun á lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla auk þess sem stefnt er að því að lengja og efla menntun kennara á öllum þessum skólastigum þannig að kennaramenntun á Íslandi verði sambærileg að lengd og innihaldi og í nágrannalöndum okkar.

Metnaðarfull markmið

Allar þær breytingar sem frumvörpin mæla fyrir um miða að því að styrkja menntakerfið til framtíðar með það að markmiði að bjóða börnunum okkar upp á menntun og þjónustu sem stenst fyllilega samanburð við það besta sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessi markmið eru auðvitað háleit og metnaðarfull enda eiga þau að vera það. Við Íslendingar eigum ekki að sætta okkur við að vera eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að menntun barna okkar. Öflugt skólakerfi og framsækið skólastarf mun skila sér margfalt til samfélagsins alls þegar fram í sækir.

Fjölbreytni og valfrelsi lykilorðin

Fyrir um áratug gerði nefnd um mótun menntastefnu sem þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, skipaði framsæknar tillögur um breytingar á íslenska skólakerfinu. Tillögurnar höfðu það meðal annars að markmiði, að minnka miðstýringu og auka frelsi í menntakerfinu. Með þeim frumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi er gengið enn lengra en áður í þá átt að draga úr miðstýringunni og auka frelsið. Meira vald verður fært til skólanna sjálfra og þeim veitt meira sjálfdæmi um það námsframboð sem þeir munu hafa upp á að bjóða. Nemendur munu einnig hafa meira um eigin námsframvindu að segja, einkum á framhaldsskólastiginu. Þá verður einkaaðilum gert auðveldara en áður að láta að sér kveða og koma að skólastarfi sem er tvímælalaust af hinu góða. Fjölbreytni og valfrelsi eru þar lykilorðin.

Samfella í skólastarfi

En það eru fleiri merkilegar breytingar í farvatninu. Með frumvörpum verður tryggð samfella í skólastarfinu milli allra skólastiga. Þær breytingar eru mjög spennandi og í raun má segja að þeir múrar sem verið hafa milli einstakra skólastiga verði nú brotnir niður. Nemendur fá því aukin tækifæri til þess að færa sig á milli skólastiga standi áhugi þeirra og geta til þess. Að sama skapi munu kennarar fá aukin tækifæri til þess að starfa á mismunandi skólastigum. Þannig verður leikskólakennurum gert kleift að kenna í neðstu bekkjum grunnskólans, grunnskólakennurum að kenna í fyrstu bekkjum framhaldsskólans og öfugt. Allt skapar þetta ný og spennandi tækifæri fyrir nemendur og kennara.

Verk- og starfsnám jafnsett bóknámi

Picto_hermann-gmeiner-skoliÞá er ástæða til að geta þess sérstaklega að með þeim breytingum sem frumvörpin mæla fyrir um er að því stefnt að styrkja og efla verk- og starfsnám innan skólakerfisins. Um langt árabil hefur verið undan því kvartað að verk- og starfsnám hafi verið sett skör lægra í íslenska menntakerfinu en bóknámið. Ég tel að sú gagnrýni eigi á margan hátt rétt á sér. Á hinn bóginn tel ég að staða verk- og starfsnáms í menntakerfinu sé ekki einungis á ábyrgð stjórnvalda. Einhverra hluta vegna hafa þau viðhorf orðið ofan á í okkar samfélagi á undanförnum árum að æskilegra sé fyrir ungt fólk að stunda bóknám en verk- og starfsnám. Þau viðhorf byggja að mínu mati á misskilningi. Verk- og starfsnám getur verið kjörinn vettvangur fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl í atvinnulífinu og taka að sér vel launuð og krefjandi störf. Í því sambandi er líka mikilvægt að hafa í huga að það hentar ekki öllum að stunda bóknám. Fjöldinn allur af nemendum finnur kröftum sínum meiri og betri farveg í verk- og starfsnámi og á þar fremur heima en í bóknámsskólunum. Því er mikilvægt að þessum hópi nemenda verði boðið upp á raunverulegan og eftirsóknarverðan valkost til hliðar við bóknámið. Þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar eru að mínu mati mikill hvalreki á fjörur þessa hóps, því eitt af meginmarkmiðum þeirra er að styrkja og efla verk- og starfsnám í íslenska menntakerfinu og gera það jafnsett bóknámi til stúdentsprófs.

Slík breyting er jákvæð og nauðsynleg. Hún veitir ungu fólki frekara tækifæri til þess að finna hæfileikum sínum farveg til framtíðar, vinnur gegn brottfalli nemenda úr skóla og gerir okkar góða menntakerfi fjölbreyttara en það er nú.

Kristilegt siðgæði

Það álitaefni sem hvað mest hefur farið fyrir í opinberri umræðu um frumvörp menntamálaráðherra er það hvort ástæða sé til að gera breytingar á markmiðsákvæðum núgildandi laga um leikskóla og grunnskóla sem mæla fyrir um að starfshættir skóla eigi að byggjast á kristilegu siðgæði eða ekki. Um þá breytingu eru skiptar skoðanir. Þeir sem telja að í lögum skuli kveðið á um að starfshættir skóla eigi að byggjast á kristilegu siðgæði segja að þar sem menning okkar Íslendinga og saga síðustu þúsund árin sé svo samofin kristinni trú og þeim gildum sem hún byggir á þá sé eðlilegt að þess sé getið í lögum að skólastarf skuli taka mið af þeirri staðreynd. Þeir sem mæla slíku ákvæði í mót telja að slík lagaákvæði kunni að fela í sér mismunun gagnvart þeim nemendum sem tilheyra öðrum trúarhópum en kristnum og til þeirra þurfi að taka tillit. Við sem nú erum að vinna að þessum málum í menntamálanefnd Alþingis þurfum að taka afstöðu til þessa álitaefnis. Það er auðvitað ekki einfalt, en undan því verður ekki komist.

Til mikilla heilla

Í pistli eins og þessum er auðvitað ekki hægt að gera nákvæma grein fyrir öllum þeim breytingum sem frumvörp menntamálaráðherra mæla fyrir um og öllum þeim áhugaverðu álitaefnum sem við sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis erum að kljást við þessa dagana.

Hver sem niðurstaða þeirrar vinnu verður er í mínum huga ljóst að verði frumvörpin samþykkt í vor sem lög frá Alþingi eru spennandi tímar framundan í íslenskum menntamálum þar sem áhersla verður lögð á aukin tækifæri, fjölbreytni, valfrelsi og gæði nemenda í skólunum okkar. Og ég er ekki í vafa um að nýtt fyrirkomulag löggjafar um skólana okkar munu verða skólakerfinu okkar, nemendum, kennurum, öðru starfsfólki og samfélaginu öllu til mikilla heilla.

Sigurður Kári.


Landspítalinn ohf.?

getfileEins og fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins telur Björn Zoëga, starfandi forstjóri Landspítalans, vel koma til greina að gera spítalann að opinberu hlutafélagi.  Hann segir til greina koma að einfalda stjórnun spítalans, hvort sem það verði gert með því að breyta lögum eða rekstrarformi hans.

Þá kom fram í sömu frétt að formaður nefndar um Landspítalann, Vilhjálmur Egilsson, telur að slíkt rekstrarform geti aukið sveigjanleika í rekstri spítalans.  Vilji sé til þess innan spítalans að ráðast í slíkar breytingar og að reynsla Norðmanna af slíku rekstrarformi sé góð.

Þessar hugmyndir eru mjög athyglisverðar.

Þær hljóta að koma til alvarlegrar skoðunar enda eru þær settar fram af mönnum sem eru gjörkunnugir rekstri spítalans og starfsemi, ekki síst ef þær eru til þess fallnar að auka sveigjanleika í rekstri hans til hins betra.

Það verður fróðlegt að heyra hvaða einkunn slíkar hugmyndir fá hjá stjórnmálamönnum á vinstri vængnum.

Hvað ætli til dæmis Ögmundi Jónassyni finnist um slíkar hugmyndir?

Sigurður Kári.


Merkileg ,,frétt"

5fce5b92-9baa-4e34-9fe8-0230200b2c7bÉg rak upp stór augu í gærkvöldi þegar ég fylgdist með fréttatíma Stöðvar 2.  Þar var flutt ,,frétt" sem var nokkuð óvenjuleg og ólík þeim fréttum sem ég hef áður séð í íslenskum fjölmiðlum, og tel ég mig fylgjast býsna vel með fréttaflutningi hér á landi.

Í upphafi fréttarinnar las hin geðþekka fréttakona, Edda Andrésdóttir, upp eftirfarandi yfirlýsingu:

,,Nú eru 45 dagar eftir af vorþingi og jafn langur tími fyrir þingmenn til þess að breyta lögum um lífeyrisréttindi ráðamanna.  Við minnum nú í þriðja sinn á kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar."

Í kjölfarið var síðan birtur bútur úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem líklega var haldin á landsfundi flokksins, undir fyrirsögninni ,,45 dagar til þinghlés", þar sem hún lýsti afstöðu sinni til málsins.

Það er athyglisvert að fréttastofa sjái ástæðu til að minna með þeim hætti sem gert var á kosningaloforð eins stjórnmálaflokks og það ekki einu sinni, heldur þrisvar!  Og það án þess að rætt sé við neinn af forsvarsmönnum Samfylkingarinnar um málið.  Hugsanlega var óskað eftir viðbrögðum þeirra við fréttinni, án árangurs, en það kom að minnsta kosti ekki fram í fréttinni.

Að minnsta kosti veltir maður því fyrir sér hvað veldur því að fréttastofa Stöðvar 2 sýni þessu máli, umfram önnur, svo mikinn áhuga og reyni að setja þrýsting með þessum hætti á einn stjórnmálaflokk.

Ég man ekki eftir því að slíkt hafi verið gert áður.

x x x

Eins og kunnugt er liggur nú fyrir Alþingi frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, til breytinga á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið með flutningi frumvarpsins sé að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi og að lífeyriskjör þessara hópa verði færð til þess vegar sem nú gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Athygli vekur auðvitað að frumvarpið gerir ráð fyrir að lífeyriskjörum forseta Íslands verði ekki breytt og að sá einstaklingur sem því embætti gegnir búi við sérstök forréttindi í þessum efnum.

Í þessu sambandi er rétt að taka það fram að starfsmenn ríkisins njóta forréttinda umfram starfsmenn á almennum markaði þegar kemur að lífeyrisréttindum.  Almennt búa ríkisstarfsmenn við ríkari og betri lífeyrisréttindi en launþegar á almennum vinnumarkaði. 

Í umræðum um frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur hef ég varpað fram eftirfarandi spurningum:

Vilji menn á annað borð breyta lífeyrisréttindum ríkisstarfsmanna með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um, jafna kjör og berjast gegn forréttindum hvers konar, er þá ekki ástæða til þess að láta slíkar breytingar ganga yfir alla ríkisstarfsmenn?

Er ástæða til þess að undanskilja forseta Íslands í þeim efnum?

Og væri ekki skynsamlegra, í ljósi þeirra markmiða sem að er stefnt með frumvarpinu, að mæla fyrir um að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna yrðu færð til jafns við þau lífeyrisréttindi sem launþegum eru almennt tryggð á almennum vinnumarkaði þannig að allir myndu sitja við sama borð?

Þau svör sem ég hef fengið við þessum spurningum hafa fram til þessa verið vægast sagt afar loðin.

Sigurður Kári.


Skólagjöld á háskólastigi?

hi5Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um opinbera háskóla.  Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að ríkisháskólum verði heimilað að innheimta skólagjöld af nemendum sínum.

Á forsíðu Fréttablaðsins á sunnudag er eftir mér haft að það sé aðeins tímaspursmál hvenær opinberum háskólum verði veitt heimild til að innheimta skólagjöld og lýsti ég í viðtali við blaðið þeirri skoðun minni að stjórnarflokkarnir þyrftu að taka afstöðu til þess hvort veita ætti opinberu háskólunum heimildina og að ég skynjaði það að sjónarmið um að veita slíka heimild væri farið að njóta sífellt meiri stuðnings hjá samstarfsflokki okkar í ríkisstjórn, Samfylkingunni.

Í sömu frétt er viðtal við Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, sem fagnar því að þessi fari fram og eftir henni haft að það sé alveg ljóst að núverandi fyrirkomulag skerði samkeppnisstöðu Háskóla Íslands því aðrir skólar hafi heimildir til þess að innheimta skólagjöld til viðbótar við framlög ríkisins og þá stöðu þurfi að ræða.

Í pistli á leiðarasíðu Fréttablaðsins í dag segir að eflaust hafi farið um margan vinstrimanninn þegar ég lýsti þeirri skoðun minni á forsíðufréttinni á sunnudag að hugmyndir um skólagjöld í opinberum háskólum nytu sífellt meiri stuðnings innan samstarfsflokksins.  Greinir höfundur pistilsins frá því að Guðbjartur Hannesson, leiðtogi Samfylkingarinnar og nefndarmaður í menntamálanefnd, hafi sett sig í samband við Fréttablaðið til þess að árétta að Samfylkingin hefði ekki breytt afstöðu sinni til málsins.  Samfylkingin væri ekki hlynnt upptöku skólagjalda í opinberum háskólum.

Áður en lengra er haldið er rétt að árétta sérstaklega að Háskóli Íslands innheimtir í dag skólagjöld á einstökum námsleiðum, þrátt fyrir að almenna heimild til gjaldtökunnar sé ekki að finna í núgildandi löggjöf.  Til að mynda innheimtir skólinn skólagjöld af þeim sem nú stunda MBA-nám við skólann, en við þá gjaldtöku styðst skólinn við heimild sem honum er veitt til slíkrar gjaldtöku vegna endurmenntunarnámskeiða sem skólinn stendur fyrir.  Deila má um hversu eðlileg sú leið við innheimtu skólagjalda er, en hún er engu að síður staðreynd í framkvæmd.  Ég hef ekki orðið var við að sú gjaldtaka hafi kallað á hávær mótmæli.

Þá er rétt að geta þess einnig að forsvarsmenn Háskóla Íslands hafa margsinnis kallað eftir heimild skólans til innheimtu skólagjalda.  Nægir þar að nefna að fyrrum forsetar viðskipta- og hagfræðideildar og lagadeildar hafa opinberlega kallað eftir því að þessum deildum verði gert heimild að innheimta skólagjöld, a.m.k. vegna framhaldsnáms við deildirnar.

Ég hef aldrei verið hræddur við að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að löggjafinn eigi að veita opinberu háskólunum, þar á meðal Háskóla Íslands, að innheimta skólagjöld.  Það verði síðan ákvörðun skólans sjálfs að ákveða hvort það verði gert og hversu há skólagjöldin þurfi að vera.  Hlutverk ríkisins yrði síðan að tryggja nemendum aðgang að lánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til að mæta gjaldtökunni.

Eins og kunnugt er kynnti núverandi rektor Háskóla Íslands, skömmu eftir rektorskjör, það markmið sitt að koma Háskóla Íslands í hóp 100 bestu háskóla heimsins.  Þessi markmið eru háleit og á þeim fjölmörgu fundum sem um þessi markmið hefur verið rætt hef ég ekki orðið var við annað en að allir sem láta sig málefni Háskóla Íslands varða styðji áform rektors, hvort sem um er að ræða kennara, nemendur eða stjórnmálamenn.

Ég hef margoft sagt þá skiptir mestu fyrir Háskóla Íslands, ætli hann sér að ná því háleita markmiði sem að er stefnt, að tryggt verði að skólinn sitji við sama borð á öllum sviðum og þeir skólar sem hann sjálfur kýs að bera sig saman við.  Þar er tekjuöflunarsviðið ekki undanskilið.

Langflestir þeirra háskóla sem teljast til þeirra 100 bestu í heiminum í dag innheimta skólagjöld af nemendum sínum og nýta þau gjöld til kennslu, rannsókna og uppbyggingar að öðru leyti í skólastarfinu.  Maður hlýtur því að spyrja þá sem vilja styrkja og efla Háskóla Íslands hvers vegna skólinn ætti ekki að sitja við sama borð og aðrir skólar að þessu leyti?

Meini menn eitthvað með stuðningi sínum við áform Háskóla Íslands um að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi verða menn að nálgast umræðuna um upptöku skólagjalda fordómalaust og með hagsmuni skólans til framtíðar.  Það kann að vera erfitt á stundum, ekki síst fyrir stjórnmálamenn og hagsmunasamtök þeirra stúdenta sem nú stunda nám við skólann, enda sjaldan til vinsælda fallið að mæla fyrir aukinni gjaldtöku.  En í ljósi þeirra áforma sem Háskóli Íslands hefur kynnt og allir vilja styðja, er nauðsynlegt að nálgast viðfangsefnið með þessum hætti með uppbyggingu og eflingu skólans til framtíðar í huga.

En það er ástæða til að huga að fleiri atriðum í tengslum við umræðu um upptöku skólagjalda við opinbera háskóla.

Góð menntun er vissulega til hagbóta fyrir samfélagið allt, enda leggur ríkið gríðarlega fjármuni til menntakerfisins til þess að tryggja sem mest og best framboð og gæði þeirrar menntunar sem boðið er upp á í skólakerfinu.  Það er gert í þeirri trú að fjárfesting í menntun skili sér margfalt til samfélagsins.  Hins vegar má ekki líta framhjá því að arðsemi menntunar skilar sér fyrst og fremst til þess sem aflar sér hennar.  Í menntun felst fjárfesting til framtíðar fyrir þann sem aflar sér menntunarinnar.  Með henni eykur nemandinn möguleika sína á vinnumarkaði og í flestum tilvikum felur meiri menntun í sér aukna möguleika á hærri atvinnutekjum til frambúðar.  Um það held ég að ekki þurfi að deila.

En þá vaknar sú spurning hvort ekki sé eðlilegt að sá sem aflar sér menntunar leggi meira af mörkum við fjármögnun sinnar eigin menntunar en aðrir?  Er það ekki eðlileg krafa?

Þá má halda því fram að innheimta skólagjalda auki skilvirkni í skólakerfinu.  Með innheimtu skólagjalda fá nemendur meiri tilfinningu fyrir þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar menntunar sem þeir sækja sér, auk þess sem gjaldtakan hvetur til þess að nemendur ljúki námi sínu á tilsettum tíma.

Eins og áður segir lýsti ég þeirri skoðun minni að þau sjónarmið sem ég hef hér farið yfir njóti nú meiri skilnings hjá samstarfsflokki okkar sjálfstæðismanna í ríkisstjórn en áður.  Með því er ég ekki að segja að stefna Samfylkingarinnar hafi breyst.  Ég er einungis að lýsa þeirri tilfinningu minni að þessi sjónarmið falli nú í mýkri jarðveg hjá Samfylkingunni en áður.

Vegna athugasemda Guðbjarts Hannessonar, félaga míns í menntamálanefnd Alþingis, í Fréttablaðinu, er ástæða að taka fram að það er ekki nýtt að forsvarsmenn Samfylkingarinnar tali fyrir skólagjöldum á háskólastigi.

c_imba_136106Þann 15. október 2004 birtist viðtal í Viðskiptablaðinu við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar.  Í viðtalinu var Ingibjörg Sólrún spurð um afstöðu hennar til innheimtu skólagjalda á háskólastigi og í svari hennar kom eftirfarandi meðal annars fram:

,,Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita.  Það skiptir auðvitað verulegu máli hvernig þau eru lögð á, t.d. hvort það yrði á allt háskólastigið eða einvörðungu framhaldsnám.  Það er líka verulegur munur á aðstæðum eftir háskólagreinum, en ég sé engin sanngirnisrök fyrir því að fólk borgi verulegar fjárhæðir fyrir fullorðinsfræðslu og fyrir börn á leikskólum en ekkert fyrir aðgang að háskólum."

Ég fæ ekki betur séð en að í þessum orðum felist nokkur skilningur á þeim sjónarmiðum sem ég hef hér mælt fyrir og tek undir orð Ingibjargar Sólrúnar frá árinu 2004.  Og ég finn ekki annað en að frá þeim tíma er viðtalið var tekið hafi skilningur á skólagjöldum á háskólastigi aukist innan Samfylkingarinnar.

Sigurður Kári.


Á Hólum í Hjaltadal

2004_0828_130003AA_aj.thumbÍ gær fór ég norður í land og heimsótti Hóla í Hjaltadal ásamt nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, skipaði í vetur.  Nefndin hefur það hlutverk að gera tillögur um gera tillögur um framtíðaruppbyggingu Háskólans á Hólum.

Með mér í för voru aðrir nefndarmenn, þau Guðfinna S. Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, varaþingmaður sama flokks, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í Menntamálaráðuneytinu, sem er formaður nefndarinnar.

Hólaskóli starfar á háskólastigi og sérstaða hans er afar mikil.  Þar er nemendum boðið upp á nám í hrossa hestadeild, leggja nemendur stund á nám í fiskeldi og fiskeldislíffræði, ferðamálafræðum og hrossarækt og reiðmennsku.

Sérstaka Hólaskóla felst ekki síður í landræðilegri staðsetningu hans og tenglum hans við menningu og sögu þjóðarinnar.  Á Hólum er náttúrufegurð mikil og segja fróðir menn að þar sé skjólbesta bæjarstæði landsins.  Saga staðarins er auðvitað stórmerk.  Stofnað var til biskupsstóls og skóla á Hólum árið 1106, eða fyrir rúmlega 900 árum.  Á þeim tíma hafa mörg af helstu stórmennum Íslandsögunnar komið við sögu á staðnum, svo sem Jón Arason, Guðmundur Góði Arason, Arngrímur lærði og Guðbrandur Þorláksson biskup, svo fáeinir séu nefndir.  Það má því segja að maður feti í fótspor helstu sögupersóna íslenskrar sögu þegar komið er að Hólum.

Að lokinni heimsókn í skólann, hina glæsilegu kikju staðarins, Auðunarstofu og fleiri staði á Hólum héldum við til Sauðárkróks og kynntum okkur starfsemi skólans þar í bæ, ásamt því að hitta framámenn í atvinnu- og stjórnmálalífi Skagafjarðar.

Eins og áður segir er vegni nefndinnar að gera tillögur um framtíðaruppbyggingu Háskólans á Hólum.  Það verkefni er spennandi og krefjandi, en ég hef fulla trú á því að vel takist til, enda framtíðartækifæri hans mikil og góð.  Enda til mikils að vinna þar sem Hólar í Hjaltadal er einn helsti sögustaður íslensku þjóðarinnar og mikilvægt fyrir menningu okkar og sögu sem full ástæða er til að sýndur verði mikill sómi.

Sigurður Kári.


Tjáningarfrelsi á Ólympíuleikunum skert

olympicÞessi frétt var flutt í fréttum Ríkisútvarpsins í dag:

,,Jacques Rogge, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, tilkynnti í dag að allir þeir íþróttamenn sem keppa á Ólympíuleikunum í Peking í sumar muni þurfa að fylgja einskonar leiðarvísi um hvað þeir megi segja opinberlega og hvað ekki.

Þetta segir Rogge nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að leikarnir dragist enn frekar inn í þann pólitíska óróa sem umlykið hefur Kína og stefnu stjórnvalda undanfarið. Rogge sagði jafnframt að ekki væri verið að hefta tjáningarfrelsi íþróttamanna, þeir mættu segja það sem þeir vildu, svo lengi sem það væri ekki áróður."

Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, og ætlast til þess að nokkur trúi því, að áform Alþjóða Ólympíunefndarinnar um að stjórna því hvað keppendur á Ólympíuleikunum í Peking í sumar segja opinberlega og hvað ekki feli ekki í sér skerðingu á tjáningarfrelsi.

Það sjá allir.

Ég hef fullan skilning á því að forsvarsmenn Alþjóða Ólympíunefndarinnar vilji að leikarnir fari vel fram.

En er ekki full langt gengið að ætla að stjórna því hvað þátttakendur á Ólympíuleikunum segja opinberlega og hvað ekki?

Er ekki frekar bitamunur en fjár á slíkum reglum og þeim sem kínversk stjórnvöld hafa beitt almenning þar í landi um áratugaskeið til þess að kveða niður gagnrýni á stjórnarhætti í landinu?

Er ekki full langt gengið í undirlægjuhætti ólympíuhreyfingarinnar gagnvart stjórnvöldum í Peking að ætla að hefta tjáningarfrelsi fólks sem keppir á leikunum?

Það finnst mér.

En ekki vissi ég að Alþjóða Ólympíunefndin teldi að með þátttöku á Ólympíuleikunum afsöluðu keppendur sér mannréttindum sínum.

Sigurður Kári.


Al Gore

Í morgun sótti ég fyrirlestur Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, um hlýnun jarðar í Háskólabíói.

Umgjörð fyrirlestrarins var öll hin glæsilegasta og skipuleggjendum, Glitni og Háskóla Íslands, til mikils sóma.

x x x

Það má Al Gore eiga að hann er góður fyrirlesari.  Hann kann svo sannarlega að koma fyrir sig orði og setur skoðanir sínar fram á áhrifaríkan með aðstoð nýjustu tölvutækni frá Apple tölvufyrirtækinu, sem Gore situr í stjórn hjá, eins og hann kom rækilega á framfæri í fyrirlestri sínum.

x x x

Fyrirlestur Gore byggði í öllum meginatriðum á skoðunum sem hann setur fram í mynd sinni ,,An Inconvenient Truth", þó svo að fyrirlesturinn hafi tekið einhverjum breytingum, til dæmis varðandi spár hans um breytingu á hafstraumum, þar á meðal Golfstraumnum.  Hann studdist hann við sömu brandarana og hann notar í myndinni.  En þar sem þeir voru góðir og krydduðu fyrirlesturinn og gæddu hann lífi er engin ástæða til að gera athugasemd við það.

Í stuttu máli má segja að sú mynd sem Al Gore dró upp af stöðu umhverfismála á jörðinni sé afar dökk, svo ekki sé meira sagt, þó hann telji að enn sé ekki of seint að bregðast við þeirri vá sem hann telur steðja að jarðarbúum með hlýnandi loftslagi, bráðnun jökla, breyttu dýralífi, útbreiðslu sjúkdóma og svo mætti lengi telja.  Og ég heyrði ekki betur en að Ólafur Ragnar Grímsson, stórvinur Gore, hafi tekið undir skoðanir hans í upphafsávarpi sínu.

x x x

Sá málstaður sem Al Gore heldur fram í fyrirlestri sínum er auðvitað göfugur, en hann felur í sér áskorun um að stjórnvöld og einstaklingar gangi betur um Jörðina, grípi til aðgerða til þess að bjarga henni frá ofhlýnun, sem hann telur vera á næsta leiti, og þeim náttúruhamförum sem fylgja munu í kjölfarið.

x x x

Auðvitað hljóta allir að taka undir það með Al Gore að mannkynið á að ganga vel um Jörðina og gera sem minnst til þess að spilla henni.

En þó svo að málstaður Gore sé göfugur og settur fram með áhrifaríkum hætti er ég þeirrar skoðunar að taka beri ýmsu af því sem þar kemur fram með fyrirvörum.  Gore er auðvitað stjórnmálamaður og í pólitík.  Hann notar sterk lýsingarorð til að styðja málsstað sinn, hugsanlega sterkari en alltaf er innistæða fyrir, og beitir alhæfingum sem sýnt hefur verið fram á að standist ekki allar skoðun.  Samt sem áður hefur hann á stundum verið tregur til að draga þær til baka.

x x x

Þegar ég hlustaði á Al Gore flytja fyrirlestur sinn staðnæmdist ég við eitt grundvallaratriði sem hann hélt fyrirvaralaust fram.  Hann sagði að jörðin væri að hlýna og að hlýnunin væri hröð.  Maðurinn bæri þar ábyrgð.  Um það væru allir vísindamenn sammála og því óþarfi að ræða málið frekar eða gera um það ágreining.

Þetta er alhæfing sem ástæða er til að gera alvarlegar athugasemdir við.  Ég trúi því að minnsta kosti ekki að Háskóli Íslands, einn aðstandenda fyrirlestrarins, geti tekið undir slíka alhæfingu.

Eitt heilagasta hlutverk háskóla og fræðimanna sem þar starfa er að setja fram kenningar sem meðal annars fela í sér gagnrýni á viðteknar skoðanir í hverju samfélagi.  Rannsóknir og fræðastörf í háskólum ganga síðan út á að rökstyðja þá gagnrýni og sýna fram á réttmæti þeirra.  Það má halda því fram með býsna góðum rökum að hefðu fræðimenn á öllum tímum ekki sett fram slíka gagnrýni, gert ágreining um viðteknar skoðanir og byggt á þeim kenningar þá hefðu framfarir í heiminum verið heldur minni en raunin hefur orðið.

Kenningar Al Gore og þeirra vísindamanna sem hann byggir málflutning sinn á eru ekki yfir gagnrýni hafnar.  Þær byggja á vísindum sem eru flókin og oft á tíðum ónákvæm.  Og þær ber að ræða eins og hver önnur mál.  Þess vegna finnst mér ástæða til að gera athugasemdir við viðhorf Al Gore til slíkrar gagnrýni á þær kenningar sem hann setti fram í fyrirlestri sínum.

x x x

Að lokum vil ég nefna að þó svo að framsetning Al Gore á kenningum sínum um hlýnun jarðar hafi verið áhrifaríkar í Háskólabíói í dag, þá er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort þær séu réttar, enda held ég að almennt finni fólk ekki fyrir þessum hitabreytingum á eigin skinni í sínu daglega lífi.

Sem dæmi um þetta má nefna að janúarmánuður þessa árs var sá kaldasti á Grænlandi í 20 ár.

Um daginn voru sagðar fréttir af gríðarlegu fannfergi í héruðum Þýskalands þar sem undir venjulegum kringumstæðum væri farið að vora.

Snjóþyngsli hér á Íslandi þennan veturinn hafa verið með mesta móti.  Öll skíðasvæði standa landsmönnum opin og Austfirðingar eru meira að segja farnir að kvarta undan of miklum snjó.

Ég var sjálfur í París nú um helgina og þar sjóaði á sunnudaginn.

Og er það ekki kaldhæðni örlaganna að nú að kvöldi þess dags sem Al Gore hélt fyrirlestur sinn um hlýnun jarðar í Háskólabíói snjóar sem aldrei fyrr hér í Vesturbænum?

Og það þrátt fyrir að það sé kominn 8. apríl!

Sigurður Kári.


Málfrelsi dómara

haestiretturÞað er auðvitað sjálfsagt að dómarar tjái sig í meira mæli um lögfræðileg álitaefni á opinberum vettvangi en þeir hafa gert fram til þessa.  Slíkt er nauðsynlegt til þess að almenningur fái betri skilning og innsýn í störf dómara og skilji betur hvaða viðhorf liggja að baki þeim niðurstöðum sem þeir komast að í sínum mikilvægu störfum.

Í Fréttablaðinu í dag koma þau viðhorf sem ég hef hér lýst fram í merkilegu viðtali við Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómara, viðhorf sem ég tel fulla ástæðu til að taka undir.

Í viðtalinu kemur einnig fram sú skoðun hæstaréttardómarans að það sé sjálfsagður hlutur að almenningur þekki til þeirra sem með dómsvaldið fara og viti hvaða grundvallarhugmyndir þeir hafa um starfið sem þeir sinna.  Þetta er auðvitað laukrétt hjá Jóni Steinari.  Má raunar taka dýpra í árinni en hæstaréttardómarinn gerir og halda því fram að það geti beinlínis verið nauðsynlegt að slíkar grundvallarhugmyndir dómara liggi fyrir, enda er hlutverk þeirra mikilvægt í okkar stjórnskipun.

Eins og fram kemur í viðtalinu þá hefur þeirri hefð verið fylgt um langt skeið að dómarar taki ekki þátt í opinberri umræðu um lögfræðileg álitamál.  Hefur verið talið að þögnin og fjarlægðin skapi dómstólunum og þeim sem þar starfa traust og virðingu.  Rökin fyrir þessari hefð er líklega sú að dómarar eigi að vera yfir það hafnir að vera þátttakendur í dægurþrasi og að þeir dómar sem þeir kveða upp eigi að tala sínu máli.

Vandinn er hins vegar sá að stundum gerist það að dómar eru ekki nægilega skýrir og stundum kann að vera óljóst á hvaða forsendum niðurstöður þeirra byggja.  Eins og fram kemur í viðtalinu við Jón Steinar á þetta ekki síst við þegar spurningar vakna um það hvers vegna tiltekinn brotamaður fær ekki þyngri refsingu en raun ber vitni í niðurstöðu dómstólsins og undir slíkar spurningar og vangaveltur er tekið í fjölmiðlum.

Við slíkar aðstæður er ástæða til að taka undir með hæstaréttardómaranum að ef dómarar skýra ekki niðurstöður sínar og þær forsendur sem að baki þeim liggja þá er ekki loku fyrir það skotið að slíkt leiði til þess að það traust sem almenningur ber til dómstólanna bíði hnekki, en nýleg könnun Capacent sýnir að almenningur beri lítið traust til dómstólanna.

Við þeirri stöðu þarf að bregðast og það er ástæða til að taka undir með hæstaréttardómaranum að ein leið til þess er sú að dómarar tjái sig i meira mæli um dómstörfin á opinberum vettvangi en þeir hafa gert fram til þessa.

Að minnsta kosti er vandséð hvaða hagsmunum kann að vera raskað verði það gert.

Sigurður Kári.


Um orkufrumvarpið

hrauneyjafoss_stodvarhusÁ fimmtudaginn mælti Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fyrir frumvarpi sínu um orku- og auðlindamál.

Miklu púðri hefur á síðustu vikum verið eytt í að fjalla um frumvarpið í fjölmiðlum og þá einkum um það hversu lengi frumvarpið var til meðferðar í þingflokki okkar Sjálfstæðismanna.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að frumvarp sem mælir fyrir um mikilvæg mál eins og meginreglur um meðferð og nýtingu orkuauðlinda fái vandaða meðferð í þingflokkunum áður en þau eru lögð fram á Alþingi.

Meðan málið var til meðferðar í þingflokki okkar sjálfstæðismanna lágu blaðamenn í mér og félögum mínum til þess að fá upplýsingar um það hvenær frumvarpið yrði afgreitt þaðan og hvaða efnisatriði frumvarpsins væru helst til skoðunar hjá okkur.

Að sjálfsögðu ræddum við slíkt ekki við fjölmiðla, enda er það ekki við hæfi meðan mál eru til meðferðar innan okkar raða.

Það kom mér hins vegar á óvart hversu lítið var fjallað um umræður um málið á Alþingi þegar það hafði loksins verið lagt fram, í ljósi þess áhuga sem blaðamenn höfðu á málinu meðan það var til meðferðar í þingflokknum.

Ég held að sú litla umfjöllun hafi farið framhjá flestum.

x x x

Ég tók þátt í umræðunum um frumvarpið á Alþingi á fimmtudag.  Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að koma á framfæri viðhorfum sem ég tel mikilvægt að tekin verði til skoðunar við meðferð málsins innan þingsins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að lög sem mæla fyrir um eignarhald og meðferð auðlinda varða grundvallarhagsmuni og því mikilvægt að vel sé til slíkrar löggjafar vandað.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er megintilgangur þess sá að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og að skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja.

Þegar efnisákvæði frumvarpsins eru skoðuð er ljóst að eitt að meginmarkmiðum frumvarpsins er það að banna ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem eru alfarið í eigu þeirra, að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti eignarrétt að orkuauðlindum.

x x x

Ég er þeirrar skoðunar að vilji menn á annað borð setja meginreglur um eignarhald og nýtingu auðlinda, hvers efnis sem þær kunna að vera, þá sé skynsamlegra að gera það á vettvangi stjórnarskrár og að undangenginni almennri heildstæðri umræðu og stefnumörkun til framtíðar, frekar en að binda slíkar meginreglur í almennum lögum.

Með því að nálgast slík grundvallarmál á vettvangi stjórnarskrár mótar löggjafinn framtíðarsýn sína í auðlindamálum með mun afgerandi hætti en með setningu almennra laga um eina tegund auðlinda.

Ég þarf síðan varla að árétta þá skoðun mína sem margoft hefur komið fram í þessari umræðu að ég er mótfallinn því og tel óskynsamlegt að binda í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir landsins skuli vera í þjóðareign, þ.e. í ríkiseign.

x x x

Eins og ég nefndi hér að framan þá er einn megintilgangur framvarps iðnaðarráðherra sá að banna með lögum framsal opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum.

Um það þarf ekki að deila að bann við framsali vatnsréttinda er grundvallarbreyting á núgildandi meginreglum íslensks réttar um eignarrétt á vatni.  Þegar ráðist er í slíka grundvallarbreytingu skyldi maður ætla að einhver rökbundin nauðsyn kallaði á hana.  Ég fæ ekki séð að slík nauðsyn sé til staðar.

Hefur það skapað einhver sérstök vandamál í íslensku samfélagi að unnt sé að framselja vatnsréttindi og fara með þau eftir venjulegum leikreglum eignaréttarins, eins og gert hefur verið a.m.k. síðan árið 1923, þegar vatnalögin voru sett, og raunar miklu lengur?

 Ekki fæ ég séð að svo sé.

x x x

Draga má í efa að markmið um hagkvæmustu nýtingu náist ef ekki er unnt að framselja auðlind til þess sem telur hana mest virði. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að eignarhald ríkisins tryggir ekki endilega að nýtingin verði hagkvæm. Ekki er heldur með því tryggt að verndarsjónarmið fái aukið vægi. Handhöfn ríkisins á orkulindum hingað til bendir ekki endilega til þess.  Og það þarf ekki annað en að líta til annarra landa til þess að sjá með hvaða hætti ríkisvaldið hefur umgengist þær auðlindir sem það fer með yfirráð yfir.

Það er óþarft að nefna dæmi í því sambandi.  Þau tala sjálf sínu máli.

Að auki blasir við, að til að ná þeim markmiðum, sem að baki banni við framsali kunna að búa, getur löggjafinn sett reglur um nýtingu orkulinda. Til þess þarf hvorki eignarhald hins opinbera, né bann við framsali. Það er hægt að færa fyrir því rök, að einmitt framsal hins opinbera á eignarrétti á auðlindum geri hið opinbera betur til þess fallið að setja almennar reglur um nýtingu og meðferð auðlindanna og hafa eftirlit með þeim reglum.

x x x

Þessi viðhorf rakti ég í ræðu minni á Alþingi um orkufrumvarp iðnaðarráðherra á fimmtudaginn.

Í framhaldinu gerði ég að umfjöllunarefni nokkur atriði sem þessu tengjast og koma fram í greinargerði með frumvarpinu.

Í greinargerð, á bls. 4, með frumvarpi iðnaðarráðherra segir:

 „Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland [...] Ljóst er að verðmæti og mikilvægi hreinna orkugjafa er stöðugt að aukast..."

Reynslan sýnir að einkaframtak dugar betur en opinbert við að grípa viðskiptatækifæri og til að gera mat úr verðmætum, með jákvæðum efnahagslegum afleiðingum fyrir allt samfélagið í kring. Verðmætasköpun hefur mest verið þegar einstaklingar fá að spreyta sig. Hví skyldi gilda annað um þetta svið? Ef markmiðið er að skapa sem mest verðmæti, má halda því fram með góðum rökum að efniákvæði frumvarpsins séu ekki til þess fallin að ná því markmiði.

x x x

Á bls. 5 í greinargerð með frumvarpinu má finna fullyrðingu sem hljóða svo:

„Ljóst er að miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengjast eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins"

Þessi fullyrðing er botnuð með annarri fullyrðingu sem gengur í þveröfuga átt:

 „og því er mikilvægt að þær verði áfram í samfélagslegri eigu"

Ekkert liggur fyrir um að leiðin sem farin er í frumvarpinu, sé líkleg til að ná markmiðinu. Ef til vill getur framleiga til einkaaðila til ákveðins tíma komið til móts, en hví skyldi ekki allt eins mega framselja réttindin? Auðlindirnar eru staðbundnar og verða ekki fluttar úr landi eins og bankar eða fyrirtæki og munu þar af leiðandi alltaf lúta reglum settum af Alþingi.

x x x

Á bls. 6 í greinargerðinni er rakið hvers vegna ítarlegar reglur gilda um flutning og dreifingu raforku, þ.e. til að tryggja hagsmuni neytenda annars vegar og til að tryggja jafnrétti fyrirtækja í framleiðslu og sölu hins vegar. Fyrirtækin lúta síðan eftirliti Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála eins og fram kemur í greinargerð:

En ég spyr:  Hvers vegna þurfa fyrirtækin að vera í opinberri eigu í ofanálag?

Skapar þetta ekki bara hættu á að sjónarmið neytenda og einkafyrirtækja í framleiðslu og sölu raforku verði fyrir borð borin? Til dæmis þegar ríkið situr beggja vegna borðs, annars vegar sem eigandi og hins vegar sem eftirlitsaðili. Sömuleiðis geta pólitískir hagsmunir ráðið nokkur, s.s. þegar sami stjórnmálaflokkur heldur um taumana hjá ríki og í tilteknu sveitarfélagi. Þetta er ekki ekki endilega gæfulegt til lengri tíma litið og klárlega ónauðsynlegt til að ná markmiðunum sem að er stefnt.

x x x

Veigamestu rökin gegn banni við framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttinda koma fram sjálfri greinargerðinni með frumvarpinu, en þar er vísað til álits hagfræðiprófessoranna Friðriks Más Baldurssonar og Nils-Henrik M Von der Fehr, sem iðnaðarráðuneytið leitaði sjálft til við smíði þessa frumvarps.  Í lokaorðum álits prófessoranna segir:

,,Takmörkun á eignarhaldi og framsali auðlinda takmarkar möguleikana á því hver nýtir auðlindirnar og með hvaða hætti það er gert.  Slíkar takmarkanir hafa neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni í nýtingu þeirra.  Hversu víðtæk þessi áhrif eru er háð því hvernig takmörkunum er háttað og hvort og þá hvernig unnið er gegn þessum neikvæðum áhrifum með ákvæðum og samningum um bætur með reglusetningu um umgengni um auðlindirnar.  Þessi niðurstaða felur ekki í sér gagnrýni á ætlaða lagasetningu, en hún þýðir að stjórnvöld verða að huga vandlega að því hvernig hægt er að lágmarka hugsanlegan kostnað sem af henni hlýst.

 Líklegt er að setja þurfi nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerðir og að leggja þurfi í aðrar aðgerðir til að lögin nái markmiði sínu að fullu. Meðal þess sem líklegt er að skoða þurfi í framhaldinu eru eftirfarandi atriði:

    -      Skipan eignarhalds á orkuauðlindum í eigu ríkis og sveitarfélaga, þ.m.t. hvort það er eftirsóknarvert eða nauðsynlegt að breyta þessari skipan, t.d. með því að færa eignarréttindi að öllu leyti eða hluta til sérstaks eignarhaldsfélags

    -      Reglur um það hvernig ráðstafa á afnotarétti þannig að gætt sé jafnræðis. Hér er hugsanlegt að gera megi greinarmun á þeim auðlindum sem þegar eru nýttar og hinum sem ekki hafa verið nýttar til orkuvinnslu

    -      Ákvæði leigusamninga, m.a. með það að markmiði að leysa úr skorti á hvötum til fjárfestinga sem skapast undir lok leigutíma og til að stuðla að sjálfbærri nýtingu

    -      Leiga og skipting hennar milli umsaminna fjárhæða annars vegar og tekju- eða magntengdra greiðslna hins vegar

    -      Lengd leigutíma, m.a. hvort lengdin skuli vera mismunandi eftir tegund auðlindar, þess hvort auðlindin hafi þegar verið nýtt o.s.frv

    -      Réttur til endurnýjunar á nýtingarheimild; hvort veita eigi slíkan rétt og þá með hvaða skilyrðum. Jafnframt hvernig eigi að bæta eigandanum þá fastafjármuni sem hann glatar ef nýtingarheimild er ekki endurnýjuð."

Í ljósi þessa álits prófessoranna tveggja hljóta menn að velta því fyrir sér hvers vegna ástæða sé til þess að setja löggjöf um meðferð auðlinda sem augljóslega hefur í för með sér neikvæðar efnahagslegar afleiðingar og óhagkvæma nýtingu þeirra?

Og þetta álit prófessoranna má síðan setja í samhengi við það sem segir á bls. 4 í greinargerð frumvarpsins og ég rakti var hér að framan þar sem segir:

,,Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland."

Þetta eru auðvitað lykilspurningar sem þingmenn allra stjórnmálaflokka þurfa að taka afstöðu til við vinnslu og meðferð málsins á Alþingi.

x x x

Í framhjáhlaupi er síðan ástæðu til þess að nefna sérstaklega, í ljósi þeirrar miklu áherslu sem lögð er á það í frumvarpinu að banna framsal opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum sínum, að frumvarpið gerir engu að síður ráð fyrir að að fulltrúum ríkis og sveitarfélaga er engu að síður heimilað að framelja þessar auðlindir sín á milli.

Það er auðvitað dálítið sérstök hugmyndafræði að heimila einungis fulltrúum ríkisins og sveitarstjórnarmönnum að stunda slík viðskipti, en útiloka einstaklinga og einkaaðila til að gera slíkt hið sama.

x x x

Í ræðu minni um þetta frumvarp vék ég sérstaklega að málefnum sveitarfélaga.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er sveitarfélögum bannað að framselja vatns- og jarðhitaréttindi sín, með þeirri undantekningu að sveitarfélögum er slíkt framsal heimilt ef viðsemjandinn er ríkið.

Í tengslum við þessar takmarkanir, sem áformað er að leggja á sveitarfélögin, er ástæða til þess að rifja það upp að í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar er sveitarfélögum tryggt sjálfsforræði um eigin mál, en þar segir:

„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða."

Í ljósi orðalags stjórnarskrárákvæðisins er ljóst að með lagasetningu eins og þessari dansar löggjafinn á línu þess sem honum er heimilt.  Iðnaðarráðherra tók þá skynsamlegu ákvörðun að leita álits Eiríks Tómassonar, lagaprófessors, við samningu frumvarpsins á því hvort ríkisvaldinu og löggjafanum væri heimilt að binda hendur sveitarfélaganna með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um.  Í áliti Eiríks kemur fram að löggjafanum sé heimilt þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar að beita sveitarfélögin slíkum takmörkunum.

Hvort sem það álit stenst eða ekki vaknar engu að síður sú spurning hvort eðlilegt sé að löggjafinn skerði sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Spyrja má hvort ekki hefði verið ástæða til að ganga skemur í því að banna framsal opinberra aðila á auðlindum sínum með því að binda bannið eingöngu við auðlindir í ríkiseigu eða auðlindir sem fyrirfinnast í þjóðlendum, en undanskilja sveitarfélögin?

Það verður fróðlegt að heyra sjónarmið sveitarfélaganna til þessa álitamáls.

x x x

5f1d5b7ca992e7Að síðustu vil ég nefna það að af lestri frumvarpsins er ljóst að því er ætlað að bregðast við því umróti sem átti sér stað á orkumarkaði á síðusta misseri.  Er ég þar að vísa til þeirra mála sem upp komu í tengslum við málefni Reykjavik Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, sem hátt hafa farið.

Að mínu mati svarar frumvarpið ekki með fullnægjandi hætti þeim álitaefnum sem vöknuðu í tengslum við REI-málið.  Við lestur frumvarpsins vakna til dæmis þessar spurningar:

  1.  Hvaða reglur gilda um nýtingu fjármuna opinberra fyrirtækja á erlendum vettvangi?
  2.  Er slíkum aðilum heimilt að ráðast í áhættufjárfestingar erlendis?
  3.  Er stjórnvöldum unnt að fela slíkum fyrirtækjum að veita þróunaraðstoð í útlöndum með fjárfestingum í innviðum í öðrum löndum?
  4.  Að hvaða marki er unnt að nýta þekkingu og umframgetu opinberra aðila, sem verður til í starfsemi þeirra? 
  5.  Hvaða heimildir hafa opinberir aðilar til að stofna félög til að annast starfsemi á sviði orkumála og auðlindanýtingar og hver er staða þeirra félaga gagnvart reglum opinbers réttar, svo sem stjórnsýsluréttar?

Ég fæ ekki séð að frumvarpið svari þessum spurningum þó full ástæða væri kannski til, en þær voru í kjarna þeirra umræðna sem áttu sér stað í tengslum við REI-málið.

x x x

Það má vel vera að ekki séu allir sammála þeim viðhorfum sem fram koma í þessum pistli mínum, komu fram í ræðu minni á Alþingi og  ég tel að eigi að leggja til grundvallar þegar settar eru lagareglur um meðferð og nýtingu auðlinda.

Hitt er annað mál að menn hljóta að taka undir það að ýmsum lykilspurningum sem hér hefur verið varpað fram í tengslum við það frumvarp sem nú er til meðferðar á Alþingi um orku- og auðlindamál er ósvarað.

Það er nauðsynlegt að þær verði teknar til umræðu við meðferð málsins á Alþingi, enda miklir hagsmunir í húfi.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband