Fjölbreytni og valfrelsi lykilorðin í breytingum á menntakerfinu

mynd%20af%20melaskoliÞað er óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan í menntamálum á Íslandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, lagði í vetur fram fjögur efnismikil og merkileg frumvörp sem nú eru til meðferðar hjá menntamálanefnd Alþingis.

Frumvörp menntamálaráðherra fela í sér heildarendurskoðun á lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla auk þess sem stefnt er að því að lengja og efla menntun kennara á öllum þessum skólastigum þannig að kennaramenntun á Íslandi verði sambærileg að lengd og innihaldi og í nágrannalöndum okkar.

Metnaðarfull markmið

Allar þær breytingar sem frumvörpin mæla fyrir um miða að því að styrkja menntakerfið til framtíðar með það að markmiði að bjóða börnunum okkar upp á menntun og þjónustu sem stenst fyllilega samanburð við það besta sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessi markmið eru auðvitað háleit og metnaðarfull enda eiga þau að vera það. Við Íslendingar eigum ekki að sætta okkur við að vera eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að menntun barna okkar. Öflugt skólakerfi og framsækið skólastarf mun skila sér margfalt til samfélagsins alls þegar fram í sækir.

Fjölbreytni og valfrelsi lykilorðin

Fyrir um áratug gerði nefnd um mótun menntastefnu sem þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, skipaði framsæknar tillögur um breytingar á íslenska skólakerfinu. Tillögurnar höfðu það meðal annars að markmiði, að minnka miðstýringu og auka frelsi í menntakerfinu. Með þeim frumvörpum sem nú eru til meðferðar á Alþingi er gengið enn lengra en áður í þá átt að draga úr miðstýringunni og auka frelsið. Meira vald verður fært til skólanna sjálfra og þeim veitt meira sjálfdæmi um það námsframboð sem þeir munu hafa upp á að bjóða. Nemendur munu einnig hafa meira um eigin námsframvindu að segja, einkum á framhaldsskólastiginu. Þá verður einkaaðilum gert auðveldara en áður að láta að sér kveða og koma að skólastarfi sem er tvímælalaust af hinu góða. Fjölbreytni og valfrelsi eru þar lykilorðin.

Samfella í skólastarfi

En það eru fleiri merkilegar breytingar í farvatninu. Með frumvörpum verður tryggð samfella í skólastarfinu milli allra skólastiga. Þær breytingar eru mjög spennandi og í raun má segja að þeir múrar sem verið hafa milli einstakra skólastiga verði nú brotnir niður. Nemendur fá því aukin tækifæri til þess að færa sig á milli skólastiga standi áhugi þeirra og geta til þess. Að sama skapi munu kennarar fá aukin tækifæri til þess að starfa á mismunandi skólastigum. Þannig verður leikskólakennurum gert kleift að kenna í neðstu bekkjum grunnskólans, grunnskólakennurum að kenna í fyrstu bekkjum framhaldsskólans og öfugt. Allt skapar þetta ný og spennandi tækifæri fyrir nemendur og kennara.

Verk- og starfsnám jafnsett bóknámi

Picto_hermann-gmeiner-skoliÞá er ástæða til að geta þess sérstaklega að með þeim breytingum sem frumvörpin mæla fyrir um er að því stefnt að styrkja og efla verk- og starfsnám innan skólakerfisins. Um langt árabil hefur verið undan því kvartað að verk- og starfsnám hafi verið sett skör lægra í íslenska menntakerfinu en bóknámið. Ég tel að sú gagnrýni eigi á margan hátt rétt á sér. Á hinn bóginn tel ég að staða verk- og starfsnáms í menntakerfinu sé ekki einungis á ábyrgð stjórnvalda. Einhverra hluta vegna hafa þau viðhorf orðið ofan á í okkar samfélagi á undanförnum árum að æskilegra sé fyrir ungt fólk að stunda bóknám en verk- og starfsnám. Þau viðhorf byggja að mínu mati á misskilningi. Verk- og starfsnám getur verið kjörinn vettvangur fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl í atvinnulífinu og taka að sér vel launuð og krefjandi störf. Í því sambandi er líka mikilvægt að hafa í huga að það hentar ekki öllum að stunda bóknám. Fjöldinn allur af nemendum finnur kröftum sínum meiri og betri farveg í verk- og starfsnámi og á þar fremur heima en í bóknámsskólunum. Því er mikilvægt að þessum hópi nemenda verði boðið upp á raunverulegan og eftirsóknarverðan valkost til hliðar við bóknámið. Þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar eru að mínu mati mikill hvalreki á fjörur þessa hóps, því eitt af meginmarkmiðum þeirra er að styrkja og efla verk- og starfsnám í íslenska menntakerfinu og gera það jafnsett bóknámi til stúdentsprófs.

Slík breyting er jákvæð og nauðsynleg. Hún veitir ungu fólki frekara tækifæri til þess að finna hæfileikum sínum farveg til framtíðar, vinnur gegn brottfalli nemenda úr skóla og gerir okkar góða menntakerfi fjölbreyttara en það er nú.

Kristilegt siðgæði

Það álitaefni sem hvað mest hefur farið fyrir í opinberri umræðu um frumvörp menntamálaráðherra er það hvort ástæða sé til að gera breytingar á markmiðsákvæðum núgildandi laga um leikskóla og grunnskóla sem mæla fyrir um að starfshættir skóla eigi að byggjast á kristilegu siðgæði eða ekki. Um þá breytingu eru skiptar skoðanir. Þeir sem telja að í lögum skuli kveðið á um að starfshættir skóla eigi að byggjast á kristilegu siðgæði segja að þar sem menning okkar Íslendinga og saga síðustu þúsund árin sé svo samofin kristinni trú og þeim gildum sem hún byggir á þá sé eðlilegt að þess sé getið í lögum að skólastarf skuli taka mið af þeirri staðreynd. Þeir sem mæla slíku ákvæði í mót telja að slík lagaákvæði kunni að fela í sér mismunun gagnvart þeim nemendum sem tilheyra öðrum trúarhópum en kristnum og til þeirra þurfi að taka tillit. Við sem nú erum að vinna að þessum málum í menntamálanefnd Alþingis þurfum að taka afstöðu til þessa álitaefnis. Það er auðvitað ekki einfalt, en undan því verður ekki komist.

Til mikilla heilla

Í pistli eins og þessum er auðvitað ekki hægt að gera nákvæma grein fyrir öllum þeim breytingum sem frumvörp menntamálaráðherra mæla fyrir um og öllum þeim áhugaverðu álitaefnum sem við sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis erum að kljást við þessa dagana.

Hver sem niðurstaða þeirrar vinnu verður er í mínum huga ljóst að verði frumvörpin samþykkt í vor sem lög frá Alþingi eru spennandi tímar framundan í íslenskum menntamálum þar sem áhersla verður lögð á aukin tækifæri, fjölbreytni, valfrelsi og gæði nemenda í skólunum okkar. Og ég er ekki í vafa um að nýtt fyrirkomulag löggjafar um skólana okkar munu verða skólakerfinu okkar, nemendum, kennurum, öðru starfsfólki og samfélaginu öllu til mikilla heilla.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Einhverra hluta vegna dettur mér alltaf Mussolini í hug þegar ég sé þig og Þorgerði Katrínu sennilega vegna þess að hann var mikill áhugamaður um skólakerfi í þágu atvinnulífs (sem kostaði hann til valda) og hann sagði jafnframt afar hreinskilnislega að fasisminn ætti í raun að kallast fyrirtækjaismi, möo að raunverulegir eigendur og kostendur stjórnmálamanna ættu að ráða ferðinni.

Baldur Fjölnisson, 24.4.2008 kl. 00:38

2 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hann var reyndar líka með slóganið stétt með stétt sem hefur ekki sést lengi á Íslandi en þetta var í þá gömlu góðu daga þegar menn gátu ekki komist áfram í pólitík án þess að að vera vel læsir og skrifandi og Mussolini skildi eftir sig gilt ritsafn og varla var svo gefið út menningarrit á Ítalíu að hann tjáði sig ekki um það en nú er öldin önnur og heiladrepandi skólakerfi hefur skilað treglæsu fólki allt inn á álþingi og það þarf aðstoðarmenn sem eru sjálfir á svipuðu stigi og þurfa aðstoð og svo framvegis. Þetta skapar endalausar atvinnuleysisgeymslur og óþrjótandi verkefni fyrir vandamálafræðinga. Kommúnistar hafa hér enda hróflað upp hreint ótrúlega tröllvöxnu ríkisapparati og skatta- og gjaldaæði þeirra eru greinilega engin takmörk sett.

Baldur Fjölnisson, 24.4.2008 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband