Glæsilegur sigur Íslands!

Sigur íslenska landsliðsins á Svíum í handknattleik var glæsilegur og veitir okkur keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking.

Það er glæsilegur árangur og ekki skemmir fyrir að íslenska liðið skuli fara til Peking á kostnað Svía! 

Sigurður Kári.


Bandaríkjamenn og hvalveiðar

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins kom fram að Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði lýst því yfir við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra Íslands, í gær að hún væri mjög óánægð og vonsvikin með hvalveiðar Íslendingar og vonaðist til að sjá stefnubreytingu hjá íslenskum stjórnvöldum í hvalveiðimálum.

Þessi yfirlýsing utanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur ekki á óvart.

Hins vegar er spurning hvort ráðherrann ætti ekki að byrja á því að ræða um hvalveiðimál í sínu eigin landi.  Ég veit ekki betur en að Bandaríkin séu mesta eða að minnsta kosti ein mesta hvalveiðiþjóð heims!

Sigurður Kári


Starfshættir skóla og kristin arfleifð

Á sunnudaginn birti ég pistil hér á síðunni þar sem ég gerði grein fyrir því að menntamálanefnd Alþingis hefði á föstudaginn fyrir viku afgreitt fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við skólana.

Eins og fram kom í pistli mínum leggur nefndin til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði, eins og gert er í núgildandi lögum um leikskóla og grunnskóla.

Þessi pistill minn vakti mikla athygli og var eftir því óskað að ég myndi gera grein fyrir því hvaða breytingar nefndin gerði á markmiðsákvæði frumvarpanna og á hvaða forsendum þær breytingar byggðu.

Mér er bæði ljúft og skylt að verða við þeim óskum, en taldi ekki sæmandi að gera það fyrr en breytingatillögurnar hefðu verið lagðar formlega fram á Alþingi.  Sú framlagning átti sér stað í gær.

x x x

Markmiðsákvæði 2. gr. frumvarpsins um grunnskóla hljóðaði með eftirfarandi hætti þegar það var lagt fram á Alþingi í vetur:

,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
    Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
    Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda."

Eftir breytingar menntamálanefndar á markmiðsákvæðinu hljóðar það svo:

,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
    Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
    Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda."

Breytingatillögur okkar eru feitletraðar í textanum hér að ofan.

x x x

Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar er gerð nokkuð ítarleg grein fyrir þeirri breytingu sem við leggjum til og mælir fyrir um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar, ásamt öðrum þeim þáttum sem ákvæðið mælir fyrir um.

Í nefndarálitinu segir um þetta atriði:

"Í 2. gr. frumvarpsins er að finna markmið þess. Segir þar að í samvinnu við heimilin sé það hlutverk grunnskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í 2. málsl. 1. mgr. er svo tilgreint að starfshættir grunnskólans skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Mikil umræða átti sér stað í þjóðfélaginu sem og innan nefndarinnar um þetta ákvæði frumvarpsins. Sneri sú umræða fyrst og fremst að þeirri breytingu að hugtakið „kristilegt siðgæði“ var fellt brott úr markmiðsgrein gildandi laga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 66/1995. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrrgreint orðalag er fellt brott í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum og í samræmi við ábendingar ýmissa aðila. Því sjónarmiði hefur þó verið hreyft fyrir nefndinni að meiri hluti innflytjenda til landsins er kristinnar trúar.  Í athugasemdum við greinina segir jafnframt að hugtökin umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi séu kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði og komi í stað þess orðalags.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu var á tíðum vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi. Í því máli voru málavextir þeir að í norsku námskránni fyrir grunnskóla voru árið 1997 sameinaðar tvær námsgreinar, kristinfræði og lífsskoðanir, í kristindómsfræðslu með innsýn í trúarbrögð og lífsskoðanir. Samkvæmt norskum lögum var heimilt að fá undanþágu frá þessari grein hvað varðar þá þætti kennslunnar sem ekki samrýmdust trúarbrögðum og lífsskoðunum viðkomandi og gætu talist iðkun annarrar trúar.

Kærendur í máli þessu voru meðlimir í félagi húmanista í Noregi og óskuðu þeir eftir því að börn sín fengju undanþágu frá allri kennslu í þessari nýju kennslugrein. Þeirri beiðni var hafnað. Töldu foreldrarnir að á sér væri brotið og vísuðu í 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 um rétt til menntunar, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. samningsins um bann við mismunun. Byggðu þeir mál sitt á því að þeim væri meinað að tryggja börnum sínum menntun í samræmi við trúarskoðanir þeirra og samvisku. Enn fremur væri lögð aukin fyrirhöfn á þá foreldra sem aðhylltust aðra trú en kristni enda hefðu kristnir foreldrar í raun ekki ástæðu til að sækja um sambærilega undanþágu.

Dómstóllinn bendir á í dómi sínum að þyngri áhersla er lögð á kristinfræði en önnur trúarbrögð og að ákveðið ójafnvægi ríki þar á milli. Hann telur þó að slíkt sé eðlilegt þegar tillit er tekið til stöðu kristni í Noregi, en hin evangelíska-lúterska trú er ríkistrú Noregs sem um 85% landsmanna aðhyllast. Kemur ekki fram í dómnum að slíkt brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Álítur nefndin því að það fari ekki í bága við ákvæði sáttmálans að ríki meti og ákveði innihald námskrár sinnar með tilliti til kristinnar trúar.

Dómstóllinn taldi aftur á móti að jafna yrði þetta ójafnvægi milli stöðu kristninnar og annarra trúarbragða og synjun um algera undanþágu frá kennslu í hinni nýju námsgrein bryti í bága við 2. gr. 1. viðauka samningsins. Telur nefndin aftur á móti rétt að benda á að dómstóllinn vísaði frá kæru foreldranna um takmarkaða undanþágu frá kennslugreininni á grundvelli þess að kæruleiðir í Noregi voru ekki tæmdar áður en málið kom til dómstólsins. Kvað dómstóllinn því ekki upp úr um hvort sú leið sem farin var í Noregi hvað varðar heimild til takmarkaðrar undanþágu bryti í bága við sáttmálann. Aftur á móti fjallar dómstóllinn mikið um ferli þess að fá slíka undanþágu og telur það bæði vera flókið og óskilvirkt sem og að undanþáguheimildirnar séu þröngar en einungis var hægt að fá undanþágu frá þeim þáttum sem foreldrar töldu vera þátttöku í trúariðkun eða trúarlegum athöfnum. Það sem eftir stendur að mati nefndarinnar er að dómstóllinn kvað ekki upp úr um að Norðmenn þyrftu að breyta markmiðsgrein sinni þar sem vísað var til þess að stuðla skyldi að „kristilegu siðgæði og uppeldi“.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir og þess hversu mjög íslensk saga, menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð íslenskrar menningar, telur nefndin rétt að tekið sé mið af þeirri staðreynd í markmiðsgrein frumvarpsins og leggur til breytingar á henni. "

x x x

Vegna athugasemda þeirra sem telja að með því að mæla fyrir um í lögum að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar sé með einhverjum hætti brotið gegn rétti þeirra sem ekki eru kristinnar trúar, þá er rétt að benda á eftirfarandi:

Markmiðsákvæði frumvarpsins kveður ekki einungis á um að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleið íslenskrar menningar.  Jafnrétti, umburðarlyndi, kærleikur, ábyrgð, umhyggja og virðing fá þar einnig sinn verðuga sess.

Þá kveður jafnræðisregla stjórnarskrárinnar á um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir kyni, litarhætti, trúarskoðunum, þjóðerni og fleiri þáttum.

Það er mikilvægt að hafa ofangreind atriði í huga í þessari umræðu.

Sigurður Kári.


Framganga Magnúsar Þórs Hafsteinssonar

mth4Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með framgöngu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns Frjálslynda flokksins og aðstoðarmanns Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns sama flokks, í fjölmiðlum í dag.

Magnús Þór hefur farið hamförum í gagnrýni sinni á bæjaryfirvöld á Akranesi fyrir þau áform bæjarins að bjóða palestínskum konum og börnum frá Írak hæli hér á landi með búsetu á Akranesi.  Þá vandar Magnús Þór Karen Jónsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa Frjálslynda flokksins, og Gísla S. Einarssyni ekki kveðjurnar fyrir sinn þátt í málinu og fyrir að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Magnús Þór Hafsteinsson hefur í þeim fjölmörgu viðtölum sem hann hefur farið í í dag lagt áherslu á að hann vilji að íslensk stjórnvöld veiti konunum og börnunum sem mál þetta snýst um aðstoð þar sem þau eru nú búsett.

Það sjónarmið er góðra gjalda vert.  Hins vegar hefur mér fundist Magnús Þór horfa framhjá því að þetta fólk, sem er frá Palestínu, er flóttafólk á vergangi í Írak sem á hvergi höfði sínu að halla.  Því virðist vera tómt mál að tala um að veita slíka aðstoð í þessu tilviki.

Ég held að Magnús Þór Hafsteinsson hafi hvorki gert sjálfum sér eða Frjálslynda flokknum neinn greiða með framgöngu sinni í dag.

Sigurður Kári.


Framsókn skelfur og nötrar

frett_13_framsoknrefsarStaksteinar Morgunblaðsins í dag eru helgaðir Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, sem hefur á síðustu dögum ruðst fram á ritvöllinn og skorað á íslensk stjórnvöld að hefja nú þegar viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu.

Í Staksteinum dagsins rifjast höfundur þeirra upp hluta setningarræðu sem Jón flutti á 29. flokksþingi Framsóknarflokksins hinn 2. mars árið 2007 eða fyrir um 15 mánuðum síðan.  Í þeirri ræðu sagði Jón Sigurðsson meðal annars:

,,En við eigum sjálf að velja tímann til stefnuákvarðana um slík efni.  Og slíkar ákvarðanir eigum við að taka á grundvelli styrkleika okkar og eigin metnaðar sem frjáls þjóð.  Það er ekki sanngjarnt að kenna íslenzku krónunni um verðbólgu og háa vexti.  Fleira kemur til skoðunar í því samhengi.  Við teljum ekki tímabært að taka núverandi aðstöðu Íslands til endurmats fyrr en við höfum tryggt hér langvarandi jafnvægi og varanlegan stöðugleika í efnahags-, atvinnu- og gjaldeyrismálum.  Slíkt tekur ekki minna en 4-5 ár.  Á þeim sama tíma breytast væði samfélag okkar og Evrópusambandið sjálft og því eru langtímaákvarðanir um breytta stefnu ekki tímabærar nú.  Við höfnum því, að Íslendingar láti hrekja sig til aðildar vegna einhverra vandræða eða uppgjafar.  Við eigum sjálf að skapa okkur örlög, sem metnaðarfull og frjáls þjóð."

Þetta er þörf upprifjun hjá höfundi Staksteina og ekki að furða þó hann velti því fyrir sér hvort fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sé búinn að gleyma fyrri afstöðu sinni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu í ljósi þeirra skrifa sem birst hafa á síðum Morgunblaðsins síðustu daga.

Ekki hallast ég að því að Jón Sigurðsson hafi verið búinn að gleyma sínum eigin orðum þegar hann ritaði greinar sínar um aðild Íslands að Evrópusambandinu í Morgunblaðið.  Líklega hefur hann vonað að hans fyrri orð yrðu ekki rifjuð upp með þessum hætti, en hann var ekki búinn að gleyma þeim.

Það er ekki nokkur vafi á því að greinarskrif Jóns Sigurðssonar og skyndileg stefnubreyting hans hvað varðar aðild Íslands að Evrópusambandinu tengist djúpstæðum ágreiningi og innanflokksdeilum sem nú eiga sér stað innan Framsóknarflokksins.

Á þeim bænum logar nú allt í illdeilum þar sem hver höndin er uppi á móti annarri.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur alla tíð verið gallharður andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu og aldrei farið leynt með þá skoðun sína.  Það sama má segja um sveitunga hans, Bjarna Harðarson, þingmann flokksins, sem staðið hefur þétt að baki formannsins í þeirri málafylgju og hefur meira að segja gengið svo langt að senda trúnaðarmönnum Framsóknarflokksins trúnaðarbréf og kvartað yfir Evrópuáróðri áhrifamanna innan Framsóknarflokksins.

Fremst í þeim flokki hefur verið varaformaður flokksins, Valgerður Sverrisdóttir.  Valgerður hefur notað hvert tækifæri á þessu kjörtímabili til þess að stinga upp í formann sinn með því að ítreka þá afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu og nú tekur Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður flokksins í sama streng.  Bæði tengjast þau þeim armi í Framsóknarflokknum sem stóð hvað næst Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi formanni flokksins, sem á sínum síðari árum talaði mjög fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og gekk meira að segja svo langt að spá því á Viðskiptaþingi, líklega árið 2005, að spá því að Ísland yrði orðið aðili að sambandinu árið 2015.

Þessum armi Framsóknarflokksins hefur aldrei verið hlýtt til núverandi formanns, Guðna Ágústssonar, og reyna þau nú hvað sem þau geta til þess að veikja stöðu hans á formannsstóli.

Hvort tilgangurinn er sá að koma Valgerði í formannssæti Guðna skal ósagt látið.

Hitt er ljóst að á meðan þessum hjaðningarvígum gengur milli helstu áhrifamanna Framsóknarflokksins, skelfur flokkurinn og nötrar og ekkert virðist benda til þess að hann muni ná vopnum sínum á næstunni.

Það hlýtur að valda framsóknarmönnum miklum áhyggjum, enda hefur staða flokksins sjaldan eða aldrei verið jafn erfið og nú.

Sigurður Kári.


Eitt og annað

Þau tímamót urðu í starfi okkar sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis á föstudag að við afgreiddum fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntamál kennara og skólastjórnenda.

Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta.  Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.

Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.

x x x

Það er stór dagur í enska boltanum í dag, en þá ræðst það hvort lið Manchester United eða Chelsea verður Englandsmeistari.

Sjálfur hef ég haldið með Manchester United frá barnæsku og vonast því eftir sigri minna manna.

x x x

Forsíðuviðtal sunnudagsblaðs Morgunblaðsins er með frekar óvenjulegum hætti þennan sunnudaginn.  Á þeim bænum er forsprakki hljómsveitarinnar Mercedez Club, Egil Gillzenegger, í viðtali þar sem hann sakar Íslendinga um að misskilja Júróvision.

Það er óætt að mæla með viðtalinu við Gillzenegger.  Það er bráðfyndið og sýnir hversu mikill húmoristi viðmælandi Morgunblaðsins er.

x x x

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var valinn Evrópumaður ársins á afmælisdegi mínum, hinn 9. maí sl.  Björgvin er vel að titlinum kominn enda ötull talsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Við val á Evrópumanni ársins hljóta nöfn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, og Jóns Sigurðssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, að hafa komið til álita, en Jón hefur á stuttum tíma skrifað tvær greinar í Morgunblaðið þar sem hann skorar á íslensk stjórnvöld að láta strax til skarar skríða og sækja um aðild.

Framganga þeirra Jóns og Valgerðar hefur vakið athygli og sett formann flokksins, Guðna Ágústsson, í erfiða stöðu.

Þá má efast um að málflutningur þeirra tveggja sé til þess fallinn að styrkja stöðu Framsóknarflokksins, þó ekki veitti honum af þessi misserin, enda munu kjósendur ekki kjósa Framsóknarflokkinn vegna afstöðu hans til Evrópumála.

Þar skipta aðrir þættir meira máli.

Sigurður Kári.

 


Laun

Þessa dagana fer fram mikil umræða um launakjör starfsmanna Reykjavíkurborgar í kjölfar umdeildrar ráðningar Jakobs Frímanns Magnússonar sem einhverskonar Mið-Borgarstjóra.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að svokallaðir sviðstjórar hjá Reykjavíkurborg fá 850.000 krónur í laun á mánuði, en við það bætist ,,kjaranefndareining" að fjárhæð 117.000 krónur.

Laun sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg nema því 967.000 krónum á mánuði.

Það eru býsna góð laun!

Á sama tíma er mikil umræða um launakjör alþingismanna, eins og ég hef áður vikið að á þessari síðu.

Mér hefur alltaf fundist merkilegt hvað kollegar mínir á Alþingi eru viðkvæmir fyrir sínum launakjörum og eru alls ekki reiðubúnir til þess að viðurkenna að laun þeirra þurfi að hækka.  Það gera þeir ekki opinberlega þó svo að þeir séu flestir eða allir þeirrar skoðunar.

Þingfararkaup alþingismanna eru 540.000 krónur á mánuði.  Formenn nefnda fá 15% álag á laun sín.  Þingmenn sem ekki eru nefndarformenn fá ekki greitt fyrir nefndarsetur, öfugt við það sem gerist og gengur í sveitarstjórnum.

Í ljósi fréttar Stöðvar 2 vaknar sú spurning hvort einhverjir alþingismenn gangi með þann draum í maganum að verða sviðstjórar hjá Reykjavíkurborg.

Sigurður Kári.


Stefán Hilmarsson heiðurslistamaður Kópavogs

459759AÍ dag var ég viðstaddur athöfn í Salnum í Kópavogi í dag þar sem heiðurslistamaður bæjarins árið 2007 var krýndur.

Fyrir valinu þetta árið var´góður vinur minn Stefán Hilmarsson, söngvari.

Ekki verður um það deilt að Stefán Hilmarsson er vel að þessari heiðursnafnbót kominn.  Það er ekki á hverjum degi sem svo ungur listamaður hlýtur slíkan heiður.  Þá er ekki algengt að listamaður á sviði popptónlistar hljóti náð fyrir augum þeirra sem slíka heiðursnafnbót veita, en eins og Stefán sagði sjálfur í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld þá sýnir valið fram á framsækni og djörfung þeirra sem um stjórnartauma halda í Kópavogi.

Mér finnst full ástæða til þess að óska Stefáni Hilmarssyni innilega til hamingju með nafnbótina.

Hann er sannarlega vel að henni kominn.

Sigurður Kári.


,,Sigurður Kári borgaði ekki skólagjöld"

Mér þótti vænt um að sjá á síðum Fréttablaðsins 2. maí sl. að einhverjir framtaksamir menn skyldu minnast mín í kröfugöngunni sem blásið var til á baráttudegi verkalýðsins 1. maí.  Þar var birt mynd af kröfuspjaldi sem haldið var á lofti þennan dag, en á því stóð:

,,Sigurður Kári borgaði ekki skólagjöld"

Það er rétt hjá þeim ágætu mönnum sem höfðu fyrir því að útbúa þetta merka spjald og bera það í kröfugöngunni að ég greiddi ekki skólagjöld meðan ég stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands, enda innheimti skólinn ekki skólagjöld af nemendum sínum þá frekar en nú.  Það voru skattgreiðendur þessa lands sem greiddu þann kostnað sem hlaust af námi mínu sem ég nýt góðs af í dag.

Fyrir það er ég þakklátur og ég vona að þeir sem útbjuggu kröfuspjaldið góða og báru (sem ég geri ráð fyrir að séu nemendur við Háskóla Íslands) séu mér og öðrum skattgreiðendum jafn þakklátir nú fyrir að standa straum af þeim kosnaði sem hlýst af þeirra háskólanámi.

Í þessu sambandi finnst mér þó rétt að benda kröfuspjaldsberunum á að mín góða kona stundar nú MBA-nám við Háskólann í Reykjavík.

Skólagjöld vegna þess náms eru líklega þau hæstu sem þekkjast á Íslandi.

Þau greiðum við með glöðu geði af ráðstöfunarfé heimilisins.

Sigurður Kári.


Óskhyggja Jóns Sigurðssonar

Jon-Sigurdsson_1Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið sl. þriðjudag þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að nú sé tími til kominn að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Í greininni víkur Jón meðal annars að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og segir að forsendur hennar eigi ekki við á Íslandsmiðum.

Við þessa fullyrðingu Jóns Sigurðssonar er ástæða til að gera alvarlega athugasemd, enda vandséð að hún eigi við rök að styðjast. Íslendingar yrðu bundnir af sjávarútvegsstefnu ESB við aðild.

Það er ekki langt síðan samin voru drög að nýrri stjórnarskrá ESB og var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna um hana í flestum aðildarríkjum þess. Sú stefnumörkun ESB um sjávarútvegsmál sem fram kom í hinni nýju stjórnarskrá var alveg skýr: Sjávarútvegsstefnan skyldi vera sameiginleg fyrir öll aðildarríkin, stjórn fiskveiða skyldi vera á hendi ESB, en ekki aðildarríkjanna, og meginreglur þess efnis skyldu lögfestar í stjórnarskrá.

Ákvæði stjórnarskrár geyma grundvallarlög sem almenn lög mega ekki brjóta í bága við. Sú meginregla gildir jafnt um stjórnarskrá Íslands og stjórnarskrár annarra ríkja. Sú réttarskipan sem kveðið er á um í stjórnarskrá á við um alla þá sem undir hana heyra. Það dettur til dæmis engum í hug að jafnræðisregla 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nái til ákveðins hóps einstaklinga í okkar samfélagi en ekki til annarra. Það dettur heldur engum í hug að tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar tryggi sumum rétt til að láta í ljós skoðanir sínar og sannfæringu en ekki öðrum. Ákvæði stjórnarskrárinnar kveður með öðrum orðum á um þá réttarskipan sem við höfum komið okkur saman um að fylgja og sömu réttindi og sömu skyldur fyrir alla borgara. Um þessi grundvallaratriði hygg ég að þurfi ekki að deila.

Þau drög að stjórnarskrá ESB, sem hér hefur verið vísað til, voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi. Í kjölfarið hvarf stjórnarskráin af yfirborði jarðar, en hefur nú skotið upp kollinum á nýjan leik. Nú í formi fjölda samninga, sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins og verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. En efnisatriði þessara samninga eru í öllum grundvallaratriðum þau sömu og stjórnarskrárinnar sem hafnað var. Í þeim verður endanlega staðfest, að stjórn sjávarauðlinda verður á valdi ESB, en ekki aðildarríkja þess, og réttaráhrif þeirra fyrir aðildarríkin verða þau sömu.

Í ljósi þessara staðreynda vekur það furðu mína að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, skuli í grein sinni slá því föstu að forsendur sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB muni ekki eiga við á Íslandsmiðum gerist Ísland aðili að sambandinu. Öll aðildarríki ESB munu þurfa að beygja sig undir þær grundvallarreglur sem sambandið byggist á og starfar eftir. Annaðhvort eru ríkin hluti af sambandinu eða ekki með þeim kostum og göllum sem aðild fylgir.

Að mínu mati halda fullyrðingar Jóns Sigurðssonar ekki vatni, enda er ekkert sem bendir til þess að þær eigi við rök að styðjast. Fram til þessa hefur engin þjóð fengið varanlega undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Eðlilega hafa þjóðir fengið tímabundinn frest til að laga sig að ýmsum grundvallarreglum sem gilda innan ESB, en ekki undanþágu til frambúðar. Og það er ekkert sem bendir til að annað verði uppi á teningnum í tilviki Íslands verði sótt um aðild að sambandinu.

Það er mikilvægt að upplýst, fordómalaus og yfirveguð umræða um Evrópumál fari fram hér á landi á grundvelli þeirra staðreynda sem fyrir liggja. Sú umræða má hins vegar ekki stjórnast af óraunhæfri óskhyggju og fullyrðingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband