Mánudagur, 25. ágúst 2008
Við ystu mörk
Ég átti þess kost á dögunum að fara til borgarinnar Fairbanks í Alaska á vegum Alþingis.
Heimamenn taka stundum þannig til orða að staðurinn sé á ystu mörkum hins frjálsa heims, en tilgangur ferðarinnar var sá að sækja þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál, en ég gegni formennsku alþjóðanefndar Alþingis sem hefur með þá ráðstefnu að gera, en hana sækja þingmenn frá þjóðþingum Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Rússlands og Kanada, auk þess sem þingmenn af Evrópuþinginu hafa þar seturétt.
Með mér í för í þetta skiptið voru Gunnar Svavarsson og Karl V. Matthíasson, þingmenn Samfylkingarinnar, og Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, ásamt þeim Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Guðna Jóhannessyni, orkumálastjóra, en báðir héldu afbragðsgóð erindi á ráðstefnunni.
x x x
Ferðalagið til Fairbanks var eins og gefur að skilja langt og strangt. Til þess að komast á áfangastað þurftum við fyrst að fljúga frá Keflavík til Minneapolis og þaðan til Fairbanks með millilendingu í Anchorage, stærstu borg Alaskafylkis.
En þó ferðalagið hafi verið óhemjulangt bar margt fyrir augu á leiðinni. Það er til dæmis mjög fallegt að fljúga í góðu skyggni þvert yfir Grænland, en það merkilegsta sem bar fyrir okkar eigu var að mínu mati hið stórfenglega Mt. McKinley fjall sem við flugum meðfram.
Mt. McKinley er hæsta fjall Norður-Ameríku og er engin smásmíði, 6.193 metrar á hæð og ótrúlega fallegt í lögun.
x x x
Sá hluti Alaskaríkis sem við heimsóttum er að flestu leyti mjög ólíkur öðrum stöðum í Bandaríkjunum sem ég hef heimsótt. Vissulega eru þar þekktar skyndibitakeðjur á hverju strái, en að öðru leyti er þetta allt annar heimur en ég hef áður kynnst þar vestra, enda liggur Alaska að Norðurheimskautinu og sækir menningu sína og sögu að miklu leiti til frumbyggja svæðisins. Sem dæmi má nefna að íbúar fylkisins stunda hval- og selveiðar af miklum móð, sem er nokkuð sem varla má nefna annarsstaðar í Bandaríkjunum.
x x x
Þingmannaráðstefna um Norðurskautsmál er um margt merkilegur samráðsvettvangur stjórnmálamanna í norðri þar sem rædd eru málefni sem varða gríðarlega hagsmuni fyrir ríkin sem í hlut eiga og íbúa þeirra. Á ráðstefnunum eru til að mynda rædd málefni tengd menntun og heilbrigði íbúanna og orku-, auðlinda- og loftslagsmál.
Síðan ég tók við formennsku í þessu alþjóðasamstarfi fyrir Íslands hönd árið 2005 hef ég lagt þunga áherslu á öryggis-, varnar- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og við Ísland á friðartímum og reynt eftir fremsta megni að gera Ísland að forysturíki við stefnumótun á því sviði.
x x x
Upphafleg tildrög þess að ég fór að leggja svo mikla áherslu á þennan málaflokk í samskiptum þessara ríkja var brottför Bandaríkjahers af Miðnesheiði. Í opinberri umræðu um varnar- og öryggismál hefur það vilja gleymast að meðan Bandaríkjaher hafði viðveru á Íslandi annaðist herinn mikinn öryggis- og björgunarviðbúnaði á hinu gríðarlega víðfema hafsvæði í kringum landið.
Ég hef áður bent á það að þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands hefði uppi metnaðarfull áform um að bæta tækjakost Landhelgisgæslunnar á næstu árum og hefði stigið stór skref í því sambandi myndu Íslendingar einir aldrei geta sinn því hlutverki sem Bandaríkjamenn hafa sinnt við öryggis- og björgunarmál í Norður-Atlantshafi á síðustu áratugum. Íslenska ríkið hefði einfaldlega ekki bolmagn til þess að tryggja allan þann tæknibúnað sem Bandaríkjamenn höfðu yfir að ráða efna eftirlits- og björgunarmála meðan þeir höfðu hér viðveru.
x x x
Þó svo að ýmsir hafi á sínum tíma fagnað brotthvarfi bandaríska hersins frá Keflavík þá má ekki gleyma því að Bandaríkjamenn hafa á síðustu áratugum sinnt eftirlits- og björgunarhlutverki sínu á þessu mikla hafsvæði með miklum sóma. Sem dæmi má nefna að þær aðgerðir sem þeir hafa átt aðild að hafa bjargað um 300 mannslífum á síðustu 35 árum við Íslandsstrendur.
Í ljósi þeirrar staðreyndar þarf enginn að velkjast í vafa um mikilvægi öflugs eftirlits- og björgunarstarfs á hafsvæðinu í kringum landið enda verkefnið risavaxið.
x x x
Framundan eru nýir og spennandi tímar.
Allt stefnir í að á komandi árum muni siglingaleiðir í norðurhöfum opnast til mikilla muna, bæði norður fyrir Rússland og norður fyrir Norður-Ameríku. Verði sú raunin mun siglingaleiðin milli Asíu og Norður-Evrópu styttast um helming.
Með þessum nýju siglingaleiðum er viðbúið að skipaumferð í norðurhöfum og umhverfis Ísland muni margfaldast frá því sem nú er, enda landið í alfaraleið á hinni nýju siglingarleið bæði fyrir skemmtiferðaskip og stór flutningaskip.
Opnist þessi nýja siglingarleið mun hún skapa gríðarleg tækifæri fyrir íslenskar hafnir og hafnarstarfsemi til þess að afla sér tekna, enda viðbúið að erlend skip leiti eftir þjónustu á langri leið sinni. Að sama skapi skapa nýjar siglingaleiðir stórkostlega möguleika fyrir íslenska ferðaþjónustuaðila vegna tíðra siglinga skemmtiferðaskipa um íslenska landhelgi.
Nú þegar hafa greiðari siglingaleiðir um norðurhöf haft sín áhrif, því samkvæmt upplýsingu sem fram komu á ráðstefnunni sem ég sótti í Alaska fjölgaði þeim ferðamönnum sem ferðuðust um Grænlandshaf á síðasta ári úr 22.000 í 55.000. Og ef fram heldur sem horfir á þeim einungis eftir að fjölga.
x x x
En þessi nýju tækifæra hafa líka hættur í för með sér.
Það verður ekki framhjá því litið að með aukinni umferð um hafsvæðin í kringum landið okkar má leiða líkur að því að hætta á því að slys eigi sér stað.
Hagsmunir okkar og þjóðanna í kringum okkur lúta að sjálfsögðu að því að vera í stakk búin til þess að bregðast við ef skemmtiferðaskip verða fyrir áföllum og mannslíf verða í húfi.
Fiskveiðiþjóð, eins og Ísland, sem á svo mikið undir nýtingu auðlinda hafsins, hefur ekki síður hagsmuni af því að vera vel í stakk búið til að bregðast við hugsanlegum mengunarslysum sem kunna að eiga sér stað á hafi úti, ekki síst ef umferð stórra flutningaskipa um lögsögu okkar mun aukast á næstu árum.
Það kann að verða dýrkeypt að vera ekki í viðbragðsstöðu komi slíkar aðstæður upp.
x x x
Af þessum ástæðum hef ég á vettvangi Norðurheimskautsráðsins lagt gríðarlega mikla áherslu á samstarf milli Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Rússlands og Kanadamanna um að efla eftirlit og björgunarstarf á norðurhöfum.
Af slíku samstarfi hafa sæfarendur hagsmuni og náttúran og þær auðlindir sem þar finnast kalla á slíkt eftirlit.
Íslendingar eiga að taka forystu á þessu sviði, enda eru hagsmunir okkar á þessu sviði gríðarlegir. Með aðgerðum sínum á síðustu misserum hafa íslensk stjórnvöld sýnt frumkvæði og fyrirhyggju í þessum efnum með því að styrkja og efla starfsemi Landhelgisgæslunnar.
En betur á ef duga skal. Það er mikilvægt að fleiri ríki komi með myndarlegum hætti að þessum mikilvægu verkefnum.
Sigurður Kári.
Sunnudagur, 24. ágúst 2008
Takk fyrir okkur!
Auðvitað hefðum við öll viljað að íslenska landsliðið í handknattleik hefði unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í morgun.
En því miður voru Frakkarnir einfaldlega betri en við í úrslitaleiknum í dag og sigruðu. Þeir náðu sér betur á strik en við og voru því miður númeri of stórir fyrir okkur.
En þrátt fyrir að við hefðum þá ekki undir í þetta skiptið má ekki gleyma því hversu glæsilegt afrek íslensku strákarnir hafa unnið á þessum Ólympíuleikum.
Aldrei í sögunni hefur jafn fámennt ríki náð jafn langt í hópíþrótt á Ólympíuleikum. Þrír af okkar leikmönnum, Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson voru valdir í úrvalslið leikanna. Fleiri leikmenn sköruðu fram úr samkvæmt þeim mælikvörðum sem lagður var á frammistöðu leikmanna á leikunum og svo mætti lengi telja.
Og það verður aldrei af drengjunum tekið að þeir unnu til silfurverðlauna á mótinu, eins og Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari, bentu á í viðtölum við fréttastofurnar í kvöld. Það er nokkuð sem aðrar og stærri þjóðir geta ekki státað af, svo sem heimsmeistarar Þjóðverja, silfurhafar Pólverja á sama móti eða Evrópumeistarar Dana.
Fyrirfram held ég að fæstir hefðu átt von á því að strákarnir okkar myndu ná svona glæsilegum árangri á leikunum. Við áttum í ákveðnum vandræðum í aðdraganda leikanna og lágum meðal annars fyrir Spánverjum og Egyptum í undirbúningsleikjunum. Ég hugsa að hver einasti landsmaður hefði fyrirfram þegið silfurverðlaunin með þökkum.
Þó svo að ég hafi verið svekktur í lok úrslitaleiksins, eins og væntanlega öll þjóðin, þá gat maður ekki annað en samglaðst með strákunum og fyllst stolti yfir þeirra glæsilega afreki þegar þeir tóku á móti silfurverðlaununum í íþróttahöllinni í Peking í dag. Það var ógleymanleg stund.
Líklega hefur íslenska þjóðin aldrei staðið jafn þétt saman að baki neinu landsliði sínu í sögunni. Það eru allir gríðarlega ánægðir með það afrek sem strákarnir unnu á þessum Ólympíuleikum og stoltir af framgöngu okkar manna sem var að öllu leyti þeim sjálfum og þjóðinni til mikils sóma.
Til hamingju með þennan glæsilega árangur strákar og kærar þakkir fyrir okkur!
Sigurður Kári.
Föstudagur, 22. ágúst 2008
Til hamingju strákar!
Þessi sigur strákanna okkar á Spánverjum í Peking í dag var stórkostlegur og ótrúlegur. Árangur þeirra er líka sögulegur. Í fyrsta skiptið í sögunni höfum við tryggt okkur verðlaun í hópíþrótt á Ólympíuleikunum, stærsta íþróttaviðburði heimsins.
Ég hef alltaf fylgst vel með og stutt við bakið á handboltalandsliðinu okkar. Aldrei í lífinu hef ég séð landsliðið okkar spila svona vel eins og það hefur gert í Peking og það hljóta allir að samgleðjast með strákunum núna þegar þeir hafa tryggt sér sætið í úrslitaleiknum.
Árangur strákanna okkar er ótrúlegur. Hvernig sem úrslitaleikurinn við Frakka fer er ljóst er árangur þeirra er einstakur. Sá stærsti í íslenskri íþróttasögu.
Ég hef fulla trú á því að við getum unnið Frakka í úrslitaleiknum. Frakkarnir eru með frábært lið.
En við erum betri.
Til hamingju strákar! Við stöndum öll með ykkur!
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Ólympíuleikarnir í Peking settir
Og það verða þeir eflaust, enda hefur meiri fjármunum aldrei verið varið til Ólympíuleikanna auk þess sem það er stjórnvöldum í Kína mikið kappsmál að sýna öðrum þjóðum heimsins mátt sinn og megin.
En skrautsýningin á Ólympíuleikunum á sér einnig dekkri hliðar, því ekki eru allir velkomnir á leikana í Peking.
Fyrir nokkru síðan sendu kínversk stjórnvöld frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að fólk sem ætti við geðfötlun að stríða væri óvelkomið á leikana!
Eins mikið og stjórnvöld í Kína hafa lagt í að gera þessa Ólympíuleika þá glæsilegustu í sögunni kemur það manni sífellt á óvart hversu litlar áhyggjur þessi sömu stjórnvöld hafa af almenningsálitinu þegar kemur að virðingu fyrir fólki, ekki síst því fólki sem á undir högg að sækja.
Í hádeginu í dag stóðu Samtökin Hugarafl, sem er félag fólks sem notar geðheilbrigðisþjónustu, fyrir mótmælum fyrir utan kínverska sendiráðið í dag, þar sem því var mótmælt að kínversk yfirvöldu skyldu meina geðfötluðum að sækja leikana í Peking.
Ég tók þátt í þessum mótmælum til þess að styðja málstað geðfatlaðra, enda skil ég ekki hvernig kínverskum stjórnvöldum dettur í hug að banna fólki sem ekkert hefur til saka unnið annað en það að vera veikt að sækja leikana.
Mér er ekki kunnugt um að geðfatlað fólk hafi minni áhuga á íþróttum en við sem ekki glímum við slíka fötlun og það er óskiljanlegt að því skuli vera meinað að sækja leikana.
Framkoma kínverskra stjórnvalda gagnvart geðfötluðu fólki er að mínu mati fullkomlega óforsvaranleg.
Þetta er framkoma sem ég sætti mig ekki við.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Úrskurður umhverfisráðherra
Eins og fram kemur í síðasta pistli mínum þá eru spennandi, krefjandi og að mörgu leyti erfiðir tímar framundan í stjórnmálunum og stóra verkefni okkar stjórnmálamannanna þessa stundina er að vinna þjóðfélagið út úr þeirri efnahagslægð sem yfir okkur hefur dunið.
Í ljósi þess, og til þess að það liggi skýrt fyrir, þá skil ég ekki þá ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, að kveða upp úrskurð á þá leið að bygging álvers á Bakka við Húsavík og virkjanaframkvæmdir í nágrenninu skuli fara í umhverfismat.
Úrskurðurinn er ekki síst einkennilegur í ljósi þess að Skipulagsstofnun hafði áður úrskurðað að ekki væri nauðsynlegt að framkvæmdirnar færu í umhverfismat og auk þess er ekki langt síðan að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og flokksbróðir Þórunnar, undirritaði viljayfirlýsingu um álver á Bakka.
Við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu er gríðarlega nauðsynlegt að efla hér verðmætasköpun og auka hagvöxt. Til þess þurfum við meðal annars að nýta þær gríðarlegu orkuauðlindir sem landið okkar hefur upp á að bjóða.
Við megum engan tíma missa og það væri afleitt ef umhverfismatið myndi tefja þessar framkvæmdir.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Eitt og annað
Síðustu vikur hef ég látið lítið fyrir mér fara á þessari heimasíðu. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að ég hef kosið að eyða tíma mínum með fjölskyldunni frekar en að sitja við tölvuna.
Á þeim tíma hefur ýmislegt á daga okkar drifið.
x x x
Fyrir það fyrsta fórum við í gríðarlega vel heppnað sumarfrí til Frakklands þar sem við dvöldum í rúma viku. Í upphafi ferðar heimsóttum við systur Birnu eiginkonu minnar, sem var skiptinemi í Rónardalnum í Frakklandi. Að þeirri heimsókn lokinni dvaldi fjölskyldan í góðu yfirlæti í húsi sem við leigðum ásamt vinafólki okkar í Búrgundarhéraði, ekki langt frá bænum Baune. Ferðin var að öllu leyti frábær fyrir okkur og ekki síst fyrir krakkana.
x x x
Þann 19. júlí giftum við Birna okkur. Brúðkaupið fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík þar sem góður vinur okkar, séra Hjálmar Jónsson, gaf okkur saman. Að lokinni vígslunni héldum við síðan veislu í Ásmundarsafninu í Reykjavík, einhverju fallegasta listasafni borgarinnar.
x x x
Ég tók eftir því að bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið fluttu fréttir af því að í aðdraganda brúðkaupsins hefðu vinir mínir haldið mér steggjaveislu þar sem Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði tekið þátt í að hrekkja mig.
Samkvæmt fréttunum á Davíð að hafa kallað kallað mig á einkafund sinn til þess að ræða stöðuna í efnahagsmálum þjóðarinnar og nauðsyn þess að bregðast við með stofnun nýs stjórnmálaflokks.
Ég verð að hrósa þeim blaðamönnum sem skrifuðu þessa fréttamola fyrir mikið hugmyndaflug. Það er rétt hjá þeim að við Davíð fengum okkur kaffi saman þennan tiltekna dag og ekki skal ég neita því að Davíð tókst að hrekkja mig í þetta skiptið. En eitt er víst að ekki stakk hann upp á stofnun nýs stjórnmálaflokks. Það myndi hann seint gera og ekki er ég til umræðu um að starfa fyrir annan stjórnmálaflokk en Sjálfstæðisflokkinn.
Ég neita því hins vegar ekki að þessi fréttaflutningur fannst mér frekar fyndinn.
x x x
Það eru hins vegar spennandi, krefjandi og að mörgu leyti erfiðir tímar framundan í stjórnmálunum. Verkefni okkar stjórnmálamannanna þessa stundina er að vinna þjóðfélagið út úr þeirri efnahagslægð sem yfir okkur hefur dunið.
Það er ærið verkefni en ég er bjartsýnn á að vel muni takast til.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. júlí 2008
Kveðja til viðskiptaráðherra
Ekki minnist ég þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi verið sendir út af örkinni með þessum hætti til þess að benda á nauðsyn þess að Samfylkingin breyti stefnu sinni í einstökum málaflokkum svo hún samræmist betur áhuga- og stefnumálum okkar sjálfstæðismanna. Enda teljum við það ekki okkar hlutverk að reyna að grauta í stefnumörkum annarra stjórnmálaflokka, sem í flestum tilvikum hefur verið ákveðin með lýðræðislegum hætti meðal flokksmanna.
Eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur bent á þá gefa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn ekki út yfirlýsingar um nauðsyn þess, að Samfylking breyti um stefnu í umhverfismálum eða Evrópumálum. Engum sjálfstæðismanni dettur til hugar að krefjast þess að Björgvin og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, setjist niður og ræði umhverfismál og stóriðju við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, þó allir sjái nauðsyn þess að þær umræður eigi sér stað. Slík afskiptasemi yrði afgreidd sem hroki og yfirgangur. Við látum fólki í öðrum flokkum einfaldlega sjálfu eftir að jafna ágreining sinn sín á milli án þess að blanda okkur í slaginn.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt í ríkisstjórnarsamstarfi við aðra stjórnmálaflokka hafa forystumenn hans lagt sig fram við að virða þá stefnu sem samstarfsflokkurinn á hverjum tíma hefur mótað í einstökum málaflokkum og þann stjórnarsáttmála sem gerður hefur verið um samstarf flokkanna.
Slík viðhorf lýsa vilja til þess að eiga gott samstarf sem byggist á heilindum. Þau sýna jafnframt að Sjálfstæðisflokkurinn ber virðingu fyrir viðhorfum annarra stjórnmálaflokka, þó svo að hann sé þeim ekki endilega sammála.
Við myndun núverandi ríkisstjórnar fyrir um það bil ári síðan samdi Samfylkingin um það við Sjálfstæðisflokkinn að ríkisstjórnin myndi ekki leggja drög að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili. Því samkomulagi hefur ekki verið breytt.
Segja má að blekið á stefnuyfirlýsingunni hafi varla verið þornað þegar ýmsir forystumenn Samfylkingarinnar fóru að tala um nauðsyn þess að hafinn yrði undirbúningur að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og nú gengur viðskiptaráðherrann jafnvel svo langt að mælast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn breyti afstöðu sinni til Evrópusambandsaðildar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft það á sinni stefnuskrá að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sú stefna hefur verið ákveðin á landsfundum flokksins sem fara með æðsta vald í málefnum flokksins eru stærstu lýðræðissamkomur landsins.
Vera má að afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kunni að breytast í ókominni framtíð. Henni verður hins vegar aðeins breytt á sama vettvangi, þ.e. á landsfundum flokksins. Það er hins vegar misskilningur að halda að hvatningarorð Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, muni þar einhverju breyta.
Samfylkingin hefur einn stjórnmálaflokka haft aðild Íslands að Evrópusambandinu á sinni stefnuskrá, þó svo að afar lítið hafi farið fyrir því stefnumáli aðdraganda þeirra alþingiskosninga sem flokkurinn hefur tekið þátt í. Við myndun núverandi ríkisstjórnar samdi Samfylkingin sjálf um að ekki yrði sótt um aðild á kjörtímabilinu. Í ljósi þess er erfitt að fá botn í hvaða tilgangi það þjónar hjá Björgvin G. Sigurðssyni, sem er ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem starfar á grundvelli þessarar stefnuyfirlýsingar, að senda samstarfsflokknum slíkar kveðjur.
Nærtækara væri að mínu mati fyrir ráðherrann að einbeita sér frekar að þeim flóknu verkefnum á sviði efnahagsmála sem við okkur stjórnmálamönnum blasa um þessar mundir og að því að efla stjórnarsamstarfið í stað þess að reyna að hræra í stefnuskrám stjórnmálaflokka sem hann á ekki aðild að.
Birtist í Viðskiptablaðinu í dag.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 3. júlí 2008
Orð í tíma töluð
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, skrifaði eftirfarandi í pistli á heimasíðu sinni í gær:
,,Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var vitnað í Björgvin G. Sigurðsson um nauðsyn þess, að sjálfstæðismenn tækju innan flokks síns afstöðu til Evrópusambandsins, sem væri Björgvini að skapi.
Björgvin starfar ekki síður en Þórunn Sveinbjarnardóttir í ríkisstjórn, sem hefur meðal annars mótað sér skýra stefnu í Evrópumálum. Um þá stefnu sömdu forystumenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við myndun þessarar ríkisstjórnar og hún gildir fyrir flokkana, á meðan þeir eiga samstarf.
Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn gefa ekki yfirlýsingar um nauðsyn þess, að Samfylking breyti um stefnu í umhverfismálum eða Evrópumálum. Þeir virða þá stefnu, sem samstarfsflokkur þeirra hefur mótað og þann sáttmála, sem síðan hefur verið gerður um samstarf flokkanna.
Sjálfstæðismenn ræða Evrópumál í sinn hóp, hvað sem skoðunum Björgvins G. Sigurðssonar líður. Þingflokkur okkar sjálfstæðismanna hélt nýlega sérstakan fund um Evrópumálin og þar var samstaða þingmanna flokksins áréttuð.
Engum sjálfstæðismanni dettur í hug að krefjast þess, að Björgvin ræði um umhverfismál og stóriðju við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þótt allir sjái, að þess kunni að vera þörf."
Mér finnst ástæða til að taka undir þessi orð Björns Bjarnasonar, því ég er honum hjartanlega sammála.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 7. júní 2008
Hanna Birna nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Í morgun var ég gestur Einars Þorsteinssonar í þættinum Vikulokin á Rás 1. Viðmælendur mínir í þættinum voru þau Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varaþingmaður vinstri grænna.
Í þættinum var ég beðinn um að lýsa skoðun minni á stöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem mikið hefur verið til umræðu síðustu vikur og mánuði.
Ég lýsti þeirri eindregnu skoðun minni að nauðsynlegt væri fyrir borgarstjórnarflokkinn að taka af skarið og ákveða hver úr hópi borgarfulltrúanna skyldi leiða flokkinn það sem eftir er kjörtímabilsins. Það væri mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að óvissu um forystumál okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur yrði strax eytt og endir bundinn á þá forystukreppu sem ríkt hefur.
Síðar í dag var síðan tilkynnt að Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, myndi taka við af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, sem leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn og taka við embætti borgarstjóra eftir næstu áramót.
Ég hef um árabil starfað með Hönnu Birnu á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og veit að hún er vel að því kominn að leiða borgarstjórnarflokk okkar sjálfstæðismanna.
Ég vil því nota tækifærið og óska Hönnu Birnu innilega til hamingju.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 6. júní 2008
Mislagðar hendur
Þessi vika hefur til dæmis ekki verið góð fyrir dagblaðið DV.
DV lagði mikið púður í að upplýsa um hneyksli sem tengt var Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og lögheimili hans. Var því slegið upp á forsíðu blaðsins í gær að fjármálaráðherrann hefði verið staðinn að því að mergsjúga ríkissjóð í eigin þágu og hagnaðist um eina milljón króna á ári fyrir að skrá lögheimili sitt á Suðurlandi en ekki í Hafnarfirði.
Þegar málið var kannað ofan í þaula kom í ljós að þetta meinta hneyksli var ekkert hneyksli.
Í tilefni af forsíðufréttinni tók fréttavefurinn visir.is viðtal við Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis. Sagði Helgi sagði í samtali við Vísi að forsíðufrétt DV í dag um Árna Mathiesen væri röng.
"Árni fær þessar greiðslur óháð því hvar hann er með lögheimili. Reglum sem lúta að þessu var breytt árið 1995 þannig að nú fá allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna þriggja sömu greiðslur, að upphæð 90,700 krónur á mánuði burtséð frá því hvar þeir eru með lögheimili. Það má því segja að DV sé 14 árum of seint með fréttina," sagði Helgi.
Í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag kom fram að fjármálaráðherrann hyggðist ekki höfða mál á hendur DV vegna þessa fréttaflutnings, enda hefðu þeir dregið fréttina til baka.
x x x
Á baksíðu DV í dag birtist síðan önnur furðufrétt.
Þar segir af framgöngu Grétars Mars Jónssonar, hins vörpulega þingmanns Frjálslynda flokksins, í umræðum á Alþingi á fimmtudaginn fyrir rúmri viku, daginn sem jarðskjálfti skók Suðurland, undir fyrirsögninni ,,Orðljótur eftir jarðskjálfta."
Í fréttinni kemur fram að Grétar Mar hafi farið mikinn í ræðustól Alþingis um meint mannréttindabrot stjórnvalda vegna kvótakerfisins. Á einum stað í fréttinni segir: ,,
,,Umræðan um kvótann og mannréttindin hófst klukkan fjögur og gustaði þar mjög af Grétari Mar sem kallaði ríkisstjórnina mannréttindaníðinga og druslur og sagði þá vera með skítlegt eðli. Fáir fylgdust með enda flestir að fylgjast með tíðindum af skjálftanum. En Sturla Böðvarsson, forseti þingsins, fylgdist þó grannt með og sló í bjöllu þegar hin þungu orð féllu af munni þingmannsins. Eftir umræðuna vítti hann síðan Grétar Mar fyrir ummælin."
Ég var í fundarsal Alþingis þegar Grétar Mar Jónsson lét þessi orð falla. Mér fannst þau ekki vera honum sæmandi þá og sú skoðun mín hefur ekki breyst.
Hins vegar er ljóst að sá blaðamaður sem skrifaði fréttina var ekki á staðnum og fylgdist ekki með umræðunum, því Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, var ekki viðstaddur umræðuna heldur var henni stjórnað af Einari Má Sigurðarsyni, þingmanni Samfylkingarinnar, en hann er einn varaforseta Alþingis.
Það er heldur ekki rétt að Grétar Mar hafi verið víttur fyrir ummæli sín, þó full ástæða hefði verið til. Hins vegar sagði Einar Már Sigurðarson, starfandi forseti, í lok umræðunnar eitthvað á þá leið að ummæli Grétars Mars hefðu verið algjörlega óásættanleg, en beitti ekki vítum.
Síðar í frétt DV segir:
,,Grétar segir að hann hafi í ræðu sinni tekið upp ummæli sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hafði notað um Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sem kallaður var gunga og drusla. Þá segist hann hafa notað skítlegt eðli sem Davíð notaði sem einkunn um Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra."
Annað hvort hefur minnisleysi leikið Grétar Mar eða blaðamann grátt. Hið rétta er að það var Ólafur Ragnar Grímsson, þá þingmaður Alþýðubandalagsins, sem sagði í ræðu á Alþingi, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hefði skítlegt eðli, en ekki öfugt.
Þetta finnst mér að bæði höfundur fréttarinnar og þingmaðurinn ættu að vita.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.6.2008 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh