Föstudagur, 12. september 2008
Fanney Birna nýr formaður Heimdallar
Í gærkveldi fór ég á fjölmennan og vel heppnaðan aðalfund Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Á aðalfundinum var samþykkt kraftmikil ályktun félagsins þar sem félagsmenn létu í ljós skoðun sína til ýmissa þjóðþrifamála í samfélaginu.
Jafnframt því var kjörin ný stjórn félagsins sem skipuð er glæsilegu ungu fólki sem vonandi á eftir að láta mikið að sér kveða í starfi Sjálfstæðisflokksins. Ekki síst bind ég þar miklar vonir við nýjan formann félagsins, Fanney Birnu Jónsdóttur, sem hlaut rússneska kosningu, enda ein í framboði.
Fanney Birnu þekki ég vel af hennar störfum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, en hún hefur einnig sinnt trúnaðarstörfum fyrir Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, meðal annars sem formaður félagsins.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að Fanney Birna á eftir að vera glæsilegur fulltrúi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík enda afar frambærileg ung kona þar á ferð.
Um leið og ég óska henni og nýrri stjórn til hamingju með kjörið vil ég þakka fráfarandi formanni, Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, og félögum hennar í stjórn félagsins fyrir störf sín í þágu félagsins.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 9. september 2008
BSRB markvisst beitt í þágu Vinstri grænna

Á því haustþingi sem nú stendur yfir lætur Ögmundur engan bilbug á sér finna og hamast nú gegn frumvarpi heilbrigðisráðherrans sem aldrei fyrr, en frumvarpið var tekið til umræðu á Alþingi í dag.
x x x
Á sunnudag birtist til að mynda grein eftir Ögmund í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni ,,Frumvarp um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar" þar sem Ögmundur mótmælir frumvarpinu harðlega. Í greininni segir Ögmundur m.a.:
,, Það yrði ömurlegt hlutskipti fyrir Alþingi að leggja blessun sína yfir grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu sem reynslan hefur kennt að voru til ills. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hefur verið treyst fyrir heilbrigðisráðuneytinu. Það er vandmeðfarið verkefni. Með þeim kerfisbreytingum sem ráðherrann reynir nú að þjösna í gegnum þingið hefur hann fallið á prófinu. Endanleg niðurstaða ræðst síðan af afstöðu annarra í stjórnarmeirihlutanum. Guðlaugur Þór starfar nefnilega á ábyrgð sinna samherja á þingi, hvort sem þeir koma úr Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu."
Þess má geta að grein sama efnis birtist eftir Ögmund í Fréttablaðinu í dag.
x x x
Ögmundur Jónasson veit jafn vel og ég, og raunar allir þeir sem lesið hafa frumvarpið, að þar er ekki að finna nein áform um að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða heilbrigðiskerfið. En Ögmundur lætur slík smáatriði ekki þvælast fyrir sér. Í augum Ögmundar helgar tilgangurinn meðalið og hann virðist vera reiðubúinn til þess að gera hvað sem er til að slá ryki í augu almennings í krossferð sinni gegn frumvarpinu.
Ég skil svo sem vel að Ögmundur Jónasson og félagar hans í þingflokki Vinstri grænna noti alla þá klæki sem þeir hafa uppi í erminni til þess að klekkja á ríkisstjórninni og bregða fyrir hana fæti.
Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt menn geta gengið til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum. Að mínu mati eru Ögmundur og félagar hans í þingflokki Vinstri grænna komnir langt út fyrir þau mörk sem eðlileg geta talist í því sambandi.
x x x
Ástæðan fyrir því að ég læt þessi orð falla er sú að mér hefur misboðið með hvaða hætti Ögmundur og Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa markvisst beitt Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, B.S.R.B., sem Ögmundur er í formennsku fyrir, í þágu stjórnmálabaráttu Vinstri grænna. Í raun má segja að Vinstri grænir, með þingflokksformanninn í broddi fylkingar, hafi farið með B.S.R.B. eins og deild í flokki sínum.
x x x
Í því sambandi má nefna að nýverið flutti B.S.R.B. breskan sérfræðing, Allyson Pollock, , til landsins til þess að halda erindi um breska heilbrigðiskerfið og þær breytingar sem á því hafa verið gerðar, sem hún taldi að væru sambærilegar þeim sem frumvarp heilbrigðisráðherra, sem Ögmundi er svo mjög í nöp við, kveður á um.
Fyrir þá sem ekki þekkja Allyson Pollock þá er hún vel þekkt í heimalandi sínu af vinstri væng stjórnmálanna og er í miklu uppáhaldi hjá róttækum sósíallistum í Bretlandi, ekki síst fyrir gagnrýni sína frá vinstri á störf og stefnu breska Verkamannaflokksins.
Þá er ekki langt síðan að B.S.R.B. flutti hingað til lands Svíann Göran Dahlgren til að fjalla um sömu mál, en Dahlgren þessi er sérstakur ráðgjafi stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Víetnam um heilbrigðismál.
Nú hefur B.S.R.B. tekið sig til og gefið fyrirlestur Allyson Pollock út í bók, þar sem Ögmundur Jónasson ritar sjálfur formála og lokaorð.
x x x
Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að það kostar sitt að flytja inn erlenda fyrirlesara til landsins. Og það kostar ekki minna að gefa út heila bók um fyrirlestur hinnar bresku Allyson Pollock.
Ég veit ekki betur en að B.S.R.B. hafi greitt þann kostnað, væntanlega samkvæmt ákvörðun formannsins Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri grænna.
x x x
B.S.R.B. eru langstærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu bandalagsins eru félagsmenn þess rúmlega 19.000 talsins. Félagsmenn eru samkvæmt lögum skyldugir til þess að greiða félagsgjöld til samtakanna óháð pólitískum skoðunum sínum.
Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að lögbundin félagsgjöld félaga í B.S.R.B. séu notuð til þess að fjármagna stjórnmálabaráttu formanns B.S.R.B. og þess stjórnmálaflokks sem hann tilheyrir.
Það er auðvitað varla hægt að draga aðra ályktun en þá að slík vinnubrögð viðgangist innan B.S.R.B. því að á síðustu misserum og árum hefur verið fullkominn samhljómur milli baráttumála Vinstri grænna á Alþingi og afstöðu B.S.R.B. til ýmissa umdeildra mála á vettvangi stjórnmálanna, þó svo að oft hafi verið erfitt að sjá aðkoma og afskipti B.S.R.B. að sumum þeirra hafi nokkuð með hagsmunamál launþega á vinnumarkaði að gera.
x x x
Dæmi um það er barátta forystu B.S.R.B. gegn frumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til vatnalaga sem var samþykkt sem lög frá Alþingi árið 2006.
Ögmundur Jónasson fór fremstur meðal jafningja fram í andófi sínu gegn frumvarpinu og var helsti arkitektinn að því málþófi sem þáverandi stjórnarandstaða á Alþingi blés við meðferð málsins þar innandyra.
Þingflokkur Vinstri grænna og forysta B.S.R.B. stóðu þétt við bakið á hvoru öðru baráttunni gegn vatnalögunum og í þeirri baráttu stóð B.S.R.B. meðal annars fyrir umfangsmikilli og rándýrri auglýsingabaráttu í fjölmiðlum, sem fjármögnuð var úr sjóðum þess.
Sjálfur gerði ég athugasemdir við framgöngu B.S.R.B. í aðdraganda þeirrar löggjafar. Þá gagnrýndi ég, líkt og nú, með hvaða hætti Vinstri grænir beittu þeim launþegasamtökum sem þingflokkformaður þeirra, Ögmundur Jónasson er í forsvari fyrir, til þess að ná fram sínum pólitísku markmiðum.
Ég trúði því ekki þá, og trúi því ekki enn, að þeir félagsmenn í B.S.R.B., sem ekki styðja Vinstrihreyfinguna grænt framboð í íslenskum stjórnmálum, sætti sig við það hvernig samtökum þeirra hefur verið grímulaust beitt í þágu Vinstri grænna, áróðurslega og ekki síður fjárhagslega.
x x x
Um helgina ritaði Ögmundur Jónasson grein í Fréttablaðið þar sem hann gerði upplýsingaskyldu um hagsmunatengsl alþingismanna að umræðuefni og kallaði eftir því að um þau yrðu sett lög.
Í ljósi þess sem að ofan greinir, tengsla Ögmundar Jónassonar og stjórnmálabaráttu Vinstri grænna við B.S.R.B., má velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að Ögmundur sjálfur leggi nú fram reikninga varðandi þann kostnað sem til féll vegna ferða Allyson Pollock og Görans Dahlbergs til landsins og útgáfu fyrirlestrar Pollocks á bókarformi og upplýsi um hver stóð straum af þeim kostnaði?
Að mínu mati er full ástæða til að upplýsa um þá hluti, enda verður ekki annað séð en að í allan þennan stríðsrekstur hafi verið ráðist í þágu stjórnmálabaráttu Vinstri grænna.
x x x
Þá má geta þess, og benda Ögmundi Jónassyni sérstaklega á, að víða erlendis taka lög um fjármál stjórnmálaflokka einmitt á þessum þáttum, þ.e. á fjármögnun hagsmunasamtaka á starfsemi stjórnmálaflokka.
Það er mikilvægt að um slíka fjármögnun séu veittar upplýsingar, ekki síst þegar um er að ræða opinber hagsmunasamtök launafólks, sem fjármögnuð eru með lögbundinni greiðsluskyldu félagsmanna.
x x x
Ögmundur Jónasson og aðrir forystumenn Vinstri grænna hafa á síðustu árum gert sig gildandi í umræðum gegn spillingu og kallað ítrekað eftir siðvæðingu íslenskra stjórnmála.
Fólk getur svo velt því fyrir sér hvernig það samræmist málflutningi Vinstri grænna um siðvæðingu í íslenskum stjórnmálum að B.S.R.B. sé beitt í þágu flokksins með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 3. september 2008
Steingrímur J. ósamkvæmur sjálfum sér
Það er merkilegt hvað sumir stjórnmálamenn geta verið ósamkvæmir sjálfum sér í umræðum um mikilvæg mál.
Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi var stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum rædd á Alþingi í dag.
Þar var mönnum heitt í hamsi, einkum Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, en honum og Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, lenti þar illa saman.
Í ræðu sinni varaði Steingrímur J. mjög við því að ráðist yrði í frekari virkjunarframkvæmdir hér á landi, ekki síst í neðri hluta Þjórsár.
x x x
Það var athyglisvert að hlýða á ræðu Steingríms J. Sigfússonar, ekki síst þegar höfð er í huga ræða sem hann sjálfur hélt á Alþingi þann 22. nóvember 2005, í umræðum um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
Þar kvað við annan tón hjá Steingrími varðandi virkjunarkosti á Íslandi, bæði hvað varðar virkjun í neðri hluta Þjórsár, en einnig varðandi aðra virkjunarkosti.
Í þessari ræðu í nóvembermánuði árið 2005 sagði Steingrímur m.a.:
,,Hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti réttilega á, og ég kom líka inn á það í minni tölu, að margar meira og minna fullbúnar virkjanir eða virkjunarkostir liggja á lager. Veitt hafa verið rannsóknarleyfi, framkvæmdarleyfi eða nýtingarleyfi fyrir mörgum virkjunum. Þar má t.d. nefna Hellisheiðarsvæðið og að fullnýta Kröflusvæðið. Ég hef sagt áður í þessum ræðustól: Það svæði er sjálfsagður virkjunarkostur þegar búið er að fara inn á það og opna það upp, bæði í umhverfislegu tilliti og hvað hagkvæmni varðar, það er sjálfsagt að fullnýta það þegar við þurfum á orkunni að halda til einhverra þeirra þarfa sem við erum sammála um.
Búðarhálsvirkjun - bráðhagkvæm rennslisvirkjun sem nýtir þær miðlunarframkvæmdir sem komnar eru á Þjórsársvæðinu, sjálfsögð virkjun. Ég er ekki á móti henni, ég styð hana að því gefnu að við þurfum á orkunni að halda til einhverra skynsamlegra nota. Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði. Að fullnýta Nesjavallasvæðið, auðvitað, frekar en að fara í Brennisteinsfjöll eða Torfajökulssvæðið, að sjálfsögðu. Úr því sem komið er er einboðið að fullnýta svæði eins og Nesjavelli. Ég styð það. Þarf hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fleiri virkjunarkosti? Margar hagkvæmar beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám sem valda sáralitlum umhverfisáhrifum og eru afturhverfar í þeim skilningi að það má fjarlægja stíflurnar, taka rörin niður og hleypa vatninu aftur í sinn farveg - sjálfsagðar."
x x x
Þeir sem fylgdust með ræðu Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi í dag sjá að ekki er mikið samræmi í málflutningi formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs nú miðað við það sem hann hafði fram að færa um vikjanamál árið 2005.
Vera má að Steingrímur hafi skipt um skoðun frá árinu 2005. Hvað sem því líður er ljóst að seint verður sagt að formaðurinn sé sérstaklega staðfastur í skoðunum sínum.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 3. september 2008
,,Þegi þú nú Guðni!"
Samheldni og samstaða eru ekki þau orð sem helst koma upp í hugann þegar maður hlustar á orðaskipti formanna tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, þeirra Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á þessu haustþingi.
Nú standa yfir umræður utan dagskrár um stefnu ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum. Málshefjandi í þeirri umræðu var formaður Vinstri grænna sem jós úr skálum reiði sinnar enda má hann ekki heyra minnst á að auðlindir þessa lands séu nýttar til hagsbóta fyrir þjóðarbúið, svo einkennilegt sem það út af fyrir sig, ekki síst í því efnahagsástandi sem nú ríkir hér á landi.
Steingrímur J. hafði rétt hafið skammarræðu sína og mótmæli gegn virkjun Neðri-Þjórsár þegar kollegi hans í stjórnarandstöðunni, Guðni Ágústsson, kallaði fram í fyrir honum og mótmælti því sem Steingrímur hafði fram að færa.
Og ekki stóð á svari Steingríms J.:
,,Þegi þú nú Guðni!"
Það er ekki á hverjum degi sem mönnum er sagt að þegja á Alþingi og alls ekki í orðaskiptum milli manna sem eru eru í forystuhlutverkum og eiga að kalla samherjar í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ein einhverntíma verður allt fyrst.
Ég held að orðaskipti formanna stærstu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi í dag sýni í hvers konar öngstræti þessi stjórnarandstaða er komin.
Ég skal játa að fram til þessa hef ég ekki haft mikla samúð með stjórnarandstöðunni á Alþingi. En það jaðrar við að maður fari að vorkenna því fólki sem nú starfar í stjórnarandstöðu.
Þeim eru allar bjargir bannaðar.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 3. september 2008
Efnahagsmálin
Undanfarið hefur ríkisstjórnin legið undir hörðum árásum fyrir aðgerðaleysi gagnvart þeim efnahagsvanda sem nú ríkir. Háværastir í röðum gagnrýnenda eru þeir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það þarf engum að koma á óvart að þeir tveir hafi hæst um ráða- og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar, en ég held að fleiri hafi það á tilfinningunni en ég að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar skipti litlu um þann tón sem þessir tveir ágætu menn kjósa að velja sér í stjórnmálaumræðunni.
Hvernig sem ástandið er hverju sinni, líst þessum tveimur herramönnum aldrei á blikuna.
x x x
Ég hef tilhneigingu til að hlusta betur eftir því hvernig aðrir en Guðni og Steingrímur J. meta störf ríkisstjórnarinnar.
Greiningardeild Glitnis fjallar í morgun um meint aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í Morgunkorni sínu undir fyrirsögninni ,,Aðgerðarleysi orðum aukið." Þar segir:
,, Þegar litið er í baksýnisspegilinn kemur á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki nýtt að fullu heimild Alþingis til lántöku upp að 500 ma.kr. til að styrkja gjaldeyrisforðann hefur forðinn verið aukin með útgáfu víxla í erlendri mynt í sumar. Þá hafa á síðustu mánuðum verið gefin út skuldabréf fyrir 75 ma.kr. Einnig hefur Seðlabankinn rýmkað reglur um veð og gengið inn í samstarf við ESB og EFTA um varnir gegn fjármálaóstöðugleika. Loks hafa stjórnvöld einnig kynnt umfangsmiklar aðgerðir sem ætlað er að sporna gegn kólnun á íbúðamarkaði. Þegar þetta er tínt saman kemur í ljós að stjórnvöld hafa vissulega brugðist við með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Hinsvegar er ótímabært að leggja hendur í skaut heldur þarf að halda áfram á sömu braut á næstu mánuðum í samvinnu við sem flesta aðila atvinnulífsins og vinnumarkaðar. Það verður því forvitnilegt að heyra það sem fer fram á þinginu í dag."
x x x
Það sem fram kemur í Morgunkorni Glitnis er auðvitað hárrétt.
Það er orðum aukið að saka ríkisstjórnina um aðgerðarleysi, því hún hefur ýmislegt gert til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru í hagkerfinu.
Steingrímur J. og Guðni hafa rangt fyrir sér þegar þeir endurtaka, eins og rispaðar plötur, að ríkisstjórnin hafi ekkert aðhafst.
Það sem af er árinu hafa eftirfarandi aðgerðir verið boðaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar:
- 1. Lækkun skatta á fyrirtæki úr 18% í 15%.
- 2. Lækkun skatta á einstaklinga.
- 3. Hafist handa við að afnema stimpilgjöld.
- 4. Komið á láalínum við norræna seðlabanka.
- 5. Faríð í aðgerðir á lána- og gjaldeyrismarkaði í júni.
- 6. Gjaldeyrisforði landsins hefur verið fjórfaldað.
- 7. Tekið hefur verið upp samstarf við ESB og EFTA-ríki um aðgerðir gegn fjármálakreppu.
- 8. Reglur rýmkaðar um veð í verðbréfum til að skapa aukið aðgengi fyrirrækja að lánsfé.
Menn geta rifist um það hvort aðgerðir ríkisstjórnar hafa verið nægar eða hvort ástæða hefði verið að grípa til annarra aðgerða en gert hefur verið. En það er orðum aukið að tala um aðgerðarleysi.
x x x
Því hefur verið haldið fram í opinberri umræðu að hér á landi sé staða efnahagsmála með þeim hætti að hér ríki kreppa. Það er auðvitað rétt að nú um stundir þrengir að íslensku efnahagslífi. En er ekki fulllangt gengið að halda því fram að hér á landi ríki kreppa, í þeim skilningi sem flestir leggja í það hugtak?
Í því sambandi er rétt að taka það sérstaklega fram að í dag búa Íslendingar við sömu lífskjör og þeir bjuggu við á árunum 2005 og 2006. Það þarf svo sem ekki að rifja það upp hér að á þeim árum hvarflaði ekki að nokkrum manni að halda því fram að á Íslandi ríkti kreppa.
Það skiptir auðvitað í þessu sambandi hvaða viðmið menn setja sér í umræðunni um stöðu efnahagsmála.
x x x
Það er fróðlegt að fara yfir það til hvaða aðgerða þeir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vilja grípa til, til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi í efnahagslífinu.
Þessa dagana ríður Guðni um héruð og heldur því fyrirvaralaust fram að við Íslendingar fljótum sofandi að feigðarósi, einkum vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.
Í ræðum sínum, hvort sem þær eru haldnar í Borgarnesi, í fjölmiðlum eða á Alþingi hefur Guðni lagt til að gripið verði til eftirfarandi aðgerða:
- 1. Að gjaldeyrisforði landsins verði efldur.
- 2. Að opinberar framkvæmdir verði auknar.
- 3. Að stýrivextir verði lækkaðir.
- 4. Að dregið verði úr opinberum álögum.
Þessar tillögur eru auðvitað ekki allar slæmar, en það er ekkert nýtt í þeim. Og það verður líka að hafa það í huga að flestar þeirra eru í farvatninu, eins og að framan greinir.
Það er hins vegar dálítið hjákátlegt að fylgjast með framgöngu formanns Framsóknarflokksins, sem opnaði varla munninn án þess að fullyrða að Ísland væri á ,,grænu ljósi tækifæranna", þar til hans hlutskipti varð að sitja í stjórnarandstöðu. Þá kom allt annað og alvarlegra hljóð í strokkinn.
Málflutningur Guðna Ágústssonar markast auðvitað fyrst og fremst af stöðu hans og Framsóknarflokksins og verður að skoða sem slíkan.
x x x
Steingrímur J. hefur líka haldið innblásnar ræður um stöðu efnahagsmála.
Hans tillögur eru þríþættar:
- 1. Að gjaldeyrisvaraforði landsins verði efldur.
- 2. Að opinberar framkvæmdir verði auknar.
- 3. Að lög um Seðlabanka Íslands verði endurskoðuð.
Líkt er komið með tillögum Steingríms og tillögum Guðna Ágústssonar að fátt nýtt er þar að finna og hluti tillagna Steingríms eru komnar til framkvæmda nú þegar.
Það sem hins vegar vantar í tillögur Steingríms eru tillögur um að auðlindir þjóðarinnar verði nýttar í meira mæli en nú er gert.
Slíkar tillögur getur Steingrímur hins vegar ekki lagt fram, því hann og hans flokkur eru á móti því að orkuauðlindir þjóðarinnar verði nýttar í auknu mæli.
x x x
Vilji menn bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi í efnahagslífinu er það mín skoðun að það sé meðal annars afar nauðsynlegt að innlend framleiðsla verði aukin, þar á meðal orkuframleiðsla.
Við höfum einfaldlega ekki efni á því að sleppa því að nýta þær auðlindir sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Það er einfaldlega lífnauðsynlegt fyrir hagkerfið okkar að við ráðumst í frekari vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir svo auka megi framleiðslu og hagvöxt í landinu, sem er auðvitað forsenda þess að við náum að snúa þeirri stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu okkur í vil.
Og betur má ef duga skal.
Við þurfum að halda áfram að framleiða. Við þurfum að nýta auðlindir okkar, hvort sem er á orkusviði eða öðrum sviðum. Við þurfum að halda áfram að efla okkar innviði. Við þurfum að halda áfram að styrkja gjaldeyrisforða landsins. Við þurfum að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Við þurfum að standa vel og skynsamlega að rekstri ríkisins. Við þurfum að lækka álögur hins opinbera á einstaklinga og fyrirtæki og við megum alls ekki hækka skatta. Við þurfum að koma í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags. Við þurfum að auka hagvöxt. Við þurfum að skapa hér skilyrði til þess að hægt sé að lækka vexti.
Allt þetta þurfum við að gera og meira til, til þess að koma snúa við þeirri stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu.
Það mun taka tíma. En það mun takast, ef allir leggjast á árarnar.
Sigurður Kári.
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Sarah Palin, flokksþing demókrata og íslenskir sósíaldemókratar
Sósíaldemókratar hafa lengi leitað sér að átrúnaðargoðum í hverfulum heimi.
Um hríð var Tony Blair helsta goðið, hann féll af stalli þegar hann ákvað að ráðast inn í Írak. Þá voru haldnar stærstu mótmælaaðgerðir í heiminum til að styðja einn argasta harðstjóra sögunnar.
Svo var sagt að Blair hefði stjórnað eftir fókusgrúppum. Nei, það gerði hann einmitt ekki.
Ingibjörg Sólrún hefur horft mjög til Zapateros á Spáni, en fæstir Íslendingar skilja spænsku; þeir vita of lítið um Spán til að ágrúnaðargoð þaðan geti gert gagn.
Zapatero hefur reyndar verið að gera ágæta hluti, í óþökk einnar leiðinlegustu stofnunar í heimi, spænsku kirkjunnar.
En nú hefur nýtt átrúnaðargoð stigið fram á sviðið.
Barack Obama.
Þeir samfylkingarmenn sem ekki eru komnir til Denver að hlusta á hann halda ræðu láta sig dreyma um að vera þar."
x x x
Það er rétt hjá Agli að sósíaldemókratar haga lengi leitað sér að átrúnaðargoðum og nú telja þeir sig hafa fundið einn slíkan á flokksþingi Demókrataflokksins bandaríska í Denver, Colorado, Barak Obama.
Til Denver flykkjast sósíaldemókratarnir og af fréttum að dæma er þar mættur meira að segja sjálfur Dagur B. Eggertsson.
Það er ekkert leyndarmál að íslenskir sósíaldemókratar styðja Obama allir sem einn. Þeir halda varla vatni yfir honum, mæta á flokksþingið og reyna að upplifa flokkinn sem systur- eða móðurflokk sinn, flokk sem þeir vilja taka sér til fyrirmyndar.
Það fyndna í þessu öllu saman er það að hugmyndafræðilega er bandaríski demókrataflokkurinn líklega töluvert hægrisinnaðari en Sjálfstæðisflokkurinn.
Því skilur maður ekki hvaða erindi íslenskir sósíaldemókratar eiga á þetta flokksþing. Þeir væru líklega ekki alveg jafn hrifnir ef bandarískir demókratar væru þátttakendur í íslenskum stjórnmálum, enda eiga þeir ekki mikla hugmyndafræðilega samleið með þeim
x x x
John McCain, forsetaframbjóðandi Repúblíkana, hefur útnefnt varaforsetaefni sitt. Sú er ríkissjóri Alaskaríkis, og heitir Sarah Palin.
Sarah Palin flutti ræðu við setningu þingmannarstefnu um Norðurskautsmál sem ég sótti fyrir hönd Alþingis og haldin var í Fairbanks í Alaska á dögunum, og ég hef gert grein fyrir á heimasíðu þessari.
Ég þekki ekki nákvæmlega hennar áherslur eða fortíð í stjórnmálum, þó ég hafi hitt hana og spjallað stuttlega við hana í Fairbanks, Alaska. En hún kom mér fyrir sjónir sem afar frambærilegur stjórnmálamaður enda nýtur hún mikilla vinsælda. Palin er glæsileg kona sem mun klárlega reynast McCain vel í kosningabaráttunni gegn Barak Obama.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 29. ágúst 2008
eyjan.is á algjörum villigötum.
Forsvarsmenn vefsíðunnar eyjan.is eiga að mínu mati mikið og gott hrós skilið fyrir vefsíðu sína og fyrir að hafa fundið uppskrift að gagna- og skoðanaveitu á netinu sem virkar.
En ritstjórum síðunnar eru greinilega mislagðar hendur.
Það þykir mér miður, sem dyggum lesanda síðunnar.
Fyrr í dag skrifaði ég pistil á þessa heimasíðu undir fyrirsögninni ,,Siðareglur fyrir stjórnmálamenn?"
eyjan.is vekur athygli á þessum pistli mínum á forsíðu sinni undir fyrirsögninni: ,,Sigurður Kári: Siðareglur óþarfar".
Mér er gjörsamlega hulin ráðgáta hvernig þeim sem var á vaktinni á eyjan.is datt í hug að koma hugleiðingum mínum um þetta álitaefni á framfæri með þeim hætti sem hann gerði, vegna þess að efni pistils míns er ekki í nokkru samræmi við þá fyrirsögn sem birtist lesendum vefsíðunar eyjan.is.
Dæmi hver fyrir sig.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 29. ágúst 2008
Siðareglur fyrir stjórnmálamenn?
Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að settar verði siðareglur fyrir stjórnmálamenn.
Af fréttum að dæma virðast slíkar reglur vera rétt handan við hornið fyrir borgarfulltrúa í Reykjavík, en Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýr borgarstjóri í Reykjavík, mun nýverið hafa lagt tillögur að slíkum reglum fyrir borgarráð.
Þá skilst mér að unnið sé að tillögum að slíkum reglum fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands, en siðareglur fyrir embættismenn í stjórnsýslunni munu vera til.
x x x
Almennt hef ég verið þeirrar skoðunar að ekki sé nein sérstök þörf á því að setja þingmönnum sérstakar siðareglur til að fylgja í störfum sínum. Ég hef hingað til talið að þingmenn sinni störfum sínum eftir bestu samvisku og hef ekki orðið var við að spilling sé til staðar meðal íslenskra stjórnmálamanna sem kalli á að slíkar siðareglur verði settar.
Sú tilfinning mín er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem gerðar hafa verið á spillingu í íslenskum stjórnmálum. Þær úttektir hafa leitt í ljós að íslenska stjórnkerfið og íslenskir stjórnmálamenn séu lausir við spillingu og við stöndum flestum ef ekki öllum þjóðum framar í þeim efnum.
x x x
Það er hins vegar ófært að almenningur hafi það á tilfinningunni, einhverra hluta vegna, að stjórnmálamenn þjóðarinnar séu spilltir og láti gerðir sínar stjórnast af annarlegum hvötum.
Það er ekki síður óþolandi fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum að liggja undir grun um að við séum að ganga annarra erinda í störfum okkar en að fylgja sannfæringu okkar og þeirri stefnu sem við höfum fært fram.
Ef siðareglur fyrir stjórnmálamenn eru til þess fallnar að eyða slíkum vafa eða grun kann að vera rétt að setja slíkar reglur.
x x x
Hitt er annað mál að það getur verið þrautinni þyngri að útfæra slíkar reglur.
Í umræðu um innihald slíkra siðareglna hefur því gjarnan verið haldið fram að eðlilegt sé að stjórnmálamenn upplýsi um hagsmunatengsl sín við hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, svo sem í viðskiptalífinu og á vinnumarkaði. Og fleiri dæmi mætti nefna.
Þá hefur gjarnan verið nefnt að æskilegt sé að stjórnmálamenn upplýsi um hlutabréfaeign sína eða aðra fjárhagslega hagsmuni sína.
Ennfremur hefur verið eftir því kallað að settar verði skýrar reglur um það hvort stjórnmálamönnum eigi að vera heimilt að þiggja gjafir frá utanaðkomandi aðilum.
x x x
Almennt er ég þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að forðast eins og heitan eldinn að þiggja slíkar gjafir og það held ég að þeir hafi fram til þessa gert.
Að minnsta kosti er mikilvægt að stjórnmálamenn, hvar sem er í heiminum, haldi sjálfstæði sínu í störfum sínum og verði ekki það á að þiggja gjafir eða greiða sem ætlast má til að verði endurgoldnar með einum eða öðrum hætti.
Hins vegar getur verið erfitt að skilgreina hvaða gjafir eða greiða stjórnmálamenn mega þiggja.
Stundum kann að vera erfitt að festa hönd á hvort slíkur greiði eða gjöf er veitt stjórnmálamanninum eða persónunni sem í hlut á, ekki síst þegar um vini þeirra sem í hlut eiga er að ræða. Slíkt verður að minnst kosti erfitt að útfæra með reglusetningu, þó svo að því verði ekki haldið fram hér að það sé ómögulegt.
x x x
Í umræðunni um siðareglur fyrir stjórnmálamenn vaknar síðan auðvitað sú spurning hvort æskilegt væri að slíkar siðareglur næðu út fyrir raðir stjórnmálamanna, til dæmis til maka þeirra, og hvort slík reglusetning geti talist eðlileg.
Ég hef ekki mótað mér skoðun á því álitaefni, en ljóst má vera að tengsl maka við stjórnmálamenn eru slík að vera kann að einhverjir séu þeirrar skoðunar að um þá eigi að gilda sömu reglur og um stjórnmálamennina sjálfa.
x x x
Eitt álitaefni kemur þó sjaldan til umfjöllunar í umræðunni um "siðvæðingu stjórnmálanna" og um það hvort rétt sé að setja stjórnmálamönnum siðareglur til þess að tryggja að þeir gangi ekki annarra hagsmuna í störfum sínum en þeirra sem þeir eru kosnir til.
Vilji menn setja reglur sem tryggja hlutleysi stjórnmálamanna þá hlýtur að koma til skoðunar að skylda þá til þess að veita upplýsingar um skuldastöðu sína og þá lánardrottna sem eiga inni hjá sér.
Það er gömul saga og ný að borgararnir eru engum jafn háðir og þeim sem þeir skulda.
Það gildir jafnt um stjórnmálamenn eins og alla aðra.
x x x
Það verður fróðlegt að sjá hvort þverpólitísk samstaða muni nást um að setja slíkar reglur.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 29. ágúst 2008
Til varnar menntamálaráðherra
Síðustu daga hefur mikið verið rætt um för Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, á Ólympíuleikana í Peking í Kína. Einkum hefur verið rætt um síðari ferð Þorgerðar Katrínar til Peking sem hún fór gagngert til þess að vera viðstödd úrslitaleik Íslands og Frakklands í handknattleikskeppni leikanna.
Hefur Þorgerður legið undir ámæli úr ýmsum áttum vegna ákvörðunar sinnar að um að vera viðstödd leikinn, vegna þess kostnaðar sem til féll vegna ferðarinnar og fyrir að hafa tekið Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, og eiginmann sinn, Kristján Arason, fyrrum landsliðshetju og formann landsliðsnefndar Handknattleikssambands Íslands, með sér í ferðina.
x x x
Ég ræddi þessi mál stuttlega við Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld.
Ég fylgdist líka með umræðum um þetta mál í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld þar sem þau tókust m.a. á um þetta mál, Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks okkar sjálfstæðismanna.
Í þættinum lýsti Jón Magnússon þeirri skoðun sinni að ferð Þorgerðar Katrínar á úrslitaleikinn í Peking og það hvernig að henni hefði verið staðið væri hneyksli og að Þorgerður Katrín ætti að segja af sér.
Ég er ósammála Jóni Magnússyni, sem að mínu mati fór offari í Kastljóssþætti kvöldsins.
Ferð Þorgerðar Katrínar á úrslitaleikinn í Peking er ekki hneyksli. Og hún á ekki að segja af sér.
Þessa skoðun mína vil ég rökstyðja nánar.
x x x
Þorgerður Katrín var viðstödd setningu Ólympíuleikanna og fylgdi íslensku keppendunum, þar á meðal handknattleikslandsliðinu, fyrri hluta leikanna. Hún sótti leikana sem menntamálaráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hún var því fulltrúi ríkisstjórnar Íslands á Ólympíuleikunum, enda ráðherra íþróttamála í ríkisstjórninni.
Ég er þeirrar skoðunar að eigi ráðherra íþróttamála að vera viðstaddur einhverja viðburði sem Íslendingar taka þátt í þá eru það Ólympíuleikarnir, enda eru þeir óumdeilanlega stærsti íþróttaviðburður veraldarinnar. Tilgangur farar ráðherrans er auðvitað sá að sýna þátttakendum okkar á leikunum stuðning sinn og þeirrar stofnunar sem hún er í forystu fyrir.
Það má halda því fram að enginn eðlismunur sé á því að menntamálaráðherra styðji íslenskt íþróttafólk á erlendri grundu með þessum hætti og því þegar viðskiptaráðherra eða aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni eða forseti Íslands ferðast til annarra landa til þess að efla viðskiptatengsl milli þeirra, íslenskum fyrirtækjum til hagsbóta.
Í báðum tilvikum eru þeir, í krafti stöðu sinnar, að sýna umbjóðendum sínum stuðning sinn.
Þegar menntamálaráðherra kom til Íslands frá Peking, hafði handboltalandsliðinu okkar gengið vel. Það var hins vegar ekki fyrirséð þá að liðið kæmist alla leið í úrslitaleikinn á þessum stærsta íþróttaviðburði veraldar.
x x x
Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu að fara aftur á Ólympíuleikana í Peking þegar ljóst varð að Ísland myndi leika til úrslita í handbolta.
Öfugt við Jón Magnússon hefði ég talið það jaðra við hneyksli ef ráðherra íþróttamála hefði ekki verið viðstaddur þann viðburð.
Eins og komið hefur fram hefur jafn fámennt ríki og Ísland aldrei í sögunni átt keppnislið í úrslitum hópíþróttar á Ólympíuleikunum. Afrek strákanna okkar að komast í úrslitaleikinn var stórkostlegt og vakti heimsathygli. Úrslitaleikurinn við Frakka er stærsti íþróttaviðburðurinn í sögu þjóðarinnar hingað til. Um það held ég að enginn deili og afrek strákanna okkar verður seint endurtekið.
Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda ráðherra íþróttamála á Íslandi að votta því landsliði sem nær þvílíkum árangri þá virðingu sína með því að vera viðstaddur slíkan atburð og undirstrika með því þá virðingu, þakklæti og stuðning sem afreksmennirnir eiga skilið frá þjóðinni.
Eigi ráðherra íþróttamála ekki að vera viðstaddur stærsta íþróttaviðburð í sögu þjóðarinnar, hvaða viðburð á hann þá að sækja?
x x x
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær, miðvikudag, að ráðherrar ættu að sýna hófsemi þegar þeir mættu á atburði sem þessa.
Ég er sammála Steingrími um þetta. Ráðherrar eins og aðrir eiga að sýna ráðdeild við meðferð á opinberu fé.
Ég gef mér og og geng út frá að það hafi menntamálaráðherra og yfirstjórn menntamálaráðuneytisins gert í þessu tilviki og ekki lagt út í meiri kostnað við þessa ferð Þorgerðar Katrínar en nauðsynlegt var.
x x x
Í því sambandi hefur vaknað sú spurning hvers vegna ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins þurfti að fara með Þorgerði Katrínu til Peking og vera viðstaddur úrslitaleik Íslands og Frakklands.
Ég hygg að þess þekkist varla dæmi æðstu ráðamenn þjóðarinnar fari í ferðir eins og þessar, einkum til fjarlægra landa, án þess að embættismenn þeirra eða aðstoðarmenn fylgi þeim. Skiptir þar engu hvort um ráðherra í ríkisstjórn eða forseta Íslands er að ræða. Raunar tel ég ljóst að þess þekkist heldur ekki dæmi í öðrum löndum.
Ástæður þess að embættismenn ráðamanna fara í slíkar ferðir eru auðvitað margvíslegar.
Í því sambandi verður að hafa í huga að í slíkum ferðum eru ráðmenn fulltrúar þjóðar sinnar og þurfa að sinna ýmsum skyldum sem embættismenn eru þeim innan handar við að uppfylla, auk þess sem upp geta komið ýmis atvik og vandamál sem kalla á að ráðherrar hafi aðstoðarmenn sér við hlið til að leysa úr þeim.
x x x
Í annan stað hafa vaknað spurningar um það hvort eðlilegt sé að ráðamenn taki maka sína með sér í ferðir sem þessar á kostnað ríkisins.
Sú spurning er eðlileg. Eflaust kann svarið við þeirri spurningu að ráðast af því tilefni sem uppi er hverju sinni.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og sérstakur verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, fór á Ólympíuleikana í Peking til þess meðal annars að styðja við bakið á íslensku þátttakendunum á leikunum.
Með honum í för var eiginkona hans, Dorrit Moussaieff, forsetafrú. Dorrit Moussaieff fór hvorki á Ólympíuleikana sem einn af ráðamönnum íslensku þjóðarinnar né sem sérstakur verndari Íþrótta- og Ólympíusambandsins.
Hún fór þangað sem maki forseta Íslands.
Og ég vil taka það sérstaklega fram að við það hef ég ekkert að athuga.
Ég geri ekki ráð fyrir að forsetafrúin hafi greitt fyrir ferðina á Ólympíuleikana, hótelgistingu eða annan kostnað sem til hefur fallið úr eigin vasa.
Og ég hef ekki orðið var við að Jón Magnússon eða aðrir hafi gert við það nokkrar einustu athugasemdir.
En ég fæ ekki séð að önnur sjónarmið ættu að gilda um maka forseta Íslands að þessu leyti og um maka annarra íslenskra ráðamanna, þar með talinn ráðherra íþróttamála í ríkisstjórn Íslands.
Það hefur ekkert með það að gera þó sá tiltekni maki, Kristján Arason, sé fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og formaður landsliðsnefndar Handknattleikssambands Íslands.
För hans á Ólympíuleikana í Peking styðst við nákvæmlega sömu forsendur og för maka annarra ráðamanna íslensku þjóðarinnar á sömu leika.
x x x
Með hliðsjón af því sem að ofan greinir get ég hvorki tekið undir með Jón Magnússyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, að för Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, á Ólympíuleikana í Peking sé hneyksli, né að hún ætti að segja af sér embætti vegna þess.
Slík krafa er að mínu mati einfaldlega fráleit.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 25. ágúst 2008
Einkavæðing
Undanfarið hefur lítið farið fyrir umræðum um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það er miður því ennþá stendur ríkið í atvinnurekstri sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna.
Það sem verra er, er að flest þessi ríkisfyrirtæki eru í samkeppni við einkaaðila á markaði, en það er kunnara en frá þurfi að segja að á slíkum samkeppnismörkuðum verður samkeppnisstaða fyrirtækjanna aldrei og getur aldrei orðið jöfn.
Síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum hefur ekkert ríkisfyrirtæki verið einkavætt.
Til þess að halda mönnum við efnið finnst mér full ástæða til að nefna nokkur ríkisfyrirtæki sem upplægt væri að einkavæða:
1. Íslandspóstur.
2. Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
3. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
4. Ríkisútvarpið.
Auðvitað væri upplagt að einkavæða fleiri ríkisfyrirtæki og stofnanir, en ég nefni þessi svona af handahófi enda eiga þau það sameiginlegt að henta vel til einkavæðingar.
Vilji menn draga úr ríkisafskiptum er hægt að grípa til ýmissa annarra ráðstafana en að einkavæða.
Þannig getur verið skynsamlegt að úthýsa verkefnum sem nú eru í höndum ríkisstofnana til einkaaðila, ýmist með það að markmiði að leggja stofnanirnar niður eða til þess að draga úr umsvifum þeirra.
Hér eru nokkur dæmi:
1. Standi vilji til þess að ríkið sé þátttakandi á fasteignalánamarkaði, er alls ekki sjálfgefið að utan um þá starfsemi sé rekin heil stofnun, sem í dag ber nafnið Íbúðalánasjóður. Vel má hugsa sér að í stað þess að reka þennan sjóð í núverandi mynd, leggi ríkið fram lánsfjármagn og feli einkaaðilum að umsýslu þess, í stað þess að halda heilli stofnun úti utanum þann sjóð.
2. Eitt af hlutverkum Ríkisendurskoðunar er að endurskoða reikninga ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana (þess ber raunar að geta að hlutverk Ríkisendurskoðunar er víðtækara). Það má halda því fram með góðum rökum að óeðlilegt sé að ríkið endurskoði reikninga ríkisfyrirtækja. Það má færa mjög góð rök fyrir því að slík endurskoðun ætti frekar að vera í höndum einkarekinna endurskoðunarfyrirtækja, sem eru algerlega óháð ríkinu. Með því að færa þann þátt til einkaaðila mætti draga úr umsvifum stofnunarinnar.
3. Ríkið heldur úti sjálfstæðri stofnun sem ber heitið Embætti ríkislögmanns. Embætti ríkislögmanns er í raun ekkert annað en ríkisrekin lögmannsstofa sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna ríkisins í einkamálum sem höfðuð eru á hendur því, uppgjör bótakrafna o.fl. (Til að forðast allan misskilning þá skal það tekið skýrt fram að Embætti ríkislögmanns hefur ekkert með meðferð sakamála að gera). Fyrirtæki hér á landi reka ekki slíkar lögmannsstofur, heldur leita þau eftir þjónustu einkarekinna lögmannsstofa þegar á þarf að halda. Það er ekkert sem mælir gegn því að það sama verði látið gilda um ríkið. Með því myndi ríkisstofnunum fækka um eina.
Fleiri dæmi má að sjálfsögðu hugsa sér.
Mér fannst ástæða til að nefna þessi af handahófi.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh