Starfsemi Íslandspósts hf. rædd á Alþingi

posturÁ undanförnum vikum og mánuðum hef ég látið mig starfsemi Íslandspósts hf. nokkru varða.  Í skrifum á þessari heimasíðu og í opinberri umræðu hef ég gagnrýnt að Íslandspóstur hf. standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi félagsins nær ekki til, s.s. á prentmarkaði, í smásöluverslun með ritföng og á fleiri sviðum.

Ástæða gagnrýni minnar er sú að þó svo að Íslandspóstur sé hlutafélag þá er það að öllu leyti í eigu hins opinbera og telst því vera ríkisfyrirtæki.  Slík fyrirtæki eiga að mínu mati ekki að stunda samkeppni við einkaaðila á samkeppnismarkaði.

Á síðustu mánuðum hefur hafa stjórnendur Íslandspósts hf. hins vegar ákveðið að hefja slíka samkeppni af fullum þunga og hafa numið ný lönd á nýjum mörkuðum.

Við slíka tilburði geri ég alvarlegar athugasemdir.

Af þeirri ástæðu þótti mér ástæða til þess að taka málið til umræðu á Alþingi.  Það gerði ég í gær með því að leggja fram fyrirspurn til Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra, um starfsemi Íslandspósts hf.  Fyrir samgönguráðherrann lagði ég tvær spurningar svohljóðandi:

1.  Er samgönguráðherra fylgjandi því að Íslandspóstur hf. stundi samkeppnisrekstur við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi fyrirtækisins nær ekki til?

2.  Hyggst samgönguráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að Íslandspóstur hf. stundi slíka samkeppni?

Ég vænti þess að um málið verði rætt á næstu vikum á Alþingi og það verður spennandi að heyra viðhorf ráðherrans til málsins og svör hans við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann.

Vonandi mun sú umræða leiða til þess að samkeppni ríkisins við einkaaðila líði undir lok.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband