Stjórnarskráin, stjórnmálin og sjávarútvegurinn

thorskur_290104Í gær flutti ég ræðu á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna sem haldið var á Hilton Hótel Nordica.

Þar sagði ég eftirfarandi:

x x x

Fundarstjóri.  Góðir fundargestir.

Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir það tækifæri að fá að ávarpa aðalfund Landssambands Íslenskra útvegsmanna.  Þetta er fyrsti aðalfundur sambandsins sem ég sæki, en vonandi ekki sá síðasti. 

Frá því að ég hóf stjórnmálaþátttöku hef ég alltaf haft áhuga á sjávarútvegsmálum, ekki síst þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég tel að byggja eigi greinina á.  Í stjórnmálaumræðunni hef ég lagt mig fram um það að halda þessum sjónarmiðum fram með eins afdráttarlausum hætti og ég hef getað, einfaldlega vegna þess að ég trúi því að þau séu rétt og greininni fyrir bestu.

Eins og sjá má á dagskrá þessa fundar þá ber erindi mitt yfirskriftina ,,Stjórnarskráin og stjórnmálin."  Ástæðan fyrir þessari yfirskrift er sú að aðkoma mín að málefnum sjávarútvegsins hefur fyrst og fremst verið á vettvangi stjórnmálanna og þá ekki síst í umræðum um stjórnarskránna, einkum um hugmyndir manna um að setja í stjórnarskrá ákvæði sem mæla fyrir um að náttúruauðlindir á Íslandi og við Ísland skuli vera í svokallaðri ,,þjóðareign".

Áður en ég vík að því atriði finnst mér ástæða til að nefna það sérstaklega að líklega horfi ég á sjávarútveginn frá öðru sjónarhorni en flest ykkar sem hér eruð í salnum.

Ástæðan er sú að ég hef aldrei verið á sjónum, aldrei starfað við útgerð, aldrei migið í saltan sjó.  Ég hef aldrei átt hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtæki eða setið í stjórn slíks fyrirtækis.  Mín einu tengsl við sjávarútveginn eru þau að afi minn heitinn var hafnarverkamaður í Ólafsvík á síðustu öld.  Þar af leiðandi mun ég seint teljast til hinna innvígðu og innmúruðu í íslenskum sjávarútvegi, þó svo að ég og fleiri skoðanabræður mínir hafi margoft verið sakaðir um að ganga erinda útgerðarinnar eða vera sérstakar málpípur hennar.  Ég hef hins vegar hagsmuni af því eins og allir aðrir landsmenn að um sjávarútveginn, eins og aðrar atvinnugreinar giltu skynsamlegar reglur og að atvinnugreininni vegni vel.

x x x

Fyrir mann eins og mig sem stend fyrir utan þessa atvinnugrein og fylgist með henni utan frá þá hafa þær breytingar sem átt hafa sér stað í sjávarútvegi ekki farið framhjá mér.  Í mínum huga er sjávarútvegurinn framsækin og nýjungagjörn atvinnugrein sem hefur staðið af sér ýmiss áföll sem á henni hafa dunið með hagræðingu, skynsemi og myndarskap.  Ég tel ólíklegt að það hefði tekist án núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.

Í opinberri umræðu og stjórnmálum hefur mér hins vegar fundist fiskveiðistjórnunarkerfið og sjávarútvegurinn í heild, því miður hafa átt í býsna mikilli varnarbaráttu. Við bárum vissulega gæfu til þess að kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum var komið á, sem reynst hefur feikilega vel. Það er fagnaðarefni að það tókst að koma smábátum í kvótakerfi og líklega hefur það styrkt kvótakerfið í sessi.  Þrátt fyrir það býr sjávarútvegurinn við of mikla óvissu.

Það er merkilegt hve ýmis áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu hafa lengi verið reiðubúin til þess að fórna hagsmunum sjávarútvegsins til þess að ná fram ýmsum pólitískum markmiðum eða áhugamálum sínum.  Einhverra hluta vegna hefur að mínum dómi að vissu leyti verið gefið skotleyfi á sjávarútveginn, sem er nokkuð sem aðrir atvinnuvegir hafa ekki þurft að þola, heldur þvert á móti notið mikillar velvildar.

  • Mér hefur fundist sem þessi öfl hafi skort skilning á mikilvægi þess að sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, þurfi búi við stöðugleika í stað óvissu um það sem framtíðin ber í skauti sér. Það hlýtur að vera óþolandi fyrir fyrirtæki í þessari atvinnugrein að þurfa að starfa í slíkri óvissu.
  • Það hlýtur að vera óþolandi að þurfa að sæta sérstakri skattlagningu umfram aðrar atvinnugreinar.
  • Það hlýtur að vera óþolandi að þurfa að hafa það hangandi yfir sér að hluti aflaheimilda þeirra verði hugsanlega tekinn af þeim og færður til annarra.
  • Það hlýtur að vera óþolandi að hafa þá hótun hangandi yfir sér að komist tiltekin stjórnmálaöfl til valda megi búast við því að aflaheimildir fyrirtækjanna verði gerðar upptækar eða þær þjóðnýttar.
  • Og það hlýtur að vera óþolandi að búa við óvissu um það hvort íslensk stjórnvöld muni halda um stjórn fiskveiða við Íslandsstrendur í framtíðinni.

 

Þessari óvissu þarf að eyða.  Fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa, eins og fyrirtæki í öllum öðrum atvinnugreinum, að búa við stöðugleika.  Þau þurfa að geta treyst því að þær leikreglur sem þeim er ætlað að starfa eftir séu almennar og að þær taki ekki grundvallarbreytingum til framtíðar.

x x x

Því miður verður ekki sagt að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi búið við mikinn stöðugleika á síðustu misserum.  Ég þarf auðvitað ekki að fara yfir það hér hversu mikið áfall skerðing þorskveiðiheimilda er fyrir íslenska útgerð og ekki hefur hátt gengi krónunnar gert útvegsfyrirtækjunum auðveldara fyrir.

Ég tók eftir því að minn góði flokksbróðir, sjávarútvegsráðherrann, vék að verðbólgunni og styrk krónunnar á fundinum í gær og sagði hana stafa einkanlega af hækkun húsnæðisverðs sem kæmi beint í bakið á útflutningsgreinunum og veikti stöðu þeirra.

Þetta er auðvitað rétt hjá sjávarútvegsráðherranum.

Ég vil hins vegar bæta því við að til þess að styrkja stöðu útflutningsgreinanna þurfa allir þeir sem hlut eiga að máli að taka höndum saman.  Lánastofnanir verða ekki bara að halda að sér höndum í útlánum til húsnæðiskaupa, heldur verða  ríki og sveitarfélög  auðvitað líka að gæta að sér og  ganga á undan með góðu fordæmi með því að sína ráðdeild og sparsemi.

x x x

Góðir fundarmenn.

Einn angi þessarar varnarbaráttu sem ég minntist á hér áðan birtist okkur ljóslifandi undir lok síðasta kjörtímabils.

Þá var lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga þar sem lagt var til að mælt yrði fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins að náttúruauðlindir Íslands skyldu vera ,,þjóðareign", en frumvarpið átti rót sína að rekja til ákvæða stefnuyfirlýsingar síðustu ríkisstjórnar.

Sjálfur tók ég virkan þátt í umræðu um þetta frumvarp á vettvangi Alþingis og átti sæti í sérnefnd þingsins um stjórnarskrármál sem hafði þetta mál með höndum.

Þó svo að lesa hefði mátt út úr frumvarpinu það yfirlýsta markmið flutningsmanna þess að með því væri ætlunin sú að festa í stjórnarskrá fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar varðandi nýtingu náttúruauðlinda, án þess að haggað yrði við réttindum einstaklinga og lögaðila sem njóta verndar skv. eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, má draga ýmsan lærdóm af þeirri umræðu sem átti sér stað um frumvarpið á Alþingi og í þjóðfélaginu.

Sú umræða, sem af hálfu þeirra sem aðhyllast þjóðareign á náttúruauðlindum, snérist fyrst og fremst um að kollvarpa núverandi stjórnkerfi fiskveiða.  Hún leiddi líka í ljós að meðal stjórnmálamanna úr flestum stjórnmálaflokkum virðist vera ríkur vilji til þess að haga málum með þeim hætti að náttúruauðlindirnar, þ. á. m. sjávarauðlindin, verði færðar úr höndum þeirra sem þær eiga og/eða nýta í dag og til ríkisins.

Sem betur fer varð frumvarp þetta ekki að lögum, enda var það algjörlega óhugsandi fyrir okkur, sem erum fylgjandi núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, einkaframtaki og eignarréttarfyrirkomulagi í okkar þjóðskipulagi og höfnum þjóðnýtingu hvers konar, að veita þeim aðilum sem berjast fyrir slíkri þjóðnýtingu vopn í hendur sem hefðu getað auðveldað þeim í framtíðinni að hrinda þeim fyrirætlunum sínum í framkvæmd að gera eignir manna eða réttindi upptæk, hvort sem er á grundvelli svokallaðrar ,,fyrningarleiðar" eða með öðrum leiðum, hvaða nafni sem menn vilja gefa þjóðnýtingunni.

Þó svo að hugtakið ,,þjóðareign" kunni að hljóma vel í eyrum einhverra, þá megum við aldrei gleyma því að þegar slíkt hugtak hefur verið lögfest, ég tala nú ekki um í stjórnarskrá, þá hefur það réttaráhrif.  Þau réttaráhrif geta aldrei og munu aldrei, sama hvernig á þau er litið, gera annað en að grafa undan einkaframtakinu og eignarréttarfyrirkomulaginu.

Á síðustu árum hafa átt sér stað ótrúlegar framfarir á Íslandi, sama hvert litið er.  Íslendingar hafa stigið stórkostleg framfaraskref á öllum sviðum atvinnulífsins.

Þrátt fyrir það er viðbúið að á komandi misserum og árum muni tilteknir stjórnmálamenn halda áfram að berjast fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði fest í lög eða stjórnarskrá.  Slíkar ráðstafanir myndu fela í sér stórt skref afturábak á þeirri framfarabraut sem við höfum verið á og kynni að hafa í för með sér mikið bakslag fyrir áframhaldandi vöxt og viðgang íslenskra fyrirtækja sem gera rekstur sinn út á nýtingu náttúruauðlinda.

Þar fyrir utan myndi lögfesting ákvæðis um náttúruauðlindir í þjóðareign tryggja okkur sess í hópi Suður- og Austur-Evrópuþjóða sem hafa farið þessa leið, þjóða á borð við Spán, Portúgal og Kýpur, annars vegar, og Eistland, Búlgaríu og Rúmeníu, hins vegar.

Menn geta síðan deilt um það hversu eftirsóknarverður slíkur félagsskapur getur talist í þessu sambandi.

Ég held að sú umræða sem átti sér stað undir lok síðasta kjörtímabils um lögfestingu stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á náttúruauðlindum ætti að kenna mönnum að vera ávallt á varðbergi gagnvart slíkum hugmyndum, enda eru þær ekki til annars fallnar en að veikja stöðu okkar mikilvægustu atvinnugreina, þ. á m. sjávarútvegsins.

x x x

Annar angi þessarar varnarbaráttu sjávarútvegsins sem ég nefndi hér áðan eru þær sértæku og íþyngjandi aðgerðir sem stjórnvöld hafa á síðustu árum gripið til og reynst hafa sjávarútveginum dýrkeyptar.  Þar á ég sérstaklega við úthlutun byggðakvóta, álagningu veiðileyfagjalds og svokallaða línuívilnun.

Ég hygg að fáar atvinnugreinar hafi þurft að þola jafn viðurhlutamikið inngrip í starfsemi sína frá stjórnvöldum og sjávarútvegurinn.

Ég hef alla tíð verið andsnúinn sértækum aðgerðum sem þessum, enda eru þær að mínu mati óskynsamlegar og ósanngjarnar, hvort sem er í skattalegu tilliti, frá hagfræðilegu sjónarmiði séð, jafnræðissjónarmiðum eða byggðapólitískum sjónarmiðum.

Á dögunum kynnti sjávarútvegsráðherra að hann myndi fella niður veiðileyfagjald á þorsk, tímabundið næstu tvö árin, vegna skerðingar þorskveiðiheimilda.

Þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherrans ber að fagna, eins og öðrum skattalækkunum sem ráðist er í.  Sjálfur hefði ég hins vegar viljað sjá ráðherrann ganga lengra og nota tækifærið til þess að fella gjaldið alfarið niður á alla nytjastofna.  Það hljóta allir að sjá hversu vitlaus þessi gjaldtaka er, ef þeir bara skoða hvað er til skiptanna í atvinnugreininni og hugleiða þær sveiflur sem hún býr við. 

Ég óttast hins vegar í hreinskilni sagt að sjávarútvegsráðherra muni ekki eiga þess kost að fella gjaldið alfarið niður.  Ástæðan er sú að uppi eru upp tvö ólík sjónarmið gagnvart þessari gjaldtöku meðal stjórnmálamanna.  Annars vegar sjónarmið okkar, sem viljum hana burt, og hins vegar sjónarmið þeirra sem vilja viðhalda veiðileyfagjaldinu og helst hækka það.   Eins fáránlega og það hljómar má skjóta því hér inn að fylgismenn veiðileyfagjaldsins tala á sama tíma af miklum hátíðleik um mikilvægi þess að veita fyrirtækjum í öðrum greinum, s.s. fjármálafyrirtækjum og hátæknifyrirtækjum, sérstakar skattaívilnanir vegna sinnar starfsemi!

Þeim sem þannig tala er ekki umhugað um jafnræði.  Þeir mæla fyrir mismunun.

Þó svo að eflaust muni, við meðferð veiðileyfagjaldsmálsins, koma fram kröfur um að veiðileyfagjaldið verði fellt úr gildi óttast ég mjög að á endanum verði menn að sætta sig við að niðurfellingin verði með þeim hætti sem kynnt hefur verið eða að ástandið haldist óbreytt.  Og standi ég frammi fyrir þessum tveimur valkostum, þá vel ég frekar þann fyrri. En ég vona auðvitað að talsmenn auðlindaskatts verði fyrr en síðar tilbúnir til að leggja hugmyndafræðina sína til hliðar þegar þeir sjá hversu þung byrði þetta er í raun fyrir greinina.

Það hlýtur síðan að vera framtíðarbaráttumál okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir því að:

  • Að afnema þessa sértæku og óréttlátu skattheimtu á sjávarútvegsfyrirtækin og hinar dreifðu byggðir.
  • Að afnema línuívilnun.
  • Og að afnema það fyrirkomulag úthlutunar byggðakvóta, sem gengur ekki út á neitt annað en að færa veiðiheimildir með stjórnvaldsaðgerðum frá vel reknum útgerðarfyrirtækjum, einkum á landsbyggðinni, til annarra sem standa höllum fæti.

Með öðrum orðum þurfum við að berjast fyrir því að tími hinna sértæku og íþyngjandi aðgerða gagnvart sjávarútveginum líði undir lok.

x x x

Í þriðja lagi vil ég nefna umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu sem reglulega skýtur upp kollinum.  Af fréttaskeytum síðustu daga að dæma virðast áhugamenn um aðild aftur vera farnir að láta að sér kveða, eftir að hafa legið í leyni um nokkurt skeið.

Nú vill þetta ágæta fólk fara að láta kanna hvort EES-samningurinn brjóti í bága við stjórnarskránna og vill auk þess breyta stjórnarskránni til að greiða fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa Evrópusinnar að mínu mati talað af ákveðinni lítilsvirðingu um sjávarútveginn.  Þeir hafa ítrekað sagt að þar sem vægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum skipti nú minna og minna máli sé það ekkert tiltökumál að íslensk útgerðarfyrirtæki að þurfa að lúta reglum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Mér finnst miður að íslenskir stjórnmálamenn tali með þessum hætti um eina undirstöðuatvinnugrein landsins.  Raunar ættu stjórnmálamenn ekki að tala með þessum hætti um neina atvinnugrein.

Í mínum huga kemur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki til greina. Í henni væri fólgin óþolandi óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunar á Íslandi. Þeir sem fylgst hafa með þeim að undanförnu vita að drög að stjórnarskrá sambandsins, sem felld voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi og Frakklandi og hurfu í kjölfarið af yfirborði jarðar, hafa dúkkað upp á nýjan leik. Nú í formi fjölda samninga, sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins og verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. Í þessum samningum verður endanlega staðfest, að stjórn sjávarauðlinda verður á valdi Evrópusambandsins, en ekki aðildarríkja þess. Þetta er mikilvægt fyrir okkur að hafa á hreinu, því hér dettur engum manni í hug að framselja yfirráð yfir auðlindunum til Belgíu. Það fæli í sér tilræði við íslenskan sjávarútveg.  Það vita allir sem hafa látið þessi mál sig varða, einnig þeir sem hlynntir eru aðild.  En því miður virðast þeir enn vera reiðubúnir til að fórna hagsmunum heillar atvinnugreinar fyrir þetta áhugamál sitt.

Gegn öllum slíkum áformum þarf að berjast og í þeirri baráttu þurfa útvegsmenn að taka fullan þátt.

x x x

Góðir fundarmenn.

Oft hafa menn talað eins og kvótakerfið eigi sök á öllum vandamálum landsbyggðarinnar. Ég held að nær sanni sé að kerfið hafi komið í veg fyrir algjört hrun á landsbyggðinni. Vel rekin fyrirtæki sem skila hagnaði skapa vel launuð störf, sem fólk sækist eftir að starfa hjá.  Enginn vill vinna í fyrirtæki sem á í basli, þegar nóg er að tækifærum annars staðar. Skynsamlegasta leiðin er sú að hætta að líta svo á að sjávarútvegur hafi sérstakt félagslegt hlutverk, umfram aðrar atvinnugreinar. Það hjálpar engum að sjávarútvegur á Íslandi sé rekin á félagslegum forsendum en ekki viðskiptalegum og lúti stöðugum fyrirmælum frá stjórnamálamönnum. Tímarnir hafa breyst og það þýðir ekkert fyrir okkur að lifa í fortíðinni. Fólk leitar sífellt nýrra tækifæra og það þýðir ekkert að reyna að vinna gegn því.

Umræða um þessa atvinnugrein þarf að vera uppbyggileg.  Því miður hefur hún á köflum ekki verið það. Ómálefnaleg umræða hefur leitt af sér óskynsamlegar aðgerðir, sem hafa komið niður á fyrirtækjum í greininni. Þær hafa komið niður á eigendum þeirra, starfsfólkinu, þeim sem selja sjávarútvegsfyrirtækjum þjónustu sína, íbúum í sjávarbyggðum og landsmönnum öllum.

Það er kominn tími til ljúka þeirri varnarbaráttu sem sjávarútvegurinn hefur staðið í á síðustu árum og hefja nýja sókn.

Kærar þakkir."

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta hefur verið gott eyrnakonfekt fyrir LÍU og væntanleg hefur þú fengið gott og mikið klapp í lokin . Byggðum landsins blæðir. Er það fögur framtíðarsýn að veiðiheimildir verði á einum til tveimur stöðum á landinu ,mest í Reykjavík og síðan eitthvað á Akureyri ?  Allt er þetta að safnast á færri aðila, örfáa.

Er t.d togaraútgerð okkar eitthvað til  státa af ? Af hverjum 10 fiskum sem um borð koma fara 8 þeirra í kostnað- hver er hagkvæmin?  Og það tjón sem þessar veiðar valda lífríkinu og vinna þannig að aflaminnkun , er það hagkvæmt ?

Eru línu og netaveiðar frá strandbyggðum hringinn í kringum landið ekki  árangursríkari ? Ætli það séu ekki svona 3-4 fiskar af 10 sem koma þar um borð sem fara í kostnað á þeim skipum .  Fólkið sem þessar veiðar gætu stundað frá sjávarbyggðum landsins er orðið réttlaust , rétturinn hefur verið frá þeim tekinn, fyrst gefinn fáum og síðan settu þeir það  á "frjálsan" markað. Núverandi kvóta"eigendur" greiða milljarða fyrir kvóta frá hvor öðrum og finnst það ekkert tiltökumál- en að þurfa að greiða eigandanum, samfélaginu,smá gjald fyrir afnotin- það rænir þá svefni að hugsa til þess.

  Það verður aldrei sátt um þetta kerfi í sjávarútvegsmálum-baráttan gegn því heldur áfram og minnkar ekki.

Sævar Helgason, 28.10.2007 kl. 09:26

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll frændi, þú hefur vafalaust fengið klapp á bakið fyrir þessa slöku ræðu á þeim stað sem þú fluttir hana. En þú hefðir betur sleppt því að birta þetta rugl á blogginu þínu. Ég get heldur ekki séð að það sé LÍÚ til framdráttar að samtökin sækist eftir því að fá talsmann sem enga þekkingu hefur á fiskveiðum.

Sigurður Þórðarson, 28.10.2007 kl. 14:37

3 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Okkar færustu hagfræðingar halda því fram að það sé umtalsverður ávinningur fyrir launafólk ef við göngum í Evrópusambandið og tækjum upp evru. Í fyrsta lagi myndi vaxtastig lækka og þá sérstaklega af langtímalánum. Við myndum fá mun hagstæðari kjör á íbúðalánamarkaði en nú er, t.d. geta fjölskyldur fengið lán til húsnæðiskaupa á 2,3 - 2,7% á hinum Norðurlandanna. Hér er það þrefallt dýrara, auk margskonar uppgreiðslugjalda, seðilgjalda ofl.

Í öðru lagi má búast við að neysluverð myndi lækka. Nefndar hafa verið háar tölur í þessum sambandi, 30 -50%. Þá er horft til þess að evran myndi lækka viðskiptakostnað fyrirtækjanna. Við gætum einnig átt von á samkeppni myndi opnast.Með því að fara inn í Evrópusambandið yrðum við hluti af sameiginlegri landbúnaðarstefnu og það hefði klárlega áhrif á matvælaverð hér á landi. Matvælaverð er hvergi hærra en í löndum sem liggja utan þessa markaðar það er á Íslandi, Noregi og Sviss.



Það hefur komið fram hjá mönum sem til þekkja að við munum ekki þurfa að gefa upp aflaheimildir eða veiðirétt í íslenskri lögsögu þótt við gengjum í Evrópusambandið en við munum ekki geta komið í veg fyrir að erlend sjávarútvegsfyrirtæki  fjárfesti í íslenskum sjávarútvegi. Það er í sjálfu sér það sama og okkar útgerðarmenn eru að gera í stórum stíl út um allan heim og skip frá okkur eru að veiðum um öll höf. Það er engin hætta á því að íslenskir útgerðarmenn standist ekki þeim erlendu ekki snúning. En við viljum njóta en ekkert láta frá okkur. Í þessu ljósi er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvert þú ert að fara í ræðu þinni hjá útvegsmönnum. Það virðist vera svo að þú metir meir hagsmuni útgerðarmanna en almennings og íslenskra heimila.

Guðmundur Gunnarsson, 28.10.2007 kl. 23:15

4 identicon

Sævar, mér finnst skondið að þú talir um að núverandi kvótaeigendum finnist ekkert tiltökumál að greiða milljarða fyrir kvótann, en finnist eitthvað að því að greiða "eigendanum" samfélaginu smá gjald. Fyrst og fremst þá eru þeir neyddir til að taka þátt í kerfinu. Þú verður að kaupa kvóta til að geta starfað, Þeir kaupa kvótann sem er "veiðileyfi" þeir greiða fyrir hann markaðsverð og eftir það þurfa þeir að borga meira í veiðileyfið. Samfélagið á ekki kvótann og á ekki rétt á honum. Kvóti hefur gengið kaupum og sölum í áraraðir og hafa fallið dómar er varða kvótaeign, bankar taka hann í veð og viðurkenna. Með tímanum hefur myndast hefð á kvótaeignina og ríkið með þögn sinni og þáttöku hefur samþykkt kvótann sem einkaeign. Það að halda því fram að kvótinn sé þjóðareign er jafn mikið rugl og að segja að landið sé þjóðareign, að bóndar eigi ekki landið sem þeir búi á, að þjóðin eigi landið. Það er ekki hægt að benda alltaf á þá sem eiga kvóta og segja að þeir hafi stolið honum frá þjóðinni, staðan er bara þannig að þeir hafa flestir keypt sinn kvóta og borgað vel fyrir hann, síðan hvenær er það þjófnaður eða gjöf að kaupa hluti. Það er ekki hægt að vísa í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, það er ómerkt, ég er viss um að ef þið spyrjið lögfróða menn(eins og ég hef gert) þá segi þeir ykkur að venjan sem hefur myndast sé rétthærri en þetta ákvæði, sem þýðir að kvótinn er réttmæt eign þeirra sem keyptu hann. það skal tekið fram að ég er ekki að tala með eða á móti kerfinu eins og það er, ég er bara að skoða hlutina eins og þeir eru.

mbk

Óli 

Ólafur Hannesson (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 23:28

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvernig stendur á því að háskólamenntaður þingmaður kemur spariklæddur og brosandi  inn á þing hjá LÍÚ árið 2007 og flytur ræðu sem í meginatriðum er nákvæmlega eins og ræður sem Þorsteinn Pálsson og Halldór Ásgrímsson fluttu fyrir um 20 árum síðan, í ljósi þess að reynslan af kerfinu er ekki bara hörmuleg heldur hefur verið sýnt fram á það vísindalega að líffræðilega forsendur sem menn töldu að væru fyrir kerfinu voru aldrei til? Bæði Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson höfðu þá afsökun að þeir vissu ekki betur en að það væri bara einn þorskstofn við Ísland. Já og þessi eini þorskstofn átti að hafa fastan dánarstuðul svo öllu sé til haga haldið. Í dag vita menn að þeir skipta tugum.  Getur verið að SKK sæki alla sína þekkingu í úreltar upplýsingar frá ÞP og HÁ?  Eða er þingmaðurinn viljandi að horfa fram hjá nýjustu líffræðilegu þekkingu til þess  eins að ganga í augun á LÍÚ?  Því vil ég ekki trúa.

Sigurður Þórðarson, 29.10.2007 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband