Hið meinta skeytingarleysi

Það er ekki ofsögum sagt að á undanförnum vikum og mánuðum hafi ýmsir aðilar, innan Alþingis og utan, farið mikinn í málflutningi sínum gegn frumvarpi sem ég og sextán aðrir alþingismenn úr þremur stjórnmálaflokkum flytjum.

Markmið þessa frumvarps er einfalt, það er að afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu á léttvíni og bjór.

Andstæðingar frumvarpsins hafa teflt fram ýmsum sjónarmiðum í þeirri umræðu.  Sum þessara sjónarmiða hafa verið málefnaleg, önnur ekki.

Ég ætla mér ekki hér að rekja öll þessi sjónarmið og hrekja að þessu sinni.  Það mun ég þó eflaust gera síðar.

Mér finnst hins vegar ástæða til að svara sjónarmiðum sem fram hafa komið um meint skeytingarleysi flutningsmanna frumvarpsins gagnvart áfengisvandanum svokallaða.

Efnislega hefur því verið haldið fram af andstæðingum frumvarpsins að við sem viljum afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu á léttvíni og bjór séum annað hvort blind eða skeytingarlaus gagnvart áfengisvandanum og að við gefum því böli sem þeir sem sjúkir eru af áfengissýki og aðstandendum þeirra, sem þurft hafa að þola mikið böl, engan gaum.

Þetta er ekki rétt.

Í þessu sambandi er ástæða til að ítreka það einu sinni enn, sem við flutningsmenn frumvarpsins höfum margoft haldið fram, að þó svo menn séu þeirrar skoðunar að fólk eigi almennt að hafa frelsi til þess að gera það sem hugur þeirra stendur til, svo lengi sem í þvi felist ekki bein skerðing á frelsi annarra og að sú hegðun brjóti ekki í bága við lög, þá þýðir það ekki að þeir hinir sömu loki augunum fyrir því að sumir kunni ekki með það frelsi að fara. Í því felst sú afstaða að lagareglur séu miðaðar við þarfir meginþorra fólks.  Með öðrum orðum að þeim meginþorra fólks sem er treystandi til þess að geta keypt sé léttvín og bjór í öðrum verslunum en ríkisreknum verslunum sé ekki meinað að gera það vegna þeirra sem hafa misst eða munu hugsanlega missa stjórn á neyslu sinni.

Í þessu felst að það sé ekki rétt að bregðast við þeim vandamálum sem uppi eru í þjóðfélaginu með boðum og bönnum heldur með öðrum aðferðum.

Því eigum við að takast á við vanda þeirra sem ekki kunna eða geta umgengist frelsið, í þessu tilviki, leiðast út í ofneyslu áfengis, með öðrum og ábyrgari hætti.  Það hljótum við að gera með því, annars vegar að leita skýringa á því hvers vegna fólk leiðist á glapstigu vegna áfengisneyslu og nýta þá þekkingu okkar til þess að koma í veg fyrir að það gerist með öflugu forvarnarstarfi.  Hins vegar eigum við að taka á stöðu þeirra sem áfengissjúkir eru með því að efla meðferðarúrræði.

Ég hygg að allir þeir þingmenn sem að frumvarpinu standa sem tjáð hafa sig um það á síðustu dögum vikum hafi lýst yfir einlægum vilja sínum til þess að leggja lóð sitt á vogarskálar þess að nauðsynlegt sé að efla og styrkja forvarnir vegna ofneyslu áfengis.  Öll höfum við einnig lagt áherslu á nauðsyn þess að auka aðstoð við þá sem eiga um sárt að binda vegna ofneyslu.

Við höfum hins vegar ekki verið reiðubúinn til að gefa eftir það grundvallarsjónarmið okkar að ástæða sé til að afnema ríkiseinokun og ríkiseinkasölu með þessar vörur.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband