Það verður að höfða mál gegn Bretum!

Það er mikilvægt að við gleymum ekki framferði breskra stjórnvalda gagnvart Íslendingum í íslenskum hagsmunum sem þau gripu til í byrjun október á þessu ári. 

Til þess að rifja þá atburði upp má nefna að þann 7. október sl. voru samþykkt á Alþingi svokölluð neyðarlög vegna stöðu íslensku viðskiptabankanna, Glitnis, Landsbanka og Kaupþings.  Þann 8. október frystu bresk stjórnvöld eignir Landsbanka Íslands á grundvelli hryðjuverkalaga.  Þennan sama dag gripu bresk stjórnvöld til aðgerða sem leiddu til þess að stærsta dótturfélag Kaupþings, Singer & Friedlander bankinn, varð gjaldþrota og móðurfélagið Kaupþing ógjaldfært.

Á Íslandi voru viðbrögð við þessari framgöngu breskra stjórnvalda gagnvart Íslendingum á einn veg.  Allir sem létu skoðun  sína í ljós fordæmdu framferði breskra stjórnvalda í harðlega og mótmæltu því að Íslendingar þyrftu að sæta því að vera beittir hryðjuverkalögum og væri skipað á bás með þekktum hryðjuverkasamtökum og löndum sem styðja við bakið á slíkri starfsemi.  Engu skipti hvort um stjórnmálamenn, fjölmiðla, forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja eða almenna borgara var að ræða.  Viðbrögðin voru öll á einn veg.

Á þeim tíma naut sú skoðun mikils stuðnings á Íslandi að okkur bæri að draga bresk stjórnvöld fyrir dómstóla til þess að freista þess að fá viðurkennt að þau hefðu farið offari gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum, en ekki síður til þess að sýna fram á með formlegum, táknrænum og afdráttarlausum hætti að Íslendingar sættu sig ekki við að þurfa að sæta því að bera beittir hryðjuverkalögum af annarri þjóð, sem fram til þessa hefur verið litið á sem vinaþjóð okkar.

Í fjölmiðlum fyrir helgi bárust svo fréttir af því að bresk lögmannsstofa sem tekið hefur að sér hagsmunagæslu fyrir íslenskt fyrirtæki fengi ekki nauðsynleg gögn í hendur frá stjórnvöldum til þess að hægt væri að draga bresk stjórnvöld fyrir dóm vegna framferðis þeirra.  Þá hefur sá kvittur verið á kreiki að erfiðlega hafi gengið að tryggja fjárhagslega fyrirgreiðslu vegna starfa bresku lögmannanna.  Af fjölmiðlaumfjöllun að dæma virðist sem tímafrestir sem settir eru fyrir málsókn gegn breska ríkinu séu að renna út.  Til að mynda hafi Kaupþing frest til 7. janúar næstkomandi til þess að höfða mál vegna aðgerða breskra yfirvalda gagnvart dótturfélagi bankans, Singer & Friedlander, þann 8. október.

Þessi mál komu til kasta Alþingis í umræðum á þinginu á fimmtudaginn var og tók ég þátt í þeim umræðum.

Í máli Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkismálanefndar og samþingmanns míns í þingflokki sjálfstæðismanna, kom fram að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir þeim tímafrestum sem taka þyrfti tillit til í tengslum við hugsanlegar málssóknir.  Slík yfirlýsing er mikilvæg, hyggi íslenska ríkið á málsókn gagnvart breska ríkinu.

Hins vegar er líklegra að þau fyrirtæki sem sættu með beinum hætti aðgerðum breskra stjórnvalda vilji höfða mál gegn Bretum.  Þar á ég ekki síst við Landsbanka Íslands hf., sem færður var á hryðjuverkalista breskra stjórnvalda, eða Kaupþing vegna aðgerðanna gegn dótturfélagi þess, Singer & Friedlander.

Í umræðum á Alþingi kom fram í máli Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, að ákvarðanir slíkar málsóknir væru í höndum skilanefnda bankanna.  Í yfirlýsingu sem Fjámálaeftirlitið sendi frá sér á föstudag kom hins vegar fram að ákvarðanir um málsókn væri í höndum kröfuhafa bankanna.

Vegna fyrri starfa minna og reynslu er ekki hægt að gefa sér fyrirfram hvort slík málshöfðun myndi skila árangri.  Um það er ekkert hægt að fullyrða fyrirfram.

Ég er engu að síður afdráttarlaust þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld og þær stofnanir sem undir þær heyra eigi að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að hægt verði að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna þeirra aðgerða sem þeir beittu gegn Íslendingum í krafti hryðjuverkalaganna.

Þar breytir engu í mínum huga hvort ákvörðun um málsókn eigi að vera í höndum skilanefnda bankanna eða hinna erlendu kröfuhafa.  Það er að mínu mati aukaatriði.

Það sem mestu máli skiptir er að mál verði höfðað gegn bresku ríkisstjórninni.

Með því að höfða mál gegn bresku ríkisstjórninni sýnum við Íslendingar fram á að við sættum okkur ekki við það að hryðjuverkalögum sé beitt gegn okkur eða fyrirtækjum okkar og hagsmunum.  Með því að höfða mál gegn þessum mönnum  sendum við þeim skilaboð sem þeir skilja.

Hvort sem íslenska ríkið, Kaupþing, Landsbanki eða hverjir aðrir sem hagmuni eiga höfða slíkt mál þá tel ég að íslenska þjóðin, íslenskir skattgreiðendur, sem orðið hafa fyrir miklum búsifjum, eigi rétt á því að það sé gert, því slík málsókn varðar okkur öll.

Hún skiptir líka verulega miklu máli um ásýnd þjóðarinnar.

Við viljum ekki gefa þau skilaboð út til umheimsins að við sættum okkur við þá meðferð sem við þurftum að sæta af hálfu breskra yfirvalda án þess að berjast á móti með öllum tiltækum ráðum.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Magnússon

Ef skilanefndirnar vilja ekki höfða mál þarf að skipta um skilanefndir. Næg eru tilefnin samt fyrir því, en sú niðurstaða skilanefndar Kaupþings, að það sé kröfuhafanna að standa í slíkum málaferlum er svo fráleitt bull að nefndin ætti að segja af sér að eigin frumkvæði. Það er lágmark að nefndin skilji eðli sitt.

Hitt er svo annað mál — ekki síst í ljósi þeirra sjónarmiða, sem þú setur hér fram — að þetta svokallaða Icesave-samkomulag ríkisstjórnarinnar er fráleitt, en enn fráleitari er þó afgreiðsla þingsins á þingsályktunartillögunni þar að lútandi, þar sem jafnvel breytingartillaga Péturs H. Blöndals um að bera skyldi samningana undir þingið. Og á maður að trúa því að enginn nema Pétur í hópi sjálfstæðismanna hafi haft efasemdir um hyggindi þessarar leiðar?

Ályktunin var — eins og flest önnur þingmál þessa dagana — keyrð í gegnum þingið á mettíma og það væri synd að segja að stjórnarliðar hafi gefið sig að umræðunni. Í því máli var engin sú brýna neyð, sem kallaði á þá flýtimeðferð. Stjórnarþingmenn hafa borið fyrir sig að auðvitað verði ekki hjá mistökum komist á dögum sem þessum, sem vel má vera rétt. En er ekki beinlínis verið að bjóða hættunni heim með svona vinnubrögðum? Í ljósi þeirra þýðir a.m.k. lítið fyrir þingmenn að barma sér yfir því að allt vald sé orðið hjá framkvæmdavaldinu, því þannig er ekki fyrir þeim komið nema vegna eigin uppgjafar.

Skaðinn af áfallinu var orðinn gífurlegur, en manni sýnist að tjónið af völdum rangra viðbragða, sem sigldu í kjölfarið, ætli að vera margfalt. Þar munu þessir Icesave-samningar valda mestu um, en þær drápsklyfjar eru slíkar að vandasamt er að sjá hvernig komist verði hjá þjóðargjaldþroti eftir áratug eða svo.

Eða ímynda þingmenn sér að landsmenn muni allir þola þær byrðar, sem verið er að leggja á þá að ósekju? Nei, auðvitað munu margir — einkum ungt fólk án skuldbindinga á borð við börn eða húsnæði — fremur freista gæfunnar úti í heimi en að vera í hálfgildingsánauð hér á landi í heilan mannsaldur. Við það munu byrðarnar þyngjast á þeim, sem eftir sitja, barnseignum mun fækka og lýðmengið skjótt bera dauðann í sér líkt og stefnir í á meginlandi Evrópu. Þegar byrðarnar þyngjast mun landflóttinn enn aukast og þá verður tómt mál að tala um hvernig menn ætli að verja heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið eða menntakerfið.

Þá mun landauðn blasa við, ekki vegna þess að bankamennirnir hafi hagað sér ógætilega, ekki vegna þess að herra Ólafur Ragnar hafi skálað of oft við gangsterana vini sína, ekki vegna græðgisvæðingarinnar, ekki vegna þess að Davíð hafi lokað Þjóðhagsstofnun eða aukið frelsið, ekki vegna frjálshyggjunnar eða nýfrjálshyggjunnar, ekki vegna þess að Gordon Brown er ófyrirleitinn fantur eða flest hins, sem menn hafa verið ákafastir við að nefna sem orsök áfallsins, heldur vegna hins, að ríkisstjórnin og síðan Alþingi létu kúga sig af óvinaþjóðum okkar í Evrópu.

Ætli maður endi ekki á því að benda forsetaræflinum á að það sé komin gjá milli þings og þjóðar.

Andrés Magnússon, 14.12.2008 kl. 20:43

2 identicon

Þessi þingsályktunartillaga er opinn tékki á þjóðina, kannski 250, eða 500 milljarðar? Hvergi hefur það verið upplýst. Hitt er víst að Icesave innistæðurnar voru nálægt 1.500 milljarðar (spurning um gengi). Hversu mikið þarf íslenska ríkið að ábyrgjast? Allt, eða eingöngu innistæður að hámarki 20.887 EURO. Hvað eru þær miklar? Hvað eru miklar innistæður eftir í gamla LÍ eftir að innlendar innistæður voru færðar yfir í nýja Landsbankann? Svör við þessum spurningum liggja fyrir hjá skilanefnd bankans. Hafa þingmenn þessi svör? 

Ráðherrar hafa sjálfir sagt að það taki 2-4 ár að hámarka söluvirði eigna Landsbankans. Það þýðir að vaxtarkostnaður á þau lán sem Bretar og Hollendingar lána okkur til að borga út Icesave verður mun hærri en af láni IMF, hafa þingmenn hugleitt það?

Hann er fullkomnaður niðurlægjuhátturinn gagnvart framkvæmdavaldinu ef Alþingis samþykkir þetta fyrirvaralaust. Þá þarf almenningur að fara að leita leiða til að kæra þingmenn fyrir afglöp í starfi. 

Höfundur er sjálfstæðismaður.

Sigurbjörn Svavarsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 23:09

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er fullkomlega sammála Sigurði Kára og Andrési, ekki verður betur séð en verið sé að eyðileggja málatilbúnað þjóðarinnar og það af Íslendskum stjórnvöldum. Ég tek upp orðræðu Sigurðar:

Í umræðum á Alþingi kom fram í máli Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, að ákvarðanir slíkar málsóknir væru í höndum skilanefnda bankanna. Í yfirlýsingu sem Fjámálaeftirlitið sendi frá sér á föstudag kom hins vegar fram að ákvarðanir um málsókn væri í höndum kröfuhafa bankanna.

Hér vísa Bakkabræður hver á annan. Maður getur ímyndað sér að svona sé ástandið á Kleppi. Ef stjórnvöld ætla að ganga fram með þeim hætti sem ótti manna stendur til, ætla ég að vona að við fáum Franska byltingu í landinu og að fallöxin fái nóg að starfa.

Loftur Altice Þorsteinsson, 14.12.2008 kl. 23:21

4 identicon

Alveg sammála þessum sjónarmiðum hjá þér.  Hef sjálfur bloggað um þessi mál, að vísu kvað ég mun sterkar að orði, endi get ég leyft mér það þar sem ég er bara venjulegur Jón Jónsson en ekki "opinber" persóna.

Blástu nú hermóði í brjóst annarra alþingismanna, annars fellur þetta mál á tíma, það væri sorglegt. 

Sigfús Austfjörð (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 00:17

5 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þú ert þingmaður stjórnarflokks.  Gerðu þá eitthvað í þessu!

Páll Geir Bjarnason, 15.12.2008 kl. 10:34

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef þið ekki höfðuið mál, megið þið snefilmenni nefnast það sem eftir lifir af búsetu hér á landi.

Um ykkur mun sagt, að þar haf farið saman í einni lest, hvað lélegasti hópur barna landsins, sem hægt hafi verið að hóa saman.

Þiið sögðuð okkur EKKI úr lögum við Breta.

Þið sögðuð okkur EKKI frá samstarfi um vöktun norðurhjarans við NATO.

Þið sömduð við kvalara okkar í Icesave málinu, sem nú liggur fyrir að voru handvöm ótrúleg.  Frakkar segjast EKKI ætla að borga kvint umfram það sem er í tryggingasjóðum bankana sem fóru á hausinn fyrir svona um hálfum mánuði og voru með svona net-hávaxtareikninga.

Svo leyfir Geir sér að segja í fjölmiðlum, að ENGIR HAFI GEGNIÐ TIL LIÐS VIÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN!!!!!!

Hvar ólst hann upp??  Allir sem ég þekki gegnu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn VEGNA ÁHERSLU HANS Á SJÁLFSTÆÐI ÞJÓÐARINNAR OG EINSTAKLINGA ÞESS!!!

Við gengum inn í Flokkinn tila ð styðja FRELSI og SJÁLFSTÆÐI með aðild að NATO og svo framvegis.

Farðu yfir þetta með Geir.

Miðbæjaríahldið

Bjarni Kjartansson, 15.12.2008 kl. 11:08

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Auðvitað!".............af hverju er ekki búið að því?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.12.2008 kl. 02:55

8 identicon

Sá sem ekki stendur upp og ver sig, þó að sigur vinnist ekki er vesalingur sem ekki nýtur virðingar nein staðar.  Nógu aumt er okkar orðspor svo að það spyrjist ekki um okkur að við höfum merarhjarta líka.

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 23:16

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Frábært hjá þér Sigurður og hinum fjórum að krefjast þess, að Alþingi tryggi fjármögnun málarekstrar gegn Bretum. Sjáumst á Landsfundinum eða fyrr.

Kveðja.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2008 kl. 23:59

10 identicon

Sammála Sigurður og ánægjulegt að frumvarpið sé smíðar og lagt fram á þverpólitískan hátt.  Það eykur vonandi tiltrú almennings að það sé vottur af einhverri sameiningu við að verja hagsmuni þjóðarinnar sem og að bjarga okkur út úr krísunni.  En vanda þarf hér vel til verka sem ég efast ekki um að þið félagarnir gerið.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 09:31

11 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Brotna Bretarnir ekki við það eitt að heyra minnst á Mr G Kjærnested? Ægir, Þór og Óðinn? Týr gæti líka verið eitthvað ógnvekjandi nafn í þeirra eyrum.

 Mynd af Þorskhausum gæti svo verið dropinn sem upp á vantar til að ótta mælir þeirra gagnvart Íslendingum gæti fyllst.

Ef þessi ,,dippló" leið dugar ekki þá er ekki spurning um að ,,þorsk"höfðamál gagnvart þessum Brúnu darlingum.

Bestu jólakveðjur til þín og þinna.

Vona svo að þú farir að geta fengið þér sæti við Tjarnargötuna og eða gengt Lækjartorgi

Kjartan Pálmarsson, 17.12.2008 kl. 09:35

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góðra gjalda vert að hvetja til málsóknar gegn Bretum. En ætli sú málsókn verði ekki fremur léttvæg fundin enda voru bresk yfirvöld búin að reyna töluvert en án árangurs að koma á vitrænum viðræðum við íslensk stjórnvöld. Símasamtal þeirra fjármálaráðherranna Alistar Darling við hinn íslenska starfsfélaga sinn er grátleg heimild um hversu barnaleg svörin voru hjá okkar manni.

Því miður er eins og íslenska ríkisstjórnin hafi ekki verið tilbúin að taka nægjanlega snemma á þessum erfiðu málum. Það er ekkifyrr en allt er komið í vitleysu. Af hverju gaf Fjármálaéftirlitið út yfirlýsingu um að bankarnir íslensku stæðust álagspróf? Nokkrum vikum seinna hrundu þeir eins og hver önnur spilaborg. Var Fjármálaeftirlitið notað til að blekkja þjóðina?

Einu sinni kvað Sigurður Líndal vera hlutverk sitt í Lagadeild Háskóla Íslands að forða þjóðinni frá lélegum lögfræðingum. Því miður tókst honum ekki sú köllun, í þjóðfélaginu vaða uppi margir lögfræðingar sem ekki hugsa nógu vel um almannahagsmuni en skara vel að sinni köku.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 18.12.2008 kl. 09:00

13 identicon

Er eitthvað til í þessu Sigurður Kári?http://www.amx.is/fuglahvisl/1349/

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband