Al Gore

Í morgun sótti ég fyrirlestur Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, um hlýnun jarðar í Háskólabíói.

Umgjörð fyrirlestrarins var öll hin glæsilegasta og skipuleggjendum, Glitni og Háskóla Íslands, til mikils sóma.

x x x

Það má Al Gore eiga að hann er góður fyrirlesari.  Hann kann svo sannarlega að koma fyrir sig orði og setur skoðanir sínar fram á áhrifaríkan með aðstoð nýjustu tölvutækni frá Apple tölvufyrirtækinu, sem Gore situr í stjórn hjá, eins og hann kom rækilega á framfæri í fyrirlestri sínum.

x x x

Fyrirlestur Gore byggði í öllum meginatriðum á skoðunum sem hann setur fram í mynd sinni ,,An Inconvenient Truth", þó svo að fyrirlesturinn hafi tekið einhverjum breytingum, til dæmis varðandi spár hans um breytingu á hafstraumum, þar á meðal Golfstraumnum.  Hann studdist hann við sömu brandarana og hann notar í myndinni.  En þar sem þeir voru góðir og krydduðu fyrirlesturinn og gæddu hann lífi er engin ástæða til að gera athugasemd við það.

Í stuttu máli má segja að sú mynd sem Al Gore dró upp af stöðu umhverfismála á jörðinni sé afar dökk, svo ekki sé meira sagt, þó hann telji að enn sé ekki of seint að bregðast við þeirri vá sem hann telur steðja að jarðarbúum með hlýnandi loftslagi, bráðnun jökla, breyttu dýralífi, útbreiðslu sjúkdóma og svo mætti lengi telja.  Og ég heyrði ekki betur en að Ólafur Ragnar Grímsson, stórvinur Gore, hafi tekið undir skoðanir hans í upphafsávarpi sínu.

x x x

Sá málstaður sem Al Gore heldur fram í fyrirlestri sínum er auðvitað göfugur, en hann felur í sér áskorun um að stjórnvöld og einstaklingar gangi betur um Jörðina, grípi til aðgerða til þess að bjarga henni frá ofhlýnun, sem hann telur vera á næsta leiti, og þeim náttúruhamförum sem fylgja munu í kjölfarið.

x x x

Auðvitað hljóta allir að taka undir það með Al Gore að mannkynið á að ganga vel um Jörðina og gera sem minnst til þess að spilla henni.

En þó svo að málstaður Gore sé göfugur og settur fram með áhrifaríkum hætti er ég þeirrar skoðunar að taka beri ýmsu af því sem þar kemur fram með fyrirvörum.  Gore er auðvitað stjórnmálamaður og í pólitík.  Hann notar sterk lýsingarorð til að styðja málsstað sinn, hugsanlega sterkari en alltaf er innistæða fyrir, og beitir alhæfingum sem sýnt hefur verið fram á að standist ekki allar skoðun.  Samt sem áður hefur hann á stundum verið tregur til að draga þær til baka.

x x x

Þegar ég hlustaði á Al Gore flytja fyrirlestur sinn staðnæmdist ég við eitt grundvallaratriði sem hann hélt fyrirvaralaust fram.  Hann sagði að jörðin væri að hlýna og að hlýnunin væri hröð.  Maðurinn bæri þar ábyrgð.  Um það væru allir vísindamenn sammála og því óþarfi að ræða málið frekar eða gera um það ágreining.

Þetta er alhæfing sem ástæða er til að gera alvarlegar athugasemdir við.  Ég trúi því að minnsta kosti ekki að Háskóli Íslands, einn aðstandenda fyrirlestrarins, geti tekið undir slíka alhæfingu.

Eitt heilagasta hlutverk háskóla og fræðimanna sem þar starfa er að setja fram kenningar sem meðal annars fela í sér gagnrýni á viðteknar skoðanir í hverju samfélagi.  Rannsóknir og fræðastörf í háskólum ganga síðan út á að rökstyðja þá gagnrýni og sýna fram á réttmæti þeirra.  Það má halda því fram með býsna góðum rökum að hefðu fræðimenn á öllum tímum ekki sett fram slíka gagnrýni, gert ágreining um viðteknar skoðanir og byggt á þeim kenningar þá hefðu framfarir í heiminum verið heldur minni en raunin hefur orðið.

Kenningar Al Gore og þeirra vísindamanna sem hann byggir málflutning sinn á eru ekki yfir gagnrýni hafnar.  Þær byggja á vísindum sem eru flókin og oft á tíðum ónákvæm.  Og þær ber að ræða eins og hver önnur mál.  Þess vegna finnst mér ástæða til að gera athugasemdir við viðhorf Al Gore til slíkrar gagnrýni á þær kenningar sem hann setti fram í fyrirlestri sínum.

x x x

Að lokum vil ég nefna að þó svo að framsetning Al Gore á kenningum sínum um hlýnun jarðar hafi verið áhrifaríkar í Háskólabíói í dag, þá er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort þær séu réttar, enda held ég að almennt finni fólk ekki fyrir þessum hitabreytingum á eigin skinni í sínu daglega lífi.

Sem dæmi um þetta má nefna að janúarmánuður þessa árs var sá kaldasti á Grænlandi í 20 ár.

Um daginn voru sagðar fréttir af gríðarlegu fannfergi í héruðum Þýskalands þar sem undir venjulegum kringumstæðum væri farið að vora.

Snjóþyngsli hér á Íslandi þennan veturinn hafa verið með mesta móti.  Öll skíðasvæði standa landsmönnum opin og Austfirðingar eru meira að segja farnir að kvarta undan of miklum snjó.

Ég var sjálfur í París nú um helgina og þar sjóaði á sunnudaginn.

Og er það ekki kaldhæðni örlaganna að nú að kvöldi þess dags sem Al Gore hélt fyrirlestur sinn um hlýnun jarðar í Háskólabíói snjóar sem aldrei fyrr hér í Vesturbænum?

Og það þrátt fyrir að það sé kominn 8. apríl!

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi "Global Warming" umræða finnst mér vera orðin fremur ýkt. Fyrst og fremst þarf fólk að athuga hvernig hitastig á jörðinni hefur verið síðan hitastigs-mælingar hófust og skoða svo hvernig hitastig "mögulega" hefur verið í gegnum jarðsöguna samkvæmt borkjarnaprófunum, setlaga-mælingum osfrv. Það kemur augljóslega í ljós að síðan plöntur urðu fyrst til, fyrir c.a 300.000.000 milljónum árum síðan, hefur hitastig í heiminum rokkað upp og niður og telst það því náttúrulegt.

Iðnvæðingin í heiminum á í raun rætur sínar að rekja til enska samfélagsins sem breytti sínum atvinnuháttum frá því að vera landbúnaðarþjóð yfir í það að vera iðnþjóð á árunum 1750-1850. Þær hitasveiflur sem hafa átt sér stað, síðan þessi breyting átti sér stað, má í raun kalla óverulegar í ljósi þeirra hitasveiflna sem hafa átt sér stað í gegnum jarðsöguna.

Það magn CO2 sem við jarðarbúar spýjum inn í andrúmsloftiði okkar er í raun bara brotabrot af því náttúrulega magni af CO2 í andrúmsloftinu og aðeins brot af brota/broti af þeim efnum sem andrúmsloftið er samansett úr. Annað sem fólk verður að gera sér grein fyrir er sú staðreynd að jarðeldsneytisforðinn í heiminum (á ég þá fyrst og fremst við olíu) er ekki endalaus. Su staðreynd tel ég vera meginástæðuna fyrir aukinni umfjöllun og fjármagns-innstreymi í þennan málaflokk (þ.e.a.s umhverfis-málaflokkinn). Það kæmi mér alls ekki á óvart að þeir menn sem standa á bak við þessa auknu umræðu séu í raun þeir menn sem eiga alla olíuna og séu að búa sig undir að okur-verð á olíu (sem mun hækka verulega næstu árin) er ekki það eina sem hægt er að græða á. Gott er að vera vel undirbúinn fyrir nýja tíma!!!!

Það er ótrúlegt hvað hægt er að rugla fólk með þessari umræðu og þá sérstaklega af mönnum eins og Al Gore. Hann er alveg örugglega ágætur maður og á ekkert nema gott skilið fyrir þá vakningu sem hann hefur komið í gang varðandi umhverfismál. En hann virkar nokkuð klár að því leitinu til að þar sem forsetastóllinn hvarf úr hans augsýn þá var um að gera að henda sér á næsta mál á dagskrá, nefninlega umhverfismálin sem voru og eru hvað vinsælasti málaflokkurinn þessi misserin. Þetta er nefninlega bara enn einn pólitíski málaflokkurinn!!!

Þeir peningar sem er verið að ausa í þennan málaflokk ættu að nytast í betur og bendi ég á bók eftir danska hagfræðinginn Björn Lomborg, The Skeptical Environmentalist. Þar eru ýmsar góðar hugmyndir um hvernig nýta megi þá peninga sem settir eru í þennan málaflokk og hvernig forgangsröðun þeirra ætti að vera. Einnig ætti að taka meira mark á öðrum vísindamönnum en þeim 2500 (eða hvað þeir voru nú margir) sem Gore vitnar í. Það eru nefninlega mun fleiri kenningar á reiki varðandi upphitun andrúmsloftsins og það eru mun fleiri breytur sem stuðla að því heldur en þessi vinsæla CO2 breyta.

Kær kveðja

Sverrir Steinn Sverrisson (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 05:55

2 Smámynd: Gísli Einarsson

Mér finnst með ólíkindum að jafn menntaður og hátt settur maður eins og Sigurður Kári skuli véfengja þá vísindalegu staðreynd að hitastig jarðar hafi hækkað langt upp fyrir meðaltal síðustu hundruð þúsundir ára með því að vitna til nokkurra dæma um snjókomu á liðnum vetri og með því að segja að almennt finnist fólki ekki vera heitara en venjulega.  Þetta hlýtur að vera skrifað í algjöru hugsunarleysi hjá honum og ég bara skil ekki að hann skuli geta sagt þetta, nýkominn af einstaklega vel gerðum og skýrum fyrirlestri (á ensku að vísu) sem dregur saman gríðarlegt magn vísindalegra rannsókna og gerir þær aðgengilegar. Að ætla að hans persónulegu athuganir á veðri síðasta veturs séu á einhvern hátt gögn sem nægja til að véfengja mælingar sem vísindamenn hafa dvalið mánuðum saman við boranir á jöklum við að afla, er hugsanavilla sem ég á ekki von að sjá hjá einstaklingi sem er kominn svona langt í þjóðfélaginu.  Ég legg til að Sigurður Kári segi sig tafarlaust úr Menntamálanefnd Alþingis þar sem hann hefur svona litla trú á vísindalegum rannsóknum, sem eru undirstaða þess kennsluefnis raunvísinda sem kennd eru í skólum á Íslandi.

Gísli Einarsson, 9.4.2008 kl. 08:03

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Gísli vísindin ganga út á það að spyrja gagnrýnna spurninga og véfengja "staðreyndir".   

Sigurjón Þórðarson, 9.4.2008 kl. 09:16

4 identicon

Sigurjón, efasemdir um hlýnun jarðar eru í sama flokki og efasemdir um þróunarkenninguna.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 10:52

5 Smámynd: Þarfagreinir

Að lokum vil ég nefna að þó svo að framsetning Al Gore á kenningum sínum um hlýnun jarðar hafi verið áhrifaríkar í Háskólabíói í dag, þá er ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort þær séu réttar, enda held ég að almennt finni fólk ekki fyrir þessum hitabreytingum á eigin skinni í sínu daglega lífi.

Núnú? Þá spyr ég á móti - finnur fólk almennt séð fyrir afstæðiskenningunni í sínu daglega lífi, svo dæmi sé tekið?

Kenningar Al Gore og þeirra vísindamanna sem hann byggir málflutning sinn á eru ekki yfir gagnrýni hafnar.  Þær byggja á vísindum sem eru flókin og oft á tíðum ónákvæm.  Og þær ber að ræða eins og hver önnur mál.

Það er alveg rétt hjá þér, Sigurður Kári, að þessi vísindi eru ekki yfir gagnrýni hafin, frekar en önnur, en sú gagnrýni sem þú beitir hér er því miður yfirborðskennd og afvegaleidd í meira lagi. Lélegt innlegg í þá umræðu sem þú segir nauðsynlega.

Hér gætir síðan mótsagnar. Þú segir að kenningarnar byggi á vísindum sem eru flókin - en samt segir þú að þær beri að ræða 'eins og hver önnur mál'. Þá með því þá að einfalda hlutina, eins og þú gerir? Hluti sem þú segir sjálfur flókna? Þetta skil ég ekki alveg, satt best að segja.  

Má vera að þú eigir önnur rök uppi í erminni, en í besta falli hlýtur það að líta afskaplega illa út þegar þú nefnir ekkert fleira en yfirborðskenndar athugasemdir um veðurfar máli þínu til stuðnings í jafn tiltölulega löngum pistli og þessi er.

Ég var einmitt að ljúka við skrif pistils um þessi mál í víðu samhengi,
og tel ég fulla ástæðu til að hvetja þig til að lesa hann. Pistillinn sem Óli Gneisti vísar til hér fyrir ofan, þykir mér síðan góður, og mæli ég því einnig með honum.

Reynum nú að vera fullorðið fólk og koma þessari umræðu upp úr sandkassanum. 

Þarfagreinir, 9.4.2008 kl. 12:40

6 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sveifur í sólarorku og sólgos ráða miklu um hitabreytingar.  Sú orka sem sólin framleiðir á einni sekúndu myndi duga mannkyninu í 10 milljónir ára miðað við núverandi orkunotkun.  Auðvitað verðum við að taka mark á vísindamönnum en það er nú bara þannig að síðan ég man eftir mér þá hafa þeir alltaf verið með dómsdagsspár út af hinu og þessu. Hræðsla við tortímingu er okkur eðlislæg.

Þorsteinn Sverrisson, 9.4.2008 kl. 15:24

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Síðast var að bresta á með ísöld, nú á jörðin að fara að stikna...og ísaldarraddir einnig farnar að heyrast aftur...vitleysan gengur í hring eftir hring.

Þykir mun meira til raka þeirra vísindamanna er tengja núverandi(umdeilda) hlýnun við sólbletti og gos, eitthvað sem hefur alltaf haft áhrif á hitasveiflur, en þá hræðslusölumennsku þar sem einn snjallasti og útsmognasti sölumaður jarðar fer fremstur í flokki.

Guði sé lof að enn skuli vera til fólk sem þorir á móti straumi og spyrja gagnrýninna spurninga, þann dag sem " Vísindalegar staðreyndir " verða keyptar gagnrýnislaust er illa komið, fátt er breytilegra en "staðreyndir" vísindanna, "sannleikur " gærdagsins reynist ansi oft bábilja gærdagsins eins og sagan kennir okkur svo reglulega.

Georg P Sveinbjörnsson, 9.4.2008 kl. 20:39

8 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Um rökleysur þingmannsins knáa.  Sjá nánar:

http://esv.blog.is/blog/esv/entry/501687/

Einar Sveinbjörnsson 

Einar Sveinbjörnsson, 9.4.2008 kl. 22:44

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Óli Gneisti, það má þá gagnálykta að þeir sem trúa á Biblíuna geti ekki verið sammála Al Gore.

Sigurjón Þórðarson, 9.4.2008 kl. 23:33

10 identicon

Sigurjón, ath # 3 er að sjálfsögðu rétt hjá þér. Það er sennilega mesti akkur vísindalegrar aðferðar að varast skuli að fullyrða að neitt sé staðreynd, heldur nefna það frekar kenningar. Kenning þarf ekkert að verða að staðreynd til þess að hún sé meðtekin sem eins vel sönnuð og þörf er á til þess að fara að vinna eftir henni frekar en eftir einhverri annarri kenningu. Ef það á að bíða með aðgerðir þar til hin fullkomnlega sannaða kenning lítur dagsins ljós þá gerist ekki neitt. Sumir freistast til að nota orðið staðreynd, eða "fact" á ensku þegar þeir eru í raun að tala um kenningu sem er farin að líta mjög vel út. Hinsvegar getur kenning verið byggð á staðreyndum sem er ekki hægt að véfengja, þó að það sé hægt að draga í efa það að tiltekin kenning hafi verið smíðuð upp úr staðreyndunum. Það eru þessar staðreyndir um hitabreytingar sem Sigurður Kári er að véfengja, ekki kenninguna um hlutverk mannkyns í  þeim efnum.  Það er þetta sem ég geri sterka athugasemd við hjá manni sem á að bera mikla ábyrgði í íslensku samfélagi.

Til þess að vísindaleg aðferð sé sem heilbriðgust þarf að vera til vísindafólk sem er tilbúið að setja sig upp á móti ríkjandi kenningum enda hafa margar slíkar orðið að láta í minni pokann á endanum. En það þarf að gera það með vísindalegum rökum, sem annað vísindafólk getur síðan gagnrýnt á móti, t.d. eins og Björn Lomborg hefur heldur betur fengið að kynnast.   Aftur á móti tel ég að vísindafólk sé jafn mannlegt og við hin og það hlýtur að verið erfitt og lýjandi að berjast gegn ríkjandi kenningum og auðveldara að fylgja straumnum.  Mín persónulega skoðun er hinsvegar sú að samfélag vísindafólks sé ekki eins tilbúið að krossfesta þá sem dirfast ráðast gegn ríkjandi skoðun eins og mörg önnur samfélög.

gisli Einarsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 00:50

11 identicon

Er eðlilegt að formaður menntamálanefndar alþingis tali af svo mikilli vanþekkingu um vísindaleg málefni?

 http://skodun.is/2008/04/09/visindakennsla-fyrir-haegrimenn/ 

Sigurður Hólm Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 07:09

12 Smámynd: Morten Lange

Hvað segirðu Sigurður Kári ?

Einhver svör við athugasemda Einars, (8) Óla (4),  Gísla (2 og 10)  eða Þarfagreinis (5)?

Morten Lange, 10.4.2008 kl. 09:35

13 identicon

Óli Gneisti, það má þá gagnálykta að þeir sem trúa á Biblíuna geti ekki verið sammála Al Gore.

 Hvað í ósköpunum áttu við Sigurjón? Lastu pistilinn sem ég vísaði á?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 09:55

14 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gísli:
Ófáir mun betur menntaðir menn í þessum fræðum en ég, þú og Sigurður Kári til samans hafa miklar efasemdir um ríkjandi kenningar um hlýnun jarðar og/eða orsakir hennar eins og t.d. má lesa um hér.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.4.2008 kl. 11:06

15 Smámynd: Óli Jón

Það sannar lítið að benda á snjókomu í einn dag sem meiriháttar afsönnun þess sem Al Gore heldur fram. Ef horft er til eins dags í einu má yfirleitt ekki sjá miklar sveiflur í neinum málum. Ég er t.d. nokkuð viss um að ef gengið íslensku krónunnar væri skoðað í einn dag, væru engar vísbendingar að finna í þeirri könnun að hún hefði gefið stórkostlega eftir undanfarna mánuði. Menn velja sér sinn sjónarhól, þannig er það bara. En það er skrýtið hvernig últra frjálshyggjumenn virðast, svona upp til hópa, velja það að standa með 'big business' gegn náttúrunni. Hvað veldur þeim fjára?

Ég skora á einhvern skíðamann að segja frá reynslu sinni hvað varðar skíðafæri í Bláföllum á undanförnum 30 árum. Þegar ég var krakki finnst mér eins og það hafi verið opið í fjöllunum allan veturinn, rútur voru í stöðugum ferðum og troðarar linnulítið í gangi til þess að hemja nýfallinn snjó. Í dag er staðan sú að menn virðist heppnir ef hægt er að telja opnunardaga á heilum vetri á fingrum beggja handa.

Líklega eru skíðamenn þó í góðum málum ef aðeins er horft á þennan eina dag sem Mogginn greindi frá um daginn. Einn dagur virðist vera prýðilegur mælikvarði og skíðamenn ættu að þegja, því það er alltaf nægur snjór í fjallinu, allt árið um kring!

Óli Jón, 10.4.2008 kl. 11:38

16 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Ég vona að engin sé að bendla mér við hægri menn þó að ég sé ekki að kaupa hræðsluáróðurinn einn tveir og þrír, er hvorki til hægri né vinstri og hef skömm á slíkum flokkunum.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.4.2008 kl. 16:46

17 Smámynd: Gísli Einarsson

Hjörtur #14. Þú ert að vísa til þeirra kenninga um að hnattræn hlýnun sé af manna völdum.  Ég hef í mínum athugasemdum hér ekki tekið afstöðu til þeirra kenninga.  Það sem mér blöskraði í skrifum Sigurðs Kára var að hann skyldi véfengja mælingar vísindafólks sem hafa sýnt fram á að nú sé heitara á jörðinni að meðaltali en síðustu hundruð þúsundir ára. Máli sínu til stuðnings nefndi Sigurður nokkur dæmi um að veður væri kaldara en venjulega á nokkrum stöðum í heiminum. Sigurður Kári er að mínu mati að segja að vísindafólk (þám Íslendingurinn Sigfús Johnsen) sem hafi árum saman við erfiðar aðstæður rannsakað veðurfar jarðarinna hundruði þúsunda ára aftur í tímann hafi í raun verið að vinna til einskis.

Það sem þú nefnir, að margir vísindamenn séu ósammála kenningunni um að hnattræn hlýnun sé af manna völdum finnst mér bara eðlilegt í ljósi þess að ég tel jákvætt að vísindamenn séu ekki alltaf sammála um kenningar sem hafa verið settar fram.  Án þess að ég hafa skoðað það neitt sérstaklega mikið þá sýnist mér vísindasamfélagið í stórum dráttum vera að fylkja sér á bak við kenninguna um að hnattræn hlýnun sé af manna völdum.  Ég persónulega vona að það verði alltaf til vísindafólk sem sé tilbúið að mótmæla vinsælum kenningum (með rökum og gögnum) og að vísindasamfélagið líti á það sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut.

Gísli Einarsson, 10.4.2008 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband