Málfrelsi dómara

haestiretturÞað er auðvitað sjálfsagt að dómarar tjái sig í meira mæli um lögfræðileg álitaefni á opinberum vettvangi en þeir hafa gert fram til þessa.  Slíkt er nauðsynlegt til þess að almenningur fái betri skilning og innsýn í störf dómara og skilji betur hvaða viðhorf liggja að baki þeim niðurstöðum sem þeir komast að í sínum mikilvægu störfum.

Í Fréttablaðinu í dag koma þau viðhorf sem ég hef hér lýst fram í merkilegu viðtali við Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómara, viðhorf sem ég tel fulla ástæðu til að taka undir.

Í viðtalinu kemur einnig fram sú skoðun hæstaréttardómarans að það sé sjálfsagður hlutur að almenningur þekki til þeirra sem með dómsvaldið fara og viti hvaða grundvallarhugmyndir þeir hafa um starfið sem þeir sinna.  Þetta er auðvitað laukrétt hjá Jóni Steinari.  Má raunar taka dýpra í árinni en hæstaréttardómarinn gerir og halda því fram að það geti beinlínis verið nauðsynlegt að slíkar grundvallarhugmyndir dómara liggi fyrir, enda er hlutverk þeirra mikilvægt í okkar stjórnskipun.

Eins og fram kemur í viðtalinu þá hefur þeirri hefð verið fylgt um langt skeið að dómarar taki ekki þátt í opinberri umræðu um lögfræðileg álitamál.  Hefur verið talið að þögnin og fjarlægðin skapi dómstólunum og þeim sem þar starfa traust og virðingu.  Rökin fyrir þessari hefð er líklega sú að dómarar eigi að vera yfir það hafnir að vera þátttakendur í dægurþrasi og að þeir dómar sem þeir kveða upp eigi að tala sínu máli.

Vandinn er hins vegar sá að stundum gerist það að dómar eru ekki nægilega skýrir og stundum kann að vera óljóst á hvaða forsendum niðurstöður þeirra byggja.  Eins og fram kemur í viðtalinu við Jón Steinar á þetta ekki síst við þegar spurningar vakna um það hvers vegna tiltekinn brotamaður fær ekki þyngri refsingu en raun ber vitni í niðurstöðu dómstólsins og undir slíkar spurningar og vangaveltur er tekið í fjölmiðlum.

Við slíkar aðstæður er ástæða til að taka undir með hæstaréttardómaranum að ef dómarar skýra ekki niðurstöður sínar og þær forsendur sem að baki þeim liggja þá er ekki loku fyrir það skotið að slíkt leiði til þess að það traust sem almenningur ber til dómstólanna bíði hnekki, en nýleg könnun Capacent sýnir að almenningur beri lítið traust til dómstólanna.

Við þeirri stöðu þarf að bregðast og það er ástæða til að taka undir með hæstaréttardómaranum að ein leið til þess er sú að dómarar tjái sig i meira mæli um dómstörfin á opinberum vettvangi en þeir hafa gert fram til þessa.

Að minnsta kosti er vandséð hvaða hagsmunum kann að vera raskað verði það gert.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður Kári

Já það vantar að meira  frá Jóni Steinari, það að gera hann að Hæstaréttardómara þaggaði alveg niður í honum. Ég hef verið að bíða eftir því að hann dæmdi samkvæmt sinni samfæringu og dæmdi innflytjanda á eiturlyfjum  í væga refsingu, þar sem hann vildi  lögleiða eiturlyf á Íslandi áður en hann var gerður að Hæstaréttardómara. Og svo væri gaman að heyra hann rökstiðja dóminn.

Með kveðju

Jón H.

Jón H (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband