Ríkið í samkeppni við einkaaðila

Haustþinginu hér á Alþingi lauk í dag.

Við upphaf þingfundar í morgun ákvað ég að ræða við Kristján L. Möller, samgönguráðherra, um starfsemi Íslandspósts hf.

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar rætt málefni Íslandspósts hf., bæði á Alþingi og ekki síður í pistlum á þessari heimasíðu.

x x x

Áhugi minn á starfsemi Íslandspósts hf. er ekki nýr af nálinni.  Ástæðan er sú fyrir að undanfarið hefur mér fundist Íslandspóstur hf. ganga allt of langt í því að vinna ný lönd með því að sækja með starfemi sína inn á nýja markaði og hafið þar samkeppni við einkaaðila sem fyrir hafa verið.

Nú væri í sjálfu sér ekkert við slíkt að athuga ef Íslandspóstur hf. væri eins og hvert annað hlutafélag.  Svo er hins vegar ekki.

x x x

Þó Íslandspóstur hf. sé hlutafélag að forminu til þá er félagið að öllu leyti í eigu ríkisins.  Íslandspóstur hf. er því að mínu mati hreinræktað ríkisfyrirtæki.

Hlutverk Íslandspósts hf. hefur fram til þessa fyrst og fremst verið það að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónstu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og nýtur í ofanálag einkaleyfis samkvæmt lögum til þess að veita þá þjónustu, a.m.k. að hluta.

x x x

Í mínum huga er alveg skýrt að ríkisfyritæki eins og Íslandspóstur hf. á ekki víkka starfssemi sína út fyrir þá kjarnastarfsemi sem því er ætlað að sinna og alls ekki að stunda samkeppni við einkaaðila á markaði undir verndarvæng ríkisins, enda sér hver maður að samkeppnisaðstaða einkarekinna fyrirtækja við slíkar aðstæður getur aldrei talist jöfn eða sanngjörn.

Ég hef áður gagnrýnt stjórnendur Íslandspóst hf. fyrir kaup félagsins á prentsmiðjunni Samskipti.  Með þeim kaupum blandaði Íslandspóstur hf. sér í samkeppni á prentmarkaði, sem er markaður sem einkaaðilar hafa fram til þessa séð um að þjónusta.

Í september á síðasta ári bárust síðan fréttir af því að Íslandspóstur hf. hefði hafið smásöluverslun með ritföng.  Þau umsvif Íslandspósts hf. gagnrýndi ég einnig, enda fæ ég ekki séð að það sé hlutverk ríkisins að reka ritfangaverslun.

x x x

Á forsíðu Fréttablaðsins í gær birtist síðan frétt þess efnis að ríkið undirbyggi nú samkeppni við einkaaðila í flutningum.  Í fréttinni kom fram að Íslandspóstur hf. hefði útvíkkað hlutverk sitt og starfaði nú m.a. sem fyrirtæki í flutninga- og samskiptaþjónustu.

Í fréttinni er haft eftir forstjóra Íslandspósts hf. að ákveðið hefði verið að útvíkka starfsemi fyrirtækisins verulega, m.a. með uppbyggingu nýrra pósthúsa, til þess að auka samkeppnishæfni þess við einkaaðila á flutningamarkaði.

Það má því segja að stjórnendur félagsins séu trúir kjörorði þess "Pósturinn - alla leið!" og hyggist nú ganga enn lengra í þeirri viðleitni sinni að vinna ný lönd og nýja markaði.

x x x

Þessi frétt varð til þess að ég ákvað að ræða um starfsemi Íslandspósts hf. við Kristján L. Möller, samgönguráðherra, á Alþingi, því ég vildi fá upplýsingar um það hvort samgönguráðherrann væri hlynntur því að ríkið væri í þann mund að hefja samkeppni við einkaaðila í flutningum.

Samgönguráðherrann tók hins vegar það ómak af mér að spyrja þessarar spurningar, því í viðtali Fréttablaðsins við ráðherrann í dag kemur fram að hann telji eðlilegt að ríkið byggi upp flutningaþjónustu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki.

x x x

Ekki get ég sagt að svarið sem blasti við mér í Fréttablaðinu í dag hafi glatt mig, því ég tel, eins og komið hefur fram fráleitt að ríkisfyrirtæki standi í samkeppni við einkaaðila.  Hvað þá að hið opinbera auki við þá samkeppni sem það þegar stendur í!

En úr því að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, telur eðlilegt að ríkið byggi upp flutningaþjónustu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki þá velti ég því eðlilega fyrir mér hvort ráðherrann telji að það séu yfir höfuð einhver takmörk fyrir því hversu langt ríkið, undir merkjum Íslandspósts hf., geti gengið í starfsemi sinni, umfram það sem nú er, og sókn inn á markaði sem einkaaðilar hafa fram til þessa sinnt.

Við þeirri spurningu minni fékk ég ekkert skýrt svar.

x x x

Sú spurning hlýtur að vakna í brjóstum þeirra sem leggja blessun sína yfir þá þróun sem hér hefur verið lýst hvort þeir telji hana stykja rekstrargrundvöll einkarekinna flutningafyrirtækja, sem nú um stundir þurfa að berjast í rekstrarumhverfi sem einkennist af hárri verðbólgu, háum vöxtum, lækkandi gengi gjaldmiðlilsins og sífellt hærra eldsneytisverði að fá í ofanálag samkeppni í andlitið frá ríkinu, af öllum aðilum!

Þeir ættu að minnsta kosti að velta þessari spurningu fyrir sér.

En hvort sem þeir gera það eða ekki þá er ljóst í mínum huga að þessi þróun gengur ekki.

x x x

Einfaldasta lausnin á þeim vanda sem hér er við að etja er auðvitað sá að koma Íslandspósti hf. úr eigu ríkisins.

Með því að gera það mun fyrirtækið keppa við aðra einkaaðila á markaði á jafnréttisgrundvelli.

Á meðan Íslandspóstur hf. siglir sína leið undir verndarvæng ríkisins munu samkeppnisaðilar félagsins ekki njóta jafnræðis í starfsemi sinni.

Við því þarf að mínu mati að bregðast.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Sigurður Kári.

Hér skal tekið undir inntak þess sem þú nefnir. Keep up the good work.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 13.9.2008 kl. 01:57

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sigurður Kári.... sú hugmyndafræði sem þú byggir þessa skoðun þína á... þ.e. frjálshyggjuáherslur þínar varðandi Íslandspóst eru gjaldþrota. Bankarnir sem þið afhentuð góðvinum flokkanna tveggja berjast fyrir lífi sínu...bræður þeirra erlendis eru gjaldþrota einn af öðrum. Þegar er farið að ræða að ríkið verði að yfirtaka ríkisbankanna á ný eins og gerst hefur í Bandaríkjunum... ríkið að bjarga sumum fjármálastofnunum.

Póstfyrirtækin í Evrópu og víðast hvar eru í meirihlutaeigu ríkisins. Flugfélagið Al Italía er í eigu ríkisins að 49.9 % og það er víst ráðandi hlutur er það ekki. ?

 TD.Þýski pósturinn er í eigu þýska ríkisins og á meirihluta í hraðflutningafyrirtækinu DHL og rekur einn öflugasta banka í Þýskalandi. Póstfyrirtækin á Norðurlöndunum eru öll í eigu ríkisins og stunda allskyns starfssemi til hliðar við hefðbundna starfssemi sína. Hafa jafnvel verið að fjárfesta í reksti póstþjónustu í öðrum löndum.

Ég legg til að þú hugsir og kynnir þér mál svo maður þurfi ekki að horfa á jafn óupplýsta og þrönga trúarbragðaumræðu hjá þér. Finnst þér fulltrúar hinnar frjálsu samkeppni hafa sýnt okkur að þeim sé treystandi til að reka grunnpóstþjónustu á Íslandi..... ég er hræddur um ekki... væri td ekki gaman ef Eimskip hefði póstþjónustu landsins á sínum snærum.... ég segi nei takk...ér er að reyna að hætta.

Mér væri það sönn ánægja að upplýsa þig og fara yfir þessi mál með þér svo þú áttir þig á hvað umræðan hjá þér er galin.

Jón Ingi Cæsarsson, 15.9.2008 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband