Stjórnleysi

Það ríkir stjórnleysi og stjórnmálakreppa á Íslandi.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti forsætisráðherra var sagt að rómaðir verkstjórnarhæfileikar hennar myndu koma að góðum notum við erfiðar aðstæður í kjölfar efnahagshruns.

Nú tveimur árum síðar hefur komið í ljós að verkstjórinn er ekki starfi sínum vaxinn og geta Jóhönnu til að stýra þjóðarskútunni stórlega ofmetin.

Þar nægir einungis að líta til síðustu daga í lífi þessarar ríkisstjórnar.  Óhætt er að segja að þeir hafa ekki verið neinn dans á rósum.

Raunar hefur ríkisstjórninni verið mislagðar hendur allt frá því að hún tók við.

En það hefur verið beinlínis átakanlegt að fylgjast með ríkisstjórn Jóhönnu síðustu 10 daga eða svo.

1. Í byrjun síðustu viku missti ríkisstjórnin tvo þingmenn, þau Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason, fyrir borð. Því haldið fram að það styrkti ríkisstjórnina.

2. Í kjölfarið komst kærunefnd jafnréttismála að því að Jóhanna Sigurðardóttir hefði brotið jafnréttislög. Stuðningsmenn hennar hafa reyndar reynt að gera lítið úr því og reynt af veikum mætti að sannfæra almenning um að um ,,faglegt lögbrot" hafi verið að ræða.

3. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsti andstöðu við frumvarp eigin ríkisstjórnar um breytingar á stjórnarráðinu og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gerði alvarlega fyrirvara frumvarpið.

4. Stjórnlagaráði var komið á fót með minnihluta atkvæða þingmanna og án stuðnings forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, og tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, Jóns Bjarnasonar og Ögmundar Jónassonar.

5. Ríkisstjórnin festi gjaldeyrishöft í sessi til ársins 2015, við litlar vinsældir, og rammaði þar inn vantrú sína á eigin hagkerfi.

6. Vinstri grænir komust á lista hinna viljugu og staðföstu vegna hernaðaraðgerðanna í Líbíu, fyrir tilstuðlan Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra.

Þær aðgerðir styður Össur, en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og félagar hans í Vinstri grænum ekki og segjast nú ekki hafa verið spurður álits.

Fyrir utanaðkomandi virðist sem utanríkisráðherrann sé  í annarri ríkisstjórn en fjármálaráðherrann.  Og sjávarútvegsráðherrann er upp á kant við þá báða!

7. Heilbrigðiskerfið er í uppnámi, þar sem samningar sérfræðilækna eru að renna út og ekkert sem bendir til þess að við þá verði samið.

8. Og Samtök atvinnulífsins gáfust upp á ríkisstjórninni og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru upp í loft.

Svona voru síðustu dagar í lífi þessarar ríkisstjórnar og hefur þá ekkert verið minnst á það að hér ganga 14 þúsund manns atvinnulausir, fyrir utan þá sem flúið hafa land, hagvöxtur er enginn, skuldavandi heimilanna virðist viðvarandi og svo mætti lengi telja.

Vera kann að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sitji fastur við sinn keip og haldi því fram að allt þetta hafi styrkt ríkisstjórnina.

Við öðrum blasir við að það ríkir algjört stjórnleysi í landinu.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma til ráðherra á Alþingi í gær lýsti ég þessari skoðun minni við sjálfan verkstjórann, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Ég bað hana útskýra fyrir mér, væri hún mér ósammála, hvað fælist í hugtakinu ,,stjórnleysi" ef ofangreint gerði það ekki.

Ég fékk þau svör frá forsætisráðherranum að hér ríkti ekkert stjórnleysi.  Ríkisstjórnin hefði náð gríðarlegum árangri og að allt væri á réttri leið.

Mér varð því ekki að ósk minni um að fá skýringu á hugtakinu ,,stjórnleysi".

En Jóhönnu tókst ljómandi vel að útskýra fyrir mér hugtakið ,,fullkomin afneitun".

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband