40%

Ég dreif mig á kjörstað í dag og kaus til stjórnlagaþings.  Það var heldur fámennt í Hagaskólanum þegar ég kaus um miðjan dag.

Nú er kosningunum lokið og fyrir liggur að kjörsókn var afar dræm eða aðeins í kringum 40%, ef hún þá nær því.

Svo lítil kosningaþátttaka hlýtur að valda þeim sem börðust fyrir því að boðað yrði til stjórnlagaþings verulegum vonbrigðum.

Það er sama hvaða mælikvarðar eru notaðir, alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar eða forsetakosningar, niðurstaðan verður alltaf sú að kjörsókn hafi verið afleit, enda sú minnsta í manna minnum.

Ég tók eftir því að í aðdraganda kosninganna báru menn kjörsókn saman við kjörsóknina í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave.

Í Icesave-kosningunum tóku 63% atkvæðisbærra manna í landinu þátt, ef ég man rétt, þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og fleiri ráðamenn þjóðarinnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðsluna, m.a. með því að lýsa hana marklausa og mæta ekki á kjörstað.

Það sama var ekki uppi á teningnum nú.  Ráðamenn gerðu allt til að reka fólk á kjörstað, Ríkisútvarpið var undirlagt í umfjöllun um kosningarnar og í allan dag hefur maður gengið undir manns hönd til að reyna að glæða kosningaþátttökuna.

En allt kom fyrir ekki.

Áhugi landsmanna var ekki meiri en þetta.

Þrátt fyrir afleita kjörsókn verður boðað til stjórnlagaþings.  Umboð þess verður hins vegar veikara en lagt var upp með vegna þess hversu fáir tóku þátt í kosningunum.

Það verður síðan fróðlegt að sjá hvaða frambjóðendur ná kjöri á stjórnlagaþingið.  Það verður ekki síður spennandi að sjá hvernig kynjaskipting kjörinna fulltrúa verður og sömuleiðis skiptingin milli fulltrúa landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Ég held að sú niðurstaða muni ráða miklu um afstöðu fólks til persónukjörs sem kosningafyrirkomulags hér á landi.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband