Um ákærur

Í gær flutti ég ræðu á Alþingi um þær ákærur sem lagt er til að gefnar verði út á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.

Ræðan var svohljóðandi:

Virðulegi forseti

Ég hef hér síðustu daga hlustað á ræður þeirra allra þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls í þeirri umræðu sem hér á sér stað þar sem við tökumst á um það hvort höfða skuli mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.

Í ljósi þess sem fram hefur komið í ræðum þingmanna og ráðherra tel ég mikilvægt að þeir þingmenn sem hér taka til máls átti sig á þeim reginmun sem er á pólitískri ábyrgð ráðherra, annars vegar, og refsiábyrgð þeirra hins vegar.

Alþingismenn verða að átta sig á því að í þessu máli gegna þeir ekki sínum hefðbundnu hlutverkum stjórnmálamanna.

Okkur hefur verið falið ákæruvald.

Í ljósi þess verða háttv. alþingismenn að haga sínum málflutningi, afstöðu og ákvörðun í samræmi við það og virða þau lög og þær reglur sem gilda í okkar samfélagi í hvívetna.

Það er grundvallarmunur á því að krefjast þess að stjórnmálamenn axli pólitíska ábyrgð og á því að kefjast þess að einstaklingar verði látnir sæta refsingu.

Í því máli sem hér er til umræðu er hin pólitíska ábyrgð ekki til umræðu.

Hér ræðum við um það hvort þeir fyrrverandi ráðherrar sem um ræðir, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson hafi gerst sek um glæpsamlegt athæfi.

Þetta er sú ákvörðun sem við þurfum að ræða.  Ekki hin pólitíska ábyrgð, heldur hvort ráðherrarnir fyrrverandi hafi gerst berir að glæpsamlegu eða refsiverðu athæfi.

Mér finnst ástæða til þess að nefna þetta sérstaklega hér vegna þess að mér hefur fundist sem ýmsir háttvirtir þingmenn geri ekki greinarmun á þessu tvennu, þ.á m. sumir þeirra sem setið hafa í þingmannanefndinni og standa að þeim ákærum sem hér eru til umræðu.

Virðulegi forseti.

Við Sjálfstæðismenn höfum ítrekað verið spurðir að því hér í umræðunni hvort við teljum að gerð hafi verið mistök í aðdraganda og í kjölfar efnahagshrunsins.

Þeirri spurningu höfum við margoft og ítrekað svarað.  Við höfum margoft sagt og ég segi það enn að það var ýmislegt sem aflaga fór í tengslum við efnahagshrunið og eflaust má halda því fram að margt hefði mátt gera öðruvísi en gert var.

Þeir sem hins vegar standa að þeim ákærum sem hér eru til umræðu og vilja ákæra ráðherrana fjóra og koma yfir þá refsingu hafa hins vegar ekki gert nokkra einustu tilraun til þess að benda á hvað átti að gera öðruvísi.

Sú staðreynd veikir auðvitað mjög þann málarekstur sem hér er lagt til að ráðist verði í.

En þó svo að ég treysti mér til þess að lýsa því yfir að margt hefði mátt öðruvísi gera þá treysti ég mér líka til þess að lýsa því yfir að ég lít ekki á ráðherrana fyrrverandi sem sakamenn.

Virðulegi forseti.

Ég er sammála því sem fram kom í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að það sé verulegur vafi á því að sá málatilbúnaður sem hér liggur fyrir standist ekki lágmarkskröfur mannréttindareglna, meginreglna sakamálaréttarfars og þær grundvallarreglur sem fylgt er í réttarríkjum um réttláta málsmeðferð.

Það kom mér á óvart hversu sannfærður formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, og fleiri nefndarmenn, s.s. Eygló Harðardóttir, voru þegar þau lýstu því og vísuðu til álita ónafngreindra sérfræðinga um að þessi málatilbúnaður allur stæðist þær kröfur.

Verandi sjálfur lögfræðingur, myndi mér hins vegar renna kalt vatn milli skinns og hörunds ef verk mín og hugmyndir hefðu fengið þá falleinkunn sem felld hefur verið um þá ákæru sem hér eru til umræðu.

Menn hljóta að spyrja sig hvort þeir séu á réttri leið þegar formaður Lögmannafélags Íslands, formaður Lögfræðingafélags Íslands og sérfræðingur í refsirétti við Háskólann í Reykjavík lýsa því opinberlega yfir að meðferð þessa máls brjóti gegn mannréttindareglum og meginreglum sakamálaréttarfars.

Og maður hlýtur líka að spyrja sig hvernig flutningsmenn tillögunnar geta verið svo vissir í sinni sök þegar fyrir liggur að þeir sérfræðingar sem þingmennirnir leituðu til í sinni vinnu, og ég er því miður bundinn trúnaði um hverjir eru, sögðu:

Í fyrsta lagi að réttarfar landsdómslaga uppfyllti ekki lágmarkskröfur gildandi laga og mannréttindasáttmála um réttaröryggi sakborninga á rannsóknarstigi mála.

Í öðru lagi að erfitt væri að taka afstöðu fyrr en lokinni athugun á frumgögnum, sem ég veit ekki til að sérfræðingarnir hafi haft aðgang að.

Og í þriðja lagi að uppi væru miklar efasemdir um að réttmætt væri að sækja ráðherra ril sakar fyrir að hafa af stórkostlegu hirðuleysi stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu eða látið farast fyrir að framkvæma nokkuð það sem afstýrt gat slíkri hættu, sbr. b. lið 10. gr. og 2. gr. ráðherraábyrgðarlaga.

Háttvirtur þingmaður, Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar spurði ítrekað í flutningsræðu sinni,  ,,Hvað segja sérfræðingarnir?"

Ég hef nú svarað þeirri spurningu og svarið blasir við.

Svar sérfræðinganna er það að þessi málatilbúnaður er þess eðlis að hann stenst ekki lágmarkskröfur mannréttindareglna, meginreglur sakamálaréttarfars, reglur um réttláta málsmeðferð og að þeir hafi miklar efasemdir um að rétt sé að að sækja ráðherrana fyrrverandi til saka á þeim grundvelli sem hér er lagt til.

Ég treysti mér til þess að fullyrða að verjandinn Atli Gíslason væri mér sammála um þetta.  Hann myndi t.d. aldrei sætta sig við það að skjólstæðingar hans yrðu ákærðir og þess krafist að þeir væru látnir sæta refsingu án þess að þeir fengju tækifæri til að bera hönd yfir höfðu sér fyrir nefndinni.

Og ég fullyrði líka að háttvirtur þingmaður, Atli Gíslason, myndi enn síður sætta sig við að þurfa sjálfur að sæta slíkri meðferð persónulega.

Virðulegi forseti.

Við þær aðstæður sem ég hef hér líst er ákæruvaldi, í þessu tilviki okkur alþingismönnum, óheimilt að lögum að ákæra ráðherrana fyrrverandi.

Við saksækjum ekki borgara þessa lands og krefjumst þess að þeir verði látnir sæta refsingu nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu.  Þetta er meginregla okkar réttarfars.  Hana skulum við virða.

Ekkert ákæruatriðanna uppfyllir þetta grundvallarskilyrði þess að ákæra sé gefin út.

Þar við bætist að saknæmisskilyrði laga eru ekki uppfyllt og enn síður er hægt að benda á nauðsynlegt orsakasamhengi í þessum málatilbúnaði öllum.

Þá verður ekki framhjá því litið að verknaðarlýsingar í ákærunni eru svo almennar og ómarkvissar að þær geta að mínu mati engan veginn leitt til sakfellingar.

Þeir sem hafa fylgst með réttarframkvæmd vita að íslenskir dómstólar hafa á síðustu misserum gert meiri og meiri formkröfur varðandi það með hvaða hætti verknaðarlýsingar í ákærum skuli vera úr garði gerðar.

Í raun má segja að dómstólar geri kröfur um að ákæruatriðin og verknaðarlýsingarnar skuli vera klæðskerasniðnar að þeim brotum sem ákært er fyrir og krafist refsingar vegna.

Þetta þekkjum við t.d. í tenglum við Baugsmálin sem mjög voru til umfjöllunar fyrir ekki svo löngu síðan.

Þegar sú ákæra sem hér liggur fyrir er borin saman við þessar formkröfur sem dómkerfið hefur í framkvæmd gert til ákæruvaldsins getur maður ekki varist þeirri hugsun að verði þessi ákæra gefin út og mál höfðað gegn ráðherrunum fyrrverandi þá hljóti Landsdómur að komast að þeirri niðurstöðu að vísa málinu frá, a.m.k. vilji dómsvaldið vera sjálft sér samkvæmt.

Virðulegi forseti.

Ég get ekki látið hjá líða að lýsa furðu minni á því ákæruatriði sem snýr að Icesave-reikningum Landsbanka Íslands, en flutningsmenn tillögunnar leggja til að ráðherrarnir fjórir verði ákærðir fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninganna yfir í dótturfélag í Bretlandi og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Þessi ákæruliður samræmist auðvitað engan veginn meginröksemdum íslenskra stjórnvalda í þeirri hörðu deilu sem íslensk stjórnvöld hafa átt í við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu.

Við höfum allar götur haldið því fram að íslenska ríkið geri að lögum hvorki ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands né á skuldbindingum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Engu að síður leggur meirihlutinn til að ráðherrarnir fyrrverandi verði ákærðir fyrir að vanrækja skyldur, sem íslensk stjórnvöld hafa mánuðum saman neitað að kannast við í deilunni við Breta og Hollendinga.

Þessi þversögn í málatilbúnaði flutningsmanna tillögunnar er ekki bara óskiljanlegur að mínu mati, heldur beinlínis skaðlegur fyrir hagsmuni íslenska ríkisins.

Og ég efast ekki um það eina mínútu að Bretar og Hollendingar myndu gera sér mat úr henni, verði ákæran gefin út.

Virðulegi forseti.

Ég vil síðan nefna eitt praktískt en mikilvægt atriði til viðbótar sem ekki hefur komið til tals í þessari umræðu.  Ég hef verulegar áhyggjur af því að verði ákæra gefin út og mál höfðað þá muni meðferð þessa máls taka ógnarlangan tíma og að við þurfum að bíða í allt að 2 ár eftir niðurstöðu Landsdóms.

Þessa ályktun dreg ég af þeim réttarfarsákvæðum sem um þetta mál munu gilda, m.a. 51. gr. landsdómslaga, 111. og 112. gr. laga um meðferð sakamála og 6. mgr. 14. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis.

Af þeim leiðir að sá saksóknari sem skipaður yrði þyrfti að rannsaka málið frá grunni, með rannsókn á málinu í heild og tilheyrandi skýrslutökum, ekki einungis yfir sakborningunum sjálfur, heldur einnig yfir öllum þeim vitnum sem rannsóknarnefnd Alþingis talaði við..

Landsdómur þyrfti jafnframt sjálfur að rannsaka málið frá grunni, enda getur skýrsla rannsóknarnefndarinnar lögum samkvæmt ekki talist lögfull sönnun í slíku máli, hversu góð mönnum þykir hún vera, enda kemur það fram í lögum um rannsóknarnefndina sjálfa.

Þessi skoðun byggir ekki síður á meginreglum sakamálaréttarfars um að sönnunarfærsla í sakamálum fyrir dómi skuli vera munnleg.  Hún felur það í sér að Landsdómur þyrfti að kalla fyrir öll þau vitni sem sakborningar vildu leiða fyrir dóminn vegna hvaða máls sem er sem fjallað er um í rannsóknarskýrslunni.

Við verðum að hafa í huga í því sambandi að vitnin sem komu fyrir rannsóknarnefndina og gáfu þar skýrslu voru aldrei gagnspurð af lögmönnum þeirra sakborninga sem nú er lagt til að verði ákærðir.

Allt mun þetta taka langan tíma.

Það verður að sjálfsögðu þungbært fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og lagt er til að ákærðir verði.

En það er ekki síður afdrifaríkt fyrir dómskerfið, því 5 reyndustu dómarar Hæstaréttar Íslands sitja í Landsdómi, og munu líklega ekki gera mikið annað meðan á þessum málarekstri fyrir Landsdómi stendur.

Það mun líklega koma í veg fyrir að önnur mál fái afgreiðslu í réttarkerfinu, svo sem hugsanleg sakamál sem kunna að verða höfðuð gegn sakborningum sem gengdu lykilstöðum í fjármálakerfinu og mál sem tengjast uppgjörum á þrotabúum fjármálafyrirtækjanna.

Ég er ekki að segja að þetta atriði sem ég er að nefna hér eigi að vera ákvörðunarástæða fyrir því hvernig alþingismenn eigi að greiða atkvæði í þessu máli, en það er mikilvægt að það eru líkur á að störfum dómskerfið, sem nú þegar er störfum hlaðið, kann að leggjast á hliðina, a.m.k. tímabundið, verði þetta mál höfðað.

Virðulegi forseti

Eins og þeir sem hafa hlýtt á þessa ræðu hafa kannski áttað sig á þá er ég í grundvallaratriðum mótfallinn þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar.  Ég get ekki stutt hana.  Ég tel að það séu ekki forsendur til þess að ákæra það fólk sem hér um ræðir.  Ég tel að það séu ekki efnislegar ástæður til þess að gera það og ég tel að sú málsmeðferð sem slík málshöfðun byggir á brjóti í meginatriðum gegn mannréttindareglum, meginreglum sakamálaréttarfars og meginreglum um sanngjarna málsmeðferð fyrir dómi.

Menn tala mikið um mikilvægi þess að einstaklingar axli ábyrgð á því sem gerst hefur.  Í mínum huga er það ljóst að hin pólitíska ábyrgð hefur verið borin.  Allt þetta fólk hefur vikið úr sínum embættum, það starfar ekki lengur á vettvangi stjórnmálanna.  Það hefur fengið sinn dóm sem birtist í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sá dómur er þeim að sjálfsögðu mjög þungbær.

Ég hlýt að lokum að varpa spurningu fram til þeirra sem standa að þessum tillöguflutningi:

Hvernig ætla þeir að axla sína ábyrgð, verði ákæran gefin út, mál höfðað fyrir Landsdómi, en málinu vísað frá eða þeir einstaklingar sem hér um ræðir sýknaðir?

Hvernig ætla þeir að axla sína ábyrgð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband