Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 17. október 2008
Kaupþing og lífeyrissjóðirnir
Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Markaðarins, skrifar áhugaverðan pistil á heimasíðu sína í dag.
Þar segir hann:
,,Viðskiptaráðherra skýrði frá því í morgun að Fjármálaeftirlitið hafi hafnað tilboði lífeyrissjóðanna í hluta af rekstri og eigum Kaupþings. Af þeim sökum sé líklegt að Nýja Kaupþing verði stofnað í næstu viku, eins og gert var í tilfelli Landsbankans og Glitnis, og starfsfólki væntanlega sagt upp í stórum stíl.
Þetta kemur mjög á óvart. Nú er vitað að verkalýðshreyfingin var fremur hlynnt þessari hugmynd. Hún naut mikils stuðnings í atvinnulífinu, enda töldu menn afar mikilvægt að allavega einn einkabanki yrði starfandi hér til framtíðar, þar sem ljóst er að ráðast verður í gríðarlega enduruppbyggingu á öllum sviðum.
Ríkisstjórnin virtist þessu mjög fylgjandi, forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og ráðherra bankamála höfðu allir fagnað þessum þreifingum. Ég veit til þess að margir ráðherrar aðrir voru sömu skoðunar.
En svo skilst mér að Jón Sigurðsson, formaður Fjármálaeftirlitsins, hafi verið alveg þversum í málinu. Og þar við situr að því er virðist.
Þess vegna er ekki að undra þótt spurt sé. Hver ræður hér ferðinni? Er það Jón Sigurðsson"
Ekki ætla ég að fabúlera um völd eða áhrif Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, á þá atburðarrás sem nú á sér stað varðandi íslensku bankana.
Hitt er annað mál að ég get ekki nefnt einn einasta sjálfstæðismann, innan þings sem utan, sem ekki er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að leggja allt í sölurnar til að tryggja að einn af stóru viðskiptabönkunum verði í eigu annarra en ríkisins.
Skynsamlegasta hugmyndin sem fram hefur komið í því sambandi er sú að lífeyrissjóðirnir eignist ráðandi eignarhlut í Kaupþingi.
Ég hef ekki orðið var við annað en að sú hugmynd njóti yfirgnæfandi stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins.
Íslenska fjármálakerfið, lífeyrissjóðirnir og þjóðin öll hefur gríðarlega hagsmuni af því að þeirri hugmynd verði hrint í framkvæmd.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 10. október 2008
Áskorun: Það verður að lækka vexti nú þegar
Nú eru viðskiptabankarnir þrír, Landsbanki, Kaupþing og Glitnir, komnir í hendur ríkisins.
Það er þyngra en tárum taki að sjá hvernig komið er fyrir íslensku bönkunum og fjármálakerfinu í heild. Það er augljóst að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis sem leitt hefur til þess ástands sem nú ríkir í íslenska fjármálakerfinu. Það er hins vegar seinni tíma mál að skýra út hvernig þessi staða kom upp. Þessa stundina eru viðfangsefnin önnur og brýnni en að velta sér upp úr slíkum skýringum.
Það er ljóst að margir hafa orðið fyrir miklu tjóni og verulegum skakkaföllum vegna atburðanna á fjármálamarkaði. Því miður á það við um alla, fólk, fyrirtæki og þjóðarbúið allt.
Við þessar aðstæður er mikilvægast að reyna með öllum ráðum að snúa þessari þróun við. Ekki síður er mikilvægt að menn einbeiti sér að því að takmarka það tjón sem þegar hefur orðið af þessu mikla óveðri á fjármálamarkaði.
Vilji stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki Íslands, beita sér fyrir því að bæta kjör almennings og fyrirtækja er nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa nú þegar til þess ráðs að lækka stýrivexti verulega og grípa til róttækra aðgerða til treysta rekstur fyrirtækjanna og létta undir með þeim.
Stýrivextir Seðlabankans eru nú 15,5%.
Undir venjulegum kringumstæðum veikir lækkun stýrivaxta gengi gjaldmiðla. Á Íslandi eru aðstæður nú hins vegar ekki venjulegar og hafa raunar ekki verið lengi. Háir stýrivextir þjóna við núverandi aðstæður ekki þeim tilgangi að verja gengi krónunnar. Það ætti öllum að vera orðið ljóst. Þeir koma afar illa niður á almenningi og atvinnufyrirtækjum og halda þeim í rekstrarlegri herkví.
Veruleg lækkun stýrivaxta nú kæmi sér afar vel fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, sem því miður hafa ekki fengið margar jákvæðar fréttir á síðustu dögum. Skynsamlegt væri að taka stórt skref og lækka vexti niður í um það bil 6%. Það er ekki síður nauðsynlegt að gera allt til að bjarga því sem bjargað verður í íslensku atvinnulífi.
Flestir virðast vera sammála um mikilvægi slíkra aðgerða og það er ekki eftir neinu að bíða. Nú verða menn að setja hag almennings og rekstur fyrirtækja í forgang og reyna að tryggja að hann geti borið sig þrátt fyrir afleitar aðstæður á fjármálamarkaði. Þeim er nú beinlínis lífsnauðsynlegt að geta fjármagnað sig á viðunandi kjörum, sem ekki hafa verið í boði lengi.
Með því að lækka vexti nú þegar myndu stjórnvöld og Seðlabankinn treysta grundvöll atvinnulífsins, draga úr hættu á atvinnuleysi og leggja grunn að sterkara gengi krónunnar.
Nú er til mikils að vinna. Því skora ég á Seðlabanka Íslands og stjórnvöld að lækka stýrivexti verulega nú þegar til hagsbóta fyrir almenning og fyrirtækin í landinu.
Þeim veitir ekki af stuðningi við þessar aðstæður.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Birtist í Morgunblaðinu í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 26. september 2008
Jón Magnússon er búinn að fá nóg
Það logar allt stafnanna á milli í illdeilum innan Frjálslynda flokksins og ekki síst innan þingflokksins, sem þó telur ekki nema fjóra þingmenn, þá Jón og Kristinn, Grétar Mar Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson.
Hvert félagið á fætur öðru vill að Kristinn segi af sér sem formaður þingflokks Frjálslynda flokksins og svo berast reglulega fréttir af því að flokksmenn í Frjálslynda flokknum vilji að Guðjón A. Kristjánsson víki úr stóli formanns og að við taki Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður flokksins.
Hinn víðsýni og lipri samningamaður, Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins og aðstoðarmaður Guðjóns, reynir að bera klæði á vopnin, en á erfitt um vik, enda hver höndin uppi á móti annarri í flokknum.
Staða Frjálslynda flokksins er ekki gæfuleg um þessar mundir. Flokkurinn er að liðast í sundur, ef hann er ekki klofinn nú þegar. Það sjá allir.
Þann 21. september sl. skrifaði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, á heimasíðu sína:
,,Langbesti leikur Kristins H. Gunnarssonar í þessari stöðu er að skera á festar, og sækja um inngöngu í þingflokk Samfylkingarinnar. Hann á ekki að láta ofgamennina í Frjálslynda flokknum niðurlægja sig með því að hrekjast úr embætti þingflokksformanns. Kristinn er ekkert annað en jafnaðarmaður, með svipaða slagsíðu og sumir landsbyggðarþingmenn okkar, að ógleymdum byggðamálaráðherranum. Ég býð hann að minnsta kosti velkominn fyrir mína parta."
Boð Össurar hefur mér að vitandi ekki verið dregið til baka. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi miklu innanmein innan Frjálslynda flokksins og stanslausa gagnrýni á Kristin úr röðum flokksbræðra hans og félaga í þingflokknum leiði ekki til þess að hann slái til og gangi í Samfylkinguna.
Það verður ekki síður fróðlegt að sjá hvað restin af þingflokknum gerir í kjölfarið.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 26. september 2008
Sigurður G. og sérfræðingarnir
Í viðtalinu lét Sigurður þá skoðun sína í ljós að reka ætti Davíð Oddsson úr Seðlabankanum og ráða í hans stað hagfræðing sem hefði vit og þekkingu á stjórn peninga- og efnahagsmála. Sagði Sigurður G. að yfir slíkri þekkingu hefði Davíð ekki að ráða.
Þó svo að augljóst sé að hæstaréttarlögmaðurinn hafi horn í síðu seðlabankastjórans þá skil ég ekki hvers vegna hann leyfir Davíð ekki að njóta sannmælis, því nafni minn skautar viljandi framhjá þeirri staðreynd að Davíð Oddsson var forsætisráðherra, og þar með ráðherra efnahagsmála, í ríkisstjórn Íslands í þrettán ár. Stærsti hluti þess tímabils var mesti uppgangstími í íslensku efnahagslífi á lýðveldistíma, en einnig þurfti ráðuneyti Davíðs Oddssonar að takast á við mjög alvarlega efnahagsörðugleika og niðursveiflu á árunum 1991 til 1995.
Árangur Davíðs og samverkamanna hans hlýtur að segja eitthvað um þekkingu hans á efnahagsmálum, að minnsta kosti ef menn, burtséð frá því hvar í flokki þeir standa, kjósa að fjalla um málið af einhverri sanngirni.
Af málflutningi Sigurðar G. í þættinum mátti ráða að hann væri þeirrar skoðunar að einungis ætti að ráða sérfræðinga til þess að stjórna málum sem undir þeirra sérsvið féllu.
Þegar betur er að gáð er ég ekki svo viss um að Sigurður G. Guðjónsson sé eins sannkristinn talsmaður sérfræðingastjórna og ráða mátti af hans eigin orðum í þættinum. Ég efast um að hann sé þeirrar skoðunar að reka eigi svila hans, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, úr stóli sínum, fyrir þær sakir einar að Björgvin er menntaður á sviði sagnfræði og heimspeki, og að fylla ætti sæti hans með vel menntuðum hagfræðingi eða viðskiptafræðingi.
Krafa Sigurðar G. Guðjónssonar um brottvikningu Davíðs Oddssonar úr Seðlabankanum byggist ekki á efnislegum rökum. Hún byggist á stækri og persónulegri andúð hans á Davíð Oddssyni sem varað hefur um árabil.
Það er í sjálfu sér ekkert nýmæli að skoðanir manna á stjórnmálamönnum, núverandi eða fyrrverandi, séu skiptar. Það ætti Sigurður G. Guðjónsson að vita manna best, enda verða þeir stjórnmálamenn sem hann hefur gengið erinda fyrir á síðustu árum seint taldir óumdeildir.
Hitt er annað mál að menn verða að fá að njóta sannmælis.
Innlegg Sigurðar G. Guðjónssonar um íslensk efnahagsmál og stjórn peningamála skilur ekkert eftir sig. Vilji menn láta eitthvað gott af sér leiða í umræðum um efnahagsmál og stjórn peningamála ættu þeir hinir sömu að einbeita sér að því að koma fram með málefnalegar hugmyndir til úrbóta.
Málflutningur sem einungis er byggður á persónulegri óvild og heift í garð annarra hefur aldrei og mun aldrei hafa neitt uppbyggilegt í för með sér.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 25. september 2008
Afdrif Hafskips - Í boði hins opinbera
Það er óhætt að mæla með bókinni um Hafskipsmálið Afdrif Hafskips - Í boði hins opinbera sem ég lauk við að lesa rétt í þessu.
Höfundur bókarinnar er Stefán Gunnar Sveinsson, sagnfræðingur.
Afdrif Hafskips - Í boði hins opinbera er að mínu mati gríðarlega góð samantekt um eitthvert merkilegasta dómsmál íslenskrar réttarsögu. Í bókinni er tildrög Hafskipsmálsins rakin. Það sem mesta athygli vekur við lestur bókarinnar er fréttaflutningur fjölmiðla af málinu, einkum Helgarpóstsins, um málefni Hafskips hf. og forsvarsmanna félagsins, meðferð opinbers valds á þessum tíma og framganga stjórnmálamanna í tengslum við það.
Sú lýsing höfundar bókarinnar er ekki fögur og mig grunar að margir þeirra manna sem þar eru nafngreindir, sem sumum hverjum voru treyst fyrir æðstu embættum í þjóðfélaginu, hefðu frekar kosið að samantekt þessi hefði aldrei birst á prenti. Ég nefni engin nöfn í því samhengi, en þeir sem lesa bókina geta dregið sínar ályktanir af þessum orðum mínum.
Það verður fróðlegt að sjá hvort þeir sem léku stærstu hlutverkin í Hafskipsmálinu muni í kjölfar útgáfu bókarinnar sjá ástæðu til þess að tjá sig frekar um framgöngu sína á þeim tíma sem Hafskipsmálið tröllreið íslensku samfélagi.
Halldór Halldórsson, fyrrverandi ritstjóri Helgarpóstsins, gerði það í Kastljóssþætti Sjónvarpsins á þriðjudagsvöldið. Að mínu mati gerði Halldór sjálfum sér engan greiða með því að mæta í það viðtal.
Það verður fróðlegt að sjá hvort fleiri fylgi í kjölfarið.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 24. september 2008
Virðingarverð hugmynd Helga Hjörvar
Verði hugmyndin að veruleika þá myndi hún losa verðmæti fyrir ríkið og líklega flytja fjármagn inn í landið.
Ég tek undir með forstjóra Landsvirkjunar, Friðrik Sophussyni, sem sagði í fréttaviðtali í hádeginu að hugmynd Helga væri virðingarverð. Ég hlýt líka að fagna því að frumkvæði það sem Helgi sýnir með þessum tillöguflutningi um einkarekstur á orkusviði skuli koma úr röðum vinstrimanna, enda held ég að það fyrirkomulag sem Helgi Hjörvar mælir fyrir væri mjög til bóta.
Vonandi er hann ekki einn á báti um þessa skoðun innan Samfylkingarinnar.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 23. september 2008
Olli Rehn og 75 prósentin
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag kemur fram að Olli Rehn framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu hafi sagt á fundi sínum með Evrópunefnd stjórnvalda að aðild að ESB væri forsetna þess að ríki gætu tekið upp evru.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að Rehn teldi að ef íslensk stjórnvöld tækju ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu myndu samningaviðræður geta tekið skamman tíma, jafnvel innan við eitt ár. Ennfremur er eftir Olli Rehn haft á vefmiðlinum visir.is að ástæða þess að slíkar samningaviðræður gætu tekið svo skamman tíma væri sú að Ísland væri nú þegar búið að staðfesta yfir 75% af regluverki ESB vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
x x x
Ekki ætla ég að draga í efa að aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu gætu tekið skamman tíma, væri pólitískur vilji til þess á Íslandi fyrir því aðild að Evrópusambandinu.
Sá pólitíski vilji er hins vegar ekki til staðar.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur sagt að ekki séu neina lagalegar hindranir fyrir upptöku evru með sérstöku samkomulagið við Evrópusambandið. Þeirri kenningu Björns hefur fram til þessa mér vitanlega ekki verið efnislega mótmælt.
x x x
Á forsíðu Fréttablaðsins er haft eftir Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar, sem er annar formanna Evrópunefndar stjórnvalda, ekki væri pólitískur vilji né vilji til þess meðal embættismanna innan Evrópusambandsins að semja við Íslendinga um tvíhliða upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu.
Það má vel vera að þetta sé rétt mat hjá Ágústi Ólafi að ekki sé vilji meðal embættismanna Evrópusambandsins að á Íslandi verði tekin upp evra með tvíhliða samkomulagi. Á hitt hefur aldrei reynt hvort pólitískur vilji standi til þess að slíkt verði gert.
Í því felst hins vegar ekki að það sé ekki hægt á grundvelli þeirrar löggjafar sem fyrir hendi er, eins og Björn Bjarnason hefur haldið fram.
x x x
Egill Helgason fjallar um þetta mál á heimasíðu sinni í pistli sem ber yfirskriftina ,,Staðreyndir um ESB". Þar segir Egill:
,,Það er oft verið að tala um að vanti staðreyndir inn í Evrópuumræðuna.
Samkvæmt þessu virðist Evrópunefndin undir forystu Ágústs Ólafs Ágústssonar og Illuga Gunnarssonar hafa fengið tvö mikilvæg atriði á hreint.
Það er ekki hægt að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið.
Það tekur stuttan tíma að semja um aðild okkar að ESB, enda höfum við tekið upp 75 prósent af regluverki sambandsins eða það segir Olli Rehn."
x x x
Ég leyfi mér að halda því fram að Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, hafi rangt fyrir sér þegar hann heldur því fram að Ísland hafi á grundvelli EES-samningsins staðfest eða lögfest 75% af regluverki sambandsins.
x x x
Þessa fullyrðingu byggi ég á því að árið 2005 lét ég gera úttekt á þessum málum innan íslenska stjórnkerfisins með fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi til þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, til þess að fá úr því skorið hvort Ísland hefði á grundvelli EES-samningsins lögfest bróðurpart regluverks Evrópusambandsins.
Kveikjan að þessari fyrirspurn voru sambærilegar umræður sem höfðu átt sér stað í Noregi, en þar í landi leiddi rannsókn á þessu álitaefni til þeirrar niðurstöðu að Norðmenn hefðu á grundvelli EES-samningsins einungis lögfest lítinn hluta löggjafar Evrópusambandsins.
x x x
Í þessari fyrirspurn minni spurði ég í fyrsta lagi að því hversu margar gerðir stofnanir Evrópusambandsins hefðu samþykkt og gefið út á ári á tímabilinu 1994 til 2004.
Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að með vísan til fyrirspurnarinnar hefði ráðuneytið farið þess á leit við skrifstofu EFTA í Brussel að tekinn yrði saman fjöldi svokallaðra bindandi gerða, en hugtakið ,,gerð" vísar annars vegar til allra formlegra ákvarðana sem teknar eru af stofnunum Evrópusambandsins, óháð því hvort þær eru bindandi eða óbindandi fyrir aðildarríki þess.
Samkvæmt upplýsingum skrifstofunnar, sem byggðar voru á lagagagnagrunni Evrópusambandsins, (EUR-lex) voru eftirfarandi fjöldi tilskipana, reglugerða og ákvarðana settur á þessu tímabili:
Tilskipanir: 1.047.
Reglugerðir: 27.320.
Ákvarðanir: 10.569.
Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu. Í svarinu kom fram að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktur var af Evrópusambandinu á tímabilinu vörðuðu framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess, en einnig var fjöldi gerða samþykktur á ári hverju sem varðaði framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess þ.m.t. tollamál.
x x x
Í annan stað spurði ég hversu margar þessara gerða hefðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum.
Í svari utanríkisráðuneytisins kom fram að inn í EES-samninginn væru aðeins teknar þær gerðir sem féllu undir gildissvið samningsins. Gildissvið EES-samningsins er bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsa fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis væru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt).
Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá EFTA-skrifstofunni höfðu einungis 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í EES-samninginn á þessu tíu ára tímabili, eða um 6,5% af heildarfjölda ESB-gerða á tímabilinu.
x x x
Í þriðja lagi spurðist ég fyrir um það hversu margar þessara gerð hefðu krafist lagabreytinga við innleiðingu hér á landi.
Í svari ráðuneytisins kom fram að ef gerð sem taka á upp í EES-samninginn krefst lagabreytinga gera stjórnvöld við hana svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. EES-samningsins. Á því 10 ára tímabili sem spurning mín náði til gerðu íslensk stjórnvöld slíkan fyrirvara í 101 skipti við upptöku gerðar í EES-samningsins.
Það þýðir í 0,0025% tilvika var slíkur fyrirvari gerður.
x x x
Þessi niðurstaða, sem aldrei hefur verið hrakin, sýnir auðvitað að það er fjarri lagi að Ísland hafi með aðild sinni að Evrópusambandinu lögfest eða innleitt í sinn rétt bróðurpartinn af regluverki Evrópusambandsins.
Ég leyfi mér að efast um að miklar breytingar hafi orðið þar á frá árinu 2005, þegar þessi úttekt var gerð.
Í ljósi fullyrðinga Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá Evrópusambandinu, er mikilvægt að halda þessum staðreyndum til haga.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 19. september 2008
Komum póstinum í réttar hendur
Viðskiptaráð Íslands sendi frá sér nýja skoðun í dag um starfsemi Íslandspósts hf.
Skoðun Viðskiptaráðsins er þessi:
,,Fyrr á þessu ári fagnaði Íslandspóstur stórafmæli en þá voru tíu ár liðin
frá því fyrirtækið tók til starfa sem sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins. Á
þeim tíma sem liðinn er frá stofnun fyrirtækisins hefur félagið
endurskilgreint hlutverk sitt og starfsemi á ýmsan máta. Verulega hefur
dregið úr vægi almannaþjónustunnar og fyrirtækið hefur sótt inn á nýja
markaði. Grunnur þessarar stefnu hefur ekki verið mótaður af
stjórnendum fyrirtækisins enda gefa samþykktir þess fullt svigrúm til
útvíkkunar á starfseminni.
Í síðasta ársreikningi Íslandspósts voru kynntar áætlanir um byggingu
nýrra pósthúsa sem eru sérhönnuð með þarfir flutningafyrirtækis í huga,
en þeim er ætlað að auka möguleika fyrirtækisins umtalsvert til sóknar á
flutningamarkaði og öðrum tengdum mörkuðum. Árið 2006 festi
Íslandspóstur kaup á prentfyrirtækinu Samskipti auk þess sem keyptur
var tuttugu prósenta hlutur í hugbúnaðarfyrirtækinu Modernus.
Samkvæmt ársreikningi voru þessi kaup liður í þeirri stefnu fyrirtækisins
að eflast og vaxa og bjóða viðskiptavinum sínum fjölbreyttari lausnir. Í
báðum tilfellum er opinbert hlutafélag að færa sig inn á markað þar sem
þegar ríkir hörð samkeppni á meðal einkaaðila.
Af þessum sökum hafa spurningar vaknað um framtíðarstefnu
stjórnvalda varðandi Íslandspóst. Þar skiptir mestu hvort ætlunin sé að
reka það áfram sem opinbert hlutafélag og sækja inn á enn fleiri svið þar
sem þegar ríkir samkeppni meðal einkaaðila eða hvort ætlunin sé að
undirbúa fyrirtækið undir einkavæðingu og stefnt sé á sölu þess í náinni
framtíð. Af mögulegum leiðum væri hin síðarnefnda mun skynsamlegri
kostur."
Ég hef í langan tíma fjallað um starfsemi Íslandspósts hf. á sömu nótum og nú koma fram í skoðun Viðskiptaráðsins.
Það gott að vita til þess að sjónarmið mín njóti stuðnings innan viðskiptalífsins.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 15. september 2008
Enn um Vinstri græna og B.S.R.B.
Í þættinum gagnrýndi ég Ögmund harðlega fyrir að beita B.S.R.B. markvisst og ítrekað í þágu málstaðar Vinstri grænna á Alþingi, líkt og ég hef áður gert á þessum vettvangi.
x x x
Gagnrýni mín í garð Ögmundar hefur kallað fram viðbrögð hjá öðrum verkalýðsforingja, Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands. Í upphafi pistils sem Guðmundur birtir á heimasíðu sinni, og ber yfirskriftina ,,Barnaskapur Sigurðar Kára", segir:
,,Það er ótrúleg reyndar barnaleg einföldun hjá Sigurði Kára og skoðanabræðrum hans að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga. Þá virðist hann eiga að við að samtök launamanna eigi að fjalla um launaflokka og ekkert annað."
x x x
Ég skil ekki hvað Guðmundur Gunnarsson er að fara með þessum orðum sínum.
Hann má kalla þá þá afstöðu sem hann lýsir barnalega, en ég hef aldrei haldið því fram að samtök launamanna eigi ekki að skipta sér að neinu nema gerð kjarasamninga, eins og Guðmundur fullyrðir fyrirvaralaust í pistli sínum að ég hafi gert.
Ég hef heldur aldrei haldið því fram að samtök launamanna eigi einungis að fjalla um launaflokka og ekkert annað.
x x x
Ég geri engar athugasemdir við að samtök launamanna eins og B.S.R.B. láti til sín taka í opinberri umræðu um hin ýmsu þjóðmál, einkum ef þau varða hagsmuni félagsmanna.
Mér finnst hins vegar mjög ámælisvert að samtökunum sé markvisst beitt þágu málstaðar Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum, stjórnmálaflokks sem formaður B.S.R.B. er einn helsti forystumaður fyrir. Það er kjarninn í minni gagnrýni.
Eins og áður segir finnst mér sjálfsagt að B.S.R.B. láti til sín taka í opinberri umræðu um ýmis álitamál sem til umræðu eru hverju sinni. Ég tel hins vegar að sú þátttaka B.S.R.B. eigi að vera á forsendum samtakanna sjálfra og félagsmanna þeirra.
Ekki einungis á forsendum þingflokks Vinstri grænna og formannsins.
x x x
Það er auðvitað athyglisvert að í hvert skipti sem Vinstri grænir beita sér af hörku gegn málum á Alþingi skuli B.S.R.B. alltaf taka fyrirvaralaust undir málstað Vinstri grænna og skiptir þar engu hvort það gerist á vettvangi þingnefnda Alþingis eða annarsstaðar.
Og það hefur heldur engu skipt hvort þau mál hafi haft nokkuð með málefni vinnumarkaðarins og launþega að gera eða ekki.
Það er einfaldlega staðreynd að B.S.R.B. bregst aldrei málstað Vinstri grænna.
Það er líka athyglisvert að B.S.R.B. skuli ítrekað sjá ástæðu til að flytja inn til landsins erlenda gesti gagngert til að styðja við bakið á málstað Vinstri grænna á Alþingi.
Það er líka athyglisvert að B.S.R.B. hafi staðið fyrir auglýsingaherferðum, ráðstefnum og bókaútgáfu, með tilheyrandi kostnaði, beinlínis í tengslum við áróður Vinstri grænna gegn málum sem lögð hafa verið fram á Alþingi.
Það skyldi þó ekki vera að formennska Ögmundar Jónassonar fyrir B.S.R.B. og þingflokk Vinstri grænna skiptir hér einhverju máli?
x x x
Ef B.S.R.B. eru þverpólitísk samtök launafólks, hvers vegna hefur það aldrei gerst hin síðari ár að málstaður samtakanna hefur aldrei verið í minnsta ósamræmi við málstað Vinstri grænna?
Og hvernig stendur á því að forystu B.S.R.B. hafi aldrei látið sér detta það í hug að flytja inn til landsins erlenda fræðimenn sem hafa önnur viðhorf til mála en þingflokkur Vinstri grænna?
Svörin við þessum spurningum liggja í augum uppi.
x x x
B.S.R.B. eru langstærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi með rúmlega 19.000 félagsmenn innan sinna raða. Þeir eru lögum samkvæmt skikkaðir til þess að greiða félagsgjöld til samtakanna óháð pólitískum skoðunum sínum.
Það gengur að mínu mati ekki að lögbundin félagsgjöld félaga í B.S.R.B. séu notuð til þess að fjármagna stjórnmálabaráttu formannsins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með þeim hætti sem gert hefur verið.
Það er einfaldlega ekki verjandi gagnvart þeim fjölmörgu félagsmönnum B.S.R.B. sem ekki fylgja Ögmundi og Vinstri grænum að málum.
x x x
Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt á Alþingi lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.
Samkvæmt ákvæðum þeirra laga er stjórnmálasamtökum óheimilt að taka við hærri fjárframlögum frá einstaklingum og lögaðilum en sem nema 300.000 krónum á ári.
Markmiðið með setningu þeirra laga var ekki sá að stuðla að því að hagsmunasamtök sem tengjast forystumönnum einstakra stjórnmálaflokka fjármögnuðu stjórnmálastarfsemi og málefnabaráttu stjórnmálaflokkanna, í stað þess að flokkarnir geri það sjálfir.
Og þannig viljum við ekki að þessi lög séu sniðgengin.
Vinstri grænir ættu að hafa það í huga.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 12. september 2008
Ríkið í samkeppni við einkaaðila
Haustþinginu hér á Alþingi lauk í dag.
Við upphaf þingfundar í morgun ákvað ég að ræða við Kristján L. Möller, samgönguráðherra, um starfsemi Íslandspósts hf.
Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar rætt málefni Íslandspósts hf., bæði á Alþingi og ekki síður í pistlum á þessari heimasíðu.
x x x
Áhugi minn á starfsemi Íslandspósts hf. er ekki nýr af nálinni. Ástæðan er sú fyrir að undanfarið hefur mér fundist Íslandspóstur hf. ganga allt of langt í því að vinna ný lönd með því að sækja með starfemi sína inn á nýja markaði og hafið þar samkeppni við einkaaðila sem fyrir hafa verið.
Nú væri í sjálfu sér ekkert við slíkt að athuga ef Íslandspóstur hf. væri eins og hvert annað hlutafélag. Svo er hins vegar ekki.
x x x
Þó Íslandspóstur hf. sé hlutafélag að forminu til þá er félagið að öllu leyti í eigu ríkisins. Íslandspóstur hf. er því að mínu mati hreinræktað ríkisfyrirtæki.
Hlutverk Íslandspósts hf. hefur fram til þessa fyrst og fremst verið það að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónstu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og nýtur í ofanálag einkaleyfis samkvæmt lögum til þess að veita þá þjónustu, a.m.k. að hluta.
x x x
Í mínum huga er alveg skýrt að ríkisfyritæki eins og Íslandspóstur hf. á ekki víkka starfssemi sína út fyrir þá kjarnastarfsemi sem því er ætlað að sinna og alls ekki að stunda samkeppni við einkaaðila á markaði undir verndarvæng ríkisins, enda sér hver maður að samkeppnisaðstaða einkarekinna fyrirtækja við slíkar aðstæður getur aldrei talist jöfn eða sanngjörn.
Ég hef áður gagnrýnt stjórnendur Íslandspóst hf. fyrir kaup félagsins á prentsmiðjunni Samskipti. Með þeim kaupum blandaði Íslandspóstur hf. sér í samkeppni á prentmarkaði, sem er markaður sem einkaaðilar hafa fram til þessa séð um að þjónusta.
Í september á síðasta ári bárust síðan fréttir af því að Íslandspóstur hf. hefði hafið smásöluverslun með ritföng. Þau umsvif Íslandspósts hf. gagnrýndi ég einnig, enda fæ ég ekki séð að það sé hlutverk ríkisins að reka ritfangaverslun.
x x x
Á forsíðu Fréttablaðsins í gær birtist síðan frétt þess efnis að ríkið undirbyggi nú samkeppni við einkaaðila í flutningum. Í fréttinni kom fram að Íslandspóstur hf. hefði útvíkkað hlutverk sitt og starfaði nú m.a. sem fyrirtæki í flutninga- og samskiptaþjónustu.
Í fréttinni er haft eftir forstjóra Íslandspósts hf. að ákveðið hefði verið að útvíkka starfsemi fyrirtækisins verulega, m.a. með uppbyggingu nýrra pósthúsa, til þess að auka samkeppnishæfni þess við einkaaðila á flutningamarkaði.
Það má því segja að stjórnendur félagsins séu trúir kjörorði þess "Pósturinn - alla leið!" og hyggist nú ganga enn lengra í þeirri viðleitni sinni að vinna ný lönd og nýja markaði.
x x x
Þessi frétt varð til þess að ég ákvað að ræða um starfsemi Íslandspósts hf. við Kristján L. Möller, samgönguráðherra, á Alþingi, því ég vildi fá upplýsingar um það hvort samgönguráðherrann væri hlynntur því að ríkið væri í þann mund að hefja samkeppni við einkaaðila í flutningum.
Samgönguráðherrann tók hins vegar það ómak af mér að spyrja þessarar spurningar, því í viðtali Fréttablaðsins við ráðherrann í dag kemur fram að hann telji eðlilegt að ríkið byggi upp flutningaþjónustu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki.
x x x
Ekki get ég sagt að svarið sem blasti við mér í Fréttablaðinu í dag hafi glatt mig, því ég tel, eins og komið hefur fram fráleitt að ríkisfyrirtæki standi í samkeppni við einkaaðila. Hvað þá að hið opinbera auki við þá samkeppni sem það þegar stendur í!
En úr því að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, telur eðlilegt að ríkið byggi upp flutningaþjónustu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki þá velti ég því eðlilega fyrir mér hvort ráðherrann telji að það séu yfir höfuð einhver takmörk fyrir því hversu langt ríkið, undir merkjum Íslandspósts hf., geti gengið í starfsemi sinni, umfram það sem nú er, og sókn inn á markaði sem einkaaðilar hafa fram til þessa sinnt.
Við þeirri spurningu minni fékk ég ekkert skýrt svar.
x x x
Sú spurning hlýtur að vakna í brjóstum þeirra sem leggja blessun sína yfir þá þróun sem hér hefur verið lýst hvort þeir telji hana stykja rekstrargrundvöll einkarekinna flutningafyrirtækja, sem nú um stundir þurfa að berjast í rekstrarumhverfi sem einkennist af hárri verðbólgu, háum vöxtum, lækkandi gengi gjaldmiðlilsins og sífellt hærra eldsneytisverði að fá í ofanálag samkeppni í andlitið frá ríkinu, af öllum aðilum!
Þeir ættu að minnsta kosti að velta þessari spurningu fyrir sér.
En hvort sem þeir gera það eða ekki þá er ljóst í mínum huga að þessi þróun gengur ekki.
x x x
Einfaldasta lausnin á þeim vanda sem hér er við að etja er auðvitað sá að koma Íslandspósti hf. úr eigu ríkisins.
Með því að gera það mun fyrirtækið keppa við aðra einkaaðila á markaði á jafnréttisgrundvelli.
Á meðan Íslandspóstur hf. siglir sína leið undir verndarvæng ríkisins munu samkeppnisaðilar félagsins ekki njóta jafnræðis í starfsemi sinni.
Við því þarf að mínu mati að bregðast.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh