Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Ísland í Evrópusambandið innan árs?
Þeir sem helst hafa talað fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa fram til þessa haldið því fyrirvaralaust fram að sæki Ísland um aðild að sambandinu væri slík aðild handan við hornið innan skamms tíma.
Hefur þessari fullyrðingu ekki síst verið haldið á lofti af áköfustu Evrópusambandssinnum nú á síðustu vikum í tengslum við þá fjármála- og gjaldeyriskreppu sem við Íslendingar glímum nú við og því verið haldið fram að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé það meðal sem þessi þjóð þarf á að halda til þess að halda vinna sig fljótt og vel út úr vandanum.
Sem dæmi um slíkan málflutning má nefna að Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður og varaformaður Samfylkingarinnar, sagði á heimasíðu sinni þann 15. nóvember 2008, þ.e. síðastliðinn laugardag:
Ég hef sagt að það sé raunhæfur möguleiki á að komast í ESB innan árs en mjög skömmu eftir aðild gætum við farið í ERM II sem er í reynd nokkurs konar biðstofa fyrir evru. Innan þess samstarfs myndi Seðlabanki Evrópu hjálpa okkur að halda gengi krónunnar stöðugu þar til evran tæki við. Ég trúi því að þetta væri er hluti af lausn vandans og myndi stytta kreppuna til muna."
Sem sagt, aðild innan árs samkvæmt því sem Ágúst Ólafur heldur fram.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, var ekki jafn nákvæmur þegar hann skrifaði um þessi mál á heimasíðu sína þann 21. Mars 2008:
,,Umsókn um ESB tæki vísast hvorki langan tíma né krefðist mikils mannafla."
Árni Snævarr, blaðamaður, skrifaði síðan eftirfarandi á heimasíðu sína þann 3. október 2008.:
,,Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins sagði í viðtali sem ég tók fyrir Iðnþing í lok febrúar á þessu ári að hægt væri að hefja viðræður hálfu ári eftir að sótt hefði verið um aðild og viðræðurnar tækju 9-12 mánuði en því næst tæki við staðfestingarferlið. Þannig að það ættu að líða um tvö ár frá því umsókn væri lögð fram þar til Ísland yrði formlega aðildarríki ESB. Þannig að það er enn hugsanlegt að Ísland verði tuttugasta og áttunda aðildarríki Evrópusambandsins, ef til vill um leið og Króatía. Ég vona að þið takið þessu sem hvatningu!"
Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins virðist hins vegar hafa skipt um skoðun, því að í kvöldfréttum Sjónvarpsins í kvöld kom fram að stækkunarstjórinn teldi að Ísland gæti gengið inn í Evrópusambandið á næstu 4 árum sæki landið fljótlega um.
Þá sagði í frétt Sjónvarpsins:
,,Að mati embættismanna í Brussel fengju Íslendingar líklega inngöngu strax á eftir Króötum en þeir ganga í ESB einhvern tímann á árunum 2010-12. Rehn segir bankahrunið á Íslandi engu breyta um þetta, Íslendingar séu jafn velkomnir í ESB og áður kjósi þeir að sækja um aðild."
Það var og!
Fjögur ár eru heldur lengri tími en sá tími sem þeir Ágúst Ólafur, Össur og Árni Snævarr telja að það taki Ísland að ganga í Evrópusambandið verði sótt um aðild.
Staðhæfingar Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í fréttum Sjónvarpsins í kvöld benda ekki beinlínis til þess að aðild að Evrópusambandinu verði sá bjarghringur sem haldið hefur verið fram í allra nánustu framtíð. Orð stækkunarstjórans gefa að minnst kosti fullt tilefni til þess að efast um að svo sé.
Hitt er annað mál að hugsanlega er hægt að grípa til annarra og skjótvirkari aðgerða sem væru til þess fallnar að leysa vanda okkar og stytta þá kreppu sem nú dynur yfir.
Í því sambandi hef ég og fleiri ítrekað bent á þá mögulegu lausn að hér á landi verði tekin upp annar gjaldmiðill, ýmist einhliða eða samkvæmt samkomulagi við annað eða önnur ríki.
Sú hugmynd er að minnsta kosti þess eðlis að full ástæða er til að taka hana til gagngerrar athugunar.
Sigurður Kári.
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Guðni Ágústsson hættur
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, las í gær við upphaf þingfundar afsagnarbréf Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem sagði af sér þingmennsku og er hættur sem formaður Framsóknarflokksins.
Guðni er annar þingmaður Framsóknarflokksins sem segir af sér þingmennsku á stuttum tíma, en í síðustu viku tilkynnti Bjarni Harðarson um afsögn sína.
Framsóknarflokkurinn hefur átt mjög undir högg að sækja á síðustu misserum. Okkur sem fyrir utan flokkinn stöndum hefur ekki dulist að mikil ólga hefur kraumað innan hans. Ég held hins vegar að engum hafi dottið í hug að andrúmsloftið innan flokksins væri jafn skelfilegt og innanmeinin jafn mikil og afsögn Guðna er til vitnis um.
Valgerður Sverrisdóttir, sem tekin er við sem formaður Framsóknarflokksins, var viðmælandi Helga Seljan í Kastljósi Sjónvarpsins í gær þar sem afsögn Guðna var rædd.
Ég tók sérstaklega eftir í því að Valgerður kaus að þakka Guðna ekki fyrir samstarfið og störf hans í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Þess í stað gagnrýndi hún með hvaða hætti hann skilur við flokkinn og hverfur af vettvangi stjórnmálanna.
Það segir að mínu mati sitt um þann mikla ágreining sem uppi hefur verið milli fyrrum formanns og varaformanns flokksins.
Ég ætla mér hins vegar að nota tækifærið og þakka Guðna Ágústssyni fyrir samstarfið og störf sín.
Við sjálfstæðismenn áttum gott samstarf við Guðna meðan Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sátu saman í ríkisstjórn. Eftir að Framsóknarflokkurinn fór í stjórnarandstöðu var samstarf okkar Guðna með miklum ágætum þó ekki værum við í sama flokki.
Ég horfi á eftir Guðna Ágústssyni með söknuði. Hann var óvenjulegur stjórnmálamaður sem lífgaði upp á störfin á Alþingi og stjórnmálin á Íslandi. Kynlegur kvistur sem á sér engan líka.
Ég hefði óskað þess, líklega eins og hann sjálfur, að stjórnmálaferli hans hefði lokið með öðrum hætti.
En ég óska honum alls hins besta á nýjum vettvangi.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 14. nóvember 2008
Krónan og sjávarútvegurinn
Með hruni fjármálamarkaðarins hefur átt sér stað ákveðin uppstokkun í íslensku atvinnulífi sem ekki sér fyrir endan á. Þó er ljóst að mikilvægi sjávarútvegsins í íslenska þjóðarbúskapnum er nú og verður meira en fyrir hrun fjármálamarkaðarins.
Forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi hafa alla tíð barist gegn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þar sem þeir telja það atvinnugreininni ekki til hagsbóta að Ísland þurfi að undirgangast hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
Hins vegar er ljóst að frá sjávarútveginum eru nú komin fram sjónarmið um að stjórnvöld skipti um gjaldmiðil á Íslandi, án þess að því fylgi aðild að Evrópusambandinu.
Forsvarsmenn þriggja af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, þeir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Brims hf., og Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf., leggja sitt til málanna í grein í Fréttablaðinu í dag.
Í greininni, sem ber yfirskriftina ,,Nýjan gjaldmiðil strax" segja framkvæmdastjórarnir þrír:
,,Trúverðugleiki íslensku krónunnar er í dag enginn. Gengi hennar hefur fallið yfir 100% á einu ári. Vextir eru hvergi hærri í vestrænum heimi en hér. Almenningur og fyrirtæki stefna í gjaldþrot ef ekkert verður aðhafst.
Við undirritaðir leggjum til að stjórnvöld ráði nú þegar hagfræðingana Daniel Gros og Manuel Hinds til þess að stýra skoðun á upptöku nýs gjaldmiðils strax. Fyrir þá sem vilja kynna sér þessa hugmyndafræði frekar vísum við til greinar eftir þá Ársæl Valfells og Heiðar Má Guðjónsson í Fréttablaðinu laugardaginn 8. nóvember sl. undir yfirskriftinni ,,Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum."
Í okkar huga er lífsnauðsynlegt að skoða að taka upp nýjan gjaldmiðil á Íslandi og það strax! Hvort við með þeirri aðgerð eigum betri möguleika en ella á að vinna okkur fyrr út úr núverandi efnahagsþrenginum. Upptaka nýs gjaldmiðils myndi leiða til skynsamlegar umræðu um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu.
Umræða um jafn afgerandi mál og aðild að ESB verður ekki afgreidd í einni svipan. Við verðum að gefa okkur tíma til að vega og meta af skynsemi hvað aðild að ESB felur í sér fyrir íslenskt samfélag. Á meðan getum við ekki leyft okkur að horfa upp á fyrirtæki og almenning blæða út vegna myntar sem ber vexti sem þjóðin rís ekki undir."
Þetta er merkilegt innlegg frá forsvarsmönnum þriggja af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og rennir að mínu mati stoðum undir þá skoðun sem ég hef haldið fram á þessum vettvangi, að full ástæða sé fyrir íslensk stjórnvöld að skoða af fullri alvöru þá hugmynd að taka upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar, ýmist einhliða eða með samkomulagi við önnur eða annað ríki.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Um gjaldmiðla
Í þessu sambandi hef ég bent á áhugaverða grein hagfræðinganna Heiðars Más Guðjónssonar og Ársæls Valfells, sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag, þar sem færð eru rök fyrir því að upptaka annars gjaldmiðils hér á landi sé ekki einungis möguleg, heldur hugsanlega ódýrari, einfaldari og áhættuminni en að setja krónuna aftur á flot með tilheyrandi lántökum.
x x x
Ég hef sagt að við óvenjulegar aðstæður eins og þær sem nú eru uppi þurfi hugsanlega að grípa til óvenjulegra lausna. Upptaka annars gjaldmiðils er lausn af því tagi. Hún er vissulega djörf, en uppbyggileg og vel þess virði að um hana sé fjallað efnislega á opinberum vettvangi.
Ég er ósammála þeim sem halda því fram að þeir sem vilja ræða hugmyndir eins og þessa séu með því í raun að reyna að drepa öðrum hugmyndum, eins og hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu, á dreif.
Ég vil að minnsta kosti ekki gangast við slíku, heldur finnst mér ástæða, ekki síst á þessum tímum, til þess að ræða þessa hugmynd efnislega og með uppbyggilegum hætti, en ekki á grundvelli skotgrafarhernaðar eða samsæriskenninga.
x x x
Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál, skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar segir hann að ríkisstjórnin þurfi að grípa strax til tiltekinna aðgerða, en ein er sú að lýsa því strax yfir að annar gjaldmiðill verði tekinn upp svo fljótt sem auðið er. Í greininni segir Benedikt:
,,Annar gjaldmiðill verður tekinn upp svo fljótt em auðið er. Kannski er þetta flókið og seinvirkt, kannski einfalt. Aðalatriðið er að stjórnvöld marki þá stefnu að krónan verði ekki sá myllusteinn um háls þjóðarinnar í framtíðinni sem hún er nú."
x x x
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var haft eftir Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að einhliða upptaka annars gjaldmiðils væri tæknilega framkvæmanleg, en ekki fýsileg. Þá var það haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að hún vildi að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og tæki upp evru. Skoðun utanríkisráðherrans þarf ekki að koma á óvart. Hún hefur margoft komið fram.
Í umræðum síðustu daga um þessa hugmynd hefur verið bent á ýmis tæknileg vandkvæði sem kynnu að vera henni samfara. Ég ætla ekki að draga dul á að eflaust þyrftu stjórnvöld að leysa ýmis tæknileg vandamál ef þau tækju ákvörðun um einhliða upptöku annars gjaldmiðils hér á landi. Þau vandamál þarf einfaldlega að greina, ræða og leysa.
Þeir sem halda því fram að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í framhaldinu taka upp evru á grundvelli aðildar, hljóta að viðurkenna að þeirri leið fylgi líka tæknileg vandamál. Raunar má halda því fram að þau tæknilegu vandamál sem fylgja aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru séu mun umfangsmeiri og flóknari en þau sem upptaka nýs gjaldmiðils fylgir.
Þessu er nauðsynlegt að halda til haga í umræðunni um þessi mál.
x x x
Það hefur ennfremur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þessari umræðu síðustu daga að þeir sem hafa efasemdir um einhliða upptöku evru sem gjaldmiðils hafa haldið því fram að slík ákvörðun myndi kalla á hörð viðbrögð frá Evrópusambandinu. Þessu sjónarmiði hefur Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, meðal annarra haldið fram, nú síðast í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag. Undir þau sjónarmið hafa talsmenn Evrópusambandsaðildar innan Samfylkingarinnar og raunar fleiri tekið.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, bendir á þann athyglisverða vinkil á heimasíðu sinni fyrir nokkrum dögum, sem tengist íslenska óttanum við viðbrögðum Evrópusambandsins við einhliða upptöku evru, að árið 1999 hafi Bernard Kouchner, núverandi utanríkisráðherra Frakklands, verið landsstjóri á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo. Hann hafi ákveðið einhliða upptöku þýsks marks þar í landi og síðan evru, án þess að hafa verið ofsóttur af valdhöfum í Brussel. Bernard Kouchner sé nú forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins. Og Björn veltir því eðlilega fyrir sér hvort líklegt sé að viðbrögð hans yrðu hörð ef Íslendingar færu að fordæmi hans sjálfs, fyrir innan við áratug síðan, og tækju upp evru einhliða.
Sjálfur hefði ég haldið að skynsamlegra væri að leita ráða hjá forseta ráðherraráðs Evrópusambandsins, í ljósi áhrifa hans innan Evrópusambandsins og persónulegrar reynslu hans af því að taka evru einhliða í landi utan sambandsins, í stað þess að gefa sér fyrirfram að viðbrögð hans og starfsbræðra hans yrðu svo hörð sem haldið hefur verið fram.
x x x
Ég er alveg sammála því sem fram kom í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, að við Íslendingar eigum að fara fram með okkar mál í sátt og samlyndi við aðrar þjóðir, þar á meðal í gjaldmiðilsmálum, en ekki með átökum.
Ég veit ekki til þess að nokkur maður sem tekið hefur þátt í umræðu um þessi gjaldmiðilsmál hafi mælt með slíkum átökum. Og ég sé enga ástæðu til að gefa mér það fyrirfram að til slíkra átaka þurfi að koma vilji íslensk stjórnvöld skipta krónunni út fyrir annan gjaldmiðil. Að minnsta kosti fæ ég ekki séð að það myndi skaða neinn ef slíkar viðræður færu fram.
Enn síður fæ ég séð hvers vegna bandarísk stjórnvöld, með hinn nýkjörna forseta Barak Obama í broddi fylkingar með öll sín nútímalegu og frjálslyndu viðhorf, ættu að taka því illa ef Íslendingar óskuðu eftir því að taka upp dollar sem gjaldmiðil á Íslandi. Það hlýtur að minnsta kosti að mega ræða þann möguleika við stjórnvöld í Washington án þess að eiga það á hættu að allt fari í bál og brand í samskiptum þjóðanna.
x x x
Við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum og miðað við þá erfiðleika sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir eiga stjórnvöld ekki að útiloka neinar hugmyndir sem geta verið til hagsbóta fyrir samfélagið okkar, fyrir fólkið og fyrirtækin í landinum. Við megum hvorki við skammsýni eða þröngsýni í þessum málum, enda held ég að við höfum ekki efni á slíku.
Af þeirri ástæðu hef ég haldið því fram að skoða eigi að fullri alvöru og kanna til hlítar, fordómalaust, þá hugmynd sem sett hefur verið fram um að hér verði tekinn upp annar gjaldmiðill í stað krónunnar, annað hvort einhliða eða samkvæmt samkomulagi við önnur eða annað ríki.
Þar kemur upptaka evru til skoðunar, en eins, og ekki síður, upptaka Bandaríkjadals eða annars gjaldmiðils.
Slíkar hugmyndir á að mínu mati ekki að slá umræðu- og athugunarlaust út af borðinu, heldur á að mínu mati að ræða þær opinskátt.
Sigurður Kári.Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar lausnir
Tillögur þeirra Heiðars Más og Ársæls hafa vakið mikla eftirtekt og fjöldi málsmetandi sérfræðinga á þessu sviði hafa tjáð sig um þær.
Í viðtali við Fréttablaðið á sunnudaginn segir Daniel Gros, forstöðumaður Center for European Studies í Brussel, sem aðstoðaði Svartfellinga við einhliða upptöku evru: ,,Ég er algjörlega sammála meginrökum greinarinnar."
Á mánudaginn birtust síðan meðal annars greinar eftir Eddu Rós Karlsdóttur, hagfræðing hjá Landsbankanum og Manuel Hinds, fyrrum fjármálaráðherra El Salvador sem unnið hefur sem efnahagsráðgjafi, meðal annars fyrir Alþjóðabankann.
Í upphafi greinar sinnar segist Edda Rós vera í grundvallaratriðum sammála greiningu Ársæls og Heiðars á vandanum og segir: ,,Mér finnst mjög spennandi að menn velti því fyrir sér hvort hægt sé að stytta sér leið inn í evruna, til að koma í veg fyrir að gjaldeyriskreppan hrindi af stað nýrri bankakreppu sem auki enn á efnahagskreppuna.", en veltir jafnframt fyrir sér ýmsum tæknilegum útfærslum á þessari hugmynd.
Í grein sinni segir Manuel Hinds, sem áður hefur talað fyrir einhliða upptöku annars gjaldmiðils, m.a.:
,,Að skipta krónunni út fyrir evru myndi jafnvel hafa aðra kosti. Eins og Heiðar Guðjónsson og Ársæll Valfells bentu á í greininni; Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum, sem birtist í Fréttablaðinu á laugardag, yrði það ekki nauðsynlegt að taka erlend lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða, einungis til að veita krónunni trúverðugleika, ef evran yrði tekin upp. Núverandi gjaldeyrisvaraforði er nægjanlegur fyrir upptöku evru. Reyndar myndi Seðlabankinn standa uppi með umframforða, eftir að hafa keypt nauðsynlegar evrur. Og hægt væri að nota erlend lán til að byggja upp efnahagslífið, í stað þess að byggja undir veikan gjaldmiðil."
Í Kastljóssþætti Sjónvarpsins í gær ræddu hagfræðingarnir Ólafur Ísleifsson og Gylfi Zöega síðan um hugmyndir Heiðars og Ársæls um einhliða upptöku annars gjaldmiðils en krónunnar. Ekki var annað á þeim að heyra en að þeir hrósuðu hugmyndinni og teldu hana framkvæmanlega.
Góður maður sagði eitt sinn við mig að óvenjulegar aðstæður eins og nú eru uppi kölluðu á óvenjulegar lausnir.
Miðað við þau viðbrögð sem fram hafa komið við hugmyndum Heiðars Más og Ársæls þá hljóta hugmyndir þeirra að koma til skoðunar við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Laugardagur, 8. nóvember 2008
,,Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum"
Heiðar Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri hjá Novator, og Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands skrifa mjög athyglisverða og ítarlega grein um gjaldmiðla og gengismál sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Í greininni, sem ber yfirskriftina ,,Valmöguleikar eru fyrir hendi í gengismálum" færa þeir Heiðar Már og Ársæll rök fyrir því að Ísland geti tekið einhliða upp annan gjaldmiðil í stað krónunnar og að sú leið sé ódýrari og áhættuminni fyrir íslenska ríkið en að setja krónuna á flot og ráðast í gríðarlegar lántökur.
Mér finnst ástæða til að birta greinina hér, hafi hún farið framhjá þeim sem þessa síðu lesa, en hún er svohljóðandi:
,,Í núverandi árferði er mikilvægt að búa til festu. Hún fæst ekki með óbreyttu gengisfyrirkomulagi. Ætlun Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) er að setja krónuna aftur á flot, en til þess þurfa þeir að stórefla gjaldeyrisforðann. Í því skyni er ætlunin að Seðlabankinn fái sex milljarða dollara lán. Ekki hefur komið fram til hve langs tíma lánið er. Lán þarf að endurgreiða. Í ætlun Seðlabankans og IMF felst ákveðin áhætta. Áhættan felst í því að ef ekki tekst að endurvekja traust á krónunni munu þeir, sem eiga krónur, reyna að skipta þeim eins hratt og mögulegt er fyrir gjaldeyri en ekki vilja skipta gjaldeyri aftur yfir í krónur. Þá sæti ríkið eftir skuldsett og áfram með ótrúverðugan gjaldmiðil.
Önnur leið
Einn valkostur er þó til staðar í núverandi stöðu. Það er einhliða upptaka á mynt. Þá leið er hægt að framkvæma með mun minni gjaldeyrisforða. Sá forði sem nú er í Seðlabankanum er um það bil tveir milljarðar evra (gert er ráð fyrir tapi af láni til Kaupþings með veði í FIH í Danmörku og svo útstreymi síðustu vikna). Sá forði ætti að duga vel fyrir skiptunum. Að framansögðu gefnu myndi við skiptin jafnvel losna um dágóða fjárhæð, gróft áætlað um 100 milljarða íslenskra króna, sem sæti eftir í kassa ríkissjóðs.
Fordæmi fyrir einhliða upptöku
Einhliða upptöku annars gjaldmiðils er oft ruglað saman við fastgengisstefnu (currency board). Með fastgengisstefnu er átt við að þjóðríkið viðhaldi eigin gjaldmiðli áfram og miði verðmæti gjaldmiðilsins við gjaldeyrisforða. Sú leið var farin í Argentínu og árangur hennar umdeildur. Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka. Útgáfu innlendrar myntar er þar með hætt. Sú leið var farin í El Salvador og Ekvador árið 2000-2001. Í heild eru það níu sjálfstæð ríki í heiminum sem nota bandaríkjadollar sem lögeyri. Þess má einnig geta að utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil.
Fræðilega má segja að á Íslandi sé til fordæmi fyrir því að skipta út öllum seðlum og mynt í umferð. Það var gert þegar slegin voru af þrjú núll í byrjun níunda áratugarins. Það var mun flóknari aðgerð en sem felst í einhliða upptöku á gjaldmiðli. Ástæðan er að íslenskt fjármálakerfi er mjög rafvætt og lítið af seðlum og mynt í umferð. Íslenska bankakerfið og fjármálakerfið er mjög sjálfvirkt og sumir hagfræðingar hafa rætt þann möguleika að sleppa pappír og mynt í kerfinu með öllu.
Hvernig eru skiptin framkvæmd?
Íslandsvinirnir Daniel Gros og Manuel Hinds hafa báðir komið hingað til lands og lýst hvernig slík skipti fara fram. Daniel framkvæmdi upptöku á evrum í Svartfjallalandi að beiðni forseta landsins. Manuel stýrði upptöku á dollar fyrir El Salvador þegar hann var fjármálaráðherra þess. Ferlið var einfalt.
Fyrst þurfti að sjá til þess að nóg framboð væri af seðlum og mynt í hinum nýja gjaldmiðli. Að lokum var haft samband við IMF og honum tilkynnt um skiptin. Þetta var undirbúningsferlið og tók nokkrar vikur. Síðan var ákveðinn dagur og stund. Eftir þann tíma yrði allt bankakerfið skipt yfir í hina nýju mynt á föstu gengi. Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutingsgreinum. Síðan var ákveðið að skuldaviðurkenningar til skamms tíma (t.d. ávísanir) yrðu gildar í 3 mánuði frá skiptunum í hinni eldri mynt en seðlar og aurar í allt að 6 mánuði. Lögskipað var að öll verð í landinu væru birt í nýju og gömlu myntinni í 6 mánuði eftir að skiptin hófust. Bankar fengu 3ja mánaða frest til að laga vaxtatöflur sínar að hinni nýju grunnmynt og vaxtastigi hennar.
En hvað kosta skiptin?
Í umræðu um upptöku gjaldmiðils er oft nefnt að kaupa þurfi svo mikið af hinni nýju mynt að það skapi vandamál. Hið rétta er að flestir seðlabankar heims eiga miklum mun meira af gjaldeyrisforða en nemur grunnmynt samfélagsins. Í tilfelli Íslands er það svo að seðlar og mynt í umferð eru lítið brot af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Grunninnstæður eru aðeins um helmingur af gjaldeyrisforða Seðlabankans. Skv. útreikningum Manuel Hinds í október 2007, hefði Seðlabanki Íslands átt eftir um 700 milljónir evra af forða sínum eftir að hafa skipt út öllum seðlum og mynt og grunninnistæðum bankakerfisins. Grunninnistæður skipta hér einungis máli því bankakerfi viðkomandi lands sér um að margfalda peningana í umferð. Til útskýringar:
Einstaklingur A leggur inn í banka 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi B.
Einstaklingur B kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi C.
Einstaklingur C leggur inn 100 evrur sem bankinn lánar einstaklingi D.
Einstaklingur D kaupir eitthvað fyrir 100 evrur af einstaklingi E
o.s.frv.
Það þarf því ekki að skipta út heildarumsvifum bankakerfisins, heldur aðeins grunninum, því margföldunin á sér stað með framangreindum hætti.
Skiptin á Íslandi kalla því ekki á 6 milljarða dollara lán heldur skila í raun afgangi af núverandi gjaldeyrisforða eins og Hinds bendir á.
Pólitísk viðbrögð
Í EES-samningnum er einungis kveðið á um að ríkin skuli halda hvert öðru upplýstu um breytingar á peningamálastefnu sinni en í næstu grein er sérstaklega tiltekið að slík mál falli utan samningsins. Einhliða upptaka annars gjaldmiðls brýtur því ekki EES-samninginn. Betra er þó að hafa IMF og viðeigandi seðlabanka með í ráðum. Formlegt samþykki þeirra er ekki nauðsynlegt því að gjaldeyrir sem íslenska ríkið hefur keypt á markaði er eign þess. Enginn getur bannað Íslendingum að nota hann í viðskiptum innan landsins.
Hagfræðikenningar í fortíð og nútíð
Þegar hagfræðingar ræða kosti þess að hafa sjálfstæða peningastefnu, eru oftast þrjár ástæður gefnar. Í fyrsta lagi viðskiptalegar, þ.e. hægt er að hafa áhrif á gengi gjaldmiðils til að hygla útflutningi og hamla innflutningi og þannig tempra hagsveiflur út af ytri áföllum. Í öðru lagi eru fjármálalegar ástæður og þá helst möguleiki Seðlabanka til að prenta peninga og ákveða sjálfur verð þeirra. Peningaprentun býr til tekjur fyrir ríkið (verðbólguskattur) samkvæmt þessum kenningum en á einnig að tryggja greiðsluhæfi fjármálakerfisins innanlands ef snögglega dregur fyrir fjárstreymi erlendis frá. Með þessu getur seðlabanki viðkomandi lands orðið verndari fjármálakerfisins (lender of last resort) og leyst úr lausafjárvanda innlendra fjármálastofnana.
Margar hagfræðikenningar sem enn er stuðst við í peningamálum, svo sem þær sem minnst er á hér að ofan, eiga oft upptök sín hjá Keynes eða eru eignaðar honum. Á tíma Keynes voru viðskipti með gjaldeyri nánast eingöngu vegna vöruviðskipta. Þá þurfti mikið að hafa fyrir gjaldeyrisviðskiptum og höft ríktu í milliríkjaviðskiptum. Engar alþjóðlegar fjármálastofnanir, eins og við þekkjum í dag, voru þá til.
Eftir seinna stríð var reynt að einfalda og samræma gjaldeyrismarkað og voru peningar bundnir við gull í svokölluðu Bretton Woods samstarfi. Það samstarf leið undir lok í forsetatíð Richard Nixon, því verðmæti bandaríkjadals gagnvart gulli féll þegar Bandaríkin prentuðu seðla til að fjármagna Vietnam stríðsreksturinn.
Við tók að gjaldeyrir var keyptur og seldur á mörkuðum og verðmæti hans ákvarðað af markaðsaðilum. Vöxtur fjármálakerfisins og framþróun í tölvu- og upplýsingatækni jók umfang viðskipta með gjaldeyri og viðskiptakostnaður hefur lækkað stórkostlega. Nú geta flestir átt viðskipti með gjaldeyri, skuldsett sig í mismunandi myntum og fjárfest óháð myntum. Hraði þessara viðskipta hefur margfaldast með tilkomu rafrænna viðskipta. Í dag er agnarsmár hluti af 3200 milljarða dollara daglegri veltu á gjaldeyrismörkuðum tengdur vöruviðskiptum, ólíkt því sem áður var. Eðli markaðarins hefur því breyst.
En hver hefur reyndin verið á núverandi fyrirkomulagi gjaldeyrisviðskipta í ljósi framangreindra hagfræðikenninga? Fyrstu rökin, um að með gengisfellingu væri hægt að rétta úr hagkerfinu eftir ytri áföll, hafa verið gagnrýnd. Gagnrýnin felst í því að í nútíma hagkerfi eru fjármálakerfi mun þýðingarmeiri en áður var. Gengisfellingar hafa vissulega áhrif á einstaklinga og fyrirtæki viðkomandi lands, en áhrifin sem gengisfellingar hafa á fjármálakerfið eru enn meiri. Ávinningur gengisfellinga í sögulegu ljósi er því mjög takmarkaður og mögulegt tap fjármálakerfisins er meira en ávinningur útflutningsgreina. Gengissveiflur búi ennfremur til kostnað vegna þess að með gengissveiflum verði áætlanir erfiðari. Gengissveiflur geta einnig dregið úr vilja fjármálastofnana til að veita lánsfé til langs tíma.
Seinni rökin, um að seðlabanki viðkomandi lands gæti varið landið fjármálakreppum með prentun seðla, hafa einnig sætt gagnrýni. Vegna alþjóðavæðingar fjármálakerfisins eru bankar, fyrirtæki og einstaklingar með skuldbindingar og eignir í öðrum myntum og því er erfiðara að bjarga þeim með innlendri peningaprentun. Svo lengi sem fyrirtæki og stofnanir viðkomandi lands geta ekki fjármagnað sig alþjóðlega í eigin mynt er hætta á óstöðugleika sem innlend seðlaprentun getur ekki bjargað.
Þriðju rökin, sem snúa að skattheimtu ríkisins af peningaprentun, mega sín lítils í dag. Þessi skattheimta er alla jafna brot úr prósenti af landsframleiðslu hvers árs. Skattheimta af útlendingum sem nota peningana er léttvæg nema þegar um stærstu myntir heims er að ræða.
En hvað með hagstærðirnar?
Með upptöku annars gjaldmiðils er verið að tengja land inn á efnahagssvæði gjaldmiðilsins. Verðbólga og viðskiptahalli skipta stjórnvöld þá ekki lengur máli því þau stýra ekki lengur peningamagni í umferð og bera enga ábyrgð á verðlagi. Til skýringar þá kemur engum til hugar að velta því fyrir sér hvort Selfoss sé með jákvæðan eða neikvæðan viðskiptahalla innan efnahagssvæðisins Íslands.
Klassískar hagfræðikenningar um gjaldmiðla sem smíðaðar voru í hálflokuðum kerfum fortíðar hafa sætt gagnrýni fyrir að lýsa illa opnum hagkerfum nútímans. Nóbelsverðlaunahafinn Robert Mundell hefur velt þeirri spurningu upp hvort hagkvæmasta framtíðarskipan gjaldmiðla felist í því að í heiminum verði einungis til þrír gjaldmiðlar, Asíumiðill, Ameríkumiðill og evrumiðill.
Hvort sem lán fæst hjá IMF eður ei er upptaka gjaldmiðils einfaldur, ódýr og raunhæfur kostur sem hafa ber í huga við núverandi aðstæður."
Þau sjónarmið sem þeir Heiðar Már og Ársæll setja fram í þessari grein sinni eru allrar athygli verð og hljóta að koma til skoðunar við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Hverjir eiga að bera byrðarnar?
Nú þegar ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um að leita aðstoðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi blasir við ný staða hér á landi. Staða þjóðarbúskapsins er allt önnur og verri en hún var fyrir ekki lengri tíma en mánuði síðan. Allar áætlanir í rekstri ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og fjölskyldna eru í uppnámi.
Nú er nauðsynlegt að stokka spilin upp á nýtt og taka ákvarðanir um það hvernig leysi beri úr þeim vanda sem við blasir og hvernig haga eigi því uppbyggingastarfi sem framundan er.
Hamfarir
Hagfræðiprófessorarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson bentu á í grein sinni í Morgunblaðinu á mánudag að líkja megi þeim ósköpum sem hér hafa dunið yfir á síðustu vikum við náttúruhamfarir. Undir þá lýsingu er óhætt að taka. Fjármálakerfið er hrunið. Gengi gjaldmiðilsins er hrunið. Vextir eru himinháir. Verðbólga líka. Eignir Íslendinga brenna upp. Sparnaður hefur tapast. Fasteignaverð fellur. Viðskipti okkar við önnur lönd eru í uppnámi. Ísland á í milliríkjadeilu við Breta. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna. Námsmenn eru í kröggum og svo mætti lengi telja. Allt hefur þetta gerst á ógnarskömmum tíma.
Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis.
Erfiðir tímar framundan
Það eru erfiðir tímar framundan og engin ástæða til að leggjast í sjálfsafneitun og loka augunum fyrir vandanum eins og hann er.
Á næstu misserum og árum er fyrirséð að þær byrðar sem þjóðin þarf að bera verða þyngri en áður. En þær byrðar eiga fólkið í landinu og fyrirtækin ekki að bera ein. Ríkið og sveitarfélögin þurfa ekki síður að leggja sitt af mörkum.
Þó svo að halda megi því fram með góðum rökum að ýmsir aðilar hafi gengið of hratt um gleðinnar dyr í góðærinu þá eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa tekið þátt í gleðinni.
Aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kallar á nýja efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisfjármál þarf að endurskoða nánast frá grunni. Tekjur ríkisins munu dragast verulega saman. Því er ljóst að til aðgerða þarf að grípa til þess að endar nái saman í ríkisfjármálum.
Tvær leiðir
Þar eru tvær leiðir einkum nefndar. Önnur er sú að hækka skatta á fólk og fyrirtæki til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs. Hin er sú að draga úr útgjöldum ríkisins.
Skattahækkanir?
Sjálfum hugnast mér síður að við fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs verði brugðist með því að hækka skatta á almenning og fyrirtæki. Ég fæ ekki séð að það sé mögulegt að bæta aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki ofan á yfirvofandi tekjufall, atvinnuleysi, gjaldþrot, háa vexti og verðbólgu. Nóg er nú samt. Og það má halda því fram með góðum rökum að sú kjaraskerðing sem þegar hefur orðið vegna verðbólgu feli í sér ígildi skattahækkunar.
Niðurskurður ríkisútgjalda
Að mínu mati væri miklu skynsamlegra að draga verulega úr ríkisútgjöldum á flestum eða öllum sviðum. Eins og áður segir eru hvorki ríki né sveitarfélög saklaus af því að hafa verið þátttakendur í góðærinu. Þó verður að halda því til haga að ríkið greiddi upp skuldir sínar meðan vel gekk, sem er lofsvert. Engu að síður hefur opinberum starfsmönnum fjölga og stjórnsýslan þanist út. Laun hafa hækkað og ráðist hefur verið í ýmis kostnaðarsöm gæluverkefni. Ofan af þessu þarf að vinda. Það þarf að draga saman í ríkisbúskapnum á flestum eða öllum sviðum og forgangsraða útgjöldum með skynsamlegum hætti í þágu þeirrar grunnþjónustu sem veita þarf almenningi og þeirra grunnstoða sem byggja skal þjóðfélagið á til framtíðar. Lúxusinn þarf hins vegar að setja á ís.
Ég tel að niðurskurður útgjalda ríkisins eigi að bera það með sér að ríkið ætli að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna með afdráttarlausum hætti að það ætli að skera niður í eigin ranni svo fólkið og fyrirtækin í landinu sjái svart á hvítu að því verður ekki einu ætlað að bera allar byrðarnar. Þar á ekkert að vera undanskilið og skilaboðin verða að vera skýr. Að mínu mati á til dæmis að fækka ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Starfslið hins opinbera má ekki vera fjölmennara en nauðsyn krefur. Alþingismenn sem hafa ráðið sér aðstoðarmenn verða að sætta sig við að sjá á bak þeim. Auka þarf sveigjanleika á opinberum vinnumarkaði og veita yfirmönnum fyrirtækja ríkisins og stofnana aukið aðhald. Launakjör og önnur réttindi opinberra starfsmanna, hvort sem er í stjórnsýslunni, hjá fyrirtækjum ríkisins eða stofnunum þurfa að taka mið af efnahagsástandinu. Risnukostnað ríkis og sveitarfélaga og öll hugsanleg fríðindi starfsmanna þeirra þarf að skera við nögl. Það þarf með öðrum orðum að skera alla þá fitu sem fyrirfinnst í ríkisrekstrinum burt.
Þar fyrir utan er auðvitað nauðsynlegt að endurskoða umfang verkefni og umsvif ýmissa ráðuneyta. Utanríkisþjónustuna þarf að endurskipuleggja. Ríki sem þarf á aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að halda er ekki aflögufært um að veita öðrum ríkjum þróunaraðstoð. Við höfum ekki efni á því nú um stundir að bora jarðgöng víðs vegar um land og verðum að fara varlega í að ráðast í rándýrar byggingaframkvæmdir. Byggingu hátæknisjúkrahúss þarf að fresta. Mýmörg önnur dæmi má nefna.
Niðurskurður eins og sá sem hér er nefndur verður ekki sársaukalaus. Hann verður mjög erfiður. En hjá honum verður ekki komist. Hið opinbera verður að sníða sér stakk eftir vexti við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við höfum því miður ekki efni á öðru.
Atvinnustarfsemi, auðlindir og nýsköpun
Samhliða þessum niðurskurðaraðgerðum er mikilvægt að stjórnvöld hugi vel að þeim atvinnurekstri sem eftir stendur eftir hrun fjármálakerfisins. Hinar krafmiklu útflutningsgreinar þjóðarinnar, sjávarútvegur og stóriðja, ásamt ferðaþjónustu, munu gegna lykilhlutverki við að afla þjóðarbúinu tekna í framtíðinni. Þær þarf að vernda. Jafnframt þarf að auka framleiðslu innanlands til að afla aukinna tekna og leita allra leiða til þess að efla erlenda fjárfestingu í landinu. Það verður meðal annars gert með því að nýta þær auðlindir landsins sem í dag standa ónýttar svo þær skili þjóðarbúinu tekjum. Það þarf að virkja þann sköpunarkraft og þekkingu sem býr í fólkinu í landinu og efla nýsköpun til nýrrar atvinnusóknar á öllum sviðum.
Meginverkefnin
Nú er mikilvægt að halda vel á spöðunum og ígrunda vel og vandlega með hvaða hætti stjórnvöld eigi að leysa úr þeim viðfangsefnum sem við blasa. Meginverkefnið hlýtur að vera að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem hér starfa, endurreisa fjármálakerfið, koma á eðlilegum viðskiptum við önnur lönd, standa vörð um hag almennings, verja heimilin, efla verðmætasköpun í landinu, verja störf og koma í veg fyrir að ungt og vel menntað fólk finni kröftum sínum farveg í öðrum löndum. Slíkt verður ekki gert með því að hækka skatta á fólkið okkar og fyrirtækin okkar.
Lánist þjóðinni að standa samhent í því að leysa úr þessum viðfangsefnum munum við komast standandi út úr þeim þrengingum sem nú dynja yfir og getum litið bjartsýnum augum til framtíðarinnar.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu hinn 5. nóvember sl.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Bretar gagnrýndir
Ég er nýkominn heim til Íslands eftir að hafa sótt fund þingmannanefndar um Norðurskautsmál sem haldinn var í bænum Östersund í Svíþjóð í gær. Aðild að nefndinni eiga þingmenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi, Finnlandi, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Grænlands og Færeyja, auk þess sem fulltrúi Evrópuþingsins á aðild að nefndinni.
Það er óhætt að segja að kollegar mínir frá þessum löndum hafi verið mjög áhugasamir um stöðu mála á Íslandi vegna fjármálakreppunnar.
Á fundinum hélt ég ræðu þar sem ég gagnrýndi meðal annars að framferði breskra stjórnvalda í garð íslenskra fyrirtækja og í raun alls íslensks almennings, en í ræðunni sagði ég m.a.:
,,Specially I would like to mention that on the 8th of October the UK Government applied the Anti-Terrorism Act against an Icelandic bank and the Icelandic authorities following a bankruptcy of a branch of one of the Icelandic banks, operating in England. Even though the Icelandic government has stated that it is giong to honor its international legal obligations following the bankruptcy the UK Government applied the Anti-Terrorism legislation against us.
This is the only time that a NATO member has used Anti-Terrorism legislation against another NATO-ally, but the UK had before applied the Anti-Terrorism act against, for ex., the Taliban regime in Afganistan, Al Quida and countries like North Korea, Iran, Sudan and now Iceland, which in our opinion is totally unacceptable. In other countries, governments have worked with the Icelandic banks to solve the problems posed by the international financial crisis in a careful and considered manner.
Unfortunately the UK government has not.
Their decision to use the UK Anti-Terrorism legislation against us made the economical situation in Iceland much worse and should greatly criticised by other countries."
Íslenskir stjórnmálamenn bera að mínu mati skyldur til þess að gagnrýna framferði breskra stjórnvalda gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum við öll þau tækifæri sem gefast til þess að hafa slíka gagnrýni uppi.
Mér finnst jafnframt mikilvægt að við slík tækifæri skori íslenskir stjórnmálamenn á erlenda kollega sína að gagnrýna bresk stjórnvöld fyrir framferði sitt gagnvart Íslendingum með beitingu hryðjuverkalaganna.
Því miður hefur verið sorglegt og óþolandi að horfa upp á stjórnvöld margra öflugra ríkja, bandamanna til áratuga, horfa upp á framferði Gordons Brown, Alistairs Darling og bresku ríkisstjórnarinnar gagnvart íslensku stjórninni og gera ekki neitt.
Það er fullkomlega óásættanlegt.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði
Í vikunni tók ég þátt í utandagskrárumræðum um stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Þar hélt ég því fram að með kaupum Rauðsólar á fjölmiðlahluta 365 og fyrirhugaðri sameiningu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins undir merkjum Árvakurs væri að eiga sér stað mesta samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sem sést hefur á Íslandi.
Fullyrða má að það nýja fjölmiðlaveldi sem nú er að myndast hér á landi eigi sér engan samjöfnuð í hinum vestræna heimi, með 24 fjölmiðla innan sinna vébanda. Gangi þessi áform eftir eru svo gott sem allir einkareknu fjölmiðlar landsins komnir á eina hendi.
Slíkt getur varla talist lýðræðislegri umræðu í samfélaginu til framdráttar, alveg óháð því á hvers hendi eignarhaldið er.
Árið 2004 var reynt var að koma á regluverki hér á landi sem hafði þann tilgang að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum og lýðræðislega umræðu í samfélaginu.
Við sem stóðum að lögunum, Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn, og samþykktum þau máttum á þeim tíma m.a. sæta ásökunum um að hafa gerst sekir um tilræði gegn lýðræðinu, við vorum ásakaðir um valdnýðslu og valhroka og bananar voru meira að segja lagðir að tröppum Alþingishússins. Undir öll þessi ósköp ýttu fulltrúar allra þeirra flokka sem þá voru í stjórnarandstöðu á Alþingi.
Lögin hlutu ekki staðfestingu forseta Íslands sem hélt því fram að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar.
Í ljósi sögunnar var mjög athyglisvert, svo ekki sé meira sagt, að heyra að í umræðunum að nú sé komið allt annað hljóð í strokkinn hjá fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem fyrir fjórum árum máttu ekki heyra minnst á að reglur yrðu settar um eignarhald á fjölmiðlum og fundu málinu allt til foráttu.
Það væri ekki síðust athyglisvert að fá nú upplýst um hvort þeir sem töluðu hvað mest um gjána milli þings og þjóðar telji að hún sé ennþá til staðar eða hún hafi jafnvel verið brúuð. Þá væri kannski ástæða fyrir blaðamenn að spyrja þá hina sömu hvort þeir séu sáttir við þá þróun sem nú er að eiga sér stað á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Kannski menn sjái nú að sér þegar svo gott sem allir einkareknu fjölmiðlarnir eru komnir á eina hendi.
Á Alþingi hljóta menn nú að velta því fyrir sér nú með hvaða hætti þeir vilja sjá fjölmiðlamarkaðinn á Íslandi þróast til framtíðar.
Í tilefni af þeim atburðum sem átt hafa sér stað á fjölmiðlamarkaði óskaði ég eftir því við forseta Alþingis að haldinn verði opinn fundur í menntamálefnd Alþingis til þess að ræða um þá stöðu sem upp er komin á fjölmiðlamarkanum og hyggst boða þangað til fundar hagsmunaaðila í íslenskum fjölmiðlum og aðra þá sem málið varða til þess að ræða um eignarhald á fjölmiðlum, auglýsingamarkaðinn og fleiri álitamál sem þafnast skoðunar við.
Ég á von á því að fundurinn verði haldinn í næstu viku.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 20. október 2008
Ágreiningur?
Af fréttum helgarinnar mátti ráða að ágreiningur væri milli ríkisstjórnarflokkanna um það hvort Ísland ætti að leita eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins IMF.
Þannig var sagt frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að margt benti til þess að ákvörðun um að leyta eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins væri orðin að pólitísku hitamáli milli ríkisstjórnarflokkanna.
Ekki veit ég við hvaða heimildir fréttamenn styðjast þegar flytja fréttir af þessum meinta ágreiningi.
Ég hef ekki orðið var við annað en að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu, líkt og þingmenn Samfylkingarinnar, einhuga um að leita eigi eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fæ ekki betur séð en að viðræður við hann eigi sér nú stað.
Í ljósi þess hlýtur maður að velta því fyrir sér hver þessi meinti ágreiningur sé á milli ríkisstjórnarflokkanna og hver séu þessi póltísku hitamál honum tengd sem ríkistjórnarflokkarnir eru sagðir deila um?
Ég fæ ekki séð að fyrir þessum fréttum sé nokkur fótur.
Hugsanlegt er hins vegar að einhverjir spunameistarar, sem eru andsnúnir þessu stjórnarsamstarfi, sjái sér nú hag í því að tromma upp meintan ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna, væntanlega í þeirri von að slíkur spuni reki fleyg í stjórnarsamstarfið.
Þeir hinir sömu ættu hins vegar að velta því fyrir sér hversu alvarlegar afleiðingar það hefði í för með ef hér myndi bætast við stjórnarkreppa ofan á þá fjármálakreppu sem fyrir er í landinu.
Sigurður Kári.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 203801
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
allib
-
almaogfreyja
-
andrigeir
-
audbergur
-
audunnh
-
abg
-
axelaxelsson
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
astamoller
-
baldher
-
baldvinjonsson
-
benediktae
-
bergrun
-
kaffi
-
bergurben
-
bjarnihardar
-
bjarnimax
-
bjorgvinr
-
sveifla
-
binnag
-
bryndisharalds
-
skordalsbrynja
-
brandarar
-
charliekart
-
dansige
-
doj
-
deiglan
-
doggpals
-
egillg
-
erla
-
erlendurorn
-
skotta1980
-
ea
-
fsfi
-
vidhorf
-
hressandi
-
gammurinn
-
gerdurpalma112
-
gisliivars
-
gisliblondal
-
gillimann
-
grettir
-
gudni-is
-
gummibraga
-
phoenix
-
gunnarbjorn
-
gussi
-
laugardalur
-
habbakriss
-
smali
-
haddi9001
-
hhbe
-
handsprengja
-
730bolungarvik
-
heimssyn
-
herdis
-
hildurhelgas
-
drum
-
hjaltisig
-
hlekkur
-
kolgrimur
-
hlodver
-
don
-
hvitiriddarinn
-
ingabesta
-
golli
-
ibb
-
bestiheimi
-
jakobk
-
fun
-
stjornun
-
skallinn
-
jonasegils
-
forsetinn
-
jonmagnusson
-
bassinn
-
jonsnae
-
julli
-
komment
-
karisol
-
kje
-
kjarrip
-
kjartanvido
-
kolbrunb
-
kristinrichter
-
kristjanb
-
kristjangudm
-
liljabolla
-
altice
-
maggaelin
-
gummiarnar
-
martasmarta
-
mal214
-
nielsfinsen
-
ottoe
-
olibjossi
-
obv
-
nielsen
-
skari
-
pkristbjornsson
-
jabbi
-
pbj
-
storibjor
-
iceland
-
pjeturstefans
-
raggibjarna
-
raggiraf
-
raggipalli
-
ragnar73
-
schmidt
-
bullarinn
-
salvor
-
fjola
-
sigbragason
-
vitaminid
-
joklamus
-
sv11
-
sjonsson
-
siggikaiser
-
sisi
-
siggisig
-
sigurgeirorri
-
mogga
-
sigurjonb
-
sms
-
sjalfstaedi
-
hvala
-
hvirfilbylur
-
stebbifr
-
eyverjar
-
styrmirh
-
summi
-
brv
-
sveinn-refur
-
stormsker
-
saethorhelgi
-
tidarandinn
-
daystar
-
valdimarjohannesson
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
nytthugarfar
-
vibba
-
villagunn
-
va
-
villithor
-
xenon
-
thorbjorghelga
-
steinig
-
thorsteinnhelgi
-
thorasig
-
doddidoddi
-
thorolfursfinnsson
-
toddi
-
hugsun
-
ornsh