Auðvitað rifta Hollendingar ekki Icesave-samningnum

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld kom fram að hollensk stjórnvöld ætluðu ekki að rifta Icesave-samningnum við í íslensk stjórnvöld þó ekki hafi þeim tekist að berja Icesave-frumvarpið í gegnum Alþingi fyrir 30. nóvember.

Hollendingarnir hafa væntanlega ekki þurft að hugsa sig tvisvar um áður en þeir komust að þeirri niðurstöðu að það þjónaði best hagsmunum þeirra að rifta ekki samningunum við Íslendinga.

Enda hvers vegna ættu Hollendingar að rifta samningi þar sem fallist er á allar þeirra kröfur?

Það myndi enginn Hollendingur með viti gera.

Sigurður Kári.


Steingrímur kvartar og kveinar

Að kenna öðrum um ófarir sínar hefur fram til þessa ekki þótt góð latína.

Í þá gryfju er Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, nú fallinn.  Það kom berlega í ljós í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þar sem hann sagðist efast um að Alþingi réði við það verkefni að endurreisa efnahag landsins.

Tilefni þessara ummæla er það óefni sem Steingrímur, Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórnin eru komin í með sitt dapurlega Icesave-frumvarp.

Í vinsælli kvikmynd Stuðmanna var um það haft á orði að ein sögupersónan væri svo langt leidd í afneitun sinni að hún einblíndi á flísina í auga náunga síns, en tæki ekki ,,notice“ af bjálkanum í sínu eigin.

Þessi lýsing á ljómandi vel við Steingrím J. Sigfússon og ríkisstjórnina alla. 

Nú reyna spunameistarar hennar af öllu afli að beina athyglinni frá þeim vandræðum sem ríkisstjórnin er komin í og reyna að klína óorði á aðra sem utan hennar standa.

Sannleikurinn er sá að sá vandi sem Steingrímur lýsti í fréttum Stöðvar 2 hefur ekkert með Alþingi að gera.

Það sem blasir við er að það er sú ríkisstjórn sem Steingrímur situr í sem ræður ekkert við það verkefni að endurreisa efnahag landsins.

Það er nú öllum orðið ljóst.

Allir þeir sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi vita að innan ríkisstjórnarinnar er bullandi ágreiningur í grundvallarmálum.

Allir sjá að það er ekki raunverulegur þingmeirihluti fyrir Icesave-frumvarpi Steingríms.  Og allir að í raun var aldrei meirihluti á Alþingi fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu.  Ráðherrarnir hlaupa nú eins og fætur toga undan fjárlagatillögum þeirrar ríkisstjórnar sem þeir sjálfir eiga sæti í og eru auk farnir að krefja hvorn annan opinberlega um skýringar á einstökum yfirlýsingum sem gefnar eru á fundum úti í bæ.  Ríkisstjórnin kynnir tillögur sem hún dregur jafnharðan til baka og ráðherrar tala út og suður í grundvallarmálum.

Sorglegast er þó að horfa upp á ríkisstjórnina uppskera eins og hún hefur sáð.  Nú finna hundruðir fjölskyldna um allt land á eigin skinni hvaða afleiðingar skattahækkunaráform þessarar ríkisstjórnar hafa.  Uppsagnir sem forsvarsmenn fyrirtækjanna sem til þeirra þurfa að grípa útskýra með skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar.

Það blasir við að sú ríkisstjórn sem nú er við völd á Íslandi ræður engan veginn við þau verkefni sem henni er ætlað að leysa.

Aðgerðir hennar gera aðeins illt verra.

En Steingrímur J. Sigfússon lét sér ekki nægja að lítilsvirða Alþingi og alþingismenn í fréttum Stöðvar 2.

Hann kvartaði einnig hástöfum yfir því að þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðu mikið á Alþingi í Icesave-málinu sem nú er þar til umræðu og sagði að umræðan um málið staðið í heilar 60 klukkustundir og spurði hvort stjórnarandstaðan væri að reyna að tala ríkið ofan í ruslflokk lánshæfisfyrirtækja!

Málflutningur eins og þessi er auðvitað hvorki Steingrími J. né ríkisstjórninni til sóma.

Það ætti hins vegar ekki að koma Steingrími á óvart að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi ýmislegt til málanna að leggja í Icesave-málinu.  Icesave-málið varðar mestu þjóðarhagsmuni sem rekið hafa á fjörur Alþingis á lýðveldistímanum.  Það mál er svo stórt í sniðum að samþykkt þess kann að stefna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.  Þar við bætist að málsmetandi lögfræðingar, eins og Sigurður Líndal, lagaprófessor, og Ragnar H. Hall, hæstaréttarlögmaður,, hafa bent á að efni þess kunni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár.  Þá má ekki gleyma því að stjórnarflokkarnir komu í veg fyrir að málið yrði útrætt í þingnefndum og því er að sjálfsögðu eðlilegt að sú umræða sem þar átti að eiga sér stað fari fram í þingsölum.  Steingrímur og félagar geta því sjálfir sér um kennt.

Þó svo að þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi ekki brjóst í sér til þess að taka þátt í umræðunum standa fyrir máli sínu, er auðvitað ekkert athugavert við að þingmenn stjórnarandstöðunnar geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að standa vörð um hagsmuni Íslendinga og framtíðarkynslóða þessa lands, fyrst Steingrímur og ríkisstjórnin kjósa að gera það ekki.

Ég tók eftir því að fréttastofa Ríkissjónvarpsins gerði sérstaka frétt um það að umræður um Icesave-málið hefði staðið í 60 klukkustundir.

Ég saknaði þess hins vegar að þessi sama fréttastofa birti samanburð á lengd umræðunnar um Icesave-málið og lengd umræðna um önnur og smærri mál sem Alþingi hefur haft til meðferðar á undanförnum árum.

Þegar skoðaður er samanburður á ræðulengd í einstökum málum á síðustu árum á Alþingi og þau sett í samhengi við þá hagsmuni og álitamál sem uppi eru í Icesave-málinu kemur í ljós að umræða um það mál hefur í sögulegu samhengi ekki tekið langan tíma.

Hér verða nokkur dæmi nefnd um einstök mál og tímalengd umræðna um þau:

Vatnalög 57 klukkustundir og 40 mínútur.

Fjölmiðlafrumvarp 92 klukkstundir og 59 mínútur.

EES-samningurinn 100 klukkustundir og 37 mínútur.

Ríkisútvarpið 119 klukkustundir og 46 mínútur.

Allar eiga þessar umræður þær sameiginlegt að í þeim var stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon virkur þátttakandi.  Þessi sami Steingrímur kvartar nú sáran undan því að núverandi stjórnarandstæðingar hafi ýmislegt við Icesave-málið að athuga, mál sem varðar miklu meiri hagsmuni en öll þau frumvörp sem hér hafa verið nefnd til samans.

Í ljósi þess hversu miklir þjóðarhagsmunir eru í húfi er fullkomlega eðlilegt að um þá sé rætt, án þess að fjármálaráðherrann kvarti undan því og kveini.

Og það er ekki síður eðlilegt að þúsundir Íslendinga hafi nú tekið sig saman og gripið til örþrifaráðs til þess að reyna að koma í veg fyrir að Icesave-frumvarp Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnar Íslands nái fram að ganga.

Sigurður Kári.


Yfirlýsing forseta Íslands

Eins og allir vita samþykkti Alþingi svokölluð Icesave-lög þann 28. ágúst sl.  Með þeim voru lögfestir margvíslegir fyrirvarar sem verja áttu hagsmuni íslensku þjóðarinnar í þessu dapurlega máli.

Í kjölfarið voru lögin send Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, til staðfestingar.

Þegar forsetinn staðfesti lögin, þann 2. september 2009, sendi hann frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem hann rökstuddi þá ákvörðun sína að staðfesta þau.

Yfirlýsingin var svohljóðandi:

„Yfirlýsing forseta Íslands


    Í lögum um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti þann 28. ágúst 2009, eru margvíslegir fyrirvarar sem settir voru í hið upphaflega frumvarp.


    Fyrirvararnir eru niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.


    Samstaða hefur náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi samþykkti þá með afgerandi hætti. Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um.


    Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.


    Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.


    Um leið lætur forseti í ljósi þá ósk, að kraftar þings og þjóðar verði sameinaðir í því brýna verkefni að endurreisa íslenskt efnahagslíf, styrkja fjárhag heimilanna og stoðir atvinnuveganna. Að undanförnu hefur okkur birst á margvíslegan hátt að Íslendingar eiga fjölþætt sóknarfæri, að auðlindir landsins, hæfni og þekking þjóðarinnar geti orðið grundvöllur að traustu og réttlátu hagkerfi. Þau sóknarfæri þarf nú að nýta.


    Bessastöðum, 2. september 2009


    Ólafur Ragnar Grímsson
    [sign]"

Eins og sjá má tiltók forsetinn sérstaklega og réttilega að fyrirvararnir taki mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð, auk þess sem þeir séu niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis, byggðir á tillögum og hugmyndum sérfræðinga og áhugafólks. Af þeirri ástæðu hafi hann ákveðið að staðfesta lögin.

Það er ekki hægt að skilja þessa yfirlýsingu forsetans öðruvísi en svo að með hinni sérstöku árituðu tilvísun til fyrirvara Alþingis hafi hann verið að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þeirra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og að samþykkt þeirra hafi verið forsenda þess að hann staðfesti lögin.

Í gær hófst á nýjan leik umræða um nýtt Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í því frumvarpi felst að þeir fyrirvarar Alþingis, sem forsetinn taldi í sumarlok og réttilega svo mikilvæga, og voru forsenda staðfestingar hans, skuli að engu gerðir.

Með frumvarpinu hafa þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir fallið frá þeim fyrirvörum, sem þau sjálf samþykktu þann 28. ágúst sl.

Verði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að ósk sinni, og hið nýja Icesave-frumvarp samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi, verður fallið frá þessum mikilvægu fyrirvörum, sem forsetinn sjálfur sagði að tækju mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Verði sú raunin er erfitt að sjá með hvaða hætti forseti Íslands getur staðfest slík lög.

Forsetinn hlýtur í ljósi yfirlýsingar sinnar að synja lögunum staðfestingar, með vísan til hennar og 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Geri hann það mælir stjórnarskráin svo fyrir að Icesave-málinu verði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigurður Kári.


Lýðskrum?

Það er greinilegt að þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna líður illa þessa dagana.

Þessi vanlíðan kom berlega í ljós í umræðum á Alþingi í dag þegar þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Magnús Orri Schram og Lilja Mósesdóttir beinlínist öskruðu á þingmenn Sjálfstæðisflokksins þegar þeir voguðu sér að spyrjast fyrir um þau skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar sem kynnt hafa verið í fjölmiðlum.

Þremenningarnir kalla það lýðskrum af verstu sort þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka til varna fyrir skattgreiðendur í sölum Alþingis.

Það virðist hafa farið framhjá hinum skattþyrstu vinstimönnum að þessar skattahækkanir, sem eru líklega þær mestu í Íslandssögunni, munu hafa hrikalegar afleiðingar fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu.  Á það hefur ítrekað verið bent á í fjölmiðlum á síðustu sólarhringum.

Til að mynda lýsti framkvæmdastjóri BHM, Stefán Aðalsteinsson, því yfir í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gær að hann hefði miklar áhyggjur af afkomu sinna félagsmanna komi skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar til framkvæmda.

Með þeim hefði ríkisstjórnin gefið út veiðileyfi á félagsmenn í BHM, sem margir hafa mánaðartekjur á bilinu 300 - 500 þúsund krónur á mánuði.

Í ljósi þessa er full ástæða til að rifja upp fyrir dyggum lesendum þessarar vefsíðu hver aðildarfélög BHM eru:

Félag fréttamanna.

Félag dýralækna.

Félag geislafræðinga.

Félag háskólakennara.

Félag háskólakennara á Akureyri.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins.

Félag íslenskra félagsvísindamanna.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Félag íslenskra náttúrufræðinga.

Félag leikstjóra á Íslandi.

Félag lífeindafræðinga.

Félag prófessora.

Félag tækniháskólakennara.

Félagsráðgjafafélag Íslands.

Fræðagarður.

Iðjuþjálfafélag Íslands.

Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands.

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Leikarafélag Íslands.

Ljósmæðrafélag Íslands.

Stéttarfélag bókasafns - og upplýsingafræðinga.

Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði.

Stéttarfélag lögfræðinga.

Sálfræðingafélag Íslands.

Stéttarfélag sjúkraþjálfara.

Þroskaþjálfafélag Íslands.

Miðað við yfirlýsingar þremenninganna á Alþingi í dag hljóta þeir að álíta, Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóra BHM lýðskrumara af verstu sort, fyrst hann vogaði sér að taka til varna fyrir félagsmenn sína.

Þann dóm á framkvæmdastjórinn ekki skilinn, ekki frekar en aðrir þeir sem sjá sóma sinn í því að taka upp hanskann fyrir venjulegt fólk í landinu sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ætlar nú að þjarma að, svo um munar.

Sigurður Kári.


Ríkisstjórnin hugleiðir að fara að lögum

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag kemur fram að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hugleiði nú að hækka persónuafslátt í samræmi við vísitölu neysluverðs, líkt og kveðið er á um í lögum.

Það er útaf fyrir sig athyglisvert að ríkisstjórnin sé að hugleiða að fara að lögum, en ekki að brjóta þau.

Og það er ekki síður athyglisvert að svo sjálfsögðum hlutum sé slegið upp á forsíðu víðlesnasta dagblaðs landsins.

Hækkun persónuafsláttarins breytir því hins vegar ekki að skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar eru skelfileg og ekkert annað.

Sigurður Kári.


Kaldhæðni örlaganna

Þennan dag, fyrir 20 árum síðan, féll múrinn sem kommúnistar reistu í Berlín til þess að koma í veg fyrir að íbúar Austur-Þýskalands flýðu draumaríkið.

Það verður að teljast kaldhæðni örlaganna að þennan dag, 20 árum eftir fall Berlínarmúrsins, skuli vera sagðar fréttir af því að ríkisstjórn Íslands ætli að skattpína íslenskan almenning með mestu skattahækkunum Íslandssögunnar.

Íslenskir vinstrimenn munu ekki geta komið í veg að fólk flýji það draumaríki sem þeir eru nú að reyna að skapa með sömu aðferðum og kollegar þeirra í Austur-Þýskalandi beittu forðum daga.

Ég á hins vegar erfitt með að trúa því að fólk muni láta bjóða sér þær hrikalegu skattahækkanir sem ríkisstjórnin nú boðar.

Haldi íslenskir vinstrimenn að með slíkum aðgerðum blási þeir fólkinu í landinu bjartsýni í brjóst og veki hjá því von um betri tíma, þá er það alger misskilningur.

Sigurður Kári.


Fall Berlínarmúrsins

Á vefsvæði bandaríska dagblaðsins The New York Times hefur verið sett upp vefsíða í tilefni af því að í dag eru 20 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins.

Á vefsíðunni eru birtar myndir frá falli múrsins sem almenningur tók þennan sögufræga dag.

Það er óhætt að segja að síðan sé mjög áhugaverð og þær myndir sem þar eru birtar og lýsingar fólks á því sem fyrir augu þeirra bar eru mjög áhrifamiklar.

Sigurður Kári.


Byltingin étur börnin sín

Hann var glaðhlakkalegur, fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon, þegar hann tilkynnti alþjóð í fréttatíma Stöðvar 2 á miðvikudag að ríkisstjórnin ætlaði að ráðast í mestu skattahækkanir Íslandssögunnar.

Fjármálaráðherrann íslenski hefur fram til þess að reynst Hollendingum og Bretum ákaflega góður liðsmaður í baráttunni gegn íslenskum almenningi í Icesave-málinu.  Hans framlag í því máli hefur annars vegar falist í því að fallast umyrðalaust á allar kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum.  Hins vegar hefur fjármálaráðherrann lagt sig allan fram við falla frá öllum þeim vörnum sem Íslendingar hafa haldið á lofti gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu.

Í vinnu hálft árið fyrir ríkið

Og fjármálaráðherrann er ekki af baki dottinn í aðför sinni að fólkinu í landinu.  Í viðtali Stöðvar 2 á miðvikudaginn kom fram að almenningur í landinu megi búast við því að staðgreiðsla skatta fyrir einstaklinga hækki stórkostlega og verði allt að 50% á næsta ári.

Það þýðir í raun að fólkið í landinu mun þurfa að sætta sig við að vinna hálft árið fyrir ríkið, en ekki fyrir sig og fjölskyldur sínar.  Allar þeirra tekjur frá 1. janúar til 1. júlí 2010 munu þá renna til fjármálaráðherrans og hans skattþyrsta aðstoðarmanns, Indriða H. Þorlákssonar.

Fólk á nú þegar nóg með sitt

Skattahækkunaráform ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru eins og blaut tuska framan í fólkið í landinu.

Það virðist hafa farið framhjá ríkisstjórninni að nú þegar á venjulegt fólk nóg með sitt.  Þúsundir hafa misst vinnuna.  Laun þeirra sem enn eru í vinnu hafa lækkað.  Afborgarnir lána hafa hækkað.  Verðlag er nú hærra en áður og vextir eru enn himinháir.  Allt hefur þetta leitt til þess að fjölskyldurnar í landinu eiga mun erfiðara en áður með að greiða af lánum sínum.  Mörgum hefur reynst það ómögulegt og horfa nú fram á að missa heimili sín.

Lægri laun, hærri skattar

Við þessar aðstæður er glapræði að ráðast í skattahækkanir.  Þær munu einungis auka á erfiðleika venjulegs fólks, sem þó eru ærnir fyrir.  Ráðstöfunartekjur munu dragast saman.  Nauðungarsölum mun fjölga og þeir sem ná að greiða af lánum sínum munu hafa minna aflögu fyrir sig og börn sín.

Í vor boðaði varaformaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, á borgarfundi sem sjónvarpað var frá, að flokkur hennar og fjármálaráðherrans myndi beita sér fyrir því að launin í landinu yrðu lækkuð og skattar hækkaðir.  Nú er sú martröð sem þá var boðuð að verða að veruleika.  Laun hafa lækkað og ríkisstjórn ætlar að hækka tekjaskatta einstaklinga upp í rjáfur.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins

Fyrir skemmstu kynnti Sjálfstæðisflokkurinn tillögur sínar í efnahagsmálum.  Þar var bent á að leiðir sem uppfylla aukna tekjuþörf ríkissjóðs, án skattahækkana.  Þær byggjast á því að ríkið skattleggi lífeyrissparnað landsmanna fyrirfram í stað þess að gera það eftirá.  Slík kerfisbreyting hefur hvorki áhrif á greiðslur til lífeyrisþega í nútíð né framtíð, en með henni getur ríkisstjórnin komist hjá því að leggja enn þyngri byrðar á fólkið í landinu.

Það er sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki velja þá leið, og hlífa almenningi, í stað þess að skattpína hann.

Öllum er refsað

Fyrir alþingiskosningarnar í vor var því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að taka sér frí frá landsstjórninni og að refsa þyrfti flokkum.  En byltingin étur börnin sín.  Nú finnur fólkið í landinu það á eigin skinni að sú refsing sem sumir vildu veita Sjálfstæðisflokknum, er farin að bitna illilega á þjóðinni allri.

Höfundur er varaþingmaður og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Ríkisstjórnin samdi af sér

Það segir auðvitað allt sem segja þarf um afleitan árangur ríkisstjórnarinnar í samningunum við Breta og Hollendinga að íslenska ríkið skuli samþykkja að greiða 5,55% vexti samkvæmt Icesave-samningunum, á sama tíma og Orkuveita Reykjavíkur fær lán frá Evrópska fjárfestingabankanum á 1,25% vöxtum eða vexti sem eru 40 punktum yfir libor-vöxtum.

Ekki er langt síðan að forystumenn Vinstri grænna héldu því fram að Orkuveita Reykjavíkur væri fjarvana og allt að því gjaldþrota fyrirtæki.

Engu að síður hefur Orkuveitan nú samið um lán á 4% betri vaxtakjörum en íslenska ríkisstjórnin samdi um við Breta og Hollendinga.

Í því sambandi má ekki gleyma því að hvert prósentustig vaxta samkvæmt Icesave-samningunum nemur milljörðum króna fyrir ríkissjóð á ári hverju.

Þessi lánakjör hljóta annars vegar að vera til marks um mikið lánstraust Orkuveitu Reykjavíkur.

Hins vegar eru þau til marks um það hversu illilega ríkisstjórnin samdi af sér í samningunum við Breta og Hollendinga.

Sigurður Kári.


Uppgjöf

Í minni sveit gilti sú meginregla að þegar dómari kvað upp dóm í ágreiningsmáli þá gilti sú niðurstaða dómarans. Bæði fyrir þann sem vann málið og fyrir þann sem því tapaði. Sá sem krafinn var um greiðslu fjármuna, greiddi þá. Sá sem hlaut fangelsisdóm fór í tugthús.

Þessi regla gilti ekki bara í minni sveit, heldur í öðrum sveitum líka. Reyndar er það svo að í öllum réttarríkjum hins vestræna heims er viðurkennt að komist dómstóll að niðurstöðu þá gildi sú niðurstaða fyrir deiluaðilana. Þannig er það á Íslandi og þannig er það hjá öðrum siðuðum þjóðum. Þess vegna geta þær kallað sig réttarríki. Í réttarríkjum eru hvorki lög, né réttur, fótum troðin og niðurstöður dómstóla í deilumálum gilda samkvæmt efni sínu.

Ríkisstjórn Íslands hefur nú undirritað nýtt Icesave-samkomulag við Breta og Hollendinga. Í því felst nýmæli. Það nýmæli er sannarlega ekki eftirsóknarvert og hefur hefur líklega aldrei áður sést í samningi milli tveggja frjálsra og fullvalda ríkja. Það mælir fyrir um að löndin heimili Íslendingum að höfða mál fyrir dómstólum til þess að láta á það reyna hvort íslenska ríkinu beri lagaskylda til þess að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands gagnvart breskum og hollenskum innistæðueigendum. Vinni Ísland sigur í málinu kveður samkomulagið, sem ríkisstjórn Íslands ætlar að berjast fyrir, á um að niðurstaða dómstólsins hafi enga þýðingu sem máli skiptir. Íslenskur almenningur skuli engu að síður borga Bretum og Hollendingum þá hundruði milljarða sem þeir krefjast. Sigur færir ríkisstjórn Íslands einungis leyfi til viðræðna við Hollendinga og Breta sem engin trygging er fyrir að leiði til eins eða neins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í vikunni að Íslendingar gætu hrósað sigri með þessa niðurstöðu. Réttarstaða Íslands væri nú sterkari en áður! Öfugmæli og rangfærslur ráðherrans eiga sér líklega ekki hliðstæðu í stjórnmálasögunni. Réttarstaða þjóðar sem gefist hefur upp og gefið frá sér allan sinn rétt, án þess að fá nokkuð í staðinn, er ekki sterk. Hún er veik og getur í raun ekki verið veikari.

Með hinu nýja Icesave-samkomulagi hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í raun afsalað íslensku þjóðinni þeim sjálfsagða rétti sínum að fá úr því skorið hvort íslenska ríkinu beri einhver lagaskylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands. Afsalið felst í því verði slíkt mál höfðað og vinni Ísland sigur, hefur ríkisstjórnin búið svo um hnútana að niðurstaðan hafi enga þýðingu sem máli skiptir fyrir þjóðina.

Slíkt réttarafsal fyrir hönd heillar þjóðar hlýtur að vera einsdæmi. Það hlýtur að vera einsdæmi að nokkur ríkisstjórn frjáls og fullvalda ríkis skuli vera reiðubúin að kyngja slíkum afarkostum og kasta frá sér þeim sjálfsagða rétti að niðurstaða hlutlauss úrlausnaraðila í lagaþrætu gildi samkvæmt efni sínu.

Með algerri uppgjöf niðurlægir ríkisstjórn Íslands ekki einungis sjálfa sig, heldur einnig og ekki síður sína eigin þjóð.

Alþingismenn þjóðarinnar þurfa nú að gera það upp við sig hvort þeir eru reiðubúnir til þess að láta slíka niðurlægingu yfir sig og þjóð sína ganga. Á sama tíma ættu þeir að velta því fyrir sér hvort þeim sé að lögum heimilt að svipta ríkið og framtíðarkynslóðir þessa lands svo mikilvægum og sjálfsögðum rétti sem ríkisstjórnin leggur nú til að verði gert.

Höfundur er lögfræðingur og aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband