Mánudagur, 11. janúar 2010
Kosningabarátta ríkisstjórnarinnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna
Þjóðin hefur hagsmuni af því að lögin verði felld úr gildi.
Ríkisstjórnin hefur hagsmuni af því að lögin verði samþykkt.
Framganga ríkisstjórnarinnar síðustu daga ber þess merki að hún ætlar að beita öllum brögðum og freista þess að hræða þjóðina til fylgilags við Icesave-lögin og Icesave-samningana, enda lagði hún líf sitt að veði þegar hún barðist fyrir því að málið yrði samþykkt á Alþingi.
Það er viðbúið að í kosningabaráttunni sem framundan er muni ríkisstjórnin svífast einskis til þess að reyna að bjarga lífi sínu. Hún mun leggja allt stjórnkerfið undir í þeirri viðleitni, beita almenning gengdarlausum hræðsluáróðri og eyða fjármunum skattgreiðenda til þess að afla skoðunum sínum fylgis.
Og hver veit nema Hollendingar og Bretar og jafnvel Evrópusambandið leggi ríkisstjórninni lið sitt í kosningabaráttunni.
Fengnir verða erlendir aðilar til þess að lýsa því opinberlega yfir að þjóðin verði að sætta sig við afarkosti ríkisstjórnarinnar, Breta og Hollendinga.
Á sama tíma mun ríkisstjórnin skella skollaeyrum við og afþakka röksemdir þeirra sem taka undir málstað þjóðarinnar.
Það gerði Steingrímur J. Sigfússon í fréttum sjónvarps í gær og á forsíðu Morgunblaðsins í morgun og vildi ekki heyra minnst á þá skoðun Alain Lipietz, þingmanns á Evrópuþinginu, að kröfur Hollendinga og Breta á hendur Íslendingum væru byggðar á sandi. Þjóðirnar beiti okkur Íslendinga fjárkúgun vegna skuldbindinga sem þeir sjálfir eigi að bera ábyrgð á og að farsælast sé að leiða Icesave-deiluna til lykta fyrir dómstólum.
Er nema furða að fólki fallist hendur og velti því fyrir sér hverra hagsmuna íslenski fjármálaráðherrann er gæta með framgöngu sinni?
Við þekkjum mörg dæmi úr sögunni um að ríkisstjórnir grípi til þess ráðs að hefta tjáningarfrelsið og stöðva upplýsingagjöf til almennings þegar þær eru komnar í standandi vandræði.
Reyndar er óþekkt að til slíkra aðgerða sér gripið af hálfu ríkisstjórna í hinum vestræna og siðaða heimi, en alþekkt í öðrum heimshlutum sem lýðræðisríki þess vestræna hafa fram til þessa alls ekki viljað bera sig saman við.
En hvað er að gerast á Íslandi?
Mér finnst ástæða til að vekja sérstaklega athygli á einu.
Íslenskir fjölmiðlar gerðu afar lítið úr því að hinn 29. desember 2009, degi áður en Icesave-frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi, lét forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, stöðva upplýsingagjöf frá breskri lögmannsstofu til Alþingis, en lögmannsstofan hafði undir höndum gögn sem vörðuðu Icesave-málið sem hún taldi mikilvægt að Alþingismenn kynntu sér áður en þeir tækju afstöðu til frumvarpsins í atkvæðagreiðslu.
Þessi gögn voru óþægileg fyrir ríkisstjórnina og komu sér illa fyrir hana í þeirri viðleitni að reyna að þrýsta málinu í gegnum Alþingi.
Og forseti Alþingis brást hvorki yfirboðurum sínum, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, né brást hún röngum málstað, og afþakkaði slíkar sendingar og reyndi að koma í veg fyrir að upplýsingarnar kæmu fyrir augu Alþingismanna.
Nú berast fréttir af því að ríkisstjórnin hafi uppi hugmyndir um að loka þinginu og senda þingmenn heim þar til þjóðaratkvæðagreiðslan er afstaðin.
Hrindi ríkisstjórnin þessum hugmyndum sínum í framkvæmd væri hún ekki einungis að ýta til hliðar öllum aðgerðum til hjálpar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.
Hún væri ekki síður að skerða tjáningarfrelsið og stöðva lýðræðislega umræðu á Alþingi um mál sem eru henni ekki þóknanleg, reyna að koma sér undan gagnrýni og því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands standi reikningskil gerða sinna.
Ég fullyrði að slík framganga ríkisstjórnar yrði ekki liðin í nokkru vestrænu ríki þessa heims við þessar aðstæður.
Sigurður Kári
Mánudagur, 4. janúar 2010
,,Gjör rétt - þol ei órétt"
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, reyndi að gera lítið úr söfnuninni í fréttum Ríkisútvarpsins í gær og það sama gerði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á vef sínum.
x x x
Vandi þeirra sem reyna að gera undirskriftarsöfnun Indefence ótrúverðuga er sá að forsvarsmenn hennar hafa fengið óháðan aðila, Lánstraust, til þess að samkeyra söfnunarlistann við þjóðskrá. Jafnframt hefur komið fram að forsvarsmenn söfnunarinnar fylgjast með IP-tölum svo forðast megi að fjöldi undirskrifta komi úr sömu tölvunni.
Þar fyrir utan segir það sig sjálft að það er ómögulegt fyrir Indefence-hópinn eða aðra aðila í þjóðfélaginu að stjórna um 60.000 Íslendingum eins og strengjabrúðum.
Þar við bætist að það er auðvitað afar ósanngjarnt gagnvart öllu því fólki sem þátt hefur tekið í undirskriftarsöfnuninni að halda því fram að undirskriftir þeirra séu með einhverjum hætti ómarktækar. Í gegnum slíkar tilraunir er auðvelt að sjá.
x x x
Ég minnist þess ekki að reynt hafi verið að gera þá undirskriftarsöfnun sem efnt var til árið 2004 og leiddi til þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar.
Þá gerðu þeir aðilar sem nú fara mikinn gegn undirskriftarsöfnun Indefence engar tilraunir til þess að gera undirskriftarsöfnunina gegn fjölmiðlalögunum tortryggilega, heldur hrósuðu þeir henni í hástert og beittu henni óspart í þágu eigin málstaðar.
Ekki minnist ég þess að sú undirskriftarsöfnun hafi verið samkeyrð við þjóðskrá líkt og gert hefur verið í tilviki Indefence.
x x x
Ég hef líka tekið eftir því hversu mikið það fer í taugarnar á ýmsum að fjölmiðlar skuli nú fjalla um undirskriftarsöfnun Indefence og telja að sú umfjöllun hafi leitt til þess að fleiri hafi skráð sig vegna hennar en ella hefði orðið.
Egill Helgason er einn þeirra sem finnst undirskriftarsöfnunin furðuleg. Í pistli frá 2. janúar segir Egill:
,,En ég held hins vegar að vöxturinn sem hefur hlaupið í þessa söfnun síðustu daga standist ekki. Fjölmiðlarnir hafa undanfarna daga linnulaust verið að birta tölur yfir mikla fjölgun undirskrifta. En, þetta er of mikið, á of stuttum tíma."
Ég man vel hvernig fjölmiðlar fjölluðu um undirskriftarsöfnunina árið 2004 þar sem skorað var á forseta Íslands að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar.
Ég fullyrði að þá gengu fjölmiðlar, einkum þeir sem beina hagsmuni höfðu af því að forsetinn synjaði lögunum, afar langt í því að auglýsa undirskriftarsöfnunina og fluttu linnulaust af henni fréttir í þeim tilgangi að sem flestir legðu henni lið.
Blaðamannafélag Íslands fór hamförum í tengslum við hana og félagsmenn þar á bæ fengu kollega sína hjá Alþjóðasambandi blaðamanna til þess að styðja sig í baráttunni með því að álykta gegn lögunum.
Sá áróður allur skilaði forsvarsmönnum undirskriftarsöfnunarinnar um 32.000 undirskriftum.
Flestir fjölmiðlar þögðu hins vegar þunnu hljóði framan af um undirskriftarsöfnun Indefence.
Það var ekki fyrr en að fjöldi undirskrifta til forseta vegna Indefence-málsins var orðinn svo mikill, og miklu fleiri en í fjölmiðlamálinu og EES-málinu og fleiri en skrifuðu undir ,,Varið land" árið 1974, að fjölmiðlar gátu ekki þagað lengur um undirskrifarsöfnunina.
x x x
Í þessu samhengi er ástæða til þess að rifja upp með hvaða hætti var staðið að undirskriftarsöfnuninni vegna fjölmiðlafrumvarpsins.
Þá sendi formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, frá sér mikla og stóryrta hvatningu í tölvubréfi, sem sagt var frá þann 15. maí 2004, en var eftirfarandi:
"Félagar. Stundum er nóg komið. Nú er sú stund.
Aðför stjórnvalda að starfsöryggi og starfsheiðri okkar sem vinnum hjá Norðurljósum náði hámarki í lagafrumvarpi forsætisráðherra á dögunum. Umræðan síðustu vikur hefur verið á mörkum hins vitræna. Við höfum horft upp á þingmenn fara hamförum með blöð og greinar; grenjandi í ræðustól um að hitt og þetta verði að stöðva. Svo ofsafengin framganga, svo einstrengingsleg afstaða, svo blind heift hefur lamandi áhrif á þann sem fyrir verður. Slík eru áhrif sálfræðihernaðar; hann heggur að vilja andstæðingsins til að svara fyrir sig. Gerir óvininn óvirkan áður en til orrustu kemur. Nú reynir á okkur að rísa til varnar.
Að óbreyttu verður fantafrumvarpið að lögum eftir helgi. Afleiðingarnar fyrir störf okkar og afkomu eru óljósar. Við höfum eitt hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin.
Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is. Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Sendið tölvupóst á ALLA sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár. Nú er tíminn til endurnýja kynnin.
Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur.
Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látið öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum, fáum þessum ólögum hrundið, kaupum tíma til að fá þau í það minnsta milduð í haust. Nú reynir á. Gjör rétt - þol ei órétt.
Róbert Marshall."
x x x
Þetta tölvubréf Róberts Marshall, núverandi þingmanns Samfylkingarinnar, er upplýsandi um margt, svo sem um málþóf á Alþingi.
Því skal ekki á móti mælt að í fjölmiðlamálinu árið 2004 var tekist á um mikla hagsmuni.
Icesave-málið varðar miklu meiri þjóðarhagsmuni.
Sé það rétt sem Róbert Marshall fullyrðir í tölvubréfi sínu árið 2004, að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði sagt í kosningabaráttunni árið 1996, að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, sem er milliríkjasamningur, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin, þá hefur forseti Íslands einungis einn kost í Icesave-málinu.
Hann er sá að synja lögunum staðfestingar.
Sigurður Kári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. janúar 2010
Steingrímur hótar forsetanum
Mikil taugaveiklun hefur nú augljóslega gripið um sig innan ríkisstjórnarinnar og meðal stjórnarliða vegna þeirrar ákvörðunar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að taka sér nokkurra daga frest til þess að ákveða hvort hann eigi að staðfesta Icesave-lög ríkisstjórnarinnar eða synja þeim staðfestingar.
Það sést best á hótunum Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar og þingmanns Vinstri grænna, í garð forseta Íslands.
Í dag lýsti hann því yfir í viðtali við Bloomberg fréttaveituna að synji forsetinn Icesave-lögunum staðfestingar og vísi þeim til þjóðarinnar þýði það endalok ríkisstjórnarinnar.
Hótun Björns Vals Gíslasonar í garð forsetans getur vart verið skýrari, en hún ber með sér hversu taugastrekktur formaður hans, Steingrímur J. Sigfússon, er orðinn yfir afdrifum Icesave-málsins.
Björn Valur hefur tekið sér það hlutverk í íslenskum stjórnmálum að vera ,,his masters voice". Hann er afar hollur húsbónda sínum. Nánu sambandi þeirra má lýsa þannig að þegar Steingrímur fær sér kók, þá ropar Björn Valur.
Samband þessara fóstbræðra er með þeim hætti að allltaf má skyggnast inn í hugarheim Steingríms J. Sigfússonar með því að hlusta á hvað Björn Valur Gíslason hefur til málanna að leggja.
Þegar Steingrímur er kominn í vandræði eða mislíkar þróun mála er Birni Val att út á foraðið.
Nú hefur hann verið sendur út af örkinni til þess að koma hótunum Steingríms á framfæri við Ólaf Ragnar.
Þessar hótanir eru auðvitað til marks um það hversu miklu þessi ríkisstjórn er reiðubúin að fórna fyrir völdin.
Þau skipta meira máli í huga norrænu vinstri-velferðarstjórnarinnar en vilji 70% landsmanna.
Þau skipta meira máli en vilji yfir 60.000 Íslendinga sem undirritað hefur áskorun til forseta Íslands.
Hagsmunir Samfylkingar og Vinstri grænna skipta greinilega mun meira máli en hagmunir þjóðarinnar og framtíðarkynslóða hennar.
Þess vegna hefur Steingrímur J. Sigfússon ákveðið að koma þessum hótunum á framfæri við forsetann.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 1. janúar 2010
Gjá milli þings og þjóðar
Icesave-frumvarpið var samþykkt með naumum meirihluta á Alþingi, 33 atkvæðum gegn 30, næstsíðasta dag ársins 2009.
Þeir alþingismenn sem samþykktu frumvarpið, samþykktu að gera fólkið í landinu, íslenskan almenning, sem ekkert hefur til saka unnið, ábyrgt án dóms og laga, fyrir skuldum sem það hefur aldrei stofnað til og ber enga ábyrgð á.
Icesave-málið varðaði einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem Alþingi Íslendinga hefur nokkru sinni haft til meðferðar í sinni löngu og merku sögu.
Það snýst um framtíðarlífkjör kynslóðanna í landinu og varðar gríðarlega miklu um . Úrlausn hvernig þessari þjóð mun vegna á komandi áratugum.
Samþykkt Icesave-frumvarpsins vegur að efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar, eins og bent hefur verið ítrekað á.
Það felur í sér gríðarlegar fjárskuldbindingar fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina, sem nema hundruðum milljarðar króna. Það segir sína sögu um fjárhagslegt umfang málsins að vaxtagreiðslur einar munu kosta íslenska skattgreiðendur 100 milljónir króna á hverjum degi!
Vafi leikur á því hvort lögin standist stjórnarskrá.
Icesave-samningarnir taka ekkert tillit til hinna fordæmislausu aðstæðna íslensku þjóðarinnar eftir bankahrunið, sem samið var um að tekið yrði tillit til í hinum svokölluðu Brussel-viðmiðunum.
Þeir lagalegu og efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi setti í sumar hafa nú verið að engu gerðir.
Efni Icesave-laganna byggir á pólitískum afarkostum og þvingunum Breta og Hollendinga sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur lét undan, ríkisstjórn sem átti að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, en brást svo illilega.
Hvorki lög né dómur kveður á um að íslenskur almenningur sé skyldugur til þess að greiða kröfur Hollendinga og Breta.
Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa nú ákveðið að það skuli fólkið í landinu engu að síður gera, án dóms og laga.
x x x
Frá upphafi hafa Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, reynt að koma ábyrgð Icesave-málsins yfir á Sjálfstæðisflokkinn.
Það mun þeim ekki takast.
Ábyrgðina á Icesave-málinu bera hugmyndasmiðir Icesave-reikninganna. Það eru forsvarsmenn Landsbanka Íslands hf., sem stofnuðu til skuldbindinga sem þeir gátu á endanum ekki staðið við.
Ábyrgðina á þessum Icesave-lögunum og því hversu afleitir samningarnir við Breta og Hollendinga eru, er öll ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.
Það var staðfest í bréfi sem fyrrverandi utanríkisráðherra þjóðarinnar og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sendi fjárlaganefnd Alþingis á dögunum.
Hvorki í þessu máli né öðrum er ekki stórmannlegt, að reyna að hengja bakara fyrir smið, og það mun þessari ríkisstjórn ekki takast að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að afstýra því stórslysi sem varð þegar Icesave-frumvarpið var samþykkt. Allt var gert til þess að reyna að koma vitinu fyrir ríkissstjórnina og þingmenn stjórnarflokkanna.
Öll sú vinna miðaði að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.
Því miður bar hún ekki árangur.
x x x
Í raun er fráleitt að gengið hafi verið til atkvæða um Icesave-frumvarpið þann 30. desember.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar stjórnarflokkanna höfðu oft og ítrekað haldið því fram að öll gögn málsins hefðu verið lögð fram á Alþingi.
Í ljós kom kvöldið áður en gengið var til atkvæða um málið að ríkisstjórnin hafði leynt þingið og þjóðina mikilvægum gögnum um málið.
Upplýst var að formaður íslensku Icesave-samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, hefði haldið frá Alþingi, og að því er virðist sjálfum utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, mikilvægum ráðleggingum breskra lögmanna um það hvernig íslenska ríkið gæti höfðað mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum, og að sú málsókn kynni að reynast íslenska ríkinu afar dýrmæt í samningaviðræðum við Breta um Icesave-málið.
Þessi leyndarhyggja og framganga ríkisstjórnar og formanns samninganefndarinnar er hneyksli og ekkert annað.
Og það er reginhneyksli að þannig sé á málum haldið þegar í húfi eru þjóðarhagsmunir.
Formaður íslensku Icesave-nefndarinnar treysti sér síðan ekki til þess að mæta á fund fjárlaganefndar Alþingis til þess að gera grein fyrir leyndinni og framgöngu sinni í Icesave-málinu.
Það eitt segir sína sögu.
Það verður síðan fróðlegt að sjá með hvaða hætti utanríkisráðherrann hyggst bregðast við því að hafa verið haldið úti í kuldanum, af hálfu formanns samninganefndar ríkisstjórnarinnar, um mikilvæga þætti Icesave-málsins.
x x x
Enginn þingmanna Sjálfstæðisflokksins studdi Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.
Allir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn því.
Því miður var frávísunartillaga flokksins felld og breytingatillaga Péturs H. Blöndal um að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu hlaut því miður sömu örlög.
Þrátt fyrir það er ljóst að þeir þingmenn stjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna, greiddu frumvarpinu ekki atkvæði sitt af mikilli sannfæringu. Þeir fórnuðu sannfæringu sinni fyrir völd, en verðmiðinn fyrir völdin var afar hár að þessu sinni og óforsvaranlegur með öllu.
Það var augljóst í atkvæðagreiðslunni um frávísunartillögu Sjálfstæðisflokksins.
Enn augljósara var það þegar þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar felldu breytingartillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu, enda hafa báðir þessir flokkar barist lengi fyrir því að vægi þjóðaratkvæðagreiðslna yrði aukið í okkar þjóðskipulagi og meira að segja lagt fram frumvarp á Alþingi þar um.
x x x
Nú tekur við nýr kafli í hinu dapurlega Icesave-máli.
Nú mun reyna á hvort forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, muni staðfesta lögin eða synja þeim staðfestingar.
Það má ekki gleyma því að þegar hin fyrri Icesave-lög voru samþykkt sem lög frá Alþingi þá staðfesti forseti Íslands lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til hinna mikilvægu fyrirvara sem Alþingi hafði þá samþykkt.
Það gerði forsetinn til þess að undirstika mikilvægi fyrirvaranna fyrir hagsmuni Íslands og lýsti þeim þannig að þeir tækju mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.
Fyrirvararnir voru því forsenda staðfestingar forsetans.
Þessir fyrirvarar eru nú að engu orðnir.
Ég veit að hin sérstaka áritaða tilvísun forsetans til hinna mikilvægu fyrirvara eru honum í fersku mynni, því þá áritaði hann þann 2. september sl.
Ég leyfi mér að fullyrða að hafi einhvern tímann myndast ,,gjá milli þings og þjóðar þá er það nú.
Nýjustu skoðanakannanir sýndu að 70% þjóðarinnar, 7 Íslendingar af hverjum 10, voru á móti því að Icesave-frumvarpið yrði samþykkt.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 55 þúsund Íslendingar undirritað ákorun til forsetans um að synja lögunum staðfestingar. Mun fleiri en undirrituðu áskorun til forseta þegar hann synjaði lögum síðast staðfestingar, árið 2004.
Icesave-frumvarpið er með öðrum orðum það umdeildasta sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt.
Ég fullyrði að engin ríkisstjórn hafi á nokkrum tíma reynt að fá samþykkt frumvarp sem er í svo hróplegri andstöðu við skoðanir þorra almennings.
Þessu hlýtur forseti Íslands að gera sér grein fyrir.
x x x
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í lokaræðu sinni um Icesave-málið að kæmist Sjálfstæðisflokkurinn til áhrifa við landstjórnina myndi það verða fyrsta verk flokksins að leiða íslensku þjóðina út úr því kviksyndi sem ríkisstjórnin hefur leitt hana í með framgöngu sinni í Icesave-málinu.
Þar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leita allra leiða til þess að rétta hlut íslensku þjóðarinnar sem var svo illilega fyrir borð borinn.
Það er auðvitað afar mikilvægt að slík yfirlýsing komi fram frá forustumönnum þeirra stjórnmálaflokka sem ekki sætta sig við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir á Alþingi, enda er það heilög skylda stjórnmálamanna gagnvart framtíðarkynslóðum þessa lands, börnum okkar og barnabörnum, að staðinn sé vörður um framtíðarhagmuni þeirra.
Ljóst er af yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins að undan þeirri skyldu mun Sjálfstæðisflokkurinn aldrei hlaupast.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 24. desember 2009
Gleðileg jól
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hafið það sem allra best um jólin.
Sigurður Kári.
Miðvikudagur, 23. desember 2009
Án dóms og laga
Hverjum manni sem álitið les á að verða ljóst að frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna má ekki samþykkja. Það verður að fella. Álitið varpar skýru ljósi á að hversu illilega hagsmunir íslenska ríkisins og Íslendinga eru fyrir borð bornir í samningunum og hversu afleitlega ríkisstjórninni og samninganefnd hennar fórst það verk úr hendi að gæta hagsmuna okkar í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga.
Undir þessi sjónarmið hafa nokkrir af virtustu lögfræðingum landsins, svo sem lagaprófessorarnir Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson, og hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Lárus Blöndal, tekið eftir að álit bresku lögmannsstofunnar var gert opinbert.
Helstu talsmenn þess að hengdur verði skuldaklafi á íslenskan almenning, börn okkar og barnabörn til ófyrirséðrar framtíðar, þeir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, þrjóskast hins vegar enn við og reyna að telja almenningi trú um að það sé þjóðinni og framtíðarkynslóðum hennar að skuldsetja sig upp í rjáfur. Sú barátta þeirra félaga er hins vegar töpuð. Íslenskur almenningur sér í gegnum holan málflutning þeirra og ætlar sér ekki að sætta sig við þær kúganir Breta og Hollendinga sem Steingrímur og Guðbjartur, með liðsinni Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, keppast við beygja sig undir. Það sýna afgerandi niðurstöður skoðanakannana, þjóðaratkvæðagreiðslna og undirskriftir tugþúsunda Íslendinga á vefsíðu Indefence-hópsins.
Ég tók eftir því að í fréttum Ríkisútvarpsins í gær reyndi Steingrímur fjármálaráðherra að gera lítið úr áliti bresku sérfræðinganna, ásamt því að kvarta yfir því að um álitið væri fjallað í fjölmiðlum. Hann sagði álit þeirra byggja á misskilningi og að þeir hefðu greinilega ekki haft nauðsynleg fylgigögn við hendina þegar þeir skrifuðu álit sitt.
Við lestur lögfræðiálitsins kemur hins vegar fljótt í ljós að bresku lögmennirnir höfðu undir höndum öll þau gögn sem Steingrímur tiltók í fréttinni að þeir hefðu ekki séð. Það verður ekki betur séð en að Steingrímur hafi gert þau reginmistök að fella sleggjudóma um lögfræðiálit sem hann hafði ekki lesið.
Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra, ekki einu sinni fyrir Steingrím J. Sigfússon.
Siðaðar þjóðir sem virða lög og rétt hafa aldrei sætt sig við að mönnum sé varpað í fangelsi án dóms og laga.
Um það snýst kjarni Icesave-málsins.
Þeir sem nú berjast fyrir samþykki Icesave-frumvarpsins vilja að almenningur á Íslandi, sem ekkert hefur til saka unnið, verði hnepptur í skuldafangelsi án dóms og laga.
Þeir sem velja sér slík baráttumál á vettvangi stjórnmálanna eiga að snúa sér að öðru. Þeir eru ekki að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.
Vonandi snýst þessu ágæta fólki hugur yfir jólahátíðirnar.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 21. desember 2009
Ríkisstjórnin setur heimsmet
Fyrsta hreina vinstristjórnin á Íslandi, sú hin sama og ætlaði að slá skjaldborg um heimilin í landinu, setti heimsmet í dag.
Heimsmetið leit dagsins ljós þegar ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna samþykktu að hækka virðisaukaskattinn úr 24,5% í 25,5%
Hærri virðisaukaskattur fyrirfinnst ekki á nokkru byggðu bóli.
Sigurður Kári.
Mánudagur, 14. desember 2009
Forseti ASÍ húðskammar ríkisstjórnina
Það eru ekki bara sjálfstæðismenn sem eru afar óhressir með skattahækkunaráform ,,fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar á Íslandi.
Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, er greinilega líka ofboðið. Það kemur fram í pistli sem hann skrifar á vef samtakanna í dag.
Í pistlinum gagnrýnir forseti ASÍ ríkisstjórnina harðlega segir m.a.:
,,Hitt er alveg með ólíkindum að oddvitar ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa kynnt landsmönnum þau áform sín að afnema þau ákvæði tekjuskattslaganna að persónuafsláttur fylgi verðlagi að ríkisstjórnin ætli sér að afnema verðtryggingu persónuafsláttar. Að sama skapi kemur það fólki í opna skjöldu að ríkisstjórnin ætli sér einhliða að fella niður sérstaka umsamda 3.000 króna hækkun persónuafsláttar í ársbyrjun 2011, án nokkurs samráðs eða samtals við sinn viðsemjanda. Að mínu viti er hér um grófa rangfærslu að ræða við kynningu á stefnu ríkisstjórnarinnar það hefði aldeilis verið talið frétt til næsta bæjar ef oddvitar ríkisstjórnarinnar hefðu komið hreint fram og upplýst þjóðina að það væri stefna hennar í skattamálum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar og standa ekki við gerða samninga!Rétt er að rifja upp að ASÍ barðist um árabil fyrir því að tekin yrði aftur upp verðtrygging persónuafsláttar og í júní 2006 tókst að ná þessari kröfu í gegn með samkomulagi við þáverandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Guðna Ágústssonar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Að baki þessari kröfu liggur sú staðreynd að frá því að verðtrygging persónuafsláttar var afnumin árið 1990 hafði verðgildi skattleysismarkanna lækkað verulega með sífellt vaxandi skattbyrgði á þá tekjulægstu. Að sama skapi samdi ASÍ við ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um sérstaka hækkun persónuafsláttar, sem koma myndi til framkvæmda í þremur áföngum 2009, 2010 og 2011. Var þetta hluti af gildandi kjarasamningum til þess að treysta stöðu þeirra tekjulægstu. Það er með ólíkindum að verða vitni að því, að stjórnvöld telji sig ekki bundin af þeim samningum sem þau gera við verkalýðshreyfinguna.
Síðar í pistlinum segir Gylfi:
,,Nú hefur komið í ljós, að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi krafasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafa. Langtímaáhrifin af þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar er ekki síður alvarleg. Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga slíkt sé sundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratugua langa hefð fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðugleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt er að það mun einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan við glímum við afleiðingar fjármálakreppunnar.
Það er greinilegt að forseti ASÍ er allt annað en ánægður með framkomu ,,fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar gagnvart launafólki í landinu og sakar hana m.a. um grófar rangfærslur, að svíkja yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna og að ætla ekki að standa við gerða samninga.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, munu bregðast við þessari gagnrýni, en fram til þessa hafa þau gefið sig út fyrir að vera sérstakir hagsmunagæslumenn þess hóps launamanna sem forseti ASÍ segir þau nú vera að svíkja.
Kjarninn í því sem forseti ASÍ segir í þessum harðorða pistli sínum er sá sami fram hefur komið í málflutningi Sjálfstæðisflokksins.
Hann er sá að skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar þýði að skattar allra heimila munu hækka, einnig þeirra sem eru með tekjur sem eru lægri en 270.000 á mánuði.
Þeir sem vilja reikna út hversu mikið ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta hvers og eins geta gert það í þessari skattareiknivél.
Sigurður Kári.
Föstudagur, 11. desember 2009
Reiknaðu út hvað ríkisstjórnin ætlar að hækka skattana þína mikið
Öll heimili í landinu munu greiða hærri skatta ef skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar verða að veruleika.
Jafnframt mun höfuðstóll lána, s.s. húsnæðislána og bílalána, hækka umtalsvert vegna þeirra.
Þetta kemur í ljós þegar borin eru saman núgildandi skattalög og áform ríkisstjórnarinnar um hækkun skatta.
Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í dag skattareiknivél sem gerir fólki kleift að fá upplýsingar um það hversu mikið ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta þeirra strax árið 2010 og hversu mikið höfuðstóll lána þeirra mun hækka.
Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum tilkynntu Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að þeirra helsta verkefni yrði það að slá skjaldborg um heimilin í landinu.
Og nú styttist í að heimilin uppskeri.
Sú uppskera verður rýr.
Hún felur það í sér að skattbyrði heimilanna mun þyngjast og höfuðstóll lána mun hækka.
Þegar ríkisstjórnin kynnti skattahækkunaráform sín var mikið úr því gert að fólki með lágar tekjur yrði hlíft. Fullyrt var að skattar þeirra sem hefðu 270.000 krónur í laun á mánuði eða minna myndu lækka.
Staðreyndin er hins vegar sú að þegar allt er saman tekið er ekkert að marka þessar yfirlýsingar.
Skattar þessa hóps munu hækka, eins og allra hinna.
Ég skora á alla lesendur þessarar heimasíðu að kynna sér skattareiknivél Sjálfstæðisflokksins og fá útreikning á því hversu mikið skattar þeirra og lán munu hækka fái ríkisstjórnin vilja sínum framgengt.
Sigurður Kári.
Fimmtudagur, 10. desember 2009
Prófessor í öngstræti
Vert er að taka fram að það samkomulag kveður á um það að taka þurfi til skoðunar ein 16 atriði sem þingmenn telja að rannsaka þurfi betur áður en Icesave-málið, sem varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem Alþingi hefur fjallað um í sögu sinni, kemur til lokaafgreiðslu.
Til að rökstyðja þessa skoðun sína nefndi stjórnmálafræðiprófessorinn tvö dæmi úr samkomulaginu sem gert var.
Stjórnarskrá Íslands
Í fyrsta lagi gagnrýndi Gunnar Helgi að fjárlaganefnd leitaði eftir áliti tveggja fyrrverandi hæstaréttardómara, um það hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands. Í öllum öðrum löndum yrði framkvæmdavaldinu, þ.e. ríkisstjórninni, treyst til þess að meta hvort mál stæðust stjórnarskrá eða ekki.
Það virðist hafa farið framhjá prófessor Gunnari Helga að á síðustu dögum og vikum hafa nokkrir af virtustu lögfræðingum landsins, þar á meðal prófessorarnir Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson, og hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Lárus Blöndal, haft opinberlega uppi efasemdir um að Icesave-frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar.
Það virðist líka hafa farið framhjá prófessornum að alþingismenn vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, skv. 47. gr. hennar, þegar þeir taka sæti á Alþingi. Í drengskaparheitinu felst að þeir heiti því að standa vörð um stjórnarskrána og geri ekkert í sínum störfum sem kunni að brjóta gegn henni.
Þó svo að Gunnar Helgi Kristinsson vilji gera lítið úr ákvæðum stjórnarskrárinnar og telji nú að ákvæði hennar séu farin að þvælast fyrir ríkisstjórninni þá breytir sú skoðun hans því ekki að alþingismenn þjóðarinnar eru skuldbundnir til að fylgja því sem í henni stendur.
Þegar fram koma rökstuddar efasemdir um að frumvörp sem til meðferðar eru á Alþingi standist ákvæði stjórnarskrár, og ekki síst þegar þær koma frá virtustu fræðimönnum landsins á sviði lögfræði, ber alþingismönnum skylda til þess að ganga úr skugga um hvort þær efasemdir eigi við rök að styðjast þannig að stjórnarskráin njóti vafans sem uppi er.
Þess vegna er sjálfsagt og eðlilegt, en alls ekki gagnrýnivert, eins og Gunnar Helgi heldur fram, að Alþingi leiti eftir áliti tveggja reyndra lögfræðinga og fyrrverandi hæstaréttardómara á því hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár. Það ber þeim að gera. Það á prófessor í stjórnmálafræði að vita.
Lögfræðiálit frá breskri lögmannsstofu
Í annan stað telur Gunnar Helgi Kristinsson að íslensk stjórnskipan sé komin í öngstræti vegna þess að ákveðið hafi verið að fjárlaganefnd leitaði eftir sérfræðiáliti breskrar lögmannsstofu á ákvæðum Icesave-samninganna.
Eins og kunnugt er gilda ensk lög um Icesave-samninginn milli Íslands og Bretlands. Verði höfðað dómsmál vegna þeirra í framtíðinni mun niðurstaða þess ráðast af túlkun samningsákvæðanna og enskra laga.
Í langri og dapurlegri sögu Icesave-málsins hefur því miður aldrei verið ráðist í slíka yfirferð.
Enginn nefndarmanna í fjárlaganefnd hefur nauðsynlega þekkingu á enskum lögum til þess að geta lagt sérfræðilegt mat á það hvaða þýðingu það hefur fyrir hagsmuni Íslands að um samningana gildi ensk lög en ekki íslensk. Slík sérþekking er heldur ekki til staðar innan ríkisstjórnar Íslands né hjá þeirri samninganefnd sem samningana gerði, þó stjórnmálafræðiprófessorinn treysti þeim vel til verksins.
Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að fengnir séu sérfræðingar í enskum lögum til að yfirfara Icesave-samninginn og leggja mat á þau álitaefni sem hér hafa verið tiltekin. Það hefði raunar þurft að gera miklu fyrr, enda eru þeir hagsmunir sem í húfi eru gríðarlegir.
Með því að leita eftir slíku áliti er engan veginn verið að þvælast fyrir eðlilegum gangi mála í stjórnkerfinu eins og Gunnar Helgi heldur fram.
Þvert á móti er verið að tryggja að staðið sé með eðlilegum hætti að meðferð mikilvægs máls sem varðar þjóðarhagsmuni á Alþingi.
Prófessor í öngstræti
Stjórnskipan Íslands er ekki í neinu öngstræti. Hún er ágætlega á sig komin og hefur dugað þessari þjóð vel um áratuga skeið.
Í slíkt öngstræti hefur stjórnmálafræðiprófessorinn Gunnar Helgi Kristinsson hins vegar ratað.
Það veldur auðvitað áhyggjum að prófessor í stjórnmálafræði hafi uppi málflutning eins og þann sem Gunnar Helgi viðhafði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag.
Vonandi endurspeglar hann ekki þann boðskap sem prófessorinn færir nemendum sínum í Háskóla Íslands.
Höfundur er lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- allib
- almaogfreyja
- andrigeir
- audbergur
- audunnh
- abg
- axelaxelsson
- arniarna
- aslaugfridriks
- astamoller
- baldher
- baldvinjonsson
- benediktae
- bergrun
- kaffi
- bergurben
- bjarnihardar
- bjarnimax
- bjorgvinr
- sveifla
- binnag
- bryndisharalds
- skordalsbrynja
- brandarar
- charliekart
- dansige
- doj
- deiglan
- doggpals
- egillg
- erla
- erlendurorn
- skotta1980
- ea
- fsfi
- vidhorf
- hressandi
- gammurinn
- gerdurpalma112
- gisliivars
- gisliblondal
- gillimann
- grettir
- gudni-is
- gummibraga
- phoenix
- gunnarbjorn
- gussi
- laugardalur
- habbakriss
- smali
- haddi9001
- hhbe
- handsprengja
- 730bolungarvik
- heimssyn
- herdis
- hildurhelgas
- drum
- hjaltisig
- hlekkur
- kolgrimur
- hlodver
- don
- hvitiriddarinn
- ingabesta
- golli
- ibb
- bestiheimi
- jakobk
- fun
- stjornun
- skallinn
- jonasegils
- forsetinn
- jonmagnusson
- bassinn
- jonsnae
- julli
- komment
- karisol
- kje
- kjarrip
- kjartanvido
- kolbrunb
- kristinrichter
- kristjanb
- kristjangudm
- liljabolla
- altice
- maggaelin
- gummiarnar
- martasmarta
- mal214
- nielsfinsen
- ottoe
- olibjossi
- obv
- nielsen
- skari
- pkristbjornsson
- jabbi
- pbj
- storibjor
- iceland
- pjeturstefans
- raggibjarna
- raggiraf
- raggipalli
- ragnar73
- schmidt
- bullarinn
- salvor
- fjola
- sigbragason
- vitaminid
- joklamus
- sv11
- sjonsson
- siggikaiser
- sisi
- siggisig
- sigurgeirorri
- mogga
- sigurjonb
- sms
- sjalfstaedi
- hvala
- hvirfilbylur
- stebbifr
- eyverjar
- styrmirh
- summi
- brv
- sveinn-refur
- stormsker
- saethorhelgi
- tidarandinn
- daystar
- valdimarjohannesson
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- nytthugarfar
- vibba
- villagunn
- va
- villithor
- xenon
- thorbjorghelga
- steinig
- thorsteinnhelgi
- thorasig
- doddidoddi
- thorolfursfinnsson
- toddi
- hugsun
- ornsh