Eru Vinstri grænir umhverfisverndarsinnar?

Vinstri grænir hafa fram til þessa gefið sig sérstaklega út fyrir að vera umhverfisverndarsinnar.

Í dag kom í ljós hversu trúir samvisku sinni þingmenn Vinstri grænna eru og hversu mikla virðingu þeir bera í raun fyrir umhverfinu og náttúru Íslands.

Það gerðist þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um svokallað skötuselsfrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.

Ég ætla að láta vera í bili að gagnrýna að með því frumvarpi sé fyrsta skrefið stigið við innleiðingu á fyrningarleið í sjávarútvegi og benda þess í stað á annað athyglisvert efnisatriði þessa frumvarps.

Í frumvarpinu, sem sjávarútvegsráðherrann lagði sjálfur fram, er lagt til að þessum sama sjávarútvegsráðherra verði veitt heimild til að úthluta 80% hærri heildarafla skötusels en fiskifræðingarnir hjá Hafrannsóknarstofnun ráðleggja.

Með öðrum orðum gengur þetta frumvarp meðal annars út á það að heimila hinum vinstri græna sjávarútvegsráðherra að veita sjálfum sér ákvörðunarvald um að hefja ofveiði úr einum fiskistofni við Íslandsstrendur.

Oft hafa vinstri grænir komið mér á óvart og sjaldnast skemmtilega.

En ekki átti ég von á því að þingmenn stjórnmálaflokks, sem á tyllidögum tala eins og hvítskúraðir kórdrengir um mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og grænnar atvinnustefnu, stæðu að lagasetningu um ofveiði í náttúru Íslands.

Ef þetta er sú umhverfisverndarstefna sem Vinstri grænir ætla að hrinda í framkvæmd ættu þeir sem kusu þennan flokk vegna meintrar afstöðu hans til umhverfismála að snúa sér að hægri grænum.

Sigurður Kári.


Vinstri grænir í vanda

Vinstri grænir í Reykjavík eru í vanda eftir prófkjörið sem flokkurinn hélt um helgina.

Sá frambjóðandi sem sigraði í prófkjörinu og stuðningsmenn hennar eru sökuð um að hafa beitt bolabrögðum í prófkjörinu.  Sagt er að sigurvegarinn hafi tryggt sér sigurinn með því að fá hlaupastráka og -stelpur til að skottast í hús með atkvæðaseðla og til að skila þeim síðan samviskusamlega í kjörkassana.  Þá segir sagan að meðal þeirra sem gengu í hús með atkvæðaseðla hafi verið kennari við Háskóla Íslands.

Mótframbjóðandi sigurvegarans sakar keppinaut sinn um kosningasvild.  En formaður kjörstjórnar Vinstri grænna í Reykjavík, Stefán Pálsson, hefur úrskurðað um að þessi einkennilega framkvæmd kosninganna sé ekki ólögleg.  Það hafi verið hugsunarleysi af hans hálfu að upplýsa keppinaut sigurvegarans um að óleyfilegt væri að fara heim til kjósenda og skila atkvæðaseðlunum fyrir þá.

Formaður kjörstjórnar ætti reyndar að mínu mati að velta því aðeins betur fyrir sér í hverju hugsunarleysið felst.

Hvað sem rétt er í málinu er ljóst að þær aðferðir sem viðhafðar voru í prófkjöri Vinstri grænna í Reykjavík voru þess eðlis að þær skaða trúverðugleika flokksins verulega í aðdraganda komandi borgarstjórnarkosninga.

Ljóst er að Vinstri grænir, sem gefa sig sérstaklega út fyrir að vera flokkur án spillingar, gengur laskaður til borgarstjórnarkosninga.

Ég tók eftir því að fréttamiðillinn visir.is fylgdist með framkvæmd prófkjörs Vinstri grænna og sagði fréttir af úrslitum og kjörsókn.

Fyrirsögn einnar fréttarinnar vakti sérstaka athygli mína, en hún var eftirfarandi:

,,VG í Reykjavík með jafn mikla kjörsókn og Sjálfstæðisflokkurinn"

Í fréttinni kemur fram að 1.000 manns hafi kosið í prófkjörinu, sem mun vera met hjá Vinstri grænum.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið var þann 23. janúar sl. kusu 7.173 manns.

Fyrirsögn fréttarinnar er afar villandi, svo ekki sé meira sagt.

Sigurður Kári.


DV

Dagblaðið DV birti grein í dag þar sem sagt er frá því að breska lögmannsstofan Mishcon de Reya hafi sent Alþingi og fjárlaganefnd þess 25 milljóna króna reikning fyrir ráðgjöf og önnur störf vegna Icesave-málsins.

Þar er því haldið fram að Gunnlaugi Erlendssyni, lögfræðingi, sé ætlað að fá 10 milljónir af þeirri fjárhæð.

Höfundur fréttarinnar, Jóhann Hauksson, blaðamaður, sér ástæðu til að geta mín sérstaklega í fréttaskrifum sínum um reikning bresku lögmannsstofunnar, en í fréttinni segir Jóhann m.a.:

,,Áðurnefndur Gunnlaugur Erlendsson var á sínum tíma virkur félagi í Heimdalli meðal ungra sjálfstæðismanna.  Hann er jafnframt sagður vinur Sigurðar Kára Kristjánssonar, fyrrverandi alþingismanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins."

Í myndatexta sem Jóhann birtir undir mynd af mér segir síðan:

,,Flokkstengslin.  Vinur Sigurðar Kára Kristjánssonar og flokksbróðir Gunnlaugs Erlendssonar, á að fá 10 milljónir króna fyrir störf sem enginn bað hann að vinna."

Í pistli sem sami blaðamaður, Jóhann Hauksson, skrifar á dv.is undir fyrirsögninni ,,Hámark ósvífninnar", bætir blaðamaðurinn um betur og segir að Gunnlaugur sé ,,góðvinur" minn.

Það er gott að vera vinamargur.

En ekki kannast ég við að Gunnlaugur Erlendsson sé vinur minn eða tilheyri mínum vinahópi, hvað þá að hann sé ,,góðvinur" minn, eins og Jóhann fullyrðir.

Þó er hugsanlegt að Jóhann telji sig vera betur upplýstan um mín eigin vinatengsl en ég sjálfur, þó mér finnist það heldur langsótt.

Ég hygg að fáir hafi á liðnum árum tekið jafn mikinn þátt í starfi ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins og ég.  Þó nokkuð sé um liðið hef ég bæði átt sæti í stjórn Heimdallar og auk þess verið formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Á mínum langa ferli innan raða ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins hef ég ekki orðið var við að Gunnlaugur Erlendsson hafi verið þar virkur þátttakandi, þó Jóhann haldi öðru fram.  Raunar minnist ég þess ekki að hafa séð honum svo mikið sem bregða fyrir í störfum hreyfingarinnar.

Það er sjálfsagt að menn fjalli um og hafi skoðanir á reikningum sem breskar lögmannsstofur senda þeim aðilum sem þær vinna fyrir, en þeir hinir sömu ættu að temja sér að gera það með heiðarlegum hætti.

Þó Jóhann Hauksson og DV telji að tilgangurinn helgi meðalið þá verð ég að frábiðja mér að hann og DV bendli mig við reikningsgerð með þeim hætti sem gert er í blaði dagsins.

Sem aðstoðarmaður formanns stjórnarandstöðuflokks hef ég nákvæmlega ekkert með samningsgerð fyrir hönd Alþingis eða fjárlaganefndar að gera.

Það sjá allir sem til þekkja.

Fyrir slíka samninga verða aðrir að svara.

Sigurður Kári.


Kastljósið á Jóhönnu

Framganga Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins síðastliðinn þriðjudag var mjög athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Það er auðvitað eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að nefna hér ,,árangur" ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna við að reysa skjaldborgir um heimilin í landinu og velferðarbrýr.  Það sama á við aðgerðir í efnahagsmálum, atvinnumálum, svikin í sambandi við stöðugleikasáttmálann, aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja og svo mætti lengi telja.

Um þessa þætti hefur Jóhanna haldið sömu ræðuna svo mánuðum skiptir.  Og árangurinn sýnir að það er ekkert að marka það sem hún hefur haft fram að færa í þessum málaflokkum fram að þessu.  Og þá breytir engu þó Jóhanna flytji sömu ræðuna aftur og aftur.

Það voru önnur umræðuefni sem vöktu meiri athygli.

x x x

Í fyrsta lagi var augljóst að forsætisráðherra Íslands dauðlangaði að nota tækifærið til þess að húðskamma Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, fyrir að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

Vandi Jóhönnu Sigurðardóttur í því máli er hins vegar sá að þjóðin er sammála Ólafi Ragnari, en ósammála Jóhönnu.

x x x

Í öðru lagi vakti það verðskuldaða athygli að forsætisráðherra Íslands skyldi afneita Svavari Gestssyni, aðalsamningamanni hennar eigin ríkisstjórnar, í viðtali í Kastljósinu.

Af viðbrögðum Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra,  í DV strax að viðtali loknu að dæma er ljóst að Steingrímur J. Sigfússon er allt annað en sáttur við ummæli Jóhönnu um aðalsamningamann íslensku ríkisstjórnarinnar.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur væntanlega heldur ekki tekið ummælum Jóhönnu fagnandi þegar hún gaf Svavari einkunn fyrir störf sín í þágu þeirrar ríkisstjórnar sem þær báðar eiga sæti í.

Það er því hætt við því að andrúmsloftið á næsta ríkisstjórnarfundi verðí ansi rafmagnað.

x x x

Það er útaf fyrir sig hárrétt hjá forsætisráðherranum að það hefði auðvitað verið skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að fá vanan samningamann í milliríkjadeilum til þess að semja fyrir Íslands hönd eða vera ríkisstjórninni til ráðgjafar í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga um Icesave.

En það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvað vakir fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að nefna það nú að skynsamlegra hefði verið að fá aðra og reyndari menn til að gæta hagmuna Íslands í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga.

Ég tel að Jóhanna og Samfylkingin séu að átta sig á því að ríkisstjórnin sé búin stefna Icesave-málinu í algjört óefni.  Spunameistarar flokksins hafi ráðlagt henni að finna blóraböggla í Icesave-málinu og kenna þeim um ófarir ríkisstjórnarinnar í stað þess að axla ábyrgð sjálf.

Það gerði Jóhanna í Kastljósinu og beitti Albaníuaðferðinni frægu.

Hún benti á Svavar Gestsson en alþjóð skyldi að með því reyndi hún að koma allra ábyrgð á málinu yfir á fjármálaráðherrann Steingrím J. og samstarfsflokkinn Vinstri græna.

Steingrímur beitti síðan afbrigði af Albaníuaðferðinni á Alþingi í gær þegar ummæli Jóhönnu um hans aðalsamningamann  voru borin undir hann.

Þá húðskammaði Steingrímur J. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og sakaði þá um að stunda mannaveiðar!

Þær mannaveiðar hófu ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Það gerði Jóhanna Sigurðardóttir.

Það þýðir ekkert fyrir Steingrím J. Sigfússon að kveinka sér undan því að aðalsamningamaður ríkisstjórnarinnar, Svavar Gestsson, sé nefndur í sömu andrá og þegar rætt er um Icesave-málið.  Hjá því verður einfaldlega ekki komist eins og málið er vaxið.

Ef einhver ætti að hafa skilning á því að rætt sé um Svavar Gestsson í tengslum við Icesave-málið þá er það Steingrímur.

Ég minnist þess að minnsta kosti ekki að stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon hann hafi farið að tilmælum Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hann bað stjórnarandstöðuna í miðju efnahagshruninu um að persónugera ekki vandann.

Á þau tilmæli hlustaði Steingrímur ekki þá, eins og allir muna.

x x x

Í þriðja lagi fylgdist ég agndofa á forsætisráðherra Íslands lýsa hneykslun sinni á afskriftum skulda í bankakerfinu og því að menn sem bera mikla ábyrgð á því efnahagshruni sem hér varð sé gert kleift að halda fyrirtækjum sínum eins og ekkert hafi í skorist.

,,Veistu það að það er margt sem ég hef séð hérna í fréttunum sem ég er yfir mig heyksluð á og alveg sammála fólkinu í landinu með það", sagði Jóhanna og bætti við  ,,Já, ég hef margsinnis bara verið agndofa yfir sjónvarpinu, að sjá þessar fréttir".

Af framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi Sjónvarpsins virðist það hafa farið fram hjá henni að það er hún sjálf sem er forsætisráðherra í þessu landi, en ekki einhver annar.

Misbjóði forsætisráðherranum það sem er að gerast í þjóðfélaginu nægir ekki að hún hneykslist bara með okkur hinum, lýsi sig sammála fólkinu í landinu og haldi svo áfram að horfa á sjónvarpið.

Forsætisráðherranum ber að grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þeir hlutir sem almenningi misbýður haldi áfram.

Sigurður Kári.


Hvað segir Jón Sigurðsson?

Samkvæmt fréttum fullyrðir Arnold Schilder, prófessor og fyrrum yfirmaður eftirlitssviðs hollenska Seðlabankans, að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafi ekki sagt sannleikann um fjárhag Landsbanka Íslands hf. þegar fundað var um málefni bankans áður en starfsemi hans hófst í landinu undir vörumerkinu Icesave.

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur vísað þessum ásökunum á bug í sérstakri yfirlýsingu.

En hvað segir Jón Sigurðsson, helsti efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar frá stofnun hennar, um þessar ásakanir?

Ég hef ekki orðið var við að fjölmiðlar hafi leitað viðbragða hjá honum varðandi þessar alvarlegu ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins.

Ég man þó að Jón Sigurðsson var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins á þessum tíma.

Og ég man líka að í auglýsingabæklingum um Icesave-reikningana, sem dreift var í Hollandi, birtist virðuleg mynd af stjórnarformanninum Jóni, væntanlega til þess að efla traust hollenskra sparifjáreigenda á þessari fjármálaafurð Landsbanka Íslands hf.

Það væri kannski ráð fyrir fjölmiðla að manna sig nú upp og eiga orðastað við Jón Sigurðsson um málið.

Sigurður Kári.


Áfall Samfylkingarinnar í Reykjavík

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hlaut glæsilega kosningu í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem haldið var þann 23. janúar síðastliðinn.

7.173 flokksbundnir sjálfstæðismenn fóru á kjörstað og greiddu atkvæði í prófkjörinu.  Hanna Birna hlaut 84% greiddra atkvæða í 1. sætið.

Daginn eftir prófkjörið leituðu fjölmiðlar eftir viðbrögðum ýmissa sérfræðinga í stjórnmálafræði og öðrum vísindum sem tjáðu sig um niðurstöður prófkjörsins.

Enginn þeirra sá ástæðu til þess að nefna að kjör Hönnu Birnu væri til marks um sterka stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum, hvað þá að sex af tíu efstu þátttakendum í prófkjörinu væru kvenkyns. 

Sú staðreynd gerði það þó væntanlega að verkum að þess var ekki krafist að Sjálfstæðisflokkurinn biði fram svokallaðan fléttulista í komandi borgarstjórnarkosningum.

Það sem sérfræðingunum fannst standa upp úr eftir prófkjörið var þátttakan í því.  Hún var sögð dræm sem hlyti að vera áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

x x x

Um helgina hélt Samfylkingin - Jafnaðarmannaflokkur Íslands, prófkjör sitt í Reykjavík.

Kosningin í prófkjöri Samfylkingarinnar var rafræn, sem þýðir að þeir tóku þátt þurftu ekki einu sinni að hafa fyrir því að mæta á kjörstað.  Þeir þurftu einungis að kveikja á tölvunni sinni til þess að kjósa.

Engu að síður að greiddu einungis 2.656 flokksmenn og - konur atkvæði í prófkjörinu.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, hlaut afgerandi kosningu í 1. sæti.

Ég ætla að láta vera að fjalla um stöðu kvenna innan Samfylkingarinnar í Reykjavík.

En hafi þátttakan í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins talist dræm, hvað má þá segja um þátttökuna í prófkjöri Samfylkingarinnar?

Hún var vitanlega afleit.

Áhugaleysi Samfylkingarfólks á sínu eigin prófkjöri hlýtur að teljast gríðarlegt áfall fyrir Samfylkinguna og núverandi forystu hennar.

Og það er auðvitað athyglisvert hversu litla athygli þetta afhroð Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur fengið í íslenskum fjölmiðlum og hjá stétt íslenskra stjórnmálafræðinga.

Sigurður Kári.


Stórglæsilegur árangur!

Árangur íslenska landsliðsins í handbolta er stórglæsilegur.

Að vinna til verðlauna á öðru stórmótinu í röð er afrek sem aldrei áður hefur verið unnið í íslenskri íþróttasögu.

Íslenska landsliðið hefur skipað sér á stall meðal þeirra allra bestu í heiminum.  Á því leikur enginn vafi.

Með því að tryggja sér bronsverðlaunin á EM í Austurríki náði íslenska landsliðið besta árangri allra Norðurlandaþjóðanna.

Það má því segja að við höfum tryggt okkur Norðurlandameistaratitilinn.

Til hamingju strákar!

Sigurður Kári.


Þjóðaratkvæðagreiðslunni verður ekki frestað

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, virðist vera farinn að átta sig á því að hvorki hann né ríkisstjórnin nýtur stuðnings þjóðarinnar í Icesave-málinu.  Þjóðin býr sig nú undir að hafna Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur er hins vegar ekki alveg búinn að sætta sig við þá niðurstöðu og reynir enn, af veikum mætti, að verja rangan málstað.

Í fréttatímum dagsins lét Steingrímur hafa það eftir sér að rétt væri að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin ef ekki yrði búið að birta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fyrir kjördag, sem ákveðinn hefur verið hinn 6. mars næstkomandi.  Hann sagði ótækt að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin áður en mikilsverðar upplýsingar eða gögn, sem almenningur hefði rétt á að kynna sér um málið, hefðu verið lögð fram.

Að mínu mati verður þjóðaratkvæðagreiðslunni ekki frestað og alls ekki á þeim forsendum sem Steingrímur J. nefndi í viðtölum í kvöld.

Í fyrsta lagi er ljóst að hinir afleitu Icesave-samningar og Icesave-lögin sem kosið verður um batna ekkert við það að rannsóknarnefnd Alþingis leggi fram sína skýrslu.  Þeir stríða eftir sem áður alveg jafn freklega gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Í öðru lagi gengur það hreinlega ekki upp hjá Steingrími J. að halda því fram að þjóðin geti ekki í atkvæðagreiðslunni tekið afstöðu til Icesave-laganna fyrr en skýrsla rannsóknarnefndarinnar hefur verið lögð fram.  Ef svo er, hvernig stendur þá á því að Steingrímur taldi sjálfan sig vera í aðstöðu til þess að samþykkja Icesave-lögin og Icesave-samningana áður en skýrslan var lögð fram?  Og það ekki bara einu sinni, heldur tvisvar!

Í þriðja lagi er síðan beinlínis hjákátlegt að heyra Steingrím J. Sigfússon tala um mikilvægi þess að öll gögn liggi fyrir áður en ákvörðun um örlög Icesave-málsins verður tekin.  Allir sem þekkja sögu Icesave-málsins vita að Steingrímur og ríkisstjórnin hafa frá upphafi legið á öllum gögnum málsins eins og ormar á gulli og gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til þess að koma í veg fyrir þau yrðu gerð opinber.  Upphaflega ætlaði ríkisstjórnin ekki einu sinni að birta sjálfa lánasamningana.  Þeir láku á netið!

En nú, þegar það hentar Steingrími J. og ríkisstjórninni, talar fjármálaráðherrann eins og heilagur maður um mikilvægi þess að öll gögn málsins liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin.

Það sjá allir að það er engin ástæða til þess að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave.

Og alls ekki á þeim forsendum sem Steingrímur J. byggði á í viðtölum dagsins.

Sigurður Kári.


,,Lækkum launin okkar!" - Nýtt kosningaslagorð?

Tímaritið The Economist fjallar um komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lög ríkisstjórnarinnar í grein sem birtist 7. janúar síðastliðinn undir fyrirsögninni:  ,,Voting away your debts - The Iceland saga is a harbinger of crises to come."

Þar segir m.a.:

,,Given that a quarter of the Icelandic population has signed a petition opposing such payments, it is not difficult to imagine how such a poll will turn out. "Vote for lower incomes" is not going to be a very popular slogan. And the Icelanders will only be the first. Around the world governments have assumed the debts of their private sectors. That is an easy commitment to make in the short term. Paying the money back is another matter. If the debt is large enough, the result will be years of austerity. Electorates will choke at the cost."

Það verður gaman að sjá hvort fyrirliðar spunadeildar ríkisstjórnarinnar, Hrannar B. Arnarsson og Einar K. Haraldsson, munu keyra kosningabaráttu ríkisstjórnarinnar um Icesave-lögin undir slagorðinu:  ,,Lækkum launin okkar!"

Mér finnst ekki óeðlilegt að þeim sem vilja samþykkja Icesave-lögin noti þetta slagorð.

Við sem viljum standa vörð um íslensku þjóðarinnar og segjum nei, munum hins vegar ekki gera það.

Sigurður Kári.


,,You´ve ain´t seen nothing yet!"

Góður vinur minn var að koma heim frá Flórída.

Hann sagði mér að þar á bæ hefðu menn áhyggjur af efnahagslífinu.  Atvinnuleysi í fylkinu er í kringum 10% og samdráttur í efnahagslífinu hefur valdið fólki og fyrirtækjum erfiðleikum.

Stjórnvöld í Flórída hafa brugðist við þessum aðstæðum með því að leita allra leiða til þess að örva atvinnulífið, svo skapa megi störf, auka verðmætasköpun og þar með skatttekjur.  Þar beita menn skattkerfinu miskunnarlaust til þess að fá hjól atvinnulífsins í gang á nýjan leik.  Þar er talað um að ráðast í skattalækkanir.  Skattaafslættir og aðrar skattaívilnanir eru í boði.  Allt er gert til að draga úr þeim álögum sem fyrir eru.

Hér á Íslandi er vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna við völd.

Sú ríkisstjórn fer aðrar leiðir. 

Hún ræðst í mestu skattahækkanir Íslandssögunnar og hótar því ganga lengra.

Og skilaboðin frá Steingrími J. Sigfússyni eru skýr:

,,You´ve ain´t seen nothing yet!"

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband