Nú reynir á Alþingi og Alþingismenn

Ríkisstjórn Íslands kynnti í gær samkomulag sem hún gerði fyrir Íslands hönd við Hollendinga og Breta í Icesave-málinu.

Á blaðamannafundi sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að lengra hefði ríkisstjórnin ekki komist.  Að hennar mati væri niðurstaðan ásættanleg og að það þjónaði hagsmunum íslensku þjóðarinnar að klára Icesave-málið með þeim hætti sem hún kynnti.

Í sama streng tók Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem hélt því blákalt fram þeir fyrirvarar sem Alþingi samþykkti í ágúst héldu að meginstefnu til.

Ekkert af þessu stenst skoðun.  Samkomulagið er afleitt.  Það þjónar engan veginn hagsmunum þjóðarinnar að klára Icesave-málið á þeim forsendum sem ríkisstjórnin leggur nú til og fyrirvarar Alþingis eru að engu orðnir.

Það mun ég rökstyðja í þessum pistli.

1.  Fyrirvarar Alþingis hafa verið felldir brott.

Það samkomulag sem ríkisstjórnin kynnti í gær felur í sér algera uppgjöf hennar gagnvart kröfum Breta og Hollendinga gagnvart Íslendingum.  Niðurstaðan ber þess skýr merki að ríkisstjórnin samdi af sér.  Hún er niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina og ekki síður fyrir íslensku þjóðina.  Hún er Íslendingum afar óhagstæð og litlu skárri en sú niðurstaða sem birtist í upphaflegum samningum sem kynntir voru hinn 5. júní síðastliðinn.  Hún vegur að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, hvort sem er í stjórnskipulegu- eða efnahagslegu tilliti.

Af niðurstöðunni er ljóst að þeir fyrirvarar sem Alþingi lögfesti í ágúst síðastliðnum eru að litlu eða engu orðnir.

2.  Ríkisstjórnin fellst á að greiða alla kröfuna án skyldu

Með samkomulaginu vill ríkisstjórn Íslands fyrir hönd íslenska ríkisins að ábyrgjast greiðslur á hverju einasta pundi og hverri einustu evru til breskra og hollenskra innistæðueigenda að viðbættum háum vöxtum á höfuðstól kröfunnar.

Þetta gerir ríkisstjórnin án þess að fyrir liggi að ríkinu beri lagaleg skylda til þess að ábyrgjast vegna Icesave-reikninganna.

Hvernig getur slík niðurstaða verið ásættanleg?  Og hvernig getur það þjónað hagsmunum íslensku þjóðarinnar að fallast á slíkar kröfur?

3.  Lagalegur fyrirvari að engu orðinn

Í samkomulaginu fellst að ríkisstjórnin hefur afsalað íslensku þjóðinni þeim sjálfsagða rétti sínum að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort íslenska ríkinu beri að lögum að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands vegna Icesave-reikninganna.

Afsalið fellst í því að verði slíkt mál höfðað og fáist í því sigur, hefur ríkisstjórnin samið um að slík niðurstaða hafi enga þýðingu fyrir Íslendinga.

Í niðurstöðu ríkisstjórnarinnar kemur fram að höfði Íslands slíkt mál fyrir dómstól og hafi sigur þá hafi sú niðurstaða engin áhrif gagnvart Bretum og Hollendingum, að öðru leyti en því að þessar þjóðir þyrftu að eiga við Íslendinga viðræður!

Yrði niðurstaða málsins með öðrum orðum á þá leið að samkvæmt gildandi lögum beri íslenska ríkinu ekki skylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands hf., þá hefur slík dómsniðurstaða, samkvæmt samkomulaginu, engin áhrif á greiðsluskyldu íslenska ríkisins gagnvart Bretum og Hollendingum.

Þeir héldu að slíkri dómsniðurstöðu genginni öllum sínum rétti gagnvart Íslendingum, að öðru leyti en því að Ísland geti óskað eftir viðræðum við Holland og Bretland um niðurstöður málsins.

Réttarafsal eins og þetta hlýtur að vera einsdæmi.

Það hlýtur að vera einsdæmi að nokkur ríkisstjórn frjáls og fullvalda ríkis skuli vera reiðubúnir að kyngja því að úrskurður eða dómur dómstóls í ágreiningsmáli hafi ekkert gildi fyrir málsaðilanna, annað en það að þeir þurfi að tala saman!

Það hlýtur líka að vera einsdæmi að nokkurri ríkisstjórn skuli hafa tekist að niðurlægja sjálfa sig og þjóð sína með því að semja með þessum hætti.

Það er auk þess mikið álitamál hvort ríkisstjórn Íslands sé heimilt að lögum, þar á meðal samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, að afsala íslenska ríkinu og framtíðarkynslóðum þessa lands svo mikilsverðum hagsmunum eins og ríkisstjórn Íslands hefur nú gert.

4.  Ríkisábyrgðin verður óskilgreind og ótímabundin.

Í niðurstöðunni sem ríkisstjórnin kynnti fellst að í stað þess að ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna falli niður árið 2024 verði hún ótímabundin og að öllu leyti óskilgreind.

Þar með hefur einn helsti varnaglinn sem Alþingi setti fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar í ágúst verið felldur úr gildi.  Með því að fella þann varnagla úr gildi að kröfu Breta og Hollendinga hefur ríkisstjórn Íslands stórskaðað hagsmuni þjóðarinnar.

Það er álitamál hvort Alþingi sé heimilt lögum samkvæmt að veita jafn óskilgreinda ríkisábyrgð og ríkisstjórnin ætlar sér að gera í þessu máli.  Slíkar ábyrgðir eru oftast nær tímabundnar eða bundnar tiltekinni fjárhæð.

Slík skilyrði vill ríkisstjórnin ekki setja í Icesave-málinu.

5.  Efnahagslegir fyrirvarar hafa verið felldir úr gildi

Í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í ágúst var sett hámark á greiðslur Íslendinga til Breta og Hollendinga.

Fyrirvararnir hefðu leitt til þess að greiðslan yrði aldrei hærri en 6% af hagvexti og að það sem eftir stæði árið 2024 félli niður. Þetta var gert í anda hinna sameiginlegu viðmiða (Brussel-viðmiðana).

Þessu hefur nú verið breytt þannig að nú borga Íslendingar aldrei meira en 6% af höfuðstól á ári en alltaf áfallna vexti. Þetta þýðir að ef upphafleg skuld er t.d. 700 milljarðar og hagvöxtur verður enginn þá er ekkert greitt af höfuðstól en vextir eru alltaf greiddir – höfuðstóll verður óbreyttur árið 2024.

Vaxtagreiðslurnar áranna 2016 til 2024 munu þá samtals nema um 245 milljörðum en höfuðstóllinn verður sá sami – 700 milljarðar!

Með þeirri breytingu sem ríkisstjórnin leggur nú til að verði samþykkt hefur þessi efnahagslegi fyrirvari litla sem enga þýðingu lengur.

Í versta falli kann þessi varnagli að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Í besta falli felur hann það í sér að Íslendingar fá náðarsamlegast greiðsluaðlögun til þess að greiða hvert pund og hverja evru til Breta og Hollendinga.

6.  Fyrirvari um úthlutun krafna úr þrotabúi Landsbanka Íslands (fyrirvari Ragnars Hall) er háður túlkun EFTA-dómstólsins.

Sú breyting sem ríkisstjórnin leggur til að gerð verði á fyrirvara Alþingis sem kenndur hefur verið við Ragnar Hall, hæstaréttarlögmann, getur orðið til þess að torsótt verði fyrir Ísland að fá forgang á kröfur í bú Landsbanka Íslands.

Nú er mælt fyrir því að reglur um úthlutun úr búi Landsbanka Íslands skuli standa, en þó að því tilskyldu að það sé niðurstaða íslenskra dómstóla og að sú niðurstaða sé í samræmi við ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum.

Að mati lögfræðinga eru verulegar líkur á því að slíkt álit fengist ekki frá EFTA-dómstólnum.  Það mat byggir á því að EFTA-dómstóllinn metur einungis hvort reglur landsréttar (íslensks réttar) séu í samræmi við reglur EES-réttarins.  Fram til þessa hefur verið talið að reglur íslensks gjaldþrotaréttar brjóta í engu í bága við EES-reglur.

Það er ekki hlutverk EFTA-dómstólsins að kveða á um með hvaða hætti eigi að úthluta fjármunum úr einstökum þrotabúum fyrirtækja til kröfuhafa.  EFTA-dómstóllinn hefur ekkert með slík úrlausnar efni að gera.

Hæstiréttur Íslands hefur túlkað ákvæði um ráðgefandi álit með mjög mismunandi hætti.  Af þeim úrlausnum sem fyrir liggja er alls ekki víst, og raunar býsna ólíklegt, að Hæstiréttur Íslands féllist á það að honum bæri skylda til að leita eftir slíku áliti.

Fengist slíkt álit ekki yrði sú niðurstaða alltaf á kostnað Íslendinga, en ekki Breta og Hollendinga, og myndi leiða til þess að fyrirvarinn sem kenndur er við Ragnar Hall hefði enga þýðingu.

7.  Getur Alþingi og ríkisstjórn sagt Hæstarétti Íslands fyrir verkum?

Það er verulegt álitamál hvort löggjafinn og ríkisstjórnin hafi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins heimildir til þess að skipa Hæstarétti Íslands fyrir verkum með þessum hætti.

Jafnframt er það líklega einsdæmi að við úrlausn ágreinings kjósi menn að binda niðurstöðu í slíku máli við ráðgefandi álit stofnunar, en ekki niðurstöðu dómstóls.

Það sýnir hins vegar að hvorki Bretar né Hollendingar treysta íslenskum dómstólum.  Þeir vilja sniðganga íslenska dómstóla.

Á þá sniðgöngu féllst ríkisstjórn Íslands.

8.  Hin sameiginlegu viðmið

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að í viðaukasamningi við lánasamninga milli Íslands, Bretlands og Hollands, verði staðfest að lánasamningarnir hafi verið gerðir á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða (Brussel-viðmiða) frá 14. nóvember 2008.

Ekkert í þeim lánasamningum bendir til þess að nokkurt tillit hafi verið tekið til hinna sameiginlegu Brussel viðmiða.

Sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt bendir ekki til annars en að enn og aftur hafi verið framhjá þeim litið.

Nú reynir á Alþingi og Alþingismenn

Þingmenn stjórnarflokkanna hafa um helgina líst því yfir að Icesave-málið sé gjörbreytt nú þegar niðurstaða samningaviðræðna landanna þriggja liggur fyrir.

Það er rétt.  Málið er gjörbreytt.

En það hefur breyst til hins verra.

Uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum er algjör og niðurlægingin fullkomin.

Sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt er ekki ásættanleg.  Hún er afleit.  Það þjónar ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar að fara að ráðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og kyngja umyrðalaust afarkostum Breta og Hollendinga.

Nú reynir á þingmenn þessarar þjóðar að standa gegn þeim áformum sem ríkisstjórnin kynnti í Alþingishúsinu í gær.

Það er tími til kominn að þingmenn taki afstöðu með Íslendingum og bjargi þjóðinni frá stórslysi sem ekki verður aftur tekið, fyrst ríkisstjórn Íslands ætlar ekki að gera það.

Sigurður Kári.


Algjör uppgjöf

Fréttir berast nú af því að niðurstaða sé fengin í Icesave-viðræðum íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda.  Samkvæmt þeim hefur ríkisstjórnin fallist á að falla frá þeim fyrirvörum við Icesave-málið sem Alþingi samþykki í sumar.

Með öðrum orðum virðist ríkisstjórn Íslands vera búin að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum almenningi, en þær virðast af frétt Morgunblaðsins hafa verið eftirfarandi:

Ekki hætt að greiða árið 2024

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að ekki verði hætt að greiða af Icesave-skuldabréfunum árið 2024 eins og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir, heldur verði upphæðin greidd að fullu. Greiðslur eftir 2024 munu miðast við 6% af hagvexti líkt og fram til 2024 og vextir verða óbreyttir.

Dómsúrskurður hnekkir ekki greiðsluskyldu Íslands

Bretar og Hollendingar munu hafa fallist á að hægt verði að fara með málið fyrir dóm til að láta reyna á greiðsluskyldu Íslands, líkt og fyrirvararnir kveða á um. Á hinn bóginn hefur niðurstaða dómsins, þótt hann yrði Íslendingum í hag, ekki sjálfkrafa þau áhrif að greiðslur falli niður. Verði dómurinn Íslandi í vil hefur hann aðeins þau áhrif að  sest verði aftur að samningaborði.

Ragnars Hall ákvæðið inni, nema ESA úrskurði gegn því

Ákvæðið sem kennt er við Ragnar Hall og kveður á um forgangsröð krafna er áfram inni líkt og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir. Komist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hins vegar að þeirri niðurstöðu að það stangist á við evrópskan rétt þá fellur það úr gildi og breytir þá engu þótt niðurstaða Hæstaréttar Íslands yrði á þá leið að ákvæðið héldi."

Hafi ríkisstjórn Íslands fallist á að breyta fyrirvörum Alþingis með þessum hætti er ljóst að uppgjöf Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu er algjör.

Enn og aftur fallast þau skötuhjúin á að hollenskir og breskir innistæðueigendur fái allar sínar kröfur uppfylltar.

Eftir stendur illa leikinn íslenskur almenningur sem á sér engan málsvara í þessum viðræðum.  Jóhanna og Steingrímur J. hafa frá upphafi haldið fram málstað Hollendinga og Breta í viðræðunum.

Og í annað skiptið er niðurstaðan hörmuleg.

Og niðurlæging okkar Íslendinga er algjör, nema Alþingi komi þjóðinni til bjargar, í annað skipti á skömmum tíma.

Sigurður Kári.


Hvað er að frétta af samninganefnd Íslands?

Nú er býsna langt um liðið síðan meirihluti Alþingis samþykkti þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að gengið skyldi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Síðan tillagan var samþykkt hefur lítið gerst í málinu hjá ríkisstjórninni, annað en það að hún neitar að láta þýða þann spurningalista sem Evrópusambandið sendi íslensku þjóðinni vegna umsóknarinnar.

Það virðist allt strand hjá þessari ríkisstjórn, meira að segja eina áhugamál Samfylkingarinnar.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hlýtur að fara að manna sig upp í að upplýsa hverjir eigi að skipa samninganefnd Íslands.

Og hver á að fara fyrir samninganefndinni?

Það skyldi þó ekki vera að það ríki ósætti innan ríkisstjórnarinnar um það hvernig skipa eigi í samninganefndina.

Það kæmi svo sem ekki á óvart, enda er reynslan af öðrum samninganefndum þessarar ríkisstjórnar ekki góð.

Sigurður Kári.


Hvað gerir forseti Íslands?

Það er eðli leppstjórna að gera það sem ráðstjórnarríkin skipa þeim að gera umyrðalaust.

Í stefnuræðu sinni í gær bað Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra Íslands, þjóðina um að hafa skilning á því að hún yrði fallast á kröfur Hollendinga og Breta í Icesave-málinu og greiða.

,,Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave-reikningana.“ – sagði Jóhanna og bætti við:

,,Þeir sem hrópa nú hæst og bjóða aðrar lausnir eru að stefna hagsmunum almennings hér á landi í hættu til lengri og skemmri tíma litið.  Hér höfum við ekkert val.“

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gafst upp fyrir Hollendingum og Bretum þegar hún gerði þá samninga sem kynntir voru í sumar.  Þeim vondu samningum hafnaði Alþingi og samþykkti ströng skilyrði fyrir því að ríkisábyrgð yrði veitt á vegna þeirra, gegn andmælum ríkisstjórnarinnar sem talaði fyrir hagsmunum breskra og hollenskra innistæðueigenda og gekk erinda þeirra í stað þess að verja hagsmuni íslenskra skattgreiðenda, eins og henni bar skylda til að gera.

Nú liggur fyrir að Hollendingar og Bretar hafa hafnað skilyrðum og fyrirvörum Alþingis og gera nú meiri kröfur á hendur Íslendingu en Alþingi var reiðubúið að sætta sig við í ágústlok.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur virðist nú ætla að gefast upp í annað sinn og gerir sig nú líklega til að leggja nýtt Icesave-frumvarp fram á Alþingi, í trausti þess að þar sitji nægilega margir alþingismenn sem eru reiðubúnir til þess að gefast einnig upp gegn afarkostum Hollendinga og Breta.

Leggi ríkisstjórnin slíkt uppgjafarfrumvarp fram sýnir hún óverjandi undirlægjuhátt gagnvart Bretum og Hollendingum.  Þá mun hún í annað skipti á skömmum tíma bregðast siðferðislegri skyldu sinni gagnvart þingi og þjóð og fer á svig við þau lög sem Alþingi hefur þegar samþykkt um lyktir málsins.

Verði slíkt frumvarp hins vegar samþykkt verður spennandi að sjá hver viðbrögð Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, verða.

Eftir að Alþingi samþykkti Icesave-frumvarpið í sumarlok staðfesti forseti Íslands lögin.  Það gerði forsetinn reyndar með illskiljanlegum hætti, en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér hinn 2. september í tilefni af staðfestingu laganna sagði eftirfarandi:

,,Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Þessi yfirlýsing forseta Íslands verður ekki skilin öðruvísi en svo að með hinni sérstöku árituðu tilvísun til fyrirvara Alþingis hafi forsetinn verið að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þeirra fyrir hagsmuni þjóðarinnar og að samþykki þeirra hafi verið forsenda þess að hann staðfesti lögin.

Fái hollensk og bresk stjórnvöld hins vegar vilja sínum framgengt, með milligöngu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, verður að fróðlegt að sjá hvernig forseti Íslands bregst við.

Mun hann skipta um skoðun og staðfesta slík lög?

Eða mun hann standa í lappirnar og fast á þeim fyrirvörum sem hann áritaði svo sérstaklega hinn 2. september síðastliðinn?

Sigurður Kári.


Skattaparadís

Góður vinur minn sagði við mig í kvöld að ef þetta fjárlagafrumvarp hans Steingríms J. Sigfússonar yrði samþykkt og áform ríkisstjórnarinnar um að hækka skatta næðu fram að ganga yrði Svíþjóð skattaparadís í samanburði við Ísland.

Sigurður Kári.


Endurreisn?

Endurreisn íslenska efnahagskerfisins gengur hægar en vonir stóðu til.  Þetta kom fram í viðtali fréttastofu Sjónvarpsins við leiðtoga ríkisstjórnarinnar, Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, síðastliðinn mánudag.

Það er óhætt að segja að sjaldan hafi jafn mikið verið sagt um jafn lítið og þá endurreisn efnahagskerfisins sem Steingrímur segir að gangi hægt.  Í raun hefur sú endurreisn aldrei hafist.  Fólkið í landinu og fyrirtækin eru farin að finna það illilega á eigin skinni.

Það þarf enginn að undrast að sú ríkisstjórn sem nú er við völd komist hvorki lönd né strönd með að endurreisa íslenska efnahagskerfið.  Allar hennar aðgerðir og áform miða að því að koma í veg fyrir að slík endurreisn geti átt sér stað og hafa í raun ekkert með endurreisn að gera.

Það er auðvitað ekki við öðru að búast en að endurreisn efnahagskerfisins gangi hvorki né reki hjá ríkisstjórn sem:

- hótar að hækka skatta á fólkið í landinu;
 
- hótar að hækka skatta á fyrirtækin í landinu;

- hótar nýjum orku-, auðlinda- og umhverfissköttum sem koma sérstaklega illa niður á stærstu útflutningsfyrirtækjum landsins;

- neitar að framlengja viljayfirlýsingu um atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík;

- kemur í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í Helguvík;

- stefnir stöðugleikasáttmála sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins í algjört uppnám;

- lækkar ekki stýrivexti sem fyrir eru þeir hæstu sem þekkjast;

- viðheldur stórskaðlegum gjaldeyrishöftum;

- og gefst upp gagnvart öllum kröfum Breta og Hollendinga um greiðslur á mörghundruð milljarða króna úr vösum íslensks almennings.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur ekki lagt fram neina heildstæða áætlun um hvernig hún hyggst endurreisa íslenskt efnahagskerfi.  Hún býður því miður ekki upp á neinar lausnir sem máli skipta, heldur þvælist bara fyrir.

Höfundur er aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


Ætlar ríkisstjórnin að brjóta eigin lög?

Ríkisstjórn Íslands er í standandi vandræðum.  Hún hefur ekki hugmynd um hvernig hún á leysa Icesave-málið.

Fram til þessa hafa helstu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, því miður tekið málsstað Hollendinga og Breta og talað fyrir honum, í stað þess að sinna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að taka til varna fyrir íslensku þjóðina.  Þau Jóhanna og Steingrímur og samningamenn á þeirra vegum gáfust upp gagnvart öllum kröfum Hollendinga og Breta á hendur íslenskum almenningi.  Það sanna þeir samningar sem þau kynntu í sumar og börðust fyrir að íslenska ríkið gengist í ábyrgðir fyrir.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, er sá eini úr ráðherraliði ríkisstjórnarinnar sem staðið hefur í lappirnar í málinu.

Uppsláttur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag af raunum ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-málsins staðfestir að ríkisstjórnin veit ekkert í hvorn fótinn hún á að stíga.  Yfirlýsingar forsætisráðherra í gær gera það líka.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Jóhönnu að botn verði að fást í Icesave-málið í þessari viku.  Það sem er athyglisverðast í frétt Morgunblaðsins eru eftirfarandi orð sem höfð eru eftir forsætisráðherranum:

,,Nauðsynlegt sé að ríkisstjórnarflokkarnir treysti sér til þess að fara með málið fyrir Alþingi í þeim búningi sem þau séu sátt við með fyrirvara um samþykki þingsins.“

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ríkisstjórn Íslands og forsætisráðherra landsins séu að hugleiða að fallast á kröfur Hollendinga og Breta áður en málið kemur til kasta Alþingis á nýjan leik.

Það er hins vegar ekki hægt að lesa annað út úr orðum forsætisráðherrans að ríkisstjórnin sé að hugleiða að ganga frá og undirrita samkomulag við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu sem ekki rúmast innan þeirra fyrirvara sem lögfestir voru á Alþingi fyrir einungis mánuði síðan.

Og í þeirri von að lögunum um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna verði breytt síðar á Alþingi!

Ef ríkisstjórnin fer þá leið að gefast upp fyrir Bretum og Hollendingum og gera við þá samning sem ekki rúmast innan þeirra laga sem í gildi eru á Íslandi hefur hún gerst sek um lögbrot.

Þá blasir við að ríkisstjórnin hefur brotið gegn lögum sem hún sjálf samþykkti fyrir mánuði síðan.

Slíkt lögbrot verður ekki réttlætt með því að ríkisstjórnin treysti á að Alþingi dragi hana að landi og breyti lögum síðar.  Hún er, eins og allir aðrir, bundin af þeim lögum sem nú eru í gildi landinu.  Undan þeim getur ríkisstjórn ekki vikist, jafnvel þó svo að lögunum kunni að verða breytt í ókominni framtíð.

Þetta sjá allir.

Ef ríkisstjórninn á hinn bóginn ákveður að hrinda þessum hugleiðingum sínum í framkvæmd þá er augljóst að ákvæði laga um ráðherraábyrgð munu koma til alvarlegrar skoðunar.

Sigurður Kári.


Nýr seðlabankastjóri féll á fyrsta prófinu

Már Guðmundsson byrjar ekki feril sinn vel sem bankastjóri Seðlabanka Íslands.  Hann féll á fyrsta prófinu.

Á fimmtudaginn ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að lækka ekki stýrivexti heldur halda þeim óbreyttum í 12%.  Seðlabankinn og nýji bankastórinn hélt við það tækifæri blaðamannafund þar sem bankinn rökstuddi stýrivaxtaákvörðun sína.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði, þegar að hann útskýrði stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans á fimmtudaginn, að litlar líkur væru á því að stýrivextir lækkuðu, krónan næði sér á strik og að gjaldeyrishöftum væri aflétt á meðan að endurskoðun efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri óafgreidd.  Þá sagði seðlabankastjórinn:

,,Þetta hefur því miður strandað á Icesave-málinu, það er alveg rétt að segja það eins og það er, þannig að þeir sem um það véla ættu að hugsa sig tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum áður en þeir taka ákvarðanir um framhald þess máls.“

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og ummæli Más Guðmundssonar bankastjóra eru óskiljanleg.

Í fyrsta lagi er óskiljanlegt að Seðlabanki Íslands skuli ekki lækka stýrivextina.  Í öllum öðrum löndum þar sem efnahagskreppan hefur dunið yfir hafa seðlabankar landanna lækkað stýrivexti myndarlega.  Hér á Íslandi kýs Seðlabanki Íslands að halda stýrivöxtum í hæstu hæðum sem þekkjast.  Stýrivextir hér hafa nú í á þriðja ár staðið í þriggja stafa tölu.  Þeir koma ákaflega hart niður á heimilum og fyrirtækjum landsins og það sér hver maður, a.m.k. utan seðlabankans, að undir svo háum stýrivöxtum getur þjóðfélagið ekki staðið.  Erlendir jöklabréfaeigendur eru þeir einu sem hagnast á háum stýrivöxtum.  Á meðan blæðir þjóðfélaginu út.

Í öðru lagi er óskiljanlegt að að seðlabankastjóri skuli tvinna lausn Icesave-málsins saman við ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum óbreyttum með þeim hætti sem hann gerði.  Með því bankastjóri Seðlabankans að blanda sér í pólitískar deilur og taka pólitíska afstöðu til, og að því er virðist gegn, ákvörðun sem Alþingi Íslendinga hefur þegar tekið.  Embættismenn á borð við seðlabankastjóra ættu að forðast að blanda sér í pólitísk átök með þessum hætti.

Í þriðja lagi er ekki hægt að skilja ummæli seðlabankastjóra öðruvísi en svo að hann sé þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld eigi að gefast upp og fallast á kröfur Hollendinga og Breta í Icesave-málinu, í skiptum fyrir stýrivaxtalækkun frá eigin seðlabanka.  Með því hefur seðlabankastjóri gengið til liðs við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í broddi fylkingar, en þau tvö og samráðherrar þeirra, að Ögmundi Jónassyni, heilbrigðisráðherra frátöldum, hafa allt frá því að Icesave-málið kom til kasta þeirra talað máli Hollendinga og Breta og tekið málstað þeirra í deilunni við Íslendinga.

Slíkt hlutskipti er dapurlegt.

Sigurður Kári.


Vikulokin á morgun, laugardag

Ég verð gestur Hallgríms Thorsteinssonar í þættinum Vikulokin á Rás 1 í fyrramálið milli klukkan 11.00 og 12.00.

Viðmælendur mínir verða Þorvaldur Gylfason, prófessor, Reynir Traustason, ritstjóri DV, og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Sigurður Kári.


Viðskiptablaðið á villigötum

Viðskiptablaðið birtir í dag furðulega úttekt á Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Útektin er birt undir fyrirsögninni ,,Skortir hinn pólitíska sjarma" og í inngangi hennar segir blaðamaður Viðskiptablaðsins, Arna Schram að Bjarna Benediktssyni hafi ekki tekist að stimpla sig inn sem öflugur forystumaður í stjórnmálum.  Jafnframt segir blaðamaðurinn að Bjarni gjaldi þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins að innan hans takist á tveir armar, annar kenndur við Davíð Oddsson en hinn við Geir H. Haarde.  Ennfremur er því haldið fram að enn hafi ekki gróið um heilt milli Bjarna og Kristjáns Þórs Júlíussonar eftir að þeir tókust á um formannsstólinn í Sjálfstæðisflokknum á síðasta ári.

Að mínu mati er úttekt Viðskiptablaðsins afar ósanngjörn í garð formanns Sjálfstæðisflokksins og stenst þegar betur er að gáð enga skoðun.  Í úttektinni skautar blaðamaðurinn býsna léttilega framhjá þeim árangri sem Bjarni Benediktsson hefur náð á þeim skamma tíma sem hann hefur gegnt formennsku.  Auk þess koma í úttektinni fram rangar fullyrðingar sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við.

Í fyrsta lagi er því ranglega haldið fram í úttektinni að ekki sé gróið um heilt milli Bjarna Benediktssonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar eftir að úrslit í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins lágu fyrir.  Þegar þau voru ljós munstraði Kristján sig í áhöfn Bjarna Benediktssonar, eins og hann orðaði það sjálfur í góðri ræðu, og síðan þá hafa þeir tveir unnið saman sem einn maður og af fullum heilindum.  Það vitum við sem vinnum náið með þessum tveimur mönnum.  Það er því fjarstæða að ekki sé gróið um heilt milli þeirra tveggja.

Í öðru lagi virðist sú klisja ætla að verða býsna lífseig meðal íslenskra blaðamanna og álitsgjafa að harðar deilur eigi sér stað milli tveggja arma í Sjálfstæðisflokknum, arma sem kenndir eru við Davíð Oddsson og Geir H. Haarde.  Þeir sem halda slíkum kenningum helst á lofti starfa reyndar fæstir innan Sjálfstæðisflokksins, en það virðist hafa farið framhjá þeim sem mest hafa sig í frammi í umræðunni að þessir tveir menn hafa lokið sínum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Það væri umræðunni um meinta flokkadrætti í Sjálfstæðisflokknum verulega til framdráttar ef þeir sem halda þeim stöðugt á lofti útskýrðu fyrir okkur sem störfum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um hvað þessar deilur eiginlega snúast.

Í þriðja lagi skautar blaðamaðurinn að mínu mati býsna léttilega framhjá þeim árangri sem Bjarni Benediktsson hefur náð á þeim skamma tíma sem hann hefur gengt formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Þegar Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum var fylgi flokksins í sögulegu lágmarki.  Skoðanakannanir sýndu að einungis um 20% þjóðarinnar studdu Sjálfstæðisflokkinn.  Raunar fór fylgi flokksins niður í allt að 18% þegar verst lét.  Niðurstöður síðustu alþingiskosninga voru Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðismönnum vonbrigði, enda fékk flokkurinn einungis 23,8% greiddra atkvæða.

Mikil og jákvæð breyting hefur hins vegar orðið á viðhorfi almennings gagnvart Sjálfstæðisflokknum.  Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú stuðnings 31,6% kjósenda, en til samanburðar má geta þess að fylgi Samfylkingar samkvæmt sömu könnun var 24,1% og fylgi Vinstri grænna 19,8%.

Þetta þýðir að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist um 75,5% frá því að flokkurinn var í sem mestri lægð.  Jafnframt sýnir könnun MMR að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist um ríflega 33% frá síðustu kosningum.

Ég hygg að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismenn allir megi vera býsna sáttir við að svo mikill árangur hafi náðst á ekki lengri tíma.  Og ég efast ekki um annað en að aðrir formenn íslenskra stjórnmálaflokka myndu sætta sig við álíka fylgisaukningu.

Hvort fylgisaukningin hefur eitthvað með pólitískan sjarma eða gera eða eitthvað annað, þá segja þessar tölur sína sögu og talsvert aðra en þá sem Viðskiptablaðið segir í dag.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband