Misheppnuð smjörklípa Jóhönnu

Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í fjölmiðlum í gær.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

"Forsætisráðherra Samfylkingarinnar mistekst smjörklípuaðferðin.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ber Sjálfstæðismönnum það á brýn að hafa rofið trúnað varðandi viðbrögð  Breta og Hollendinga í Icesavemálinu, þá er hún trú gamla máltækinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu. Ekkert getur verið fjær sanni en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi rofið trúnað.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar kölluðu forystumenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund í gær til þess að gera þeim grein fyrir viðbrögðum Hollendinga og Breta við ákvörðun Alþingis varðandi Icesavemálið. Síðar um daginn var Fjárlaganefnd Alþingis einnig kynnt þetta mál.

Í fréttum í gærkvöldi og á vefmiðlum lágu fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem tjáðu sig um málið og lýstu yfir ánægju sinni með viðbrögð breskra og hollenskra stjórnvalda. Í fréttum voru tíunduð einstök efnisatriði sem sögð voru vera úr svari ríkjanna. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa í gær og í dag fjallað efnislega um málið.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tjáði sig ekki um málið efnislega, til þess auðvitað að rjúfa ekki þann trúnað sem óskað hafði verið eftir að viðhafður yrði. Sama var að segja um ályktun Þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem send var út að afloknum fundi í gærkvöldi. 

Umfjöllun Sjálfstæðisflokksins um þetta mál var því í hvívetna þannig fram sett að virtur var sá trúnaður sem um hafði verið beðið. Yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur í fjölmiðlum nú í kvöld eru því í senn ósannar og ómerkilegar.

Forsætisráðherra sagði að þessi atburðarrás yrði til þess að endurskoða þyrfti samskiptin við stjórnarandstöðuna og hélt því síðan fram að meira samráð hefði verið haft af hálfu ríkisstjórnarinnar en dæmi væru um. Þetta er furðulegur málflutningur.

Ríkisstjórnin hefur ekki fylgt þeirri leið samráðs og samstarfs sem hún ræddi um fyrr á árinu. Ríkisstjórnin hefur þvert á móti unnið í anda tilskipana. Ríkisstjórnin hefur helst leitað eftir samstarfi þegar  hún hefur misst stjórn á atburðarrásinni og hefur ekki getað lokið þeim málum sem hún hafði skuldbundið sig til að ljúka. Er Icesavemálið gleggsta dæmið um það.

Yfirlýsingu forsætisráðherra ber hins vegar að túlka sem hótun af hennar hálfu og vísbendingu um að mál verði til lykta leidd með átökum, en ekki samstarfi. Því verður að sjálfsögðu mætt eins og tilefni er til. En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun eftir sem áður vinna af heilndum og málefnalega að þeim úrlausnarefnum sem fyrir liggja með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi."

Það sætir mikilli furðu og algjörlega óásættanlegt að ríkisstjór Íslands skuli halda því fram og beita sér fyrir því að viðbrögðum Breta og Hollendinga skuli haldið leyndum fyrir almenningi í máli sem varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem um getur í sögu hennar.  Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verður að aflétta þeim trúnaði og upplýsa þjóðina um það í hverju viðbrögð Breta og Hollendinga felast.

Það sem síðan enn furðulegra er að Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórn hennar skuli með yfirlýsingum sínum um meintan trúnaðarbrest reyna að gera aukaatriði að aðalatriði í þessu mikilvæga máli.

Ríkisstjórnin á auðvitað að ræða efnislega um inntak viðbragða Hollendinga og Breta og upplýsa í hverju þau felast.  Það er það sem skiptir almenning í landinu máli.

Ekki vangaveltur um það með hvaða hætti fjölmiðlar komust yfir trúnaðarupplýsingar, sem enginn trúnaður ætti að ríkja um.

Sigurður Kári.


Forsætisráðherra, fjölmiðlar og raunveruleikinn

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, skrifaði grein sem slegið var upp á leiðarasíðu Morgunblaðsins á miðvikudag.  Um leið og Hrannar hældi forsætisráðherra sínum á hvert reipi kvartaði hann sáran undan þeirri gagnrýni sem Jóhanna hefur sætt fyrir að hafa látið lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum á þessum miklu umbrotatímum.  Á slíkum tímum sætta hvorki fjölmiðlar né almenningur sig við að forsætisráðherra þjóðarinnar hlaupi í felur líkt og Jóhanna hefur gert, heldur er þess eðlilega krafist að ráðherrann geri skýra grein fyrir því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til þess að leysa úr þeim vanda sem þjóðin glímir nú við.

Sú gagnrýni sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur sætt er ekki frá pólitískum andstæðingum hennar komin.  Hún kemur frá almenningi og fjölmiðlum, ekki síst erlendum fjölmiðlafólki, sem hefur ítrekað líst því opinberlega hversu erfitt sé og allt að því ómögulegt að eiga samskipti við íslenska forsætisráðherrann m.a. vegna álitamála sem varða þjóðarhagsmuni Íslands miklu.  Nægir þar að nefna Icesave-málið og aðildarumsókn Íslands að ESB.

Þó svo að aðstoðarmaður forsætisráðherra haldi því fram í grein sinni að Jóhanna Sigurðardóttir hafi haldið blaðamannafundi þá breytir það ekki því að erlendir fjölmiðlar hafa svo mánuðum skiptir ekki náð nokkru sambandi við forsætisráðherra Íslands.  Með framgöngu sinni hefur Jóhanna Sigurðardóttir, því miður, vanrækt þá skyldu sína sem forsætisráðherra að halda fram málstað Íslands á erlendum vettvangi og tala máli þjóðarinnar þegar að henni er sótt.

Það er algengt að þeir sem vita upp á sig skömmina reyni þeir að koma sökinni yfir aðra.  Í grein Hrannars segir:  ,,Undanfarinn hálfan mánuð hefur ekkert frést af formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Á meðan er endurtekið kvartað yfir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sé ekki nógu sýnileg þótt haldnir hafi verið tveir blaðamannafundir eftir ríkisstjórnarfundi í sl. viku.“

Telji Hrannar B. Arnarsson að málflutningur eins og þessi geri hlut forsætisráðherrans fegurri, þá er það misskilningur.  Hvorki formaður Sjálfstæðisflokks né Framsóknarflokks gegna embætti forsætisráðherra.  Hvorugur þeirra ber ábyrgð á stjórn landsins með sama hætti og forsætisráðherrann Hvorugur þeirra hefur jafn ríka upplýsingaskyldu gagnvart fjölmiðlum og almenningi og Jóhanna.  Hvorugur þeirra hefur vikið sér undan samskiptum við fjölmiðla.  Og formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru ekki talsmenn ríkisstjórnarinnar.  Það hlutverk er á herðum forsætisráðherrans.

Það furðulegasta í grein aðstoðarmanns forsætisráðherra er sú afbragðseinkunn sem hann gefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  ,,Afköst og árangur ríkisstjórnarinnar þennan tíma er án nokkurs vafa meiri en nokkurrar annarrar ríkisstjórnar í lýðveldissögunni.  Verkin hafa verið látin tala frá fyrsta degi.“

Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að aðstoðarmaðurinn standi með sínu fólki og tali máli þeirra sem best hann kann.  En fyrr má nú vera.  Ég leyfi mér að efast um að fólkið í landinu finni fyrir þessum gríðarlegu afköstum og árangri á eigin skinni sem aðstoðarmaður Jóhönnu lýsir svo fjálglega.  Það virðist hafa farið gjörsamlega framhjá nánasta samstarfsmanni hennar að á annan tug þúsunda Íslendinga eru nú án atvinnu.  Laun annarra hafa lækkað, en skattar hafa hækkað.  Gengi krónunnar er hrunið.  Vextir eru hvergi hærri.  Við búum við stórskaðleg gjaldeyrishöft.  Þau fyrirtæki sem ekki eru komin í þrot berjast í bökkum.  Fjölskyldurnar í landinu óttast framtíðina þurfa á öllu sínu að halda til að missa ekki heimili sín á nauðungaruppboð og svo mætti lengi telja.

Ég vona svo sannarlega að forsætisráðherra Íslands sé í betri tengslum við raunveruleikann en aðstoðarmaðurinn hennar bersýnilega er.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Sigurður Kári.


"Maður fylgir sínu liði"

Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sætti fyrir nokkrum misserum mikilli og harðri gagnrýni úr öllum áttum fyrir afstöðu sína til frumvarps Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, um opinbera háskóla.

Því var meðal annars haldið fram að Dagný hefði látið sannfæringu sína lönd og leið og tekið afstöðu með eigin flokki og þeirri ríkisstjórn sem hún studdi í stað þess að fylgja sannfæringu sinni.

Dagný var einkum gagnrýnd fyrir þessi orð sem hún lét falla um málið 12. desember 2004:

,,Það sem mér þótti skrýtið var að stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem hana ritaði virðist ekki gera sér grein fyrir að á þingi eru tvö lið og eins og staðan er núna er ég í stjórnarliðinu.  Í þessu felst enginn hroki, bara staðreynd og maður fylgir sínu liði.“

Það er ekkert nýtt að stjórnmálamenn séu gagnrýndir með þessum hætti og þeir sakaðir um að vera látnir sæta flokksaga eða sagðir þjást af hjarðhegðunarheilkenni.

Einhverra hluta vegna hefur hins vegar minna farið fyrir gagnrýni eins og þessari síðusta misserið þó ærin ástæða hefði verið til þess, svo sem í tengslum við Icesave-málið svo ekki sé minnst á Evrópusambandsmál ríkisstjórnarinnar þar sem hjarðhegðun þingmanna vinstri grænna náði nýjum og áður óþekktum hæðum.  Ég ætla að láta ástæður þess liggja milli hluta að sinni.

En hver er ástæðan fyrir því að ég rifja nú upp þessa gagnrýni sem Dagný Jónsdóttir þurfti að sæta?

Ástæðan er sú að um helgina fór fram landsfundur Borgarahreyfingarinnar þar sem ný og umdeild lög voru samþykkt.  Í þeim lögum er meðal annar kveðið á um það að frambjóðendur hreyfingarinnar skuli skrifa undir heit um að þeir vinni eftir stefnu hennar, eins og hún er samþykkt á landsfundi.  Gangi sannfæring þeirra hins vegar gegn stefnu hreyfingarinnar, skuli félagsfundur Borgarahreyfingarinnar fjalla um hvort viðkomandi skuli víkja sæti við afgreiðslu málsins eða ekki.

Þetta þýðir með öðrum orðum að flokkseigendafélag Borgarahreyfingarinnar fær vald til þess að ákveða hvort kjörnum fulltrúum hennar verði sviptur þeim sjálfsagða rétti fylgja sannfæringu sinni þegar þeir taka afstöðu til einstakra mála eða ekki.

Það sem er merkilegast við þetta mál er að með þessum nýsamþykktu lögum er Borgarahreyfingin að ganga lengst allra stjórnmálaflokka í því festa í sessi flokksræði og flokksaga, stuðla að hjarðhegðun og tryggja skýrara eignarhald flokkseigendafélags hreyfingarinnar en dæmi eru um og fórna í leiðinni sjálfsögðum réttindum kjörinna fulltrúa sinna til þess að taka afstöðu til mála á grundvelli gagnrýninnar hugsunar, sannfæringar og hugsjóna.

Og það sem er einkennilegast við málið allt er að lög þessi skuli samþykkt á landsfundi hreyfingar fólks sem sagðist fyrir kosningar vilja berjast fyrir gjörbreyttum og bættum vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum.

Nýsamþykkt lög Borgarahreyfingarinnar fela vissulega í sér breytingar.  Þær breytingar fela í hins vegar í sér afturhvarf til gamalla tíma sem flestir héldu að væru liðnir.

Þær skylda félagsmenn í Borgarahreyfingunni til þess að fylgja sínu liði, sama hvað á dynur.

Slík lagasetning er ekki til bóta.

Sigurður Kári


Jón og séra Jón

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður, verður ekki skipaður í embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins.

Ástæðan sem dómsmálaráðuneytið ber fyrir sig er ekki sú að Jón Magnússon hafi ekki menntun, þekkingu eða reynslu til að bera til að hljóta skipun í embættið.  Slíkar ástæður getur ráðuneytið ekki borið fyrir sig.

Í bréfi sem dómsmálaráðuneytið sendi umsækjandanum kemur fram að Jón hafi ítrekað tekið til umfjöllunar á heimasíðu sinni málefni tengd bankahruninu og greint frá skoðunum sínum bæði á mönnum og málefnum í þeim mæli að hætt sé við að verulega myndi reyna á álitaefni um sérstakt hæfi hans sem saksóknara í tengslum við þau mál sem embættið hefur til meðferðar yrði hann skipaður.

Það má vel vera að vanhæfisreglur íslenskra laga hefðu komið til skoðunar hefði Jón Magnússon verið skipaður í embætti sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, enda hefur hann sagt skoðanir sínar og gagnrýnt harðlega framferði fyrrum stjórnenda fjármálafyrirtækja og útrásarvíkinga.

En ég spyr:  Hver er munurinn á gagnrýni Jóns Magnússonar, annars vegar, og opinberri gagnrýni Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, hins vegar, á framferði fyrrum stjórnendum fjármálafyrirtækja og útrásarvíkinga sem sú ágæta kona hefur sett fram í innlendum og erlendum fjölmiðlum?

Munurinn er auðvitað enginn.

Sigurður Kári.


9/11

Í dag eru átta ár liðin frá því að gerðar voru hryðjuverkaárásir á Tvíburaturnana í New York og Pentagon í Washington.

Eins og líklega flestir þá man ég hvar ég var staddur þegar ég fékk fréttir af árásunum og fylgdist auðvitað orðlaus eins og aðrir af fréttaflutningi af þeim.

Árasirnar á Tvíburaturnana voru hryllingur.  Ég fór í fyrsta og eina skiptið upp á topp Tvíburaturnanna þegar ég var staddur í New York haustið 1994.  Sú heimsókn er ógleymanleg enda voru mannvirkin svo gríðarlega há og mikilfengleg.  Eftir að hafa skoðað turnana, farið upp í þá, skoðað lestarstöðina undir þeim, mannvirkin í kringum þá og séð allt mannlífið sem umlukti þetta svæði skilur maður líklega enn betur hversu gríðarlega grimmilegar árasirnar þennan dag voru, þó svo að þeim hafi síðar verið gerð afar góð skil í fjölmiðlum.

Áður en árásirnar dundu yfir hafði ég ákveðið að fara í síðbúið sumarfrí til New York borgar meðal annars til þess að heimsækja nokkra vini mína sem stunduðu á þeim tíma í borginni.  Þegar ég kom til New York, þremur vikum eftir árásirnar, skynjaði ég strax að andrúmsloftið í borginni var einstakt.  Bandaríski fáninn var út um allt.  Fjölmiðlar fjölluðu ekki um annað en árásirnar.  Hvað eftir annað gekk ég framhjá kirkjum þar sem verið var að jarðsyngja fórnarlömb árásanna og maður skynjaði vel hversu mikið þessar árásir höfðu þjappað borgarbúum saman.

Ég gleymi því heldur aldrei þegar ég fór niður á Ground Zero til þess að skoða rústirnar sem eftir stóðu.  Það segir sig sjálft að eyðileggingin var gríðarleg.  Mig minnir að einar sex eða sjö byggingar hafi hrunið til viðbótar við Tvíburaturnana sjálfa.  Gluggar í nærliggjandi skýjakjúfum voru mölbrotnir og ryk og drulla umluktu allt umhverfi turnanna.

Út um allt höfðu verið skrifaðar kveðjur á veggi og töflur til þeirra fórnarlamba sem látin voru eða saknað var.  Vinir og ættingjar voru fjölmennir á svæðinu til þess að votta fórnarlömbunum virðingu sína.

Það sem var ekki síst eftirminnilegt á vettvangi árásanna var lyktin í loftinu.  Hún var hræðileg og minnti óþyrmilega á hvað þarna hafði gengið á þremur vikum fyrr.

Sigurður Kári.


Ólafur Ragnar skuldar skýringar

Hvort sem menn eru þeirrar skoðunar að ákvæði stjórnarskrár Íslands heimili forseta Íslands að synja lögum staðfestingar eða ekki er engu að síður ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson forseti þarf að útskýra hvers vegna hann staðfesti nýsamþykkt lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands.

Þær útskýringar sem fram koma í yfirlýsingu Ólafs Ragnars frá því í gær duga ekki.  Raunar er yfirlýsing Ólafs Ragnars illskiljanleg, en þar segir:

,,Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Hvergi í stjórnarskrá er gert ráð fyrir því að forseti Íslands staðfesti lög með ,, sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis“ eða geti bundið staðfestingu sína einhverjum skilyrðum eða fyrirvörum.

Annað hvort staðfestir forseti Íslands lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi eða ekki.  Það er sama hversu oft menn lesa ákvæði stjórnarskrárinnar.  Stjórnarskráin býður ekki upp á neina sýndarmennsku og þar fyrirfinnast engar millileiðir eða millileikir eins og Ólafur Ragnar virðist vera að reyna að leika, að því er virðist til þess að reyna að forðast óvinsældir.

Reyndar er það svo að frá því að stjórnarskráin tók gildi hafa bæði fræðimenn á sviði stjórnlagafræða og stjórnmálamenn, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, talið að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um synjunarvald forseta Íslands væri dauður bókstafur og talið að í þingræðisríki hefði forsetinn ekki heimildir til þess að ganga gegn vilja lýðræðislega kjörins Alþingis.

Látum þá þrætu hins vegar liggja milli hluta í bili.

x x x

Forseti Íslands hefur einu sinni neitað að staðfesta lög sem Alþingi hefur samþykkt.  Það gerði Ólafur Ragnar Grímsson árið 2004 þegar hann neitaði að staðfesta lög um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum, sem í daglegu tali eru nefnd fjölmiðlalögin.  Þá, líkt og nú, sendi Ólafur Ragnar frá sér yfirlýsingu, sem dagsett er 2. júní 2004.  Í henni reyndi Ólafur Ragnar að útskýra þá ákvörðun sína að neita að staðfesta lög sem lýðræðislega kjörið Alþingi hafði samþykkt.

Samkvæmt yfirlýsingunni byggði Ólafur Ragnar synjun sína meðal annars á því að sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar væru hornsteinar lýðræðisins.  Nauðsynlegt væri að lög og reglur sem um þá giltu þjónuðu skýrt markmiðum lýðræðisins og að víðtæk sátt þyrfti að ríkja um slík lög.  Þá hefðu deilur verið harðar um lagagrundvöll fjölmiðlanna sem Alþingi hefði samþykkt og að lagasetning um fjölmiðla þyrfti að styðjast við víðtæka umræðu í samfélaginu og að almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöðu.

Ennfremur sagði Ólafur Ragnar í yfirlýsingu sinni:

,,Því miður hefur skort á samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli.  Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er fasælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.  Slíka gjá þarf að brúa.“

Nú hefur reyndar verið upplýst að ástæður þess að Ólafur Ragnar synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar hafi verið fleiri en þær sem Ólafur Ragnar tiltók í yfirlýsingu sinni hinn 2. júní 2009.  Vefritið Pressan rifjar upp merk ummæli sem birtust í ævisögu Ólafs Ragnars, Saga af forseta, en þar færir Ólafur Ragnar rök fyrir synjuninni sem ekki var að finna í yfirlýsingunni:

,,Mér var orðið ljóst að ástandið heima á Íslandi var ekki alveg með felldu.  Búið var að beygja allar stofnanir ríkisvaldsins meira og minna undir valdhroka í einum manni sem virtist einungis vera að hefja sín á hinum og þessum í þjóðfélaginu sem honum mislíkaði við.  Aldrei var að vita hvar þetta endaði ef forsetinn gripi ekki í taumana.“

Og það stóð ekki á Útrásarforsetanum.  Hann tók til sinna ráða, greip í taumana til þess að koma böndum yfir, að því er virðist einn mann, ,,hinum og þessum í þjóðfélaginu“ til mikillar ánægju.

x x x

Sú fullyrðing Ólafs Ragnars Grímssonar sem fram kemur í yfirlýsingu hans um að frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna hafi verið samþykkt með afgerandi hætti á Alþingi er í besta falli afar umdeilanleg.

Enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar studdi frumvarpið.  Það var samþykkt með atkvæðum 34 stjórnarliða.  Vitað er að allmargir þingmenn stjórnarmeirihlutans, að minnsta kosti úr röðum Vinstri grænna, greiddu frumvarpinu atkvæði sitt með semingi eða óbragð í munni.

Til samanburðar má geta þess að 32 þingmenn greiddu fjölmiðlafrumvarpinu atkvæði sitt.

x x x

Það þarf ekki að koma á óvart að þeir sem voru mótfallnir því að veitt yrði ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi bæru þá von í brjósti að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði nýsamþykktum lögum þar um staðfestingar.  Sú von hlýtur ekki síst að hafa helgast af framgöngu forsetans í fjölmiðlamálinu.

Ólafur Ragnar Grímsson skuldar þessu fólki og í raun þjóðinni allri útskýringar á því hvers vegna hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar en ekki lögunum um ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans.

Það er óþarfi að rökstyðja að Icesave-málið varðaði miklu mikilsverðari þjóðarhagsmuni en fjölmiðlamálið nokkurn tíma gerði.  Það liggur einfaldlega í augum uppi.

Engum sem fylgst hefur með framvindu Icesave-málsins dylst að mikið hefur ,,skort á samhljóminn sem þarf að vera á milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli“, svo vitnað sé til orða Ólafs Ragnars sjálfs í yfirlýsingunni sem hann gaf þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar.

Í fyrrakvöld birti fréttastofa Ríkisútvarpsins niðurstöður skoðanakönnunar Gallup sem sýndu að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna væri andvígur Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar, eða 63%.  Nýlega lét vefritið Vefþjóðviljinn sama fyrirtæki framkvæma fyrir sig skoðanakönnun þar sem viðhorf landsmanna til frumvarpsins var kannað.  Niðurstaða þeirrar könnunar, sem birt var 5. ágúst 2009, sýndi að 67,9% þjóðarinnar væri andvíg frumvarpinu.

Þá er vert að minnast þess að vikum saman hefur fjöldi Íslendinga mótmælt því á torgum um allt land að ríkið veiti ábyrgð á Icesave-samningunum.  Sérfræðingar í lögfræði, hagfræði og almennir borgarar hafa skrifað grein eftir grein í íslensk og erlend dagblöð þar sem frumvarpinu og forsendum þess hefur verið mótmælt.

Um Icesave-frumvarpið hefur aldrei ríkt sú sátt sem Ólafur Ragnar lagði svo ríka áherslu á þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar.  Harðar deilur hafa verið um þann lagagrundvöll sem ríkisábyrgðin byggir ár.  Og því fer fjarri að almenn sátt hefði náðst innan þings og utan um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu og niðurstöðu þess. 

Í ljósi alls þessa hefði forsetinn átt að átta sig á því að ,,ástandið heima á Íslandi var ekki alveg með alveg með felldu“.  Það hefði með réttu átt að renna upp fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni að mikið skorti á samhljóminn og ef nokkurn tímann hefði myndast djúp gjá milli þjóðarvilja og þingvilja, sem brúa þyrfti, þá væri það nú.

Annað hvort virðist Ólafur Ragnar ekki áttað sig á því að slík gjá hefði myndast milli þings og þjóðar í Icesave-málinu eða hann hefur ekki viljað ganga gegn ákvörðun núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs með sama hætti og hann gerði gagnvart ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hver sem ástæðan er stendur nú upp á forsetann að útskýra hvers vegna hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar en ekki frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar um ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands.

Það getur reynst Útrásarforsetanum þrautin þyngri að gefa slíkar útskýringar og þær sem fram koma í yfirlýsingu hans frá því í gær duga ekki.

Komi ekki haldbærar útskýringar frá Ólafi Ragnari er hætt við því að á milli forsetans og þjóðarinnar myndist djúp gjá sem erfitt verður að brúa.

Sigurður Kári.


Liðsstyrkur úr óvæntri átt í Icesave-málinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafa ítrekað og fyrirvaralaust haldið því fram að íslenska ríkinu, og þar með íslenskum almenningi, beri skilyrðislaus skylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands hf. vegna Icesave-reikninganna í Hollandi og Bretlandi.  Af þeirri ástæðu skrifaði ríkisstjórn þeirra undir hina afleitu Icesave-reikninga sem nú eru til umræðu á Alþingi.

Undir skoðanir forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar hafa flestir fylgismenn hennar á Alþingi tekið og nú hefur verið upplýst að þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar veittu formönnum sínum og embættismönnum þeirra heimild til þess að undirrita samningana án þess að hafa lesið þá.

Það hefur verið býsna merkilegt að fylgjast með framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu.  Á öllum stigum málsins hafa þau lagt sig fram um að halda fram málsstað viðsemjenda sinna, Hollendinga og Breta, í stað þess að halda á lofti hagsmunum Íslands og íslensku þjóðarinnar.  Í raun má segja að þessir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi verið erfiðari í samningaviðræðum við stjórnarandstöðuflokkana en hægt hefði verið að ímynda sér að samningamenn Breta og Hollendinga hefðu nokkurn tíma verið.  Svo forhertir hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar verið að þeir hafa vikum og mánuðum saman barist gegn öllum breytingum á þessum afleitu samningum.

Sú harka sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands hafa sýnt í viðleitni sinni til þess að sannfæra þing og þjóð um nauðsyn þess að samþykkja ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna er merkileg í ljósi þess að síðustu daga og vikur hafa komið fram æ fleiri málsvarar sjónarmiða Íslands, svo sem í erlendum þjóðþingum og fjölmiðlum.  Þau sjónarmið hafa Steingrímur og Jóhanna ávallt slegið út af borðinu.

Merkilegra er þó að þegar kafað er ofan í þau sjónarmið sem viðsemjendur Jóhönnu og Steingríms J. hafa sjálfir sett fram um skyldur ríkja til þess að ábyrgjast innistæður á innlánsreikningum samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þá gilda við kerfishrun eins og það sem átti sér stað á Íslandi í október sl.

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem er kollegi og viðsemjandi Steingríms J. Sigfússonar, hélt merka ræðu hinn 3. mars 2009 á ráðstefnu Eymedion Conference.  Í ræðunni fjallaði fjármálaráðherrann um efnislegt inntak og hlutverk evrópskra réttarreglna um innistæðutryggingar, reglnanna sem ríkisstjórnin byggir samþykki ríkisábyrgðarinnar vegna Icesave á.

Í ræðunni sagði Wouter Bos meðal annars:

,,The question is how to achieve this.  First and foremost, European countries need to take a close look at how the deposit guarantee scheme is organised.  It was not designed to deal with a systemic crisis but with the collapse of a single bank.“

Eins og sjá má af ofangreindri tilvitnun í ræðu fjármálaráðherra Hollands, frá því í mars á þessu ári, kemur með afar skýrum hætti fram sú skoðun hans að hið evrópska innlánstryggingakerfi var ekki útbúið í þeim tilgangi að bregðast við kerfishruni bankakerfa, heldur til þess að bregaðst við falli einstakra banka eða fjármálastofnana.

Það má því með sanni segja að með ræðu fjármálaráðherra Hollands hafi Íslendingum borist liðsstyrkur úr óvæntri átt.

Það væri óskandi að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands, hefði kynnt sér þessi sjónarmið kollega síns og viðsemjanda, og hermt þau upp á hann áður en skrifað var undir samningana við Hollendinga og Breta.

Því miður virðist íslenski fjármálaráðherrann ekki hafa gert það, þó ærin ástæða hefði verið til.

Sigurður Kári.


Á Vestfjörðum

Það er býsna langt um liðið síðan ég skrifaði síðast á þessa heimasíðu.  Ég ætlaði mér að taka mér smá frí frá heimasíðuskrifum í byrjun sumars.  Það frí stóð hins vegar lengur en lagt var upp með.


Hins vegar hefur lítið verið um frí í sumar.  Hagir mínir breyttust reyndar umtalsvert eftir Alþingiskosningar en skömmu eftir að þær voru um garð gengnar bauðst mér að gerast aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.  Það frábæra tækifæri tók ég að sjálfsögðu, enda stóð hugur minn þá og stendur enn til þess að starfa á vettvangi stjórnmálanna.


Samstarf okkar Bjarna hefur frá þeim tíma gengið einkar vel eins og það hefur gert allar götur síðan samstarf okkar hófst fyrir mörgum árum, fyrst í lögmennsku, en síðar á Alþingi.  Bjarni Benediktsson hefur alltaf verið ákaflega góður samstarfsmaður og fyrir mig eru það forréttindi að fá tækifæri til þess að starfa áfram í stjórnmálum og svo náið með honum sem formanni Sjálfstæðisflokksins.

x x x

Þetta sumar hefur verið frábrugðið að því leyti að Alþingi hefur verið að störfum nánast sleitulaust í allt sumar.  Slíkt er afar óvenjulegt, en helgast af því nú að ríkisstjórn vinstriflokkanna, Vinstri gænna og Samfylkingarinnar, hefur lagt ofuráherslu á að afgreiða tvö stórmál frá Alþingi, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna, þó bæði þessi mál hafi um langt skeið sætt mikilli andstöðu innan þingflokks Vinstri grænna.

x x x

Af þessum ástæðum hafa flest áform um sumarfrí farið í vaskinn.  Þó náði fjölskyldan að fara í nokkurra daga ferðalag um Vestfirði dagana í kringum Verzlunarmannahelgina.
Það er óhætt að segja að við höfum ekki verið svikin af því ferðalagi, enda eru Vestfirðirnir eitthver fallegasti hluti landsins.  Sjálfur á ég ættir mínar að rekja til Vestfjarða.  Bjarney Guðmundsdóttir, amma mín í föðurætt, er fædd í Hælavík og uppalin Hlöðuvík á Hornströndum.

Á ferðalagi okkar um Vestfirði heimsóttum við meðal annars Heydal við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi.  Það er óhætt að mæla með bændagistingunni hjá henni Stellu í Heydalnum sem tók okkur afar vel.  Þaðan fórum við til Bolungarvíkur með viðkomu í Litlabæ í Skötufirði, á Súðavík og á Ísafirði.  Í Bolungarvík gistum við í tvær nætur, fórum á Bolafjall og keyrðum inn í Skálavík, sem að mínu mati er einn fallegasti staður landsins.  Frá Bolungarvík héldum við til Flateyrar og tókum hús á vinum okkar á Sólbakka.  Þaðan var farið á Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta, gengum upp að Dynjandisfossi á leið okkar til Bíldudals.  Í Bíldudal gistum við í tvær nætur við afar góðan kost og heimsóttum meðal annars Skrýmslasetrið og hið stórmerka tónminjasafn Melódíur minninganna.  Eftir dvölina á Bíldudal heimsóttum við vini okkar á Saurbæ á Rauðasandi, með viðkomu á Patreksfirði, en að því loknu héldum við í Kvígindisfjörð þar sem við djöldum í afar góðu yfirlæti sumarbústað vinafólks okkar.

Það verður enginn svikinn af því að sækja Ísland heim og þá ekki síst Vestfirðina.  Náttúrufegurðin þar er einstök ótrúlega margir merkilegir staðir sem vert er að heimsækja.

Sigurður Kári.


Tökum afstöðu - nýtum kosningaréttinn

Þeir kjósendur sem ætla sér að sitja heima eða skila auðum atkvæðaseðli í komandi alþingiskosningum eru í raun að lýsa yfir stuðningi við vinstriöflin í landinu, þ.e. ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Með því að nýta ekki kosningarétt sinn eru kjósendur að tryggja og treysta völd vinstriflokkanna til næstu fjögurra ára.

Verði niðurstaðan sú að vinstriflokkarnir fái styrk til að mynda tveggja flokka ríkisstjórn er framtíðin ekki björt fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Laun verða lækkuð. Skattar verða hækkaðir á allan almenning, jafnt launafólk sem lífeyrisþega. Atvinnulífið mun ekki ná sér á strik og atvinnuleysi verður viðvarandi.

Í komandi kosningum verður kosið um framtíðina og þau stefnumál sem stjórnmálaflokkarnir hafa teflt fram. Fortíðin er liðin. Þeir sem vilja gera upp við hana með því að skila auðu eða sitja heima munu einungis tryggja að íslenskir vinstrimenn muni koma þeim stefnumálum til framkvæmda sem hér hefur verið lýst.

Ég trúi því ekki að sjálfstæðismenn séu reiðubúnir til þess að veita þeim brautargengi með þeim hætti.

Ég skora á alla kjósendur að taka afstöðu og nýta kosningarétt sinn.

Höfundur er alþingismaður og skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


952 milljóna styrkir - tveimur dögum fyrir kosningar!

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, ákvað í gær að úthluta 952 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til ýmissa verkefna.

Haft var eftir ráðherranum að styrkjaúthlutunin tengdist ekki alþingiskosningunum sem fram fara á morgun.

Trúir þessu einhver?

Ætlast ráðherrann og frambjóðandinn virkilega til þess að almenningur sjái ekki í gegnum það með hvaða hætti hún misbeitir aðstöðu sinni?

Þeir sem fengu styrki úr hendi ráðherrans eru örugglega vel að þeim komnir og málefnin brýn.

Ég efast hins vegar um að styrkþegarnir muni láta Samfylkinguna gjalda þess að frambjóðandi úr þeirra röðum veitti þá, tveimur dögum fyrir kosningar.

Það ættu skattgreiðendur hins vegar að gera, því þeir borga brúsann.

Skattgreiðendur greiddu þessar 952 milljónir og þeir ættu að láta Samfylkinguna gjalda þess að nýta opinbera fjármuni með þessum hætti í þágu eigin kosningabaráttu.

Sigurður Kári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband